Leita í fréttum mbl.is

Erfðamengi Neanderthalsmannsins

Síðustu neanderthalsmenn voru uppi fyrir u.þ.b. 40000 árum. Sem er rétt 40 sinnum lengra síðan en síðan Egill Skallagrímsson vappaði um sveitir, kvað og vann sín þrekvirki. Tilhugsunin um að önnur tegund mannapa búi á jörðinni er okkur mjög framandi í dag, en veruleikinn er sá að fyrir alls ekki mjög löngu lifðu tvær tegundir mannapa á plánetunni.

Við höfum áður rætt um uppruna  og líffræði þessara frænda okkar, Adam neanderthal og Eva sapiens (26.10.2007) og Langa leiðin frá Neanderthal (25.4.2008).

Eftir tæpar tvær vikur mun einn fremsti stofnerfðafræðingur samtímans Montgomery Slatkin koma til landsins og kynna rannsóknir sínar á DNA úr beinum Neanderthalsmanna. Erindið ber titillinn Neanderthalsmaðurinn: erfðamengi og stofnerfðafræði og verður mánudaginn 6 júlí í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ (hefst kl 12:00).  Úr fréttatilkynningu:

Montgomery Slatkin er prófessor við University of California at Berkeley. Hann mun halda fyrirlestur um "Neanderthalsmanninn: erfðamengi og stofnerfðafræði hans".

Markmið verkefnisins er að raðgreina erfðamengi Neanderthalsmanna til að bera saman við erfðamengi nútímamannsins (http://www.eva.mpg.de/neandertal). Hver eru þróunarleg tengsl Neanderthalsmannsins og nútímamannsins? Geta erfðabreytingar kastað ljósi á hvernig nútímamaðurinn lagði upp frá Afríku fyrir um 100.000 árum og nam á stuttum tíma ný lönd um allan heim?

Fyrirlesturinn er hluti af Darwin dögunum 2009, í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin og 150 ára afmælis Uppruna tegundanna.

Fyrirlesturinn verður haldinn 6. júlí klukkan 12:00 í Öskju, stofu 132.

Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: A.L.F

Æðislegt að maður sem hefur þennan áhuga og þekkingu á nealdermanninnum sé að koma og vera með fyrirlestur.

Ég er ein af þessum vitleysingum sem langar virkilega að sjá þá ná að setja saman öll brot um nealdermanninn og DNA hans, helst væri ég til í að sjá þá ná klóna hann en það verður víst aldrei leyft :(

A.L.F, 24.6.2009 kl. 17:32

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Slæmt að missa af þessu. Veistu hvort Slatkin þessi fer víðar um Norðurlönd?

Dr. Hans Christian Pedersen, líkamsmannfræðingur við Syddansk Universtitet í Odense, sem einnig er sérfræðingur í Neanderthalsmönnum, rannsakaðir bein fyrstu Íslendinganna á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993. Hann sagði mér einu sinni hróðugur, að hann hefði skoðað eina beinagrind úr Skagafirði, minnir mig, sem var með herðablöð eins og á Neanderthalasmanni.

Ætli séu einhverjir afkomendur á Ísland??? A.L.F. hér að ofan er greinilega góður kandídat, ef dæma á út frá myndinni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 25.6.2009 kl. 07:06

3 Smámynd: Arnar Pálsson

ALF

Það er harla ólíklegt að það takist að klóna hann, erfðaefnið er mjög illa farið, í nokkur hundruð basapara bútum, og vissir basar hafa stökkbreyst. Auk þess er það spurning hvort að það sé siðferðilega réttlætanlegt að klóna verur sem eru svo náskyldar okkur?

Vilhjálmur

Ég veit ekki um frekari ferðatilhögun Montýs. Ef þú býrð á norðurlöndum myndi ég kanna hvort að einhver að skólunum í grendinni auglýsa fyrirlestur hans.

Eftir því sem ég kemst næst eru engar vísbendingar um að H. sapiens og H. neanderthalsensis  hafi eignast afkvæmi, hvað þá að afkomendurnir hafi farið til Íslands. En ef það hefði gerst, þá er ég sammála þér, það væri líklegast að finna þá í Skagafirði...

Arnar Pálsson, 25.6.2009 kl. 09:38

4 Smámynd: Mofi

Hljómar spennandi, reyni að missa ekki af þessu.

Mofi, 25.6.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband