Leita í fréttum mbl.is

Mauramengin

Rúmlega 14000 tegundir maura finnast á jörðinni. Þeir samsvara um þriðjungi lífmassa allra skordýra, sem er umtalsverður. Eitt af því sem útskýrir undraverðan árangur maura er sú staðreynd að þeir vinna saman. Þeir eru félagsskordýr og eins og ættingjar þeirra býflugurnar byggja margar tegundir þeirra hin reisulegustu bú.

Greinar í Plos Genetics og PNAS* vikunnar marka nýtt skref í rannsóknum á líffræði maura. Erfðamengi fjögurra maurategunda hafa nú verið raðgreind (upp að ákveðnu marki). Um er að ræða laufskurðarmaura (Leaf cutter ant, Atta cephalotes), eldmaura (fire ant, Solenopsis invicta), rauðskurðar maura (red harvester ant, Pogonomyrmex barbatus og argentíska maura (Linepithema humile). Laufskurðarmaurarnir eru sérstakir að því leyti að þeir skera lauf og bera í bú sitt, þar ala þeir önn bakteríur sem brjóta niður laufin og losa um næringu sem maurarnir nýta. Án bakteríanna gætu maurarnir ekki nærst á laufunum. Í erfðamengi laufskurðarmaura vantar nokkur gen sem nauðsynleg eru til að mynda tiltekin næringarefni. Talið er að þau hafi reynst óþörf eftir að þeir tóku upp landbúnað, þ.e. bakteríur sem húsdýr (eða búsdýr).

Rauðskurðarmaurarnir finnast í N.Ameríku en stofninn hefur dregist saman að undanförnu. Talið er að hluti ástæðunar sé samkeppni við hinar tegundirnar tvær, eldmaura og argentísku maurana sem báðar hafa hreiðrað um sig í Bandaríkjunum.

Í erfðamengjum mauranna má greina að þeir búa yfir mjög fjölbreyttu kerfi prótína og ensíma sem hjálpa til við samskipti einstaklinga. Almennt mynda maurar stakar byggðir, í hverju maurabúi ríkir ein fjölskylda sem berst hatramlega við skylda maura og aðra ættingja sem reyna að smeygja sér inn í búið eða taka auðlindir. Ein undarlegasta frávikið frá þessari reglu eru argentísku maurarnir, en þeir mynda súperbú (supercolony), þar sem maurar á stóru svæði hjálpast allir að. Stórkostlegasta dæmið um þetta er að maurar sem uppaldr eru á mismunandi meginlöndum vinna saman ef þeir lenda í sömu súpunni. Vitað er um eina aðra tegund sem sýnir slíka samhjálp, það er sú sem við tilheyrum.

Margir líffræðingar hafa rannsakað þessar einstöku verur, en Edward Wilson og Hölldobler skrifuðu saman maurabiblíuna (ANTS). Ég hef áður gert þá félaga að umræðuefni - undir misvísandi titli (Maur, maur, maur, maur, maur...), þar segir meðal annars um Hölldobler.

[Hann er] þýskur dýrafræðingur af Goethes-náð flutti erindi í Chicago eitt árið sem ég var þar. Hann lýsti rannsóknum sínum á maurum. Félagsskordýr eru alveg mergjuð fyrirbæri, þar vinna saman systur og bræður, í búi sem móðir þeirra er drottning. Einstaklingarnir eru aðskiljanlegir, þú getur greint muninn á hverjum maur, en þeir eru samt hluti af einhverju stærra. Félagsskordýr hafa verið notuð sem líkön til að rannsaka samvinnu og samhjálp, eins og þegar maurar leggja slóð fyrir bræður sína í átt að fæðuuppsprettu. Hölldobler lýsti því t.d. hvernig maurarnir ramba á réttar greinar á tré með því að hlera eftir þvi hvar aðrir maurar eru að saga laufblöð.

antstheonion061209_864115.jpgMyndin er af vefsíðu The Onion, sem er ekki alveg jafn alvarlegur miðill og Plos Genetics.

Ítarefni

Newly Decoded Ant Genomes Provide Clues on Ant Social Life, Pest Control ScienceDaily (Jan. 31, 2011)

The birth of ant genomics  Raghavendra Gadagkar PNAS April 5, 2011 vol. 108 no. 14 5477-5478

Maurabú grafið upp - Youtube myndband: þakkir til Hildar fyrir sendinguna.

*Proceedings of the national academy of the sciences, rit amerísku vísindaakademíunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Minnsta málið! Skemmtileg lesning. :)

Ætti kannski að fara að lesa námsefni núna, þó svo þetta sé relevant!

Hildur (IP-tala skráð) 25.4.2011 kl. 18:23

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Maurar eru alltaf viðeigandi umræðuefni, námsefni, viðfangsefni.

Arnar Pálsson, 26.4.2011 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband