Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum

Stefna Vísinda og tækniráðs fyrir 2013 - 2016 var kynnt í morgun.

http://www.rannis.is/frettir/2013/11/rannsoknathing-og-afhending-hvatningarverdlauna-visinda-og-taeknirads/

Stefnan er sett á sókn á sviði vísinda og nýsköpunar, sérstaklega aukningu samkeppnissjóða vísinda og tækniráðs.

Þessir sjóðir eru mjög litlir hérlendis, miðað við norðurlönd og vestræn OECD lönd. Engu að síður hyggst ríkistjórnin samt skera þá 2014 og meir næstu tvö ár. Afleiðingin verður sú að amk 40 störf ungra vísindamanna munu glatast.

Til að setja þetta í samhengi þá útskrifuðust 53 doktorar úr Háskóla Íslands árið 2013.

Ungir vísindamenn voru með táknræn mótmæli á kynningu á stefnu vísinda og tækniráðs í morgun.
40 þeirra stóðu upp, og héldu uppi spurningarmerki. Þeir spurðu, "hver er framtíð ungra vísindamanna á Íslandi?"

RÚV og Vísir fjölluðu fyrst um málið. Á vef RÚV sagði:

Ungir vísindamenn mótmæltu niðurskurði til tækni- og vísindasjóða með því að rísa úr sætum á Rannsóknarþingi 2013 og halda uppi blöðum með spurningamerkjum. Merkin voru um 40 talsins og táknuðu þau störf sem tapast vegna niðurskurðar í fjárframlögum á fjárlögum til sjóðanna.

Ungu vísindamennirnir risu úr sæti meðan á pallborðsumræðum stóð, eftir að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafði flutt ávarp við upphaf fundarins.

Ný stefna Vísinda- og tækniráðs, fyrir árin 2013 til 2016 var kynnt á fundinum. Þar er gert ráð fyrir eflingu rannsókna en nokkrir létu í ljós áhyggjur af því að fjármagnsskortur kynni að hamla þeim áætlunum.

Fréttamaður vísis.is tók viðtöl við Ernu Magnúsdóttur og Ástríði Ólafsdóttur. 

"Við erum að benda á að verði af niðurskurði eins og hann birtist í fjárlögum þá munu yfir 40 störf ungra vísindamanna hverfa úr vísindasamfélaginu á næsta ári. Það er í hrópandi ósamræmi við þá stefnu sem var lögð fram hér á fundinum," segir Erna Magnúsdóttir, forsprakki hóps doktorsnema og nýdoktora frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Reykjavíkurakademíunni sem fjölmenntu á Rannsóknaþing  Rannís þar sem ný stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016 var kynnt.

„Ég hef alltaf átt þann draum að fara út í heim í doktorsnám og koma svo hingað heim til að miðla minni þekkingu og reynslu. En svo fullorðnast maður og gerir sér grein fyrir að það verður sennilega aldrei af því,” segir Ástríður Ólafsdóttir, sem hyggur á brottför í frekara nám til Sviss. 

http://ruv.is/frett/motmaeltu-nidurskurdi-til-visinda

http://visir.is/motmaeltu-nidurskurdi-med-spurningamerkjum/article/201313120948


mbl.is Pereat ungra vísindamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016

Góðir íslendingar. Framtíð landsins er í húfi. Viljum við vera þjóðfélag frumframleiðenda í anda nítjándu aldar, eða nútímaleg þjóðfélag sem byggir á og hagnýtir þekkingu og tækni?

Spurningunni kann að vera svarað á Rannsóknaþingi Rannsóknamiðstöðvar Íslands
5. desember kl. 8:30-10:30 á Grand hótel Reykjavík.

Þá verður kynnt stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016. Miðað við drög að stefnunni, þá er um framsæknar hugmyndir að ræða sem miða að því að auka velferð og hagvöxt með auknum stuðningi við rannsóknir og sérstaklega samkeppnissjóði. Það er ákveðin mótsögn í því að menntamálaráðherra hyggst skera niður framlög til vísinda og tækniþróunar næstu 3 árin (sbr. fjárlagafrumvarp 2014 og meðfylgjandi greinargerð).

Dagskrá

8:30-8:50          Opnunarávarp
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra

8:50-9:20          Kynning á stefnu Vísinda- og tækniráðs 2013-2016
Guðrún Nordal, formaður vísindanefndar
Sveinn Margeirsson, formaður tækninefndar

9:20-10:00        Pallborðsumræður um stefnu Vísinda- og tækniráðs

Þátttakendur í pallborði:
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Guðmundur F. Sigurjónsson, forstjóri Kerecis
Vilborg Einarsdóttir, forstjóri Mentor
Magnús Gottfreðsson, læknir og prófessor við Háskóla Íslands
Þórarinn Guðjónsson, formaður Vísindafélags Íslendinga

10:00-10:30       Afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs
Hilmar Bragi Janusson gerir grein fyrir starfi dómnefndar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs afhendir Hvatningarverðlaunin 2013

Fundarstjóri: Hallgrímur Jónasson

Skráning er á rannis@rannis.is

Ég hvet fólk til að mæta á fundinn. Sérstaklega grunnnema, framhaldsnema og nýdoktora, því það e framtíð þeirra sem hangir á spýtunni.

Við fáum e.t.v. svar við þeirri spurningu hvort að stjórnvöld vilji styðja við stefnuna með fjárframlagi, eða hvort þetta sé marklaust skrautplagg.

Áskorun vegna samkeppnissjóða.

Íslenskir vísindamenn standa að áskorun til stjórnvalda vegna samkeppnissjóða - ég hvet þá sem er annt um grunnrannsóknir, framþróun og nýsköpun til að skrifa undir.

http://www.petitions24.com/hvetjum_stjornvold_til_a_falla_fra_niurskuri_til_visinda

Ítarefni:

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

 


Skortur á virðingu fyrir menntun og fræðum

Niðurstöður PISA könnunarinnar er áfall, en samt fyrirséð. Teikn hafa verið á lofti í mörg ár (sumir segja áratugi), fleiri börn og unglingar eiga í miklu basli með lærdóm og lestur.

Ástæðurnar eru nokkrar, en ein þeirra er skortur á virðingu fyrir menntun og fræðum.

Þetta birtist meðal annars  í launum kennara, almennum viðhorfum gagnvart menntafólki og fræðimönnum og í stefnu ríkistjórnar í vísindamálum (t.d. lágu hlutfalli fjármuna í samkeppnissjóði).

Þetta birtist einnig í afburða lélegum vísindafréttum margra miðla. Tvö nærtæk dæmi af Pressunni eru sérstaklega sláandi.

Í "frétt" frá því um helgina var því haldið fram að mannkynið hefði sprottið úr kynblöndun svíns og apa. Pressan 30. nóv - Ný kenning: Varð mannkynið til við kynblöndun apa og svína? Þar sagði m.a.

Hljómar ótrúlega en einn af virtustu erfðafræðingum heims heldur þessu fram og segir að mannkynið eigi tilveru sína að þakka að karlkyns svín hafi parast með kvensimpansa.

Það er Eugene McCarthy, hjá University of Georgia, sem heldur þessu fram en hann er einn af fremstu sérfræðingum heims í kynblöndun dýra. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að við mannfólkið eigum margt sameiginlegt með simpönsum en að margt af því sem einkennir okkur sé ekki að finna í neinum öðrum prímötum.

Zophonías Jónsson skrifaðist á við ritstjóra Pressunar, sem þurftu mjög ítarlegar fortölur áður en þeir sættust á að þessi frétt væri skólp. Þeir drógu hana til baka (eftir að rúmlega 400 saklausar sálir "lækuðu" óskapnaðinn), en hafa ekkert lært, því í gær birtist Nú verða veturnir kannski kaldari og lengri. Þar var vitnað í loftslagsafneitara - sem segir að loftslagsbreytingarnar séu náttúrulegar - þrátt fyrir að yfirgnæfandi sannanir séu fyrir því að þær séu afleiðingar mannana verka.

Orsakirnar eru við

 

Rætur vandans liggja hjá okkur öllum. Ég t.d. skammast mín fyrir það að hafa ekki mætt í mína eigin útskrift eftir meistarapróf (ég kaus frekar að fara í sveitina og planta trjám). En við getum unnið bug á þessari meinsemd á nokkra vegu.

  • Með því að krefjast betra mennta og rannsóknarumhverfis
  • Berum virðingu fyrir kennurum og fræðimönnum
  • Sýnum virðinguna í verki með fjárstuðningi
  • Krefjumst árangurs tilbaka, með betri kennslu og öflugu starfi
  • Hættum að tala niður skólakerfið
  • Hömpum jákvæðum fyrirmyndum, ekki andhetjum sem hatast út í kennarana sína
  • Styðjum við rannsóknir (ekki síst í menntavísindum) með sterkari samkeppnsjóðum

Í samfélagi  nútímans þarf allt að vera skemmtilegt eða hagnýtt, en menntun er oft stimpluð sem leiðinleg.

Menntun er skemmtileg. Hún finnur náttúrulegri forvitni okkar útrás, um leið og hún bætir okkur sem manneskjur.


mbl.is Niðurstöður PISA verulegt áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun vegna samkeppnissjóða - undirskriftasöfnun

Íslenskir vísindamenn standa að áskorun til stjórnvalda vegna samkeppnissjóða - ég hvet þá sem er annt um grunnrannsóknir, framþróun og nýsköpun til að skrifa undir.

http://www.petitions24.com/hvetjum_stjornvold_til_a_falla_fra_niurskuri_til_visinda

Áskorunin er svohljóðandi.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 gerir ráð fyrir stórfelldum niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs næstu árin, þrátt fyrir að fjárveitingar til þeirra séu nú þegar miklu lægri en í nágrannalöndunum.

 

  • Vísindi eru undirstaða framfara í samfélaginu og forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu

 

  • Samkeppnissjóðir fjármagna bestu vísindin, tryggja menntun og nýliðun og eru nauðsynlegir til að íslenskir vísindamenn geti sótt fé í erlenda samkeppnissjóði

 

  • Atgervisflótti úr íslensku vísindasamfélagi er þegar orðinn mikill og ljóst að hann muni aukast ef af fyrirhuguðum niðurskurði verður

 

Í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem stýrt er af forsætisráðherra, eru metnaðarfull og skýr markmið um eflingu íslensks þekkingarsamfélags. Þar er meðal annars gert ráð fyrir mikilli aukningu fjár til samkeppnissjóða.

 

Við, undirrituð, krefjumst þess að stjórnvöld hugsi til framtíðar og auki fjárveitingar til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs.


Ályktun um Norðlingaölduveitu og Rammaáætlun

Stjórn Vistfræðifélagsins ályktar um Norðlingaölduveitu og Rammaáætlun

Reykjavík, 21. nóvember 2013
Til umhverfis-og auðlindaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar (afrit sent til fjölmiðla),
 
Stjórn Vistfræðifélags Íslands skorar á stjórnvöld að láta af öllum áformum um frekari veitur fyrir virkjanir í og við Þjórsárver.  Þjórsárver eiga að njóta verndar sem landslagsheild samkvæmt faglegum forsendum Rammaáætlunar. Þau njóta einnig verndar sam kvæmt alþjóðlegum samningi um vernd votlendis (Ramsar sáttmálinn) sem Íslendingar eru aðilar að. Ákvarðanir um auðlindanýtingu þarf að byggja á vísindalegri þekkingu.
 
Nýting þarf að taka tillit til fjölbreyttra hagsmuna íslensku þjóðarinnar í nútíð og fra mtíð en ekki byggja á takmörkuðum efnahagslegum og tímabundnum forsendum.
 
Í þessu tilliti er afar brýnt að fylgja eftir hinni faglegu Rammaáætlun sem þegar hefur verið afgreidd lögformlega af Alþingi og hverfa frá öllum áformum um frekari röskun þess vistkerfis og landslagsheildar sem Þjórsárver mynda.
 
Stjórn Vistfræðifélags Íslands 


Toppnum náð - vindur úr blöðrunni

Það er glæsilegt að HÍ skuli hafa útskrifað 53 doktorsnema á síðasta ári. En mig grunar að hér hafi toppinum verið náð, og að við munum sjá hnignun í framhaldinu. Aðal ástæðan er sú að núverandi ríkistjórn hyggst skera niður stuðning við samkeppnissjóði vísinda og tækniráðs, sem var þó lagur fyrir (í alþjóðlegu viðmiði). Þetta bitnar sérstaklega hart á ungu vísindafólki, og fælir nemendur frá því að leggja rannsóknir fyrir sig!

Framhaldsnemar, eins og meistara og doktorsnemar, bera uppi grunnrannsóknir hérlendis. Þessir nemendur fá lítil laun, t.d. fá fæstir meistaranemar greitt fyrir sínar rannsóknir. Doktorsnemar geta aflað styrkja, sjálfir eða í samstarfi við leiðbeinendur sína. Launin eru frekar lág - sérstaklega miðað við vinnutíma.

Kerfið hérlendis er þannig að tveir megin aðillar styrkja framhaldsnám. Háskóli Íslands er með sjóð sem styrkir doktorsnema í 3 ár. Rannsóknasjóður styrkir einnig framhaldsnema, í gegnum 3 ára rannsóknaverkefni sem vísindamenn sækja um. Lengi vel var til rannsóknanámssjóður - þar sem hægt var að sækja um styrki fyrir meistaranema, eða til 1,2 eða 3 ára fyrir doktorsnema. Rannsóknasjóður var sameinaður rannsóknasjóði fyrir uþb ári, án þess að útfært væri hvernig framhaldsnemar ættu að geta fengið stuðning til uppihalds. Fjárveitingar til hans eiga að falla óbættar í fjárlagafrumvarpi fyrir 2014.

Staðreyndin er sú að það tekur meira en 3 ár að klára doktorsverkefni. Nemendur lenda því iðullega í klemmu með fjármögnun ef styrkur þeirra eða leiðbeinenda klárast. Reynt er að "redda" málunum á ýmsa vegu. Í mínu umhverfi eru dæmi um margskonar reddingar. Framhaldsnemar hafa

tekið að sér aðstoðarkennslu eða fyrirlestra,

tekið að sér önnur verkefni,

fengið sér hlutastörf úti í bæ,

leigt út herbergi (eða íbúðir sínar) til að afla viðurværis og

tekið sér pásu.

Margir þeirra sem taka hlé eru í raun hættir í námi.

Þetta leiðir til þess að doktorsnemar eru lengi að klára sínar rannsóknir, eða að þær fari hreinlega í súginn. Þar sem tímasetning skiptir miklu í vísindalegu samfélagi getur dráttur af þessu tagi skilið á milli hágæða og meðalmennsku.

Það eru margar brotalamir í íslensku vísindaumhverfi. Smáir samkeppnissjóðir, brotakennd fjármögnun framhaldsnáms, gallað punktakerfi í háskólum og skortur á stoðkerfi fyrir tilraunavísindi.

Glansandi ljósmyndir og gylltir skildingar geta ekki falið þá staðreynd að umhverfi fyrir rannsóknir og nýsköpun fer versnandi hérlendis.

Leiðréttingar.

Nokkrar ambögur voru sniðnar af 3. des, og ítarefni bætt við (hér að neðan).

Frábært frumkvæði frá hagræðingarnefnd

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Arnar Pálsson Að stunda vísindi á ísjaka
mbl.is 53 doktorar á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband