Leita í fréttum mbl.is

Dýr skynja dauðann

Fyrir nokkru birtist töfrandi pistill eftir Natalie Angier í New York times. Hún fjallaði um dýr og vísbendingar um það hvernig þau upplifa dauða. Inngangspunkturinn var górillan Gana sem hýst er í dýragarðinum í Munster. Hún missti ungann sinn þriggja mánaða gamlan, en lét hann samt ekki frá sér, heldur dró hann með sér í fanginu í fleiri daga. Gana virtist vita að unginn var dáinn, en vildi samt ekki sleppa honum.

Okkur er tamt að manngera atferli dýra og sjá í þeim eiginleika sem okkur þykir sæmd af eða ekki. Darwin tókst á við þetta vandamál einna fyrstur í bók sem heitir "The expression of the emotions in man and animals" (tjáning tilfininganna í manni og dýrum). Samkvæmt Jane Goodall syrgja simpansar ættingja, ungviði og foreldra, en virðast ekki kippa sér mikið upp við fráfall annara í hópnum. Spurning er hversu sterk sorg þeirra er. Menn upplifa sorgina mjög sterkt þegar þeir missa einhvern nákominn, en síðan getum við japlað á núðlum yfir fréttum af hamförum úti í heimi eða þegar við flettum yfir dánartilkynningar í blaðinu. Færa má rök fyrir þvi að einstaklingar sem finndu til samkenndar með öllum sem lifa og deyja væru líklega lamaðir af sorg, og því með lægri Darwinska hæfni.

Lífverur með taugakerfi og skynjun virðast upplifa sjálf og gera greinarmun á meðlimum sinnar tegundar og annara. Er ekki augljóst að einstaklingar sem upplifa ekki sjálfan sig sem slíkan eru vanhæfari en aðrir í lífsbaráttunni (ef þú upplifir ekki líkamann sem þinn, hví ættir þú að forða honum frá ljóninu?). Sjálfhverfa hlýtur því að vera djúpt greypt í fjölfruma dýr, og við græðum ekki mikið á að gagnrýna þann eiginleika.

Það sem við deilum með simpönsum  og öðrum prímötum eru félagshópar, sem upprunalega voru fjölskyldur, mæðrahópar, ættbálkar eða eitthvað sambærilegt. Er ekki líklegt að margir af eiginleikum okkar hafi mótast af þeirri sögu? Mér dettur fyrst í hug eiginleikar eins og samkennd, ættarbönd, fórnfýsi, samvinna, og e.t.v. einnig "neikvæðari" eiginleikar eins og tortryggni gagnvart öðrum hópum, hernaðarhugsun, kynþáttahatur...en mannfræðingar geta örugglega gert þessari hugsun betri skil.

Mæli sérstaklega með grein Natalie Angier.

http://www.nytimes.com/2008/09/02/science/02angi.html

Hugleiðing þessi kviknaði sem athugasemd við mjög forvitnileg skoðanaskipti á vefsíðu Kristinns Theódórssonar.

http://andmenning.blog.is/blog/andmenning/entry/644200/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Takk fyrir góðan pistil og tilvísunina í færslu mína.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 20.9.2008 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband