Leita í fréttum mbl.is

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Stjórn Líffræðifélags Íslands, sem undirritaður er hluti af, sendi hæstvirtum mennta og menningarmálaráðherra bréf vegna samkeppnissjóða. Sjá hér að neðan og biologia.is

Til hæstvirts mennta og menningarmálaráðherra

Kæri Illugi Gunnarson

Erindi: Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands vegna samkeppnissjóða.

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn niðurskurði á samkeppnissjóðum Rannís, sem lagður er til í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Það er almennt viðurkennt að fjárfesting í grunnrannsóknum og tækniþróun með samkeppnissjóðum er góð leið til þekkingar- og verðmætasköpunar. Þessi staðreynd er undirstrikuð í skýrslunni „Ný sýn“ sem kom út árið 2012 og unnin var af Forsætisráðuneytinu, í samráði við Vísinda- og tækniráð og fleiri aðila.

Eins og kemur fram í skýrslunni er umgjörð íslenskra vísinda sérkennileg að mörgu leyti. Veigamest er sú staðreynd að hérlendis fer lágt hlutfall (20%) fjárframlags ríkisins til rannsókna í gegnum samkeppnissjóði, en erlendis er hlutfallið almenn hærra (40%). Heildarniðurskurður til samkeppnissjóða undanfarin 5 ár er 20-40% (eftir sjóðum), sem er meiri en niðurskurður í útgjöldum ríkisins í heild á sama tímabili. Eina undantekningin er árið 2013, þar sem fjárveitingin náði aftur sömu upphæð og 2008 (að raunvirði).

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn fyrirhugaðri skerðingu á samkeppnissjóðum Rannís um allt að 30% í fjárlögum fyrir 2014 og þeim niðurskurði sem áætlaður er á næstu 2 árum. Það skýtur skökku við að svelta samkeppnissjóði sem standa undir vísinda og tækniþróun hjá þjóð sem hefur hvað mest þörf fyrir nýsköpun, jafnt í klassískum atvinnugreinum eins og fiskveiðum og orkuvinnslu, sem og sprotafyrirtækjum á sviði tölvu- og líftækni.

Ísland hefur alla burði til þess að standa í fararbroddi þegar kemur að þekkingarsköpun í formi tækni- og tölvuþekkingar og ekki síður formi rannsókna á náttúru Íslands og auðlindum. Við verðum að standa vörð um þessa þekkingu.

Fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís mun leiða til þess að ungt fólk mun hrökklast úr námi eða sækja sér menntun erlendis. Alvarlegra er að skerðingin mun fæla íslendinga sem náð hafa í verðmæta sérmenntun ytra frá því að snúa heim. Niðurstaðan verður íslenskur heilaleki með ófyrirséðum afleiðingum.

Þar af leiðir er líklegt að fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís verði minnst sem mikils ógæfuspors í bataferli þjóðar eftir efnahagshrun.

Við höfum alvarlegar áhyggjur vegna þessara fyrirætlana og hvetjum menntamálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi til þess að endurskoða fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, sérstaklega m.t.t. fyrirhugaðs niðurskurðar á samkeppnissjóðum Rannís.

Virðingarfyllst,

stjórn Líffræðifélags Íslands,

Arnar Pálsson,

Guðmundur Árni Þórisson,

Hrönn Egilsdóttir,

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir og

Snorri Páll Davíðsson.

Afrit sent fjárlaganefnd og fjölmiðlum.

Reykjavík 15. nóvember 2013

Skyldir pistlar.

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband