Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Nýjar reglur Rannís um birtingar í opnum aðgangi

Af vef um opið aðgengi:

-------

Eins og komið hefur fram hér áður hefur Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) síðustu mánuði unnið að stefnu sinni um opið aðgengi. Samkvæmt frétt á vef Rannís er þeirri vinnu nú lokið og munu nýjar reglur með OA ákvæði taka gildi eftir áramót. Af http://www.rannis.is/sjodir/opinn-adgangur/ (OA klausuna í reglum til styrkþega má finna á sömu síðu):

Niðurstöður rannsóknaverkefna, sem styrkt eru, að hluta til eða að öllu leyti úr sjóðum í umsýslu Rannís, skulu birtar í opnum aðgangi. Tilgangurinn er að sem flestir geti notið afurða vísindastarfa sem styrkt eru af opinberu fé á Íslandi. Krafa um opinn aðgang nær til ritrýndra greina en ekki til bóka, bókakafla eða lokaritgerða nemenda. Verkefni sem hlotið hafa styrk úr sjóðum Rannís fyrir janúar 2013 falla ekki undir kröfu um birtingu niðurstaðna í opnum aðgangi. Rannís hvetur þó eindregið til þess að sem flestir vísindamenn birti niðurstöður rannsóknaverkefna í opnum aðgangi. 

Þetta eru auðvitað gleðitíðindi og fyrirtaks jólagjöf til OA-hreyfingarinnar á Íslandi.

-------------

Meira Nýjar reglur Rannís um OA taka gildi eftir áramót.

Viðbót, 3. janúar 2013, teiknimynd frá Phdcomics um opinn aðgang.

Þetta er vitanlega til mikilla bóta. Sjá aðrar færslur um opið aðgengi og skyld mál.

Vika helguð opnu aðgengi

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn


Jólafréttir BMJ

Í tilefni af tíðindum af rauðu nefi hreindýra, sem nú fjallað um á mbl.is, er rétt að kynna fólk fyrir jólahefti BMJ. Vísindatímaritið BMJ, sem áður hét British medical journal, hefur um áratuga skeið birt léttari eða glaðlegri vísindagreinar í jólaheftinu.

Sumar þeirra eru raunverulegar og reglulega vandaðar rannsóknir, en aðrar eru meira til gamans gerðar.

Meðal þess sem fjallað hefur verið um er tannálfurinn, einstaklingsgreining (case study) á ET og úttekt á næringarinnhaldi hraðrétta og rétta Jamie Olivers.

Fyrir nokkrum árum tóku þeir sig til og slógu út nokkrar læknisfræðilegar mýtur, (British medical journal festive myths 2008) t.a.m.

Sykur gerir börn ofvirk

Sjálfmorðum fjölgar yfir hátíðirnar

Át á síðkvöldum eða næturnar gerir mann feitann

Það er hægt að lækna timburmenn

Og hina klassísku mýtu um að hitatapið sé mest frá höfðinu (Hitatap og hárvöxtur í víðara samhengi)

Þessar jólafréttir BMJ eru gagnlegar að því leyti að þær m.a. hnekkja algildum "sannindum", t.d. um að það sé nauðsynlegt að drekka 8 glös af vatni á dag.

Nú er svo komið að mikið framboð er á greinum í jólaheftið, og ritstjórar hafa úr miklu efni að moða. Það er jákvætt að vísindamenn séu tilbúnir að sýna á sér léttari hliðina (og leita kastljósins í leiðinni....).

En það er einn galli á gjöf njarðar. Með þessu móti er fólki ekki gert auðveldara með að skilja hvað séu góð vísindi og slæm. Einfaldur og skýr samanburður á æðakerfi og blóðflæði í hreindýrum og mönnum á alveg rétt á sér. En þegar hann er klæddur upp í jólagalla og Rúdolf kallinum notaður til að krydda kökuna, hverfa mörkin á milli vísinda og sirkusins sem fjölmiðlar bjóða upp á.

Eins og frétt mbl.is um rauða nef Rúdolfs er skrifuð, þá virðist blaðamaður/skríbert ekki hafa minnstu hugmynd um að þessi frétt á uppruna sinn í jólahefti BMJ - sem er all sérstakt meðal vísindarita.

Ítarefni:

BMJ christmas special.

BMJ's Christmas issue, where scientists show off a sense of humor: Red nosed reindeer, the tooth fairy, and diagnostic dogs all feature. Ars technica Kate Shaw 18. des 2012.

Hitatap og hárvöxtur í víðara samhengi


mbl.is Skýring fundin á rauðu nefi Rúdolfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmdur kynvillingur vann stríðið, og leysti gátuna um tilurð fingra löngu eftir dauða sinn

Alan Turing er goðsögn meðal tölvunarfræðinga. Hann er álitin einn af upphafsmönnum tölvurnarfræðinnar, og vann sér inn góðan orðstír fyrir að leysa dulmál þýska hersins í seinni heimstyrjöldinni. Sumir ganga svo langt að fullyrða að hann hafi unnið stríðið með vasklegri framgöngu sinni á andlega sviðinu.

Alan Turing var einnig samkynhneigður og árið 1952 var hann dæmdur fyrir kynvillu. Hann var látinn gangast undir efna-geldingu, og lést 2 árum síðar. Dánarorsökin var eitrun, úrskurðurinn sjálfsmorð, líklega vegna andlegs álags.

Stephen Hawking og nokkrir aðrir fræðimenn hafa nú krafist þess að David Cameron forsetisráðherra Bretlands náði Turing. Þar segir m.a.

one of the most brilliant mathematicians of the modern era...

Yet successive governments seem incapable of forgiving his conviction for the then crime of being a homosexual, ...

We urge the prime minister to exercise his authority and formally forgive the iconic British hero.

Vitanlega á að náða karlinn. Það væri forvitnilegt að vita hvort einhver, og þá hversu margir, íslendingar hafi verið dæmdir fyrir þennan "glæp". 
 
En Alan Turing birtist einnig í fyrirsögn í vísindatímaritinu  Science í vikunni. Maria A. Ros og félagar hafa rannsakað þroskun fingra í músum. Mýs eru með svipaða uppröðun á fingrum og við, og genin sem stýra þroskun þeirra eru sameiginleg mönnum, músum og öðrum spendýrum.
 
Maria og samstarfsmenn unnu með hin forvitnilegu Hox gen, sem eru fjölskylda gena sem mynda stjórnprótín sem kveikja og slökkva á öðrum genum. Í erfðamengi mannsins eru nokkrir tugir hox-gena, en ávaxtaflugur eru með 8 stykki. Eldri rannsóknir höfðu sýnt að Hox genin voru nauðsynleg fyrir myndun fingra (auk þess sem þau eru nauðsynleg fyrir einkenni hryggjaliða og annara vefja).
 
Hvernig tengist Alan Turing tilurð fingra? Jú, sama ár og hann var dæmdur fyrir kynvillu gaf hann út greinina The Chemical Basis of Morphogenesis. Þar ræðir hann einfalt efnafræðilegt líkan tveggja þátta sem virka hvor á annan. Einn þáttur örvar framleiðslu á sjálfum sér, og á hinum þættinum. Hinn þátturinn bælir þann fyrri. Þessi einföldu skilyrði duga til að búa til reglulegt mynstur, eins og fingur eða bletti á hlébarða. Magn af hvorum þætti og styrkur samskipta þeirra á millum ákarðar hversu gróft mynstrið er (t.d. hversu stórir blettirnir á hlébarðanum eru - og hversu langt er á milli bletta).

Maria Ros og félagar sáu nefnilega að þegar þau drógu úr virkni hox gena í útlimavísi (með sameindaerfðafræðilegum aðferðum), þá urðu til fleiri fingur. Því fleiri Hox genum sem slökkt var á - því fleiri fingur mynduðust. Og það sem var sérkennilegast var að músa-"höndin" var alltaf jafn stór. Það var því ljóst að hox genin hjálpa til við að stilla Turing-stjórnkerfi í myndun fingra.
 
Reyndar er enn ekki vitað hvernig hox genin gera þetta, en vitað er að þau hafa áhrif á hundruð annara gena. En það er staðreynd að líkan Turings hefur verið mikill innblástur líffræðingum. Þessi nýjasta rannsókn er bætist við rúmlega 6000 vísindagreinar sem hafa vísað í grein hans.
 
Líkan Turings um hvernig magn og samskipti sameinda geta stýrt þroskun veldur því að líffræðingar taka undir með tölvunarfræðingum og hampa Alan Turing. Því er full ástæða til að taka undir með Hawking og félögum, sem krefjast þess að Turing verði náðaður. En, í krafti sanngirni og mannúðar ættum við einnig að krefjast þess að allir dæmdir kynvillingar verði náðaðir.
 
Viðbót:
Eftir ábendingar frá Sævari á Stjörnfræðivefnum og samskipti við Þorvald Kristinsson, þá er hægt að staðfesta að allavega einn Íslendingur hefur verið dæmdur fyrir kynvillu árið 1924. Glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson Hofdal. Þorvaldur Kristinsson hefur kannað sögu hans og rakið í grein í tímariti Gleðigöngunar 2012 (Gaypride 2012), Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli saga Guðmundar glímukappa (greinin er aftast í heftinu). (einnig má hlýða á viðtal við Þorvald í Íslendingasögum á Rás 1).
 
Þorvaldur rekur í greininni sögu Guðmundar og hið átakanlega mál gegn honum. Í greininni er tilvitnun í dómsskjölin:
Ákærður segist aldrei hafa gert mjög mikið að þessu en alltaf nokkurn veginn jafnt. Hann segir að fýsn sín til þessa sé eigi mjög sterk og hann geti vel látið á móti henni, en segist hafa álitið að þetta væri hvorki syndsamlegt né refsivert. Hann segist hafa fullkomna samræðishneigð til kvenmanna og hafa gert talsvert að því að hafa holdlegar samfarir við þá. Ákærður hefur neitað því að hafa nokkru sinni haft holdlegar samfarir við unglinga innan 16 ára aldurs og ekkert hefur komið fram í prófum málsins sem veikti þá neitun hans.
Guðmundur var dæmdur og fylgdi þessi smánarblettur honum alla tíð, þrátt fyrir að hafa fengið náðun konungs nokkru síðar. Í raun kom bara einn maður honum til varnar, læknirinn Guðmundur Thoroddsen. Þorvaldur setur mótbárur hans í samhengi við sjúkdómsvæðingu samkynhneigðar sem í kom kjölfarið:
Aðeins einn maður kom honum til varnar eftir að dómur féll, Guðmundur Thoroddsen læknir. Hann ritaði dómsmálaráðherra bréf og kvað sér ofboðið við að frétta að slíkir dómar væru dæmdir hér á landi. Fór hann hörðum orðum um yfirvald á villigötum í skjóli úreltra hegningarlaga og lagði til að nafni hans yrði náðaður. Það er athyglisvert að hér tekur læknir til máls, fulltrúi þeirrar stéttar sem um þetta leyti var að breyta samkynhneigð úr glæp í sjúkdóm og rækta þar nýja hjörð sjúklinga næstu áratugi. En Guðmundur Thoroddsen fer hér allt aðrar leiðir, hann tekur til máls sem róttækur talsmaður mannréttinda og forðast í bréfi sínu að sjúkdómsvæða hneigðir hins dæmda.
Sögur Guðmundar Hofdal og Alan Turing eiga erindi við okkur í dag.
 
Ítarefni:
A. M. Turing The Chemical Basis of Morphogenesis  Phil. Trans. R. Soc. Lond. B 14 August 1952 vol. 237 no. 641 37-72
 
Ítarefni:

The Telegraph The tragic story of Alan Turing 21. nóv 2011.

Hox Genes Regulate Digit Patterning by Controlling the Wavelength of a Turing-Type Mechanism Rushikesh Sheth,Luciano Marcon,M. Félix Bastida,Marisa Junco,Laura Quintana,Randall Dahn,Marie Kmita,James Sharpe, and Maria A. Ros Science 14 December 2012: 1476-1480.

Þorvaldur Kristinsson Glæpurinn gegn náttúrulegu eðli saga Guðmundar glímukappa Tímarit Gleðigöngunar 2012 (Gaypride 2012).

Viðtal við Þorvald í þættinum Íslendingasögur á Rás 1 (9. des. 2012). 


Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

Í forneskju var ýmislegt reynt til að bjarga fólki frá sóttum eða lækna þeirra mein.

Til dæmis reyndu forfeður okkar margskonar meðferð til að slá á sýkingar, og ályktuðu að sumar þeirra virkuðu. Vandamálið var að sumar meðferðirnar virkuðu í raun, en aðrar ekki. Þær virtust bara virka vegna þess að það sem fer upp, mun koma aftur niður. Þetta er best útskýrt með dæmi.

Barn fékk hitasótt. Töfralæknirinn slátraði hænu, dansaði gólandi í kringum tjaldið og ákallaði heiðna anda, Guð eða tótem ættbálksins. Barninu rénaði* sóttin, og töfralæknirinn eignaði sér heiðurinn (og fékk að halda hænunni).

Hitinn fór upp og hitinn fór niður. Þetta þekkja tölfræðingar sem "Aðhvarf að meðaltali" eða "regression towards the mean". Töfralæknirinn og fornmennirnir okkar oftúlkuðu atburðina og héldu að sirkus töfralæknisins hefði læknað barnið. Þetta stef er alltaf að endurtaka sig, nú stíga töfralæknarnir (græðararnir) aðra dansa sem auðveldara er að trúa (setja heita steina, stinga nálum í orkupunkta, greina lithimnur o.s.frv.).

Leiðin til að greina á milli töfralækninga (óhefðbundinna lækninga) og raunverulegra lækninga er aðferð vísinda. Hún byggist á vandlegum tilraunum, þar sem bornar eru saman besta viðurkennda aðferð, og ný óreynd aðferð sem ástæða er til að halda að gæti gagnast.

Þannig fundu læknar og aðrir vísindamenn út að sýklalyf berja niður sýkingar, hvernig best er að framkvæma skurðaðgerðir og hvernig (sólar)ljós brýtur niður þvagefni þegar börn fá gulu.

Nú liggur fyrir alþingi tillaga til þingsályktunar um að kanna hvort 

Fyrir alþingi liggur þingsályktunartillaga um heildrænar meðferðir og græðara (141. löggjafarþing 2012–2013. Þingskjal 566  —  452. mál.):

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts.

Visindamenn hafa gagnrýnt þetta harkalega, m.a. með þeirri röksemd að flest af því sem fellur undir heildræna meðferð sé í raun töfralækningar eða afsannaðar tilgátur. Í seinni flokknum eru smáskammta"lækningar" - homopatía. Fjölmargir hafa tekið þessi gervifræði fyrir, sjá t.d. Högun tilrauna og smáskammta"lækningar" og grein í The Guardian (Ben Goldacre A kind of magic? 16. nov 2012) og ágætt yfirlit á Vantrú (2006).

Gunnlaugur Sigurðsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, kemur homopatíunni til varnar í grein í Fréttablaðinu 10. desember. Þar segir hann:

Læknirinn kallar hómópatíu „gervivísindi" án þess sýnilega að þekkja eða skeyta hið minnsta um þá skýru kenningu sem hómópatía byggir á, þá vísindalegu aðferðafræði sem notuð er við þróun lyfjakosts hennar eða þá nákvæmu greiningu á einkennum viðkomandi sem ráða vali á því lyfi (kallað „remedía") sem beitt er í hverju tilviki. 

En Gunnlaugur vísar ekki til neinna rannsókna, eða niðurstaðna sem styðja þá staðhæfingu að homopatía sé alvöru vísindi.

Magnús K. Magnússon læknir svarar Gunnlaugi á vísir.is (Af vísindalegri umfjöllun um verkan lyfja) 14. des. 2012.

En á hvaða fræðilega grunni byggir hómópatía? Það er raunar erfitt að setja þann grunn í rökrænt samhengi. Samkvæmt Organon, fagfélagi hómópata nota þeir „svokallaðar remedíur, örefni sem í stórum skömmtum myndu kalla fram hjá heilbrigðu fólki svipuð einkenni og þeim er ætlað að bæta. Þær eru unnar úr jurta-, dýra- og steinaríkinu og eru notaðar það mikið þynntar að ekki er talað um þær sem eiginlegt efni, heldur hvata."

Það þarf að gera meiri kröfu til orða en að þau hljómi vel, sérstaklega ef þeim er ætlað að skapa fræðilegan grunn. Gagnrýnin hugsun krefst gagnrýninna spurninga. Hvað eru remedíur? Þær eiga uppruna í náttúrunni líkt og fjölmörg lyf. Síðan eru þær þynntar út þangað til engin eða nær engin sameind er eftir í lausninni. Lausnin á síðan samkvæmt óútskýrðum hætti eða „minni vatnsins" að miðla áhrifum. Þessi orð hljóma því eins og töfrar. Fræði hómópata eru í vísindalegri mótsögn við þekkingu okkar í efnafræði, eðlisfræði og líffræði. Ef fræðigrunnur hómópata væri sannur og raunvísindin byggð á sandi, væri um algera umbyltingu að ræða. Kennihöfundar slíkra fræða ættu þá skilið Nóbelsverðlaun, og það fleiri en ein. Sú er enn ekki raunin. Það kemur því ekki á óvart að rannsóknir á hugsanlegri gagnsemi slíkra remedía til meðferðar hafa engum árangri skilað umfram það sem búast mætti við fyrir tilviljun. Þessu eru gerð góð skil í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir breska þingið (sjá: http://www.publications.parliament.uk/pa/cm200910/cmselect/cmsctech/45/45.pdf).

Samkvæmt öllum viðurkenndum skilgreiningum eru svokölluð fræði hómópata því ekki vísindi. Þau byggja ekki á tilraunum sem eiga stoð í raunheimum og það má því með sterkum rökum kalla þau gervivísindi, hjátrú eða ýmislegt annað. Þeir sem selja sjúklingum slíka vöru gera það á eigin ábyrgð, en í mínum huga kallast „remedía" ekkert annað en kötturinn í sekknum.

Textinn af yfirfarinn og leiðréttur (í hádeginu 17. des. 2012). Leiðréttingar voru smávægilegar en of margar til að tíunda.

*Í annari útgáfu stóð elnaði í stað rénaði. Það var skelfileg mistök af minni hálfu, ég hafði alveg misskilið orðið. Bestu þakkir Bjarni Gunnlaugur fyrir ábendinguna.


Máttur tómarúmsins togar þig inn

Ég stóð á hengiflugi. Upp þverhnípt bjargið blés ofsalegur vindur. Ef ég hallaði mér fram gat ég ekki dottið niður, þvílíkur var krafturinn.

Einstaka sinnum upplifum við augnablik þar sem öfl náttúrunnar gnæfa yfir okkur, og við finnum til smæðar, aðdáunar, gleði eða hræðslu. Mitt augnablik, lýst hér að ofan, var haustið 2010 þegar við vinnufélagarnar gengum upp á Esjuna vestan við Móskarðshnjúkana.

droppedimage_1_1184078.jpgSvipaða upplifun er hægt að fá af vel skrifaðri eðlisfræði. Þannig leið mér þegar ég las Sögu tímans eftir Stephan Hawking fyrst. Máttur tómarúmsins, higgseindin fundin (Higgs Discovery) eftir Lisu Randall fellur einnig í þennan flokk. Bókin lýsir meiriháttar uppgötvun í eðlisfræði, sem tilkynnt var 4. júlí 2012. Lisa Randall snaraði saman stuttri bók sem lýsir því hvernig Higgs eindin (eða eitthvað sem hegðar sér eins og higgs eind) var fundin.

Bókin er snaggarlega skrifuð og snýst að mestu um spurningar sem Lísa fékk frá fréttamönnum og almenningi í kjölfar þess að tilkynnt var um fund eindarinnar. Það, ágætur stíll höfundar, snyrtileg þýðing Baldurs Arnarsonar og inngangur Sveins Ólafssonar, tryggja að lykilatriðin komast til skila.

Maður fær að upplifa spennuna á tilraunastofunni, þegar ögurstundin nálgast. Tilraunin sem tók 10 ár í undirbúningi er að hefjast. Einnig því hvers eðlis gögnin eru sem ofurhraðallinn í CERN býr til, með því að dúndra saman eindum á gríðarlegum hraða.

Það er frekar sjaldgæft að gefnar séu út bækur um raunvísindi og náttúrufræði hérlendis. Í ár eru það bækurnar Tilviljun og nauðsyn eftir Jaques Monod (í þýðingu Guðmundar Eggertssonar, gefin út af HIB - sjá Tilviljun er nauðsyn) og  Upphafið, bók frá DK um upphaf og sögu lífsins á jörðinni sem JPV gefur út.

Því ber sérstaklega að fagna Mætti tómsins. Þeir sem vilja panta eintak geta fylgt slóð á vefsíðu Tifstjörnunar. Mynd er af sömu vefsíðu.


Að yngjast með aldrinum

Ríkisútvarpið birti nýlega frétt af dýri sem yngist í stað þess að eldast.

Þar segir meðal annars.

Turritopsis dohrnii er ljósum prýtt og gegnsætt sjávardýr, ekki ólíkt klukkulagaðri marglyttu, og heyrir til svokallaðra hydromedusa-sjávardýra, það er hveldýra. Vísindamenn sem rannsakað hafa dýrið hafa komist að því að í stað þess að það verði gamalt og deyi verður dýrið yngra og yngra. Það breytir sér loks í lirfu og endurfæðist. Það er rétt eins og ef kjúklingur breytti sér í egg,  klektist út á ný og endurfæddist.

Japanski sjávarlíffræðingurinn Shin Kubota hefur rannsakað þessi dýr. Hann segir að þau geti hjálpað mönnum við að finna lykilinn að eilífu lífi. Aðrir segja það geti verið gagnlegt við að berjast við sjúkdóma, og við að gera mönnum ellina bærilegri. Vísindamennirnir hafa séð að á yngingarferlinu getur dýrið breytt hlutverki sérhæfðra fruma, t.d. gert húðfrumu að taugafrumu.

Morgunútvarpið ræddi við Snæbjörn Pálsson um þessar skepnur í upphafi vikunnar (Morgunútvarpið: Dýr sem yngist með aldrinum).

Einnig var ítarleg umfjöllum um þetta á vef The New York Times (Can a Jellyfish Unlock the Secret of Immortality?). Um er að ræða mjög ítarlega úttekt, samtal við japanska vísindamanninn sem leiddi rannsóknina (mjög forvitnilegur náungi) og þar var lögð áhersla á mikilvægi þróunarlegs skyldleika, við að skilja djúpstæð líffræðileg fyrirbæri og sjúkdóma. Bútur úr greininni:

Until recently, the notion that human beings might have anything of value to learn from a jellyfish would have been considered absurd. Your typical cnidarian does not, after all, appear to have much in common with a human being. It has no brains, for instance, nor a heart. It has a single orifice through which its food and waste pass — it eats, in other words, out of its own anus. But the Human Genome Project, completed in 2003, suggested otherwise. Though it had been estimated that our genome contained more than 100,000 protein-coding genes, it turned out that the number was closer to 21,000. This meant we had about the same number of genes as chickens, roundworms and fruit flies. In a separate study, published in 2005, cnidarians were found to have a much more complex genome than previously imagined. 


Græðarar í míní-pilsi á B5

Fyrir hinu háa alþingi liggur tillaga um þingsályktun sem hljómar svo:

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts. 

Margir telja þetta misráðið, t.d. Svanur Sigurbjörnsson (Bréf vegna þingsályktunartillögu um græðara) sem Kastljós ræddi einnig við fyrr í vikunni (Varar við vísindafantasíum á þingi). Okkar pistill var á svipuðum nótum og gagnrýni Svans (Tillaga til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara). 

Í morgun birtist grein eftir Sif Sigmardóttur undir titlinum Berir leggir og upphafning fávísinnar (sjá einnig Berir leggir og upphafning fávísinnar). Greinin er hreinasta afbragð, og þið verðið að lesa hana ekki bara þessa stuttu tilvitnun:

Hver hefur ekki heyrt yfirlýsingu sem þessa?: "Frænka nágranna bróður míns fór í lithimnugreiningu, fékk ávísaða blómadropa og verkurinn í stórutánni hvarf."

Sögusagnir af þessu tagi eru gjarnan notaðar til að renna stoðum undir gagnsemi óhefðbundinna lækninga. Fullyrðingin kann að segja eitthvað um stórutá frænku nágranna bróðurins. Hún segir hins vegar ekkert um lithimnugreiningu og blómadropa. Handahófskenndar reynslusögur einstaklinga eru ekki rannsóknir heldur gervivísindi. Þeir sem fullyrða annað þekkja annaðhvort ekki hina vísindalegu aðferðafræði sem mannkynið hefur þróað með sér til að greina staðreyndir frá staðleysu eða hunsa hana viljandi.

Þótt fjöldi fólks vilji gjarnan að smáskammtalækningar eða höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun lækni það af kvillum þýðir það ekki að þær geri það. Þótt ég litaði gráu hárin ljós, gengi um berleggjuð í míní-pilsi með Rihönnu í eyrunum og héngi á B5 liðlangan daginn gerði það mig ekki tuttugu og tveggja. Óskhyggja er ekki sannleikur.


Tilviljun er nauðsyn

Lífverur eru margslungin fyrirbæri. Hver þeirra er með marga eiginleika, t.d. hæð, kynþokka eða mismikla vörn gegn Bacillus bakteríum. Hver þessara eiginleika á sér a.m.k. þrjár megin rætur.

Fyrst ber að nefna erfðir, sem skipta töluverðu máli fyrir marga eiginleika.

Næst er það umhverfi sem einnig ræður miklu fyrir breytileika margra eiginleika.

Síðast er það tilviljunin, sem hefur áhrif á alla eiginleika, en mismikið þó.

Við gleymum oft tilviljuninni, og ofmetum þar með framlag erfða og umhverfis*. En teningakast og handahóf ræður ótrúlega miklu um framvindu mála, örlög einstaklinga og jafnvel þróun tegunda.

09043.jpgSameindaerfðafræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Jacques Monod gerði einmitt að einu meginþema bókar sinnar Tilviljun og nauðsyn (on chance and necessity), sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur í lærdómsritaröðinn nú fyrir jólin. Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus við HÍ þýddi og ritað inngang.

Richard Lewontin hefur lagt mikla áherslu á þessa þrjá þætti erfðir, umhverfi og tilviljun, og fjallar bók hans the Triple helix (þríþáttungurinn) um þessa "heilögu" þrennd. Tilviljunin hefur nefnilega ekki bara áhrif á breytileika í útliti, háttum og hæfni einstaklinga. Tilviljunin er rót þróunarlegra atburða, í gegnum stökkbreytingar á erfðaefninu. Stökkbreytingar eru að mestu** tilviljanakenndar, og flestar þeirra skemma gen. Stór hluti stökkbreytinga hafa engin áhrif en lítið hlutfall bætir jafnvel virkni genanna eða eykur hæfni einstaklingsins. Þessar síðast töldu stökkbreytingar eru hráefni fyrir þróunarlegar framfarir, því nýjir eiginleikar eða betrumbætur á eldri útbúnaði verða til í þessari myllu tilviljanna. Því má segja að tilviljun sé nauðsyn fyrir þróun lífsins.

Ég las aldrei bók Monod á erlendu máli, en er núna kominn á síðu 50 í þýðingu Guðmundar. Það kemur ekki á óvart að lesningin er mjög skýr og þýðingin afbragð. Mér skilst á innganginum að Monod muni þræða heimspekilegar vangaveltur inn í umræðuna um eiginleika erfðaefnis, eftirmyndunar og mikilvægi tilviljanna. Þegar lestri er lokið mun ég birta ítarlegri ritdóm hér, og e.t.v. á öðrum vettvangi.

Að síðustu vill ég endurbirta á lýsingu á bókinni Tilviljun og nauðsyn af vef HIB (mynd af kápu bókarinn er einnig þaðan komin):

Lífið á jörðinni einkennist í senn af fjölbreytni og einsleitni. Innan hverrar tegundar lífvera eru einstaklingarnir svo líkir að furðu sætir, en tegundirnar sjálfar eru nær óendanlega margvíslegar. Hvernig kemur þetta heim og saman við hugmyndir nútímavísinda um orsakakeðjur, afritun hins lífræna efnis og stökkbreytingar? Í Tilviljun og nauðsyn glímir franski líffræðingurinn Jacques Monod við álitamál af þessum toga af fágætri vandvirkni og skirrist ekki við að glíma við hinstu rök í leiðinni, hvort heldur verufræðileg,siðferðileg eða pólitísk. Þannig eykur bókin ekki einungis skilning á undirstöðum líffræðinnar heldur vekur lesandann til umhugsunar um tengsl vísinda við sjálfa grunnþætti veruleikans.

Ítarefni:

Ritdómur um Chance and necessity eftir Danny Yee (1994).

Um Jacques Monod á vef Nóbelsnefndarinnar (1965).

Samantekt Complete-review á ritdómum um Triple helix eftir R. Lewontin.

* Flóknari líkön um eiginleika lífvera gera einnig ráð fyrir samspili erfða og umhverfis, einstakra gena og einstakra umhverfisþátt og jafnvel samspili tilviljunar, erfða og umhverfis. Það þýðir vitanlega að við getum bara greint sterka drætti, en ekki skilið veikari áhrif og samspil, hvað þá sagt fyrir um eiginleika eða örlög einstaklinga.

** Þekkt frávik eru munur á tíðni jafnra og ójafnra basaskipta T-C á  móti T-A t.d. og aukin tíðni stökkbreytinga á umrituðum svæðum.


Erindi: Málverk af plöntum og þroskun lungna

Ég vil benda fólki á tvö erindi um líffræðileg efni í vikulokin.
 
Fimmtudaginn 6. des. mun Þórarinn Guðjónsson fjalla um hlutverk miRNA í þroskun lungna.
Kl. 12:10 í stofu 343  í Læknagarði. Erindið heitir "MicroRNA in breast epithelial morphogenesis" og verður flutt á ensku, sbr. ágrip:

We have recently shown that D492, a breast epithelial cell line with stem cell properties undergoes epithelial to mesenchymal transition (EMT) in 3D coculture with endothelial cells. This is evidenced by formation of spindle-like phenotype, suppression of keratin expression and cadherin switch from E- to N-cadherin. MicroRNA (miRs) are highly conserved, small RNA molecules that regulate key biological processes. miRs can act as tumor suppressors or oncogenes and their expression is often deregulated in cancers. Downregulation of the miR200 family has been linked to EMT and recent studies show that members of this family are regulators of epithelial integrity in many tissues. The miR200 family is found in two clusters at chromosome 1 (miR200ba-429) and 12 (miR200c-141). In this seminar I will discuss our data that show that overexpression of miR-200c-141 in D492 and D492M inhibits and reverses EMT, respectively, which support the view that miR200c-141 may be a potent tumor suppressor and important regulator of epithelial integrity in the human breast.

Föstudaginn 7. desember 2012 mun Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði við Líf og umhverfisvísindastofnun HÍ mun fjalla um blómamyndir Eggerts Péturssonar.

Erindið heitir Plöntur og grös í verkum Eggerts Péturssonar, og byggir á erindi sem Þóra flutti á málþingi um verk Eggerts (Blómstrandi list - Málþing um Eggert Pétursson) sem haldið var af Verkfræði og náttúruvísindasviði HÍ í nóvembermánuði 2012. Þóra mun leggja út frá sýn grasafræðingsins, og fjalla um byggingu blómahluta, plantna og einnig um samsetningu gróðursamfélaga.

Erindið verður flutt á íslensku. Dagskrá erinda líffræðistofu haustið 2012 má sjá á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar. Erindið hefst kl. 12:30 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.


Tillaga til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara

Fyrir alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara.

141. löggjafarþing 2012–2013. Þingskjal 566  —  452. mál.

Þar segir meðal annars:

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts. Í starfshópnum verði einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna: Bandalagi íslenskra græðara, embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti og verði sá síðasttaldi jafnframt formaður starfshópsins. Hópurinn skili niðurstöðu til velferðarráðherra fyrir árslok 2013.

Úr greinargerð:

  Með aukinni notkun almennings á heildrænum meðferðum er hægt að spara stórar fjárhæðir sem annars mundu fara í lyfjakostnað hjá ríkinu. Í nágrannalöndum Íslands er í auknum mæli ávísað hreyfiseðlum við ýmsum lífsstílsvandamálum sem ágerast mjög með tímanum ef ekki er gripið tímanlega inn í og kunna að lenda þungt á heilbrigðiskerfinu á komandi árum. Hér geta heildrænar meðferðir komið almenningi öllum til góða. Bæði vísa læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fólki að leita til græðara vegna ýmissa vandamála og fólk leitar einnig í auknum mæli til þeirra að eigin frumkvæði til að leita annarra leiða en hið almenna heilbrigðiskerfi býður upp á. Því miður er þó staðan sú í dag að Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði fólks við heildrænar meðferðir né eru þær undanþegnar greiðslu virðisaukaskatts eins og á við um almenna heilbrigðisþjónustu, sem og t.d. þjónustu hnykkjara. Þetta gerir það að verkum að heildrænar meðferðir eru dýrar og því má ætla að fleiri gætu nýtt sér þjónustuna ef hún yrði niðurgreidd.

Það væri skelfilegt ef þessi þingályktunartillaga væri samþykkt.

Svanur Sigurbjörnsson tók saman frábær rök gegn þessari tillögu og sendi nefndasviði Alþinigis (skoðið einnig tengla á síðu hans).

Mín fyrstu drög að andsvari fylgja hér að neðan.

1) Heilbrigðisþjónusta á að byggja á vísindalegum grunni. Það á ekki að beita meðferðum sem sannað er að hafi engin áhrif, eða hreinlega neikvæð áhrif á batahorfur eða líðan sjúklings.

2) Erlendis hafa farið fram ítrekaðar prófanir á mörgum heildrænum meðferðum, og þær fá mjög slæma útreið. Bandaríska stofnunin um óhefðbundnar lækningar (National Center for Complementary and Alternative Medicine*) hefur styrkt margar rannsóknir á þessu sviði, en niðurstöðurnar hafa alltaf verið neikvæðar. Einu rannsóknirnar sem sýna einhver jákvæð merki eru á efnum úr plöntum, sem í sumum tilfellum hafa jákvæð áhrif á ákveðna sjúkdóma. En það er ekki beinlínis óhefðbundin læknisfræði, það er að sumu leyti rót lyflæknisfræðinnar.

3) Það er varasamt og stundum hreinlega hættulegt að beina sjúklingum til kuklara. Í skásta falli líður sjúkdómurinn hjá. Í versta falli líður lengri tími þangað til sjúklingur fær rétta greiningu af alvöru lækni, sem getur jafnvel dregið til dauða.

4) Skattgreiðendur krefjast þess að peningum þeirra sé varið á skynsaman hátt. Skattgreiðandur myndu ekki styðja það ef ríkið myndi eyða milljarði króna í að kaupa lottómiða.

5) Ríkið á ekki að stroka út línuna á milli raunveruleika og skáldskapar. Með því að votta aðilla sem stunda kukl myndu yfirvöld þyrla upp ryki sem gerir fólki erfitt fyrir að taka upplýstar ákvarðanir. Í veröld nútímans er offramboð á ólýsingum (röngum "upplýsingum": misinformation) og stjórnvöld verða að draga skýra línu í því máli. Því miður telja sumir stjórnmálamenn að það sé þeim í hag að blása upp óvissu um ákveðin mál málstað sínum til framdráttar. Þeir verða að skilja að hér verður ekki bæði sleppt og haldið.

Ég skora á alla að mótmæla þessari tillögu í bréfi til nefndarsviðs alþingis (nefndasvid@althingi.is).

* Það má ræða tilurð þeirra stofnunar og hvort að réttlætanlegt sé að eyða $100 á ári í að prófa brjálaðar tilgátur. T.d. enginn myndi veita styrk til að leita að sniglum á tunglinu.Sjá t.d. umfjöllun skepdic.com.

Ítarefni eða skyldir pistlar:

Trú á yfirnáttúru og kraftaverkalyf er meinsemd

Högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

Að tigna forheimskuna

 

Leiðréttingar.

Atriði 3,4 og 5 voru umorðuð (leiðrétt) 4. des, ónafngreindum yfirlesara er þakkaðar ábendingar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband