Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ársgömul framtíð mannkyns

Blessaðir snillingarnir á vísi.is birtu nýverið "frétt" um framtíð mannkyns, þar sem vitnað er í enskann fræðimann, Dr. Curry, sem spáir því að tegundin okkar muni klofna í tvær.

Við erum eðlilega forvitin um framtíð okkar sem tegundar, kemur maðurinn til með að deyja út, breytast hægt í aðra tegund eða klofna í tvær? En eins og með svo margt annað þá er erfitt að spá um framtíðina, en samt leyfir þessi Dr. Curry sér að lýsa fjálglega þróun okkar í tvö mannkyn, einskonar undirkyn og yfirkyn, í fáranlegum smátriðum.

Þeir sem eru með einhvern bakgrunn í þróunarfræði eða örðu af heilbrigðri skynsemi ættu að geta sundrað þessari orðaræðu, sem ekki er hægt að kalla "röksemdarfærslu".

En augljóst er að "þýðendurinir" á vísi.is sáu ekki í gegnum þessa grisjukenndu þvælu.

Og það sem betra er, að fréttin þeirra birtist á vef BBC fyrir ári síðan!

Boðið er upp á gamalt bull sem nýjan sannleik. Með þessu móti er hægt að stappfylla fréttablöð og aðra miðla með aldagamalli þvælu um storka, "jörð í miðju sólkerfis" og hættulausar sígarettur.


Adam neanderthal og Eva sapiens

Rannsóknir á erfðaefni úr beinum Neanderthalsmanna sýna að þeir tilheyra ekki þeirri tegund mannapa sem flestir bloggarar nútímans tilheyra (það er ekki útiokað að réttháir simpansar fái að berja lyklaborð, rétt eins og að fleygja akrýllitum á léreft). Það eru því fáar vísbendingar um að "samskipti" tegundanna tveggja á steinöld hafi leitt til frjórra afkvæma, og blöndunar á erfðaefni.

Það að nauðsynlegt að hafa þennan aðskilnað tegundanna í huga, til að kunna að meta nýjar niðurstöður sem sýna að Neanderthalsmenn í Evrópu hafi skartað stökkbreytingu í mc1r  sem leiðir til rauðs háralitar. Sérstaklega þar sem svipuð stökkbreyting í sama geni, veldur rauðu hári í h. sapiens. Nýlegar íslenskar rannsóknir (frétt í Sidney Morning Herald) benda til að stökkbreytingar (í mc1r og nokkrum öðrum genum) sem draga úr framleiðslu á litarefni hafi verið náttúrulega valdar á norðurslóð. Það hefur verið túlkað sem vísbending um að of mikið litarefni (t.d. í húð, hári, augum) hafi verið skaðlegt þeim mönnum sem bjuggu fjær miðbaug. Litarefni varnar þess að sólin skemmir DNA í húðinni. En einnig er vitað að sólarljos er nauðsynlegt fyrir nýmyndun á D vítamíni, sem gæti hafa verið orsök fyrir því að valið var gegn litarhafti í norður Evrópu.

Sú staðreynd að Neanderthal mennirnir, sem bjuggu í einnig Evrópu hafi einnig verið með ljósara hár, og e.t.v. húðlit, bendir til þess að þeir hafi upplifað samskonar valþrýsting. Rétt eins og náttúrulegt val hefur mótað mörgæsir og fiska í sama form (sem auðveldar þeim sund), þá lítur út fyrir að það hafi dregið úr magni litar sem mannapar fjær miðbaug framleiða.

Niðurstöður þessar koma fram í vísindagreinin Science, sem lýsir einnig öðrum forvitnilegum stökkbreytingum, sem reynast sameiginlegar okkur og Neanderthalmönnum. Um er að ræða breytingar í FOXP2 geninum, en gallar í þessu geni skadda talfæri okkar. Sýnt hefur verið fram á að í þróun mannapa breyttist þetta gen hratt, sem gæti hafa tengst hæfileika okkar (og útdauðra frænda okkar) til að tala.

Niðurstöðurnar í Science eru því vísbending um að Neanderthalsmennirnir hafi getað rætt um eldfæri, rætur og dauðar kanínur, svona rétt eins og við hin.

 

Fyrirvarar.

Rannsóknir á erfðaefni úr beinum eru mjög erfiðar viðfangs, sérstaklega þar sem DNA mengun getur skekkt niðurstöur. Það þýðir samt ekki að við ættum að leggja árar í bát, því bættar aðferðir og vönduð vinnubrögð hafa skilað miklum framförum á þessu sviði.

Pistlahöfundur kom að rannsókn sem vitnað er í, um erfðir og þróun litar hjá Evrópubúum. Verkefnið var unnið af góðu fólki á Íslenskri Erfðagreiningu og samstarfaðillum þeirra í Hollandi.

Titill pistils er náttúrulegt þvaður, vonandi líðst svona ónákvæmni.


mbl.is Vísbendingar um að sumir neanderthalsmenn hafi verið rauðhærðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynþáttahatur Nóbelsverðlaunahafa

Einn af frægari erfðafræðingum nútímans er James Watson, sem ásamt Francis Crick og Maurice Wilkins, hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði, fyrir að skilgreina byggingu DNA. Watson hefur aldrei verið spar á orð sín eða skoðanir, sem hefur komið honum oft í klandur. Nýverið hóf karlagninn kynningu á nýrri bók, og dró í viðtali við Sunday times efa greind blökkufólks.

Í lauslegri þýðingu kvaðst hann vera svartsýnn á möguleika Afríku til framfara ("inherently gloomy about the prospect of Africa") því allar tilraunir vestrænna landa til að aðstoða Afríkubúa byggjast á því að greind þeirra sé sú sama og vesturlanda búa - nokkuð sem er ekki stutt af rannsóknum ! ("all our social policies are based on the fact that their intelligence is the same as ours – whereas all the testing says not really"). Að auki, sagðist hann vona að allir væru jafnir (jafngreindir?), en að yfirmenn sem þurfa að eiga við svarta undirmenn viti að svo sé ekki ("people who have to deal with black employees find this is not true").

Til að vitna í R. Lewontin, það er munur á "vísindalegum staðhæfingum um manninn og vísindamönnum sem setja fram staðhæfingar um manninn".

Í fyrsta lagi, þá er marg sannað að skilgreiningar frá átjándu og nítjándu öld um kynþætti, svarta, hvíta og gula, eru að mestu gagnslausar. Saga mannkyns og þjóðanna er flóknari en svo, og litarhaft hefur mjög lítið með skyldleika fólks að gera.

Í öðru lagi, þótt augljóst sé að einstaklingar eru misgreindir og að í sumum tilfellum sé arfgerð um að kenna (eða þakka!), þá hefur ekkert sýnt að greind sé mismunandi milli fólks af mismunandi uppruna. 

Í þriðja lagi, vissulega hefur saga mannkyns leitt til einhverrar erfðafræðilegar aðgreiningar, sem í einhverjum tilfellum gæti tengst aðlögun þjóða að umhverfi sínu (t.d. Í Evrópu búum og nautgripahirðingjum í Asíu og Afríku hefur þróast geta til að melta mjólkusykur á fullorðinsárum), en það breytir því ekki að meginþorri erfðabreytileikans er mannkyni sameiginlegur.

Blessaður James karlinn reynir að bera í bætifláka fyrir gönuhlaup sitt með pistli í the Independent. Hann biðst margfaldlega afsökunar, á því að orð hans væru miskilin á þá leiða að, hann héldi að íbúar allrar álfunar Afríku, væru á einhvern hátt erfðafræðilega lakari ("To those who have drawn the inference from my words that Africa, as a continent, is somehow genetically inferior, I can only apologise unreservedly").

Hann eyðir miklu púðri í að ræða erfðir greindar og persónuleika, og segir að við ættum að nálgast það vandamál á vísindalegann hátt, en ekki með kreddum og fordómum. Það er allt gott og lag-gott, en það er athyglisvert að hann segir hvergi berum orðum, að hann haldi að Afríkubúar (svartir í meðförum hans) séu jafngreindir og aðrar mannverur.

Mamma lét mann aldrei komast upp með að afsaka sig fyrir eitthvað annað en það sem maður er skammaður fyrir. 


Giardia er frumdýr ekki baktería

Fréttamenn sem birta efni sitt á vefmiðlum virðast oft flýta sér fullmikið. T.d. er þessi frétt um sníkjudýrin í vatnsbóli Oslóbúa þýdd hratt og hroðvirknislega. Að auki er Giardia titluð sem baktería í myndatexta, en hún er, eins og alþjóð veit, frumdýr (og eitt af þeim forvitnilegri). Íslensk blöð segjast ekki hafa efni á að ráða menntað fólk til að fjalla um vísindi, en ekki heldur að ráða fólk til að lesa yfir fréttir og sannreyna staðhæfingar.
mbl.is Drykkjarvatnið í Ósló óhæft til neyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að spegla sig í lauknum

Vísindamaðurinn hafði undirbúið sig mjög vel fyrir fundinn með þingnefndinni. Samstarfsfólk hans hafði unnið linnulítið við undirbúning og rannsóknir tengdar efninu sem kynna átti. Þau höfðu saman fundið góð dæmi sem ættu að lýsa rannsóknunum, og höfðu sett saman lista af kostum og göllum, mögulegum ávinningi og notagildi fyrir þjóð, land og mannkyn. Öll atriði og hver staðhæfing hafði verið vegin, metin og gagnrýnd. En þegar á hólmin var komið, virtist þingnefndin hvorki skilja né heyra.  

Vönduð rannsóknarblaðamennska lauksins, flettir ofan af því hvað gerðist.  Rétt er að geta þess að laukurinn, the onion, flytur einungis upplognar fréttir, lesendum til skemmtunar. Oftar en ekki hafa pistlarnir á sér brag eðlilegra frétta, en setja síðan á þær ýktar áherslur eða krydda með mótsögnum.

Í tilfelli pistilsins hér að ofan, þá fjallar grein lauksins um viðbrögð þingnefndar við tillögum vísindamanna um að byggja $50.000.000.000 "hlut"  til vísindarannsókna, sem eigi að finna út eitthvað merkilegt um veröldina sem við vitum ekki núna. Pistillinn er listavel sniðinn, sérstaklega þar sem háðið rennur til beggja átta. Vera má að vísindamennirnir séu að mæta í þingið með sín fræðiorð og hugtakafjöld, með það eitt að markmiði að plata þingmennina til að gefa sér pening. Einnig getur verið að þingmennirnir séu svo þunnir að þeir heyri bara suð, sem er rofið af nokkrum stikkorðum eins og "tilgáta", "framfarir", "peningar", "styrkur", "þjóðarheill".

Nokkurn sannleika má finna í hvoru tveggja. Vissulega eru sumir vísindamenn eru tilbúnir til að lofa upp í ermar sínar og vísindasamfélagsins, t.d. lækningum við sjúkdómum á borð við krabbamein eða alzheimer. Þetta er gert fullum fetum í styrkumsóknum, og einnig eru vísindagreinar oft með dálítið langsótt "loforð" um notagildi uppgötvana fyrir læknisfræði. Einnig er ljóst að meðal stjórnmálamanna eru fólk hafa ósköp lítinn skilning á hinni vísindalegu aðferð eða notagildi vísindalegrar þekkingar. Slíkt fólk vill bara fá fallegar tölur í erindi sín sem það flytur til þess að vera kosið aftur.

Það er því bæði vísinda og stjórnmálafólki hollt að spegla sig í lauknum, allavega annað slagið.

Arnar 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband