Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Saga vísinda og nýsköpunar

Í sumarlok sat ég á fyrirlestur hjá Júlíusi G. Kristinssyni líffræðingi, sem er einn stofnenda ORF líftækni og nú fjármálastjóri fyrirtækisins. Ástæðan var verkefni á vegum vinnumálastofnunar og samtaka iðnaðarins sem leið til að koma fólki af atvinnuleysisskrá í nám eða starfsþjálfun.

Júlíus lagði mikla áherslu á að nemendur í grunnnámi væru opnir fyrir viðskiptatækifærum og nýsköpunarmöguleikum. Nám í háskólum er oft mjög fræðilegt - eðli málsins samkvæmt - og frekar lítil áhersla á að finna möguleika á hagnýtingu eða nýsköpun. Hann sagði að það myndi opna möguleika ef fólk kæmi í grunnnám í raungreinum með opin augu fyrir nýjum lausnum á vandamálum samfélagsins. Þannig mætti leysa hagnýt vandamál og einnig búa til viðskiptaleg tækifæri. Flestir nemendur okkar í líffræðinni koma beint úr menntaskóla, og það eru því miður fáir sem hugsa á þessum nótum. Verkfræði- og raunvísindasvið Háskóla Íslands og Innovit standa fyrir röð hádegisfyrirlestra í tilefni Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi. Júlíus heldur fyrirlestur fimmtudaginn 18. nóvember - kl 12:30 í stofu 132 Öskju. Hann er mjög drífandi og skemmtilegur fyrirlesari.

Hver er besta leiðin til nýsköpunar?

Við höfum mörg þá sýn á frumkvöðla að þeir sitji mörg ár í kjallara sínum eða bílskúr og birtist síðan einn daginn með frumgerð að fótanuddtæki eða rúðuþurrkum. Í raunveruleikanum eru nýjar hugmyndir og nýsköpun sjaldnast afurð einstaklinga, heldur miklu frekar afrakstur margra samspilandi þátta. Frjótt umhverfis, traust fræði og hugvit virðast skipta meira máli en framlag einstaklinga. Og hugmyndir fæðast hægt, ekki með látum á nokkrum sekúndum. Nýsköpunarfrömuðurinn Steven Johnson tekur dæmi um það hvernig Charles Darwin setti fyrst fram tilgátu sína um kóralrif og fór síðan að velta fyrir sér breytingum á lífverum í tímans rás (þ.e. hvernig náttúrulegt val veldur því að lífverur breytast - þróast). Þættirnir um sögu vísindanna sem RÚV sýnir á mánudagskvöldum lýsa ágætlega samspili tíðaranda, vísindalegrar hugsunar og samfélagslegra þátta sem leiddu til framfara. Einstein er oft teiknaður sem vísindalega þenkjandi náungi sem fékk ekki fræðimannsstöðu og vann fyrir sér á einkaleyfastofu í Sviss. Hann birti fimm greinar árið 1905 - eina um afstæð tengsl tíma og rúms. Það sem oft gleymist er að árið 1905 var ekki búið að finna leið til að samræma klukkur á milli bæjarhluta, hvað þá landa. Á einkaleyfastofunni meðhöndlaði Einstein nokkrar umsóknir um tæki sem áttu að gera fólki kleift að samstilla klukkur - jafnvel á milli landa. Það þurfti samhengi og snilligáfu til að leysa vandamálið um tímann og rúmið.

Að skilgreina spurningu eða vandamál

Vísindi og nýsköpun eru hliðstæð að því leyti að hvorutveggja krefst skapandi hugsunar. Í tilfelli vísinda er mikilvægast að fá góða hugmynd. Ef vísindamaður er ekki með góða rannsóknarspurningu, eða snjalla leið til að prófa spurninguna getur hann alteins farið að telja litríkar skeljar. Frumkvöðlastarf gengur út að það sama, það verður að skilgreina vandamál sem nauðsynlegt er að leysa. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir flóð í Hollandi eða vefjaskemmdir við hjartabilun? Lausnir á slíkum vandamálum fæðast venjulega hægt og rólega. Augljóslega er brýnt að skilgreina vandamál sem vert er að leysa - það að finna leið til að mála Júpiter bláann er tæplega þarfasta verkefni mannkyns.

Steve Johnsen leggur áherslu á að fyrirtæki gefi starfsfólki sínu tækifæri til að vera skapandi - sem er ekki það sama og að liggja á netinu og blogga. Úps.

The business of innovation: Steven Johnson

Saga vísindanna í kvöld:

5. Hvert er leyndarmál lífsins? Sýnt: mánudagur 15. nóv. 2010 kl. 20.05.

Hér er sögð sagan af því hvernig leyndarmál lífsins hefur verið skoðað með hliðsjón af flóknustu lífveru sem þekkist, mannslíkamanum. Sagt er frá tilraunum til að bjarga lífi skylmingaþræla í Róm hinni fornu, skuggalegu starfi og nær fullkomnum teikningum Leonardos á endurreisnartímanum, hugmyndinni um lífskraftinn í rafmagni og örheimi frumunnar. Eins er sagt frá því hvernig siðferðiskreppan í kjölfar kjarnorkusprengjunnar átti sinn þátt í því að tímamótaskref var stigið á sviði líffræðirannsókna, þegar menn áttuðu sig á byggingu og virkni kjarnsýra, DNA.

 


Lítill erfðamunur á humarstofnum

Það virðist vera ákveðin mótsögn hér. Merktir humrar ferðast stuttar vegalengdir á ævi sinni. En samt finnst lítill erfðafræðilegur munur á milli fjarlægra landsvæða. Galdurinn liggur augljóslega í fljótandi lirfustigi. Rétt eins og trén nota fræ til að nema nýtt land og "flytja sig" nýtist fljótandi lirfur humar og öðrum sjávardýrum til að dreifa sér til hagstæðra búsvæða.

Samkvæmt vef Hafró voru 12 erfðamörk (svokölluð DNA örtungl, sem eru með breytilegustu svæðum í erfðaefninu) skoðuð og þau voru öll bærilega breytileg. Sérfræðingar stofnunarinnar mátu afl rannsóknarinnar og segja að það hafi verið nægilegt til að greina mun á milli stofna, hafi hann verið til staðar.

Til samanburðar má geta þess að innan margra tegunda finnst munur á milli stofna sem eru bara nokkra kílómetra frá hvorum öðrum. Sá munur er oft tengdur öðrum breytum, eins og breytileiki í Pan1 geni þorskins sem sýnir sterka fylgni við dýpi.


mbl.is Humar með sömu erfðaefni á aðskildum veiðisvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnrýnin hugsun og háskólastarf

Í Fréttablaðinu þann 21. október skrifar menntamálaráðherra meðal annars: "Menntun felst ekki aðeins í að fá þjálfun í tilteknu starfi eða verklagi. Hún felst í að efla þroska sinn og skilja hvað felst í því að vera maður. Hún felst í því að temja sér gagnrýna hugsun þannig að hver og einn geti tekið sjálfstæða og gagnrýna afstöðu í flóknum málum. Lengi vel hefur þetta verið undirstaða alls háskólanáms í Bandaríkjum Norður-Ameríku að háskólanemar taka grunn í heimspeki, listum og öðrum húmanískum fögum sem á að þjóna þessum tilgangi (undirstrikun okkar [skilaði sér reyndar ekki í prentun Fréttablaðsins])." Ráðherra lýsir síðan yfir áhyggjum sínum af hnignun húmanískra greina innan háskólanna og þar sé hugsanlega að leita skýringa á skorti á gagnrýnni hugsun í íslensku samfélagi í aðdraganda hrunsins.

Í þessari grein endurspeglast sú skoðun ráðherra að gagnrýnni hugsun sé fyrst og fremst (og kannski eingöngu) þjónað af húmanískum greinum. Ef það er rétt, þá er það rökrétt ályktun að leggja þurfi mun meiri áherslu á húmanískar greinar til að efla gagnrýna hugsun og þannig bæta samfélag okkar.

Við teljum hins vegar ekki rétt að undanskilja raunvísindi og rökhugsun raunvísinda frá gagnrýnni hugsun. Rökhugsun sú sem er grunnur raunvísinda byggir á gagnrýnni hugsun. Vísindaleg aðferð og sú málefnalega umræða, oft óvægin, sem tíðkast í hinni vísindalegu aðferðafræði á sér djúpar rætur innan raunvísinda. Í rökstuðningi sínum segir ráðherra að í bandarískum háskólum sé öllum skylt að taka námskeið í húmanískum greinum til að læra gagnrýna hugsun. Það er rétt að víða er gerð krafa um að raunvísindanemar taki námskeið í húmanískum greinum en það sem vantar í röksemdarfærslu ráðherra er að þetta gildir í báðar áttir. Algengast er að allir nemendur bandarískra háskóla verði að taka námskeið í raungreinum, félagsvísindum og húmanískum fræðum. Hugsunin á bak við þetta er fyrst og fremst að nemendur öðlist breiða menntun, en að sjálfsögðu ekki sú að fólk læri gagnrýna hugsun í einhverjum afmörkuð kúrsum í húmanísku greinunum en haldi síðan áfram að læra til síns starfs eða verklags í hinum fögunum. Gagnrýnni hugsun er þvert á móti haldið á lofti á öllum stigum náms í húmanískum greinum, félagsvísindum og raungreinum.

Markvissasta leiðin til að efla gagnrýna hugsun í háskólastarfi er að stórefla vísinda- og fræðastörf við háskólana. Húmanískar greinar, raunvísindi og aðrar fræðigreinar háskólanna munu eflast og gagnrýnin hugsun fá aukið vægi ef kennarar þessara skóla eru öflugir fræðimenn sem taka þátt í alþjóðlegum vísinda- og fræðastörfum. Án gagnrýninnar hugsunar og greiningar mun vísindum ekki vinda fram. Breið þekking eflir gagnrýna hugsun og húmanísk fræði eiga ekki einkarétt á henni.

Anna Ingólfsdóttir, prófessor HR

Arnar Pálsson, dósent HÍ

Einar Steingrímsson stærðfræðingur

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor HÍ

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor HR

Ingibjörg Harðardóttir, prófessor HÍ

Karl Ægir Karlsson, dósent HR

Luca Aceto, prófessor HR

Magnús Már Halldórsson, prófessor HR

Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor HÍ

Snorri Þór Sigurðsson, prófessor HÍ

Þórarinn Guðjónsson, dósent HÍ


Háskólarannsóknir háskóla á tímum kreppu

Magnús Karl Magnússon og Eiríkur Steingrímsson birtu á síðasta mánuði fimm greinar í Fréttablaðið um hlutverk háskóla á tímum kreppu. Þær eru allar aðgengilegar á vef Fréttablaðsins - sem er reyndar ómögulegt að leita í, og á vefnum visindi.blog.is.

Fyrst ræddu þeir um Hlutverk háskóla og sögðu meðal annars:

Háskólar eru fyrst og fremst mennta- og rannsóknastofnanir. Hlutverk þeirra er að stunda rannsóknir og mennta fólk og þjálfa til sérhæfðra starfa. Menntunin er tvennskonar. Annars vegar grunn- eða starfsmenntun og hins vegar rannsóknarmenntun, doktorsnám, en það felur í sér þjálfun í að takast á við viðfangsefni sem enginn hefur glímt við áður. Doktorsnámið felst í rannsóknastörfum og fer fram undir handleiðslu kennara sem hafa reynslu af rannsóknavinnu. Kennararnir aðstoða nemana við að móta og setja fram tilgátur sem síðan eru prófaðar með rökleiðslu, tilraunum eða greiningu á gögnum. Markmið rannsóknastarfa er að leita svara við hinu óþekkta og þjálfa ungt fólk í að beita þekkingu sinni....

Nú eiga Íslendingar sjö háskólastofnanir. Engin þeirra kemst á blað yfir fimm hundruð fremstu háskólastofnanir heims, hvað þá hærra. Fjöldi háskóla á Norðurlöndunum eru á lista yfir bestu menntastofnanir heims og því ekkert sem útilokar að Ísland nái árangri hvað þetta varðar. Til að svo megi verða þarf að efla háskólana, einkum hvað rannsóknir og gæðamat varðar. Þetta kallar á endurskipulagningu og uppstokkun.

Næst ræddu þeir um Fjármögnun vísindarannsókna og lögðu áherslu á mikilvægi rannsókna fyrir nýsköpun og leiðir til úrbóta hérlendis:

Það er almennt viðurkennt að öflug rannsóknastarfsemi leiðir til verðmætrar nýsköpunar. Í úttekt sinni á tengslum grunnrannsókna og atvinnulífsins komst Committee for Economic Development, bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun, að þeirri niðurstöðu að 25% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna....

Að okkar mati er því mikilvægt að: i) efla samkeppnissjóðina og tryggja að meira rannsóknafé verði veitt í gegnum þá; ii) hefja gæðaeftirlit með öllum rannsóknastofnunum og háskólum á Íslandi til að tryggja að hið opinbera greiði einungis fyrir bestu rannsóknir hverju sinni; iii) greiða meðlag til stofnunar með hverjum styrk til að tryggja að rannsóknin geti farið fram; iv) leggja niður innheimtu VSK af rannsóknastarfsemi.

Þetta var beint skot á sjóði sem eru umsjón sjávarútvegs og landbúnaðarráðaneytis, úthlutun úr þeim sjóðum lýtur ekki sömu gæðakröfum og úthlutanir úr samkeppnissjóðum. Fréttablaðinu til hrós, fóru þeir ofan í málið (Jón vill halda stjórn á sínum sjóðum).

Heimildir Fréttablaðsins herma að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi á fundi vísinda- og tækniráðs fyrr á árinu deilt hart um tregðu þess síðarnefnda til að setja sjóði síns ráðuneytis undir regluverk svokallaðra samkeppnissjóða....

Eiríkur [Steingrímsson]tekur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem dæmi, en þar sé um milljarður króna sem er úthlutað "á pólitískum forsendum frekar en vísindalegum". Þykir honum þetta vond notkun á almannafé.

Í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins hélt Jón Bjarnason því fram að sjóðir á vegum ráðuneytisins lytu "regluverki samkeppnissjóða" þar sem "skipan í stjórnir þeirra er með sambærilegum hætti og skipan í stjórnir annarra sjóða á vegum ríkisins, til dæmis þeirra sjóða sem eru í þjónustu Rannís".

Það stenst þó varla þegar horft er til nokkurra helstu sjóða ráðuneytisins. Í stjórn sjóða Rannís og fagráða er skipað með faglegum hætti og fulltrúar úr vísindasamfélaginu meta ágæti umsókna.

AVS-rannsóknarsjóðurinn, sem heyrir undir sjávarútvegsráðherra og vinnur að því að auka verðmæti sjávarfangs, hefur um 250 milljónir á fjárlögum í ár. Stjórnarformaður sjóðsins er Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og samflokksmaður ráðherra, en í stjórn eru einnig fulltrúar frá sjávarútvegsfyrirtækjum og LÍÚ.

Ásmundur Einar Daðason er búfræðingur, og virðist vera dæmi um pólitíska ráðningu (bæði hægri og vinstri leika sama leikinn!) sem tryggir að vanhæfur maður situr í stjórnunarstöðu.

Íslenskir stjórnamálamenn virðast ekki skilja eðli vísinda (sjá t.d. Skilningsleysi íslenskra stjórnmálamanna) og alls ekki gera sér grein fyrir mikilvægi fræðilegra vinnubragða við ákvarðanatöku.

Heimildamenn mínir segja að AVS virðist úthluta styrkjum til styttri tíma, jafnvel stundum til ákveðinna aðilla án þess að verkefni sé sé nafngreint. Það er vel mögulegt að viðhalda áherslu AVS á að auka framleiðni úr sjávarfangi, en að breyta úthlutunarreglum í þá veru að umsóknir verði metnar á faglegum grunni - og jafnvel með langtíma markmið að leiðarljósi. Framleiðni verður ekki aukin með fumi og fáti, heldur vönduðum og skipulögðum vinnubrögðum.


Erindi: Tengsl mígrenis, blóðþrýstings og bólgusvars við hjarta- og æðasjúkdóma

Fyrir nokkrum mánuðum ræddum við um nýlega rannsókn Lárusar Guðmundssonar á Hjartavernd sem fann tengsl á milli einnar gerðar mígrenis og hjartaáfalla.  Í pistlinum Tengsl en ekki orsök

og skyldum pistli Litla sæta genið lagði ég áherslu á að tölfræðileg tengsl sanna ekki að um orsakasamband sé að ræða. Það er mögulegt að mígreni og hjartaáfall séu tvær birtingarmyndir sama fyrirbæris. Það er mjög spennandi að vita hvað liggur til grundvallar þessum tengslum, vonandi mun sú þekking nýtast við að meðhöndla þessa sjúkdóma.

Lárus og félagar birtu grein um þessar rannsóknir í sumar (Larus S Gudmundsson o.fl. Migraine with aura and risk of cardiovascular and all cause mortality in men and women: prospective cohort study BMJ 2010;341:c3966) en nú er komið að því að hann verji doktorsritgerð sína. Vörnin verður 12 nóvember 2010, kl 10:00 í hátíðarsal HÍ. Úr ágripi:

Helstu niðurstöður doktorsverkefnisins voru þær að fólk á miðjum aldri sem þjáist af mígreni höfuðverkjum ásamt áru (þ.e. sjóntruflunum, svima eða dofa sem eru undanfari mígrenikasts) deyr frekar vegna hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem ekki þjást af slíkum höfuðverk. Einstaklingar með mígreni án áru reyndust hins vegar ekki vera í aukinni áhættu.

Niðurstöðurnar byggja á gögnum úr hóprannsókn Hjartaverndar þar sem þátttakendum, 18725 körlum og konum, var fylgt eftir að meðaltali í 26 ár eftir að þeir höfðu svarað spurningum um ýmsa þætti tengda hjarta- og æðasjúkdómum. Í hóprannsókninni voru einnig gerðar ýmsar klínískar mælingar svo sem blóðþrýstings- og blóðfitumælingar. Með úrvinnsluaðferðum í faraldsfræði var hægt að meta dánarlíkur tengdar mígreni með og án áru á eftirfylgnitímanum og leiðrétta jafnframt fyrir áhrifum annarra áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma. Þrátt fyrir ofangreindar niðurstöður kom einnig í ljós að mígreni með áru er mun vægari áhættuþáttur en þekktir áhættuþættir eins og reykingar, sykursýki og háþrýstingur.

Aðrar helsu niðurstöður voru þær að ekki fannst samband milli mígrenis og háþrýstings. Blóðgildi CRP (sem er vísbending um bólgusvar líkamans) voru ekki hærri meðal einstaklinga með mígreni samanborið við þá sem voru án mígrenis.

Sú langsniðsrannsókn sem hér var framkvæmd bendir til þess að konur með mígreni með áru á miðjum aldri séu í aukinni hættu á heiladrepi á efri árum. Tengsl voru enn til staðar eftir að leiðrétt var fyrir áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, sem bendir til þess að heiladrepstengslin við mígreni með áru séu óháð þessum hefðbundnum áhættuþáttum.

Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og í Hjartavernd í samstarfi við Uniformed Services University of the Health Sciences og National Institute on Aging í Bandaríkjunum. Verkefnið var styrkt af Rannís og vísindasjóði Háskóla Íslands.


Arfleifð Darwins: Ljósmyndir í pressunni

Hafdís Hanna Ægisdóttir, einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins og  fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún heldur nú ljósmyndasýningu: á slóðum Darwins í Te og Kaffi Eymundsson Austurstræti. Hún tók ógrynni ljósmynda, úrval má sjá í Te og Kaffi og fleiri að auki á myndasíðu hennar - http://www.flickr.com/photos/hafdishanna. Fréttablaðið birti um helgina stutta umfjöllun um ljósmyndasýninguna, og á Ferðapressunni var rætt við Hafdísi. Greinin heitir Galapagoseyjar - draumur allra náttúruunnenda.

Þar segir:

Að komast til Galapagoseyja er fjarlægur draumur hjá mörgum enda ferðalag þangað dýrt. Æ fleiri láta þó drauminn rætast og fljúga þá frá Ekvador til eyjunnar Baltra í Galapagoseyjaklasanum og fara þaðan í um vikubátsferð um eyjarnar. Þá er gist um borð í bátnum, siglt á milli eyjanna á næturnar og lífríkið skoðað á daginn...

Hafdís Hanna segir að það sé mjög þægilegt að vera ferðamaður á Galapagoseyjum. Gistingu og mat er hægt að fá á sanngjörnu verði í bænum Puerto Ayora á eyjunni Santa Cruz en hún mælir reyndar með því að fólk kaupi sér  pakkaferð með einhverjum að þeim fjölmörgu leiðsögubátum sem sigla um svæðið. Það sé langbesta og oft eina leiðin til þess að sjá lífríki eyjanna. Slíkar ferðir eru þó dýrar. Eins mælir hún með heimsókn í Charles Darwin rannsóknarstöðina og fyrir þá sem hafa áhuga á því að kafa við eyjarnar þá er viðurkennd köfunarmiðstöð með PADI réttindi í Puerto Ayora.

5105735819_8f438d150cMynd tekin af Hafdísi á Galapagoseyjum, öll réttindi áskilin - copyright.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins


Eitt yfir alla?

Við erum þeirri náttúru gædd að geta fundið til með dýrum, og dáðst að fegurð og mikilfengleik lífsins og veraldarinnar. Hæfileiki okkar til að setja okkur í spor annara lífvera er sérstakur. Við eigum samt auðveldar með að setja okkur í spor sumra dýra en annara. 

Margir hafa lýst þeirri andakt sem kom yfir þá við að fylgjast með simpönsum eða górillum í dýragarði. Mun færri dæmi eru um fólk sem settur sig í spor þráðorms sem kemur sér makindalega fyrir í meltingavegi hýsils. 

Við metum dýr og lífverur mismikils. Lög sem vernda réttindi tilraunadýra eru sterkari fyrir dýr sem eru náskyld okkur. Þróunarlega fjarskyldari dýr njóta minni verndar. Simpansar og rhesuapar njóta mikillar verndar, mýs umtalsverðrar verndar en reglurnar um meðhöndlun froska og fiska eru ekki eins strangar. Það má gera næstum hvað sem er við hryggleysingja, plöntur og gerla. Röksemdin er sú að lífverurnar finni mismikinn sársauka, en mér finnst samt ákveðin hráskinnaleikur í því falinn að meðhöndla spendýr mismunandi - bara útfrá skyldleika við manninn. Sumir eru jafnari en aðrir.

Mig grunar að (s)amþykkt (ef við notum mbl.is mál) Interpol sé aðallega miðað að verndun stórra dýra, t.d. fíla og nashyrninga (sem eru veiddir vegna beina og horna - sem er smyglað milli landa). Ég sé ekki fyrir mér Interpol eltast við glæpamenn sem stela sjaldgæfum burkna eða söðulhýði næstsíðustu stutthalaflóarinnar.


mbl.is Interpol lýsir yfir stríði gegn umhverfisglæpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni

Í stórbrotnum sagnabálki um Barbapabba segir m.a. frá því þegar fólkið á jörðinni hafði þrengt að villtum dýrum, með veiðum, húsbyggingum og eiturspúandi verksmiðjum að Barbapabbi og fjölskylda flúðu hnöttinn með öll dýrin á jörðinni í leit að betri heimi. Þau settust að á litlum hnetti, þangað til jarðarbúar sáu að sér, lögðu af verksmiðjurnar, brutu upp malbikið og endurheimtu búsvæði dýranna.

Sagan var auðvitað til þess fallin að vekja athygli barna og foreldra þeirra á því hvernig nútíma lifnaðarhættir ganga á auðlindir jarðar og eyða lífríkinu. Í alvörunni getum við ekki treyst á að Barbapabbi bjargi lífinu á jörðinni, við verðum að gera það sjálf.

Við höfum, beint eða óbeint, valdið útdauða fjölda dýra og plöntutegunda. Richard Owen áttaði sig á því að loðfílar höfðu einu sinnig búið á jörðinni og síðan dáið út - og kom þannig fram með hugmyndina um útdauða (extinction). Vitað er að í Norður Ameríku voru margar tegundir stórra dýra sem hurfu eftir að maðurinn kom yfir Beringeiðið, og íslendingar vita flestir hvað varð um Geirfuglinn*. Mörg dýr eru í útrýmingarhættu eða standa höllum fæti (sjá t.d. Red list). Líffræðileg fjölbreytni minnkar þegar dýr og plöntur deyja út, en einnig þegar stofnar minnka eða búsvæði breytast.

Spurningin er, hvað getum við gert í málinu?

Hópur breskra vísindamanna stofnuðu frostörkina (Frozenark), sem síðasta vígi fyrir þau dýr sem eru í sem mestri útrýmingarhættu. Hugmyndin er að frysta frumur úr dýrum sem eru í alvarlegri útrýmingarhættu, með þá von í brjósti að hægt verði að klóna þau í framtíðinni. Það er möguleiki að flytja kjarna inn í virkjað egg, eins og var gert þegar kindin Dolly var búin til eða að búa til stofnfrumur úr lífsýnum úr næstum því útdauðum dýrum, sem síðan væru hvataðar til að mynda fósturvísa.

Næsta þrep væri að setja fósturvísa í staðgöngumæður, og vona að allt fari vel. Staðgöngumóðirin er flöskuhálsinn. Því er lýst á vef frostarkarinnar og frétt BBC að möguleiki væri að setja fóstuvísi úr hvíta norðurnashyrningnum í hvíta suðurnashyrningskú. Skyldleiki þessara tveggja tegunda er líklega nægilegur, til að leyfa slíka leikfimi (að því gefnu að aðrir þættir séu ekki til vandræða). En það er augljóst að í mörgum tilfellum munum við ekki hafa neinar staðgöngumæður til taks. Ef við eyðum öllum tígrisdýrum, ljónum, blettatígrum og öðrum stórum köttum, þá verður enginn staðgöngu"læða" eftir. 

Þessi hugmynd frystiarkarfólksins er frekar haldlítið síðasta hálmstrá. Vandamálið er eyðing búsvæða, veiðar og mengun. Ef okkur tekst að klóna dýr í útrýmingarhættu, og bara að halda þeim lifandi í dýragörðum þá er spurning hvort okkur hafi tekist að bjarga einhverju? Viljum við búa í veröld þar sem náttúran verður geymt í gleri á safni, á afgirtu svæði í Elliðaárdalnum eða í stóru gróðurhúsi inni í Smáralind?

Kveikjan að þessari hugleiðingu var viðtal sem Guðmundur Pálsson tók við mig síðasta fimmtudag, fyrir morgunútvarp rásar tvö. Mér tókst ekki að svara öllum hans spurningum nægilega nákvæmlega, og því endurtek ég þær hér að neðan með örlítið nákvæmari (lesist réttari) svörum en ég gaf þennan morgun.

Guðmundur lýsti fyrst Frostörkinni og hugmyndinni umhvort hægt sé að bjarga dýrum frá útrýmingu með klónun. Fyrst var spurt hvort við getum og megum klónað dýr?

Það er hægt að klóna nokkur spendýr, með aðferðum sem áður var lýst. Fyrst var músin klónuð, en klónun komst í hámæli árið1997 þegar kindin Dolly var klónuð, með flutningi á kjarna úr líkamsfrumu í virkjað egg. Síðar voru búnar til kindurnar Molly og Polly, sem voru bæði klónaðar og erfðabreyttar.

GP spurði - er klónun leið til að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni?

Ég taldi svo ekki vera, þetta væri í besta falli hálmstrá. Síðan sagið ég að það fæddust nóg af hvítum nashyrningum, sem er hreinlega rangt. Þeir eru mjög fáir eftir, aðal vandamálið er afrán og skortur á búsvæði. Siðan getur auðvitað verið að þeir séu ekki mjög frjósamir, eða þurfi mikið næði til að koma sáðfrumum á réttann stað og o.s.frv.

GP spurði - er þróunin þannig að tegundirnar séu að deyja út?

Svarið er ekki vitað, mörg stór dýr hafa dáið út og það er vel mögulegt að þegar útdauðahrinur gangi yfir jörðina að þá lifi lítil dýr frekar af en stór.

GP: Hvaða dýr er búið að klóna? Er almennt verið að klóna dýr?

Klónun er almenn í lífvísindum. Klónaðar erfðabreyttar mýs eru mjög algengt verkfæri í líffræðilegum rannsóknum. Klónaðar ávaxtaflugur eru óþarfa lúxus, því erfðafræðingar geta gert allar þær kúnstir sem þeir þurfa (erfðabreyta, stökkbreyta og búa til vefjablendinga) með hefðbundum aðferðum. Lýst hefur verið klónun rúmlega 20 dýra, m.a. ávaxtaflugna, kameldýra, kúa, katta og rotta, mest í þeim tilgangi að sýna hvað væri mögulegt. Ég veit ekki dæmi um að klónuð dýr séu til manneldis.

GP: Eru dýrin öðruvísi? Eldast klónuð dýr hraðar en önnur dýr?

Ég svaraði þessari spurningu illa. Það eru líffræðilegar vísbendingar um að klónuð dýr ættu að eldast hraðar en önnur dýr. Frumur úr líkamsvef eru eldri, þ.e. hafa skipt sér oftar en meðalkynfruman. Það leiðir til fleiri stökkbreytinga, sem geta skaddað geni og að auki getur þetta leitt til þess að litningaendarnir styttist (sem getur líka skemmt gen eða slökkt á þeim). Rannsóknir á þessu hafa verið misvísandi. Mýs sem voru klónaðar í sex kynslóðir sýndu engin merki  um öldrun, en Dolly sýndi merki um gikt. Það þarf stærri og ítarlegri rannsóknir til að skera úr um hvort klónun auki líkurnar á einhverjum sjúkdómum eða kvillum.

GP: Er menn að velta fyrir sér að klóna menn, góða íþróttamenn?

Nei, það er öflug siðferðileg rök sem mæla gegn því að klóna menn.

GP: Hefur maður verið klónaður?

Ekki svo við vitum. Einn rhesus api var klónaður, en með því að kljúfa fóstur en ekk með því að flytja kjarna úr líkamsfrumu í eggvísi. Það telst ekki alvöru klónun.

Ítarefni:

BBC - Clone zone: Bringing extinct animals back from the dead

Viðtal Guðmundar Pálssonar við undirskrifaðan á Rás 2 - fimmtudaginn 4 nóvember (Má klóna dýr til að bjarga þeim úr útrýmingarhættu).

Teruhiko Wakayama o.fl. Ageing: Cloning of mice to six generations Nature 407, 318-319 (21 September 2000) | doi:10.1038/35030301

*Ekki Freysa sem fór á Rás 2, Halldór sem stofnaði Sólann eða Kela sem fór í húsdýrin.


Arfleifð Darwins:Flokkun lífvera

Sumir flokka frímerki, aðrir fótboltaspil, enn aðrir kærustur og Hemúllinn plöntur. Börn raða hlutum upp, bílum í röð eftir stærð, kúlum eftir lit og dúkkum eftir innri verðleika. Þörfin fyrir að flokka og skipa hlutunum í kerfi virðist vera okkur ásköpuð - og í sumum tilfellum öðrum þörfum sterkari. Náttúrufræðingar byrjuðu snemma að flokka steina og lífverur. Stigi náttúrunnar (scala naturae - lífsstiginn) var ein fyrsta hugmyndin, þar sem efni og lífverum er raðað í einfalda röð (frá eter, vatni...upp í manninn). Áður en Darwin kom til sögunnar var flokkun lífvera í algerri óreiðu. Hann setti fram hugmyndina um þróunartré og útskýrði hvers vegna sumir eiginleikar geta breyst hratt í einum hópi lífvera en verið eins í öðrum hópi. Guðmundur Guðmundsson  skrifar um flokkun í bókinn Arfleifð Darwins (kaflinn heitir Áhrif darwins á flokkunarfræði 19. aldar og nútímans) og hefur mál sitt á þessum orðum:

Flokkunarfræðin er ein af elstu sérgreinum líffræðinnar og sennilega er hún jafngömul mannlegri rökhugsun og siðmenningu. Eflaust hefur hörð lífsbaráttan kennt áum mannkyns að flokka dýr og plöntur eftir einhvers konar reglu við leit að nýjum nytjategundum eða til að forðast þær eitruðu eða varasömu. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar hefur ávallt síðan verið að leita að kerfi til að kortleggja og skýra fjölbreytni bæði steingerðra og núlifandi tegunda. Þegar aldirnar liðu urðu flokkunarkerfin samofin allskyns hugmyndum um eðli, uppruna, skipulag, sköpun, tilgang eða hvaðeina annað sem menn töldu hluta af gangverki lífheimsins.
Á öndverðri 19. öld var það almennt viðtekin skoðun að flokkunarkerfin ættu að endurspegla náttúruleg tegundavensl, í þeim skilningi að þau væru raunsönn fremur en að flokka tegundir eftir hentugleikum hverju sinni. Þó var nokkuð á reiki hvað nákvæmlega átt var við með náttúrulegum venslum. Eina þekkta leiðin til að uppgötva náttúrulega tegundahópa var að kortleggja á ýmsa vegu það sem var líkt og ólíkt með tegundum. En hlutlægar aðferðir til að sannreyna hvaða einkenni það væru sem afhjúpuðu hin raunverulegu tegundavensl hvíldu á veikum grunni. Flokkunarfræðingar litu gjarnan svo á að viðfangsefni þeirra væri að lýsa tegundum. Fyrst beindist athyglin að ytri einkennum og innri líffærum, en þegar tækninni fleygði fram bættust við sífellt nákvæmari upplýsingar um mismunandi vefi og frumugerðir. Á 19. öld lá þegar fyrir mikið safn upplýsinga um allskyns sértæk og sameiginleg tegundaeinkenni. En upplýsingar einar og sér hrökkva skammt til að flokka lífverur, vegna þess að hvorki flokkunarkerfið né úrvinnsla upplýsinga eru sjálfgefin. Tiltæk gögn um tegundir hafa aukist gríðarlega síðan á dögum Charles Darwin, einkum með nákvæmri þekkingu á byggingu stórsameinda og erfðaefnis. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar er þó enn óbreytt – að þróa aðferðir til að leiða líkur að náttúrulegum venslum tegunda og skipa í kerfi samkvæmt því.

Guðmundur þýddi uppruna tegundanna sem einnig kom út hjá HIB.


Sól í Hvalfirði og umhverfisvaktin

Þegar ég var við nám í líffræði, rétt fyrir síðustu aldamót, voru uppi áform um að byggja álver á Grundartanga. Sveitungar mínir og frændur stofnuðu þá samtökin Sól í Hvalfirði, sem var vettvangur íbúa og áhugamanna um náttúruvernd til að ræða þessi áform og meta. Á vef náttúruvaktarinnar er samatekt um um nokkur félög sem láta sér annt um umhverfið og náttúruna.

Eins og kunnugt er tóks samtökunum ekki að stöðva byggingu álversins og ekki heldur stækkun. Það er erfitt að meta umhverfisáhrif framkvæmda, og einnig áhrif af einstökum verksmiðjum eftir að þær hafa verið byggðar. Vitanlega er ekki þannig að lífverur í umhverfi álversins hafi strádrepist, en mér er sagt að umhverfisvöktun sem framkvæmdaraðillar lofuðu hafi ekki verið neitt sérstaklega ítarleg. Af þessu tilefni hafa áhugamenn um náttúruvernd í nágrenni álversins og járnblendiverksmiðjunar ákveðið að stofna félag, nokkurs konar staðgengil Sólar í Hvalfirði (úr tilkynningu).

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

Hópur áhugafólks um náttúruvernd í Hvalfjarðarsveit og Kjós hefur ákveðið að stofna félag til verndar umhverfi og lífríki Hvalfjarðar og nágrennis.

Stofnfundur Umhverfisvaktarinnar verður haldinn á Hótel Glym fimmtudaginn 4. nóvember kl 20:30 og eru allir sem áhuga hafa á umhverfisvernd hvattir til að mæta.

Umhverfisvaktin mun beita sér fyrir því að vernda lífríkið jafnt á landi, lofti og í sjó og að tryggja að hagsmunum íbúa og komandi kynslóða sé gætt í ákvarðanatöku um allt sem varðar umhverfi mannsins.

Félagið er þverpólitískt og hyggst m.a. afla sérfræðilegrar þekkingar um lífríki svæðisins og deila henni með íbúum.

Allt áhugafólk um umhverfi Hvalfjarðar er hvatt til að að mæta og leggja lóð á vogarskál betri framtíðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband