Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Óperur bæta líðan eftir hjartaígræðslu

Að minnsta kosti ef þú ert mús. Japanskir vísindamenn framkvæmdu hjartaígræðslur á músum, og könnuðu óperur hefðu áhrif á batahorfur músanna. Og viti menn, mýsnar sem hlýddu á óperurnar jöfnuðu sig betur en þær sem fengu engar óperur.

Ig nóbelsverðlaunin snúast um að verðlauna snjallar rannsóknir, eða amk rannsóknir sem hafa spaugilegan vinkil.

Það er auðvelt að afneita Ig nóbelnum sem kjánaskap, og jafnvel gagnrýna að þau séu í raun vísindasirkus. En aðstandendur gæta þess að velja ekki bara fyndnar rannsóknir, heldur einnig rannsóknir með forvitnilega ef ekki hagnýta vinkla.

Í samfélagi nútímans er reyndar kappnóg af skemmtan, og sumir segja að minni áhugi fólks á þjóðfélagsmálum, menningu og vísindum sé að hluta til vegna þess að afþreyingar gleypi allan tíma. Susan Jacoby segir amk í The age of American unreason, að helsta afurð bítlatímans sé einmitt minnislaus poppkúltúr sem drekki upplýstri umræðu.

Ef til vill er eina leiðin til miðla mikilvægi vísinda að klæða vísindamennina í búninga og láta þá koma fram í risastórri grínóperu. Einmitt eins og Ig Nobelinn var í gær. Í tilefni af rannsóknarinnar á hjartaígræðslum, var verðlaunaathöfn Ig Nóbelsins skipulögð sem ópera í 4 þáttum, með stuttum innslögum þar sem sigurvegararnir tóku við verðlaunum.

Hægt er að horfa á sirkusinn á vef Ig Nobel - Improbable research.

Emma-Bell-Violetta-in-La--012

Mynd af vef The Guardian.

Ítarefni:

2013 Ig® Nobel Prize Ceremony & Lectures - Improbable Research

Alok Jha The Guardian 13. sept. 2013. Ig Nobel prize for discovery that opera is good for a mouse's heart

Fréttaskot frá Associated Press http://www.youtube.com/watch?v=QcqVVbjiXOE

Masateru Uchiyama, Xiangyuan Jin, Qi Zhang, Toshihito Hirai, Atsushi Amano, Hisashi Bashuda and Masanori Niimi Auditory stimulation of opera music induced prolongation of murine cardiac allograft survival and maintained generation of regulatory CD4+CD25+ cells Journal of Cardiothoracic Surgery, vol. 7, no. 26, epub. March 23, 2012.


mbl.is Bjór rannsókn hlýtur Ig Nóbelinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðstefna um Líffræðirannsóknir á Íslandi - skráning hefst

Líffræðifélag Íslands býður til ráðstefnu um Líffræðirannsóknir á Íslandi 8. og 9. nóvember 2013

Frestur til að senda inn ágrip er 10. október.

Fólk getur kynnt líffræðirannsóknir eða líffræðikennslu (í samstarfi við Samlíf) með erindum eða veggspjöldum. Erindi og veggspjöld mega vera á íslensku eða ensku. Ráðstefnunni verður skipt upp í málstofur eftir viðfangsefnum og tungumálum. Ef of margar beiðnir um erindi berast, getur þurft að bjóða sumum þátttakendum að senda inn veggspjald í staðinn.

Vinsamlegast skráið þátttöku og ágrip á http://lif.gresjan.is/2013

Einnig er ókað eftir tilnefningum um unga eða eldri vísindamenn sem hafa skarað fram úr í líffræðirannsóknum. Tilnefningar sendist á Snæbjörn Pálsson eða Bjarna K. Kristjánsson.

Staðfest yfirlitserindi
James Wohlschlegel – UCLA
Þóra Ellen Þórhallsdóttir – HÍ
Agnar Helgason – HÍ og ÍE.

Laugardagskvöldið 9. nóvember verður haustfagnaður félagsins.

Nánari upplýsingar, um ráðstefnu og haustfagnað birtast á nýrri vefsíðu félagsins http://biologia.is

Vinsamlegast dreifið auglýsingu!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Furðuleg seinkun friðunar

Þeir sem muna eftir atinu í kringum Kárahnjúkavirkjun og málflutningi virkjunarsinna í því máli, eru kannski ekki undrandi á nýjustu útspilum Landsvirkjunar og "umhverfismálaráðherra".

Ég tek undir með Náttúruverndarsamtökum Íslands, að hvetja til þess að friðland í Þjórsárverum verði stækkað eins og til stóð. "Umhverfisráðherra" hætti við að skrifa undir á síðustu stundu, eftir að boðskort voru send út á athöfnina.

Og nýjustu yfirlýsingar um að "allir kostir séu alltaf undir" vekja ekki upp vonir um að niðurstaða Rammáætlunar um verndun og nýtingu náttúruauðlinda verði virt. það þýðir að virkjanakostir sem færðir hafi verið í verndarflokk, sé alltaf hægt að taka úr verndarflokki og meta upp á nýtt. 

Ég bendi að því tilefni á umfjöllun RÚV í gærkvöldi.

Að ráðast í gerð Norðlingaölduveitu hleypir Landsvirkjun inn í Þjórsárver og rýfur sátt um verndun þeirra. Þetta segir einn höfunda Rammaáætlunar. Landsvirkjun vinnur að nýrri útfærslu veitunnar sem mæta á sjónarmiðum verndunarsinna.Umhverfisráðherra segir að lögum samkvæmt komi allir virkjanakostir til endurskoðunar í þriðju Rammaáætlun....

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, formaður faghóps 1 í öðrum áfanga rammaáætlunar, segir matið á náttúrverndargildi svæðisins ekki hafa breyst og muni ekki breytast þótt ný útfærsla veitunnar komi fram. Þjórsárverin vestan Þjórsár eigi að vera óspillt heild. Þegar búið verði að setja þarna veitu með lóni verði mjög mikill þrýstingur á að stækka framkvæmdina. „Þá er í raun og veru fóturinn kominn milli stafs og hurðar þegar menn eru komnir inn á svæðið. Og þá held ég að við sjáum bara fram á það að framkvæmdasvæðið muni stækka, veitan muni stækka. Þannig að tíminn til að ákveða hvort við ætlum að vernda svæðið til framtíðar í lítt snortinni mynd eða halda áfram, sá tími er núna,“ segir Þóra.

Vill ekki Norðlingaölduveitu RUV 09.09-2013


mbl.is Vilja friðlýsingu Þjórsárvera strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Guðjónsson grasafræðingur

Íslenska vísindasamfélagið er frekar í smærri kantinum. Eftir að hafa starfað innan þess í nokkur ár, þá þekkir maður alla á sínu svið og fjölmarga í öðrum sviðum. Einnig heyrir maður vitnað til forvera og mikilmenna sem mótuðu vísindin hér á síðustu eða þar síðustu öld.

Einn slíkra, sem ég var reyndar bara að frétta um, var Guðni Guðjónsson grasafræðingur.

Hann stundaði rannsóknir á kynlausri æxlun (geldæxlun) meðal plantna og rannsakaði m.a. túnfífla með dönskum grasafræðingi (Thorvald Sørensen). Ágúst H. Bjarnason fjallar um störf Guðna í pistli frá í sumar:

Vísindastörf Guðna Guðjónssonar eru eðlilega ekki mikil að vöxtum, en ótvírætt er, að þau voru á sinni tíð með hinum merkari á sviði grasafræði. Hann birti fáeinar ritgerðir, ýmist einn eða í samvinnu við aðra, og af verkum hans að dæma hafði hann mestan áhuga á tegundum, sem fjölga sér við geldæxlun. Skömmu fyrir andlátið skrifaði hann ásamt dönskum samstarfsmanni, dr. Thorvald Sörensen, greinina „Spontaneous Chromosome Aberrants in Apomictic Taraxaca”, en hún fjallar um vöxt kíms án frjóvgunar.

Sennilega er þekktasta grein Guðna engu að síður ritdómur, sem hann reit um Íslenzkar jurtir eftir Áskel Löve og kom út 1945. Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar og þótti mjög harður og óvæginn á þeim tíma enda vakti hann óskipta athygli. Ekki skal hér lagður dómur á þessa ritsmíð, en ritdómurinn sýnir, að Guðni var maður einarður og vel að sér í sínum fræðum.

Verk Guðna og Thorvalds eru ennþá metin af plöntuerfðafræðingum. Einn slíkur, Pétur Van Dijk vitnar amk til verka þeirra í nýlegum bókum og greinum, t.d. í kafla í bókinni Lost sex An Apomixis-Gene's View on Dandelions.

Ágúst H. Bjarnason Aldarminning Guðna Guðjónssonar grasafræðings 2013

 


Málþing um opinn aðgang 25. október

Fréttatilkynning vegna málþings um opinn aðgang
 
Alþjóðlega Open Access vikan verður haldin hátíðleg 21. til 27. október næstkomandi.
Í tilefni af þessu stendur OA Ísland, í samstarfi við Rannís, Háskólans í Reykjavík og fleiri aðila, fyrir málþingi um opinn aðgang að fræðiefni þann 25. október næstkomandi í fyrirlestrarsal HR. Aðalfyrirlesari verður Mikael Elbæk frá DTU í Danmörku.

Markmið málþingsins er að fræða almenning og fræðasamfélagið á Íslandi um opinn aðgang og hvetja til umræðu um þetta mikilvæga málefni. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum. Boðið verður upp á kaffi&meðlæti og léttan hádegisverð.

Áhugasamir geta skráð sig til þáttöku á vef OA Ísland þar sem finna má ítarlegri upplýsingar um viðburðinn:


Dagskrá

10:30 – 11:15 Skráning og kaffi
11:15 – 11:45 Staðan á Íslandi:  meðlimur í OA Ísland hópnum
11:45 – 12:25 Aðal fyrirlestari:  Mikael Elbæk, DTU, Danmörku
12:25 – 13:00 Matarhlé
13:00 – 14:30 Samhliða vinnustofur, öllum opnar:
  1) OA og ritstjórn/umsjón fræðirita. Stjórnendur: Ian Watson og Guðmundur Þórisson
  2) OA fyrir fræðihöfunda. Stjórnandi: Sólveig Þorsteinsdóttir og Guðlaug Þ. Kristjánsdóttir
  3) OA fyrir stjórnendur og annað fagfólk. Stjórnandi: Mikael Elbæk
    Ítarlegri upplýsingar um vinnustofurnar verða birtar er nær dregur
14:30 – 14:45 Kaffihlé
14:45 – 15:30 8-10 örerindi, 5mín hvert. Fyrirlesarar verða kynntir er nær dregur
15:30 – 16:10 Framgangur OA frá sjónarhóli stofnunar
  Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík http://www.ru.is/haskolinn/starfsfolk/ari  
  Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, Landsbókasafni https://www.facebook.com/ingibjorg.s.sverrisdottir
16:15 - 16:30 Samantekt og málþingi slitið


Um opinn aðgang

Á Íslandi eru sjö háskólar og fjöldi opinberra stofnana þar sem stundaðar eru vísindalegar rannsóknir. Flestar rannsóknirnar eru kostaðar að öllu eða einhverju leyti af almannafé, annað hvort með launagreiðslum til þeirra sem hafa rannsóknarskyldu eða með fé sem sækja má um í sjóði sem kostaðir eru af ríkinu. Niðurstöður rannsókna hérlendis eru, líkt og tíðkast erlendis, birtar í ritrýndum fræðiritum sem nær öll eru nú gefin út á rafrænu formi á Internetinu. Flest eru ritin þó aðeins aðgengileg gegnum áskrift sem oft er seld háu verði. Aðgengi að meirihluta fræðiþekkingar er því takmörkuð við stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga sem hafa efni á að borga uppsett verð.

Síðasta áratug hefur hinsvegar verið að ryðja sér til rúms ný nálgun á fræðiútgáfu sem nýtir upplýsingatækni og Internetið til að gera fræðiefni aðgengilegt án endurgjalds og opið öllum til að lesa, nýta og byggja á. Umræða um opinn aðgang hefur verið mjög áberandi um heim allan undanfarin misseri. Til að mynda markaði Háskólinn á Bifröst sér stefnu um OA í byrjun árs 2012, samkvæmt stefnu Rannís skulu niðurstöður rannsóknaverkefna, sem styrkt eru, að hluta til eða að öllu leyti úr sjóðum í umsýslu Rannís, vera birtar í opnum aðgangi og Háskóli Íslands er um þessar mundir að móta stefnu um opinn aðgang. Undanfarið hefur mikil umræða einnig farið fram um allan heim um opna birtingu rannsóknargagna til m.a. að hámarka endurnýtingargildi þeirra.

Öll nágrannalönd okkar hafa tekið opnum aðgangi opnum örmum. Styrkir næsta rannsóknarverkefnis ESB, Horizon 2020, sem hleypt verður af stokkunum 2014, verða skilyrtir við birtingu rannsóknarniðurstaðna í opnum aðgangi. 


Fyrirsjáanlegt vandamál

Skemmdirnar á ytra byrði Öskju voru fyrirsjáanlegar.

Þær hafa verið þekktar í mörg ár, og yfirstjórn HÍ segist ætla að fara yfir málið, en saltar það svo.

Samkvæmt frétt á visir.is 2004 Tæring í klæðningu náttúrfræðahúss. Þar segir

------------

Samkvæmt heimildum blaðsins veldur hönnunargalli því að klæðningin sem þekur húsið að utan er að tærast upp. Ryðfríir naglar hafi verið settir í klæðninguna og það valdi spennusviði sem hafi tæringu í för með sér. Ekki mun vera hægt að stöðva eyðilegginguna samkvæmt heimildum en jafnvel er talið er að skipta þurfi um klæðninguna með ærnum tilkostnaði.

Einn heimildarmanna blaðsins sagði jafnframt að fagmenn hefðu varað við tæringunni þegar bygging hússins stóð yfir. Ekki hafi verið orðið við athugasemdum þeirra. 

-----------

Frétt á visir.is frá 2009 Dularfullar skemmdir á nýrri háskólabyggingu segir að reynt hafi verið að gera við skemmdirnar og að viðgerð fari fram sumarið 2010 (næsta sumar) sjá tilvitnun:

-----------

Tilraunir hafa verið gerðar til að stöðva skemmdirnar. Máling hefur verið tekin af, ryð pússað í burtu og aftur málað. Það er þó ekki útilokað að skemmdirnar komi aftur fram.

Guðmundur R. Jónsson, sviðsstjóri, framkvæmda- og rekstrarsviðs Háskóla Íslands sagði að húsið yrði tekið í gegn næsta sumar og skemmdir lagaðar.

-----------

Sem starfsmaður í Öskju get ég vottað um að viðgerðir hafa ekki farið fram, fyrir utan einfaldar tilraunaviðgerðir árið 2008/2009.

Og í ljósi hversu lítil innistæða var fyrir yfirlýsingum yfirstjórnar HÍ árið 2004 og 2009, þá efast ég um að gjörðir fylgi úttekt á Öskju.

Almenna lexían er sú að það hefur afleiðingar að hundsa ráð sérfræðinga.


mbl.is Klæðning Öskju er mjög illa farin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vernda einstök svæði - vísindi, heimspeki og pólitík

Mannfólk byggir bara eina jörð. Gæði plánetunar eru flest endanleg, og þau er hægt að ofnota.

Ósnertar víðáttur hafa verið á hröðu undanhaldi síðustu aldirnar, sérstaklega eftir iðnbyltinguna og fólksfjöldasprenginug síðustu aldar. Hérlendis má finna ósnertar víðáttur sérstaklega á hálendinu, en þær eru einnig í hættu.

Íslendingar gera sér flestir grein fyrir því að  virkjanir, vegagerð og línulagnir breyta ásýnd landsins og skerða ósnertar víðáttur landsins. Afstaða fólks til framkvæmda og verndar er hins vegar mjög ólík. Náttúruverndarfólk vill vernda náttúruna og landið eins og það er, og er mótfallið framkvæmdum - sérstaklega á óspilltum eða einstökum svæðum. Framkvæmdasinnar horfa frekar til fjárhagslegs og þjóðhagslegs ávinningis af virkjunum eða raflínum og telja einstaka foss, votlendi eða  hraun ásættanlegan fórnarkostnað. Það sem skilur hópanna að er ólíkt verðmætamat, og heimspekileg afstaða til náttúru og framfara.

Þarna á milli lenda síðan vísindi. 

Umhverfisfræðin fjallar um áhrif manns á náttúru, og dæmi um spurningar hennar eru t.d.

  • Hvaða áhrif hefur bílaflotinn á loftgæði?
  • Hvaða áhrif hefur virkjun á náttúru (t.d. lífríki, vatnakerfi og landslag)?
  • Hefur útblástur koltvíildis áhrif á loftslag?

Vandamálið við umræðuna er að oft hrúgast saman heimspekileg, efnahagsleg og tilfinningaleg rök. Vísindalegar staðreyndir eða vísindaleg óvissa verður síðan að gjaldmiðli í umræðunni, þar sem ekki er alltaf farið rétt með.

Ef við tökum t.d. loftslagsumræðuna þá er ekki lengur vafi meðal vísindamanna um það hvort að losun koltvíildis (og annara lofttegunda) breyti meðalhita á jörðinni og þar með loftslagi.

En engu að síður eru vísindalegar staðreyndir, eða vísindalega hljómandi atriði, notaðar sem  mótrök við þessari ályktun.

Hvernig má það vera - er fólk svona óheiðarlegt eða svona heimskt?

Sumir eru reyndar óheiðarlegir, þ.e. þeir sem hafa atvinnu af því að framleiða efa - nú um loftslagsmálin, áður um skaðleg áhrif reykinga.

Það er hreinlega rangt að halda því fram að fólk sem afneitar loftslagvísindunum sé heimskt. Slíkar fullyrðingar eru einnig móðgandi og ólíklegar til að hjálpa fólki að sjá villu síns vegar.

Svarið er það að hugur mannsins er breyskur og röksemdir þurfa oft að víkja fyrirfram mótuðum skoðunum og tilfinningum.

Sálfræðingar hafa rannsakað það hvernig heilinn virkar, og hvernig skoðanir myndast, hvernig við bregðumst við nýjum upplýsingum sem varða skoðanir okkar og lífsýn. Þessar rannsóknir sýna að maðurinn er duglegur að réttlæta skoðanir sínar með rökum, jafnvel þótt að skoðanirnar hafi mótast vegna tilfinninga, heimspeki eða innrætingar.

Chris Mooney fjallar ítarlega um þetta í pistlin á Mother Jones - The Science of Why We Don't Believe Science(2011).

Hann rekur vandaðar rannsóknir sem sýna að gögn og rök hreyfa ekki endilega við fólki, ef skoðanir þeirra eru skýrt mótaðar. Og þær sýna líka að gagnrýnin umræða megnar ekki að breyta skoðunum slíks fólks, eins og t.d. loftslags-breytinga-afneitara. Allar staðreyndir eru metnar með gleraugum skoðananna, og þær sem staðfesta eru meðteknar, en hinum er afneitað með oft flóknum útúrsnúningum. Aðal atriðið er að mannshugurinn er ekki hrifinn af mótsögnum, og djúpt greypt skoðun hnikast ekki vegna nokkura staðreynda.

Mooney vitnar í Leon Festinger  frægan sálfræðing í greininni:

A MAN WITH A CONVICTION is a hard man to change. Tell him you disagree and he turns away. Show him facts or figures and he questions your sources. Appeal to logic and he fails to see your point.

Mooney lýsir þessum breyskleika mannlegrar hugsunar og hvernig vísindin velkjast í pólitískri umræðu. En hann tekur einnig skref fram á veginn, og reynir að finna út hvernig við getum miðlað þekkingu á þann hátt að skoðanir fólks flækist ekki fyrir.

We all have blinders in some situations. The question then becomes: What can be done to counteract human nature?

Given the power of our prior beliefs to skew how we respond to new information, one thing is becoming clear: If you want someone to accept new evidence, make sure to present it to them in a context that doesn't trigger a defensive, emotional reaction.

Chris Mooney flytur erindi á morgun (7. september 2013 kl 12:00) sem ég hvet fólk til að mæta á.

Ítarefni og skyldir pistlar:

Chris Mooney á Mother Jones - The Science of Why We Don't Believe Science (2011).

Sálfræðin sem býr að baki stríðinu gegn umhverfisvísindum laugardaginn 7. september.

Trúlega er það trúlegi heilinn (2012)

Heili 1 og heili 2 (2011)

 

 


mbl.is Berjast fyrir vernd Þjórsárvera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóðir Vísinda- og tækniráðs: Undirstaða rannsókna og nýsköpunar á Íslandi

Þórarinn Guðjónsson dósent við Læknadeild skrifar öndvegis grein í Fréttablað dagsins í dag, um undirstöðu rannsókna og nýsköpunar á Íslandi. Hann gaf leyfi fyrir endurbirtingu greinarinnar í heild sinni.
 
--------------------------------
 
Sjóðir Vísinda- og tækniráðs: Undirstaða rannsókna og nýsköpunar á Íslandi
 
Þekkingarsköpun er dýrmæt auðlind sem stuðlar að hagvexti þjóða. Þetta hafa margar alþjóðlegar skýrslur bent á.

Þekkingarsköpun er dýrmæt auðlind sem stuðlar að hagvexti þjóða. Þetta hafa margar alþjóðlegar skýrslur bent á. Á Íslandi er mikill áhugi á þekkingarsköpun og hagnýtingu þekkingar. Háskólar, vísinda- og fræðasamfélagið, frumkvöðlar sprotafyrirtækja, fulltrúar fullvaxta þekkingarfyrirtækja og stjórnmálamenn eru sammála um mikilvægi þekkingarsköpunar.

Þrátt fyrir þetta er tregða í kerfinu hvernig við fjármögnum þekkingarsköpun. Það er engum vafa undirorpið að háskólar og rannsóknastofnanir þurfa grunnfjárveitingu til reksturs. Hins vegar erum við ekki að hlúa nægjanlega vel að stuðningi við einstök rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem leiðir til þess að framsækin og lofandi verkefni dagar uppi vegna fjárskorts og nýjar hugmyndir fá ekki brautargengi. En hvernig er best að fjármagna slík verkefni? Það er margsannreynt að samkeppnissjóðir eru besta leiðin til að fjármagna grunnrannsóknir og nýsköpun.

Vísindamenn sækja um styrki úr samkeppnissjóðum í samkeppni við aðra vísindamenn. Allar umsóknirnar eru sendar í jafningjamat og aðeins bestu verkefnin fá brautargengi. Samkeppnissjóðir Vísinda- og tækniráðs eru grundvöllur fjármögn

unar grunnrannsókna, tækniþróunar og uppbyggingar innviða við íslenska háskóla og rannsóknastofnanir. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna beitti sér fyrir eflingu þessara sjóða á síðasta kjörtímabili og er mikilvægt að núverandi stjórnvöld standi vörð um þessa sjóði í næstu fjárlögum.

Sjóðir Vísinda- og tækniráðs

RANNÍS - Rannsóknamiðstöð Íslands er umsýslustofnun fyrir sjóði sem heyra undir Vísinda- og tækniráð. Stofnunin hefur gegnt veigamiklu hlutverki í faglegri umgjörð sjóðanna og sinnt því af mikilli fagmennsku.

En hvaða sjóðir eru þetta og hvaða hlutverki sinna þeir? Helstu samkeppnissjóðir Vísinda- og tækniráðs eru Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður og Tækjasjóður (nú Innviðasjóður). Þessir sjóðir styrkja grunnrannsóknir, nýsköpun og tækniþróun í landinu og eru grundvöllur þess að Ísland hefur náð fótfestu sem þekkingarsamfélag á undanförnum áratugum. Það er afar brýnt að þessir sjóðir verði efldir enn frekar á næstu árum í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs síðustu ár, en hluti rannsóknafjármagns sem veitt er til samkeppnissjóða á Íslandi er enn mun lægra en gerist t.d. annars staðar á Norðurlöndum.

Efling sjóðanna eykur þekkingar- og nýsköpun og opnar leiðir fyrir hagnýtingu nýsköpunar, sem svo leiðir til aukinnar verðmætasköpunar, auk þess að styrkja menningarlegar stoðir samfélagsins.

Rannsóknasjóður

Rannsóknasjóður er opinn samkeppnissjóður sem veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi.

Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Allar umsóknir eru sendar í jafningjamat erlendis til þess að lágmarka líkur á hagsmunatengslum við mat umsókna. Rannsóknasjóður er hryggjarstykkið í fjármögnun grunnrannsókna við háskóla- og rannsóknastofnanir í landinu. Afrakstur þessara rannsókna er ný þekking óháð fræðasviðum. Mælikvarði á árangur er m.a. ritrýndar vísindagreinar, einkaleyfi, útskrifaðir meistara- og doktorsnemar og ýmiss konar þekking sem opnar fyrir ný tækifæri.

Langstærstum hluta veittra styrkja er varið til launa framhaldsnema og nýdoktora og skila framlög í Rannsóknasjóð sér því beint til atvinnusköpunar.

Tækniþróunarsjóður

Mikilvægt er að auka fjölbreytni atvinnulífsins og hraða uppbyggingu þekkingar- og hátæknistarfsemi. Það er hlutverk Tækniþróunarsjóðs að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Í mörgum tilvikum leiða niðurstöður sem fást úr rannsóknaverkefnum styrktum af Rannsóknasjóði til þess að nýsköpunargildi rannsóknanna gefa möguleika á arðbærri fjárfestingu.

Þessi verkefni þurfa oft viðbótarfjármögnun til frekari rannsókna áður en áhættufjárfestar eru tilbúnir að leggja fé í verkefnin. Tækniþróunarsjóður er mikilvægur sjóður fyrir fjárhagslega ábatasamar hugmyndir.

Innviðasjóður

Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á rannsóknatækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framgang og framfarir í rannsóknum.

Allar rannsóknastofnanir á Íslandi, þ.m.t. háskólar, hafa litla sem enga fjármuni til að byggja upp rannsóknainnviði og treysta því á Innviðasjóð Vísinda- og tækniráðs. Hlutverk sjóðsins hefur verið útvíkkað en áður veitti sjóðurinn eingöngu styrki til tækjakaupa. Framlög til Innviðasjóðs hafa ekkert aukist

þrátt fyrir að hlutverk sjóðsins hafi verið víkkað og því brýnt að framlög til sjóðsins verði efld á næstu misserum.

Efling samkeppnissjóða

Með því að efla samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs erum við um leið að styrkja háskóla og rannsóknastofnanir í landinu og stuðla að atvinnu- og verðmætasköpun. Vísindamenn sækja um styrki í samkeppnissjóði á grundvelli hæfni og árangurs og draga því fjármuni til þeirra stofnana sem þeir starfa hjá. Öflugt innlent stuðningsnet eykur auk þess möguleika vísindamanna á Íslandi í samkeppni um erlenda rannsóknastyrki, sem skila sér í beinum gjaldeyristekjum fyrir þjóðina.

Það er afar brýnt að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi samkeppnissjóða og hafi það sem forgang að efla þá í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs undanfarin ár.


Óvísindaleg Ameríka og við hin

Chris Mooney og Sheril Kirshenbaum gáfu út bókina Unscientific America árið 2009.

Nokkrar af lykilstaðreyndunum úr bókinni eru þessar.

46% Bandaríkjamanna trúa því að jörðin sé yngri en 10.000 ára gömul.

Í 5 klst. af fréttum í Bandarískum kapalstöðvum er minna en 1 mínúta notuð til að kynna vísindalegar niðurstöður.

Fjöldi dagblaða sem eru með vísindasíður, hefur fallið um 2/3 á tuttugu árum.

Hvorki Obama né McCain höfðu fyrir þvi að taka þátt í opinni umræðu um vísindi í kosningabaráttunni 2008.

Árið 1999 sögðu 47% Bandaríkjamanna að vísindalegar framfarir væru eitt af stoltum BAndaríkjanna. Árið 2009 var hlutfallið 27% (mjög fáir nefndu geimferðaáætlunina eða tunglferðirnar).

84% Bandarískra vísindamanna eru sannfærðir um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, en bara 49% þjóðarinnar.

Svipað mynstur sést í bólusetningaumræðunni. Andstaðan við bólusetningar er mest meðal þeirra sem ekki hafa vísindalega menntun.

En í bókinni þá benda þau ekki bara á skelfileg dæmi og útlista vandamál. Þau leggja til að vísindamenn skríði úr skel sinni, og taki þátt í samfélagsumræðu. En gæti þess einnig að skilja mikilvægi tilfinningalegra, heimspekilegra, lífskoðunarlegra (trúarlegra) og persónulegra svara og umræðu.

Andvísindi og gervivísindi eru ekki bundin við Bandaríkin. Þau er flutt inn til Íslands, þýdd og staðfærð.

Því hvet ég ykkur til að sækja erindi Chris Mooney laugardaginn 7. september.


Sálfræðin að baki stríðinu gegn umhverfisvísindum

Hvernig er best að greina rétt frá röngu, t.d. þegar deilt er um hvort skógarhögg muni hafa áhrif á vatnsból, eða þegar stungið er upp á að byggja kjarnorkuver inn í stórborg?

Umræða um slík álitamál fer fram á mörgum sviðum, en á endanum þarf að gera einhverskonar rannsókn, eða finna út staðreyndir málsins. Álitamálin í dæmunum hér að ofan eru í eðli sínu vísindaleg, og því er farsælast að nota aðferð vísinda og vandaða fræðimennsku til að meta stöðuna. 

Síðan er það spurning um hvernig stjórnvöld fara með vísindalegar niðurstöður, eða hagsmunaaðillar sem vilja ákveðna niðurstöðu (óháð sannleikanum).

Í samfélagi nútímans eru fullt af alvarlegum vandamálum og deilum um nýtingu orku, verndun náttúru, skipulag borga, samfélaga og atvinnuvega. Því miður er of algengt að vísindalegar niðurstöður troðist undir í þessum deilum, þær verði stimplaðar sem pólitískar eða trompaðar með einhverjum Morfís-brellum. Skortur á vandaðri orðræðu þýðir að vísindilegar staðreyndir lenda í bakgrunni, þegar þær gætu blásið þokunni burt og vísað okkur veginn til betra samfélags og lausna.

Eitt dæmi um slíka deilu eru loftslagsvísindin. Þar er töluverð óvissa meðal ráðamanna og almennings. En meðal vísindamanna er óvissan hverfandi. Gögnin sýna óyggjandi að mannkynið hefur losað koltvíldi (og aðrar lofttegundir) sem hafa leitt til hlýnunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga. Ástæðan fyrir óvissunni meðal valdamanna og margra borgara er markviss herferð hagsmunaaðilla, t.d. olíufyrirtækja, sem miðar að því að framleiða efa.

Þeir sem vilja fræðast um þessa atlögu olíurisanna gegn samfélaginu og vísindunum ættu endilega að hlýða á erindi Chris Mooney laugardaginn 7. september. Sjá tilkynningu frá HÍ.

Chris Mooney flytur fyrirlestur í Háskólatorgi 105, laugardaginn 7. september kl. 12:00-13:30. Fyrirlesturinn nefnir hann ,,Sálfræðin sem býr að baki stríðinu gegn umhverfisvísindum."

Mooney er þekktur fyrir verk sín um vísindastríðin svokölluðu, en eftir hann eru bækurnar The Republican War on Science (2005); Storm World: Hurricanes, Politics and the Battle Over Global Warming (2007); Unscientific America, ásamt Sheril Kirshenbaum (2009); og The Republican Brain: The Science of Why They Deny Science and Reality (2012).

Meðal dagblaða og tímarita sem Mooney skrifar reglulega í eru The Washington Post, The Los Angeles Times, Mother Jones, Salon og The Atlantic.

Guðni Elísson, forseti Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, kynnir Mooney og stýrir umræðum.

Fyrirlesturinn, sem er öllum opinn, er hluti af námskeiðunum Menningu og andóf og Loftslagsbreytingar, orðræða og aðgerðastefna sem kennd eru í menningarfræðum við Háskóla Íslands.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband