Leita í fréttum mbl.is

Lífríki eyja: sérstaða og þróun

Þann 21. nóvember mun Hafdís Hanna Ægisdóttir halda erindi er nefnist Lífríki eyja: sérstaða og þróun. Allt frá tímum Darwins og heimsóknar hans til Galapagoseyja hafa eyjar vakið athygli fyrir sérstætt plöntu- og dýralíf. Tröllvaxin skriðdýr og skordýr, ófleygir fuglar og sérstæðar plöntur finnast á mörgum eyjum. Þessi sérkenni lífríkja eyja gera þær að vinsælum vettvangi þróunarfræðirannsókna.

Hvernig dreifast tegundir til einangraðra úthafseyja? Hvað veldur því að yfirleitt fáar tegundir lifa á litlum úthafseyjum og af hverju er hlutfall einlendra tegunda oft hærri þar en á næsta meginlandi? Af hverju þróast jurtkenndar plöntutegundir í trjákenndar á úthafseyjum? Þessum spurningum og mörgum fleirum verður reynt að svara í fyrirlestrinum. Sérstök áherslu verður lögð á brautryðjandi hugmyndir Darwins um lífríki eyja, sem hann kynnti í Uppruna tegundanna.

 

Hafdís Hanna er plöntuvistfræðingur og vinnur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands sem verkefnistjóri þróunarverkefnis um Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Rannsóknir hennar hafa aðallega beinst að æxlunarkerfum plantna á heimskauta- og háfjallasvæðum en einnig á afskekktum eyjum Galapagoseyjaklasans.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer haustið 2009. Dagskrá má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku.

Stund: 21. nóvember 2009, kl. 13:00

Staður: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Allir velkomnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband