Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Niðurskurður í rannsóknum

Allt frá því að fjármálafrumvarpið fyrir 2014 var kynnt höfum við fjallað ítarlega um fyrirhugaðan niðurskurð, áhrif hans og fært rök fyrir því að frekar ætti að auka framlag við grunnrannsóknir er skera þær niður.

Fjárlögin voru samþykkt rétt fyrir jól, og var um umtalsverðan niðurskurð að ræða, þótt að einhverjir varnarsigrar hafi unnist.

Á vef Lífvísindaseturs er farið yfir þennan hluta fjárlaga:

Rétt fyrir jól voru fjárlög 2014 og fjáraukalög 2013 samþykkt. Niðurstaðan var eftirfarandi: Hætt var við boðaðan niðurskurð í fjáraukalögum, nema á markáætlun. Hún verður skorin um 200 milljónir.

Dregið var í land með boðaðan niðurskurð á Rannsóknasjóði 2014. Hann verður skorinn úr 1,4 milljörðum (Rannsóknarnámssjóður meðtalinn) í tæpa 1,2 milljarða, en ekki 1.147.000.000 kr. eins og í fyrstu útgáfu frumvarpsins. Því má segja að um 50 milljónir hafi áunnist í Rannsóknarsjóð miðað við boðað fjárlagafrumvarp.

Annar boðaður niðurskurður virðist eiga að standa. Rannsóknasjóður ætti því að geta úthlutað sæmilega núna í janúar.

Mikilvægt er að framfylgja nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs sem hlýtur að hafa þau áhrif að boðaðar áætlanir um niðurskurð til ársins 2016 gangi til baka.

Þótt samþykkt fjárlög hafi ekki verið jafn slæm og fyrstu drög, er samt ljóst að alþingi skilur ekki mikilvægi rannsókna fyrir framfarir í þjóðfélaginu eða verðmætasköpun. Rétt eins og fáir alþingismenn skilja eðli heilbrigðiskerfisins, og hræra saman draumsýn og fákunnáttu, þá er sama uppi á teningnum þegar kemur að rannsóknum og fræðum.

Vísinda og fræðifólk getur vitanlega blótað og bölsóttast eins og það vill, en niðurstaða haustsins er sú að það mun ekkert ávinnast á þessum vígstöðvum án krafts, mælsku, samvinnu og skipulags.

Þeir sem hafa áhuga á málinu ættu að lesa The Geek Manifesto eftir Mark Henderson (The Geek Manifesto: Why Science Matters: Mark Henderson). 


Glæsilegur vísindamaður

Helgi Björnsson jöklafræðingur á fyllileg skilið að hljóta verðlaun Ásu Guðmundsdóttar Wright. Hann er einn vandaðasti vísindamaður landsins, og hefur unnið mörg og góð verk.

Stórvirki hans um jökla á Íslandi er í hópi bestu bóka um rannsóknir á náttúru landsins.

Ég veit líka að þegar Ban Ki Moon aðalritari sameinuðu þjóðanna kom hingað til lands í sumar - vildi hann sérstaklega kynnast áhrifum loftslagsbreytinga á íslenska jökla. Aðalritarinn, Helgi Björnsson og fulltrúar íslenskra stjórnvalda fóru því saman í þyrluferð upp á Langjökul, sem miðað við líkön um hlýnun mun líklega bráðna í tvennt síðar á þessari öld.

Ferðin hafði greinilega áhrif á aðalritarann því hann sagði í haust að loftslagsbreytingarnar gætu leitt til þess að Ísland yrði íslaust.

Ísland gæti orðið íslaust segir Ban | RÚV 20. nóv 2013.

Jarðfræðin og líffræðin eru báðar með aðstöðu í Öskju - náttúrufræðahúsi HÍ. Þar rekst maður stundum á Helga á kaffistofunni. Mér er mjög minnisstætt þegar hann spurði mig nýkominn að utan úr námi. Hann innti mig fyrst eftir því hvað ég væri að rannsaka, og ég útlistað tilgátur um tengsl þroskunar, gena og þróunar. Þá spurði hann:

Hvað er upp úr því að hafa?

Helg fékk nefnilega stundum þessa spurningu, þegar hann útskýrði rannsóknir og uppgötvanir sínar. Og þetta er algengt viðhorf - að rannsóknir verði að hafa hagnýtan vinkil, annars séu þær til einskis.  Jöklarannsóknir Helga eru samt dæmi um grunnrannsóknir sem munu seint skila einkaleyfum eða nýsköpunarfyrirtækjum. En þær eru okkur öllum til hagsbóta.

Jöklar á Íslandi « Forlagið


mbl.is Helgi Björnsson heiðraður fyrir störf sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort er maður meira skyldur foreldrum sínum eða systkinum?

Vísindavefurinn er alger fjársjóðskista. Þar má finna svör við margskonar spurningum, bæði almennum spurningum og spurningum tengdum ákveðnum vörum eða fullyrðingum. Frægt er þegar Vísindavefurinn var beðinn um að skilgreina strax, en mitt uppáhald er svar Atla Jósefssonar varðandi gervivísindi NuSkins.

Atli Jósefsson. „Er eitthvað til í því að tæki frá Nu Skin geti sagt til um hversu hátt gildi andoxunarefna er í líkama manns?“.Vísindavefurinn 19.11.2012. http://visindavefur.is/?id=63429. (Skoðað 27.12.2013). 

Þar segir m.a.

Svarið við þessari spurningu í stuttu máli er því að tækið geti mögulega gagnast til að mæla styrk karótenóíða í húð en erfitt er að sjá hvernig hægt væri að nota þær upplýsingar sér til heilsubótar. Líklega er betra að fjárfesta einfaldlega í ávöxtum og grænmeti frekar en að kaupa sér aðgang að mælitækinu og andoxunarfæðubótaefni í kjölfarið, enda fátt sem bendir til þess að neysla þeirra hafi jákvæð áhrif á heilsufar manna. 

Ég lagði eitt svar  í púkkið á nýliðnu ári, við spurningunni.

Arnar Pálsson. „Hvort er maður meira skyldur foreldrum sínum eða systkinum?“.Vísindavefurinn 30.9.2013. http://visindavefur.is/?id=11204. (Skoðað 27.12.2013). 

Spurt er hvort skyldleiki einstaklings við foreldra sína sé meiri en skyldleikinn við systkin sín. Ef systkin eiga sömu foreldra þá eru þau að meðaltali jafn skyld foreldrum sínum og hverju öðru. Lykilorðin eru – að meðaltali – því ef tvær eggfrumur fá næstum sama sett af litningum frá móður og tvær sáðfrumur fá næstum sama sett af litningum frá föður, þá eru systkinin skyldari hvoru öðru en foreldrum sínum. En litningafjöldi mannsins og líkindafræðin benda til þess að þetta sé fjarska ólíklegt. 


Hugsun, geðklofi og einhverfa

Breytileiki er raunverulegur. Við erum öll menn en samt ólík á marga vegu. Þetta var kjarninn í þróunarkenningu Darwins, þótt flestir tengi náttúrulegt val eða ættartré tegundanna frekar við þann herramann. Þróunarkenningin byggir á þeirri staðreynd að einstaklingar í stofni lífvera eru ólíkir. Hluti af breytileikanum á milli einstaklinga er undir áhrifum gena, og sá breytileiki er hráefni þróunar.

Arfgengur breytileiki getur líka haft áhrif á sjúkdóma. Sumir sjúkdómar eru með sterkan erfðaþátt en aðrir veikann (eða næstum engann!). Með því að finna gen sem tengjast ákveðnum sjúkdómum, má læra um líffræði sjúkdómanna og þannig opna möguleikan á greiningu, meðferð eða jafnvel lækningu. Þó er rétt að leggja áherslu á að leiðin frá líffræði til lækningar er oft löng og í mörgum tilfellum ófær!

Erfðir geðklofa og einhverfu

Nýleg rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar (Hreinn Stefánsson o.fl. - sjá tengil neðs) sýnir að stökkbreytingar sem bendlaðar hafa verið við geðklofa og einhverfu hafa einnig áhrif á vitsmuni og atferlistengda eiginleika.

Í fréttatilkynningu er lögð áhersla á að þeir sem bera stökkbreytingar sem ýta undir geðklofa eru ólíkir öðru fólki að sumu leyti. Hér er vitanlega um að ræða meðalhegðan eða færni, þetta er EKKI ALGER REGLA. Horft var á eiginleika sem eru ólíkir (að meðaltali) milli fólks með geðklofa og án, eins og athygli, rúmskilning og hraða hugsunar (ítarlegri listi á ensku - attention, spatial working memory, logical memory, executive function, cognitive flexibility, language and processing speed).

Þeir sem báru geðklofastökkbreytingar voru sem hópur frábrugðnir öðrum á mörgun þessara prófa, jafnvel þótt að þeir hefðu ekki fengið sjúkdóminn. Það er ansi merkilegt, því það bendir til að einkennin séu undirliggjandi, en geðklofin birtist blessunarlega bara í sumum. Geðklofi er því einskonar þröskuldseiginleiki, sem birtist bara í sumum einstaklingum sem eru í hættu. Eftir því sem ég best veit, þá eru einmitt persónuleg áföll dæmi um umhverfisþátt sem getur ýtt undir geðklofa.

Undirliggjandi einkenni einhverfu

Íslenskir fjölmiðlar hampa oftar niðurstöðum heimamanna en annara vísindamanna. Í sömu viku og og grein Kára og Hreins Stefánssonar  (og samstarfsmanna) birtist á vef Nature, má þar finna aðra mjög forvitnilega rannsókn um skylt efni. 

Einhverfa er einn af hinum dularfullu sjúkdómum nútímans. Nýleg rannsókn Jones og Klin sýnir að börn sem fá einhverfu sýna einkenni mun fyrr en áður var talið.

Þeir félagar skoðuðu hegðan ungra barna sem áttu einhverf systkyni og jafn stóran hóp barna sem áttu ekki einhverf systkyn. Gerðar voru athuganir á augnhreyfingum, fyrst við 2 mánaða aldur og svo 9 sinnum uns börnin urðu 3 ára. Vegna þess að einhverfa er arfgeng að hluta, þá greindist stór hluti tilraunahópsins með einhverfu en mjög fáir í viðmiðunarhópnum. Síðan var hægt að athuga hvort að börnin sem greindust með einhverfu, hefðu sýnt einhver einkenni á unga aldri?

Börn sýna merkilegan eiginleika, að geta fundið augu og starað á þau. Börnin sem síðar greindust með einhverfu voru með þessa færni í upphafi, en síðan fjarar undan henni. Eftir því sem fram líður eiga þau erfiðara með að viðhalda augnsambandi.  Höfundar greinarinnar leggja áherslu á að etv. sé hér möguleiki á fyrirbyggjandi meðferð. Samkvæmt þeim, ef hægt er að þjálfa augnsamband, þá er möguleiki að það geti hjálpað börnum sem eru í hættu á einhverfu. Ég get ekki annað en glaðst yfir þessum möguleika, en verð samt að undirstrika að hann er enn óreyndur og alls ekki víst að hann virki.

Ítarefni:

Hreinn Stefansson o.fl. CNVs conferring risk of autism or schizophrenia affect cognition in controls
Nature 2013 doi:10.1038/nature12818 

Jones W, Klin A. Attention to eyes is present but in decline in 2-6-month-old infants later diagnosed with autism. Nature. 2013 Nov 6. doi: 10.1038/nature12715.


mbl.is Stökkbreytingar sem hafa áhrif á hugsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugt ríkisútvarp takk fyrir

Ég er fylgjandi öflugu ríkisútvarpi hérlendis, sem rekur trausta fréttastofu, er með útsendingar um land allt, og margskonar þætti þar sem fjallað er um með þjóðmál, umhverfi, atvinnuþróun og efnahag landsins.

RÚV hefur einnig fjallað um íslensk vísindi betur en flestir aðrir miðlar. Tilraunaglasið var t.d. eini íslenski útvarpsþátturinn helgaður vísindum, en því var stungið inn í skáp í niðurskurðinum. Það var einstaklega bagalegt í ljósi þess að vísindi og tækni eru nauðsynleg fyrir eflingu þjóðlífs og nýsköpun.

Áskorunin í heild sinni:

-------------------

Ríkisútvarpið hefur verið hornsteinn mannlífs á Íslandi í meira en áttatíu ár. Í okkar unga lýðveldi eru fáar stofnanir svo grónar og ríkar að hefðum. Ríkisútvarpið er einn besti vettvangur sem vísinda- og fræðafólk á Íslandi hefur til þess að miðla nýrri vitneskju, fróðleik og gagnrýni til almennings og er því ómetanlegur tengiliður háskólanna við samfélagið. Ráðstafanir sem veikja Ríkisútvarpið draga um leið úr áhrifum og sýnileika háskólanna í þjóðfélaginu.

Ríkisútvarp er meira en fjölmiðill. Það er í fyrsta lagi varðveislustaður þjóðmenningar, þar á meðal dægurmenningar. Þetta má sjá glögglega í nágrannalöndunum á því að í kringum ríkisfjölmiðla hafa orðið til fjölsótt söfn fyrir fræðimenn og almenning. Dægurefni er ein mikilvægasta uppspretta skilnings á samfélaginu og sinnuleysi um varðveisluhlutverk RUV hefur því í för með sér ómælt tjón fyrir samfélag framtíðarinnar.

Ríkisútvarpið er í öðru lagi miðstöð dagskrárgerðar. Þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir til að þynna dagskrána, hefur Rás 1 til dæmis haft afgerandi sérstöðu fram að þessu. Þessa dagskrárgerð má ekki meta út frá áhorfs- og hlustunartölum einum. Sú staðreynd að útvarpið getur endurtekið margra áratuga gamalt efni sýnir vel hversu oft hefur verið unnið mikilvægt og gott starf í dagskrárgerð. Tjónið af því að þrengja enn frekar að henni er ekki aðeins tjón hlustenda dagsins í dag, heldur ekki síður fyrir framtíðarstarfsemi útvarps og sjónvarps.

Undanfarin ár hefur Ríkisútvarpið þolað mikinn niðurskurð og í því frumvarpi til fjárlaga sem liggur fyrir Alþingi er áformað að höggva enn í sama knérunn. Í kjölfar harkalegra uppsagna á stofnuninni fyrir hartnær þremur vikum hefur risið mótmælaalda í samfélaginu. Ráðamenn þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins hafa ekki brugðist við þeirri gagnrýni sem að þeim er beint utan úr samfélaginu, heldur vísar þar hver á annan. Það er ótækt.

Við skorum á Alþingi
• að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð fjárframlaga til Ríkisútvarpsins sem boðaður hefur verið.
• að sjá til þess að útvarpsgjaldið sem lagt er á landsmenn renni óskipt til Ríkisútvarpsins og þjóni þannig markmiðinu sem löggjafinn ætlar því.
• að þrýsta á stjórn RÚV ohf., sem kjörin er af Alþingi, að sjá til þess að uppsagnir starfsmanna verði dregnar til baka og tryggja að Ríkisútvarpið geti starfað af þeim metnaði sem sæmir lykilstöðu þess í
samfélaginu.

Tilraunaglasið | RÚV

 


mbl.is Háskólastarfsmenn skora á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

Fátt er þjóðfélaginu mikilvægara nú en að skapa hagnýta þekkingu og skapa ný verðmæti. Þekkingin sem ný fyrirtæki eru byggð á er oftar en ekki afurð vísindalegra framfara. Og þær byggjast oftast á fyrirbæri sem landinn heyrir lítið um, svokölluðum opinberum samkeppnissjóðum.

Samkeppnissjóðir styrkja bæði grunnrannsóknir og tækniþróun með hagnýtingu og markaðssetningu að markmiði. Fyrirkomulagið er þannig að vísindamenn og frumkvöðlar keppa um fjármagn með því að senda inn ítarlegar áætlanir, sem metnar eru af fagfólki. Bestu hugmyndirnar, aðferðirnar og verkefnin fá styrki.

Grunnrannsóknir eru ákaflega mikilvægar vegna þess að þær skapa þekkingu sem er undirstaða hagnýtingar og annarra framfara. Miklu skiptir að hagnýtingin er sjaldnast augljós í upphafi. Með öðrum orðum, það er oftast ófyrirsjáanlegt hvaða grunnrannsóknir reynast stökkpallur fyrir hagnýtingu síðar meir. Lítið dæmi eru rannsóknir á frostþoli í skordýrum, sem síðar nýttust til að geyma líffæri fyrir ígræðslu. Ekki síður mikilvæg afurð grunnrannsókna er þjálfun fólks í að rannsaka og leysa vandamál.

Með því að styðja við samkeppnissjóði og rannsóknarháskóla græðir Ísland á nokkra vegu:

  1. Vísindamenn okkar geta uppgötvað nýjar staðreyndir eða lögmál, sem skipta okkur og umheiminn máli. Dæmi um þekkingu af þessu tagi má nefna nýlegar rannsóknir á eldgosum, krabbameinum og lífríki hafsins.
  2. Útskrifaðir nemendur með vísindalegan skilning og þjálfun geta tileinkað sér nýjustu framfarir í heimi vísinda og tækni. Slíkt fólk er forsenda þess að við getum hagnýtt erlenda þekkingu, heimfært hana upp á íslenskar aðstæður og jafnvel betrumbætt.
  3. Rannsóknarnám þjálfar nýja kynslóð vísindamanna sem getur tekist á við áskoranir framtíðar. Þær áskoranir eru margar ófyrirsjáanlegar og því nauðsynlegt að þjálfa fólk í vísindalegum vinnubrögðum, sem er aðferð til að takast á við opnar spurningar.
  4. Í rannsóknarháskólum kenna hæfustu einstaklingar landsins á hverju fræðasviði, sem hafa jafnan lært við bestu háskóla erlendis. Íslenskir nemendur kynnast bæði óleystum vandamálum og nýjustu aðferðum, sem eru kveikjan að nýjum lausnum og mögulega fyrirtækjum.

Í fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er fyrirhugaður margs konar niðurskurður í rannsóknum og nýsköpun, sérstaklega á samkeppnissjóðum um tugi prósenta milli ára.

Áframhaldandi niðurskurður er áætlaður næstu árin. Jafnvel alvarlegra er þó að þrátt fyrir að Íslendingar verji tiltölulega háu hlutfalli landsframleiðslu í rannsóknir (2,6%), þá setjum við einungis 14% þess í samkeppnissjóði. Til samanburðar fara 30 – 40% rannsóknarpeninga norrænna skattborgara í samkeppnissjóði. Til að bæta gráu ofan á svart hefur hlutfallslegt framlag okkar til rannsókna lækkað um 8% frá 2009 öfugt t.d. við Finna sem juku fjármagn til rannsókna og nýsköpunar í kreppunni fyrir aldamót. Finnar vissu að samkeppnissjóðir eru besta leiðin til að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun, líka á erfiðum tímum.

Íslensk vísindi og nýsköpun geta bætt efnahag og þjóðfélag landsins ef við berum gæfu til að verja (og stækka sem fyrst) samkeppnissjóðina og styðja við rannsóknarháskólana.

Pétur H. Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. desember 2013 og á vefnum vísir.is - Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun

Ítarefni og skyldir pistlar

RÚV 5. des. 2013 Deila um framlög til rannsóknarsjóða

RÚV 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði til vísinda

Visir.is 5. des. 2013 Mótmæltu niðurskurði með spurningamerkjum

MBL.is 5. des. 2013 570 milljóna niðurskurður í lok árs

MBL.is 5. des. 2013  Pereat ungra vísindamanna

MBL.is 5. des. 2013  Ný stefna Vísinda- og tækniráðs gagnslaus

Lífvísindasetur HÍ Það er verið að gera grín að vísindamönnum 

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Eiríkur Steingrímsson og Magnús K. Magnússon Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna

 

 

 


Hvað annað var sagt á fundinum?

Jón Gnarr er "klárlega snillingur" sem orðbragð er af. Hann er frábær listamaður og leikari mikill, þroskaheftur að eigin sögn en vel þroskaður grínisti, sem slær á mannlegar og djúpar nótur.

Fyrir mér er það samt örlítið vandamál (alls ekki persónulegt!!!!) að hann (sem og aðrir) getur tekið athyglina frá atriðum sem skipta þjóðfélagið rosalega miklu máli. Ég er þroskaheftur sagði Jón Gnarr, er sem sagt aðal fyrirsögnin af fundi um niðurstöður PISA könnunarinnar hérlendis.

Þær niðurstöður eru grafalvarlegar og boða ekki gott fyrir framtíð íslensks samfélags. Við þurfum að komast að því hvaða ástæður eru fyrir niðurstöðunni, og reyna að spyrna á móti. Við þurfum að breyta okkar hegðan, skólakerfinu og búa til jákvæðara og framsæknara þjóðfélag. Þar sem börn hafa gaman að námi, læra sér til gagns og gleði, og bæta samfélagið með viðhorfum sínum, hugmyndum, sköpunar- og framkvæmdakrafti.

Ég veit ekki hvaða þættir orsaka dapra útkomu í PISA könnuninni. Mig grunar að ein ástæðan sé (án þess að hafa gögn fyrir því) að offramboð á skemmtan og léttúð hafi rýrt gildi menntunar í augum barna og foreldra.

Ef svo er þá væri dæmigert að umfjöllun vinsælasta fréttavefs landsins af þessum fundi skuli einblína á skoplegar athugasemdir grínistans sem við kusum sem borgarstjóra. Og að hugmyndir eða greiningar á PISA niðurstöðunum skuli ekki einu sinni rata inn í fréttina. Ekki síður kaldhæðnislegt er að kvart menntamannsins skuli birtast á bloggi, en ekki í lesendablaði til Ísafoldar eða Kímblaðsins.

Viðauki 18. des.

Athugasemdum mínum er aðallega beint til fjölmiðilsins, og vitanlega okkar sem hvetjum þá áfram á sirkusbrautinni með því að opna og lesa "fréttir" með krassandi titla og lítið innihald.


mbl.is „Ég er þroskaheftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott skref í rétta átt

Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna hafa verið undir smásjánni í nokkra áratugi.

Það hefur tíðkast að lyfjafyrirtæki styrki lækna á ráðstefnur, borgi fyrir þá málsverði, bjóði upp á mat á málþingum og styrki þá á aðra lund. Rannsóknir hafa líka sýnt að jafnvel þótt að læknar (eða hverjir aðrir sem þiggja áþekkar gjafir), breyta hegðun sinni gagnvart lyfjafyrirtækjunum. 

Þeir eru líklegri til að ávísa á lyf þeirra og mæra þau á ýmsan hátt. Þetta er að miklu leyti ómeðvituð hegðun af hálfu heilbrigðis-starfsfólksins, en raunveruleg engu að síður.

Lyfjafyrirtækin vita þetta, enda myndu þeir fjárfesta í flugfari fyrir lækna ef hagnaður fyrirtækisins myndi ekki aukast?

Í bandaríkjunum fengu (og kannski enn)  lyfjafyrirtæki aðgang að upplýsingum frá apótekum. Lyfjafyrirtækin gátu sent fulltrúa sína á fund lækna, og látið þá kynna ákveðin lyf. Síðan gátu fyrirtækin fylgst með því hvernig lyfjaávisanir breyttust í kjölfarið.

Þau gátu séð hvaða kynningarefni virkaði best, hvaða sölubrellur virkuðu á hverskonar einstaklinga og svo framvegis.

Þarna voru lyfjafyrirtækin með frábært kerfi til að prufa margskonar markaðsverkfæri og sölulínur. Læknarir voru óaðvitandi orðnir tilraunadýr, í sölumennsku tilraun lyfjafyrirtækisins.

Það gefur auga leið að þetta kerfi er ekki endilega sjúklingnum í hag. Þetta er kerfi sem miðar að því að hámarka ágoða lyfjafyrirtækisins, ekki heilsu eða bata sjúklingsins.

Nýlegar fréttir um að GlaxoSmithKline hafi ákveðið að hætta að greiða læknum fyrir  kynningarstarf, og bónus fyrir sölufólk, eru jákvætt skref í þá átt að rekja ofan af þessari vitleysu.

Þessi vandamál sem rakin eru hér að ofan eru bara smá hluti af stærra fyrirbæri. Ég hef verið með ítarlega grein um þessi mál í smíðum, en Freyr einn veit hvenær ég hef tíma til að klára hana. Þeim sem hafa áhuga á málinu er bent á tvær stórkostlegar bækur um efnið.

Ben Goldacre - Bad Pharma : review The Telegraph

Carl Elliott -  White Coat, Black Hat


mbl.is Glaxo hættir að borga læknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landinn fjallar um sumarexem í hestum

Þjóðlífsþátturinn Landinn fjallaði í gær um rannsóknir á sumarexemi í hestum. Sumarexemið herjar oft á íslenska hesta sem seldir hafa verið til útlanda. Það herjar ekki á íslenska hesta, sem fæddir eru erlendis. Exem er sjálfsofnæmissjúkdómur, sem getur orðið mjög svæsinn ef hestarnir skipta um umhverfi.

Eftir rúmlega áratuga langar rannsóknir, hérlendis aðallega stundaðar af sérfræðingum á Keldum, glittir í meðferð og jafnvel bólefni gegn exeminu.

Búið er að greina meinvaldinn, flugu sem bítur íslenska hesta erlendis og einangra prótín sem virðast vekja ónæmissvar sem leiðir til exemsins. Nú er í þróun bóluefni gegn þessum prótínum, sem gætu nýst til að fyrirbyggja exemið.

Landinn talaði við Sigríði Jónsdóttur líffræðing, en doktorsverkefni hennar fjallar einmitt um þróun bóluefnis og meðferðarúrræða. Vilhjálmur Svansson og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir er leiðbeinandur Sigríðar og sést sú síðarnefnda einnig í mynd.

Rannsóknirnar hafa verið styrktar af Rannsóknamiðstöð Íslands, í gegnum samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs. Þetta eru grunnrannsóknir, en hafa sannarlega mikil fjárhagslegt gildi. Hestar ræktaðir hérlendis geta fengið exem og því öruggara fyrir erlenda kaupendur, að kaupa íslenska hesta fædda erlendis.

Fyrirhugaður niðurskurður á samkeppnissjóðum í fjárlögum fyrir 2014, mun ekki auðvelda þessar rannsóknir.

Ítarefni:

Landinn 15. desember 2013. Lyf við exemi í hrossum

Keldur Sumarexem, smámýsofnæmi, í íslenskum hestum

Arnar Pálsson 5. desember 2013. Heill árgangur af vísindafólki rekinn


Lítill plástur á brotna fingur

Undanfarinn mánuð höfum við fjallað töluvert um fyrirhugaðan niðurskurð til samkeppnissjóða Rannís. Þessir sjóðir styrkja grunnrannsóknir og tæknirþróun hérlendis, og eru hlutfallslega miklu minni en sambærilegir sjóðir í nágrannalöndunum. Ástæðan er margra áratuga vanræksla af hálfu ríkisins.

Í fyrra voru sjóðirnir hækkaðir í fyrsta skipti frá hruni, hvað varðar krónutölu. En það var gert á mjög klaufalegan hátt, innspýtingin var tengd veiðileyfagjaldinu og sérstakri fjárfestingaráætlun þáverandi ríkisstjórnar.

Þórarinn Guðjónsson forseti vísindafélagsins hefur sagt að þetta hafi verið mikið ógæfuspor, að tengja fjármögnun grunnrannsókna ákveðnum tekjustofni ríkisins. Ímyndið ykkur ef fjármögnun lögreglunar væri beintengd skatttekjum af hrökkbrauði og gistináttaskatti rukkuðum á Melrakkasléttu.

Samkeppnissjóðir stuðla að nýsköpun

Staðreyndin er að verðbólga undanfarinna ára hefur þýtt stöðuga minnkun á rannsóknasjóðunum, þannig að þeir sem stunda rannsóknir hafa lent í miklum vandamálum með fjármögnun og jafnvel þurft að segja upp fólki. Alvarlegast er að sjóðirnir eru aðallega nýttir í að greiða ungu vísindafólki laun, og viðvarandi hallæri, leiðir til þess að fólk hreinlega hættir námi eða byrjar aldrei. Með því að vanrækja samkeppnissjóðina, þá segir íslenska þjóðin*að hún vilji ekki þekkingarsamfélag og nýsköpun í hátækni og vísindum.

Ólga meðal vísindamanna

Vísindamenn hafa látið í sér heyra, og t.d. mótmæltu þeir fyrirhuguðum niðurskurði fyrir viku. Ástæðan fyrir ólgunni meðal vísindamanna er tvíþætt. Í fyrsta lagi er fólk langþreytt á lélegum aðbúnaði (t.d. innan stofnana) og styrkjaumhverfi hérlendis. Í öðru lagi var skvett á vonarneista. Innspýtingin í fyrra gaf von um betri tíma og meiri skilning meðal ráðamanna. En útspil nýrrar ríkisstjórnar (og alþingis ef það samþykkir þessi ákvæði í fjárlögum) er eins og hurð sé skellt á hönd. Fólk öskrar ef fingur þeirra eru brotnir, og enn hærra þegar vonir bresta.

Rannís refsað fyrir ráðdeild

Til að bæta gráu ofan á svart, var fyrirhugaður næstum 400 milljóna niðurskurður í fjáraukalögum fyrir 2013. Um var að ræða peninga til rannsóknasjóða, sem Rannís (Rannsóknamiðstöðu Íslands) úthlutaði ekki í ár, heldur ákvað að geyma yfir á næsta ár. Samkvæmt þessum fyrirætlunum átti að refsa Rannís fyrir ráðdeild í ríkisrekstri. Blessunarlega var þessu breytt í annari útgáfu fjáraukalaga. Vísindasamfélagið á Íslandi fékk því plástur á brotna fingur, en dyrin er ennþá lokuð.

Nú liggur fyrir að fræða stjórnvöld, alþingi og landsmenn flesta um mikilvægi rannsókna fyrir þjóðlíf hérlendis og sóknarfæri samfélagsins og atvinnuveganna.

E.s. María Rut Kristinsdóttir, formaður stúdentaráðs ritar einnig góða grein í blað dagsins um niðurskurð í HÍ og hækkun skólagjalda.

Ítarefni og skyldir pistlar.

Þórarinn Guðjónsson Vísindafélag Íslendinga í 95 ár Fréttablaðið 13. desember 2013

Þórarinn var gestur Sjónmáls á Rás 1 9. desember.

Einnig var rætt við hann í Býtinu á Bylgjunnii 4. desember.

María Rut Kristinsdóttir Sérstakur skattur á námsmenn Fréttablaðið 13. desember 2013

*Eða þeir sem hafa meirihlutaumboð hennar á þingi!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband