Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Birki, djúpið og erfðamengi plantna

Nokkur erindi eru á döfunni sem líffræðilega þenkjandi fólk og aðrir undavillingar gætu haft áhuga á.

Þriðjudaginn 16 september mun Ægir Þór Þórsson ræða um rannsóknir á erfðablöndun í birki og fjalldrapa, sem hann hefur unnið undir leiðsögn Keseru  Anamthawat-Jónsson, prófessors í líffræði við Háskóla Íslands. Litningagreiningar þeirra sýna að um 10% birkiplantna er þrílitna eftir kynblöndun við fjalldrapa. Erindið hefst kl 14:00 í hátíðarsal Háskóla Íslands (sjá nánar).

Sama dag verður flutt erindi um lífverur við djúpsjávarhveri. Hinn frægi franski sjávarlíffræðingur Dr. Daniel Desbruyères flytur erindið sem er öðrum þræði í minningu Jean-Baptiste Charcot og áhafnar hans á skipinu Pourquoi Pas? sem fórst úti fyrir Mýrum á þessum degi árið 1936 (sjá nánar). Ímyndið ykkur að sjá náttúrulífsmyndir í sjónvarpinu á stórum skjá (í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands - við hliðina á Norræna húsinu). Erindið verður á ensku og er öllum opið.

Síðast en ekki síst ber að nefna fyrirlestur Dr Ilia Leitch, sem fjallar almennt um stærðir erfðamengja í plöntum. Vísindamenn veittu því snemma eftirtekt að erfðamengi plantna eru mjög mismunandi af stærð. Venjulegur laukur er t.d. með meira DNA en maðurinn, sem hefur valdið mörgum mönnum hugarangri en haft merkilega lítil áhrif á annars metnaðargjarna lauka. Erfðamengin hafa í sumum tilfellum vaxið hratt á stuttum þróunarlegum tíma. Vinur minn í Kansas Mark Ungerer sýndi fram á að stökklar, gen sem fjölga sér eins og veirur í erfðamengi, verða stundum að faröldrum, sérstaklega þegar kynblöndun verður milli plöntutegunda. Það verður spennandi að sjá hvort Dr. Leitch hafi komist að svipaðri niðurstöðu eða ei (tilkynning). Erindi hans verður 17 september kl 12:30 í stofu 320 í Öskju.

Leitch vinnur við hinn heimsfræga Kew grasagarð, sem er eitt af undrum Bretlandseyja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Erindin voru hvert öðru skemmtilegri. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra frú Leitch lýsa því hvernig stærð erfðamengja getur orðið til trafala. Sumar plöntutegundir eru með afskaplega stór mengi, sem getur leitt til þess að rýrisskiptingin (meiósa) getur tekið óratíma. Hjá plöntum með minnstu erfðamengin tekur bara nokkrar klukkustundir, en hjá öðrum getur þetta skipt vikum. Ímyndið ykkur fruman með alla sína litninga á lofti, "puða" við að raða þeim saman...daginn út og inn. Og hún þarf að halda sér á lífi meðan á balletinum stendur, sem felur í sér fleiri vandamál sem þarf að leysa.

Arnar Pálsson, 17.9.2008 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband