Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Málstofa um erfðatækni í víðu samhengi

Af vef hugvísindastofnunar.

Laugardaginn 15. mars kl. 10.30-16.30 í stofu 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Erfðatækni hefur verið í örri þróun síðustu ár og er nú orðið ómissandi tæki í margskonar grundvallarrannsóknum í lífvísindum. Hún hefur einnig verið hagnýtt í læknisfræði, landbúnaði og iðnaði. Mikil átök hafa orðið um hvort rétt sé að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið og nýta afurðir sem unnar hafa verið úr þeim. Settar hafa verið mjög strangar reglur víða um heim sem takmarka nýtingu þessara lífvera. Umræðan í samfélaginu er oft óvægin og mótast oftar en ekki af takmarkaðri þekkingu á málefninu. Í málstofunni verður farið yfir hvað felist í erfðatækni og hvernig megi nýta þessa tækni í grunnrannsóknum, læknisfræði, landbúnaði og matvælaiðnaði. Lögð verður áhersla á að fjalla um málið frá öllum hliðum og kynntir verða bæði möguleikar og takmarkanir við beitingu tækninnar, þ.m.t. hugsanlegar hættur fyrir heilsu manna og umhverfið.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Zophonías Oddur Jónsson, prófessor í líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ: Saga erfðatækninnar - í stuttu máli
  • Arnar Pálsson, dósent í líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ: Erfðatækni og umhverfi í ljósi vistfræði og þróunarfræði
  • Áslaug Helgadóttir, prófessor og aðstoðarrektor rannsóknamála, LbhÍ: Náttúran sér um sína – eða hvað? Erfðatæknin og kynbætur nytjaplantna
  • Jón Hallsteinn Hallsson, dósent í auðlindadeild, LbhÍ: Satt og logið í sveitinni – Sjálfsmorð smábænda og erfðabreyttar lífverur
  • Oddur Vilhelmsson, prófessor í auðlindadeild, HA: Er of gaman á rannsóknastofunni? – Hugleiðingar um óbærilegan léttleika erfðatækninnar
  • Magnús Karl Magnússon, prófessor í læknadeild, HÍ: Hvað segir reynslan af nýtingu erfðatækni í læknisfræði okkur um hugsanlega hættu af erfðabreytingum í landbúnaði fyrir heilsu fólks?
  • Eiríkur Steingrímsson, prófessor í lífefnafræði, HÍ: Vísvitandi blekkingar um áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu?
  • Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, HÍ: Deilan um erfðabreytingar í almenningsrýminu

Á sömu leið og risaeðlurnar

Greind fíla er aðdáunarverð. En hún dugir þeim ekki til að forðast þungvopnaða veiðimenn á jeppum, sem eitra vatnsbólin.

Staðreynd málsins er að fílar eru myrtir unnvörpum, aðallega vegna beinanna sem notuð eru í skraut og "óhefðbundin" meðul. Þeir eru jafnvel ekki öruggir í stórum þjóðgörðum eins og Serengeti.

Vinnufélagar mínir voru á ferð í sigdalnum á síðasta ári, og samkvæmt heimamönnum þeirra stefna fílar fram af brúninni. Nýlegt mat segir að 20% villtra fíla muni hverfa á 10 árum. En þetta mat er byggt á tölum frá síðasta áratug, og miðað við nýlegar fréttir er staðan örugglega verri.

Við sjáum fram á að villtir fílar lendi í sömu skúffu og risaeðlurnar.

576px-museum_al_dinosaur.jpg

Þeir verða ekki formlega útdauðir, því nokkur dýr verða í dýragörðum eða á verndarsvæðum. En það verður aldrei eins - fílar í dýragarði eru ekki sömu dýrin og í náttúrunni. Þeir munu ekki fylgja regninu eða leita í salthella til að birgja sig upp.

Þetta mun gerast á minna en mannsaldri, á meðan við hvelfumst um sjálf okkur í tölvum og sykursukki.

Eyðing náttúrulegrar fjölbreytni og auðlinda er eitt mest aðkallandi vandamál nútímans. Fílar gleyma engu, en menn gleyma staðreyndum sem þessari og á meðan hverfa dýrategundir af jörðinni á skuggalegum hraða.

Það er forvitnilegt að læra um nýuppgötvaðar risaeðlur, en það er óþarfi að hrekja allar lífverur fram af brúninni til að svala þorsta sínum í platheilsumeðul, fílabeinsskraut og steingervinga.

Mynd af amerískum Torvosaurus af wikimedial commons.

Ítarefni:

International Union for the Conservation of Nature (IUCN) that “one-fifth of Africa’s elephants could be wiped out in the next ten years, at current poaching levels.” 

National Geographic 2013 Elephant Declines Vastly Underestimated

Freyr Eyjólfsson á Rás 2 fjallaði um Nýja risaeðlutegund, lýst fyrst í grein í Plos One.

Christophe Hendrickx og Octávio Mateus Torvosaurus gurneyi n. sp., the Largest Terrestrial Predator from Europe, and a Proposed Terminology of the Maxilla Anatomy in Nonavian Theropods PLoS one, 2014. DOI: 10.1371/journal.pone.0088905


mbl.is Fílar bera kennsl á mannsraddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framleiðsla og framreiðsla vísinda

Sem líffræðingi og kennara við Háskóla Íslands eru vísindi mér hjartfólgin. Ég hef mikinn áhuga á vísindalegum spurningum, niðurstöðum og álitamálum. Óhjákvæmilega veltir maður líka fyrir sér hinni vísindalegu aðferð og því hvernig vísindalegar framfarir eiga sér stað.

Framreiðsla vísinda

Vísindalegum framförum er nær eingöngu miðlað á rituðu formi, sem greinar í tímaritum eða á netinu. Sannarlega er myndefni og jafnvel myndbönd hluti af vísindalegum greinum og gögnum, en burðurinn í skrásetningu og miðlun vísinda er hið ritaða orð.

Vísindalegar greinar sem mestu skipta er ritrýndar. Það þýðir að greinin sem lýsir tiltekinni rannsókn, hefur farið í yfirlestur hjá sérfræðingum á viðkomandi sviði. Sérfræðingarnir rýna í rannsóknina og greinina, og ýmist hafna eða samþykkja. Oft þarf reyndar nokkrar umferðir til, ef yfirlesarar benda á veikleika eða tilraunir sem vantar, eða hreinlega leiðbeina höfundum með heimildavinnu, lýsingu á niðurstöðum eða túlkun. Það að fá grein samþykkta er langt ferli, og flestir vísindamenn fagna slíku afreki. Það að fá grein birta er ígildi þess að skora mark. Og ef greinin kemst í virt vísindaleg tímarit, er það eins og að skora sigurmark með landsliði.

Vísindamenn skila sínu til samfélagsins í formi slíkra greina, og einnig í bókum, einkaleyfum, forritum og öðrum afurðum.

Framleiðsla vísinda

Því hefur komist á sú hefð að mæla framleiðslu vísindamanna með því að telja greinar. Þetta var hið mesta ógæfuspor, af nokkrum ástæðum. Teljum fyrst upp gallana. Fyrst eru fræðigreinar mjög ólíkar hvað varðar birtingartíðni, vegna mismunar á aðferðum, spurningum, stuðningi og fyrirbærum. Í öðru lagi eru greinar misjafnar að gæðum. Sumar greinar fela í sér lítlar framfarir, á meðan aðrar opna okkur nýjar lendur þekkingar eða kollvarpa eldri tilgátum. Í þriðja lagi þá er mjög erfitt að spá fyrir um hvaða greinar hafa áhrif til lengri tíma. M.ö.o. sumar rannsóknir eru á undan sinni samtíð, og oft tekur það vísindasamfélagið dágóðan tíma að átta sig á mikilvægi þeirra. Í fjórða lagi, þá er óheppilegt að telja bara greinar, því þá fælum við fólk frá því að rannsaka erfið viðfangsefni (sem leiða ekki til birtinga margra greina).

Punktakerfi Háskóla Íslands

Innan HÍ er notað punktakerfi til að meta framleiðni fræðimanna. Kerfið varð til þegar Ólafur R. Grímsson var fjármálaráðherra, sem lausn á kjaradeilu. Kerfið var hugsað sem jákvæð hvatning. Það umbunar kennurum fyrir að klára rannsóknir sínar og birta greinar á alþjóðlegum vettvangi. Hins vegar er nú svo komið að kerfið er notað um allan háskólann, t.d. við að útdeila fé til rannsókna, uppskiptingu fjár til deilda og framhaldsnema.

Kerfið er meingallað og mikill styrr hefur staðið um það. Félag prófessora tók t.d. saman lista yfir gallana árið 2011.

Áhrifastuðull Thomson Reuters

Thomson Reuters er fyrirtæki sem rekur gagnagrunn um vísindalegar greinar og tilvitnanir. Það er fyrir hverja grein er athugað hvaða aðrar rannsóknir hún vísar til. Að sama skapi má þá einnig draga saman hvaða og hversu margar aðrar rannsóknir/greinar vísa í tiltekna grein.

Þessi gögn eru notuð til að reikna út áhrifastuðul (Impact factor) vísindarita. Ef tiltekið tímarit birtir margar greinar sem margir vísa í er ályktað að tímaritið hafi mikil áhrif. Ef sjaldan eða aldrei er vísað í greinar í öðru tímariti er hægt að álykta að fáir lesi þær greinar og að áhrif þeirra séu hverfandi.

Áhrifastuðullinn var hannaður til að bera saman tímarit. En ritstjórar tímarita eru gáfum gæddir, og hafa lært að spila á stuðulinn (til dæmis fá yfirlitsgreinar alla jafna fleiri tilvitnanir en grunnrannsóknir). 

Verst er að stuðullinn hefur síðar verið notaður af háskólayfirvöldum og rannsóknasjóðum til að bera saman vísindamenn. Þetta er ódýr aðferð til að sleppa við að kafa í rannsóknir einstaka vísindamanna.

Afnemum stuðulinn

Enda hafa nokkur samtök amerískra fræðimanna sent frá sér yfirlýsingu um að áhrifastuðlar verði lagðir af í mati á störfum einstaklinga og styrkveitingum. Ályktun þeirra er ítarleg og vandlega rökstutt. Hér er aðeins endurprentaður kjarni hennar:

A number of themes run through these recommendations:

  • the need to eliminate the use of journal-based metrics, such as Journal Impact Factors, in funding, appointment, and promotion considerations;
  • the need to assess research on its own merits rather than on the basis of the journal in which the research is published; and
  • the need to capitalize on the opportunities provided by online publication (such as relaxing unnecessary limits on the number of words, figures, and references in articles, and exploring new indicators of significance and impact).

Við vísindamenn þurfum að einbeita okkur að vísindunum, og að vanda rannsóknir og greinaskrif. En við verðum einnig að vera vakandi fyrir breytingum á umgjörð vísinda sem geta leitt okkur í villigötur. Punktakerfi eins og það sem HÍ notar nú til að útdeila rannsóknarfé er ljón á veginum til framfara.

Ítarefni og skyldir pistlar.

The San Francisco Declaration on Research Assessment (DORA)

Arnar Pálsson | 4. mars 2013  Ný opin tímarit á sviði líffræði

Ályktun Félags prófessora um punktakerfi HÍ - 2011.


Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir Málstofa 2

Á árinu verða haldnar málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Fyrsta málstofan var haldin 17. janúar 2014 og önnur málstofan verður haldin 14. mars næstkomandi.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgÁ næstu málstofu flytja erindi erlendir sérfræðingar sem hafa rannsakað áhrif sjókvíaeldis á nálæg vistkerfi og þekkja reynslu annarra þjóða af laxeldi. Þeir eru dr. Trygve Poppe prófessor við norska dýralæknaháskólann, dr. Paddy Gargan hjá Central Fisheries Board of Ireland, og dr. Bengt Finstad hjá norsku náttúrufræðastofnuninni NINA. Einnig flytja erindi þeir Jón Örn Pálsson MSc fyrir hönd  Landssambands fiskeldisstöðva og dr. Erik Sterud fyrir hönd Landssambands veiðifélaga.

Fjallað verður um sjávarlús í fiskeldi, lyfjagjafir, sjúkdóma og útbreiðslu smits frá fiskeldi í sjó, en allir frummælendur hafa tekið þátt í fjölda rannsókna á þessum sviðum. Að lokum verður opnað fyrir umræður og taka fyrirlesarar og fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga þátt í pallborðinu.

Málstofan, sem fer fram á ensku, verður haldin á Café Sólon í Reykjavík kl. 13:30 – 16:30 föstudaginn 14. mars 2014.

Nánari upplýsingar Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir Málstofa 2.
 
Fyrsta málstofan Líffræði og umhverfisfræði fiskeldis var vel sótt.
 
Mynd af bleikjuhrognum, Arnar Pálsson 2010.

Leyndarmál veiranna og Margrétar

Brautryðjendur er frábær sjónvarpsþáttur um konur sem brotið niður múra og opnað gáttir. Í gærkveldi var rætt við Margréti Guðnadóttur veirufræðing, um hennar sögu og rannsóknir.

Margrét var svo lánsöm að fá vinnu á Keldum strax eftir að hún lauk læknisprófi. Þar vann hún með Birni Sigurðsyni frumkvöðli í veirurannsóknum. Hún var fyrst konan sem skipaður var prófessor við Háskóla Íslands, og lýsir þeirri atburðarás ansi skemmtilega í þættinum. Hún var eini kvenkyns veirufræðingur landsins. Margrét segir, 

Það er best að þeir fái einu sinni umsókn frá kvenmanni, og vita hvað þeir gera...

Hún stóð í kálgarðsgallanum og fékk upphringingu frá útvarpinu, og frétti þannig að hún hefði fengið starfið.

Margrét er einstakur vísindamaður og frábær persónuleiki. Viðhorf hennar gagnvart verkefnum er örugglega hluti af velgengni hennar.

Mér hefur aldrei leiðst í vinnunni, einn einasta dag - aldrei 

Rannsóknir Margrétar snúast um hæggengar veirusýkingar mæði og visnu í kindum. Mæði visnu veiran er af ætt lentiveira, eins og HIV. Margrét hefur gert tilraunir með bólusetningar, með óvirkjuðum mæði-visnu veirum, og lofa niðurstöðurnar mjög góðu. Nýleg rannsókn Margrétar og Kýpverskra samstarfsmanna sýnir að mögulegt er að þróa bóluefni gegn lentiveirum.

Vonandi er hægt að byggja á þessum niðurstöðum og þróa viðlíka vörn gegn HIV.

Ítarefni:

RÚV 9. mars 2014. Brautryðjendur - Margrét Guðnadóttir.

Gudnadóttir M, Demosthenous A, Hadjisavvas T. Vaccination delays Maedi-Visna lentivirus infection in a naturally-infected sheep flock. BMC Vet Res. 2013 Jan 22;9:16. doi: 10.1186/1746-6148-9-16.

Guðmundur Pétursson. „Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda?“. Vísindavefurinn 14.1.2011. http://visindavefur.is/?id=58128. 


Brögðóttar krabbameinsfrumur í gervi stofnfruma

Krabbameinsfrumur eru ansi brögðóttar. Nýlegar rannsóknir sýna að stundum geta krabbameinsfrumur hermt eftir stofnfrumum, sérstaklega þegar þær eru að mynda meinvörp.

Sameindalíffræðingurinn Þórður Óskarsson hefur rannsakað þessi fyrirbæri, og ræðir þau í viðtali við Leif Hauksson í Sjónmáli gærdagsins (5. mars 2014).

Krabbameinsfrumur eiga nefnilega erfitt uppdráttar í framandi vefjum. Segjum sem svo að krabbamein hafi myndast í lunga, og myndar þar æxli. Slík æxli má fjarlægja með skurðaðgerð og/eða meðhöndla  með geislum eða efnum. En æxlisfrumur geta líka farið á flakk um líkamann, og myndað meinvörp.

Það sem torveldar flakk krabbameinsfruma er sú staðreynd að vefir eru ólíkir, og eiga lungnafrumur almennt ekki auðvelt uppdráttar í t.d. vöðva eða heila. En Þórður og aðrir vísindamenn hafa sýnt að krabbameinsfrumur yfirstíga þessa hindrun með bellibrögðum. Þær breyta tjáningu gena sinna, og framleiða sameindir sem einkenna stofnfrumur. Flestir vefir eru með stofnfrumur, og þar með er komin leið fyrir krabbameinsfrumurnar að "nema land" í nýjum vef. Og þá getur meinvarp farið að myndast oft með alvarlegum afleiðingum. 

Ég skora á fólk að hlýða á einstaklega fræðandi viðtal við Þórð í Sjónmáli. Einnig er öllum frjálst að hlýða á erindi Þórðar á morgun, á málþingi á vegum Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofu HÍ. Erindið verður flutt á ensku.

Þrír aðrir líffræðingar flytja fyrirlestur á málþinginu, þau Sigríður R. Franzdóttir, Ólafur E. Sigurjónsson og Guðrún Valdimarsdóttir.

 

Guðrún birti einmitt nýlega rannsókn á stofnfrumum og hjartaþroskun, sem fjallað er um á vef HÍ.

Hópur vísindamanna og nemenda við Lífvísindasetur Háskóla Íslands undir forystu Guðrúnar Valdimarsdóttur, lektors í lífefnafræði við Læknadeild, fékk á dögunum birta grein í marsútgáfu hins virta vísindarits Stem Cells þar sem varpað er ljósi á það hvaða boðferlar í stofnfrumum úr fósturvísum manna leiða til þess að þær sérhæfast í hjartafrumur. Rannsóknin er liður í því að auka skilning manna á því hvernig hægt yrði að nýta fjölhæfar stofnfrumur til þess að græða skaddaðan hjartavef....

Guðrún og samstarfsfólk hennar hyggst halda áfram rannsóknum á sérhæfingu stofnfruma og beina nú sjónum sínum að myndun æðarþelsfruma. Vefir líkamans eru háðir blóði til vaxtar og viðhalds og æðaþelið er nauðsynlegt til blóðflæðis. „Við höfum tvenns konar markmið fyrir augum. Við viljum annars vegar geta aukið æðamyndun í tilvikum ýmissa æðasjúkdóma og hins vegar viljum við koma í veg fyrir of mikla æðamyndun til þess að geta stöðvað æxlisvöxt,“ segir Guðrún. Hún bætir við að tilraunir á músum, þar sem ákveðin gen hafa verið slegin út og eru þar af leiðandi ekki tjáð, sýni að fjölskylda vaxtarþátta, svokölluðu TGFbeta-fjölskylda, stjórnar miklu um þroskun fruma hjarta- og æðakerfis. „Við ætlum að skoða hvort við getum stjórnað sérhæfingu stofnfruma í  æðaþelsfrumur með því að breyta boðleið TGFbeta-fjölskyldunnar innan frumunnar. Þessi rannsókn byggist að sjálfsögðu á rannsóknarstyrkjum sem við erum algerlega háð í okkar vinnu,“ segir Guðrún að lokum.

Málþing um sameindalíffræði og stofnfrumur - dagskrá.

Sjónmál 5. mars 2014 Krabbameinsfrumur nýta sér stofnfrumur

Frétt á vef HÍ.is 5. mars 2014  Varpa ljósi á þroskun stofnfruma í hjartafrumur

Anne Richter ofl. BMP4 Promotes EMT and Mesodermal Commitment in Human Embryonic Stem Cells via SLUG and MSX2 2014 STEM CELLS Volume 32, Issue 3, pages 636–648, March 2014


Við erum samsett úr frumum og sameindum

Um miðbik síðustu aldar varð til ný fræðigrein á mörkum efnafræði og líffræði. Sameindalíffræði fjallar um sameindir eins og t.d. prótín, sykrur og kolvetni, sem finnast inni í öllum lífverum. Hún gerði vísindamönnum kleift að skilja eðli erfða, og rannsaka eiginleika fruma og lífvera.

lottetal07b.jpg

Nú hefur sameindalíffræðin teygt anga sína víða. Hún er grundvöllur margra framfara í læknisfræði og landbúnaði, hún er nýtt í rannsóknum á vistkerfum og þróun og jafnvel sem verkfæri listamanna. Þekktast er etv. framleiðsla á insúlín með erfðatækni, og nú eru fjölmörg önnur lyf framleidd með aðferðum líftækninnar. Hið nýja hús Alvogens í Vatnsmýri, verður einmitt vettvangur framleiðslu samheita líftæknilyfja.

 

Sameindalíffræði hefur kollvarpað skilningi okkar á eiginleikum sjúkdóma, t.d. krabbameina eða hjartaáföllum. Með aðferðum hennar er hægt að rannsaka ferla sem aflaga fara í sjúkdómum, og jafnvel að þróa leiðir til að vinna gegn þeim. Íslenskir sameindalíffræðingar eru framarlega í rannsóknum á þessu sviði, sem dæmin sanna. Sigríður R. Franzdóttir og félagar eru t.d. að gen og kerfi sem stýra þroskun bleikjuafbrigðanna í Þingvallavatni. Ólafur E. Sigurjónsson hefur kannað hvernig má stýra þroskun stofnfruma með þáttum úr blóði. Guðrún Valdimarsdóttir náði að stýra stofnfrumum, og láta þær mynda litla hjartavísa. Þórður Óskarsson, sem fékk heiðursverðlaun Líffræðifélagsins í fyrra, stýrir rannsóknarhópi í Þýskalandi. Hann er að rannsaka áhrif umhverfis á stofnfrumur, með sérstaka áherslu á meinfarandi krabbamein.

 

Þessir líffræðingar munu allir halda erindi um rannsóknir sínar 7. mars 2014. Erindin verða í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ.

 

Líffræðifélag Íslands og Líffræðistofa HÍ standa fyrir málstofunni.

 

Dagskrá má sjá vef Líffræðifélags Íslands

Mynd af tjáningu gena í fóstrum ávaxtaflugna. Litað er fyrir tveimur prótínum í einu, even-skipped, kruppel og giant. Úr grein Susan Lott og félaga frá 2007.


Amöbur allra landa - skjálfið

Veirur eru eitt af undraverkum lífheimsins. Líffræðingar þræta um hvort þær séu raunverulega lífverur, eða einhverstaðar á mörkum lífs og dauða. Flestar þeirra eru reyndar hættulegar, og valda frumum skaða, eða hreinlega drepa þær.

Fögurnar sem sýkja þarmagerilinn E. coli fjölga sér svo mikið inni í gerlinum, að á endanum springur hann. Sumar veirur þurfa að komast inn í kjarna frumna, eða amk. stugga þeim út í frumuskiptingu, til að komast í nauðsynleg hráefni og ensím. Aðrar veirur er sjálfbærari, að því leyti að þær geta sýkt frumur sem ekki eru í skiptingu. Stórubólu veiran er ein af þeim. 

Munurinn á stórubólu og t.d. venjulegri kvefveiru er mikill. Sú fyrrnefnda er með mörgun sinnum stærra erfðamengi (um 200.000 basa), og fjölmörg gen. Kvefveirur af ætt rhinoveira eru með um 7000 basa erfðaefni og handfylli gena.

Fyrir um 10 árum uppgötvuðust risaveirur, sem eru með 10 sinnum stærri en bóluveirurnar. T.d. er Pandoravirus salinus með 2473870 bp erfðamengi.

Nú hafa borist fréttir af því að amk. ein slík veira hefur lifað af í Síberíu. Franskir vísindamenn leituðu veira í 30000 ára gömlum sífrera og athuguðu hvort þær gætu sýkt amöbur. Ein mjög sérkennileg risaveira gat sýkt frumurnar, og rannsóknir sýna að þetta er ný gerð veira.

Höfundar rannsóknarinnar gera mikið úr því í greininni og viðtölum að mikil hætta sé af slíkum veiru- uppvakningum. Að mínu viti er þetta full miklar áhyggjur, því líkurnar á að veirurnar hoppi úr frosnum klumpi í lifandi mann eru harla litlar.

Athugasemdir við frétt mbl.is.

Fréttin Hætta á að banvænir vírusar vakni er frekar hrá þýðing á frétt Sky fréttastofunnar og BBC. Í fyrsta lagi þá er talað um veirur hérlendis, ekki vírusa. Einnig lauk fyrstu útgáfu fréttarinnar á hörmunum, sem á auðvitað að vera hörmungum. Einnig finnst mér of mikið lagt upp úr hættunni á faraldri í frétt mbl.is, og þar með étið hráar yfirlýsingar höfunda greinarinnar. Aðrir veirufræðingar hafa ekki jafn miklar áhyggjur, sbr umfjöllun Ed Young í Nature.

Ítarefni:

Matthieu Legendre ofl.  Thirty-thousand-year-old distant relative of giant icosahedral DNA viruses with a pandoravirus morphology PNAS 2014

Ed Yong Giant virus resurrected from 30,000-year-old ice Nature 03 March 2014

http://www.giantvirus.org/top.html

Leiðréttingar. Í fyrstu útgáfu stóð skelfið, ekki skjálfið í titli. Merkingin er sannarlega allt önnur, en samt nokkuð spaugileg líka.


mbl.is Hætta á að banvænir vírusar vakni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameindalíffræði á miklu skriði

Líffræðifélag Íslands og Líffræðistofa HÍ standa fyrir málstofu um sameindalíffræði og stofnfrumurannsóknir þann 7. mars 2014.

Aðalfyrirlesarinn verður ungur íslenskur sameindalíffræðingur sem hefur haslað sér völl á mjög framsæknu sviði líffræði og læknisfræði. Þórður Óskarsson stýrir rannsóknarhóp við Heidelberg Institute for Stem Cell Technology and Experimental Medicine. Auk Þórðar munu þrír ungir sameindalíffræðingar halda styttri erindi.

thorduroskarsson_fig_2_new.jpgÞórður útskrifaðist með BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1998. Eftir útskrift hóf hann meistaranám í veirufræði undir leiðsögn Valgerðar Andrésdóttur á Keldum. Þórður lauk doktorsprófi árið 2005 frá Swiss Institute for Experimental Cancer Research (ISREC) undir leiðsögn Dr. Andreas Trump, þar sem hann rannsakaði umritunarþætti í frumum í tengslum við krabbamein. Eftir doktorsnám flutti Þórður til Bandaríkjanna þar sem að hann vann sem nýdoktor undir leiðsögn Dr. Joan Massague við the Memorial Sloan-Kettering Cancer Center (MSKCC) í New York. Þar vann hann að rannsóknum á eðli illkynja krabbameina. Haustið 2011 hóf Þórður núverandi starf. Þórður hefur birt fjölmargar greinar um rannsóknir sínar í virtustu vísindatímaritum á sínu sviði þ.m.t. Nature. Þórður fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var í Háskóla Íslands 8. og 9. nóvember síðastliðinn.

Á undan erindi Þórðar halda þrír ungir líffræðingar erindi um sínar rannsóknir. Sigríður Rut Franzdóttir er dósent við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, Guðrún Valdimarsdóttir er dósent við Læknadeild HÍ og Ólafur E. Sigurjónsson er sérfræðingur við Blóðbankann og dósent við HR.

Málstofan stendur frá 15:00 til 17:00 og er aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Dagskrá má sjá vef Líffræðifélags Íslands.

Mynd af frumum er af vef Þórðar hjá HI-STEM.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband