Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Mildari en áður var talið

Viðvörun: Ég reyni yfirleitt að hafa pistlana stutta og markvissa en kaus nú að setja nokkra punkta saman í einn langhund.

Greint var frá því nú í vikunni að dánartíðni af völdum H1N1 (svínaflensu) er lægri en talið var (um 26 af hverjum 100000 sem sýkjast deyja). Þetta er lægra en talið var.

Svínaflensan hefur náð athygli fréttamanna og þar af leiðandi fólks. Það hefur gætt ákveðinnar hjarðhugsunar hjá blaðamönnum, þeir tína upp allar fréttir af svínaflensu, því ýktari því prentvænni.

Þetta er greinilega veikleiki fjölmiðlunar. Annað birtingarform er ofuráhersla á losun kolefnis í umræðu um umhverfismál (í umhverfismálum skipta vígstöðvarnar  þúsundum, frá verndun óspilltrar nátturu, vatnsvernd, rykmengun, endurvinnslu, verndun sjávar, losun ósoneyðandi efna o.frv.). Því miður er það eðli frétta (eða eðli fólks) að slæmar fréttir ferðast víðar en góðar fréttir. Það gildir einu hvort fréttirnar séu rangar eða réttar. Nýlegt dæmi um slæma frétt sem reyndist röng var sú fullyrðing the Sunday Express að bólsetning við HPV hefði leitt til krabbameins (Jabs “as bad as the cancer”). Sú frétt var bull, en leiðréttingin fékk ekki nærri jafn mikla lesningu og upprunalega slæma fréttin (And now, nerd news).

Hér höfum við rætt líffræði H1N1 veirunnar, (t.d. mikilvægi þess að rannsaka nýjar pestir Svínahvað og hróp um úlf, Fljúgandi píanó veiran), og þróun veirunnar, sem MUN breytast vegna stökkbreytinga (Ó nei stökkbreyting) og aðlagast mannkyninu (líklegast er að veiran verði vægari eftir því sem á líður). Inflúensu veirur stunda nefnilega einhvers konar kynæxlun, þegar tvær útgáfur af veirunni sýkja sömu frumur getur orðið endurröðun á erfðaefni og nýjar samsetningar orðið ti. Víkjum aftur að líffræði H1Ni síðar.

Svínaflensan hefur einnig náð athygli fólks sem hefur efasemdir um notagildi bólusetninga almennt, þeirra sem halda að veirur séu framleiddar af lyfjafyrirtækjum, manna sem efast um hefðbundin læknavísindi í heild sinni og fólks sem trúir því að bandaríkjaher vilji setja örflögur inní fólk og fylgjast með því. Hér skal tekið fram að þetta er misleitur hópur, t.d. eru samsæriskenningarnar margvíslegar og fjölbreyttar (sjá t.d. athugasemdir við Bólusetningamýtur á visindin.is).

Sumir víla ekki fyrir sér að hvetja aðra til að bólusetja ekki börnin sín. Þetta virkar á mig sem "AIDS-denialism" sem Thabo Mbeki predikaði í Suður-Afríku (forseti landsins trúði því ekki að HIV veiran ylli alnæmi og sannfærði fólk um að hætta á lyfjum, sem er talið hafa leitt til dauða 300000 manns).

En inn á milli leynast góðir punktar. Í athugasemdum við Bólusetningamýtur á visindin.is var Magus að velta fyrir sér samsæriskenningu:

Nu gaetu sumir haldid ad thad gaeti verid haettulegt ad throa virusa til ad finna boluefni gegn theim. -Gaeti ekki ordid slys og virusanrnir sloppid og valdid faraldri? (Eins og hefdi getad gerst med Baxter i fyrra).......Med thad i huga, tha nefni eg ad Miltisbrandsfaraldurinn  i Bna 2001 gerdist einmitt thannig....slapp af herstod hja theim.

SKildirdu thu ekki hvad eg er ad fara? Fyrst eru virusarnir hannadir, og stuttu seinna haetta a faraldri....

Við skiptumst á nokkrum athugasemdum, ég svaraði meðal annars

Ég held að við deilum tortryggni á starfsemi stórra fyrirtækja, en ég er samt ekki tilbúinn að gleypa allar tilgátur um samsæri sem stungið er upp á.

....

Fyrirtækin og vísindamennirnir sem þróa bóluefni er í stanslausu vígbúnaðarkapphlaupi við veirurnar. Þú veist ekki hvaða stökkbreytingar verða á veirunni, eða hvort einhverjar gerðir endurraðist og myndi nýjar útgáfur (eins og svínaflensuveiruna).

Fyrirtækin verða því að vera á nálunum, safna veirum inn á tilraunastofuna og fylgjast náið með nýjum veirum sem koma upp.

Það er hægt að rekja uppruna veira með því að skoða erfðabreytileika í þeim og stundum mun í fjölda gena. 

Ég hef aldrei séð nein gögn sem sýna að svínaflensan sé upprunin á tilraunastofu.

Þá benti Magus mér á grein sem miðaði að því að meta tilgátur um uppruna H1N1. 

From where did the 2009 'swine-origin' influenza A virus (H1N1) emerge? Adrian J Gibbs , John S Armstrong and Jean C Downie Virology Journal 2009, 6:207doi:10.1186/1743-422X-6-207 Published: 24 November 2009 Abstract (provisional)

1743-422x-6-207-2.jpg Gibbs og félagar skoða gen svínaflensuveirunnar og bera saman við raðir sem finnast í gagnagrunnum. Þeir byggja sem sagt þróunartré fyrir hina mismunandi hluta erfðamengisveirunnar (sjá t.d. mynd hér til hliðar - Mynd 1 í greininni).

Þeir ræða nokkrar tilgátur um uppruna veirunnar, i) að þær séu afurð endurröðunar þriggja veira í nátturunni og ii) að veiran hafi orðið til á tilraunastofu og sloppið út. Með orðum Gibb og félaga...

Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja er ekki mögulegt að skilja á milli þessara tilgáta. Það eru nokkur dæmi um að veirur sleppi út af tilraunastofum, og það er mýmörg dæmi um veirur sem verða til náttúrulega.

Two contrasting possibilities have been described and discussed in this commentary, but more data are needed to distinguish between them. It would be especially valuable to have gene sequences of isolates filling the time and phylogenetic gap between those of S-OIV and those closest to it. 

Dómurinn er semsagt ennþá úti varðandi uppruna H1N1. Mér finnst ólíklegt að veiran hafi orðið til á tilraunastofu, og sérstaklega ólíklegt að eitthvað fyriræki hafi hannað veiruna og sleppt henni síðan í gróðaskyni. 

Það hlýtur að vera erfitt fyrir leikmenn að greina á milli raunverulegra og mistúlkaðra pistla og athugasemda í bloggi, á fésbókinni eða Twitter. Þess vegna skiptir máli að kenna vísindalæsi, og að fréttamiðlar ráði fólk sem kann að miðla ekki bara niðurstöðum vísindarannsókna heldur sem kynni fólk einnig fyrir aðferð og heimspeki vísinda. Fréttamiðlar sem standa sig vel á þessi svið ávinna sér traust og fólk getur leitað til þeirra um áreiðanlegar upplýsingar.

Þekkingarleitin er meiriháttar ævintýri, á slóðir hins ókunna og framandi, og aðferð vísinda hjálpar okkur að vega og meta tilgátur og útskýringar á fyrirbærum...eins og uppruna H1N1.

Ítarefni

Sarah Boseley Swine flu pandemic 'less lethal than expected' the Guardian 10. des. 2009.

Sarah Boseley Mbeki Aids denial 'caused 300,000 deaths' the Guardian 26. nóv. 2009

www.badscience.net


mbl.is Bólusett á ný í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti Darwin dagurinn

Haustið 2009 efndum við* til Darwin daganna 2009. Um var að ræða röð fyrirlestra um þróun lífsins, Charles Darwin, fjölbreytileika lífsins, uppruna þess og sögu jarðar.

DarwinVeggspjald

Tilefnið er sú staðreynd að árið 2009 eru 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár síðan Uppruni tegundanna kom út.

Meðal fyrirlesara voru Peter og Rosemary Grant sem hafa rannsakað finkurnar á Galapagos, Joe Cain sem fjallaði um rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins og Linda Partridge sem fjallaði um hina nýja líffræði öldrunar.

Einnig fluttu margir innlendir vísindamenn erindi, hvert öðru skemmtilegra. Það fer að styttast í tilfinningaflauminn, óhjákvæmilegur þegar lokað er á skemmtilega kafla, en hann verður að bíða til sunnudags.

Síðasti fyrirlesturinn í röðinni verður nefnilega næstkomandi laugardag 12. desember (kl 13 í Öskju, náttúrufræðhúsi HÍ).

Snæbjörn Pálsson mun fjalla um ráðgátuna um þróun kynæxlunar.

Lífverur sem stunda kynæxlun senda bara helming af erfðaefni sínu í hvert afkvæmi, á meðan lífverur sem stunda kynlausa æxlun senda afrit af öllu sínu erfðaefni í hvert afkvæmi.

Ef þú fjárfestir jafn mikið í hverju afkvæmi þá virðist það vera "þróunarfræðileg heimska" að æxlast með kynæxlun.

Samt sem áður er kynæxlun ríkjandi form fjölgunar meðal heilkjörnunga (bakteríur eru ekki til umræðu hér, þær eru sér kapituli), og tegundir sem leggja stund á kynlausa æxlun virðast ekki endast í þróunarsögunni (þær deyja frekar út en tegundir sem ástunda kynæxlun).

Snæbjörn mun ljúka Darwin dögunum 2009 með því að leysa ráðgátuna um kynæxlun í eitt skipti fyrir öll.

* Við erum Arnar Pálsson, Bjarni K. Kristjánsson, Guðbjörg Á. Ólafsdóttir, Hafdís H. Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steindór J. Erlingsson. Við nutum ráðgjafar Einars Árnasonar og Sigurðar S. Snorrasonar.

Mynd er af plakati Darwin daganna 2009, hannað af Bjadddna Helgasyni.


Torfa fiskifræðinga

Í dag (fimmtudaginn 11. des. 2009) er fundur um líffræði þorsksins, í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Joanne Morgan mun ræða um breytileika í þorskstofnum við Nýfundnaland (Variation within populations of cod in the Newfoundland regio)

Mikko Heino fjallar um lífsöguþætti þorsksins við strendur Noregs (Life history variation in Atlantic cod along the Norwegian coast)

Ulf Dieckmann segir að þróunarfræðilega víddin hafi verið vanmetin í nútíma fiskifræði (The overlooked evolutionary dimension of modern fisheries)

Einnig munu flytja erindi Guðrún Marteinsdóttir, Einar Árnason, Christophe Pampoulie, Jónas Páll Jónasson, Tim Grabowski, Bruce McAdam, Klara Jakobsdóttir og nýbakaði  meistarinn Lísa Anne Libungan

Sjá dagskrá á vefsíðu marice.is,  einnig Allt vaðandi í fiski.... og spá Einars um hrun fiskirís.


Evolution of sex

Af hverju stunda lífverur kynæxlun?

Kynæxlun virðist verri kostur en kynlaus æxlun.

1) Lífverur sem stunda kynæxlun ná bara að senda helming erfðaefnis síns í hvert afkvæmi, verur sem stunda kynlausa æxlun senda afrit af öllu sínu erfðaefni í hvert afkvæmi.

Þetta er helmings munur í hæfni. Þróunarfræðin sýnir okkur að jafnvel smávægilegur munur í hæfni dugir fyrir náttúrulegt val. Hvers vegna í ósköpunum burðast flestir heilkjörnungar með kynæxlun, sem er helmingi lélegri en kynlaus æxlun?

Tvö önnur atriði mæla einnig gegn kynæxlun.

2) Það þarf bara einn einstakling fyrir kynlausa æxlun á meðan lífverur sem stunda kynæxlun þurfa að finna maka og allt það vesen.

3) Lífverur sem stunda kynæxlun eru berskjaldaðar fyrir kynsjúkdómum (og öðrum sýklum eins og t.d. stökklum).

Ein af ráðgátum líffræðinnar er, hvers vegna er kynæxlun svona algeng?

Hvernig stendur ... á því að kynæxlun er mun útbreiddari en kynlaus æxlun og að tegundir sem stunda kynlausa æxlun verða ekki þróunarlega gamlar?

Margir hafa tekist á við þessa ráðgátu, en John Maynard Smith gerði henni sérstaklega góð skil í bók sinni um þróun kynæxlunar (The evolution of sex) sem kom út 1978.

Enska orðið fyrir kynæxlun (sex) þýðir einnig kynlíf sem gefur kost á ákveðinni tvíræðni. Ég ruglaði þessu tvennu saman í hreinni fávisku í samdrykkju líffræðinema og heimspekinema fyrir nokkrum árum (umræðuefnið var klónun). Það er ágætt að láta leiðrétta sig; að roðna og finnast maður vera vitlaus er sérstaklega notalegt.

Snæbjörn Pálsson um kynna ráðgátuna og þær tilgátur sem líffræðingar hafa sett fram til að útskýra hana í fyrirlestri 12 desember næstkomandi. Það verður lokahnykkur Darwin daganna 2009.

Ítarefni:

PBS vefsíða um þróun og kynæxlun

Minningargrein í the Guardian um John Maynard Smith


Vísindin eða biblían

Félagslegi þátturinn er stórlega vanmetinn í rannsóknum á andlegri líðan og líkamlega ástandi dýra og manna. Rannsóknin sem hér um ræðir er vitanlega byggð á rottum, og grunnforsendan er sú að rottur og menn eru skyldar lífverur og þar af leiðir, getum við notað rottur sem líkön fyrir mannasjúkdóma.

Hugmyndin um þróun vegna náttúrulegs vals komin frá Darwin og Wallace, og hún hjálpar okkur bæði að skilja sameiginlega líffræði tegunda og einnig muninn á milli þeirra. Tegundir sem búa nálægt miðbaug þurfa ekki að takast á við sama umhverfi og þær sem búa við heimskautin. 

Hluti af þeim sjúkdómum sem er að hrella norður evrópubúa getur verið arfleið sögu forfeðra okkar, sem þurftu að lifa við erfiðar aðstæður á norðurhjara. 

Þá hefur örugglega verið gott að hafa félagsskap.

Mannapar, að undanskildum órangútan-öpum, eru allir félagslífverur. Það þýðir að við dveljum lengstum í hópum, 20-100 dýra hópum, en erum sjaldan ein á flakki.  Undantekningarnar eru reyndar ung dýr (menn) sem oft fara á flakk og leita að nýjum hópum-félagsskap. Slík ævintýramennska (eða ævintýra-apska) gæti reyndar verið hagstæð, því hún dregur úr líkunum á innrækt. Kynæxlun milli óskyldra einstaklinga dregur úr innrækt.

Það hefur ekki verið markmiðið með þessu bloggi að munnhöggvast við krossfara eða aðra trúarpostula (leitið frekar til KT eða drekans). En af gefnu tilefni.

Þótt einstaka setningar í trúartextum hafi sannleiksgildi, þýðir það ekki að trúartextarnir í heild sinni séu sannir.

Vísindin eru mun gagnlegri leið en biblíulestur til að komast að sannleikanum um orsakir sjúkdóma, líffræði mannsins og fall epla til jarðar.
mbl.is Einsemd eykur líkur á krabba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brekkubobbar í Mýrdal

Mýrdalurinn er einstakur, fjaran, hamrarnir og Reynisdrangar, Katla hulin jökli gnæfir yfir öllu.

mynd%2012Mynd af vefnum www.vik.is, tekin af Jónasi Erlendssyni.

Skemmtilegasta námsferð sem ég fór í meðan á líffræðináminu stóð var til Víkur.

Námskeiðið var stofnerfðafræði, sem fjallar um erfðabreytileika innan stofna. Rætt var um áhrif byggingu stofna, sögu þeirra, tilviljana og náttúrulegs vals á erfðabreytileikann.

Í hvannarskóginum í hlíðunum fyrir ofan Vík, og í gljúfrum og hömrum á þessum slóðum má finna Brekkubobba. Brekkubobbar eru sniglar með harða skel, sem hafa löngum verið eftirlæti líffræðinga, því innan tegunda má oft finna mjög mikinn breytileika í lit og bandamynstri. Sumir eru dökkir, aðrir ljósir, sumir með þykk bönd en aðrir mjó. 

Einar Árnason, sem kennir stofnerfðafræðina við HÍ, sýndi okkur að tíðni lita gerðanna fer eftir því hvar í klettunum eða gljúfrunum bobbarnir búa. Hæfni sniglana fer eftir lit þeirra, dökku sniglarnir eru algengari í ákveðnu búsvæði en þeir ljósari í öðru.

Lagt var til í nýrri náttúruverndaráætlun að blessaðir bobbarnir í Mýrdalnum yrðu verndaðir.

Það er ekki vinsælt hjá heimamönnum, sbr. Fréttablaðið í dag. Líklega ráða þar hugmyndir um göng og veg.

Tillaga að nýrri náttúruverndaráætlun

Hvönn og brekkubobbar í vegi

 
Íbúafundur í Mýrdalshreppi hafnaði friðlýsingu á hvannastóði undir Reynisfjalli. Þar er búsvæði sniglategundarinnar brekkubobba og vill Umhverfisstofnun friða það.

Í niðurstöðu íbúafundarins, sem sóttur var af 80 til 100 manns, sagði hins vegar að ekki yrði séð að hvönn eða brekkubobba væri nokkur hætta búin af manna völdum. Þá sagði umhverfis- og náttúruverndarnefnd Mýrdalshrepps að sú sátt sem ætti að vera forsenda friðlýsingarinnar meðal heimamanna væri ekki fyrir hendi. Í kjölfarið hafnaði sveitarstjórn öllum friðlýsingaráformum að svo komnu máli. - gar

Fréttablaðið 8. desember 2009.

Nokkrir bobbar af Flickr síðu Erlings Ólafssonar.


Frá stuttermabol til hundafata

Vísindamenn er svo sannarlega mannlegir, gera mistök, drýgja hetjudáðir, leggjast í þunglyndi, drykkju eða fara á karlafar, sumir leyfa stjórnmálaskoðunum að stýra sinni vinnu, aðrir giftast hugsjónum en aðrir selja sig fyrir skotsilfur.

Hér er ekki hugmyndin að ræða um breyskleika vísindamanna, en ég vill leggja áherslu á að jafnvel þótt að þó nokkrir vísindamenn hafi verið, séu og muni verða skíthælar þá þýðir það ekki að vísindin séu komin í þrot.

DogTshirtGSA

Við höfum rætt um hagsmunaárekstra vísindamanna, og mikilvægi þess að vísindamenn komi sér hjá kringumstæðum þar sem hagsmunir gætu skarast. Ef þú þiggur styrk frá Olís, ert þú þá heppilegur álitsgjafi um umhverfisáhrif bensínbifreiða?

En hvað þýðir það ef vísindamenn og samtök þeirra eru komnir í sölumennsku?

Ameríska erfðafræðifélagið (Genetic association of America  - GSA) er með nokkrar tylftir hluta til sölu á vefsíðu sinni, bolla, boli, músamottur og "auðvitað" hundaföt. Ég er vanur því að GSA gefi út tímaritið Genetics, sem fjallar um eins og nafnið gefur í skyn um erfðir, en ekki að félagið sé í gjafavörubransanum.

Vitanlega er ég sekur um skinhelgi, fyrir rúmri viku fannst mér ekkert eðlilegra en að auglýsa Darwin boli til sölu hér (sem nemendafélagið er að selja).

Púðar, ímyndið ykkur, þeir selja púðaver og smekki.

Ef íslensar stofnanir taka þetta upp, þá er Fenrisúlfurinn laus:

Hafró auglýsir - nýju þorsklaga púðarnir tilvaldir í jólapakkann.

Keldur auglýsa - sníkjudýrakönnurnar vinsælu eru komnar aftur.

Læknadeild tilkynnir, barnakrufningarsettin komin - (kennið barni ykkar að kryfa).

DNA orkukristallar eru komnir í búðir, nú með sinnepsbragði - Líffræðistofnun HÍ.


Þróun kynæxlunar

Þróun kynæxlunar er ein helsta ráðgáta þróunarfræðinnar. Æxlun er breytileg meðal ólíkra tegunda; sumar tegundir æxlast eingöngu kynlaust, aðrar bæði kynlaust og með kynæxlun, og aðrar eingöngu með kynæxlun. Kynæxlun er yfirleitt kostnaðarsöm og kynlaus æxlun hefur auk þess tvöfaldan æxlunarárvinning umfram kynæxlun. Hvernig stendur þá á því að kynæxlun er mun útbreiddari en kynlaus æxlun og að tegundir sem stunda kynlausa æxlun verða ekki þróunarlega gamlar?

 

Snæbjörn Pálsson mun fjalla um þróun kynæxlunar í fyrirlestri næsta laugardag, 12 desember.

 

Í fyrirlestrinum verður greint frá skýringum á þróun kynæxlunar sem byggja á erfðafræði og kenningu Darwins um náttúrulegt val þar sem vistfræðilegir þættir skipta einnig lykilmáli. Fjallað verður um ýmis dæmi um rannsóknir á þróun kynæxlunar m.a. um hátt hlutfall kynlausra tegunda á norðurslóðum og einnig um þróunarlegar afleiðingar kynæxlunar sem greina má í formi ýmissa eiginleika sem auka æxlunarárangur einstaklinga.

Snæbjörn Pálsson er dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa einkum verið á sviði stofnerfðafræði og m.a. á áhrifum kynæxlunar á uppsöfnun skaðlegra stökkbreytinga.

 

Erindið markar endalok fyrirlestraraðar sem efnt var til haustið 2009 í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár eru síðan Uppruni tegundanna kom út.

Nánari umfjöllun má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku. Boðið verður upp á kaffi og með því eftir fyrirlesturinn.

Stund: 12. desember 2009, kl. 13:00.

 

Staður: Stofa 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi HÍ.


Hagnýting þróunarlögmálsins

Á undanförnu ári höfum við fjallað töluvert um Charles Darwin og þróunarlögmálið, í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu náttúrufræðingsins og 150 ár frá útgáfu uppruna tegundanna.

Meðal annars var staðið fyrir fyrirlestraröð, undir yfirskriftinni Darwin dagarnir 2009.

Næsti fyrirlestur í röðinni verður erindi Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur um það hvernig tegundir verða til. Guðbjörg hefur rannsakað íslensk hornsíli, vistfræði þeirra og er að kanna hvernig afbrigði og þá jafnvel tegundir geta hafa myndast á skömmum tíma hérlendis (12000 ár frá síðustu ísöld).

Meðhöfundur hennar Bjarni K. Kristjánsson hefur rannsakað mest bleikjur hérlendis, og eru þau hluti stórs hóps innlendra líffræðinga sem hafa kafað í vistkerfi vatna og straumvatna hérlendis. Niðurstöðurnar sýna að á Íslandi er mikill breytileiki í ferskvatnsfiskum, mörg afbrigði og fjölbreytileg. Það er vissulega forvitnilegt og skemmtilegt, en hefur einnig hagnýtt gildi.

Bleikjueldi er vaxandi búgrein og með því að nýta þann erfðabreytileika sem til er hérlendis má rækta fyrir ákjósanlegum eiginleikum í eldisstofnum. Slíkt val er kallað kynbótaval, og benti Darwin einmitt á hversu hliðstætt það væri náttúrulegu vali.

Í báðum tilfellum er unnið með arfbundinn breytileika, og síðan fer fram val á gerðum eftir hæfni þeirra. Í tilfelli kynbóta er það ræktandinn sem velur úr hjörð sinni eða fiskitorfu einstaklinga með ákjósanlega eiginleika (t.d. stóra, vöðvamikla, sjúkdómsþolna og heilbrigða fiska). Í náttúrunni lifa þeir af sem eru skárri en aðrir einstaklingar í stofninum. Hæfni þeirra er metin yfir allt lífskeiðið, á grundvelli frammistöðu að vetrarlagi, að sumri, við fæðuöflun, efnaskiptastjórn, o.s.frv. Hæfni lífvera í náttúrunni er mun flóknari en hæfnin sem kynbótamaðurinn skilgreinir, og hún er prófuð hvern einasta dag.

Á Háskólanum á Hólum í Hjaltadal hefur verið stunduð markviss ræktun á bleikjustofnum til fiskeldis. Ari Trausti fjallaði um þessar rannsóknir í þættinum Nýsköpun - Íslensk vísindi fyrir viku. Vonandi lifir hlekkurinn á myndskeiðið einhvern tíma í viðbót (umfjöllunin er í síðasta þriðjungi þáttarins).


Tveggja mæðra mýs

Við höfum áður rætt hér þá meinloku að "Að vera með gen, og vera ekki með gen..." er alls ekki spurningin. Allir eru með sömu gen (með örfáum undantekningum). Munur á milli fólks liggur í því hvaða útgáfur af viðkomandi geni hver er með.

Ímyndum okkur að allir á Íslandi eigi sömu 5000 bækurnar, og til að gera dæmið raunverulegra að allir eigi tvö eintök af hverri bók (eina frá mömmu og eina frá pabba!). Munurinn á milli bókaskápa fólks liggi í því  hvað útgáfur af bókunum fólk eigi (allar bækurnar eru til í 2 eða fleiri útgáfum).

Það getur verið að tiltekin útgáfa ákveðinnar bókar hafi skaðleg áhrif á líðan eða atferli eigandans, við látum á milli hluta liggja hvernig, þetta er nú einu sinni bara líking! Þá myndi maður ekki segja að þessi bók hafi áhrif á atferli eigandans, heldur frekar að þessi útgáfa bókarinnar sé skaðleg.

Á sama hátt, tilteknar stökkbreytingar í ákveðnum genum geta aukið líkurnar á ákveðnum göllum eða sjúkdómum, verið skaðlegar.

Nú að efni fréttarinnar.

Kawahara og Kono (ekki nafngreindir á BBC*) bjuggu til fóstur sem fékk erfðaefni sitt frá tveimur mæðrum. Annað erfðamengið kom úr eðlilegu eggi, en hitt úr eggfrumu nýfæddra músa. Það erfðamengi var meðhöndlað (þessi partur er frekar ójós) til að líkja eftir því sem gerist við nýmyndun sæðisfruma.

Líffræðin hér að baki er sú að við framleiðslu eggja og sæðis eru erfðamengin mörkuð (imprinted) á mismunandi vegu. Þessi mörkun er misjafnlega mikil eftir genum og litningabútum, og enginn veit almenninlega hversu víðtæk hún er. Í nokkrum sjúkdómum fer það eftir því frá hvaða foreldri  tiltekin útgáfa af geni erfist, hvort viðkomandi fái einkenni eða ekki.

Svo virðist sem að mörkun einhvers hluta erfðamengisins í sæðisfrumum dragi úr lífslíkum karlkyns músa. Mörkunin verður í sæði feðra, og áhrifin koma fram hjá dætrum (synir voru ekki skoðaðir hér).

Í tilraun Kawahara og Kono lifðu tvegga mæðra mýsnar að meðaltali lengur en mýs í viðmiðunar hópnum. Þær voru að auki léttari og að því er virðist með sprækara ónæmiskerfi. 

Þetta er mjög forvitnilegt í ljósi þess sem Linda Partridge ræddi um síðustu helgi, að hitaeiningasnauð fæða leiðir til langlífis. Stökkbreytingar í Insúlín boðferlum sem stjórna orkunotkun leiða bæði til nettari vaxtar og langlífis.

En ástæðan fyrir langlífi tveggja mæðra músanna er óljós. Er eitthvað eitt svæði eða gen sem tengist þessum mun? Höfundarnir leiða líkur að því að Rasgrf1 genið taki þátt í þessu ferli, en þær niðurstöður eru ekki sannfærandi, og þeir segja meira að segja í fréttatilkynningu:

Thus far, it's not clear whether Rasgrf1 is definitively associated with mouse longevity, but it is one of the strong candidates for a responsible gene. Furthermore, we cannot eliminate the possibility that other, unknown genes that rely on their paternal inheritance to function normally may be responsible for the extended longevity of the BM mice.

Einhvernvegin gufaði þessi varnagli upp í umfjöllun BBC og hvað þá á mbl.is.

Hér segjum við skilið við greinina sjálfa og förum að gagnrýna mbl.is. Manni finnst stundum að fréttamenn mbl.is séu að rýna í fornt egypskt myndletur þegar þeir eru að skrifa (þýða) sínar vísindafréttir. Tvö dæmi

Þetta var hægt með því að eiga þannig við kjarnsýruna (DNA) í músareggi að hún fór að hegða sér líkt og sæðisfruma.

This was achieved by manipulating DNA in mouse eggs so the genes behaved like those in sperm. 

Skelfileg mistök, hér segir mbl.is að DNA fari að hegða sér eins og sæðisfruma. En í upprunalega textanum er sagt að genin hegðuðu sér eins og þau hefðu komið úr sæðisfrumu. Það er meiriháttar munur þar á. Tökum tilbúið dæmi með sömu rökvillu.

Með því að hafa áhrif á bankamennina voru þeir látnir hegða sér eins og fiskveiðiskip

Rétt er:

Með því að hafa áhrif á bankamennina voru þeir látnir hegða sér eins og menn á fiskveiðiskipi.

Það eru fleiri beinar og stirðar þýðingar hér, en ég ræði bara eitt tilvik.

Þar er greint frá nýrri rannsókn sem gerð hefur verið á músum, sem leiðir í ljós að bæði kynin bera umrætt gen, en það virðist hins vegar aðeins verða virkt hjá  karlkyns dýrunum.

Rannsóknin var gerð við Landbúnaðarháskólann í Tókýó og eru niðurstöðurnar birtar í tímaritinu Æxlun manna.

Scientists working on mice have highlighted a specific gene that, although carried by both sexes, appears to be active only in males.

....

The study, by Tokyo University of Agriculture, appears in the journal Human Reproduction.

Það er ekki hjálplegt að þýða nöfn tímarita. Ímyndið ykkur, greinar í Náttúru (Nature), Vísindum (Science) eða Almenningsbókasafni um vísindi - líffræði (Public library of Science: Biology - einnig kallað PLoS biology).

Vitanlega er hluti af vandamálinu frétt BBC. Á síðustu misserum finnst mér vísindafréttamennsku, og þá sérstaklega umfjöllun um líffræði, BBC hrakað töluvert. Áherslan virðist vera á grípandi fyrirsagnir í stíl gulu pressunar og oft eru efnistökin sérkennileg. Einnig reyna fréttamennirnir oft að einfalda viðfangsefnið og enda með bull en ekki staðreyndir.

Dapurleg vinnubrögð annara er engin réttlæting fyrir svona hnoði.

*Hjá BBC er tilhneyging til að minnast fullum fetum á breska vísindamenn, en ekki endilega nafngreina fólk annars staðar að.

Ítarefni:

Genadýrkun:  Að stjórna eða stuðla að, Það þarf erfðamengi til.

Greinin er ókeypis:

Manabu Kawahara og Tomohiro Kono Longevity in mice without a father Human Reproduction,  2009

BBC Men's genes 'may limit lifespan'


mbl.is Kemur erfðaefni karla í veg fyrir langlífi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband