Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Erindi: Áhrif loftslagsbreytinga, líkön af frumum og nýsköpun í háskólum

Það er nóg um að vera í HÍ þessa vikuna.

Í hádeginu í dag (15. febrúar 2011) verður fyrirlestur um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðir:

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Íslands - Rannís stendur fyrir opnum fundi með Dr. Robert W. Corell, heimsþekktum fræðimanni sem rannsakað hefur áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum, þriðjudaginn 15. febrúar frá kl. 12:00 til 13:00 í stofu 201 í Odda. Fundurinn fer fram á ensku.

Kl 15 í dag verður fyrirlestur á vegum kerfislíffræðiseturs (stofu 158 í VR-2), um magnbundin líkön af efnaskiptaferlum:

Methods for quantitative modelling of biochemical networks
Dr Wolfram Liebermeister Weizmann Institute of Science, Department of Plant Sciences

Á morgun (16. febrúar) verður síðan fundur um nýsköpun í Háskólum (kl 15:00 í aðalbyggingu HÍ)

Vísinda- og tækniráð efnir til opinnar og gagnrýninnar umræðu um vísinda- og nýsköpunarkerfið á fjórum opnum fundum í febrúar-apríl 2011 undir yfirskriftinni; Með gæði og ávinning að leiðarljósi.

Inngangserindi:

Ilkka Turunen, aðalritari finnska Vísinda- og nýsköpunarráðsins

Hans Müller Pedersen, aðstoðarframkvæmdastjóri Vísinda- og nýsköpunarmiðstöðvar Danmerkur

Það er nægt rými fyrir betrumbætur á íslenska styrkja og nýsköpunarkerfinu (sbr. greinar Magnúsar K. Magnússonar og Eiríks Steingrímssonar - aðgengilegar vefnum visindi.blog.is.)


Athugasemd til Alþingis

Nokkir erfðafræðingar tóku sig saman og sendu eftirfarandi athugasemd til Alþingis:

Nefndasvið Alþingis

Alþingi
150 Reykjavík
10. febrúar 2011
Um tillögu til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál.

Tillaga til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál, gerir ráð fyrir að skipaður verði starfshópur sem vinni að breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun. Þær áhyggjur sem lýst er í tillögunni eru byggðar að verulegu leyti á misskilningi, vanþekkingu, fordómum eða hagsmunum þeirra sem telja erfðabreyttar lífverur ógna sér eða sinni starfsemi. Við mælum því eindregið gegn því að tillaga þessi verði samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Það er áhyggjuefni að greinargerðin með tillögunni virðist bæði vera illa unnin og að mestu leyti röng. Höfundar hennar virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera. Í þingsályktunartillögunni er hugtökum ruglað saman auk þess sem hún styðst við álit einstaklinga sem ekki verður séð að hafi neina faglega þekkingu á því sviði sem tillagan fjallar um. Undanfarin tvö ár hafa margir, þ.á.m. sumir af höfundum þingsályktunartillögunnar, kallað eftir faglegri vinnubrögðum Alþingis. Því miður er þessi þingályktunartillaga skref í þveröfuga átt hvað það varðar. Við hvetjum því höfunda þingsályktunartillögunnar til að leita til þeirra mörgu fræðimanna sem eru vel að sér um málefnið til að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um það.

Til að fyrirbyggja misskilning viljum við taka fram að við undirrituð störfum flest við rannsóknir. Mörg okkar nota erfðabreyttar lífverur í rannsóknum sínum. Enginn okkar vinnur hins vegar við rannsóknir sem miða að því að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið/náttúruna og enginn okkar er hluthafi, starfsmaður eða ráðgjafi ORF líftækni eða á beinna persónulegra hagsmuna að gæta í málinu.

Sérstakar athugasemdir okkar við tillöguna eru raktar hér að neðan.

Virðingarfyllst,
Eirikur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild, HÍ. eirikurs@hi.is, sími 820 3607.
Magnús K. Magnússon prófessor, Læknadeild, HÍ.
Már Másson, prófessor, Lyfjafræðideild, HÍ.
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ.
Ástríður Pálsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent, Læknadeild, HÍ.
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, og
aðjúnkt, Læknadeild HÍ.
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri erfðarannsókna, Íslenskri erfðagreiningu og
rannsóknar dósent, Læknadeild, HÍ.
Þórunn Rafnar, framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu.
Pétur Henrý Petersen, lektor, Læknadeild HÍ.
Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Emma Eyþórsdóttir, dósent í búfjárerfðafræði, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Bjarni Jónasson, verkefnisstjóri, Biopol sjávarlíftæknisetur
Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri, Matís.
Arnar Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Edda B. Ármannsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Bergljót Magnadóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun
Karl Ægir Karlsson, dósent, Tækni- og verkfræðideild, HR
Jón Hallsteinn Hallsson, lektor, Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent í fóðurfræði, Landbúnaðarháskóla Íslands
Jórunn E. Eyfjörð, prófessor, Læknadeild HÍ.
Jón Jóhannes Jónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Þórarinn Guðjónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri, Matís.
Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor, Læknadeild HÍ.
Oddur Vilhelmsson, dósent, Auðlindadeild HA.
Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor, Fiskeldisdeild Hólaskóla.
Snæbjörn Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kristinn P. Magnússon, dósent, Auðlindadeild HA.
Ágúst Sigurðsson, rektor og búfjárerfðafræðingur Landbúnaðarháskóla Íslands.
Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, HÍ.
Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. greiningar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Erindi: Erfðamengi melgresis

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar hafa hafið göngu sína á ný eftir nokkura ára hlé.

11. febrúar 2011 mun Kesara Margrét Jónsson fjalla um rannsóknir sínar á erfðamengi melgresis (Leymus arenarius). Meðal plantna eru mörg dæmi um tvöfaldanir erfðamengja og einnig samruna tegunda - þar sem oftast nærskyldar tegundir mynda kynblendinga. Kesara ræðir um rannsóknir í plöntuerfðafræði melgresis, um skyldleika melgresis og annara grastegunda, og breytingar á samsetningu erfðamengja þeirra.

bm_Surtsey2010_fjoruarfi_melgresiMynd af melgresi í Surtsey - af vef Náttúrufræðistofnunar (úr leiðangri NÍ og samstarfsmanna).

Kesara er prófessor í grasafræði og plöntuerfðafræði við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og er ákaflega duglegur vísindamaður. Hún hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskólann árið 2002.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar fara fram í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (stofu 131) og eru öllum opnir með húsrúm leyfir. Þeir eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá í heild má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Æsifréttafyrirsagnir

Mér finnst sem mbl.is sé að kynda undir hræðslu við bóluefni:

Tólf ríki hafa tilkynnt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, um tilfelli af drómasýki sem hugsanlega tengist bólusetningu við svínaflensu. 

Restin af fréttinni er hlutlæg og t.t.l. nákvæm, en það er byrjað á hræðsluáróðrinum. Hætt er við að náttúrulyfjafrumkvöðlarnir og samsæriskenningafólkið hlaupi af stað með þetta litla hálmstrá og noti til að styrkja skýjaborgir sínar.

WHO er að rannsaka hvort um sé að ræða raunveruleg tengsl á milli drómasýki og bólusetningar með Pandemrix bólefninu gegn svínaflensu. Flest tilfellin drómasýki fundust í Finnlandi og Svíþjóð, og því möguleiki að einhver staðbundinn faraldur sé þar á ferðinni. Einnig er möguleiki að skammtar af bóluefninu hafi verið gallaðir, og það ýtt undir svefnsýkina. Enn sem komið er eru þetta bara möguleikar, og það þarf frekari rannsóknir til að skera úr um málið. 

Sjá frétt Reuters og tilkynningu WHO frá 1.feb.2011.

Gallinn við þessar fréttir er að í þær vantar raunverulegar tölurnar. Hvað eru mörg börn í Finnlandi með drómasýki, hversu mörg þeirra voru bólusett, hversu mörg voru ekki bólusett og hversu stórt hlutfall þeirra fékk ekki drómasýki? Við þurfum allar þessar fjórar stærðir til að meta áhættuna og hvort um tölfræðilega marktækt samband sé að ræða. Við viljum auðvitað sjá sambærilegar tölur frá Íslandi.


mbl.is Tilkynnt um drómasýki í 12 löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svefn-g-englar í fjölskyldunni

Tilhneygingin til að ganga í svefni er arfgeng að hluta. Svefnganga er dæmi um svefntruflun (Parasomnias), en fleiri einkenni fylla þann hóp (t.d. svefntal, næturhræðsla, svefnkippir, fótaóeirð - sjá umfjöllun á doktor.is).

Nú hefur verið greint frá því að í einni fjölskyldu, með háa tíðni svefngöngu, hafi fundist tengsl milli einkennisins og erfðabreytileika á litningi 20. Um er að ræða tengslagreiningu á 9 svefngenglum og 13 ættingjum þeirra, og virðist sambandið vera tölfræðilega marktækt. Í tengslagreiningu finnast litningasvæði, en ekki einstök gen, þannig að enn er mikið verk fyrir höndum til að finna hvaða stökkbreyting (eða stökkbreytingar) liggja að baki. Einnig þarf að athuga hvort að sama litningasvæði/stökkbreyting sýni fylgni við svefngöngu í öðrum fjölskyldum. Lögmál erfðafræðinnar segja okkur nefnilega að gallar í tveimur eða fleiri genum geta ýtt undir sama einkenni eða sjúkdóm.

Fjallað var um þessa uppgötvun á visir.is. Mér þykir umfjöllunin þeirra frekar bláeyg, ekki er búið að finna genið og tengsl eru ekki útskýring. Það er sannarlega erfðaþáttur að baki einkenninu (mér finnst ótækt að kalla þetta sjúkdóm) en þeir gætu verið fleiri og einnig skipta umhverfisþættir máli. Visir.is hirti fréttina greinilega af BBC.

Fyrstu setningar Visir.is Leyndardómurinn um svefngöngu leystur?

Vísindamenn telja sig hafa fundið breytingu í litningi sem skýrir þá undarlegu hegðun sumra að ganga í svefni.

Greint er frá niðurstöðunum í tímaritinu Neurology en vísindamennirnir segjast hafa fundið breytingu í litningi númer 20 sem skýri fyrirbærið. Vísindamennirnir rannsökuðu fjölskyldu þar sem svefnganga hefur verið algeng í fjóra ættliði og fundu út að svefngenglarnir voru allir með sama frávikið.

Fyrstu setningar greinar BBC: Sleepwalking 'linked to chromosome fault'

Scientists believe they have discovered the genetic code that makes some people sleepwalk.

By studying four generations of a family of sleepwalkers they traced the fault to a section of chromosome 20.

Carrying even one copy of the defective DNA is enough to cause sleepwalking, the experts told the journal Neurology.

Ágrip frumheimildar:

Novel genetic findings in an extended family pedigree with sleepwalking  A.K. Licis, MD,D.M. Desruisseau, BS,K.A. Yamada, MD, S.P. Duntley, MD and C.A. Gurnett, MD, PhD doi: 10.1212/WNL.0b013e318203e964 Neurology January 4, 2011 vol. 76 no. 1 49-5


Erindi: Ester Rut og hagamýsnar

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar hefja göngu sína á ný eftir nokkura ára hlé.

Í fyrsta erindinu mun Ester Rut Unnsteinsdóttir fjalla um rannsóknir sínar á hagamúsum á Kjalarnesi. Ester vinnur að rannsóknum á samsetningu músastofnsins, nýliðun og öðrum þáttum. Af vefsíðu hennar - sem lýsir daglegu amstri rannsóknanna ágætlega:

Meginmarkmið rannsóknarinnar er tvíþætt: Annars vegar að varpa ljósi á vistfræði og árstíðasveiflur hagamúsastofns á blönduðu búsvæði (strandlengja, óræktaður mói, tún með skurðum) á Suðvesturlandi. Hins vegar að bera saman vistfræði og árstíðarsveiflur hagamúsastofna í tveimur ólíkum ræktunarlöndum. Annað svæðið er blandaður skógur og hitt er tún með skurðum og fjöruvist. Leitað verður svara við ýmsum vistfræðilegum spurningum varðandi lífssögu og afkomu hagamúsanna, svo sem:
  • Að kanna þéttleika í hagamúsastofnunum og hvort munur sé á stofnstærð eftir árstímum og búsvæðum.

  • Að athuga lífslíkur í hagamúsastofninum og hvort munur sé á lifun kynjanna eftir árstímum.

  • Að fylgjast með vexti, kynþroska og tímgun hagamúsa á hvoru búsvæði fyrir sig.

Ester stundar doktorsnám við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og er einnig forstöðumaður Melrakkaseturs Íslands á Súðavík.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Lélegar fréttir geta drepið fólk

Þetta blogg sinnir meðal annars vöktun á gæðum og áreiðanleika lífvísindafrétta á mbl.is og vísir.is. Mörgu er þar áfátt, algengt er að fréttir séu hraðþýddar úr erlendum miðlum, oftast án undirstöðuþekkingar á viðkomandi sviði vísinda og jafnvel grunnþekkingar á erlendum málum.

Áreiðanlegar vísindafréttir skipta máli, því þær geta mótað ákvarðanir fólks, varðandi matvæli, lífstíl, hegðan og lækningar (eða skottulækningar).

Í þessari "frétt" mbl.is er brugðið upp forniðurstöðum finnskrar rannsóknar um að mögulega séu tengsl á milli svínaflensubólusetninga og drómasýki. Eini varnaglinn er í lítilli klausu, um að aðrir þættir komi einnig að málinu. Ekki er vitnað í aðrar rannsóknir eða rætt við sóttvarnarlækna hérlendis. Þeir brugðust við með grein í fréttablaði dagsins í dag Veldur bólusetning drómasýki?

Á árinu 2010 varð vart við talsverða aukningu í sjúkdómnum hjá einstaklingum yngri en 18 ára í Finnlandi og Svíþjóð en einnig sást aukinn fjöldi á Íslandi. Í Finnlandi höfðu flestir sjúklinganna verið bólusettir gegn svínainflúensu enda var almenn þátttaka í bólusetningu þar mjög góð eða um og yfir 70%. Í Svíþjóð hins vegar sást aukningin bæði í bólusettum og óbólusettum einstaklingum og á Íslandi var rúmlega helmingur sjúklinganna bólusettur en þátttaka í svíninflúensubólusetningunni hér á landi var um 50%. Benda þessar niðurstöður frá Svíþjóð og Íslandi því ekki til þess að bólusetningin gegn svínainflúensu tengist drómasýki

Daily Telegraph ræddu við Breskasóttvarnarráðið sem sagði að ekkert mynstur hefði sést utan skandinavíu. (Children given swine flu shots have an increased risk of narcolepsy, Finnish experts find Read more: http://www.dailymail.co.uk/news/article-1352565/Swine-flu-shots-Increased-risk-narcolepsy-children-Finnish-experts-find.html#ixzz1CnQxOj6S Fyrirsögnin er reyndar í æsifréttarstíl en umfjöllunin mun vandaðari en hjá mbl.is)

The UK's Medicines and Healthcare products Regulatory Agency (MHRA) said a link between vaccination and narcolepsy had not been confirmed. An MHRA spokesman explained: 'This signal has not been seen outside of Scandinavia and the exact reason why more reports of narcolepsy have been identified in Finland needs further scrutiny. 'As noted in the Finnish report, there has also been an increase in the number of narcolepsy reports in unvaccinated people in Sweden and Iceland, so a relationship with the vaccine is far from clear cut.'

Það er því litlar líkur á að svínaflensubóluefni (ath. ekki svínaflensulyf) eigi þátt í svefnsýki.

Nokkrar spurningar sitja eftir. 1. Af hverju fundust tengsl milli bólusetninga og drómasýki í Finnlandi en ekki annarstaðar? Það er möguleiki að tengslin séu raunveruleg í finnlandi, en séu tilkomin vegna einhvers annars þáttar (umhverfis eða óþekktrar sýkingar). Það er einnig möguleiki að tengslin í Finnlandi séu vegna tilviljunar, einfallt óhappakast teninganna. Ef við skoðum tengsl drómasýki og svínaflensubólusetningar í 20 löndum, má búast við slíku óhappakasti einu sinni.

2. Hvers vegna eru fjölmiðlar svona viljugir að bera á borð orðróm og hálfkveðnar vísur? Fjölmiðlar tóku þátt í að blása upp vafasamar niðurstöður læknisins Andrew Wakefield sem hélt því fram að það væru tengsl á milli MMR bólusetninga (blanda bóluefna fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum) og einhverfu. Ítrekaðar rannsóknir afsönnuðu tilgátu Wakefields, en engu að síður fékk hún byr undir báða vængi frá fjölmiðlum. Sú umfjöllun leiddi til nútíma þjóðsögu, og þess að að tíðni bólusetninga dróst saman á Vesturlöndum með tilheyrandi áhættu á alvarlegum sýkingum og farsóttum. Ben Goldacre bendir á aukna tíðni mislinga og hettusóttar á Bretlandseyjum síðasta áratug (The media’s MMR hoax). Þetta er ekki bundið við Bretland, samanber aðrar bloggfærslur við frétt þessa. Það er því mikil ábyrgð lögð á axlir fjölmiðla um ábyrga og upplýsta umræðu um læknisfræðileg og líffræðileg málefni.  Ykkar er að dæma hvort þeir standi undir þeirri ábyrgð.


mbl.is Líkur á að svínaflensulyf eigi þátt í svefnsýki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður pistill um bílastæði við Háskóla

Árni Davíðsson ritaði öndvegis pistil á bloggsíðu sinni í síðasta mánuði um kostnað vegna bílastæða (Jafnræði til náms eða jafnræði til bílastæða?). Hann segir meðal annars:

Ríkisháskólarnir hafa farið fram á 20.000 kr. hækkun innritunargjalda úr 45.000 í 65.000 en ekki fengið heimild til þess frá menntamálaráðherra og í kjölfarið boða þeir niðurskurð á skólastarfi....

Ýmislegt bendir þó til að skólana vanti ekki peninga. Þeir veita til dæmis allir nemendum og kennurum ókeypis bílastæði. Þó getur engin haldið því fram að þessi stæði séu ókeypis né landið sem fer undir þau. Þau hafa öll verið borguð af skólunum eða af fasteignapeningum þeirra og leggja þar með fjárhagslegar byrðar á rekstur skólanna. Undantekningin er kannski HR en þar kostaði Reykjavíkurborg gerð bílastæðanna á lóð HR. Þar liggja bestu upplýsingarnar fyrir um kostnaðinn sem af bílastæðum hlýst. Þau munu hafa kostað um 300 milljónir króna skv. áætlun. Til viðbótar var reistur heill vegur fyrir um 500 milljónir króna til að koma umferð í skólann. Lífsstíll þeirra sem mæta á bíl í HR var niðurgreiddur um 300 milljónir fyrir stæðin og er það skattlaus og gjaldfrí niðurgreiðsla á einum ákveðnum samgöngumáta umfram aðra samgöngumáta. Þá mætti telja Nauthólsveg með í dæminu og nemur þá niðurgreiðslan allt að 800 milljónum króna.

Hvernig væri að hætta að niðurgreiða þennan lífsstíl, að mæta á bíl í skólann? Það er einfaldlega hægt að taka 15.000 kr. gjald á hverri önn fyrir bílastæði og þar með gætu skólarnir fengið sömu upphæð og þeir fengju með hækkun innritunargjalda. Sennilega er sanngjarnt gjald fyrir einfalt bílastæði til að standa undir landverði, gerð og rekstri í langtímaleigu í kringum 30.000 kr. á ári. Í miðborginni er dæmi um að starfsmenn fái 68.000 kr. á ári í skattlaus hlunnindi  til að þeir geti greitt fyrir bílastæði. 

Ég er sammála Árna um að bílalífstíllinn kostar peninga og hann kostar nemendur einnig í gæðum náms.

Ef nemendur mættu velja, hvort veldu þeir betra nám eða ókeypis bílastæði?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband