Leita í fréttum mbl.is

Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV

Fjallað var um erindi og rannsóknir Halldórs Þormar á Bylgjunni og í Fréttablaðinu.

Halldór Þormar var ráðin til Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, til að prófa tilgátur um að mæði og visna væri orsökuð af veirusýkingum. Honum og samstarfsmönnum tókst að staðfesta tilgáturnar og um leið afla mikilvægrar þekkingar á eðli hæggengra veirusjúkdóma, en þekktasta veiran í þeim flokki er HIV. Erindið tilheyrði nýrri fyrirlestraröð sem kallast vísindi á mannamáli.

Fréttin í Fréttablaðinu (21. janúar 2015 Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV):

Tímamótarannsóknir íslenskra vísindamanna á veirusjúkdómum í sauðfé stuðluðu að auknum skilningi manna á alnæmisveirunni HIV, og nýtast enn til þess að varpa ljósi á líffræði HIV og alnæmis.

Þetta kom m.a. fram í hádegisfyrirlestri Halldórs Þormar, prófessors emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands, í gær. Þar sagði Halldór frá rannsóknum við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sem sýndu fram á að sauðfjársjúkdómarnir illvígu visna og mæði væru sprottnir af afbrigðum af sama sjúkdómsvaldi, mæði-visnuveirunni (MVV).

Halldór rakti þá ólíkindasögu þegar hingað til lands var flutt karakúlfé, upprunnið í Úsbekistan, til kynbóta árið 1933 með þeim afleiðingum að fimm fjárpestir skutu rótum og ollu miklu tjóni. Þessa sögu þekkja margir og þá ógn sem sauðfjárbúskap í landinu stafaði af henni.

Í einföldustu mynd má segja að tekist hafi að uppræta sjúkdómana með skipulögðum niðurskurði sem stóð fram yfir 1950.

Síður eru rannsóknir á sjúkdómunum þekktar sem voru í höndum íslenskra vísindamanna frá upphafi og til þessa dags; ekki síst Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands, Halldórs og fleiri, sem prófuðu þá tilgátu, og sönnuðu, að visna væri veirusjúkdómur. Framhaldsrannsóknir sýndu einnig að visnu- og mæðiveirur væru afbrigði af sömu veirunni. Síðar kom í ljós að sú veira er náskyld hinni alræmdu HIV-veiru sem veldur alnæmi í fólki.

Spurður hvort vísindamenn, sem fyrstu árin börðust gegn HIV-veirunni, hafi þekkt til verka íslenskra vísindamanna svarar Halldór því til að svo hafi vissulega verið, þótt annað hafi verið í forgrunni þeirra vinnu. Skyldleikinn komi vel fram í heiti veirunnar á meðal vísindamanna.

Í hádegisfréttum Bylgjunar - Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði, flytur erindi í Háskóla Íslands.

Mynd af Halldóri Þormar er úr safni Keldna, ártal óljóst.

Thormar H. The origin of lentivirus research: Maedi-visna virus. Curr HIV Res. 2013 Jan;11(1):2-9.
 


Vísindi á mannamáli: Mæði-visnuveirur í hádeginu

Vísindauppgötvanir á Íslandi tengdar veirusjúkdómum í sauðfé og mikilvægi þeirra fyrir skilning á alnæmisveirunni eru meginefni erindis sem Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands, flytur í Hátíðasal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 20. janúar nk. kl. 12.10. Um er að ræða þriðja erindið í nýrri fyrirlestraröð
á vegum Háskóla Íslands sem nefnist Vísindi á mannamáli.

Alnæmisveiran HIV fannst snemma á níunda áratug tuttugustu aldar í sjúklingum með forstigseinkenni alnæmis. Rannsóknir sýndu að HIV veldur sjúkdómnum og í ljós kom að veiran var svokölluð lentiveira, sú fyrsta sinnar tegundar sem fannst í mönnum.
Nærri 30 árum áður höfðu veirur af þessum flokki fundist hér á landi í sauðfé við rannsóknir að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Halldór Þormar, sem tók þátt í þessum tímamótarannsóknum, mun segja frá þeim í erindi sínu.

mvv_growth_visnavirus.jpgMynd: Mæði-visnuveirur valda samruna fruma í rækt. Mynd úr grein Halldórs Þormar og félaga.

Halldór Þormar á að baki glæsilegan feril sem vísindamaður við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sem prófessor í frumulíffræði við Háskóla Íslands og við rannsóknir í háskólum og rannsóknastofnunum víða um heim.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar má finna á slóðinni:
www.hi.is/visindi_a_mannamali


G. Ledyard Stebbins átti afmæli

Þróunarfræðin gekk undir mikla samþættingu um miðja síðustu öld. Þá hafði stofnerfðafræðin komið til skjalan og byggt grunn undir þróunartilgátur Darwins. En aðrir hlutar líffræðinnar voru misvel samræmdir við þróunarkenninguna. Plöntulíffræði, frá...

Frænka alnæmisveirunnar fannst hérlendis

Alnæmisveiran er ein viðskotaversta veira sem mannkynið tekst á við. Andstætt flestum öðrum veirum veldur hún hægri sýkingu. Þannig að fólk getur verið með sýkt, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því. Sýktir einstaklingar geta því smitað aðra...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband