Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Grundvallar misskilningur sköpunarsinna

PZ Myers (www.pharyngula.com) var rétt að ljúka við stórgóðan fyrirlestur um sögu amerískra sköpunarsinna og skyldra hreyfinga. Hann var ljómandi góður fyrirlesari, skýr og byggði erindið ágætlega upp.

Fjallað var stuttlega um grundvallarmun á milli afstöðu vísinda og trúarbragða. Visindi bera tilgátur við staðreyndir og byggja þannig upp þekkingu. Trúarbrögð byggjast á öðrum forsendum, eins og t.d. þeim að helgir textar hafi bókstaflega merkingu. [leiðrétting, orðið bókstaflega vantaði í fyrstu útgáfu pistils, takk Mofi fyrir ábendinguna]

Það sorglega við sögu sköpunarhreyfingarinnar er hversu ung hún er og hversu, að því er virðist skynsamir trúaðir menn voru fyrir 100 og 200 árum. 

Altént, ég þarf að skrifa umsókn í Rannís og má í raun ekki vera að þessu. En samt fæ ég tækifæri á morgun til að heyra meira um sköpunarsinnana, því Myers mun halda erindi um grundvallar misskilning þeirra (The foundational follies of creationism). Í stofu 131 í Öskju, kl. 12:30. Ágrip erindis:

We often focus on the wacky things creationists claim, and how they're so terribly wrong about biology and geology and physics. This is the phenomenology of creationism, and amusing as it is, it doesn't address the core misconceptions, which are both subtler and more profound than, for instance, getting the age of the earth wrong. We cannot properly address the problem of creationism until we recognize that at its heart it represents a complete misunderstanding about how science works, and that it relies on basic human psychological desires. I'll try to summarize these deeper misunderstandings, and will suggest that maybe the answer will not come from hammering more biology into their heads, but from a greater appreciation of history and philosophy.

Siðmennt flutti Myers til landsins, en þessi fyrirlestur er einnig styrktur af Líffræðifélagi Íslands og Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. www.sidmennt.is

Aðgangur er ókeypis en vinsamlegast er óskað eftir framlögum í ferðasjóð Siðmenntar, sem borgar flug PZ. Myers til landsins og mest allan annan kostnað. 

Fyrirlestur um vísindi og trúleysi

Eru vísindi og trúleysi samofin?

Er hægt að vera góður vísindamaður og samt trúa á einhvern guð, ára eða stein?

Gerir trúleysi menn að góðum vísindamönnum?

Gera vísindi menn að góðum trúleysingjum?

Ég veit ekki hvort að þessum spurningum verði svarað af PZ. Myers í kvöld (29. maí 2012) . En hann mun allavega fjalla um vísindi og trúleysi á vegum Siðmenntar. Fyrirlesturinn er kl 19:30, í stofu 102 í Háskólatorgi (aðgangseyrir er 1000 kr.).

Myers er frægur fyrirlesari og heldur úti þekktu bloggi (Pharyngula : P.Z. Myers á Íslandi! )

Kristinn Theodórsson fjallar um Myers í pistli á vef DV (Átakasinni sem telur ekkert heilagt):

Mest lesna vísindablogg veraldar er blogg bandaríska líffræðingsins Paul Zachary Myers, Pharyngula.com. Milljónir manna fylgjast með skrifum hans sem fjalla um árekstra bókstafstrúar og vísinda sem og þróunarkenninguna auk fleiri málefna sem tengd eru veraldarhyggju og trúleysi.

Myers þykir beittur í gagnrýni sinni á trúarbrögð en hann hefur einnig gagnrýnt þá er reyna að samrýna vísindalega þekkingu og trúarbrögð. Hefur hann fyrir vikið verið kallaður átakasinni (e. confrontationalist) í þeim efnum.
Árið 2006 setti vísindaritið virta Nature bloggið, Pharyngula.com, efst á lista yfir blogg sem rituð eru af vísindamönnum, auk þess sem síðan hefur unnið til verðlauna sem sérfræðingablogg . Virðist hún höfða jafnt til fræðimanna og leikmanna, sem kann að skýra vinsældir þess að einhverju leyti.


Er hægt að selja mannkyni hvaða hugmynd sem er?

Vísa ykkur á ágætan pistil á innihald.is eftir Steindór:

Er hægt að selja mannkyni hvaða hugmynd sem er? Dæmisaga úr geðlæknisfræði og lyfjaiðnaðinum.

Steindór hélt erindi á málþingi um hugmyndir Valgarðs Egilssonar læknis (Darwin og lífsnautnin frjóa)

Þar fjallar Steindór um heimspeki, pólitík og markaðsvæðingu, og áhrif þessara atriða á geðlæknisfræði. Hann segir :

Eins og breski geðlæknirinn Joanna Moncrieff benti nýverið á hefur nútíma geðlæknisfræði alltaf verið nátengd efnahagslegum hagsmunum. Liggja rætur hennar í því mikla þjóðfélagslega umróti og markaðsvæðingu efnahagslífsins sem iðnbyltingin hratt af stað. Tvö meginviðfangsefni geðlæknisfræðinnar eru annars vegar að hafa hemil á ógnvekjandi atferli sem erfitt er að fást við innan réttarkerfisins og hins vegar að hafa eftirlit með þeim einstaklingum sem vegna andlegra og tilfinningalegra frávika eiga erfitt með að taka þátt í hinu daglega lífi. Ýmsir hugsuðir hafa einmitt bent á að hér liggi grunnurinn að valdi geðlæknisfræðinnar því með sjúkdómsvæðingu á því sem á hverjum tíma er túlkað sem afbrigðileiki styður geðlæknisfræðin við þann kapítalíska heim sem Valgarður gagnrýnir (3, bls. 235-36). 


EMBL flaggskip evrópskra líffræðirannsókna

Í næstu viku, miðvikudaginn 30. maí 2012 (kl 11-12) mun forstjóri EMBL í Heidelberg halda fyrirlestur hérlendis. EMBL er evrópska sameinda líffræði tilraunastöðin (European Molecular Biology Laboratory), sem er með nokkrar starfstöðar um álfuna. Fyrirlesturinn verður í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ.

Forstjórinn, Dr. Iain Mattaj heldur erindi sem kallast EMBL, a Flagship for the European Life Sciences. Úr tilkynningu (af vef GPMLS).

EMBL er ein öflugasta rannsóknastofnun veraldar á svið lífvísinda. Stofnunin er rekin sameiginlega af 20 löndum Evrópu og er Ísland þar á meðal. Í fyrirlestri sínum mun Dr. Iain Mattaj segja frá EMBL og þeim vísindaverkefnum sem unnið er að á stofnuninni. Hann mun einnig lýsa þeim tækifærum sem íslenskum vísindamönnum bjóðast hjá EMBL.
Fyrirlesturinn er sérstaklega áhugaverður fyrir þá nemendur sem hyggja á doktorsnám í lífvísindum en nemendum frá aðildarlöndunum býðst slíkt nám við stofnunina. Námið er samstarfsverkefni við háskóla í aðildarlöndunum og er Háskóli Íslands með slíkan samning við EMBL. Nú eru tveir íslenskir nemar í doktorsnámi við EMBL og munu þeir útskrifast sameiginlega frá EMBL og Háskóla Íslands.
Nemendurnir sem um ræðir eru Sara Sigurbjörnsdóttir og Marteinn Snæbjörnsson, sem bæði héldu utan árið 2010 (Á leið í framhaldsnám).

 

 


Sterk vísindahyggja

Í framhaldi af umræðu um erfðabreyttar lífverur skrifar Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins leiðara undir yfirskriftinni Hin "sterka vísindahyggja". Þar segir meðal annars:

 Hins vegar hljóta stjórnvöld að taka meira mark á sjónarmiðum sem studd eru vísindalegum rökum og vönduðum rannsóknum en öðrum viðhorfum. Það hlýtur raunar að eiga við í öllum málum.

Tökum þrjú dæmi til að setja málið í samhengi. Íslenzk stjórnvöld hafa þá stefnu að bólusetja eigi börn við hættulegum smitsjúkdómum. Þau hafa útbúið viðamikla áætlun um hvernig megi draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttu gegn hlýnun loftslags. Þau líma á sígarettupakka viðvaranir til reykingamanna á borð við „Reykingar drepa."

Allt er þetta byggt á ráðgjöf og niðurstöðum vísindamanna. Víðtæk samstaða er í vísindasamfélaginu um að reykingar séu lífshættulegar, að loftslag hafi hlýnað af mannavöldum og að hægt sé að bjarga mannslífum með bólusetningum. Engu að síður eru allmargir „fulltrúar almennings" sem draga öll þessi vísindi í efa og telja þau jafnvel stórhættuleg. Sumir vísa til vísindarannsókna máli sínu til stuðnings. Meirihluti sérfræðinga á viðkomandi sviði telur þær rannsóknaniðurstöður hæpnar og gerir raunar lítið úr afstöðu þeirra sem styðjast við þær. Stefna stjórnvalda í þessum málum byggist á býsna „sterkri vísindahyggju".

Við stefnumótun um erfðabreyttar lífverur þarf að horfa til allra vísindarannsókna um efnið, en um leið hlýtur að þurfa að taka mark á áliti yfirgnæfandi meirihluta vísindasamfélagsins. Eins og í hinum málunum sem hér voru nefnd.

Rökstuðningur ritstjórans er áþekkur þeim sem settur var fram hér (Efasemdastöðin sefur aldrei).

Slæður og upptökur af málþingi Umhverfisráðaneytisins má nálgast á vef þess (http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2082).

Umfjöllun ARS technicia um Rotherham ræktunartilraunina. Þar er verið að rækta og kanna eiginleika erfðabreyttra plantna, með það að markmiði að draga úr eiturefnanotkun. (Blaðlúsahræða. Biðlað til andstæðinga erfðabreyttra lífvera)


Nokkrir góðir frá PZ Myers

Í tilefni af því að vísindabloggarinn PZ Myers kemur hingað til lands ákvað ég að benda á nokkrar góðar greinar eftir hann. Myers heldur fyrirlestur á vegum Siðmenntar 29. maí á Háskólatorgi (kl. 19:30 í stofu 102). Fyrirlesturinn heitir Vísindi og trúleysi.

Myers fjallar oft um þróun þroskunar, og í nýlegum pistli (25. apríl 2012) ræðir hann nýlegar yfirlitsgreinar eftir Gehring og Monteiro um tilurð augna og nýjunga. Modular gene networks as agents of evolutionary novelty

Þar segir m.a. frá því að augu ólíkra dýra þroskast fyrir tilstuðlan velvarðveittra gena, eins og Pax6/Eyeless. En einnig að fundist hafa núlifandi tegundir sem endurnýta þessi augngen í öðrum líkamshlutum, t.d. við að skreyta vængi. Einnig hafa fundist steingervingar af flugum og frumstæðum ormum, með vefi sem svipar mjög sterklega til samsettra augna skordýra. Ein myndin er hreint undarleg, af liðskiptu dýri, sem virðist hafa verið með samsett augu á hverjum lið...fylgið tenglinum til að sjá myndina.(Modular gene networks as agents of evolutionary novelty)

Svo nokkrir pistlar í viðbót:

How do you make a cephalopod drool?

The Grand Canyon is how old?

We all know who makes the best Mad Scientists

Praise the water!


Efasemdastöðin sefur aldrei

Umhverfisráðaneytið sýndi gott frumkvæði með því að skipuleggja ráðstefnu um erfðabreyttar lífverur, sem haldin var 15. maí síðastliðinn. Fenginn var meira að segja erlendur sérfræðingur, til að fjalla um reynslu Dana og regluverk þeirra. Aðrir fyrirlesarar voru meðal annars sérfræðingar frá Umhverfisstofnun, Umhverfisráðaneytinu og Háskóla Íslands og Akureyrar.

Fjallað var um eiginleika erfðabreyttra lífvera, regluverk og rannsóknir sem hafa metið áhættuna af slíkum lífverum á heilsu og umhverfi. Því miður komst ég ekki á fundinn, vegna annara starfa, en viðmælendur mínir sögðu umfjöllunina hafa verið vandaða og skýra.

Eiríkur Steingrímsson fjallaði um mögulegar hættur af erfðabreyttum lífverum á heilsu. Hann tók  sérstaklega fyrir vísindagreinar sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa haldið á lofti. Þeir halda að vísindarannsóknir þessar sanni að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar heilsu fólks, en fara þar með staðlausa stafi. Þær rannsóknir sem um ræðir standast ekki gæðakröfur. Þær eru annað hvort illa skipulagðar (vantar t.d. viðmiðunarhóp), nota mælitækni á óviðeigandi hátt, oftúlka smávægileg eða óviðeigandi tilhneygingar í gögnunum. Því ályktar Eiríkur að erfðabreytt matvæli hafi engin áhrif á heilsu fólks (viðtal í 10 fréttum 15. maí 2012, byrjar um 7 mínútu).

Í umræðum eftir sem hófust að loknum fyrirlestrum fór hins vegar mikið fyrir andstæðingum erfðabreyttra lífvera, sem fannst þeirra rödd ekki hafa fengið að heyrast. Viðmælendur mínir segja að fum hafi komið á ráðherra umhverfismála, og hún hafi beðist afsökunar á því að rödd almennings hafi ekki fengið að heyrast (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið)*. Grein eftir Svandísi (Leitin að samræðugeninu) birtist síðan í Fréttablaðinu 17. maí 2012. Þar segir m.a.

Þegar upp var staðið reyndumst við hafa skipulagt málþing, þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnsýslu áttu sviðið - en sjónarmið almennings áttu ekki fulltrúa meðal frummælenda. Jafnframt reyndist á köflum of lítið gert úr afstöðu þeirra sem setja spurningarmerki við ýmsa þætti erfðabreyttrar ræktunar. Í kjölfarið hefur hluti umfjöllunarinnar verið gagnrýndur fyrir að umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Umhverfisráðuneytið leit alltaf á málþingið sem fyrsta skrefið í að móta ítarlega stefnu hér á landi um erfðabreytta ræktun. Við höldum ótrauð í það ferðalag, þó ekki hafi tekist nógu vel við fyrsta skrefið. Vonandi finnum við samræðugenið á leiðinni, svo okkur auðnist að gera ólíkum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði við þá stefnumótun. [feitletrun AP]

Auðvitað er eðlilegt að almenningur, fræðimenn og stjórnsýslan ræði málin. Vandamálið er bara að velja fulltrúa almennings. Eins og staðan er hérlendis heldur frekar þröngur hópur hagsmunaaðilla (Slow foods hreyfingin, samtök lífrænna ræktenda og nattúra.is) uppi áróðri gegn erfðabreyttum lífverum. Segja má að andófið sé hluti af þeirra markaðssetningu, þeir skilgreina sinn "hreinleika" með því að taka einarða afstöðu gegn erfðabreyttum lífverum, og sérstaklega nytjaplöntum (rétt eins og Greenpeace öfluðu fylgi með mótmælum gegn hvalveiðum). Þessi hópur sem skírskotað er til í greininni sem almenningur, er það ekki heldur hagsmunahópur. 

Á fundinum voru næstum eingöngu fræðimenn, fulltrúar stjórnsýslu og andstæðingar erfðabreyttrar ræktunar**. Það voru sárafáir, ef einhverjir "almennir" borgarar. Mér skilst einnig að engir fulltrúar fréttamiðla hafi setið allan fundinn. Hvernig í ósköpunum ætla fjölmiðlar að fjalla um svona mál ef þeir gefa sér ekki tíma til að hlýða á málflutninginn? Ef fréttamenn hafa brennandi spurningar um þetta mál, hefðu þeir átt að koma með þær og pumpa fyrirlesarana.

En víkjum aðeins að orðum ráðherra. Hún segir að fyrirlesarar hafi verið gagnrýndir fyrir að:

... umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu - og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Með öðrum orðum, vísindamenn eru hrokagikkir. Það er sannarlega satt að fæstir vísindamenn eru mjúkmálir sleikipinnar, sem geta pakkað hlutunum í silki og satínslæður. Það er ekki hluti af okkar starfslýsingu. Vísindamenn læra að greina vandamál, hanna tilraunir, framkvæma þær og draga ályktanir. 

Orðalag vísindalegra ályktana ræðst af því hversu góðar niðurstöðurnar eru. Ef niðurstöðurnar eru óljósar eða misvísandi, er ályktunin varfærin. Ef niðurstöður margra rannsókna benda í sömu átt, þá er leyfum við okkur sterkara orðalag ályktunin. Dæmi um tvær sterkar staðhæfingar eru:

Sígarettur valda lungnakrabbameini.

Erfðabreyttar nytjaplöntur eru ekki hættulegar heilsu.

Ef þú heldur að sígarettur valdi ekki lungnakrabbameini, þá kann þér að virðast fyrri staðhæfingin vanvirðing við þína skoðun. En hún er það ekki. Hún er, eins nálægt og vísindin komast, staðreynd. Eigum við að virða skoðanir þeirra sem segja að sígarettur séu hollar?

Varðandi seinni hluta setingarinnar, þá held ég að ráðherra hafi sett fingurinn á mikilvægan punkt. Flestir almennir borgarar skilja ekki vísindalegar aðferðir og vísindalegar ályktanir. Þar er kannski brotalömin. Ástæðan fyrir því að umræða sem þessi blómstrar, og í samfélaginu vaði uppi meinvillur á borð við þá að erfðabreyttar lífverur séu hættulegar (sjá einnig, loftslagsefahyggju, afneitun helfararinnar, World Trade Center samsæriskenninar, bóluefnissamsæriskenningar o.fl.).

Deilan um erfðabreyttar lífverur er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur fjallar frekar um hræðslu við hið óþekkta, spurningar um siðfræði ræktunar og landbúnaðar, tortryggni gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og umhyggju fyrir eigin skinni (og stundum náttúrunni).

Mér sýnist sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera lifa samkvæmt djúpt greypti sannfæringu. Þeir grafa upp ótrúlegustu hluti sem röksemdir gegn erfðabreytingum, en hundsa fleiri hundruð rannsóknir sem hafa sýnt að erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar. Michael Shermer (Skeptic society) fjallar slíkt í bókinni Believing brain. Þar segir m.a.

.. our most deeply held beliefs are immune to attack by direct educational tools, especially for those who are not ready to hear contradictory evidence.

Heilar okkar mannfólksins*** eru ekki þær fullkomnu rökvélar sem við höldum að þær séu. Heldur erum við lituð af tilfinningum og fyrri reynslu. Ef ég ældi eftir að hafa borðað lambasteik á 8 ára amælisdaginn, lá í rúminu í viku með óráði, er líklegt að ég þoli ekki lambakjöt****. Aðrar skoðanir okkar myndast á lúmskari hátt, en þegar þær hafa myndast höfum við tilhneygingu til að standa við þær. Eina verkfærið gegn okkar bjagaða heila er hin vísindalega aðferð. Hún gerir okkur kleift að meta tilgátur út frá gögnum, ekki persónulegri upplifun og skoðun. Shermer orðar þetta vel:

I’m a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.

Það að efast og krefjast gagna er ekki náttúrulegt ástand mannsheilans. Einstaklingum er ekki eðlislægt að efast. En sem hópur getum við gert meiri kröfur. Þannig urðu vísindin til, og þau hjálpa okkur að meta óvissuna, eins og Shermer segir:

Belief comes quickly and naturally, skepticism is slow and unnatural, and most people have a low tolerance for ambiguity.

Með hliðsjón af umræðu um erfðabreyttar lífverur hérlendis má álykta að vísindamenn þurfa að vera duglegri að miðla almenningi af þekkingu sinni, en einnig reynslu af hinni vísindalegu aðferð og óvissunni. Samræðugenið mitt starfar annað slagið, en efasemdastöðin sefur aldrei.

*Bætt við 20. maí: (eftir því sem ég best veit, leiðréttið mig ef rangt er með farið).

**Leiðrétt 20. maí, áður stóð: "andstæðingar lífrænnar ræktunar"

***Leiðrétt 20. maí, áður stóð mannfólk, nú "okkar mannfólksins"

****Leiðrétt 20. maí, breytti frásögn úr annari persónu í fyrstu.

Ég vil þakka KP leiðréttingar.


Vísindabloggarinn PZ Myers á Íslandi

Einn af uppáhalds bloggurunum mínum er PZ Myers, kennari við Minnesotaháskóla í Morris. Hann heldur úti síðu undir nafninu Pharyngula (www.pharyngula.com), sem er nafn á ákveðnu stigi þroskunar hryggdýra. Á því stigi sjást tálknbogar í fóstrunum, jafnvel þeim sem ekki eru með tálkn. Það undirstrikar hvernig greina má skyldleika lífvera, með því að rýna í þroskaferla þeirra. Tálknbogarnir eru sameinandi eiginleiki hryggdýra, rétt eins og seilin sem liggur undir taugapípunni á ákveðnu stigi þroskunar.

Myers skrifar jafnt um líffræðilegar rannsóknir um þróun og þroskunm, en einnig um snertifleti vísinda og samfélags. Hann er einarður gagnrýnandi sköpunarsinna og hindurvitna af öðru tagi. Pistlar hans eru á köflum óþarflega hvassyrtir, og stundum örlar á sleggjudómum í formi alhæfinga. En hann setur allavega puttann á mikilvæga togstreitu milli trúarlegra öfgamanna og vísinda. Pistlar hans kortleggja m.a. hina fjölskrúðugu og illskeyttu atlögu að vísindum og upplýstu samfélagi sem hægri öfgamenn og sumir evangelistar standa fyrir í Bandaríkjunum. Myers er þekktur fyrirlesari, og fékk meðal annars  alþjóðlegu Húmanistaviðurkenninguna 2011.

Nú hafa þau gleðilegu tíðindi borist að PZ Myers muni halda fyrirlestur hérlendis í lok mánaðar. Siðmennt stendur fyrir herlegheitunum, sem verða 29. maí 2012. Erindi Myers heitir Vísindi og trúleysi. Erindið verður klukkan 19:30 í stofu HT-102 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Aðgangseyrir 1000 krónur.

 

Nánari upplýsingar 

Darwin og lífsnautnin frjóa

Hvers vegna dansa fuglar? Hví ropa froskar? Hversvegna settu konur Viktoríutímans fjaðrir fugla í hattana sína? Hvers vegna mála menn veggi (á hellum og í húsasundum)?

9781608192168.jpgListsköpun er sjaldan viðfangsefni líffræðinga, en ljóst er að víðfemasta kenning líffræðinar getur einnig hjálpað okkur að skilja rætur listarinnar. David Rothenberg skrifaði nýlega bókina Survival of the beautiful, þar sem hann fjallar um listaverk dýra og hversu útbreitt fegurðarskynið er í dýraríkinu. Rauði þráðurinn í bók hans er hinn þróunarfræðilegi vinkill, sem fjallar um sameiginlegan uppruna lífvera og að náttúrulegt val er besta vísindalega útskýringin á fjölbreytileika og eiginleikum lífvera.

Þróunarkenning útskýrir t.d. eiginleika gena, frumunnar, vefja, þroskunar og vistfræði. Hún hjálpar einnig til við að skilja atferli, bæði sögu þess og orsakir. Það er gert með því að setja fram tilgátur um aðlögunargildi. Til dæmis ef tiltekið atferli finnst hjá dýrategund má spyrja hvernig það gagnist lífverunni? Þá er spurt um Darwinska hæfni, og hvort atferlið auki hana.

Vandamálið er vitanlega að prófa slíkar tilgátur. Hvernig má afsanna það að dans Óðinshanans auki hæfni hans. Hann hnitar hringi á tjörnum, líkt og skrautskrifari, sbr. viðurnefnið Skrifarinn. Ef þeir sem skrifa meira en aðrir eignast fleiri eða lífvænlegri unga, þá er stoð rennt undir tilgátuna. En ef ungarnir eru hvorki fleiri né hressari, hvað er þá til ráða? Þá setja aðlögunarsinnar oft fram aðra tilgátu, og svo enn aðra og enn aðra...sem hefur leitt til gagnrýni annar þróunarfræðinga.

Raunveruleikinn er sá að þótt að þróunarkenning Darwins sé besta vísindalega skýring á tilurð lífvera og fjölbreytileika þeirra, þá er mjög erfitt að sanna að einstakir atburðir í þróunarsögunni séu tilkomnir vegna náttúrulegs vals. Aðrar líffræðilegar skýringar geta nefnilega átt við. 

Ef við tökum dans Óðinshanans sem dæmi, þá er einn möguleiki að hann sé tilkomin vegna tilviljunar. Að einhverjum ástæðum hafi stökkbreyting sem ýtti undir dans af þessum toga orðið allsráðandi, og því hegði allir Óðinshanar sér eins og skrifarar. Einnig er mögulegt að dansinn sé aukaverkun annara breytinga. Ímyndum okkur að náttúrulega hafi verið valið fyrir taugaveiklun í forfeðrum Óðinshana (vegna þess að hún gerði þá hæfari í lífsbáráttunni). Dansinn er Þá kannski bara aukaverkun taugaveiklunarinnar, en hafi ekki aðlögunargildi einn og sér.

Þeir sem hafa gaman af vangaveltum á þessum nótum ættu endilega að kíkja í Reykjavíkur Akademíuna á fimmtudaginn (17. maí 2012). Þá verður málfundur undir yfirskriftinni:

Darwin og lífsnautnin frjóa: Vangaveltur um atferli tegundarinnar út frá kenningum Darwins

Úr tilkynningu:

Málþing á vegum Félags áhugamanna um heimspeki verður haldið fimmtudaginn 17. maí n.k. kl. 16:00 – 18:00 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar, JL húsinu, Hringbraut 121.

Árið 2011 flutti Valgarður Egilsson læknir erindi í Ríkisútvarpinu þar sem hann skoðaði atferli manneskjunnar með gleraugum Charles Darwin. Félag áhugamanna um heimspeki mun bjóða til málþings út frá erindunum og munu þar flytja framsögu, ásamt Valgarði, Einar Árnason, prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði, og Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.

Dagskrá:
16:00     Homo sapiens: Atferli tegundarinnar skoðað með gleraugum Darwins. Valgarður Egilsson læknir.
16:30    Óðurinn til gleðinnar, kjóinn í Kolbeinsstaðahreppi og kenning Darwins.Einar Árnason, prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði.
16:50    Er hægt að selja mannkyni hvaða hugmynd sem er? Dæmisaga ú geðlæknisfræði og lyfjaiðnaðinum. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur.   
17:10    Kaffihlé.
17:30    Pallborðsumræður.

Tengill á erindi Valgarðs Egillsonar.

http://ruv.is/sarpurinn/homo-sapiens/05042012

Fyrstu þrjár síðurnar í kafla Hrefnu Sigurjónsdóttur og Sigurðar S. Snorrasonar í Arfleifð Darwins.

Þróun atferlis

Síða um bók Rothenbergs.

http://www.survivalofthebeautiful.com/

Pistlar okkar um þróun atferlis.

Þróun atferlis

Arfleifð Darwins: Þróun atferlis

Í laufskálanum tifa maríuhænur

Ótrúleg en samt náttúruleg greind


mbl.is Elsta vegglist mannkyns er í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðstefna um erfðabreytta ræktun 15. maí

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra ða umhverfisráðaneytið stendur fyrir ráðstefnu um erfðabreytta ræktun - 15. maí. 2012 (á Grand hótel kl 13:00-17:00, aðgangur ókeypis).

Á ráðstefnunni munu tala fulltrúar ráðaneyta og háskóla, sem fara yfir erfðatækni, áhrif þeirra á heilsu og löggjöf um erfðabreyttar lífverur. Margir fyrirlesaranna héldu erindi í námskeiði um erfðatækni, umhverfi og samfélag sem haldið var í samstarfi Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri nú í aprílmánuði. Meðal efnis (úr tilkynningu ráðaneytisins):

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um erfðabreytta ræktun, og þá sérstaklega sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Þetta á ekki síst við lönd Evrópusambandsins þar sem skoðanir eru skiptar en nokkur Evrópuríki hafa bannað slíka ræktun innan eigin landamæra.  Með ráðstefnunni vill umhverfisráðuneytið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um þessi mál hér á landi og gefa almenningi kost á að fylgjast með stöðu og þróun mála.

Á ráðstefnunni verður m.a. útskýrt í hverju erfðabreytt ræktun felst, farið verður yfir þau lög og reglur sem gilda um erfðabreytta ræktun hér á landi, hlutverk Umhverfisstofnunar í þessu sambandi verður útskýrt sem og hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur. Þá verða flutt erindi um áhrif erfðabreyttrar ræktunar á heilsu, umhverfi og efnahag  og loks velt upp siðferðislegum spurningum sem kunna að vakna í tengslum við málefnið.

Dagskrá ráðstefnu um erfðabreytta ræktun, sleppingu og dreifingu (á pdf formi).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband