Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Það á að draga línu

Ég er fylgjandi því að mannréttindaráð Reykjavíkur dragi skýra línu, og banni trúboð í skólum. Yfirlýst markmið flestra trúarbragða er að boða viðkomandi trú. Trúarbrögð sem gefa fólki val, eða hreinlega mæla gegn því að fólk gangi í félagið getur aldrei orðið ríkjandi trúarbrögð.

Deilan snýst um hvar trúboð megi fara fram. Kirkjan hefur ráðið almenningstengslafyrirtæki til að sjá um sín kynningarmál, aðallega moldviðrið í kringum meðhöndlun (klúður) kirkjunar á málum sem tengjast kynferðislegri áreitni og líklega einnig núverandi deilu um aðgang presta að skólabörnum. Ef tillögur mannréttindaráðs verða samþykktar, sem ég vona svo sannarlega, er purning hvort að næsta útspil þeirra sé að ráða frægt fólk eða íþróttahetjur til að fara í skólanna og minnast á guð og jesúm í framhjáhlaupi. Mörg stórfyrirtæki nota slíkt "namedropping" eða "product placement" til að selja sínar vörur. Hví ekki "vor" ríkiskirkja? 

Set einnig inn grein Guðmundar I. Markússonar úr Fréttablaði dagsins, reyndar að honum óspurðum, þar sem hann svarar skrifum Arnar Bárðar.

Viljum við markaðssetningu á trú til skólabarna?

Sæll aftur Örn Bárður. Í svargrein þinni til mín gerir þú lítið úr trúboði í skólum með því að segja að trúboð sé stundað víða. Þú spyrð hvort prestar séu meiri trúboðar en aðrir. Ég spyr: er Þjóðkirkjan evangelísk - boðberi fagnaðarerindisins? Þú talar um opið samfélag án þess að spyrja hinnar erfiðu spurningar: Hvar á að draga mörkin? Einhvers staðar hljóta þau að liggja. Tillögur mannréttindaráðs eru tilraun til þess að draga þessi mörk með hag skólabarna í huga.

Trúboð er markaðssetning lífsskoðana. Á heimasíðu Gídeonfélagsins má lesa að markmið þess sé "að koma orði Guðs í hendur fólks á sem flestum aldursskeiðum þess" (gideon.is). Stundum ganga fulltrúar þeirra lengra en að dreifa Nýja Testamentinu meðal skólabarna og höfða til trúartilfinninga þeirra og leiða þau í bæn (sjá t.d. orvitinn.com/2010/10/23/12.30). Í sumum leikskólum koma prestar í heimsókn mánaðarlega. Fyrir fáeinum árum fréttist af því að í grunnskóla einum væri ávallt farið með morgunbæn. Í mörgum skólum er dreift upplýsingum um barnastarf kirkjunnar. Ekki má gleyma tillögu sem liggur fyrir kirkjuþingi þar sem talað er um aukin tengsl kirkjunnar, bæði við leikskóla og grunnskóla (kirkjuthing.is/mal/2010/14). Þetta er ekkert annað en trúboð. Það skýrir hin sterku viðbrögð kirkjunnar - hún er að missa spón úr aski sínum.

En tryggjum við jafnræðið með því að hleypa fleiri trúboðum inn? Á eftir Gídeon gæti Imaminn dreift Kóraninum, og hvað með Mormónsbók? Þú spyrð hvort við viljum ekki opið samfélag? Vissulega. En hvar eiga mörkin þá að liggja? Viljum við að Vottar Jehóva og Aðventistar dreifi ritum til 10. bekkinga þar sem þróunarkenningin er dregin í efa? Og hvað með trúfélög sem gætu fengið opinbera viðurkenningu seinna meir? Vísindakirkjan, prýdd öllum sínum Hollywood-stjörnum, er viðurkennt trúfélag hjá frændum okkar Svíum. Myndum við opna fyrir þeim? Ég held ekki. Það þarf að draga skýra línu. Eina raunhæfa leiðin til þess er að tryggja að skólinn sé vettvangur fræðslu, ekki markaðssetningar.

Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum? Hér verður að hafa í huga að skólinn er opinber, lögbundinn, og fyrir alla. Auðvitað verður að vera svigrúm fyrir foreldra að fá frí við sérstakar ástæður. En við hljótum að vera sammála um að utanaðkomandi starfssemi trufli skólastarfið sem minnst. Þú virðist gefa þér að þjóðkirkjufólk vilji trúboð í skólum. En það fylgir ekki sjálfkrafa. Undanfarna daga hef ég heyrt í foreldrum sem vilja vera í Þjóðkirkjunni en eru samt andvígir trúboði í skólum. Þú virðist einnig telja að trúlausir kjósi að skilja börn sín út úr hópnum. Fólk fer ólíkar leiðir. Margir foreldrar kjósa að kyngja eigin sannfæringu og hlífa börnum sínum við því að vera skilin frá félögum sínum verða þar með stimpluð "öðruvísi".

En eru tillögur mannréttindaráðs atlaga að mannréttindum meirihlutans? Hvernig má það vera þegar öllum verður áfram tryggð lögbundin fræðslu um kristindóminn samkvæmt Aðalnámskrá? Tillögurnar snúa aðeins að sjálfri iðkun trúarinnar á skólatíma. Ef taka ætti fyrir fræðslu um kristna trú væri það að mínu viti ekki aðeins brot á mannréttindum meirihlutans heldur einnig minnihlutans. Sumir hafa snúið út úr trúfrelsinu þannig að það sé frelsi til trúar, ekki frá trú. En auðvitað felst líka í því rétturinn til trúleysis. Þetta á við í hinu opinbera rými þar sem skólinn er reistur, öllum til handa. Og þetta snýst ekki um miðstýringu. Að halda því fram að mannréttindi og trúfrelsi eigi að byggjast á því hverjir ráða í hverfum borgarinnar hverju sinni stenst ekki. Mannréttindi eru almenn og yfir slíkan hverfulleika hafin.

Og hvað svo um "þöggun"? Enginn hefur talað fyrir þöggun um kristna trú. Fyrir utan að vera óverjandi væri slíkt líka ómögulegt í ljósi Aðalnámsskrár - sem tryggir einnig að kristin trú fái meira pláss en önnur trúarbrögð. Allt tal um þöggun er því rangt og jafnframt vantraust á skólakerfið. Hitt er annað mál að fleira verður að koma til en kristin fræði eigi að tryggja menningarlæsi. Þræðir íslenskrar menningar eru fleiri en svo, og í besta falli umdeilanlegt að grunnstefið sé krosssaumur og vefstóllinn úr krossviði. Í nýlegum netpistli segir "að til að geta notið menningararfs þjóðarinnar og okkar heimshluta er mikilvægt að kennslu í samfélagsfræðum, bókmenntum, myndlist, tónlist sem og trúarbragðafræðum og öðrum tengdum námsgreinum sé sinnt með fjölbreyttum og metnaðarfullum hætti" (Fésbókin: Björn Kristjánsson: Þetta var bara misskilningur!). Bætt menningarlæsi hlýtur að byggjast á þekkingu, ekki trúboði.

Tölum um það sem skiptir máli. Hættum að gera öðrum upp skoðanir eins og "þöggun". Viljum við að hinn lögbundni, opinberi skóli sé vettvangur fyrir markaðssetningu trúarbragða? Viljum við að hann sé fyrir alla eða bara meirihlutann? Hér er ekki nóg að hver svari fyrir sig, eftir hverfulleika eigin þankagangs í sínu horni. Mannréttindi eru almenn og yfir slíkt hafin. Þess vegna þarf skýrar línur.


mbl.is Sjálfstæðismenn vilja samráð um trúmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki með sama tjáningarfrelsi og einstaklingar

Í upphafi ársins ákvað hæstiréttur bandaríkjanna að ekki mætti skerða rétt fyrirtækja til að styrkja frambjóðendur í kosningum. Úr frétt NYTimes frá 21 janúar 2010 (Adam Liptak ).

The 5-to-4 decision was a vindication, the majority said, of the First Amendment’s most basic free speech principle — that the government has no business regulating political speech. The dissenters said that allowing corporate money to flood the political marketplace would corrupt democracy.

Þetta er líklega ástæðan fyrir mikilli eyðslu í yfirstandandi kosningum. Og sú staðreynd að örfáir ríkir einkaaðillar hafa ausið fé í Teboðshreyfinguna. Ég vona að íslenskir stjórnmálamenn freistist ekki til að tileinka sér stíl Teboðsins, sleggjudóma, gífuryrði og lýðskrum...ó fyrirgefið, þetta tíðkast víst allt saman hérlendis.


mbl.is Gríðardýr kosningabarátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaðan ER mikilvæg - líffræðilegur fjölbreytileiki skiptir máli

Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni (biodiversity). Vefsíða verkefnisins er The International Year of Biodiversity. Markmið hins alþjóðlega árs líffræðilegar fjölbreytni er að benda á:

  • Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni fyrir líf okkar, og hvernig fjölbreytnin er að minnka.
  • Hvað fólk er að gera til að verjast tapi á líffræðilegri fjölbreytni.
  • Hvernig fólk er að fagna hinu alþjóðlega ári líffræðilegrar fjölbreytni.

Samt þori ég að veðja að fæstir landsmenn viti hvað líffræðileg fjölbreytni er og hví hún skiptir máli. Ekki bara á heimsvísu, heldur einnig hérlendis.

Líffræðileg fjölbreytni er ekki bara mæld í fjölda tegunda. Fjölbreytnin getur birst á allavega fjórum sviðum:

Fjölda tegunda

Mismunur á milli tegunda - hversu ólíkar eru tegundirnar

Breytileiki innan tegunda og stofna - stofnar eru mismunandi, t.d. er breytileiki inna górilla margfallt meiri en finna má milli manna.

Breytileiki í vistkerfum og búsvæðum lífvera

Hérlendis eru fáar tegundir og flestar finnast þær erlendis. Sérstaða Íslands liggur í lítt röskuðum vistkerfum, einstakri samsetningu tegunda og fjölbreytileika innan vissra hópa, eins í bleikjustofnum og laxi. Það hefur bæði fagurfræðilegt gildi og hagnýtt. Erfðaauðlindir eru eitt af mikilvægustu auðlindum framtíðarinnar, sem eru í umtalsverðri hættu. Þetta á ekki síst við um náttúrulega nytjastofna, þar með þorsk, ýsu, rækju og síld. Það eru auðlindir sem íslendingar ættu að kunna að meta.

Að auki: Orðalag fyrirsagnar fréttar MBL.is af fundinum um líffræðilega fjölbreytni gefur til kynna að ráðherra (e.t.v. í sinni sérvisku) álykti sem svo að niðurstaða fundarins hafi verið merkileg (Umhverfisráðherra segir niðurstöðuna mikilvæga). 

Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands standa fyrir ráðstefnu um rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika (sjá tilkynningu). Áhugasamir eru beðnir um að senda erindi á lifbr.fundur2010@gmail.com.


mbl.is Umhverfisráðherra segir niðurstöðuna mikilvæga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðaprótínið er ættað úr bakteríum

Prótínið sem James Whisstock og félagar hafa verið að rannsaka heitir perforin. Prótínið myndar göng í himnu óæskilegra fruma, t.d. sýkla og leiðir til dauða hennar (sjá mynd af vef ScienceDaily.com).

101031154015-large

 

Perforín er hluti af ónæmiskerfinu og  í þegar perforín genið er fjarlægt úr músum myndast hvítblæði hraðar og greiðar en í eðlilegum músum. Prótínið er því bæði hluti af vörnum líkamans gegn sýklum og hluti af lögreglu líkamans, sem heldur aftur af krabbameinsfrumum.

Það kom einnig í ljós að perforín er svipað prótínum sem finnst í nokkrum tegundum baktería (Listeria og Streptókokkar m.a.). Bakteríurnar nota þessi prótín til að ráðast á aðrar frumur. Það er sem forfeður okkar hafi rænt þessu geni frá bakteríum, og noti það núna til að verjast þeim og öðrum ógnum.

Í umfjöllun um niðurstöður James Whisstock og félaga er gert töluvert úr þeim möguleika að hægt verði að stjórna starfsemi perforíns og nota það sem lyf eða vörn. Mig grunar að það sé hæpinn möguleiki, enda þarf ansi margt að ganga upp til að svo geti orðið. Á hinn bóginn finnst mér jákvætt að það er tilgreint að hópurinn hefur verið að rannsaka perforín og byggingu þeirra í 10 ár. Þetta undirstrikar þá staðreynd að vísindindalegar framfarir gerast hægt, mörg lítil skref þarf til að komast milli húsa i Undralandi.

Ítarefni:

ScienceDaily Human Immune System Assassin's Tricks Visualized for the First Time


mbl.is „Dauða“ prótín gegn sjúkdómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband