Leita í fréttum mbl.is

Viðurkenningar til vísindamanna

Akkuru stundar fólk vísindi? Fyrst ber að nefna forvitni. Við erum hnýsnar skepnur, spyrjum fólk regulega út úr, njósnum um nágranna okkar, veltu við steinum og fetum framandi stigu bara til að svala forvitni okkar. Þekkingarleit vísindanna byggir á þessari forvitni, en er kannski orðin aðeins skipulagðari og agaðari en nálgun rassálfanna í sögu Astridar Lindgren um Ronju Ræningjadóttir, sem spurðu linnulítið "Akkuru, akkuru, akkuru...". Leiðir okkar til að svala forvitninni hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar og nú höfum við þróað aðferð vísinda, sett af reglum og leiðbeiningum sem beitt er í rannsóknum (saga þess er sérkapituli sem við víkjum vonandi að síðar).

Margir leiðast út í vísindi af hugsjón, þeir vilja skilja heiminn og gera hann betri. Margskonar hættur steðja að mannfólki, sjúkdómar, faraldrar, mengun umhverfis og hættur frá öflum jarðar og geims, og vísindin bæta okkur skilning á þessum fyrirbærum. Með eigum við möguleika á að meta hætturnar, eðli þeirra og orsakir, og e.t.v. finna leiðir til að stemma stigu við þeim (það er miserfitt, við getum e.t.v. komist fyrir flensufaraldra en tæplega stöðvað loftstein*).

Sumir fara í vísindi til að auðgast, en þar er ekki á vísan að róa. Vissulega eru laun háskólakennara yfir landsmeðaltali, en dreifingin er nokkuð víð. Hins vegar eru fáir vísindamenn með virkilega há laun, nema þeir sem starfa við bestu háskóla eða rannsóknastofnanir heims, hafa stofnað fyrirtæki, eða vinna hjá fyrirtækjum sem borga vel.

Því verður þó ekki að neita að aðrar ástæður eru fyrir því að fólk leggur fyrir sig vísindi. Þangað leita t.d. metnaðargjarnir einstaklingar, eilífðarstúdentar, sjálfstætt fólk sem illa þolir yfirmenn, furðufuglar, og siðblindir sérhagsmunaseggir**. Metnaður er oft sterkur þáttur, það að birta góða vísindagrein blæs lífi í köflótta egóið, sem og að vera valinn til að halda erindi eða yfirlitserindi á merkri ráðstefnu.  Og það að vinna til verðlauna eða hljóta viðurkenningar skiptir fólk einnig miklu máli. Stundum er talað um kapphlaup um Nóbelsverðlaun, t.d. um byggingu DNA eða einangrun HIV veirunnar.

Það er ekki eini tilgangur viðurkenninga að gæla við metnað vísindamanna, og hvetja þá áfram. Þær þjóna einnig þeim tilgangi að vekja athygli á því sem vel er gert, skilgreina lykil framlag og vekja athygli almennings á vísindastarfi.

Á undanförnum vikum hafa tvær merkar vísindakonur fengið verðlaun. Fyrst ber að nefna Þóru Ellen Þórhallsdóttur, sem hluat náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir helgi. Þessi verðlaun eru veitt einstaklingum með mikilsvert framlag til náttúruverndarmála. Í fréttatilkynningu segir: 

Fram kom í máli umhverfisráðherra að Þóra Ellen Þórhallsdóttir væri vísindamaður sem hefði unnið merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún væri óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands, þó það hafi ekki alltaf fallið að ríkjandi skoðunum. Þá hafi vinna hennar við landslagsmat markað tímamót varðandi vernd náttúru hér á landi.**

Í fréttablaði dagsins í dag er sagt frá því að "Hilma Hólm framkvæmdastjóri klínískra rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, fékk verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði sem afhent voru á ársfundi Landspítalans í gær [5. maí 2011]". Fréttablaðið birti langa og skemmtilega grein byggða á viðtali við Hilmu, þar sem hún segir meðal annars:

Þegar spurt er um rannsóknarverkefnið sem Hilma vinnur að um erfðafræði hjartasjúkdóma er ljóst að sú spurning hugnast henni betur en þær sem eru persónulegs eðlis. Eftir stutt en afar gagnlegt hraðnámskeið situr eftir í huga blaðamanns að ekki er um einstakt verkefni að ræða sem á sér endapunkt. "Við setjum okkur engar skorður og takmörkum okkur ekki. Við ákveðum ekki hvað finnst, heldur sjá náttúran og vísindin um það."

...En hvað finnst henni sjálfri um það lof sem á hana er borið? "Ég hef fyrst og síðast verið mjög heppin að hafa villst inn í þetta umhverfi og hafa þess vegna getað nýtt mína þekkingu á sjúkdómum í bland við erfðafræðina. Ef ég hefði ekki fengið tækifæri til að starfa með fólkinu hér innan dyra og öðrum samstarfsmönnum væri ég ekki í þessum rannsóknargeira. Hlutirnir hafa vissulega gengið vel og við höfum fengið margar greinar birtar sem lýsa okkar rannsóknarniðurstöðum. En það er eingöngu vegna samvinnu fjölmargra vísindamanna, þátttöku Íslendinga í okkar rannsóknarverkefnum og þeirrar vinnu sem búið er að vinna innan ÍE undanfarin áratug sem hefur lagt grunninn að öllum okkar rannsóknum. Hér er ekkert sem takmarkar mig, heldur hef ég þvert á móti tækifæri til að ná langt vegna þess umhverfis sem ég hef fengið að starfa í," segir Hilma. Hún bætir því við að auðvitað verði allir að hugsa um sinn eigin hag og sinn eigin starfsferil en þá sé hollt að hafa í huga að persónulegur frami sé háður því að njóta stuðnings annarra.

Hilma lagði áherslu á að vísindamenn þurfa að vinna saman til að ná árangri. Vísindin líða fyrir það ef metnaður einstaklings kemur í veg fyrir að hann vinni með öðrum, og deili af reynslu sinni og þekkingu.

Ég veit ekki hvað beindi Þóru Ellen eða Hilmu í rannsóknir, hvort það voru forvitni, hugsjónir eða metnaður. Hitt er ljóst að þær eru báðar góðar fyrirmyndir þeirra sem gætu hugsað sér rannsóknir í líffræði eða erfðafræði.

*En hver veit, í síðustu viku minntist Galen Gisler á planetary defense conference. Hann hélt erindi við HÍ á ráðstefnu um ofurtölvur í síðustu viku.

**Svartir sauðir finnast meðal vísindamanna, en þeir eru flestir dagfarsprúðir og tregir til að sprengja plánetur.

***Í frétt mbl.is misritaðist nafn vísindamannsins, fyrra nafn Þóru Ellenar datt út í einni línunni.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu ruglaði ég saman rassálfum og grádvergum, og meðtek fordæmingu hlutaðeigandi af auðmýkt og iðrun.


mbl.is Fengu umhverfisviðurkenningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þá ekki rétt að benda þér á að það voru rassálfarnir en ekki grádvergarnir sem sögðu: ,, akkuru, akkur?" :)

Jóhannes (IP-tala skráð) 6.5.2011 kl. 11:41

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Jóhannes fyrir ábendinguna, laga þetta. Ég rugla öllum þessum moldvörpum saman...er ekki í lagi að opinbera dverg-og-álfingahatur sitt ;|

Arnar Pálsson, 6.5.2011 kl. 13:28

3 identicon

Ég vil benda þér á, að það er "einstaklingurinn" sem hefur framfleitt vísindunum og ekki "hópvinnan".  það er "hópvinnan", sem gerði það að verkum að við lágum í 2000 ára myrkri.  Að sólin sé miðpunktur sólkerfisins, er ekkert nýtt, það var vitað fyrir mörg þúsund árum síðan.  En þegar ákveðinn hópur, með sömu skoðun, einokar ákveðna greinar, hverfur raunsæi einstaklingsins og verður að bergmáli auðnarinnar.  Það eru og verða alltaf "fáir" sem eru í fararbroddi, ekki vegna menturnar.  Heldur vegna þróunar mankyns, og mentakerfið tryggir ekki að það séu þessir "framúrskarandi" einstaklingar, sem fá vísinda sess.

Sem dæmi, um afturhald, má nefna skoðanir um Bermuda þríhyrningin.  Fyrir þó nokkru var búið að koma með skýringu þessa efnis, en nú er aftur "hulu" sett yfir þessa atburði þó svo að málið sé sannað.

Hópurinn vill "öryggi", og það fellst ekkert öryggi í nýsköpun ... þar er einstaklingurinn, sem vill skara fram úr.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 6.5.2011 kl. 18:30

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þú ert nokkurn veginn með þetta Bjarne, en gáðu að því að Arnar "trúir" á Darwin og nær kemst hópsálin ekki molbúanum, er þá sama hvort miðað er við rassálfana eða grádvergana.

Magnús Sigurðsson, 6.5.2011 kl. 22:08

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég fæ stundum á tilfinninguna að merking orðsins "vísindamaður", hafi breyst  með mikilli fjölgun fólks með mörg ár að baki í háskólanámi. Full margir að mínum dómi, skreyta sig með þessum virðulega titli.

Hvað ætli séu margir einstaklingar í veröldinni sem kalla sig "vísindamann" í dag og hvað ætli þeir hafi verið margir fyrir 50 árum... 100 árum?

Hversu hátt hlutfall "vísindamanna" fá laun sín greidd úr vasa skattgreiðenda?

Ef hæst launuðu vísindamennirnir vinna hjá einkageiranum, er þá "úrkastið" hjá hinu opinbera?

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.5.2011 kl. 00:23

6 identicon

Ágætis pælingar Gunnar. Í Evrópu, USA og líklegast á flestum stöðum er mikill meirihluti vísindarannsóka, og þar með kaup vísindamanna, greiddur af einkageiranum. En það sem ég vildi fyrst og fremst kommentera er að svarið við síðustu spurningu þinni er NEI. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, en ein er að margir þeir sem hafa áhuga á að stunda vísindarannsóknir eru ekki að gera það peninganna vegna og velja sér þess vegna ekki endilega vinnustað eftir kaupi.

Björn Þrándur Björnsson (IP-tala skráð) 7.5.2011 kl. 11:03

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta, Björn.

En hvað með hlutfall hugsjónafólks í hratt fjölgandi stétt vísindamanna?

Eða er hlutfall þeirra sem vilja bara þægileg innivinnu, að hækka meðal "vísindamanna"?

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.5.2011 kl. 12:16

8 identicon

Veit ekki hvort hægt sé að flokka vísindastörf sem "bara þægilega innivinnu" eitthvað frekar en flest önnur störf í nútíma þjóðfélagi. Ég er í nefnd sem ræður fólk í vísinga- og kennslustörf við raunvísindadeild Gautaborgarháskóla og get sagt að bæði er geysilega hörð samkeppni um auglýst störf og að það er líklegast hægt að kalla flesta sem sækja um þessi störf "hugsjónafólk" enda búið að leggja á sig efitt og langt nám og framhaldsrannsóknir til að koma til greina.

Ég get ekki séð að stétt vísindamanna sé "hratt vaxandi".  Ef eitthvað er þá þyrftu vísindarannsóknir að aukast til muna í Evrópu til að við verðum samkeppnishæf við USA og Japan. 

Björn Þrándur Björnsson (IP-tala skráð) 7.5.2011 kl. 13:34

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Bjarne

Ég var meira að horfa til vísindasamfélagsins í heild þegar ég ræddi um samstarf og framvindu vísinda. Vísindalegar framfarir gerast alltaf í einhverju samhengi, Einstein var að fást við vandamál sem margir höfðu tekist á við. Hann byggði á þekkingu síns tíma, gögnum og hugmyndum.

Ég held ég viti hvað þú átt við hópvinnu, einhverskonar þöggun og afturhaldi hópsins, þar sem ríkjandi skoðun (hvort sem hún sé sú að blóðfórn þurfi til að friða guðina, að æðsti klerkurinn sé beintengdur við guð, eða að þvottur sé óþarfur) hindrar framfarir. 

Arnar Pálsson, 9.5.2011 kl. 09:24

10 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Magnús fyrir innleggið

Ég trúi ekki á Darwin í sama skilningi og páfinn trúir á Jesúm (eða gerir hann það?).

Ég er vísindalega sinnaður efahyggjumaður og trúleysingi. Helst vil ég takast á við stóru spurningar heimsins með aðferðum vísinda. Vísindamenn eru ekki endilega hópsálir, en það sem þeir afreka (hver um sig og saman) skilar okkur aukinni þekkingu.

Þú þarft ekkert að trúa því, en þér er velkomið að njóta framfara í tækni og vísindum því "hópsál" vísinda er ekki fordómafull.

Arnar Pálsson, 9.5.2011 kl. 09:29

11 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Gunnar og Björn fyrir góða umræðu.

Gunnar setur spurningu sem við þurfum að svara heiðarlega, hversu marga vísindamenn þarf samfélagið?

Svarið er að ég veit það ekki. Ef við horfum á einn árgang íslendinga, þá þurfum við ekki að þjálfa þá alla í jarðeðlisfræði eða líftækni. En hver er þá þörfin, þarf Ísland einn jarðeðlisfræðing á ári og 2,3 líftæknimenntaða einstakling?

Menntakerfið hefur einbeitt sér að því að gefa fólki trausta grunnmenntun, sem það nýtir sér síðan í lífinu. Það að geta reiknað út burðarþol Eiffelturnsins er kannski ekki nauðsynlegt öllum, en reynsla í stærðfræði getur verið ómetanleg í mörgum geirum samfélagsins.

Ég hef hugsað heilmikið um þetta en hef enga lendingu. Staðreyndin er sú að hérlendis er mun minna fé veitt til rannsókna en annarstaðar á vesturlöndum. Ég hallast að því að það sé frekar ljóður á okkar kerfi en kostur.

Varðandi fjármögnun grunnrannsókna, þá varð fyrsti vísir að ríkisháskólanum til í Þýskalandi á nítjándu öld og síðan fullkomnaður í USA á þeirri tuttugustu. Í Bandaríkjunum voru það nýríkir auðmenn sem styrktu flesta af virtustu Háskólum heims, en eftir Spútnik settu Bandaríkjamenn gífurlegt fjármagn í grunnrannsóknir og háskólana.

Þannig að ég er ekki viss um að grunnrannsóknir séu aðallega styrktar af einkageiranum. Einkageirinn hefur mjög þröng markmið, að skila hagnaði, og það hefur oft leitt til bjagaðra vísinda (sjá t.d. umfjöllun um lyfjageirann og þunglyndislyf - Steindór J. Erlingsson Lyfjafyrirtæki og blekkingar, Fréttablaðið, 26. nóvember, 2009).

Björn og Gunnar

Varðandi "þægilega innivinnu".

Ég er sammála Gunnari um samkeppnina. Starfi vísindamannsins fylgir mikil samkeppni, streita, óvissa og hark. Að vissu leyti er þetta áþekkt hlutskipti listamannsins, stundum fæst fé í verkefni, stundum ekki. Margir eru ráðnir á samningum til skemmri tíma og launin eru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Laun doktorsnema eru rétt við atvinnuleysisbætur og nýdoktora litlu betri. En við tökum þessu öllu með bros á vör, svo sterk er hugsjónin og forvitnin.

Arnar Pálsson, 9.5.2011 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband