Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Vibrio cholerae í alþjóðlegu og íslensku samhengi - FRESTAÐ

Erindinu hefur verið frestað af óviðráðanlegum ástæðum. Það verður flutt í mars eða apríl.

Eva Benediktsdóttir dósent við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ mun fjalla um Vibrio cholerae í alþjóðlegu og íslensku samhengi föstudaginn 17. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10).

Vibrio cholerae er baktería sem veldur kóleru, viss afbrigði valda slæmum faröldrum en önnur hafa valdið stöku tilfellum af magakveisum, eyrnabólgum o. fl. einkennum. Bakterían finnst í volgum hálfsöltum sjó eða vötnum á og í ýmsum lífverum. Menn greinir á hvort kólerusýkingar eigi uppruna sinn í bakteríum sem eðlilega lifa í sjónum, eða hvort bakterían dreifist um heiminn með saurmengun. Á Íslandi hefur kólerubakterían fundist víða við strendur þar sem jarðhitavatn streymir í flæðarmálið. Niðurstöður athugana á V. cholerae á Íslandi verða sýndar og ræddar. Þeir stofnar sem hér finnast framleiða ekki aðaleitur bakteríunnar, en marga aðra sýkiþætti. Þeir eru ekki af einum „klón“ eða stofni, sem bendir til þess að bakterían sé hér eðlilegur hluti náttúrunnar og hafi verið hér um aldir. Fundur V. cholerae hér, þar sem kólera hefur aldrei greinst í mönnum, rennir stoðum undir það að bakterían lifi eðlilega í sjónum og saurmengun af mannavöldum hafi ekkert að gera með dreifingu hennar.

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.

Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Umhverfi, erfðir og andlegir eiginleikar

Eilífðarspurningin er sú hvort að erfðir eða umhverfi hafi meiri áhrif eiginleika mannfólks?

Breytileiki í sumum eiginleikum er nær eingöngu undir áhrifum erfðaþátta, á þetta við um ýmis útlitseinkenni eins og fingraför (sem skipta litlu sem engu hæfni einstaklinga).

Breytileiki í öðrum eiginleikum er nær eingöngu undir áhrifum umhverfisþátta. Þetta á iðullega við eiginleika sem eru nátengdir hæfni, t.d. afkvæmafjölda og frjósemi.

Síðan eru allir hinir eiginleikarnir sem eru breytilegir vegna áhrifa gena og umhverfis, og samspils gena og umhverfis.

Þriðji meginþátturinn er síðan tilviljun, sem getur haft veruleg áhrif á suma eiginleika. Tilviljun veldur því t.d. að andlit eru aldrei fullkomlega samhverf. Andlitin okkar eru með sömu arfgerð, og þroskast í sama umhverfi, en samt er smávægilegur munur á hægri og vinstri hlið. Í sumum tilfellum geta áhrif tilviljunar verið umtalsverð, t.d. vantar mig vænan bita í aðra eyrnablöðkuna, mögulega vegna þess að einhver fruma dó vitlausum tíma eða æð þroskaðist ekki.

Síðan getur líka verið um að ræða samspil milli tilviljunar og erfða, tilviljunar og umhverfis, eða sértækts samspil tilviljunar, erfða og umhverfis. Því þarf ekki að koma á óvart að eiginleikar mannfólks (og annar lífvera) eru mjög breytilegir.

Umhverfi, erfðir, tilviljun og samspil þessara þátta hafa áhrif á útlit og andlega eiginleika.

Í geðlæknisfræðinni hafa líffræðilegar skýringar verið ríkjandi um nokkuð skeið, e.t.v. vegna einhverrar sameindalíffræðiöfundar eða vegna annmarka fyrri nálganna. Líffræðilegar skýringar skiptast í tvo hópa, þær geta þýtt erfðamun á milli einstaklinga eða að umhverfisþættir  hafi áhrif á líffræði einstaklinga (fæða, virk efni, ljóslota o.s.frv.). Umhverfi mannfólks er hins vegar margslungnara en flestra annar lífvera, því við ölumst upp í samfélagi, fjölskyldum og hverfum. Margir þættir í hinu mannlega umhverfi geta mótað og sveigt eiginleika okkar þegar við þroskumst.

Steindór J. Erlingsson fjallar um þessa togstreitu, í pistli sem setur kastljósið á skilgreiningu á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD). Nýlegur pistill hans á vefsíðunni innihald.is (Er staðhæfing ADHD samtakana rétt?) hefst á þessum orðum:

Hvað er geðröskun. Á hún rætur sínar í 1) meðfæddum erfða- og lífefnafræðilegum þáttum í heilanum, 2) áhrifum umhverfisins á einstaklinginn og mótun hans, 3) eða samkrulli þessara þátta? Um þetta hefur verið deilt um langan aldur og sitt sýnist hverjum. ADHD samtökin hafa tekið skýra afstöðu í þessu máli: „Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum.” Er hér á ferðinni vísindaleg eða pólitísk staðhæfing?

Nýlega birtist í tímaritinu Journal of Child Neurology athyglisverð yfirlitsgrein þar sem því er haldið fram að ólíklegt sé að ADHD sé skýrt afmarkaður sjúkdómur. Höfundurinn segir „einbeitingarskort, ofvirkni og hvatvísi vera meðhöndlanlega birtingarmynd margra undirliggjandi læknisfræðilegra, tilfinningalegra og sálfélagslegra þátta sem hafa áhrif á börn“. Hér kemur skýrt fram að ADHD á rætur sínar í líffræðilegum, sálfræðilegum og félagslegum þáttum

Gengur skrímslið laust? Líftækni í ljósi bókmennta

ulfhildur_dagsdottir_dsc_0060.jpg

Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur mun fjalla um tengsl líftækni og bókmennta í erindi föstudaginn 10. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10).

Erindið heitir Gengur skrímslið laust? Líftækni í ljósi bókmennta og verður byggt á bókinni Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika (2011). Bókin fjallar um um sæborgir (svo sem gervimenni, vélmenni, klóna) í bókmenntum og myndmáli. Líftækni er skoðuð í ljósi bókmennta og kvikmynda og kannað hvernig orðræða skáldskapar mótar hugmyndir okkar um líftækni. Tengsl tækni og menningar eru könnuð og þá sérstaklega birtingarmyndir þeirra í skáldskap. Hvaða áhrif hefur tæknin á einstakling og samfélag? Hvaða áhrif hefur tæknin á hugmyndir um mennsku? Hver er framtíð mannkyns í tæknivæddu samfélagi?

Föstudagsfyrirlestrar líffræðinnar haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.

Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

Úlfhildur stendur einnig að sýningu á myndverkum og munum tengdum Sæborginni í Gerðasafni út febrúarmánuð. Úr tilkynningu:(fylgið tenglinum á myndir)

Sæborgin: Kynjaverur og ókindur

Þema sýningarinnar byggir á nýútkominni bók Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings, „Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika\\\". Bókin fjallar um þá ímynd er tæknimenning og líftækni taka á sig í vitund almennings. Þema sýningarinnar eru sæborgir í íslenskri myndlist, eins og þær birtast í meðförum 20 íslenskra myndlistarmanna. Þeir eru: Anna Hallin, Birgir Snæbjörn Birgisson, Bjarni Hinriksson, Davíð Örn Halldórsson, Erró, Finnbogi Pétursson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Helga Þórsdóttir, Hugleikur Dagsson, Inga María Brynjarsdóttir, Jóhann Ludwig Torfason, Jón Gunnar Árnason, Markmið, Olga Bergmann, Ólöf Nordal, Páll Thayer, Sara Björnsdóttir, Sigurður Örlygsson, Valgerður Guðlaugsdóttir.

Í stuttu máli endurspegla verkin á sýningunni hrifningu okkar og ótta við vélina og nærveru hennar í menningu nútímans. Í þeim getur meðal annars að líta kynjaverur og ókindur orðnar til við samruna ólífrænna og lífrænna efna, verur sem eru í senn lifandi og vélrænar.

Á sýningunni eru einnig myndbönd Bjarkar Guðmundsdóttur, gripir og bækur frá versluninni Nexus, Star Wars leikföng, ljósmyndir og myndbönd frá CCP auk stoðtækja frá Össuri.

Sýningarstjórar Helgi Hjaltalín Eyjólfsson myndlistarmaður og Úlfhildur Dagsdóttir. 

Ljósmynd útvegaði Úlfhildur Dagsdóttir - hennar er prentrétturinn (picture copyright Ulfhildur Dagsdottir).

Viðbót 15. feb. 2012.

Fjallað var um myndasýninguna í Djöflaeyjunni af Goddi.


Þroskunarfræðilegur grunnur afbrigðamyndunar bleikju

Fræðsluerindi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesari: Sigurður Snorrason, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
 
Í íslenskum vötnum hafa forvitnileg afbrigði bleikju ítrekað myndast frá lokum síðustu ísaldar. Ferlin virðast tengd skilyrðum á hverjum stað. Þannig hafa orðið til fjölmargir dvergbleikjustofnar í lindum og í stöðuvötnum má oft finna tvö afbrigði eða fleiri sem nýta mismunandi búsvæði. Svipfarsbreytileiki sá sem afbrigðin markast af er að þónokkru leyti tengdur erfðum og því blasir við að spyrja hvaða gen eða genakerfi það eru sem liggja til grundvallar. Rannsóknir þær sem kynntar verða í fyrirlestrinum miða að því að kanna tengsl milli náttúrulegs breytileika í beinum og vöðvum og mismunar í tjáningu gena milli afbrigða á mismunandi stigum þroskaferilsins. Aukinn skilningur á þessum tengslum mun varpa nýju ljósi á gangvirki aðlögunar og afbrigðamyndunar.

Erindið verður haldið fimmtudaginn 9. febrúar kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.


Guð, fræði og geðveiki

Er geðlæknisfræðin í raun trúarbrögð? Þannig spurði Rob Whitley við Darthmouth háskóla, og Steindór J. Erlingsson ræðir í nýlegum pistli (hann skrifar nú pistla innihald.is). Þar segir Steindór meðal annars:

Jákvætt svar höfundarins, sem er alls ekki hafið yfir gagnrýni, kveikti strax áhuga minn enda mikill áhugamaður um trúarbrögð og trúargagnrýni. Var þó meðvitaður um það að ef ég hygðist skapa mér marktæka rödd í gagnrýnni umræðu um geðlæknisfræði væri ekki heillavænlegt að flagga þessu sjónarmiði. Púkinn innra með mér var ekki á því að sleppa tækifærinu enda hafði ég á undangengnum árum skrifað fjölda greina þar sem trúarbrögð voru gagnrýnd. Það hlakkaði í púkanum að geta líkt geðlæknum við presta.

Steindór er fljótur að hrista púkann af sér, og kafar á skemmtilega í þessa spurningu. Hann veltir upp tengslum sálfræði og trúarbragða, þótt að hann rýni ekki mikið í ástæður þess að fólk trúi. Michael Shermer, forkólfur Skeptic society, hefur fjallað um þá spurningu, nú síðast í bókinni Believing brain. Þar segir hann m.a.

I’m a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.

Skarpasti punkturinn er samt sá að allt mannfólk er útsett fyrir trú. Við trúum fyrst, en þurfum að hugsa til að efast. Það er ótal dæmi um að fólk hafi gifst hugmyndum sínum, og túlki allar staðreyndir í ljósi lífskoðanna/trúar/sannfæringar sinnar. Sbr. nær allar umræður í íslenskum fjölmiðlum og netheimum (t.d. umræða um ESB).

.. our most deeply held beliefs are immune to attack by direct educational tools, especially for those who are not ready to hear contradictory evidence.

Þetta er raunverulegt vandamál. Þorri fólks myndar sér skoðanir og ver þær með sínum bestu rökum.

Vísindin eru lituð af þessu vandamáli, það eru fjölmörg dæmi um langvinnar þrætur á vissum fagsviðum, þar sem einstaklingar stóðu við sína tilgátur og hvikuðu eigi. Það er sannarlega andstætt vísindalegri heimspeki, að geta ekki hvikað frá tilgátu ef gögn hlaðast upp sem afsanna hana. En engu að síður eru vísindin eina leiðin til að yfirvinna slíka skoðanafestu einstakra vísindamanna. Uppsöfnun þekkingar vísindanna heldur áfram þótt einstaka mammútar hangi í hvönninni eins og Þorgeir Hávarson í Gerplu (á þrjóskunni einni saman og ófær um að leita sér aðstoðar).

Er hægt og þá hvernig má best mennta fólk til að vega á móti þessum eiginleikum heilans?

Er hægt að gera fólk meðvitað um hversu auðveldlega við myndum okkur skoðanir?

Er hægt að fá fólk til að leggja tilfinningar sínar til hliðar og meta málefni á staðreyndum einum saman.

Trúarhneigð er ekki endilega slæmur eiginleiki. Hann gæti mögulega hafa þróast, líklega sem aukaafurð af aukinni getu til að greina mynstur og áhrifavalda í umhverfinu. Margir þróunarfræðingar og sálfræðingar hafa rætt þessa hugmynd, og hún hefur náð fótfestu í guðfræðinni einnig. Áhugasömum er bent á mjög athyglisvert viðtal við guðfræðinginn Guðmund I. Markússon. Hann skrifaði einnig kafla um þetta efni í Arfleifð Darwins.


Erfðatækni, umhverfi og samfélag

Erfðabreyttar lífverur hafa verið áberandi í umræðunni undanfarin misseri. Eðlilegt er að spyrja um eðli erfðabreyttra lífvera, hvernig eru þær búnar til, hversu algengar þær eru og hvort þær stefni mannfólki í hættu. Spyrja má hvort þær séu hættulegar heilsu eða hvort þær hafi áhrif á lífverur eða vistkerfi. Til að bæta úr þessu og efla þekkingu á erfðabreyttum lífverum hafa Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sett saman námskeiðið „Erfðatækni, umhverfi og samfélag“ sem kennt verður dagana 13.-15. apríl næstkomandi.

Námskeiðið verður opið öllum sem stunda framhaldsnám við ríkisháskólana fjóra, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, Hólaskóla og Háskólann á Akureyri, í greinum sem eiga sér snertifleti við nýtingu erfðatækni, t.d. í líffræði, læknisfræði, næringarfræði, lyfjafræði, búvísindum og umhverfis- og auðlindafræði. Námskeiðið er liður í auknu samstarfi skólanna en þeir gerðu nýverið  samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana.

Kennarar munu halda fyrirlestra um efni á sínu sérsviði auk þess sem gestakennarar verða fengnir til þess að fjalla um hagnýtingu erfðatækni í atvinnulífinu og hlutverk stjórnvalda á þessu sviði. Nemendur munu rýna valdar vísindagreinar og fjalla um þær á gagnrýninn hátt. Þeir munu einnig flytja stutta fyrirlestra um efni sem valin verða í samráði við kennara.

Með námskeiðinu er ætlunin að efla skilning nemenda á erfðabreyttum lífverum og áhrifum þeirra á umhverfið og heilsu manna og dýra og á samfélagið almennt.

Erfðabreyttar mýs hafa þjónað sem tilraunadýr í læknisfræði og líffræði um áratuga skeið.

MYND/Eiríkur Steingrímsson
Erfðabreyttar mýs hafa þjónað sem tilraunadýr í læknisfræði og líffræði um áratuga skeið. MYND/Eiríkur Steingrímsson

Nemendur innan HÍ sem áhuga hafa á námskeiðinu geta skráð sig í LÆK099F Erfðatækni, umhverfi og samfélag.

Lýsing á námskeiðinu í kennsluskrá HÍ er eftirfarandi:

Erfðatækni hefur verið í örri þróun síðustu ár og er nú orðið ómissandi tæki í margskonar grundvallarrannsóknum í lífvísindum. Hún hefur einnig verið hagnýtt í læknisfræði, landbúnaði og iðnaði. Mikil átök hafa orðið um hvort rétt sé að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið og nýta afurðir sem unnar hafa verið úr þeim. Settar hafa verið mjög strangar reglur víða um heim sem takmarka nýtingu þessara lífvera. Umræðan í samfélaginu er oft óvægin og mótast oftar en ekki af takmarkaðri þekkingu á málefninu. Í námskeiðinu verður farið yfir hvað felist í erfðatækni og hvernig megi nýta þessa tækni í grunnrannsóknum, læknisfræði, landbúnaði og matvælaiðnaði. Lögð verður áhersla á að fjalla um málið frá öllum hliðum og kynntir verða bæði möguleikar og takmarkanir við beitingu tækninnar, þ.m.t. hugsanlegar hættur fyrir heilsu manna og umhverfið. Námskeiðið er opið öllum sem stunda framhaldsnám við ríkisháskólana fjóra í greinum sem eiga sér snertifleti við nýtingu erfðatækni, t.d. í líffræði, læknisfræði, búvísindum og umhverfis- og auðlindafræði. Fastir kennarar úr samstarfsnetinu munu halda fyrirlestra um efni á sínu sérsviði auk þess sem gestakennarar verða fengnir til þess að fjalla um hagnýtingu erfðatækni í atvinnulífinu og stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði. Nemendum verður ætlað að rýna valdar vísindagreinar og fjalla um þær á gagnrýninn hátt. Þeir munu einnig flytja stuttan fyrirlestur um efni sem valin verða af kennurum.

Náms- og kennsluaðferðir:

Til viðmiðunar er eftirfarandi:   að baki hverrar ECTS einingar er miðað við ca. 30 vinnustundir nemenda  -  samtals um 120 klst.

Námskeiðið verður kennt frá hádegi föstudaginn 13. apríl til sunnudagsins 15. apríl.
    
Fyrir námskeiðið fá nemendur safn vísindagreina sem þeir eiga að vera búnir að kynna sér. Þeir eiga að undirbúa kynningu á námskeiðiðnu um efni sem þeim verður úthlutað af viðkomandi kennara. Þeir eiga jafnframt að útbúa útdrátt upp á 1500 orð um efni fyrirlestursins sem liggja á fyrir við upphaf námskeiðsins.

•    Fyrirlestrar                                20  klst    
•    Lestur/ undirbún. Kynningar     55  klst   
•    Útdráttur                                  45  klst   

                  Samtals                       120  klst


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband