Leita í fréttum mbl.is

Úr nóttu í dag - ný vitneskja í flokkunarfræði fugla: Náttfarar og skyldir hópar

Snorri Sigurðsson mun fjalla um doktorsverkefni sitt í erindi Líffræðistofu HÍ, föstudaginn 15. febrúar (kl.12:30 í stofu 131). Erindið kallast Úr nóttu í dag - ný vitneskja í flokkunarfræði fugla: Náttfarar og skyldir hópar. (Recent developments in avian systematics: The Nightjars and their allies.)

Með sívaxandi framboði á sameindagögnum hefur flokkunarfræði (systematics) lífvera gengið undir miklar sviptingar á síðustu áratugum. Fuglar eru þar engin undatekning og hefur hin klassíska flokkun fugla á öllum stigum (ættbálkar, ættir, ættkvíslir, tegundir) tekið töluverðum breytingum með vaxandi vitneskju um skyldleikatengsl og þróunarsögu helstu fuglahópa. Það viðfangsefni sem hefur reynst hvað flóknast er að greiða úr tengslum milli ættbálka og jafnvel ætta Nýfugla (Neoaves) en til þeirra tilheyra allir núlifandi fuglar utan Strútfugla, Hænsnfugla og Andfugla. Með mikilli gagnasöfnun á síðustu árum hefur flokkunarfræðingum tekist að setja saman ágætlega burðug flokkunartré þó enn séu sumir hópar fugla til vandræða. Margt kemur á óvart á þessum nýju flokkunartrjám.

Einn hópur sem hefur verið nokkuð til vandræða eru svokallaðir Húmgapar (Caprimulgiformes) þar sem fyrirfinnast ættir náttfugla svo sem náttfarar (Caprimulgidae) og froskmunnar (Podargidae) auk fleiri hópa. Þær ættir sem tilheyra Húmgöpum eru frumstæðar og komu fram hratt og snemma í þróunarsögu Nýfugla eins og reyndar margar aðrar ættir núlifandi fugla. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að Svölungar (Apoidae) og Kólibrífuglar (Trochilidae) eru náskyldir Húmgöpum sem er athyglisvert því þar er ekki um náttfugla að ræða.

Fyrirlesarinn Snorri Sigurðsson hefur nýlokið doktorsnámi í Bandaríkjunum þar sem hann rannsakaði flokkunarfræði Húmgapa og nýtti sér öflugan safnkost og rannsóknaraðstöðu við American Museum of Natural History í New York. Meðal þess sem hann ræðir í erindi sínu er flokkunartré Húmgapa sem hann byggir á bæði sameindagögnum og gögnum byggðum á útlitseinkennum. Einnig sýnir hann niðurstöður úr rannsóknum sínum á flokkunarfræði Náttfara (Caprimulgidae) sem er ein tegundaauðugusta ættin í ættbálknum og hvernig hann nýtti flokkunartré byggð á sameindagögnum til að kanna uppruna, líflandafræði og sögu búsvæðavals Náttfara í Ameríku.

phylogenynightjars.pngMynd af þróunartré Náttfara var gerð af Snorra Sigurðssyni.

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 131 í Öskju, náttúrfræðahúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband