Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Þrír foreldar og erfðalækningar

Erfðalækningar eru á teikniborðinu, og hafa verið prófaðar í nokkrum tilfellum. Þær fela í sér að gera breytingar á erfðaefni einstaklinga, til að lækna þá af sjúkdómi eða til að fyrirbyggja sjúkdóm.

Þær tilraunir sem gerðar hafa verið, hafa verið til að reyna að lækna sjúkdóm.

Enn hefur ekki verið farið í að breyta erfðasamsetningu fólks, til að fyrirbyggja sjúkdóm.

Það kann að breytast. Eins og við höfum fjallað um hér (sjá pistla neðst), skaða ákveðnar stökkbreytingar starfsemi hvatbera í frumum. Hvatberar eru orkuverksmiðjur líkamans, og bera í sér stutta litninga sem eru með nokkra tugi gena. Bróðurpartur erfðaefnis okkar er annars geymt í kjarnanum (heildar fjöldi gena í okkur er um 25.000).

Andstætt öðrum genum, erfast gen hvatbera eingöngu frá móður. Ástæðan er sú að sæðisfrumur bera í sér lítið annað en einlitna kjarna, en eggið er stappfullt af hvatberum - afrit þeirra sem móðurinn hefur. Ef karlmaður þjáist af sjúkdómi, sem sprettur af galla í genum hvatberans, þá þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því að börn hans fái sjúkdóminn. En ef kona er með galla í hvatberageni, þá er öruggt að afkvæmi fái stökkbreytinguna.

Slíkt er hægt að lækna með erfðalækningum. Tilraunir Shoukhrat Mitalipov og félaga með rhesusapa hafa sýnt að hægt er að búa til þriggja foreldra apa, með einföldum tilfæringum.

Í glasafrjóvgunum er hægt að sprauta sæði inn í egg, og koma þannig þroskun í gang. Það er einnig hægt að fjarlægja kjarna úr eggjum með einföldum aðferðum.

Í þeirri aðferð sem nú er í þróun og umræðu, væri hægt að  setja saman sæði föður, kjarna úr eggi móður með gallaðan hvatbera og heilbrigt egg. Eggið væri ekki með galla í hvatbera litningnum og heilbrigða hvatbera, en búið væri að fjarlægja úr því kjarnann. (það verður að fjarlægja hann, því að þrílitna fóstur þroskast ekki eðlilega!).

Nú er þessi aðferð til erfðalækninga á göllum í hvatbera til umræðu hjá Bandarísku matar og lyfjastofnunninni (FDA) og hjá breskum stjórnvöldum.

Eins og fram kemur í umfjöllum Rúv, vekur þessi þróun upp spurningar um erfðalækningar almennt og erfðabreytingar á ungviði til að fyrirbyggja sjúkdóma og/eða breyta ásýnd eða eiginleikum fólks. Hér verður það ekki rætt í þaula, en vísað í umfjöllun RÚV:

Niðurstöður úttektar breskra stjórnvalda á aðferðinni voru á þá lund að hún væri að öllum líkindum hættulaus og æskileg, þótt frekari rannsókna væri enn þörf. Háværar raddir í fjölmiðlum ytra hafa lýst áhyggjum af því að þetta marki upphaf þess að fólk krukki í erfðaefni barna sinna eftir geðþótta, með ófyrirsjáanlegum siðferðislegum afleiðingum. Þá hefur sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að börn getin með þessari tækni muni ekki geta leitað upplýsinga um konuna sem lagði til hvatberana vakið deilur.

Þrýstihópar segja að þetta geti skaðað sjálfsmynd barnanna. Vísindamenn segja á hinn bóginn að mikilvægara sé að forða börnum frá þjáningarfullum og jafnvel banvænum sjúkdómum, auk þess sem hvatberaerfðaefnið sé örsmár og vel aðgreindur hluti af heildar-erfðaefni mannsins.

Ítarefni.

Arnar Pálsson | 28. ágúst 2009 Api með þrjá foreldra

Arnar Pálsson | 26. október 2012 stofnfruma með þrjá foreldra

Arnar Pálsson | 28. júní 2013  Barn með þrjá foreldra

Rúv 7. ágúst 2014. Deilt um þátt „þriðja foreldris“

Ó hví veira, ó hví pest, ó hvít froða

Margar veirur valda banvænum sjúkdómum, á meðan aðrar leiða til mildari einkenna. Sumar veirur sýkja ákveðnar tegundir á meðan aðrar geta hoppað á milli, jafnvel mjög ólíkra tegunda.

HIV og Ebóla eru dæmi um veirur sem ferðuðust á milli tegunda, og sýkja nú menn. Ebóla smitast frá öðrum öpum í menn, og síðustu áratugi hefur frést af nokkrum afmörkuðum tilfellum í Afríku. Talið er að þetta séu dæmi um ný smit frá öpum yfir í menn, sem hafi sýkt einn eða nokkra einstaklinga í hvert skipti. Veiran er sem sagt sífellt að hopa milli tegunda, þegar aðstæður bjóða upp á. Reyndar virðist sem aparnir séu ekki aðalhýsill ebólu veirunnar, heldur mögulega vissar leðurblökutegundir.*

Eins og flestir vita hefur veiran nú breiðst út og dregið fjölda manns til dauða, og fólk á vesturlöndum er farið að óttast um sinn hag. Hvað ef veiran berst til mín? Lendum við í nýrri plágu? Staðreyndin er sú að við, sama hvar sem við erum í sveit sett, höfum mestar áhyggjur af okkar eigin velferð en hamförum sem aðrir lenda í. Og við höfum meiri áhuga á okkar eigin nautnum og skemmtan en dauða og örlögum annarra. Þetta birtist t.d. vinsældum frétta á vefmiðlum, það eru iðullega fyndnar, kynferðislegar eða fáránlegar fréttir sem fá flestar flettingar, frekar en ítarlegar greiningar á flóknum vandamálum úti í heimi.

Það er mikilvægt fyrir okkur að muna sögu sóttanna, þótt tilvist okkar nú sé ljúf og auðveld. Fyrr á öldum, síðast árið 1918, geisuðu skelfilegir faraldrar sem drógu milljónir manna til dauða. Aðferðir til að berjast við sóttir voru yfirleitt nokkuð einfaldar, og miðuðu aðallega að líkna sjúkum og einangrun. Albert Camus lýsti dæmum um slíka baráttu í plágunni (frá 1948) þar sem íbúar Oran eru lokaðir inni í borginni í næstum því heilt ár á meðan sóttin geisar. Hreinlæti og einangrun voru einu aðferðirnar sem voru í boði þá, og sermið sem þeir beittu gegn pestinni virkaði ekki fyrr en hún var farin að ganga sér til húðar. Camus lýsir baráttu læknanna og angist íbúanna, sem tærast upp bæði líkamlega og andlega í einangruninni. 

Læknisfræðinni hefur fleygt fram síðan þá, en hún getur ekki fyrirbyggt eða meðhöndlað allar smitsóttir. Í náttúrunni eru þúsundir eða tugþúsundir veira, sveppa og baktería, sem geta flakkað á frá dýrum yfir í menn. Ef við horfum á hvert tilfelli, í hvert skipti sem einhver borðar hráann apa eða fær á sig blóð úr fugli, þá er ákaflega litlar líkur á smiti. En þegar öll tilvik eru talin saman, skipta þau örugglega milljónum á ári. Líkurnar á að smit berist í menn er summan af líkunum á hverjum einum atburði. Sú tala er há eins og íbúar Afríku fá því miður að kynnast. Rétt eins og að það eru litlar líkur á að elding hitt einn mann á ströndinni, ef 30 milljón manns eru á ströndinni þegar stormurinn gengur yfir, er næstum öruggt að einhver fái stuð.

pafugl.jpgEins og fram kom í þýðingu MBL á frétt Kansas city star, þá er Ebola dæmi um sjaldgæfan veirusjúkdóm, sem hefur áhrif á frekar fáa einstaklinga. Því er lítill hvati til að rannsaka orsakir eða möglegar varnir gegn veirunni. Í líf og læknisfræðinni er einnig oft talað um vanrækta smitsjúkdóma hitabeltisins. Nær engin fyrirtæki reyna að þróa lyf gegn þeim, vegna þess að sjúkdómarnir hrjá fátækt fólk sem getur ekki borgað fyrir dýrar pillur. Og læknarannsóknir vesturlanda miða flestar að sjúkdómum sem hrjá íbúa "fyrsta heimsins", með áherslu á sjúkdóma sem drepa gamla hvíta kalla.

Þetta eru aðal ástæðurnar fyrir því að það eru ekki til nein lyf við Ebóluveirunni og sóttinni sem hún veldur.

*Setningu bætt við síðdegis 4 ágúst 2014.

Mynd af páfugli tekin af AP. Páfuglar eru ekki með Ebólu, en eins og aðrir fuglar geta borið aðrar veirur, sem mögulega geta smitað menn.


mbl.is Af hverju eru ekki til lyf við ebólu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband