Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Eyðilegging á erfðamenginu skóp einkenni mannsins

Stökkbreytingar má skipa gróflega í þrjá flokka. Jákvæðar breytingar betrumbæta genin, og oft eru þær gripnar af náttúrulegu vali sífellt lagar stofna að umhverfis sínu. Hlutlausar breytingar, hafa engin áhrif á hæfni einstaklinganna og eru þess vegna algengar í stofninum og eru þorri þess breytileika sem sést á milli einstaklinga. Þriðja gerðin eru skaðlegar breytingar, sem skemma genin eða stjórnraðir þeirra, og hafa oftast neikvæð áhrif á hæfnina.

Hið forvitnilega er að stundum hafa stökkbreytingar sem skemma gen eða stjórnsvæði þeirra jákvæð áhrif á hæfni. Kingsley og félagar lýsa (í grein í Nature vikunnar) 510 svæðum sem vantar í erfðamengi okkar, en sem finnast í simpönsum og flestum öðrum spendýrum. Svæðin sem um ræðir eru stjórnsvæði, sem eru nauðsynleg til að kveikt sé og slökkt á genunum á réttum tíma og réttum stað (t.d. í hjarta eða útlimavísi). Hér er um að ræða 510 stökkbreytingar sem hafa skaddað erfðamengi forföðurs okkar, og leitt til þess að tilteknar genaafurðir eru þá ekki myndaðar á ákveðnum stað í þroskun mannsfóstursins eða í fullorðnum einstaklingum.

Munur á erfðasamsetningu manns og simpansa getur útskýrt einkenni mannsins og, ef við leyfum okkur skrautmælgi, hvað það er að vera mennskur?

Áður er lengra er haldið er rétt að vitja fyrirsögn pistilsins: Eyðilegging á erfðamenginu skóp einkenni mannsins. Eyðileggingin vísar til skaðlegra stökkbreytinga í erfðamenginu og "skóp" er sannarlega of sterkt til orða tekið. Nákvæmara væri að segja Skaðlegar breytingar í erfðamenginu gætu hafa skipt máli fyrir þróun mannsins, og ég viðurkenni að hafa hnoðað fyrirsögnina til að ná athygli fólks - en vonandi einnig inntaki pistilsins.

Kingsley og félagar kanna starfsemi nokkura þessara stjórnsvæða. Eitt svæðið er fyrir framan GADD45G genið, sem er krabbameinsbæligen (tumor suppressor gene). Þeir erfðabreyttu músum og komust að því að genið tengist að öllum líkindum vexti ákveðinna svæða í heila. Annað svæði er á litningi X í nánd við gen sem skráir fyrir Androgen viðtakanum (sem nemur testosterón). Það svæði virðist tengjast veiðihárum og skaufabroddum (mín dónaþýðing á penile spines). Um er að ræða útvöxt, nokkurskonar broddagarð,  við rót getnaðarlims nokkurra spendýra. Vísindamenn eru ekki sammála um hlutverk skaufbrodda, en nokkrar tilgátur eru á lofti (að þeir örvi karldýrið, espi kvendýrið, skaddi kvendýrið, og að síðustu að þeir séu notaðir til að losa um tappa í leggöngum - hjá mörgum tegundum sem stunda fjölkvæni ljúka karldýr oft leiknum á því að stinga tappa í gatið, til að draga úr líkunum á því að önnur karldýr geti frjóvgað kvendýrið). Það er viðbúið að þessi hluti rannsóknarinnar veki einhverja kátínu og jafnvel öfund. Ég læt hér staðarnumið því aðrir pistilbotnar sem mér koma í hug blanda saman erfðabreytingum og kynórum á ósiðlegan hátt.

Viðbót 15. mars 2011.

Tveir bloggarar fjalla um þennan pappír. John Hawks (við Wisconsin háskóla í Madison) skrifar The real "junk" DNA og A primate of modern aspect er öllu gagnrýnni: Penis Spines, Pearly Papules, and Pope Benedict’s Balls. Mæli eindregið með báðum pistlum.

Ítarefni:

BBC How man 'lost his penile spines'

CNN How the human penis lost its spines By Elizabeth Landau

Cory Y. McLean o.fl. Human-specific loss of regulatory DNA and the evolution of human-specific traits Nature Volume:471,Pages:216–219 doi:10.1038/nature09774

Leiðrétting: Tengillinn á grein McLean vísaði fyrst á greinina í heild sinni í Nature (sem þarf að greiða fyrir aðgang að), nú vísar hann í ágrip greinarinnar á Pubmed.


Hinn einstaki Pétur M. Jónasson

Í gær (9. mars 2011) var haldin samkoma í salnum í Kópavogi, til heiðurs Pétri Mikkel Jónassyni níræðum og að því tilefni að Þingvallavatnsbókin er komin út á ensku. 

Pétur M. Jónasson er einn ötulasti vatnalíffræðingur Íslands. Hann dvaldist sem drengur hjá afa sínum og ömmu á Miðfelli við Þingvallavatn, og fyrir honum lá að rannsaka lífríki vatnsins. Pétur starfaði lengstum við Kaupmannahafnarháskóla og var einnig forseti Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga, sem telur um 3000 manns. Hann er nú prófessor emeritus við Kaupmannahafnarskóla og heiðursprófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ.

Thingvallavatn-book

Hann stundaði miklar rannsóknir hérlendis, fyrst á Mývatni og Laxá, einnig síðar á lífríki Þingvallavatns. Pétur ritstýrði bók um grunnrannsóknir á lífríki Þingvallavatns, sem út kom árið 1992. Árið 2002 kom síðan út á Þingvallavatn - undraheimur í mótun, í ritstjórn Péturs og Páls Hersteinssonar (prófessors í spendýrum við HÍ). Bókin er einstaklega vel heppnuð og hlaut verðskuldað Íslensku bókmenntaverðlaunin. Nú er bókin komin út á ensku, bætt og aukin, undir heitinu Thingvallavatn – a unique world evolving. Af tilefni útgáfunar flutti Bror Jonsson vatnalíffræðingur hjá Norsk Institutt for Naturforskning erindi í Salnum í gær, en hann stundaði einmitt rannsóknir í Þingvallavatni á níunda áratugnum.

Egill Helgason tók stórskemmtilegt viðtal við Pétur, sem sýnt var í Kiljunni í gærkveldi (byrjar rétt eftir miðbik þáttarins). Einnig var rætt við Pétur í spegli gærdagsins (viðtalið hefst um miðjan þátt).

Hann færði sterk rök fyrir verndun vatnsins, og tiltók bæði hættur frá umferð, rotþróm og barrtrjám. Fyrir tilstuðlan Péturs og fleiri framsýnna manna var Þingvallavatn í heild sinni, ekki bara ósinn við Öxará, sett á heimsminjaskrá UNESCO. Það er mikilvægt að standa vörð um þá gersemi sem Þingvallavatn er.

Ítarefni:

Grein Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur á náttúra.is (2006) Pétur M. Jónasson - Lífríki Þingvallavatns stefnt í voða með fyrirhuguðum Gjábakkavegi.

Mesti auður Íslands grein í  Morgunblaðin frá 5. júní 1994 - höfundur ekki tiltekinn.


Fjölbreytileiki persónugerða

Heimsmynd gríska heimspekingsins Plató var sú allir menn væru tilbrigði við sama guðlega stefið. Munurinn á milli einstaklinga væri ekki raunverulegur, heldur væri munurinn suð eða hismi sem hyldi hina guðlegu mynd sem byggi í öllum. Þessi heimspeki einblínir á týpur, en álítur fjölbreytileikan óraunverulegann.

Charles R. Darwin og Alfred R. Wallace kollvörpuðu þessari sýn þegar þeir áttuðu sig á því að fjölbreytileikinn er raunverulegur. Munur á milli einstaklinga skiptir máli, fyrir þá í lífsbaráttunni og fyrir þróun tegundarinnar sem þeir tilheyra.

Þetta á einnig við um persónugerðir mannfólks. Við vitum öll að persónuleikar fólks eru mismunandi (A og B gerðir er algeng einföldun), andlegir hæfileikar ólíkir (minni, þrívíddarskynjun, o.s.frv.) og félagslegir þættir einnig (félagsþörf, lyndi, forvitni, skopskyn og þar fram eftir götunum). Persónuleikinn er ofinn úr mörgun þáttum. Fyrir tiltekna þætti má finna einstaklinga á sitthvorum enda skalans, t.d. eru sumir ákaflega léttlyndir á meðan aðrir eru daprir flestum stundum; sumir hafa límheila, muna ótrúlegustu staðreyndi og atburði, á meðan aðrir muna tæplega nafn sitt í upphafi dags. Ýktustu tilfellin vekja sannarlega forvitni okkar og stundum samúð, eins og fólkið sem Oliver Sacks fjallar um í bókum sínum. En aðalspurningin sem fagmenn á þessu sviði takast á við er hvenær á að skilgreina tilfelli sem sjúkdóm eða sérstakan persónuleika?

Robert Saplosky fjallaði um hið samfellda róf persónugerða í Trouble with Testosterone. Einhver sem væri e.t.v. greindur af lækni með geðhvarfasýki í dag, hefði ekki fengið greiningu fyrir 100 árum og gæti hafa verið galdralæknir fyrir 5000 árum. Robert leggur einnig áherslu á mikilvægi samspils umhverfis og erfða/líffræði. 

Animal behavior--from obsessive-compulsive disorder to sexual orientation--is not dictated solely by our genes or by our upbringing. "No biology. No environment," he writes. "Just the interaction between the two."

Robert Whitaker, bandarískur blaðamaður sem hefur rannsakað aukningu á örorku vegna geðsjúkdóma í Bandaríkjunum, leggur líka áherslu á fjölbreytileika persónugerða í nýlegu viðtali við Fréttablaðið (birtist 5. mars 2011). Whitaker gaf út bókina Mad in America árið 2002 og Anatomy of an epidemic í fyrra, og var boðið að halda fyrirlestur hérlendis af Hugarafli. Úr grein Fréttablaðsins - vitnað í R. Whitaker.

Hann segir nítjándu aldar skáld lýsa fallega þeim fjölbreyttu tilfinningum og hegðun sem mannfólkið sýnir. "Fólkið var ekki brjálað eða klikkað það bara hegðaði sér ekki allt eins. Og sá sem var ekki eins, fékk ekki endilega lyf heldur fékk að vera eins og hann var. Ég held að við þurfum að sýna mannlegu eðli aðeins meiri þolinmæði."

Kjarninn í málflutningi Whitakers er að þrátt fyrir aukningu í meðhöndlun á geðsjúkdómum með sérhæfðum geðlyfjum hefur örorka þeirra vegna aukist á undanförnum áratugum í Bandaríkjunum. Vísindalegar framfarir verða þegar einhver greinir mótsögn og leitar skýringa. Hér er sannarlega um mótsögn að ræða, sem er ekki hægt að útskýra bara með betri greiningu á sjúkdómum. Vitanlega er möguleiki að í fortíðinni hafi fólk með alvarlega geðraskanir ekki fengið stuðning eða greiningu, og þurft að tjónka við sín veikindi í einsemd. En það er einnig möguleiki að læknasamfélagið hafi ofgreint eðlileg frávik í persónugerð eða depurð og ýtt fólki og jafnvel börnum út í lyfjameðferðir sem geri ógagn frekar en gagn. Úr grein Fréttablaðsins.

Whitaker hefur miklar áhyggjur af bandarískum börnum en sá hópur barna þar í landi sem notar geðlyf fer sístækkandi. "Í Bandaríkjunum var farið að gefa börnum rítalín og geðlyf rétt eftir miðjan 9. áratug síðustu aldar. Þá voru 16.000 börn öryrkjar vegna geðsjúkdóma. Í dag er þessi tala komin upp í 600.000. Og það sem verra er, mörg af þessum börnum nota geðlyf allt sitt líf og halda áfram að vera öryrkjar," segir Whitaker og telur að þarna sé verið að búa til vítahring.

"Sú þróun sem á sér stað hjá ykkur á Íslandi gefur til kynna að þið gætuð verið á sömu leið og við í Bandaríkjunum. Þar er mikilvægast fyrir ykkur að rannsaka og skoða hvort börnum með geðraskanir sé að fara fram og ná bata með þessari lyfjanotkun. Erum við að hjálpa þeim eða erum við að skapa frekari vandamál fyrir þau í framtíðinni?"

Steindór J. Erlingsson hefur skrifað um þetta efni í blöð hérlendis og meðal annars um ADHD. Í greininni  Er ADHD ofgreint?) er meðal annars fjallað um nýlega íslenska rannsókn:

Í grein eftir Helgu Zoëga, Matthías Halldórsson fyrrverandi aðstoðarlandlækni og fleiri, sem birtist á síðasta ári í Journal of Child and Adolescent Psychopharmacology, koma fram sláandi upplýsingar um geðlyfjaneyslu barna og unglinga hér á landi....

Í ljósi mögulegra neikvæðra afleiðinga af langvarandi neyslu ADHD lyfja er mikilvægt að einungis þeir sem þurfa nauðsynlega á meðferðinni að halda fái hana. Það hlýtur því að vera talsvert áhyggjuefni þegar einn af höfundum skilgreiningarinnar á ADHD, bandaríski geðlæknirinn Allen Frances, viðurkenndi ítrekað fyrr á þessu ári í bandarískum fjölmiðlum að hún hafi stuðlað að „fölskum faraldri“. Frances segir ADHD-netið hafa of þrönga möskva. Það hafi „fangað marga ‚sjúklinga‘ sem hefði líklega vegnað mun betur utan geðheilbrigðiskerfisins“. Ástæða þess að Frances getur haldið þessu fram er að við greiningu á ADHD, eða öðrum geðröskunum, er stuðst við huglæga spurningalista en ekki hlutlæg líffræðileg próf.  ...

Í september hefti Journal of Health Economics birtust tvær óháðar rannsóknir sem varpa skýru ljósi á þessa hættu. Í báðum rannsóknunum var kannað hvort aldur innan árgangs hefði áhrif á hvort börn eru greind með ADHD. Þegar horft er á einstaklinga sem eru að hefja skólagöngu sína þá eru yngstu börnin innan árgangsins, skv. annarri rannsókninni, 60% líklegri til þess að fá ADHD greiningu en þau sem eldri eru. Þegar þessir einstaklingar eru komnir upp í 6. og 8. bekk er tvisvar sinnum líklegra að þeir séu á ADHD lyfjum en þeir sem eldri eru innan árgangsins. Höfundar beggja rannsóknanna telja þetta skýra vísbendingu um að „ADHD einkennin“ endurspegli einungis tilfinninga- og vitsmunalegan vanþroska yngstu nemendanna.  Niðurstaða beggja rannsóknanna er því sú að u.þ.b. 20% þeirra barna og ungmenna í Bandaríkjunum sem fá ADHD greiningu séu ranglega greind.   

Ég tel það vera grafalvarlegt mál ef við erum að ofgreina geðsjúkdóma hjá börnum og í kjölfarið dæla í þau lyfjum sem vitað er að hafa mörg hver alvarlegar aukaverkanir. Krafan hlýtur að vera sú að strangari reglur séu settar um lyfjapróf, skorður séu settar á geðlyfjaávísanir, sérstaklega til barna, og að meiri rannsóknir fari fram á notagildi félagslegrar meðferðar í meðhöndlun á alvarlegum geðröskunum. Einnig finnst mér mikilvægt að dáðst að því hversu fjölbreytilegar persónugerðir fólks er. Tilvist Bangsímons í skóginum hefði örugglega verið fátækari ef Eyrnaslappa hefði ekki notið við.

ítarefni:

Greinar Steindórs J. Erlingssonar um geðröskun.

Vefsíða Robert Whitaker

Fyrirlestur Robert Whiataker á Íslandi 19 febrúar 2011. http://www.ustream.tv/recorded/12796315


Allir í húsdýragarðinn

Þar sem Ísland vantar almennilegt náttúrugripa og vísindasafn taka aðrir upp kyndilinn. Náttúruminjasafn Kópavogs er hreinasta gersemi og Húsdýragarðurinn hefur gert stórkostlega hluti með fiskatjaldinu og núna skriðdýrasýningunni. Ég hvet alla til að kíkja í garðinn og berja eðlurnar augum.

Að auki vill ég minnast á nokkra forvitnileg náttúruvísindaleg atriði, afsakið hversu sundurlaust þetta er.

Í gær tilkynnti náttúrustofa Suðurlands að fjörtíu ára fýll hefði fundist í neti. Sjá umfjöllun mbl.is og viðtal í morgunútvarpi Rásar 2 við Sigurð S. Snorrason um hvað dýr verða gömul.

7 og 14. mars mun RÚV sýna þætti um uppruna lífsins.

Í þessari bresku heimildamynd, sem er í tveimur hlutum, veltir David Attenborough því fyrir sér hvernig fyrstu dýrin á jörðinni urðu til.

Á glæsilegum ferli sínum, sem spannar orðið meira en hálfa öld og fjölmargar glæsilegar þáttaraðir, er David Attenborough orðinn einn virtasti fræðimaður heims um lífið á jörðinni. Og nú fjallar hann í þessum tveimur þáttum um þau dýr sem eðlilega er hvað minnst vitað um, fyrstu lífverurnar á plánetunni. Þetta er mikil saga sem nær yfir milljónir ára, frá dögun lífsins í „djúpum vítis“ til fyrstu fótanna sem stigu á land.

Taugalíffræði og erfðabreyttar lífverur Vísindaþátturinn 22. febrúar 2011

Pétur Henry Petersen, líffræðingur við Háskóla Íslands, sagði okkur frá rannsóknum sínum í taugalíffræði, fjármögnun vísindarannsókna. Einnig var fjallað um glórulausa þingsályktunartillögu um erfðabreyttar lífverur.

Fyrir harða líffræðinga og aðra öfgamenn bendi ég að síðustu á fyrirlestur á vegum liffræðistofnunar HÍ, sem fram fer föstudaginn 4. mars 2011 (kl 12:30 í stofu 131 í Öskju - náttúrufræðahúsi HÍ). Tilkynning:

Í þessari viku mun Ubaldo Benitez Hernandez  halda erindi sem kallast Pan I genið í íslenskum þorski: rannsókn á þróunarfræðilegum og landfræðilegum þáttum. (The Pantophysin I (Pan I) Locus in Atlantic Cod (Gadus morhua) in Iceland: An Exploration of Evolutionary and Spatial Relations. - erindið verður flytt á ensku).

Ubaldo Benitez Hernandez er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Hann stundar rannsóknir á þorski, sérstaklega á Pan I geninu sem sýnir mjög sterka fylgni við dýpi. Þorskar með ákveðna arfgerð hafast aðallega við í djúpsjó, á meðan önnur arfgerð er í hærri tíðni á grunnslóð (sjá mynd úr grein Ubaldos í Plos One) Genið er sérstakt að því leiti að gerðirnar tvær eru mjög ólíkar, og ljóst er að genið hefur verið undir sterku náttúrulegu vali. Rannsókn Ubaldos miðar að því að rannsaka frekar áhrif náttúrulegs vals á genið, með því að bera saman tíðni arfgerða hringinn í kringum landið (af mismunandi dýpi) nokkur ár í röð, skoða DNA breytileika innan gensins í nokkrum einstaklingum og greina gögn um landfræðilega dreifingu, dýpi og þróunarsögu stofnsins.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema í þessu tilfelli).

Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

mbl.is Skriðdýrasýningin slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlegur fyrirlestur John Ioannidis

viewImage?facultyId=18745&type=bigger&showNoImage=true

John Ioannidis (sjá mynd af vef Stanford Háskóla) er vísindalegur krossfari. Hann horfir gagnrýnum augum á starf og niðurstöður vísindamanna og hefur afhjúpað brotalamir og innbyggða galla í hinni vísindalegu framkvæmd.

Árið 2001 kom út einföld grein í Nature genetics Replication validity of genetic association studies - eftir hinn þá lítt þekkta Ioannidis. Leiðbeinandi minn prentaði greinina út fyrir alla í rannsóknarhópnum og sagði að þetta væri skyldulesning. Nú hefur verið vitnað í greinina 1100 sinnum og Ioannidis hefur unnið stórkostlegt starf á snertifleti tölfræðinnar og erfða- og læknisfræði. Í greininni frá 2001 benti hann á að mannerfðafræðingar hefðu um árabil oftúlkað fylgnigreiningar á einstökum genum. Á tímabili vissu mannerfðafræðingar ekki í hvorn fótinn átti að stíga, því erfðatengsl birtust og hurfu eins og blikkandi umferðaljós. Gagnrýni Ioannidis og framfarir í erfðamengjafræði leiddu til þess að vinnubrögð mannerfðafræðinga eru nú mun betri, fleiri hópar eru skoðaðir, tölfræðin betri og niðurstöðurnar eru traustari.

Magnús S. Magnússon sendi nýverið grein úr Newsweek á póstlista starfsmanna háskólans, Why Almost Everything You Hear About Medicine Is Wrong (eftir Sharon Begley January 24, 2011). Í henni er fjallað um starf Ioannidis, en hann hefur nú tekið til við að skoða aðrar læknisfræðilegar greinar finnur dæmi um sömu oftúlkanir og hjá mannerfðafræðingum fortíðar. Þessar niðurstöður eru einnig kynntar í fyrirlestri sem hann hélt við NIH árið 2008. John ræðir vissa annmarka á rannsóknum og nálgunum mjög vel í fyrirlestrinum. Það er of oft sem fólk leyfir sér að skipta um vinkil í miðri rannsókn - bara til þess að finna einhverja jákvæða niðurstöðu. Mig grunar að þetta sé mannlegt vandamál, að við heillumst frekar að jákvæðum niðurstöðum en neikvæðum. Krafan hans er um betri tölfræði og heiðarlegri nálgun á vandamálin, eins og forskráning á lyfjaprófum sem krafist er nú (þótt útfærslan mætti vera betri!)

Það er bráðnauðsynlegt að horfa gagnrýnið á læknisfræðilega þekkingu. Einnig er mikilvægt að Ioanndis, eða aðrir krossfarar reyni að finna út hversu útbreitt vandamálið er (hvaða önnur fræðasvið er plöguð af sömu pest?. Einnig þarf að meta gagnrýnið þau kerfi sem notuð er til að útdeila rannsóknarfé og í lýðheilsu. Það kann að vera að við (sem samfélag og vísindasamfélag) höfum veitt fé of glannalega í ákveðin málefni, en vanrækt önnur. Félagi minn í Chicago fór í doktorsnám í hitabeltissjúkdómum, sem var lengi vel algerlega vanrækt svið. Það eru örugglega fleiri slík, sem núverandi kerfi mun ekki finna af því að yfirmenn NIH er með sínar áherslur og áhyggjur (gamlir, feitir, hvítir kallar - sem vilja hvorki skalla né krabbamein). Mikilvægast er að finna leiðir til að bæta úr, og skerpa á vísindalegri þjálfun ungs fólks. 

Mig grunar að lausnin sé sú að vísindamenn temji sér vandaðari vinnubrögð og sérstaklega betri tölfræði. Það er ekki nóg að fá marktækt p-gildi, því uppsetning tilraunar og fjöldi þátta sem athugaðir voru skipta öllu máli.

Þessi fyrirlestur og greinar Ioannidis um kvikul erfðatengsl verða skyldulesning nemenda sem skrá sig í mannerfðafræði og erfðamengjafræði í haust.

Ítarefni:

John P.A. Ioannidis, Evangelia E. Ntzani, Thomas A. Trikalinos & Despina G. Contopoulos-Ioannidis Replication validity of genetic association studies Nature Genetics  29, 306 - 309 (2001) doi:10.1038/ng749


Sviptur doktorsnafnbót

Karl-Theodor zu Guttenberg var sviptur doktorsnafnbót af háskólanum í Bayreuth, en hann varði ritgerð þar árið 2006. Það er ekki nákvæmt að segja (sbr. frétt mbl.is) að hann hafi "sagt af sér í kjölfar ásakana um að stór hluti doktorsritgerðar hans hefði verið fenginn úr öðrum ritum án þess að heimilda hefði verið getið".

Hann stundaði RITSTULD - gögnin eru óumdeilanleg (http://www.sueddeutsche.de/app/subchannel/politik/guttenberg/). Ritstuldur er e.t.v. ekki glæpur í augum ritstjórnar mbl.is en litið mjög alvarlegum augum í Þýskalandi. Um 23000 þýskir vísindamenn sendu Angelu Merkel bréf, vegna þess að hún hafði lýst yfir stuðningi við Karl-Theodor, og kröfðust afsagnar hans.

zu Guttenberg, nú kallaður Googleberg í Þýskalandi, virðist samt ekki vera tilbúinn að játa glæp sinn. Hann sagði (í enskri þýðingu) "I did not deliberately cheat, but made serious errors,"  Hann sagði ítrekað síðustu vikur að gallar í heimildavinnu hefðu komið til vegna álags og skorts á vandvirkni. Hvernig í ösköpunum er hægt að klippa og líma heilu málsgreinarnar inn í ritgerðina sína og segja að það hafi ekki verið af ásetningi? Maður glutrar ekki textabrotum inn í rafræn skjöl, eins og sultu á morgunblaðið.* Það sem hann gerði rétt var að biðja skólann um að afturkalla doktorsprófið sitt og segja af sér.

zu Guttenberg er bara toppurinn á ísjakanum.

Það er öruggt að hellingur af fólki hafi útskrifast með doktorspróf og meistarapróf á síðustu árum, og að ritgerðir þeirra séu stolnar að meira eða minna leyti. Vandamálið er margþætt og viðbrögðin, hingað til a.m.k. frekar aumingjaleg. Ég vil bara bæta við tvennu í þessu samhengi. Fyrir áramót las ég pistil um leigupenna, sem skrifar lokaritgerðir fyrir ameríska nemendur gegn vægu gjaldi. Það sem var skelfilegast við þetta voru bréfin sem kúnnanir sendu leigupennanum, þau afhjúpuðu letina, siðleysið, vankunnáttuna og skeytingarleysið.

Í öðru lagi þá skiptir prófið sjálft ekki öllu máli, heldur það hvað fólk gerir við sína þjálfun. Þú getur fengið vinnu út á virðulegt próf og fallega ferilskrá, en þú þarft að sanna þig til að halda þeirri vinnu. Einhverjir myndu telja það ásættanlega áhættu að "fegra" ferilskránna sína með uppdikteruðu prófi eða "fita" meistarariterðina sína með efni frá traustari heimild til þess að fá góða vinnu, en ég myndi reka svoleiðis manneskju á stundinni.

Ítarefni

Charles Hawley The Downfall of Defense Minister Guttenberg Der Spiegel - international version. 03/01/2011

Helen Pidd German defence minister resigns over plagiarism row The guardian 03/01/2011

*Ég gæti skilið þetta ef hann væri ásakaður um að hafa misst hindberjasultu en ekki bláberjasultu á Fréttatímann sinn.

Leiðrétting: setti "til þess að fá góða vinnu" inn í siðustu setninguna.


mbl.is Guttenberg segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband