Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Niðurskurður í nýsköpun

Fyrirhugaður niðurskurður á kvikmyndasjóði, rannsóknasjóði og tækniþróunarsjóði er til þess fallinn að grafa undan íslensku þjóðlífi og efnahag. Ríkistjórnin hefur valið mjög sérkennilega pósta fyrir niðurskurð, einmitt þá sem geta skilað mestu til þjóðarbúsins og ímyndar landsins út á við.

Ísland er þekkt fyrir einstaka og óspillta náttúru, sem er iðullega ástæðan fyrir því að kvikmyndagerðarmenn sækja hingað. Hin ástæðan er sú að íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru frábærir, fjölhæfir og úrræðagóðir.

Á sama hátt eru íslenskir vísindamenn vel liðnir, þeir standa sig vel erlendis í framhaldsnámi og margir hverjir ná góðum árangri eftir að þeir flytja heim aftur. Margir vísindamenn stunda grunnrannsóknir á meðan aðrir stunda hagnýtari rannsóknir. Margir vísindamenn fá þjálfun við grunnrannsóknir, sem þeir búa að þegar þeir stunda rannsóknir með hagnýtingu í huga.

Tveir forkólfar atvinnulífsins (Davíð Lúðvíksson og Haukur Alfreðsson) leggja áherslu á mikilvægi þess að styðja við Tækniþróunarsjóð, í grein í Fréttablaði dagsins. Þeir segja:

Öflugt rannsókna- og þróunarstarf hefur skilað því á undanförnum árum að nú koma um 20% gjaldeyristekna þjóðarinnar frá fyrirtækjum í tækni- og hugverkagreinum. Árangurinn kemur einnig fram í aukinni verðmætasköpun og framleiðni í öðrum útflutningsgreinum, t.d. fiskiðnaði, ferðaþjónustu og orkutengdum iðnaði. 

Þeir taka dæmi um fyrirtæki sem fékk 175 milljóna styrk og endurgreiðslu á vaski frá ríkinu, en sem skilar næstum tvöfaldri þessari upphæði í ríkiskassann. Þeir halda áfram og segja:

Þetta er ekkert einsdæmi því þau fyrirtæki sem hlotið hafa viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir góðan vöxt gefa öll svipaða mynd. Ef skoðað er úrtak þrettán fyrirtækja sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 þá jókst heildarvelta þeirra úr 20 milljörðum 2005 í 118 milljarða á árinu 2012. Starfsmannafjöldinn fór úr nær 500 í um 1.000. Fyrirtækin greiddu framlög ríkisins 20-40 falt til baka á tímabilinu. 

Miklar hliðstæður eru með listum og vísindum. Bæði byggja á sköpunarkrafti fólks sem einnig getur tileinkað sér aðferðir, gagnrýna hugsun og vönduð vinnubrögð. Í ofan á lag bætist síðan brennandi áhugi sem skilar sér í miklu vinnuframlagi og festu, sem leiðir til þess að jafnvel fjarstæðukenndum hugmyndum eða verkefnum er fylgt til loka*.

Og bæði listir og vísindi byggja á stuðningi samfélagsins, því ávextirnir eru ekki endilega tilbúnir á markað eða þóknanlegir ríkjandi fyrirtækjum og öflum.

Ég hvet alþingi til að falla frá fyrirhuguðum niðurskurði á nýsköpun, jafnt í listum sem vísindum.

Ítarefni:

Davíð Lúðvíksson og Haukur Alfreðsson Fjárfesting í nýsköpun skilar sér strax í ríkissjóð Fréttablaðið 12. desember 2013.

*Í tilfelli vísindanna er það þegar búið er að afsanna tilgátu rækilega.


mbl.is Skora á ríkisstjórn Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra afhentar undirskriftir vísindamanna

Á 95 ára afmælisfagnaði Vísindafélags Íslendinga afthenti Þórarinn Guðjónsson forseti félagsins mennta- og menningamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, rúmlega 1000 undirskriftir vísindamanna sem mótmæltu skertu framlagi í fjárlagafrumvarpi 2014 til samkeppnissjóða Rannís. Benti Þórarinn á að stefna Vísinda- og tækniráðs snerti hvern einasta vísindamann í landinu og mikilvægi þess að markmiðum stefnunnar sé haldið á lofti og eftirfylgni gætt. 

Vísinda- og tækniráð starfar samkvæmt lögum frá 2003 og frá þeim tíma hefur ráðið lagt fram 4 stefnur. Rauði þráðurinn í gegnum allar þessar stefnur er efling samkeppnissjóðanna enda eru vísindamenn ekki bara hér heldur á alþjóðavísu sammála um að þetta séu langöflugustu verkfærin til að efla vísindi og hámarka nýtingu þess þekkingarkrafts sem býr í vísindamönnum. Í stuttu máli hefur markmiðum þessara stefna aldrei verið náð sem endurspeglast svo greinilega í nýustu stefnu ráðsins. Órói vísindamanna undanfarna daga og vikur er tilkominn vegna þess að þeir sjá svo greinilega við lestur fjárlagafrumvarpsins að útilokað er að framkvæma þessa stefnu nema eitthvað breytist.

Þórarinn gerði nánar grein fyrir málinu í útvarpsviðtali í þættinum Sjónmál á Rás 1 9. desember.

Einnig var rætt við hann í Býtinu á Bylgjunnii 4. desember.

Þessi umfjöllun birstist fyrst á vef Lífvísindaseturs HÍ


Ávaxtaflugur ná vopnum sínum

Yfir 8 ára tímabil voru ávaxtaflugur mín tilraunadýr. Ég stundaði ævintýralega skemmtilegar rannsóknir á erfðum. Kortlagning gena er dálítið eins og fjársjóðsleit. 

Fyrst þarf maður að finna út hvort að fyrirbærið sem við vorum að skoða væri arfgengt, eða undir hvort umhverfisþættir réðu mestu. Í mínu tilfelli vorum við að skoða lögun vængsins. Og sem betur fer skiptu genin langmestu máli fyrir breytileika í formi hans. Um 60-80% af breytileika í lögun var ákvarðaður af genum.

En svo kom erfiði parturinn, hvaða gen af þeim 13000 sem eru í ávaxtaflugum skipti máli fyrir vænginn? Þá þurftum við að kortleggja, og lesa okkur til um þau gen sem aðrir höfðu rannsakað. Þetta lukkaðist allt saman ágætlega, og við fundum að vissar stökkbreytingar í EGFR geninu höfðu áhrif á fjarlægð milli ákveðinna æða í vængnum (sjá mynd í stað andlits á bloggi þessu).ellipsevein_jpg.jpg EGFR genið er reyndar merkilegt að því leyti, að það á sér hliðstæðu í mönnum. Og ofvirkjun í EGFR getur stuðlað að myndun krabbameins.

En ávaxtaflugan sem ég rannsakaði, Drosophila melanogaster er meinleysis grey. Flugan nærist á rotnandi ávöxtum og matarleifum, oftast í kringum ávaxtaekrur, markaði og ruslahauga. Hún er "mannvinur" og hefur fylgt okkur um hnöttinn, hún nam t.d. land í Ameríku eftir landafundina miklu. Hún veldur hvorki skemmdum á uppskeru né ber sjúkdóma.

Það kom fyrir að ættingjar og vinir gagnrýndu mann fyrir að rannsaka pöddu sem væri ekki hættuleg. Fyrir þeim voru meindýravarnir eina skiljanlega ástæðan fyrir því að vilja rannsaka flugur.  En sem betur fer tókst mér (eða ég reyndi amk) að útskýra að flugan væri forvitnileg í sjálfu sér. Og að lærdómur sem dregin væri af ávaxtaflugum hefði þýðingu fyrir aðrar rannsóknir á t.d. sjúkdómum eða þróun lífsins.

Ættartré ávaxtaflugna er stórt, það eru hundruðir tegunda sem margar hverjar eru ansi sérhæfðar. Nýlega fræddist ég um tegundina Drosophila suzukii sem ólíkt flestum öðrum ávaxtaflugum er hin mesta pest. Þær hafa mesta lyst á ferskum ávöxtum og herja á ávaxtaekrur. Þær geta valdið umtalsverðu tjóni. Tegundin er upprunin í suður-asíu, en hefur breiðst til Ameríku og Evrópu á mjög stuttum tíma. Hennar var vart á Hawaii um 1980, og á meginlandi norður Ameríku og Evrópu eftir aldamót.

Nú hefur hin meinlausi flokkur ávaxtaflugna eignast meinvald með slagkraft. Ávaxtaflugurnar hafa náð vopnum sínum, og okkur er hollast að lúta þeim af auðmýkt.

Myndir og meiri upplýsingar um D. suzukii* má sjá á vef Florida háskóla.

spotted wing drosophila - Drosophila suzukii (Matsumura)

Grein um raðgreiningu erfðamengis D. suzukii á vef tímaritsins G3.


Afmæli Vísindafélagsins og afhending undirskriftarlista

Í dag verður haldið upp á 95 ára afmæli Vísindafélags íslendinga, kl 14:00 í Þjóðmenningarhúsinu.

Hæstvirtur mennta og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarson mun flytja opnunarávarp.

Áslaug Helgadóttir mun flytja hugvekju um vísindin og þjóðina og

Kári Stefánsson spyr (og væntanlega svarar) Hvers vegna?

http://www.visindafelag.is/

Að því tilefni mun formaður félagsins, Þórarinn Guðjónsson afhenda ráðherra undirskriftir vegna áskorunar um samkeppnissjóði.

Nú hafa rétt tæplega 1300 vísindamenn, nemar og aðrir skrifað undir.

http://www.petitions24.com/hvetjum_stjornvold_til_a_falla_fra_niurskuri_til_visinda

Við hvetjum alla til að mæta í Þjóðmenningarhúsið í dag, því að mannfjöldi sýnir áherslur samfélagsins og stærð og mátt íslensks vísindasamfélags.


Rannsóknir í hættu vegna niðurskurðar

Margir íslenskir vísindamenn hafa náð ágætum árangri í störfum sínum, einkum erlendis en einnig nokkrir hér heima. Það sem skiptir mestu er að viðkomandi lendi á fótunum, og missi ekki dampinn við flutning til landsins.

Dæmi um slíkan afburðavísindamann er Kristján Leósson eðlisfræðingur. Hann hlaut hvatningaverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2007, og styrk úr markáætlun á sviði örtækni fyrir árin 2005 til 2009. Það gerði honum og samstarfsmönnum kleift að byggja upp örtæknisetur HÍ.

En eitt er að byggja upp og annað að reka. Hinir litlu samkeppnisjóðir hérlendis og skortur á stuðningi við rannsóknarhluta háskólanna, þýða að svona setur er í mikilli hættu. Samkvæmt frétt RÚV getur niðurskurðurinn þýtt að það gæti þurft að "slökkva á tækjunum og loka", og vitnar þá til Kristjáns. Hann sagði einnig:

Ef það verður haldið fast við þessa stefnu, eins og hún er mörkuð í fjárlagafrumvarpinu, þá verður komið fyrir mörgum eins og okkur hér, og verður ekki annað hægt en að loka.

Þetta er því miður rétt hjá Kristjáni. Þetta þýðir einnig að fjárfesting okkar í rannsóknum nýtist illa, vegna skorts á samfellu sem er bein afleiðing veikra samkeppnissjóða og t.t.l. lítilla styrkja.

Umfjöllun um niðurskurð á samkeppnissjóðum og ítarlegra viðtal við Kristján var í sjónvarpsfréttatíma RÚV 6. desember.

Ítarefni:

Kristjan Leosson

http://www.raunvis.hi.is/Ari/kristjan.html

RÚV 5. des. 2013 Deila um framlög til rannsóknarsjóða

RÚV 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði til vísinda

Visir.is 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum

MBL.is 5. des. 2013 570 milljóna niðurskurður í lok árs

MBL.is 5. des. 2013  Pereat ungra vísindamanna

MBL.is 5. des. 2013  Ný stefna Vísinda- og tækniráðs gagnslaus

Lífvísindasetur HÍ Það er verið að gera grín að vísindamönnum 

 


Vísindamönnum nóg boðið

Fjallað var um mótmæli gærdagsins og misræmið milli stefnu Vísinda- og tækniráðs og fyrirliggjandi fjárlaga í Fréttablaði dagsins. Svavar Hávarðsson blaðamaður dró þetta saman á skýran hátt:

Gremja vísindasamfélagsins í garð niðurskurðar stjórnvalda til tækni- og vísindasjóða braust fram í gær þegar ný stefna Vísinda- og tækniráðs var kynnt á Rannsóknaþingi Rannís í gær. Á sama tíma og fundar­menn lofuðu stefnumörkun til ársins 2016 var sagt að hún væri í raun orðin tóm, af þeim sökum að útilokað sé að framfylgja henni vegna fjársveltis. 

Bæði Guðrún Nordal og Sveinn Margeirsson, sem kynntu stefnuna, sem og allir mælendur í pallborðsumræðum lögðu samt áherslu á að efndir yrðu að fylgja orðum.

Þórarinn Guðjónsson lagði áherslu á að fyrri stefnur Vísinda- og tækniráðs hefðu flestar innihaldið svipuð markmið, en aldrei hefðu stjórnvöld fylgt þeim eftir með gjörðum.

Magnús Gottfreðsson lagði áherslu á að næstum allir væru sammála um stefnuna, en...

Vandamálið er ekki þar. Ég held að það liggi í augum uppi að ef við erum ekki með nægjanlegan opinberan stuðning við grasrótarstarf, menntun og vísindalegt uppeldi frá grunnskóla og upp úr þá verður árangurinn eftir því. Þetta er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Það er ágætt að koma saman og sameinast um framfaramál en þetta verður að skila sér í reynd. […] Ég held að við verðum að læra af þeim sem hafa gengið í gegnum svipaðar krísur. Finnar hafa komið hér og gefið góð ráð, og það liggur fyrir hvað þeir gerðu og hver árangurinn var. Við verðum að taka okkur taki og fylgja því sem kallað er í læknisfræðinni gagnreyndar upplýsingar. Við vitum hvað virkar og þurfum ekki að finna upp séríslenska leið sem gengur þvert á almenna skynsemi.

Fréttablaðið 6. des. 2013 Vísindamönnum nóg boðið

Aðrar skyldar fréttir:

RÚV 5. des. 2013 Deila um framlög til rannsóknarsjóða

RÚV 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði til vísinda

Visir.is 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum

MBL.is 5. des. 2013  570 milljóna niðurskurður í lok árs

MBL.is 5. des. 2013  Pereat ungra vísindamanna

MBL.is 5. des. 2013  Ný stefna Vísinda- og tækniráðs gagnslaus

Lífvísindasetur HÍ Það er verið að gera grín að vísindamönnum  

Deila um framlög til rannsóknarsjóða

Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum


Þekkingarsköpun þjóðfélagsins vegna

Ný stefna Vísinda- og tækniráðs til 2016 felur í sér áherslu á mannauð, eflingu á samkeppnissjóðum, aukinn stuðningur við rannsóknarháskóla og samvinnu eða sameiningu rannsóknarstofnanna.

Hér mun ég ekki fjalla um sameiningu stofnanna, heldur benda á umræðu um samkeppnissjóðina.

RÚV 6. des. 2013  Mesta fjárfestingin var í þekkingarsköpun

Ný stefna Vísinda- og tækniráðs var kynnt á Rannsóknarþingi en fram hefur komið að framlög til vísinda- og tæknisjóða verða skert um 570 milljónir af því sem áður hafði verið samþykkt á fjárlögum. Rætt var við Magnús Karl og Ernu Magnúsdóttur rannsóknarsérfræðing við Háskóla Íslands í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Erna segir nýliðun vísindamanna mikilvæga, en þetta snúist ekki aðeins um störf. „Þetta er næsta kynslóð vísindamanna og við erum að missa þau úr vísindunum. Jafnvel eftir að það er búið að leggja mikla orku í þjálfun unga vísindafólksins þá hverfur það og oft í önnur störf og á þá oftast ekki afturkvæmt. Eða hreinlega til útlanda því umhverfið er að versna og við búumst ekki við að fá fólk aftur til baka.“

Magnús Karl segir dapurlegt að einungis sé horft á útgjaldahliðina en ekki tekjuhliðina. Samfélög vesturlanda byggi á nýsköpun. Þannig efnahagsumhverfi verði ekki skapað nema með því að leggja fjármagn í það. Hann nefnir sem dæmi að erlent lyfjafyrirtæki hafi fyrir rúmu ári lagt 52 milljarða í Íslenska erfðagreiningu. 

„Hér erum við að tala um raunverulega þekkingu sem er verið að skapa. Raunveruleg atvinnutækifæri og raunverulegar erlendar fjárfestingar. Stærsta fjárfesting í íslensku atvinnulífi frá hruni, kemur vegna þekkingarsköpunar.“

Viðtal morgunútvarpsins við Ernu Magnúsdóttur og Magnús K. Magnússon (hefst við mínútu 47).

Umfjöllun á RÚV 5. des. 2013 Óttast að vísindamenn fari úr landi

Sjá einnig sjónvarpsfréttir 5. des. 2013 Niðurskurður til rannsókna gagnrýndur


mbl.is Skoða fækkun á rannsóknastofnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur vísindamaður

Jón Gunnar Bernburg hlaut hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2013. Jón Gunnar er félagsfræðingur og hefur rannsakað afbrotafræði, félagsleg frávik og skipulagsheildir.

Hann hefur birt bæði á íslensku og ensku, og stutt athugun á Google Scholar sýnir að hann hefur birt góðan fjölda greina og til hans er vitnað umtalsvert.

http://scholar.google.com/citations?sortby=pubdate&hl=en&user=cVaMdEgAAAAJ

Sú rannsókn hans sem mest er vitnað til heitir 

LABELING, LIFE CHANCES, AND ADULT CRIME: THE DIRECT AND INDIRECT EFFECTS OF OFFICIAL INTERVENTION IN ADOLESCENCE ON CRIME IN EARLY ADULTHOOD*
2003 JG Bernburg, MD Krohn Criminology 41 (4), 1287-1318

Þar segir í ágripi:

The theory predicts that official intervention in adolescence increases involvement in crime in early adulthood due to the negative effect of intervention on educational attainment and employment. Using panel data on urban males that span early adolescence through early adulthood, we find considerable support for this revised labeling approach. Official intervention in youth has a significant, positive effect on crime in early adulthood, and this effect is partly mediated by life chances such as educational achievement and employment.

Eftir því sem ég best skil ágripið, þá hefur það neikvæð áhrif á unga afbrotamenn ef gripið er til aðgerða af hálfu hins opinbera. Ég ráð fyrir því að vistun á unglingafangelsi sé dæmi um slíkt inngrip. Jón Gunnar og félagar fundu samband milli vistunar og glæpatíðni, sem styður þessa tilgátu. (Ég biðst forláts á losaralegri endursögn, athugsemdir félagsfræðinga og afbrotafræðinga væru vel þegnar).

Jón Gunnar veik að því í ræðu sinni að þetta væri í fyrsta skipti sem hvatningarverðlaunin eru veitt til félagsfræðings. Það er mjög jákvætt að mínu mati að Vísinda- og tækniráð heiðri vísindamenn úr öllum geirum. Það sem á að liggja til grundvallar er að viðkomandi standi sig vel í faginu, leggi mikilvæg lóð á vogarskálarnar og sé vandaður vísindamaður.

Ég vil óska Jón Gunnari og samstarfsmönnum til hamingju með verðlaunin.


mbl.is Jón Gunnar fær hvatningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknablað fór í hundana

Læknablöð eru hinir virðulegustu pappírar. Þar er sagt frá nýjum uppgötvunum, teknar saman niðurstöður margra rannsókna og sérkennileg tilfelli kynnt. Allt staðlað, vandað, prófarkalesið, ritrýnt, gagnrýnt og fjarska þurrt aflestrar.

Ástæðan er sú að læknisfræði, eins og margar fræðigreinar hafa komið sér upp miklum þekkingarbanka þar sem merking hugtaka er vandlega skilgreind og vitneskjan þannig varðveitt á bærilega aðgengilegu formi.

Einstaka sinnum lyfta læknar, eða í þessu tilfelli, læknablöð sér upp. Forsíða tímarits bandarísku læknasamtakana (Journal of the American  medical association, JAMA) var í 50 ár prýtt listaverkum. En í sumar ákváðu ritstjóranir að setja æsispennandi efnisyfirlit á forsíðuna. En fyrir sérstök hefti leyfa þér sér þann munað að birta myndir á forsíðu.

Nýjasta hefti JAMA er helgað læknisfræðimenntun, og það prýðir stórfínt verk af hundalæknum að lækna hund. Einhver sagði þetta væru dýralæknar að dýralækna dýrahund, en JAMA er of virðulegt tímarit fyrir viðlíka skott-lækningar. Myndin er endurprentuð hér að neðan af vef NPR.

jama_med_ed-7aa701fd4c1af011f2dfb659fe2b7380846c92f1-s4-c85Við ritun þessa pistils var stuðst í meira lagi við frétt af vef NPR -  Medical Journal Goes To The Dogs

Reyndar hefur mér alltaf fundist hundamyndlist stórlega vanmetin, og ekki síður málverk af gulrótum. Eðalpenninn og pensillinn Richard  Scarry laumaði stórkostlegum málverkum af gulrótum inn í myndlistabækur sínar. Hver man ekki eftir gulrót í slökun úr stóru orðabókinni,  og kanínur fara í frí með gulrótina sína úr stóru bílabókinni? Ég gæfi amk 3000 krónur íslenskar fyrir fallegt málverk af gulrót, helst appelsínugulri.


Heill árgangur af vísindafólki rekinn

Fræði, vísindi og tækni standa að baki flestum framförum í mannlegu samfélagi síðustu tvær aldir. Fjölmargar skýrslur og rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif fjárfestinga í menntun, rannsóknir og tækni skilar sér, t.d. sem upplýstari samfélag, færara vinnuafl, í fleiri fyrirtækjum og almennri hagsæld.

Þetta er undirstrikað af nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs sem kynnt var í morgun. Þar er stefnt að auknum framlögum til rannsókna, háskóla og breytinga á nýsköpunarumhverfi hérlendis. Vísinda og tækniráð er skipað fræðimönnum, fulltrúum atvinnulífs og nokkrum ráðherrum ríkisstjórnar.

Engu að síður hefur ný ríkistjórn ákveðið að draga úr framlagi til vísinda, og sérstaklega skert samkeppnissjóði sem hafa alltaf verið dvergvaxnir hérlendis miðað við t.d. norðurlöndin.

Íslenskir samkeppnissjóðir eru veikburða

Ráðherra menntamála þrástaglast á því að sjóðirnir verði stærri árið 2014 en þeir hafa verið áður. Það er ekki allskostar rétt, því að þeir rétt ná raungildi sjóðanna 2004. Þetta fegrunarbókhald hans hundsar einnig 50% skerðingu á markáætlun, tugprósenta lækkun á tækniþróunarsjóði og þá staðreynd að rannsóknanámssjóður var sameinaður rannsóknasjóði óbættur.

Svar ráðherra er í raun hártogun, því eins og áður sagði eru sjóðir okkar smáir í alþjóðlegu samhengi. Ráðherrar og alþingi þurfa að átta sig á því misræmi sem er á stefnu Vísinda og tækniráðs og fjárlaga. Og þeir þurfa annað hvort að breyta stefnunni eða fjárlögum. Ef þeir breyta ekki fjárlögum, þá ætti stefnan að vera sú "að draga úr stuðningi við rannsóknir og nýsköpun, svelta sprotafyrirtæki og draga úr rannsóknum á félagslegum vandamálum, eldgosum, fiskistofnum, smitsjúkdómum, heilbrigði og læsi íslenskra barna".

Ráðherra talar ítrekað um mikilvægi þess að hafa ríkiskassann í jafnvægi. En það er ákvörðun alþingis hvernig peningum ríkisins er varið. Það er sjálfskaparvíti að draga úr fjármögnun í rannsóknir og nýsköpun, en veita peningum frekar í minna arðbæra pósta (eða hreinlega afsala sér tekjustofnum, af hreinni pólitík).

Það mætti líkja þessu við spítala, sem ákveður parketleggja ganga í stað þess að fjárfesta í læknum eða betri tækjum (og afþakka tekjustofna af hollustu við pólitík). Slíkur spítali mun ekki útskrifa lifandi fólk heldur lík.

40 störf tapast, 53 útskrifast á ári

Vísindasjóðir styrkja verkefni til 3 ára og um 80% peninganna fer í laun ungra vísindamanna (doktorsnema og nýdoktora). Því þýðir fyrirhuguð skerðing á fjárlögum að um 40 störf ungra vísindamanna munu hverfa. Þetta er veruleg blóðtaka, sem sést t.d. á þeirri staðreynd að 53 doktorsnemar útskrifast frá HÍ árið 2013. Hér er því ígildi heils árgangs af vísindafólki rekinn. Íslenskt samfélag hefur ekki efni á því.

 

Ég skora á fólk að senda fyrirspurn um rannsóknaumhverfið á DV eftir hádegið.

http://www.dv.is/frettir/2013/12/5/illugi-maetir-beina-linu-i-dag/

og skrifa undir áskorun um að falla fá niðurskurði á samkeppnissjóðum.

 http://www.petitions24.com/hvetjum_stjornvold_til_a_falla_fra_niurskuri_til_visinda

Ítarefni.

RÚV 5. des. Deila um framlög til rannsóknarsjóða

RÚV 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði til vísinda

Visir.is 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum

MBL.is 5. des. 2013 570 milljóna niðurskurður í lok árs

 

Lífvísindasetur HÍ Það er verið að gera grín að vísindamönnum  

Deila um framlög til rannsóknarsjóða

Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband