Leita í fréttum mbl.is

Krabbameinsfrumur eru svindlarar

Fjölfrumungar samastanda af fjölda erfðafræðilega eins frumna sem starfa saman, t.d. með því að skipta með sér verkum og sérhæfast. Frumur fjölfrumunga mynda tvo grundvallar flokka, sómatískar frumur sem mynda venjuelga vefi og stofnfrumur kynfrumna sem eins og nafnið bendir til mynda kynfrumur eingöngu.

Margskonar kerfi hafa þróast til að tryggja samskipti og samvinnu sómatískra frumna, boðskipta kerfi, vaxtarhemlar og kerfi sem segja frumum að drepa sig fyrir heildina (stýrður frumudauði - apoptosis). Einnig eru vísbendingar um að átfrumur ónæmiskerfisins tak þátt í að ganga frá sómatískum frumum sem leiðast af vegi.

Lögmál þróunar útskýrir hvers vegna slík kerfi þróast, og sýnir okkur líka að kerfin eru mikilvægust fyrir þann hluta stofnsins sem myndar afkvæmi. Þegar einstaklingar hafa lokið æxlun þá minnkar þróunarlegur þrýstingur fyrir viðhaldi þessara kerfa (og annara!) þannig að ógæfa eins og krabbamein hefur mest áhrif á eldra fólk.

En þróunarlögmál gilda líka innan fjölfrumunga. Sumar frumur verða fyrir erfðagöllum sem gera þeim kleift að svindla á vörnum fjölfrumunga. Frumur sem fjölga sér óheft veljast úr á náttúrulegan hátt og geta orðið mjög algengar. En þessi þróun er ólík að því leyti að krabbamein smitast ekki (ég veit um eina undantekningu í hundum) þannig að krabbameinsfrumulínurnar enda með viðkomandi einstaklingi. 

Þekking okkar á ferlunum sem liggja að baki óheftri frumufjölgun, ódauðleika, og íferð (metastasis) krabbameinslína hefur batnað til muna. Til dæmis sést að litningabrengl eru mjög algeng í krabbameinsfrumum, og líklegt að slíkir gallar geti ýtt undir vöxt frumna eða losað þær undan hömlum fjölfrumungsins. Mörgum spurningum er þó enn ósvarað. 

Sumum þeirra reyndi Sigríður K. Böðvarsdóttir að svara í doktorsverkefni sínu. Hún spurði um litningabrengl í frumum með ákveðna erfðagalla, og sýndi fram á að litningaendar verða sérstaklega óstöðugir í vissum hópi. Við þurfum þekkingu á þessum ferlum til að eiga möguleika á að koma böndum á svindlarana.

Vörn hennar fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands, föstudaginn 26 september kl. 13:00.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefurðu hugleitt hvernig nýjar upplýsingar/kenningar um þátt stofnfruma gætu tengst kenningum þýska læknisins Hamers um þátt heilans í krabbameinum?

Jóhannes (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 23:26

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhannes

Stofnfrumur virðast vera notaðar af fjölfrumungum til að halda frumuskiptingum niðri og hafa sterkara taumhald á sómatískum vefjum. Venjulegar frumur skipta sér um 50 sinnum og deyja síðan, líklega vegna öldrunar tengdum litningaendum. Stofnfrumur eru leið til að skaffa nýjar sómatískar frumur yfir lífskeið einstaklingsins. 

En eins og þú ýjar að er hefur verið bent á að stökkbreytingar í stofnfrumum leitt til sérstaklega illskeyttra krabbameinsfruma, sem koma alltaf aftur!

Þekki ekki kenningar Hamers, og leit á vefnum sendi mig á einhverja nýaldarheilunar síðu. Þetta virkaði eins og hrærigrautur af líffræðihugtökum og nýaldarfroðu, en leiðréttu mig ef rangt er með farið.

Arnar Pálsson, 24.9.2008 kl. 12:19

3 identicon

Sæll,

finnst þér wikipedia lýsa nýaldarfroðu eða umdeildum kenningum? http://en.wikipedia.org/wiki/Ryke_Geerd_Hamer

Mér fannst þegar ég las í síðasta tölublaði Economist lýsingarnar á hugsanlegum þætti stofnfrum varðandi krabba að það kynni að vera  eftir einhverju að slægjast að líta jákvætt en gagnrýnið, af fullri alvöru, á kenningar Hamers.

Jóhannes (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 13:46

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Wikipedia er því miður engin Brittanica (sem er sjálf fjarri því að vera gallalaus). Eftir því sem ég kemst næst þá hélt Hamer því fram að andlegt ástand hafði kallað fram eistnakrabba hjá sjálfum sér, og útvíkkaði það síðan í stærra hugmynda kerfi.

Vissulega hefur andlegt ástand áhrif á lífverur, við seytum stresshormónum og vellíðunarhormónum sem hafa fjölþætt áhrif á líkamann. En spurningin um hvort að það hafi bein áhrif á líkurnar á krabbameini, eða ífarandi frumuvexti, er ósvarað.

Persónulegar sögur hafa vægi fyrir okkur sem manneskjur, en við getum ekki byggt vísindi á slíkum vitnisburði. Til að sýna fram á líffræðileg fyrirbæri þarf stærri og betur hannaðar tilraunir.

Arnar Pálsson, 24.9.2008 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband