Leita í fréttum mbl.is

Ormar sem borða plast

Plast, t.d. polyethylene þræðir, er hættuleg mengun vegna þess að það brotnar treglega niður í náttúrunni og getur safnast upp.

Plast safnast upp í hafinu, sem risastórir flekkar á Kyrrahafinu, agnir á ströndum Evrópu eða sem plastbútar í mögum sjófugla og fiska.

Vandamálið er vitanlega gríðarleg notkun okkar á plasti og skelfilegt hirðuleysi í förgun og ónóg endurnýting.

Plast er orkuríkt efni, enda unnið úr olíu sem kemur úr lífrænum jarðlögum sem mynduðust m.a. úr skógum Krítartímans. Því ættu einhverjar lífverur að geta nýtt sér þær. En bygging plasts er þannig að það hentar illa í hvarfstöðvar ensíma sem venjulegar lífverur búa yfir.

Nýlegar rannsóknir sýna hins vegar að viss hópur lífvera kann að búa yfir lausninni. Tvær rannsóknir verða tilgreindar hér.

Árið 2014 birti kínverskur rannsóknahópur undir stjórn Lei Jiang niðurstöður rannsókna á bakteríum í görn vaxorma. Vaxormar hafa eins og við öll örverur í meltingarvegi sínum, en tegundirnar sem þeir búa yfir eru all sérstakar vegna þess að vaxormar lifa m.a. á vaxi úr býflugnabúum. Örverurnar í meltingarvegi þeirra geta rofið efnatengi í polyethylene samböndum.

Fyrir nokkrum dögum birist grein sem sýndi að vaxormarmir sjálfir naga gat á plastpoka, og að plastið brotnar niður í ethylene glycol í meltingarvegi þeirra. Ekki er ljóst hvort að efnaskiptahæfileikarnir eru bakteríanna, vaxormsins eða etv tilkomin vegna samspils þeirra.

Að minnsta kosti er komin leið til að brjóta niður efni sem hingað til hefur safnast upp mest til óþurftar. En það þýðir vitanlega ekki að við ættum að fara hamförum í plastneyslu eða slaka á í endurvinnslu á því. Það er ekki raunhæft að beita vaxormum á plastfjöll eða plasteyjar í hafinu.

Heimildir og ítarefni.

Yang, J., Yang, Y., Wu, W.-M., Zhao, J., and Jiang, L. 2014. Evidence of polyethylene biodegradation by bacterial Strains from the guts of plastic-eating waxworms. Environ. Sci. Tech. 48: 13776–13784.

Paolo Bombelli, Christopher J. Howe, Federica Bertocchini. 2017. Polyethylene bio-degradation by caterpillars of the wax moth Galleria mellonella Current Biology 27, R283–R293.

Arnar Pálsson 2010. Plastfjallið

Arnar Pálsson 2010. Plasthafið

The onion: 'How Bad For The Environment Can Throwing Away One Plastic Bottle Be?' 30 Million People Wonder


mbl.is Plast í sjó vanmetið um 80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Arnar. Hraðsuðukönnur úr linu plasti eins og nú eru seldar, geta líka verið hættulegar. Við suðuhitann kvarnast upp úr plastinu, og í soðnu vatni úr slíkum könnum, sem hafa verið notaðar í dálítinn tíma, sjást litlar hvítar agnir. Mun harðara plast var í könnum fyrir aldamót, og kvarnaðist ekki upp úr því - a.m.k. ekki úr minni, sem var rauð.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 27.4.2017 kl. 21:52

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Ingibjörg

góður punktur. Plast er ekki bara plast, í það er bætt öðrum efnum til að mýkja eða herða. Sum þeirra leka úr plastinu með tíma, og hluti þeirra hefur líffræðileg áhrif. Herðingarefni eins og BPA svipar t.d. til stera í byggingu, og hafa áhrif á kynþroska froska og jafnvel spendýra.

Það er því margt sem ávinnst með því að draga úr plastnotkun.

Með kveðju,A

Arnar Pálsson, 28.4.2017 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband