Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Erindi: Nóbelsverðlaun í læknisfræði 2008

Þeir sem vilja fræðast meira um nóbelsverðlaunin í læknisfræði geta lagt leið sína upp á Keldur í hádeginu á morgun og hlýtt á Valgerði Andrésdóttur gera þeim skil. Valgerður hefur stundað rannsóknir á mæði-visnu veirunni um árabil, en sú veira hefur verið notuð sem líkan fyrir rannsóknir á HIV, vegna þess hversu skyldar þær eru. Tilkynningin í heild sinni birtist á heimasíðu Háskóla Íslands. Hluti af tilkynningu birtist hér að neðan:

Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2008 voru veitt fyrir uppgötvanir og rannsóknir á tveimur veirum sem valda alvarlegum sjúkdómum í mönnum.Helmingur verðlaunanna féll í skaut Harald zur Hausen við Háskólann í Dusseldorf í Þýskalandi, sem uppgötvaði þátt vörtuveiru (human papilloma virus; HPV) í leghálskrabbameini. Francoise Barré-Sinoussi og Luc Montagnier við Pasteur stofnunina og Parísarháskóla skipta með sér hinum helmingi verðlaunanna. Þau voru fyrst til að einangra og skilgreina HIV veiruna sem veldur alnæmi.


Meinfyndni - varúð

Mein er best út rekið með meinfyndni. Drungalegir markaðir og kafsigldir bankar hafa getið af sér helling af góðum bröndurum. Viðfangsefni gaursins eru lauslega tengd þeim veruleika og losnar fyrir vikið úr viðjum tímans. Gaurinn er nafnlaus en sjúkt skopskyn hans á skilið nokkrar mínútur af ykkar dýrmæta tíma. Hér reynir hann að segja samstarfsfólki sínu að hann sé að fara í frí.

Ah, autumn. It's one of my favorite seasons. And perhaps my favorite part of fall is walking around on a crisp day and smelling the soothing scent of burning leaves mixed with the aroma of roasting tumors that have been removed from my lungs as a result of breathing in so much burning leaf smoke. ...

Og síðan kemur gröftur í sýkinguna...lesið áfram. Hef ekki kynnt tilkynningar fárgeðsjúka ritarans áður (Depart-mental announcements) en þær fá mann til að brosa með líffærum sem maður vissi ekki að gætu geiflað sig. Mæli sérstaklega með færslu um prentara undir "Highlights" (það er til aflestrar ekki eftirbreytni...skýrist að sjálfu sér!).


Ótti og græðgi

Tvær sterkar tilfinningar sem takast á í flestum einstaklingum þessa dagana. Afleiðingarnar eru sérstaklega afdrifaríkar í kauphöllum heimsins.

Hér höfum við aðallega fjallað um erfðir og frumur en viljum nú leggja baunir vorar í balann, mest til eigin sáluhjálpar.

Græðgi er sterk tilfinning djúpgreypt í mannverur, við rífum leikfang af systkynum okkar sem börn, keppum við samstúdenta um verðlaun og vinsældir, og leggjum okkur eftir því að fá almennilegan pening fyrir vinnu eða fjárfestingu.

Ótti er einnig sterkari tilfinning, og knýr fólk oft til aðgerða sem það hefði betur sleppt (kaupa, selja, fara í Kastljós, o.s.frv.). Og ótti smitast í hóp, og jafnvel þeir sem vita betur missa tiltrúnna og hlaupa fram af bjarginu með hinum læmingjunum.

Daniel Kahneman og Amos Tversky könnuðu þessar tvær tilfinningar og komst að því að óttinn er græðginni yfirsterkari. Þeir settu upp tvær tilraunir.

Stúdentar voru gefnir tveir kostir, 1) að fá $3,000 eða 2) hafa 80% líkur á að vinna $4,000 (þá voru 20% líkur á að vinna ekkert!). Flestir nemendur tóku örugga kostinn $3,000.

Öðrum hópi stúdenta voru gefnir aðrir kostir, 1) að tapa $3,000 eða 2) að tapa $4,000 með 80% likum (Þannig að það voru 20 percent líkur á að tapa engu). Í þessu tilfelli voru fleiri sem völdu áhættusamari kostinn.

Með orðum Vikas Bajaj í New York Times "fólk er tilbúið að taka meiri áhættu í þeirri von að varðveita peninga en til að græða". (á frummálinu "In other words, they were willing to take a bigger risk to avoid losing money than they were when they stood to make more money.")

Þetta hlýtur að vera kennt í öllum í viðskipta og hagfræðinámi, en samt virðist ótti og taugaveiklun einkenna alla hegðun í Kauphöllunum og bankaráðunum. 

Ætli sé ekki mikilvægast að halda ró sinni og yfirvinna flóttaviðbragðið. Maður getur í versta falli safnað grænmetisfræi og útsæði fyrir næsta vor og byggt kofa fyrir hænsni í bakgarðinum. Og undirbúið lögsókn gagnvart bankastjórnum.

Hér var stuðst við grein í New York times og samatekt um "Prospect theory".


Erindi: Lífríki og jarðfræði Galapagos

Klukkan 20 í kvöld, fimmtudaginn 9 október verður spennandi erindi og myndasýning um Galapagos eyjaklasann í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Bæði jarðfræði þeirra og lífríki eru mjög forvitnileg. Darwin heimsótti á eyjarnar í heimssiglingu sinni á Hvutta "Beagle". Sýni sem hann safnaði á eyjunum sýndu glöggt hvernig upprunalegir landnemar frá meginlandinu (Ekvador) höfðu aðlagast mismunandi aðstæðum á eyjum klasans. Sjá frekari upplýsingar í fréttatilkynningu:

Ekvador–Galapagos: Náttúru, nýting, menning
Fræðslukvöld í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, fimmtudag 9. október kl. 20.

Fimmtudagskvöldið 9. október verður boðið upp á kynningu og fræðslu í Salnum þar sem fjallað verður í máli og myndum um náttúru og menningu Ekvador. Áhersla verður lögð á málefni sem tengjast ferðamennsku. Hér gefst kjörið tækifæri til að kynnast þessu töfrandi landi við miðbaug, einstæðum náttúruminjum og forvitnilegum ferðaslóðum.

Framsögumenn eru sérfróðir hver á sínu sviði og munu gera grein fyrir jarðfræði, lífríki og ferðaþjónustu jafnt í Ekvador sem á Galapagoseyjum.

Dagskrá kvöldsins:

Kl. 20:00 Oswaldo Munoz, ræðismaður Íslands í Ekvador.
Ecotourism and national parks in Ecuador – Conservation as if humans mattered (Vistvæn ferðamennska og þjóðgarðar í Ekvador – sambýli manns og náttúru).

Kl. 20:20 Ari Trausti Guðmundsson, rithöfundur og jarðeðlisfræðingur.
Galapagos og Ekvador: Suður-Ameríka í hnotskurn.

Kl. 20:40 Hafdís Hanna Ægisdóttir, líffræðingur.
Galapagoseyjar – undraveröld á krossgötum.

Kl. 21:00 Heimildarmynd eftir Þorvarð Björgúlfsson, Ara Trausta Guðmundsson og Konráð Gylfason. Ævintýralandið Ekvador – náttúruparadísin Galapagos.
 


Ljómandi verðlaun

Sem líffræðingi finnst mér gaman að sjá nóbelsverðlaun í efnafræði vera veitta fyrir GFP*. Græna flúorljómandi prótín var einangrað úr marglyttu en síðan var sýnt fram á að það ljómar ef orkuríkum geislum er varpað á það. Þessi eiginleiki hefur verið nýttur í rannsóknum í líffræði og læknisfræði, til að skoða staðsetningu prótína, flutning, virkni og jafnvel lita heilar taugar.

Mynd fengin af vefsíðu Marc Zimmers við Connecticut college.

Oddur Vihelmsson gerði það sem mbl.is hefði átt að gera og útskýrði eiginleika prótínsins og notagildi (sjá einnig frétt BBC um verðlaunin).

Ég hélt að mbl.is gæti ekki gert Nóbelnum lítilfjörlegri skil en með frétt um verðlaunin í læknisfræði (frétt og athugasemd) en hér er markið sett enn lægra. T.d. eru einungis tveir verðlaunahafarnir bandaríkjamenn, sá þriðji Osamu Shimomura er japanskur. Þótt frétt vísis.is sé ekki ítarleg er hún þessu hálfkveðna vísubroti skárri. Í því samhengi er rétt að lyfta hatti fyrir fréttablaðinu fyrir ítarlega umfjöllun um Nóbelsverðlaunin í læknisfræði í þriðjudagsblaðinu (því miður er sú umfjöllun ekki aðgengileg á netinu).

*Efnafræðingar eru örugglega bonsúrir fyrir þessa útvötnun á verðlaunum.


mbl.is Þrír Bandaríkjamenn fá efnafræðinóbelinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin mikla

Í gegnum tíðina hafa konungar, þjóðríki, stefnur, stórskáld og poppstjörnur risið og fallið í duftið en einni spurningu er enn ósvarað. Hver er uppruni lífsins? Fólk á flestum tímaskeiðum hefur átt við þessa spurningu á einn eða annan hátt og af misjafnlega mikilli alvöru. "Leitin að uppruna lífs" er titill bókar eftir Guðmund Eggertsson, heiðursprófessors í erfðafræði við Háskóla Íslands. Um er að ræða 198 auðlesnar blaðsíður sem rekja þróun hugmynda um uppruna lífsins frá  grikkjum til nútímamanna.

Leit að uppruna lífs getur náttúrulega af sér fleiri spurningar.

Hvað er líf?

Urðu frumur og líf til á sama tíma? 

Kom lífið úr geimnum?

Guðmundur hefur velt slíkum spurningum fyrir sér og er afskaplega vel til þess fallinn að miðla þeim til íslendinga. Ég verð að játa að hafa einungis lesið fyrstu 2 kaflanna, en mun gera efni bókarinnar betri skil þegar lestri lýkur (og auðvitað benda lesendum á ritdóma þegar þeir birtast). Á grundvelli fyrstu tveggja kaflanna get ég eindregið mælt með snaggaralegri bók um leitinni miklu


Nóbelsverðlaun í veirufræði

Greint hefur verið frá því að veirufræðingarnir Harald zur Hausen, Luc Montagnier og Françoise Barré-Sinoussi hafi fengið Nóbelsverðlaun í læknisfræði 2008. zur Hausen sýndi fram á að mannavörtuveiran (Human Papilloma Virus - HPV) eykur líkurnar á leghálskrabbameini. Nánar má fræðast um leghálskrabba og veiruna á vísindavefnum.

Hinir verðlaunahafarnir skilgreindu alnæmisveiruna (human immunodeficiency virus - HIV) sem veldur sjúkdómnum alnæmi (einnig kallaður því óvinalega nafni eyðni) (sjá vísindavef og www.aids.is). Skilgreining á eiginileikum HIV og samspili hennar við ónæmiskerfið hefur verið lykillinn að þróun lyfja gegn veirunni. Þótt engin lækning sé til og bóluefni virki ekki (vegna hraðrar þróunar veirunnar) þá hafa líf- og læknavísindin fundið nokkrar leiðir til að draga úr fjölgun veirunnar og hægja á sjúkdómnum.

Listi yfir nóbelsverðlaunahafa í læknisfræði sýnir að verðlaunin eru veitt líffræðingum og læknum jöfnum höndum, bæði fyrir grundvallar uppgötvarnir eins og genastjórn í þroskun og stýrðan frumudauða, þróun aðferða til að erfðabreyta músum og fyrir að skilgreina hlutverk baktería í sjúkdómum (sjá síðu nobelprize.org).

Við höfum áður reytt hár okkar og skegglýju yfir döprum vinnubrögðum á mbl.is en nú keyrir um þverbak. Úr fréttastúfnum:

"Barré-Sinoussi og Montagnier fyrir uppgötvun á vírus sem veldur ónæmisbresti. "

Hversu illa er viðkomandi að sér að vita ekki um HIV og alnæmi? Bæði HIV og HPV eru veirur sem sýkjast með kynmökum, og spurning er hvort að fréttablókin sé orðin kynþroska, eða nógu þroskuð til að muna grundvallaratriði kynfræðslunar?

Ég skora á mbl.is gera nóbelsverðlaununum betri skil!


mbl.is Þrír deila Nóbelsverðlaunum í læknisfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef maður hefði sundmaga?

...væri mögulegt að maður hefði pantophysin (einnig kallað Pan1)? Og ef sum okkar gætu kafað niður á 400 metra en önnur "einungis" 50 metra dýpi, er frekar líklegt að það tengist breytileika í Pan1 geninu.

Þar sem fæst okkar eru fiskar neyddist Ubaldo Benitez Hernandez til að rannsaka alvöru þorska. Hann sá að gerð B af pan1 geninu er ríkjandi djúphafi (80%) en minnkar hratt þegar nær dregur yfirborði. Í efstu 25 metrunum er tíðni B milli 5 og 15% (smá munur eftir árstíma). Líklegast eru gerðirnar náttúrulega aðlagaðar að mismunandi dýpi, og sú staðreynd að Pan1 starfar í sundmaganum styður þá tilgátu. Ubaldo mun verja meistararitgerð um rannsókn sína föstudaginn 3 október, kl 14:00 í stofu 132 í Öskju.

Í dag, fimmtudaginn 2 október mun samstúdent Ubaldos, Svava Ingimarsdóttir einnig verja sitt verkefni. Hún rannsakaði stofnbyggingu karfa í Norður-Atlantshafi, og hennar helsta niðurstaða er að tegundirnar gullkarfi og djúpkarfi eru frekar illa aðskildar. Þetta ályktar hún út frá breytileika í erfðamengi hvatbera þeirra, þar sem þeir eiga margar stökkbreytingar sameiginlegar. Gull og djúpkarfi eru hins vegar greinilega aðskildir frá litla karfa, og er áætlað að hóparnir hafi aðskilist fyrirum 700.000 árum. Erindi Svövu er kl 14:00 í Lögbergi.

Lilja Stefánsdóttir mun síðan verja sitt verkefni mánudaginn 6 október (kl 16:00 í stofu 132 í Öskju). Hún rannsakaði fjölbreytileika og stofngerð botnfiska við Ísland yfir 11 ára tímabil. Einnig athugaði hún hvaða umhverfisbreytur hefðu áhrif á samsetningu stofna í hafinu. T.d. hefur hitastig áhrif á stofngerð, og einnig hvort að tegundum sé að fækka eða fjölga í hafinu við Ísland (e.t.v. vegna loftslagsbreytinga)?

Starfsmaður á kynningarsviði Háskóla Íslands sagði eitt sinn að fréttir hérlendis væru slorugar, í þeim skilningi að tíðindi af fiski ná athygli af fréttamanna. Fiskurinn skiptir enn máli fyrir þjóðarbúið, en fréttirnar snúast um banka og aura.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband