Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Grýla er maður ársins

...hjá lauknum (the onion), fyrir flottasta gos ársins http://www.theonion.com/articles/the-people-who-mattered-in-2010,18661/?slide=4 

People-Gryla-Clickthrough-R_jpg_630x463_pad-black_upscale_q85

Lifið heil(og)steikt. 


Arfleifð Darwins: Þróunarkenningin barst fljótt til Íslands

arfleifddarwins_kapa3_1049132.jpgSteindór J. Erlingsson skrifaði kafla í bókina Arfleifð Darwins um landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi. Af því tilefni ræddi María Ólafsdóttir blaðamaður við hann um Þorvald Thoroddsen, vísindasögu og togstreituna á milli þróunarkenningarinnar og kristinnar trúar. Viðtalið birtist í sunnudagsmogganum, 19 desember 2010, og er endurprentað á vef Steindórs. Þar segir meðal annars:

Greinin sem þarna birtist er að hluta til byggð á rannsókn sem var hluti af meistaranámi mínu en líka rannsóknum sem ég [Steindór] hef gert síðar, sérstaklega á Þorvaldi Thoroddsen. Hans saga er mjög sérstök því að hann skipti algjörlega um skoðun á mjög stuttum tíma. Á tímabilinu 1906-1910 umbreyttist hann frá því að vera þróunarsinni og hóflegur stuðningsmaður lýðræðis yfir í að hafna þróunarkenningunni og lýðræðinu sem stjórnskipulagi. En eins og segir í greininni hafa rannsóknir mínar sýnt að þetta voru skiljanleg umskipti þegar tekið var tillit til alls þess sem gerðist í lífi hans á þessum árum,“ segir Steindór.

Blaðamaður spyr um togstreituna milli þróunarfræði og trúar.

Aðspurður hvort enn skiptist menn í jafnar fylkingar með og á móti þróunarkenningu Darwins segir Steindór að svo sé ekki. Í dag sé stuðningurinn við þróunarkenninguna mjög almennur í Vestur-Evrópu. Þá sé athyglisvert að í grein sem birtist í Science fyrir nokkrum árum komi fram að Íslendingar voru í efsta sæti yfir þá sem samþykktu það að maðurinn væri afurð þróunar. Næstminnstur var stuðningurinn hins vegar í Bandaríkjunum og minnstur í Tyrklandi.

„Bandaríkjamenn eru svolítið sér á báti hvað þetta varðar og ég held að það séu ekki nema 12 til 14% þeirra sem trúa því að lífið hafi þróast algjörlega á náttúrulegan hátt eins og Darwin heldur fram og þróunarfræðin. Kannski 20% í viðbót trúa að Guð hafi að einhverju leyti stýrt þessu en restin hafnar þessu algjörlega. Hér í Evrópu er þróunarkenningin almennt viðurkennd. Ég held að skýringin felist í því að við erum með mun frjálslegri viðhorf til trúarbragða heldur en í Bandaríkjunum. Ýmsar skýringar hafa verið lagðar fram um af hverju Vestur-Evrópubúar virðast hafa miklu minni tilhneigingu til þess að trúa en kannanir í Svíþjóð sýna að allt að 75% af þjóðinni hafni eða efist um tilvist persónulegs guðs og í Bretlandi um 40-50%. Eitt af því sem við notum til að skýra þetta er hið sterka velferðarkerfi sem rekið er á Vesturlöndum. Þannig að fólk hér hefur ekki sömu þörf fyrir að leita í trúna og í Bandaríkjunum. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt skýrt samhengi þarna á mili. Við getum leyft okkur að hafna Guði því við höfum ríkið til að styrkja okkur,“ segir Steindór.
Áður fyrr segir Steindór hafa verið eðlilegt að menn skiptust meira í hópa því trúin var hornsteinn í evrópskri menningu langt fram á 19. öld. En stuðningur við hana fór að dala með upplýsingu 18. aldar þegar menn fóru að narta í trúna bæði úr hug-, raun- og félagsvísindum.

Steindór segir að fyrir utan þá sem hafni þróunarkenningunni alfarið, af þeim sem hann skrifar um, þá hafi flestir hinna ekki endilega talið hugmyndina um Guð í mótsögn við þróunarkenninguna. En þetta sé spurning um hvernig fólk skilgreini Guð. Því flestir þeirra virðast hafa verið það sem kallast dei-isti. Það er að segja aðhyllst þá hugmynd að það sé Guð þarna fyrir utan sem sett hafi allt af stað en síðan ekki skipt sér meira af málunum.

 Steindór segir að í dag sé í raun alveg hægt að vera dei-isti og aðhyllast þróun. 


Náttúrufræðingurinn, Williams og frumulíffærið

Nýr náttúrufræðingur kom í gegnum lúguna í vikunni. Ég byrjaði strax að lesa grein Menju von Schmalensee um ágengar tegundir, sem er seinni greinin af tveimur um þetta efni.

Ég las líka ágæta minningargrein Snæbjarnar Pálssonar um þróunarfræðinginn George C. Williams sem lést nú í haust. Hann var sannkallaður Íslandsvinur, dvaldi hérlendis um og eftir miðja síðustu öld og sinnti aðallega rannsóknum á vistfræði hafsins. Hann skrifaði hugleiðingar sínar á íslensku, sem er víst fátítt erlendis af einhverjum ástæðum og álitið sérvitringslegt. Framlag hans til þróunarfræðinnar fólst aðallega í því að hann útskýrði hvernig náttúrulegt val mun virka sterkast á einstaklinga og arfgerðir þeirra, og setti þannig hugmyndir um hópaval í rétt samhengi. Úr viðtali Franks Roe við Williams árið 1998:

"I am convinced that it is the light and the way." These are the final words in Adaptation and Natural Selection, George C. Williams's 1966 book about evolution. In the decades since the publication of this book, which became one of the most influential in its field, nothing has altered Williams's conviction that evolutionary theory is not just of it intellectual interest but has much practical significance for human life.

A marine biologist by training, Williams took two sabbaticals to conduct fish research in Iceland, but he is most widely known as a theoretician. As early as 1957, he wrote a paper on senescence considered by some to be a cornerstone of modern evolutionary theory. Williams has also written passionately about the "moral unacceptability of natural selection" and the necessity Of using our intelligence to triumph over it. For a paper on evolutionary ethics, Williams came up with one of the most eye-catching titles in scientific literature: "Mother Nature Is a Wicked Old Witch."

Í blaðinu er einnig auglýsing frá the-organelle sem er sprotafyrirtæki Bjarna Helgasonar listamanns (sem gerði kápuna af Arfleifð Darwins). Hann hannaði og framleiðir nú boli með myndum af stórum og smáum lífverum.extinction_1048450.jpgvirus_1048449.jpg


Nei sko - alvöru áhersla á rannsóknir

Bernhard er harðduglegur vísindamaður og fylgin sér. Það er frábært að hann skuli leiða þetta verkefni. En um leið segir undirstrikar þetta molbúahátt mörlandans.

Danir verja 15 milljörðum í eitt verkefni, sem miðar að því að stuðla að sjálfbærum lífefnaiðnaði.

Rannsóknasjóður Íslands setur um það bil 250 milljónir í ný verkefni á ári, sem er svona álíka mikið og ríkið "gaf" Hraðbraut.

Allt tal um nýsköpun og mannauð er tómt þvaður nema stjórnmálamenn úr öllum flokkum sameinist um að styrkja grunnrannsóknir á Íslandi.

Bendi lesendum á röð greina eftir Eirík Steingrímsson og Magnús K. Magnússon um Háskólarannsóknir a tímum kreppu.

Fjármögnun vísindarannsókna

Doktorsnám á Íslandi

Gæði rannsókna

Staða raun- og heilbrigðisvísinda

Hlutverk háskóla


mbl.is Íslendingur stýrir rannsóknarmiðstöð í lífefnaiðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundaglas þróunar

Munurinn á finkum Darwins liggur að mestu leyti í stærð og lögun gogganna. Á Galapagoseyjum finnast 13-14 tegundir af finkum (eftir því hvernig þær eru flokkaðar) og Darwin og samtímamönnum hans var það ljóst að þær eru allar af sama meiði. Þótt fullvaxta dýr hinna mismunandi tegunda séu vel aðgreinanleg er mun erfiðara að sjá munin á ungum þeirra. Flestir líffræðingar gera sér grein fyrir þessu almenna lögmáli, að útlitsbreytileiki er yfirleitt meiri á milli fullorðinna dýra tveggja skyldra tegunda en á milli fóstra þeirra. Þannig að ef við teiknum upp mun á milli tegunda yfir þroskaferil lífvera - sæist aukning í útlitsmun, sbr. myndina hér að neðan. Samkvæmt þessu eykst breytileikinn samfara þroskuninni, og myndar nokkurnskonar trekt. Þetta sýnir líka að ólíkar tegundir, t.d. hryggdýra eru tilbrigði við sama stef, eins og Karl Ernst von Baer benti fyrstur á. Á myndinni hér að neðan má greina hið svokallað Pharyngulu-stig, sem er þroskastig sameiginlegt öllum hryggdýrum (efst).

Richardson1 Mynd af vef Suður-Maine háskóla.

Ekki trekt heldur stundaglas

Mun færri vita að þegar kafað er í fyrstu skref þroskunar eykst munurinn á milli tegunda aftur. Fyrstu stig þroskunar eru nefnilega einnig mjög  fjölbreytt, eins og sést á því að fyrstu frumuskiptingar í hænufóstri, mannafóstri og froskafóstri eru mjög ólíkar. Síðan verða fóstrin áþekkari - eftir að fram og aftur ásinn, fósturlögin og höfuðsvæðið hefur myndast og mjög svipuð á pharyngulu-stiginu.gerhart_kirschner_hourglass

Þroskunarþróunarfræðingarnir Kirschner og Gerhart settu fram í lok síðustu aldar líkan um þroskunarlegt stundaglas. Þeir báru saman hryggdýr og seildýr, en sama mynstur greinist í einnig hópi liðdýra. Hjá þeim er ákveðið skeið þroskunar sem er minna breytilegt en önnur skeið. Þessar niðurstöður eru byggðar á samanburði á útliti fóstra og lífvera, en lögmál Darwins um sameiginlegan uppruna spáir því að sama mynstur ætti að sjást þegar aðrar breytur eru skoðaðar. Tvær nýlegar rannsóknir birtar í Nature renna stoðum undir stundaglasalíkanið, önnur með því að skoða breytileika í tjáningu á mismunandi stigum þroskunar milli nokkura tegunda og hin með því að skoða þróunarlegan aldur gena sem starfa á mismunandi stigum þroskunar.

Ég einskorða mig við rannsókn Kalinka og félaga á þroskun ávaxtaflugna. Þeir báru saman 6 tegundir ávaxtaflugna, og skoðuðu genatjáningu á 2 klst fresti á fyrstu stigum þroskunar í hverri tegund.

Þeir sáu að breytileikinn var mjög mikill snemma í þroskun, minnkaði síðan og jókst aftur (sjá myndina vinstra megin). KalinkaHourglassMinnsti breytileikinn er á því stigi þroskunar sem hox genin eru tjáð. Það er forvitnilegt að hox genin eiga sér hliðstæðu í hryggdýrum. Þau stýra þroskun liða og einkennum bæði í hryggdýrum og liðdýrum. Það undirstrikar og staðfestir sameiginlegan uppruna hryggleysingja og hryggdýra, sem er forsenda þess að við getum notað ávaxtaflugur til að rannsaka sjúkdóma sem herja á manninn.

Ítarefni

Kalinka o.fl. Gene expression divergence recapitulates the developmental hourglass model Nature Volume:468,Pages:811–814 Date published:(09 December 2010) DOI:doi:10.1038/nature09634

PZ Myers A brief overview of Hox genes


Vísindavefur Þorsteins

Eitt merkasta átak í miðlun vísinda hérlendis er Vísindavefurinn. Vefurinn er skilgetið afkvæmi Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors í vísindasögu og eðlisfræði við HÍ. Hver sem er getur sent spurningu til vísindavefsins og svar frá sérfræðingi á viðkomandi sviði. Þetta á jafnt við spurningar um geimferðir eða uppruna ritmáls, veirusýkingar í hrossum eða helstu kenningar sálfræðinnar. Nokkur nýleg dæmi:

Hvernig lætur maður kné fylgja kviði?

Gætu ísbirnir lifað á suðurheimskautinu eða Suðurskautslandinu?

Hvað hafa margir farið í geimferðir?

Þorsteinn var sjötugur snemma í haust og af því tilefni gaf Hið íslenska bókmenntafélag út ritgerðasafnið Vísindavefur. Þar má finna ritgerðir, hugleiðingar, ljóð og sönglög; sem spanna allt rófið frá vísindum til lista. Ég fékk bókina í hendur fyrir nokkru og hef lesið nokkra kafla. Auðvitað eru þeir misjafnir, eins og ávextirnir í körfunni, en flestir þeirra sem ég hef lesið eru mjög fínir. Ef tími vinnst til skrifa ég kannski samantekt um bókina, þótt það verði að viðurkennast að ég hef ekki verið jafn röskur að skrifa um bækurnar sem ég hef lesið á árinu eins og ætlun stóð til.


Arfleifð Darwins: tilboð í bóksölu stúdenta

Maður er nú ekki alveg með á nótunum, þrátt fyrir að vera í ritnefndinni. Ég var að frétta að bókin um Arfleifð Darwins væri ennþá á tilboði í Bóksölu stúdenta. Úr inngangi:

Rannsóknir á þróun eru raunvísindi. Því hefur verið haldið fram að þróunarkenningin sé ekki prófanleg, því að hún staðhæfi að lífið hafi orðið til einu sinni á jörðinni og að slíkar sögulegar staðhæfingar sé ekki hægt að prófa eða afsanna. Þetta er misskilningur. Þróunarkenning Darwins er samsett úr fjölmörgum prófanlegum tilgátum sem fjalla t.d. um byggingu þróunartrésins, náttúrulegt val, tilurð aðlagana og áhrif annarra krafta. Um ástæður þróunar, byggingu þróunartrésins og breytingar, t.d. í steingervingasögu, má setja fram tilgátur sem hægt er bæði að styðja og hafna. Þróunarkenningin hefur staðist öll próf, og því má tala um hana sem staðreynd. [skáletrun AP]

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins. Síða helguð bókinni er í einhverju ólagi, en hægt er að lesa kafla Steindórs á síðu hans.

Minni tengsl lækna og lyfjafyrirtækja

Í kjölfar greinar Steindórs J. Erlingssonar (ég er reiður) um áhrif lyfjafyrirtækja skrifar Haraldur Magnússon grein í Morgunblað dagsins. Krafa hans er "[s]etning skýrra reglna um samskipti lækna við lyfjafyrirtæki [sem] gæti leitt til stórsparnaðar í heilbrigðiskerfinu og aukið öryggi sjúklinga".

Hann segir meðal annars:

Það á ekki að þurfa eitthvert greindarvísitölulegt ofurmenni til að sjá að ef læknar fá rangar upplýsingar varðandi lyfjameðhöndlun þá aukast líkurnar á rangri meðhöndlun sjúklinga og það veldur líkamlegum sem andlegum skaða og fjárhagslegum kostnaðarauka. Ein falin aukaverkun við þetta er að almenningur missir álit á læknum því þótt vandamálið í grunninn sé lyfjafyrirtækin þá má ekki gleyma að læknarnir okkar eru á framlínunni og lélegur árangur af meðhöndlun mun túlkast sem glöp af þeirra hálfu þegar sannleikurinn er sá að þeir eru jafn mikil fórnarlömb þessa ástands og við hin þar sem þeir fá ekki réttar upplýsingar til að byggja sína meðhöndlun á. Reyndar er ég hissa á því að það hafi ekki myndast hópur eða félag lækna hér á landi eins og erlendis sem berjast á móti þessu ástandi þar sem orðspor þeirra er í húfi. Ein af stoðum hvers samfélags er að hafa heilbrigðiskerfi sem þegninn ber fullt traust til og leitar til ef þörf er á....

Til dæmis væri hægt í dag að banna lyfjafyrirtækjum að markaðssetja til lækna með einu pennastriki. Það væri skref í rétta átt. 

Mér finnst athugasemdirnar ágætar. Auðvitað á læknasamfélagið sjálft að taka skýrar á þessu máli, með því að loka á þær leiðir sem lyfjafyrirtækin nota til að móta skoðanir þeirra.

Þetta er líka tækifæri fyrir heilbrigðisstéttir til að sýna fólki hvernig læknisfræðileg þekking verður til. Það er of algengt að fólk búist við skýru og innpökkuðu svari frá lækninum. Læknar þurfa að beita sinni þekkingu og mælingum til að komast að því hvað hrjárir sjúkling. Þeir taka ekki ákvarðanir út frá trúarlegum forsendum, heldur reynslu, staðreyndum og viðurkenndum hugmyndum um eðli sjúkdóma. Oft kemur fyrir að sjúkdómur er vitlaust greindur; krabbamein finnst ekki, eða veirusýking er metin sem bakteríusýking.

Læknar eru ekki húsgagnasölumenn, þeir geta ekki sent þig heim með sófasettið sem þig hefur alltaf dreymt um. Stundum er manni vísað heim án almennilegra svara, og það er ónotaleg tilfinning. Það að fá einhverja skýringu á krankleika hefur jákvæð áhrif á líðan fólks, sem er ástæðan fyrir því að margir sjúklingar finna fróun í snákaolíu eða tíma hjá lithimnufræðingi.

Nýja uppáhalds vefsíðan mín http://www.quackometer.net/


Viðbjóðslega falleg padda

Það bárust öskur eftir ganginum þegar samstarfskona mín skoðaði myndina af loðnu flugunni.

Margar lífverur eru sjaldgæfar, jafnvel það sjaldgæfar að vísindamenn þekkja þær bara af einu lýstu eintaki í safni, ljósmynd eða munnmælasögu. Það er eðlilegt að taka munnmælasögunum með varúð, það er rétt rúm öld síðan fólk trúði á risavaxin sæskrímsli, marbendla og hafmeyjar. Í fyrstu útgáfu Linneusar um tegundir lífvera má finna dæmi um slík óraunveruleg fyrirbæri.

Loðna flugan er reyndar ljómandi falleg, og reyndar eru flest skordýr ótrúlega falleg þegar vel er að gáð. Miklar stækkanir af skordýraaugum (sjá t.d. forsíðu Hidden beauty) sýna regluleg og falleg form. 0810935473.01._SCLZZZZZZZ_

Heimur hins smáa er fullur af margslunginni fegurð, hér fyrir neðan eru tvö dæmi um flott liðdýr (Hawaiíska könguló og skákbjöllu).

Þeim sem hafa gaman af ljósmyndum er einnig bent á myndirnar hennar Hafdísar Hönnu frá Galapagos (tvær þeirra eru komnar í opinbera samkeppni).

Leiðrétting: í fyrstu útgáfu gerði ég þau mistök að telja köngulær til skordýra, hið rétta er að þær og skordýrin tilheyra liðdýrahópnum. Jóhannesi er þakkaður yfirlesturinn!

happy-face-spider checkered-beetle


mbl.is Loðin og sjaldgæf fluga finnst í Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna

Ég vil benda ykkur á framvindu máls. Skrifum Steindórs J. Erlingssonar um notaleg samskipti lyfjafyrirtækja og lækna hafa undið upp á sig. Úr fyrri pistli (Traust á vísindalegum niðurstöðum).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. 

Morgunblaðið tók grein Steindórs í Pressunni (Ég er reiður) upp á sína arma - FLOTT hjá þeim - birti fréttaskýringu og fylgdi málinu eftir með viðtali við Landlækni, forstjóra Lyfjastofnunar og formann Læknafélagsins.

„Almennt eru læknar meðvitaðir um faglegar skyldur sínar og gagnvart samfélaginu,“ segir Geir [Gunnarsson landlæknir]. „Læknafélagið hefur sett ákveðnar reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja, en ég get ekki dæmt um hvort það er fullnægjandi. Læknar hafa farið í ferðir á kostnað lyfjafyrirtækja og mér finnst almennt að læknar eigi að vera á varðbergi gagnvart slíku, en við getum ekki bannað fólki að fara í slíkar ferðir. Oft eru þær skipulagðar til að afla frekari þekkingar á sérsviði viðkomandi læknis og í öðrum tilvikum er um hópa að ræða, sem eru taldir mikilvægir fyrir viðkomandi flokk sjúkdóma. [Feitletrun AP]

Getum við ekki bannað læknum að láta múta sér? Kannski er best að sjúklingar spyrji lækninn sinn.

  • Ertu viss um að þetta sé besta lyfið í stöðunni?
  • Hefur þú þegið málsverð, gjafir, ráðstefnuflugfargjald og með því frá framleiðanda(dreifingaraðilla) lyfsins sem þú vilt láta mig taka?

Úr frétt Morgunblaðsins (3 desember 2010) Siðareglurnar settar til að verjast áhrifum

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir að Evrópusamtök lækna hafi sett sér reglur um hvernig samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli háttað. Einnig sé slíkt ákvæði í siðareglum lækna. En hvað hefur Birna að segja um að læknar verði fyrir miklum áhrifum af lyfjakynningum sem gjarnan feli í sér boðsferðir og önnur hlunnindi? „Það er svo mörgu haldið fram. Ég hef ekki þurft að taka á málum þar sem samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hafa verið óeðlileg. En auðvitað hefur margt breyst frá því sem áður var og það er ástæða fyrir því að settar voru reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja.“  

Siðareglur duga ekki, það þarf betri verklagsreglur um framkvæmd lyfjaprófa. Ben Goldacre hefur skrifað um þetta mál af mikilli yfirsýn. Kröfurnar eru eftirfarandi.

1. Lyfjafyrirtæki tilgreini FYRIRFRAM hvaða breytur á að skoða í hverju tilteknu lyfjaprófi. Það er því miður landlægt vandamál að lyfjafyrirtæki hefji leik með eina rannsóknaspurningu, en skipti síðan um spurningu í miðju sundi (líklega vegna þess að fyrstu niðurstöður reyndust þeim ekki hentugar). Það er mjög algengt að lyfjafyrirtækin leggi áherslu á jákvæð áhrif lyfs á skyldan þátt, en EKKI sjúkdóminn sjálfann (líklega vegna þess að lyfið hefur ekki merkjanleg áhrif á sjúkdóminn!).

2. Allar niðurstöður lyfjaprófa verði færðar í opinbera gagnagrunna. Þetta er til þess að hlutlausir aðillar geti greint frumgögnin og metið rannsóknatilgátur algerlega hlutlægt. Ef fyrirtækið þitt hefur fjárfest 100 milljón dollara í einhverri pillu, er erfitt fyrir þig að mæta á fund og segja að það virki ekki!

3. Upplýsingum um lyfjapróf sem hætt er við verður líka að setja í opinbera gagnagrunna. Þetta getur afhjúpað aukaverkanir og hliðareinkenni sem lyfjafyrirtækin stinga of oft undir stól. Sagan kennir okkur að flestir stóru lyfjarisanna hafa stungið niðurstöðum undir stól, til að verja markaðshluteild og sölu (en ekki líf sjúklinga).

Það dugir ekki að vísa í siðareglur og setja upp svip heilagleikans. Áhrif lyfjafyrirtækjanna eru of mikil, og angar þeirra teygja sig víða. Þau nota skuggapenna til að lofa vörurnar sínar og fengu Elsevier til að búa til "platvísindatímarit" til að markaðssetja lyf. Eins og í bankahruninu, getur venjulegt fólk ekki varið sig með siðgæðinu einu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband