Leita í fréttum mbl.is

Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Í gær var umræða á Alþingi um fjármögnun samkeppnisjóða. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er fyrirhugaður um mikill niðurskurður á framlögum til samkeppnisjóðanna, og einnig annarskonar skerðing á nýsköpunarumhverfinu.

Styrkir eru veittir úr sjóðunum til 3 ára í senn, á grundvelli gæða verkefna.

Skerðingin þýðir:

100% lækkun á rannsóknanámssjóði. Hann var lagður niður og átti að sameinast rannsóknasjóði. Rannsóknanámsjóður fékk 95 millj. kr. í fyrra.

50% lækkun á Markáætlun á sviði vísinda og tækni (um 200 millj. kr. - sem þýðir í raun enga nýja styrki, því sjóðurinn fær rétt nóg fyrir skuldbindingum frá fyrri árum).

22% lækkun á Tækniþróunarsjóði, um 283 millj. kr.

14% lækkun á rannsóknasjóði um 170 millj. kr.  Ef miðað er við að rannsóknanámssjóður var sameinaður rannsóknasjóði eru áhrifin meiri, 19% og samanlagður niðurskurður 265 milljónir. Áhrifin eru einnig meiri en prósenturnar segja, því 2/3 sjóðsins er bundinn í skuldbindingar fyrri ára. Skerðing á heildarfjárhæð til nýrra styrkja verður því uþb 40%*.

Að auki liggur fyrir skerðing á skattaafslætti fyrir nýsköpunarfyrirtæki, um 25% sem á að færa 300 milljónir í ríkiskassann.

Lækkun á einum sjóði eða fjárlagspósti er kannski skiljanleg. En lækkun um tugi prósenta á flestum þáttum vísinda og nýsköpunarumhverfisins hérlendis er ekki verjanleg.

Umræða á alþingi um samkeppnissjóði

Svandís Svavarsdóttir hóf umræðuna og vildi útskýringar á fyrirhuguðum niðurskurði.

Í umræðunni svaraði Illugi Gunnarson fyrir hönd ríkistjórnarinnar, og sagði m.a.

Á undanförnum árum hefur framlagið til þessa sjóðs hlaupið frá 815 millj. kr. árið 2009, 2012 í 782, 2013 í 1.305 og verður nú 1.135 verði þetta frumvarp að lögum. Það er allur niðurskurðurinn.

Svarið við þessu má finna hér að ofan. Upptalningin hundsar stöðunun á sjóðnum frá 2009, og verðgildisrýrnunina frá 2005. Menntamálaráðherra sleppir því að ræða skerðingu á tækniþróunarsjóði, rannsóknanámssjóði, markáætlun og skattafslætti fyrir nýsköpunarfyrirtæki til nýsköpunar- og þróunarverkefna. Hér er ekki lækkun á einum sjóði, heldur kerfisbundin aðgerð.

Illugi sagði einnig:

Vísinda- og tækniráð ítrekar mikilvægi þess, og það hefur komið fram, að íslenskir vísindamenn sæki um í alþjóðlega samkeppnissjóði og byggi þannig upp alþjóðlega rannsóknarhópa.

Það er ekki hægt að sækja í alþjóðlega samkeppnisjóði þegar litlir eða fáir styrkir eru í boði hérlendis. Fjölmörg dæmi eru um að innlendir styrkir, helst stórir öndvegisstyrkir eða úr markáætlun, hafi verið lykilinn að því að íslenskir vísindamenn gátu sótt í alþjóðlega sjóði. Íslenskir styrkir eru forsenda þess að fá erlenda styrki. Maður stekkur ekki til himins úr djúpri gryfju.

Ráðherra virðist samt átta sig á heildarmyndinni:

Í dag er hlutfall samkeppnissjóða af framlagi til hins opinbera vísindastarfs um 15% og má segja að það sé frekar lágt. Í nágrannalöndum okkar er hlutfallið oft á bilinu 30-40%. Mikilvægt er að þegar fram í sækir muni þetta hlutfall hækka án þess að hægt sé að svara því nákvæmlega hvert það á að vera.

Hér er ég algerlega sammála ráðherra. Hann bendir á veigamesta vandamálið og hversu mikilvægt er að finna leið til að bæta úr. Aðrir sem tóku þátt í umræðunni töluðu á þessum nótum, og því ætti því að vera möguleiki á pólitískri lausn. Eins og Óttarr Proppe sagði, "[þ]að skiptir máli að við hugsum til framtíðar, að við tökum ekki ákvarðanir út frá því hvaðan hugmyndin kemur heldur hver hún er."

Ef ríkistjórnin ákveður að skerða ríkisframlög um flatt um 2% þá er lítið við því að segja. En mér finnst of mikið að skerða vísinda og nýsköpunarstarfið um tugi prósenta. Sérstaklega vegna þess að allir eru sammála um að rannsóknir í vísindum og tækni eru grunnforsenda hagvaxtar.

Ítarefni:

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Kristján Leósson eðlisfræðingur við Háskóla Íslands  Vísindarannsóknir og fjárfestingar

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands Borðum ekki útsæðið

15. fundur 143. löggjafaþings. Sérstök umræða. Framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

Fjallað var um málið í fréttum Rúv og stöðvar tvö 4. nóvember.

Hádegisfréttir RÚV: Óttast að 40 ársverk tapist

Kvöldfréttir RÚV: Óttast að stjórnvöld standi við niðurskurð

Viðtal við Magnús Karl Magnússon  í Speglinum

Sjónvarpsfréttir Stövar 2: Vísindamenn fjölmenntu á þingpalla

Sjónvarpsfréttir RÚV: Vísindamenn mótmæla niðurskurði

Morgunblaðið hefur ekki sagt neitt frá þessu máli og ekki heldur Eyjan (eftir því sem ég kemst næst).

* Talan veltur á heildarupphæð skuldbindinga fyrri ára og stærð styrkja sem veittir verða. Heildarstyrkir hafa verið 7.5 milljón krónur á ári, en miðað við 9. milljónir hámark í síðustu auglýsingu Rannís. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Virkilega góð samantekt hjá þér, Arnar. Hafðu þökk fyrir það!

Oddur Vilhelmsson, 6.11.2013 kl. 10:03

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hagvöxtur, af hverju þurfum við alltaf að eltast við hagvöxt? Er ekki svo að því meiri hagvöxtur sem er, því meiri auðlindum þurfum við að fórna og því nær nálgumst við þanþol jarðar?

Höskuldur Búi Jónsson, 6.11.2013 kl. 10:31

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Oddur.

Höskuldur. 

Hagvöxtur sérkennilegt fyrirbæri, og að mér skilst allt annað en auðvelt að mæla hann.

Hér er orðið notað sem lýsing á efnahagslegri hagsæld, sem fylgir ef við ræktum vísindastarf og hlúum að nýsköpun.

Ég er sammála þér að við ættum að reyna að nota aðrar mælistikur á hagvöxt, en oft eru notaðar. Sérstaklega fyrir endanlegar auðlindir og takmarkaðar.

Arnar Pálsson, 6.11.2013 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband