Leita í fréttum mbl.is

Krybburnar þagna...

Krybbur (e. crickets) eru vinalegar skepnur en geta verið ansi háværar. Þegar við bjuggum í Norður Karólínu fylltu krybburnar sumarkvöldin með braki og brestum. Karlkrybburnar (hversu kjánalega sem það nú hljómar) syngja með því að skekja vængina, og kvendýrin velja besta eða vandaðasta söngvarann og makast við hann.

En krybbur sem numu land á Hawaii hafa tapað þessu sönghæfileika, á u.þ.b. tuttugu árum. Ástæðan er sú að staðfundin sníkjufluga rennur á hljóðið og verpir eggjum í líkama karlkrybbanna. Eggin klekjast og lirfurnar éta krybbuna upp til agna á um viku.  Þetta hefur leitt til mjög hraðrar þróunar þögulla krybba á tveimur Hawaii-eyjum (Kauai og Oahu). Syngjandi krybbur eru í miklum minni hluta á eyjunum, en hinar þöglu alsráðandi.

Nýleg rannsókn skoðaði  form vængjanna á báðum eyjunum og tengda erfðaþætti. Megin niðurstöðurnar eru þessar.

1. Vængir syngjandi krybba á Kauai og Oahu eru næstum því eins í laginu.

2. Vængir þögulla krybba eru mjög ólíkir vængjum hinna syngjandi.

3. Vængir þöglu krybbana á Oahu eru mjög ólíkir vængjum þöglu krybbana á Kauai

Þetta sýnir að þróunin hefur farið ólíkar leiðir til þess að þagga í Krybbunum.(sjá myndir á vef BBC)

Hið sérkennilega er að sama svæði á litningum dýranna tengist söngnum á báðum eyjum. Þannig að þótt að útlit dýranna sé töluvert ólíkt, gæti verið að um sambærilega erfðagalla sé að ræða. Reyndar þarf frekari rannsókna við til að staðfesta tengslin milli ákveðinnar stökkbreytingar og lögunar vængjanna.

Ég fékkst einmitt við að kortleggja gen sem tengjast formi vængja í Norður Karólínu. Á myndinni hér fyrir neðan sést vængur ávaxtaflugu, með stoðæðum. Fyrir neðan eru myndir sem sýna hvaða breytingar á vængjunum eru algengastar (vinstra megin lögum miðhluta vængsins og hægra megin vængsins í heild). Fyrir miðsvæði vængsins er mest breyting í afstöðu krossæðanna tveggja. Við fundum að stökkbreyting fyrir framan EGFR genið tengist einmitt breytileika í fjarlægð á milli krossæðanna. Þannig að þið skiljið að maður espist upp, þegar maður les svona æsispennandi frásögn um vængi, og krybbur sem þagna...

wingshape.jpg

Ítarefni:

Sonia Pascoal o.fl. 2014 Rapid Convergent Evolution in Wild Crickets Current biology

dx.doi.org/10.1016/j.cub.2014.04.053

Crickets in two places fall silent to survive

Palsson A, Dodgson J, Dworkin I, Gibson G. Tests for the replication of an association between Egfr and natural variation in Drosophila melanogaster wing morphology. BMC Genet. 2005 Aug 15;6:44.


Riða, minningar og brjálæði

Riða er einn dularfyllsti sjúkdómur heims. Hún smitast á milli kinda, án þess að nota erfðaefni.

Riða og aðrir skyldir sjúkdómar, eins og Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómurinn og brjálaða kúapestin (mad cow disease), byggjast á smitandi prótíni. Prótínin sem kölluð eru príon eru þeirri sérstöku náttúru gædd, að geta skipt á milli byggingarforma. Svona dálítið eins og transformers, nema hvað eðlilega og náttúrulega. Annað formið er starfhæft prótín, hitt formið myndar klasa sem geta byggst upp og orðið til vandræða. Smitandi prótín hvatar myndun klasa og ýtir þannig sjúkdómunum af stað. 

Riða var rannsökuð hérlendis af Birni Sigurðsyni og samstarfsmönnum á Keldum um miðbik síðustu aldar. Björn var mikill brautryðjandi í þessum rannsóknum, sem og á mæði visnu veirunni sem er skyld hinni skæðu HIV sem veldur alnæmi. Hannskilgreindi hæggenga veiru (smit) sjúkdóma fyrstur manna.

Stanley Prusiner fékk Nóbelsverðlaunin árið 1997 fyrir að sýna fram á að prótín gætu verið smitefni. En tilgátu hans var ekki vel tekið í upphafi, og það tók mörg ár þangað til uppgötvun hans var viðurkennd af vísindasamfélaginu. Sem betur fer er Prusiner mjög staðfastur og hollur sinni tilgátu, því aðrar manngerðir hefðu etv. gefist upp á mótlætinu og farið að rannsaka auðveldari hluti.

Það getur reyndar bæði verið slæmt og gott að vera staðfastur vísindamaður. Í tilfelli Prusiners hafði hann rétt fyrir sér, um príonin amk. En í mörgum öðrum tilfellum hafa vísindamenn hangið eins og hundar á roði, í tilgátum sem fyrir löngu hafa verið afsannaðar.

Prusiner gaf nú í vor út bók sem heitir Memories and Madness. Hún er á leslistanum mínum.

Ítarefni:

Zoë Corbyn The Guardian 30. maí 2014 Stanley Prusiner: 'A Nobel prize doesn't wipe the scepticism away' The neurologist whose discovery of the agent that causes CJD reveals why his finding was greeted with disbelief
 

Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“. Vísindavefurinn 1.8.2003. http://visindavefur.is/?id=3628.


Kynbætur fiska og fleiri erindi

Hér eru nokkrar tilkynningar um málþing, doktorsvarnir og meistarfyrirlestra. Miðvikudaginn 28. maí ver Theódór Kristjánsson doktorsritgerð sína í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Kynbótaskipulag fyrir eldisþorsk. Vörnin...

Tengsl á milli smjörklípa og gæða dagblaða?

Tyler Vigen er snillingur. Hann fann fullt af mjög sterkum samböndum risastóru gagnasetti. Og hann sýnir að fylgni sannar ekki orsök . http://www.tylervigen.com/ Þúsundir tölfræðinga og vísindamanna hafa reynt að útskýra þetta fyrir fólki í rúmlega heila...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband