Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Upplýsingar um Ebólu á vísindavefnum

Á vísindavefnum eru nokkrir ágætir pistlar um Ebólu.

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er ebóluveiran?“. Vísindavefurinn 5.5.2004. http://visindavefur.is/?id=4232. (Skoðað 31.10.2014).

Veiran dregur nafn sitt af ánni Ebólu í Kongó (e. Democratic Republic of Congo, hét Zaír fram til 1997) en þar, og í Súdan, kom veiran fyrst fram á sjónarsviðið árið 1976. Nú eru þekkt fimm afbrigði af veirunni og heita þau í höfuðið á þeim svæðum þar sem þau greindust fyrst. Vitað er að þrjú þeirra, Zaír-ebóla, Súdan-ebóla og Fílabeinsstrandar-ebóla, geta valdið blæðingarsótt/blæðandi veirusótthita (e. hemorrhagic fever). Ekki eru þekkt dæmi að Reston-ebóla, hafi sýkt menn en vitað er að það sýkir apa. Vitað er um eitt tilfelli um smit af völdum Tai-skógar-ebólu. Sá sjúklingur náði sér að fullu á sex vikum.

Sigurður Guðmundsson. „Gæti ebóla orðið að heimsfaraldri á Vesturlöndum?“. Vísindavefurinn 17.10.2014. http://visindavefur.is/?id=68337. (Skoðað 31.10.2014).

Hvers vegna er þessi faraldur öðruvísi en fyrri faraldrar ebólu? Þeir komu upp á afskekktum svæðum. Núverandi faraldur kom hins vegar upp á þéttbýlli svæðum þar sem landamæri eru fjölfarin og breiddist fljótt til borganna. Ef til vill er þó fátæktin og mikill skortur á innviðum sá samnefnari sem helst skýrir vandann. Siðir og venjur við frágang líka og við útfarir hafa einnig haft áhrif á gang faraldursins. Tortryggni og vantraust er mikið, ástvinir veikra eru hræddir við heilbrigðisstarfsmenn sem mæta í geimbúningum og taka sjúklinga í burtu. Veikt fólk og lík eru falin svo unnt sé að veita viðeigandi jarðarför, þar sem öll fjölskyldan kemur saman, rétt eins og hér á landi, en það auðveldar enn frekar útbreiðslu

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvernig og hvenær varð ebóluveiran til?“. Vísindavefurinn 30.10.2014. http://visindavefur.is/?id=68406. (Skoðað 31.10.2014).

Ebóluveira greindist fyrst í mönnum árið 1976 í Kongó og Súdan en hún hefur verið til miklu lengur. Hún hefur sýkt önnur dýr í aldanna rás, en er líklega bara nýverið farin að sýkja menn. 

Einnig vil ég benda fólki á góða upplýsingasíðu Landlæknis um ebóluveiruna.


mbl.is Í verkfall vegna ebólu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóstækni til hagsbóta fyrir mannkyn

Fræðsluerindi á vegum Vísindafélags Íslendinga, Líffræðistofu HÍ, Lífvísindaseturs HÍ og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Nóbelsverðlaun í eðlisfræði og efnafræði 2014: Ljóstækni til hagsbóta fyrir mannkyn

Kristján Leósson, eðlisverkfræðingur og

Kesara Anamthawat-Jónsson, prófessor í líffræði

Dagsetning: Fimmtudagur, 30. okt. kl. 12:00

Staðsetning: Salur Þjóðminjasafns Íslands

Ágrip

Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði og efnafræði 2014 voru veitt fyrir mikilvægar framfarir í ljóstækni. Eðlisfræðiverðlaunin voru veitt fyrir þróun blárra ljóstvista en með tilkomu þeirra varð mögulegt að nýta ljóstvista m.a. fyrir hvíta lýsingu með mun betri orkunýtingu en hefðbundar ljósaperur. Efnafræðiverðlaunin voru veitt fyrir þróun nýrrar smásjártækni sem byggir á víxlverkun laser-ljóss og flúrljómandi sameinda sem nýta má til að taka myndir með hefðbundinni ljóssmásjá í mun meiri upplausn en áður var talið mögulegt. Þetta hefur sérstaklega mikla þýðingu fyrir rannsóknir í frumulíffræði.  

Um fyrirlesara

Kristján Leósson er framkvæmdastjóri Efnis-, líf- og orkutæknideildar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Hann hefur starfað við rannsóknir í ljóstækni og hálfleiðaraeðlisfræði í 20 ár, m.a. á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans.

Kesara Anamthawat-Jónsson er prófessor í plöntuerfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hún er einnig formaður norræna smásjártæknifélagsins SCANDEM.

--------

Rætt var við  Kristján Leósson í býtinu á Bylgjunni í gær.

(Bítið - Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði og efnafræði á mannamáli. 28.10.14)

Upplýsingar um nóbelsverðlaunin 2014.

Fleiri opin erindi á líffræðilegum nótum - sjá vef Líffræðistofu HÍ.


Kvarta háskólar undan of mikilli hæfni nýnema?

Stjórn samtaka líffræðikennara sendu frá sér pistil nýverið, sem birtist á síðu félags framhaldsskólakennara.

Pistillinn heitir Kvarta háskólar undan of mikilli hæfni nýnema? og er endurprentaður hér í heild. Bloggari tilheyrir stjórn samtakana.

----------------

Efla þarf nám í náttúrufræði - athafnir fylgi orðum í hvítbók

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út Hvítbók um umbætur í menntun í júní 2014 þar sem meðal annars er að finna ágæta samantekt um stöðu íslensks menntakerfis miðað við önnur lönd þar á meðal í náttúrufræði. Af samantektinni má ráða að 15 ára íslensk ungmenni hafa lengi verið fyrir neðan meðallag og tekið er sérstaklega fram að Ísland verði að bæta stöðu íslenskra nemenda í náttúrufræði eigi þeir að standa jafnöldrum sínum í öðrum löndum á sporði.

Fyrst vandinn er viðurkenndur í hvítbókinni ættu raungreinakennarar að fyllast bjartsýni um úrbætur. Að nú verði náttúrufræði gefinn meiri gaumur, kennslustundum fjölgað og hópar minnkaðir þannig að hægt verði að sinna verklegum æfingum með þarfir einstakra nemanda í huga.

Baráttan fyrir fjölda kennslustunda í náttúrufræði er ekki ný. Í drögum að aðalnámskrá fyrir grunnskóla árið 2011, stóð til að fækka verulega tímum á efsta stigi grunnskóla í viðmiðunarstundaskrá fyrir náttúrufræði en horfið var frá þeirri áætlun vegna andstöðu kennara. Í gildandi aðalnámskrá fyrir grunnskóla frá 2011 eru viðmiðin fyrir náttúrugreinar alls 1120 mínútur á viku* eða 8,33% af allri kennslu. Þar að auki fréttist frá grunnskólakennurum í Samlíf (Samtökum líffræðikennara) að kennslustundum í náttúrufræði hafi verið fækkað á unglingastigi í fjölmörgum skólum þrátt fyrir viðmiðunarstundarskrá.

Framhaldsskólar hafa tvö megin hlutverk. Í fyrsta lagi að sinna almennri menntun þjóðarinnar til að efla samfélagið og í öðru lagi að undirbúa nemendur undir frekara nám, oftast á háskólastigi. Það eru því vonbrigði að í hvítbókinni eru ekki gerðar neinar tillögur um úrbætur um vægi náttúrfræðikennslu. Í framhaldsskólum landsins er fjölda náttúrufræðitíma eðlilega misjafnlega skipt eftir því hvort nemendur leggi stund á náttúrufræðibrautum eða öðrum námsbrautum.

Stjórn Samlífs telur áhyggjuefni ef skólar stefna að því að fækka náttúrufræðieiningum á öðrum brautum en náttúrufræðibrautum í þeirri námskrárvinnu. Ef rýnt er í niðurstöður PISA könnunarinnar má sjá að náttúrufræðiþekkingu er ábótavant. Því ættu menntamálayfirvöld að leggja áherslu á að í framhaldsskólum sé öllum nemendum sem útskrifast með stúdentspróf tryggður góður grunnur í náttúrufræði.

Stjórn Samlífs telur að íslenskir framhaldsskólar bjóði nemendum upp á góðan undirbúning fyrir frekara nám. Við leggjum áherslu á mikilvægi námsframboðs með traustum kjarna og valgreinum þannig að nemendur hafi tök á að byggja undir sína framtíð. Það er því miður ekki lögð áhersla á aukna náttúrufræðikennslu í hvítbókinni og raunveruleg hætta á að náttúrufræðikennslu verði fórnað á öðrum námsbrautum en náttúrufræðibrautum ef nám í framhaldsskólum verður skert og framhaldskólinn styttur í þrjú ár. Stjórn Samlífs hefur ekki borist kvörtun frá háskólum á Íslandi vegna of mikillar hæfni útskrifaðra framhaldsskólanema í náttúrufræðum. Kennslu í náttúrufræði ætti frekar að efla en skera niður.

Höldum í það sem vel er gert!

Stjórn Samlíf - Samtökum líffræðikennara
lifkennari.is


Frábær fyrirlesari

Timothy Caulfield hélt fyrirlestur hérlendis 16. október síðastliðinn. Hann kom hingað í boði Siðfræðistofnunar HÍ, Norrænu lífsiðanefndarinnar og norræns samstarfsnets um siðfræði erfðamengjagreininga. (Whole-genome sequencing and the implications for health care – Do we have a right not to know?)

Hann einbeitti sér að loforðum um byltingu í læknisfræði, svokallaða persónulega lækningu með aðstoð erfðaprófa, í erindi sínu.

Hann vitnaði í marga forkólfa mannerfðafræðinnar og erfðamengjafræði, sem lofuðu því að erfðamengi mannsins og aðrar framfarir myndu kollvarpa læknisfræði. Innan tíu ára, fyrir tíu árum.

Staðreyndin er sú að þótt að gríðarleg þekking hafi safnast upp, er fjarri því að vera augljóst hvernig hún nýtist læknum og sjúklingum beint.

Staðreyndin er sú að erfðaprófin eru flest mjög ónákvæm, og aðeins lítill hluti af þekktum genum hefur það sterk áhrif að þau sé réttlætanlegt að mæla með erfðaprófi. 

Albert Smith við Hjartavernd flutti líka erindi á fundinum, og sagði frá rannsókn þar sem meira en 600 erfðaþættir hæðar voru notaðir. Samtals útskýra þessir erfðaþættir um 20% af arfgengi hæðar, sem er mun minna en meðalhæð foreldra viðkomandi. 

Þannig að ef við viljum vita eitthvað um "sjúkdóminn" hæð, þá er skynsamlegra að nota málband en 100.000 kr erfðapróf.

Ég hef reyndar ekki lesið bók Caulfields, en þætti gaman að heyra í þeim sem hafa gert það.

Hægt er að fylgjast með ferðalögum og lestrarefni Caulfields á twitter.

https://twitter.com/CaulfieldTim


mbl.is Engin töfralausn til fyrir heilsuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskar rannsóknir í kennslubók um þróun

Mykjuflugurannsóknir Hrefnu Sigurjónsdóttur má finna í kennslubók í atferlisfræði. Þar að auki hafa nýlegar rannsóknir Ástríðar Pálsdóttur og samstarfsmanna (m.a. á Líffræðistofnun HÍ og Íslenskri erfðagreiningu) á arfgengri heilablæðingu, ratað í nýjustu útgáfu af Þróunafræðibók Herron og Freeman. Frá þessu segir á vefsíðu Keldna.

------------

Niðurstöður úr rannsóknum vísindamanna á Keldum, Ástríðar Pálsdóttur og Birkis Þórs Bragasonar, sem voru unnar í samstarfi við vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu, Læknadeild Háskóla Íslands og Johns Hopkins Háskóla í Bandaríkjunum, hafa ratað inn í nýlega kennslubók í þróun (Evolutionary Analysis, 5th edition, eftir Jon C. Herron og Scott Freeman). Bókin er kennd við marga háskóla í Bandaríkjunum. 

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust upphaflega í vísindaritinu Plos genetics árið 2008, og í kennslubókinni er bent á þær sem sláandi dæmi um samspil umhverfis og erfða.  Rannsóknin tók til líftíma íslenskra arfbera stökkbreytts gens, sem veldur arfgengri heilablæðingu. Meðal lífaldur þessara arfbera í dag er um 30 ár, en þar til fyrir um 200 árum var lífaldur þeirra ekki marktækt frábrugðin öðrum. Á 19. öldinni styttist lífaldur arfberanna smám saman í þau 30 ár sem hann er í dag. Líklegasta skýringin á þessu er tilkoma sterkra umhverfisáhrifa, hugsanlega fæðutengt, en á 19.öldinni tók matarræði Íslendinga miklum stakkaskiptum í átt að því sem gerist í nágrannalöndunum m.a. með aukningu í neyslu sykurs, mjölmetis og saltnotkun. Í kjölfar þessarar styttingar í lífaldri hefur arfberum fækkað mikið þar sem margir þeirra hafa látist áður en þeir hafa náð að eignast afkvæmi.

-------

Þetta dæmi er alveg ótrúlega merkilegt, og sýnir okkur hvers mikil áhrif umhverfi hefur á sýnd og tjáningu gena. Og þið getið verið viss um að fyrir hvert eitt gen sem sýnir svona afgerandi áhrif eru hundrað eða þúsund sem eru með vægar, en sannarlega umhverfistengd áhrif.

Greinina má lesa á vef Plos Genetics

Palsdottir A, Helgason A, Palsson S, Bjornsson HT, Bragason BT, et al. (2008) A Drastic Reduction in the Life Span of Cystatin C L68Q Carriers Due to Life-Style Changes during the Last Two Centuries. PLoS Genet 4(6): e1000099. doi:10.1371/journal.pgen.1000099


Sigurður Richter og Örnólfur Thorlacius heiðraðir

Í tilefni vísindadags voru Sigurður Richter og Örnólfur Thorlacius heiðraðir. Þeir voru umsjónarmenn þáttarins nýjasta tækni og vísindi um árabil og áttu stórann þátt í að kveikja áhuga íslendinga á vísindum.

Hilmar Bragi Janusson forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ veitti þeim viðurkenningu og flutti stutt ávarp.

Örnólfur sagði frá því að tæknilegar ástæður verið fyrir því að hann var settur í mynd. Þættirnir voru teknir upp á spólur, og til að forðast það að taka þyrfti upp allt aftur, var hann klipptur inn á milli myndskeiðanna. Þess vegna varð Örnólfur þjóðþekktur maður, nema á vestfjörðum þar sem ekki var sjónvarp. Ég minnist þess að sem nýnema í MH þótti mér stórmerkilegt að Örnólfur væri rektor skólans. Það voru einnig viss vonbrigði að hann skyldi ekki kenna kenna í neinu líffræðinámskeiði sem ég tók, þó staðgenglarnir væru reyndar hver öðrum betri.

Hvorki Örnólfur né Sigurður vildu kannast við að hafa valið Kraftverklagið, sem hljómaði undir upphafi þáttana síðustu árin. Örnóflur sagði að reyndar hefðu nokkur lög verið notuð, m.a. lag úr amerískum vísindaþætti.

Sigurður lagði einnig áherslu á að hversu erfitt væri að átta sig á notagildi eða mikilvægi einstakra tækninýjunga og uppgötvana vísinda.

Fyrir nokkru hafði Sigurður Richter frætt líffræðinga um að ein kveikjan að þáttunum var ókeypis framboð á frönsku kynningarefni um vísindi. Hann sagði reyndar frá því að líklega væru flestir fyrstu þættirnir tapaðir, vegna þess að Ríkisútvarpið varð að endurnýta spólurnar. 

Einhverjir þættir verða sýndir í Ösku í dag, en einnig er hægt að sjá einn þátt frá 1991 á youtube.

Gott kvöld, í þættinum hér á eftir...

Sigurður H Richter. Nýjasta tækni og vísindi.1991


mbl.is Vísindaveisla í Öskju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasta tækni og vísindi

Slegið verður upp sannkallaðri vísindaveislu á Rannsóknarþingi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands laugardaginn 25. október 2014.

dsimulans_dsechellia_lottetal2007_s.jpgMeira en 30 vísindamenn okkar munu fjalla um sín hugðarefni í stuttum fyrirlestrum á mannamáli.

Sprengjugengið landsfræga og Vísindasmiðjan verða með sýnitilraunir fyrir alla aldurshópa og stjörnutjaldið verður með átta sýningar yfir daginn þar sem hægt er að ferðast um undur alheimsins.

Ævar vísindamaður kíkir í heimsókn milli kl. 12-14, Team Spark sýnir kappakstursbíl og jarðfræðingarnir okkar verða með glænýtt hraun til sýnis, svo fátt eitt sé nefnt! 

Vísindaveislan fer fram í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, aðgangur er ókeypis.

10:00   Setning (Stofa 132) Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs       

10:05   Örnólfur Thorlacius og Sigurður H. Richter heiðraðir (Stofa 132)

Í kjölfarið fylgja margir og ágætir fyrirlestrar á mannamáli um náttúru og tækni, sjá fulla dagskrá


Fyrirlestur um Nóbelinn 2014: GPS-kerfi heilans 23. okt

Fræðsluerindi á vegum Vísindafélags Íslendinga, Háskólans í Reykjavík og Lífvísindaseturs Háskóla Íslands

Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði 2014: GPS-kerfi heilans

Karl Ægir Karlsson doktor í taugavísindum kynnir rannsóknir handhafa Nóbelsverðlauna í lífeðlis- og læknisfræði 2014

Dagsetning: Fimmtudagur, 23. okt. kl. 12:00

Staðsetning: Salur Þjóðminjasafns Íslands

Ágrip: Um aldir hafa verið uppi spurningar um hvernig dýr skynja og rata um umhverfið. Nú í ár deila John O´Keefe, Edvard og May-Britt Moser með sér Nóbelsverðlaunum fyrir uppgötvanir sem gerðu það kleift að svara þessum spurningum. O´Keefe fyrir uppgötvun á staðsetningarfrumum og Moser og Moser fyrir uppgötvun á hnitfrumum. Samvirkni þessara frumna skýrir hvernig umhverfið er táknað í heilanum. Í þessum fyrirlestri verður leitast við að gera grein fyrir bakgrunni þessara uppgötvana, skýra rannsóknaraðferðir og niðurstöður.

Um fyrirlesara: Karl Ægir Karlsson er doktor í taugavísindum og dósent við Tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, hópstjóri í Lífvísindasetri Háskóla Íslands og Forseti Taugavísindafélags Íslands.

Fundarstjóri: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur

Aðrir fyrirlestrar og viðburðir á döfunni.

24. október Ute Stenkewitz - sníkjudýr í rjúpunni (erindi á ensku)

25. október Nýjasta tækni og vísindi: opnir fyrirlestrar

30. október Nóbel í eðlisfræði: Ljóstækni til hagsbóta fyrir mannkyn í Þjóðminjasafni kl 12:00.


Brjóstakrabbamein á Íslandi - leyndardómar og svör

Brjóstakrabbamein er algengur sjúkdómur, og þekking á honum hefur aukist mikið á undanförum áratugum. Hérlendis fannst t.d. stökkbreyting í geni, sem nefnt er BRCA2, sem eykur líkurnar á sjúkdómnum umtalsvert.

Jórunn E. Eyfjörð og samstarfsmenn hafa rannsakað þetta gen og önnur sem eru mikilvæg fyrir DNA viðgerðarkerfi frumunar og stöðugleika erfðaefnisins.

Jórunn mun fjalla um rannsóknir sínar í opnum fyrirlestri næsta þriðjudag, og gera það á mannamáli. Fyrirlesturinn er hluti af röð fyrirlestra sem kallast Vísindi á mannamáli, og verður sá fyrsti í hádeginu á þriðjudaginn í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands.

21 október 2014: Aðalbygging | 12:10

Vísindi á mannamáli: Brjóstakrabbamein á Íslandi og leitin að bættri meðferð

Hugmyndin með Vísindi á mannamáli er að vísindamenn ræði spurningar, niðurstöður og áhrif þekkingar á skýran hátt, þannig að allir geti skilið. Þetta eru ekki erindi fræðimanna fyrir aðra fræðimenn, heldur vísindamenn að ræða við þjóðina sem þeir tilheyra.

Allir eru hvattir til að mæta og hlýða á erindið.

Í tilfelli brjóstakrabbameins er þekkingin mikil en líka flókin. Áhrif umhverfisþátta og gena eru raunveruleg, en samspil þeirra ekki endilega skilin til hlítar.

Það er einnig mikil umræða um hvort og hvernig nota á upplýsingar um stökkbreytingar í genum eins og BRCA2. Eiga heilbrigðisyfirvöld að hafa samband við arfbera, eða á fólk sem er í fjölskyldum þar sem brjóstakrabbi er algengur, að hafa frumkvæðið að genaskimun?

Þetta var til umræðu á fundi sem haldinn var um helgina, að frumkvæði Norrænu Lífsiðanefndarinnar, Siðfræðistofnunar HÍ og norræns samstarfsnets um áhrif genaprófa.

Staðreyndin er hins vegar sú að þótt mannerfðafræðin hafi tekið stórkostlegum framförum á síðasta áratug, þá er langt í land með að þekkingin nýtist í meðferð á algengum sjúkdómum. Engu að síður er framkvæmd skimun fyrir stökkbreytingum sem hafa mjög sterk áhrif á sjúkdóma, t.d. í ákveðnum fjölskyldum. Vandamálið er bara að finna og skilgreina stökkbreytingar með sterk áhrif, því í mörgun tilfellum kemur í ljós að áhrifin eru ansi breytileg.

Í tilfelli Cystic fibrosis (Cf) gensins eru t.d. þekktar 1900 stökkbreytingar. Og mismunandi samsetningar af stökkbreytingum hafa ólík, og oft ófyrirsjáanleg áhrif. Að auki benda nýjar niðurstöður til þess að áhrif algengust stökkbreytingana í Cf geninu, velti m.a. á öðrum stökkbreytingum í erfðamenginu. Þannig að ákveðin stökkbreyting í Cf hefur mikil áhrif í einni fjölskyldu, en væg áhrif í annari. Slíkt samspil gena er eitt af lögmálum erfðafræðinnar, og þýðir að mat okkar á áhrifum sterkra stökkbreytinga verða alltaf háð töluverðri óvissu.

Þessi staðreynd verður að fylgja með í umræðunni um notagildi erfðaprófa í læknisfræði framtíðar.

Ítarefni:

Raðgreiningar og rétturinn til að vita ekki.

http://ncbio.org/english/2014/08/workshop-on-genetic-information-and-the-right-not-to-know/


Tækifæri til að sameina lífvísindafólk

HÍ á Sturlugötu 8 og Íslensk erfðagreining leigir húsið. Íslensk erfðagreining notar ekki allt húsið, eftir fækkun starfsfólks 2006, gjaldþrot 2009, endurreisn sama ár og sölu fyrir tveimur árum. Starfsemi fyrirtækisins þarfnast færra starfsfólks og minna rýmis en í upphafi, sérstaklega er áberandi hversu litlar rannsóknir eru stundaðar með lifandi efni. Mannerfðafræðin byggir aðallega á erfðagreiningum og tölfræði, en minna á rannsóknum á frumum og lifandi dýrum.

Á sama tíma eru vísindamenn sem stunda rannsóknir í líffræði, lífefnafræði og skyldum greinum dreifð um margar stofnanir. Það skiptir sérstaklega miklu máli fyrir sameindalíffræðinga, sem þurfa dýr og flókin tæki fyrir rannsóknir sínar. Margar erlendar stofnanir sameina þessi vísindi í eina byggingu, eða mynda amk kjarna sem geta veitt ákveðna þjónustu (t.d. smásjárvinnslu, erfðagreiningu, tilraunadýrahald eða prótíngreiningar). Þannig er þessu háttað t.a.m. í Sameindarannsóknarstofu Evrópu Í Heidelberg, sem ég hef notið þeirrar gæfu að vitja í tvígang.

Nú eru í kortunum þreifingar um að margir af þeim vísindamönnum sem stunda rannsóknir í sameindalíffræði flytji í eitt húsnæði. Og hugmyndin er að nýta rými á Sturlugötu 8. Þetta er að mínu viti gott tækifæri fyrir okkur sameindalíffræðinga, sérstaklega til að sameina tækjakost og fóstra samskipti á milli rannsóknarhópa. Einhverjir sjá þetta sem möguleika á að þróa samstarf vð ÍE, sem Kári virðist hafa áhuga á, etv til að fylla í gloppur í getu fyrirtækisins.

Einnig er forvitnilegt að velta upp spurningunni, hversu lengi verður ÍE rekið með sama sniði? Mun það vera áfram í fyrirtækjaformi eftir að Kári sest í helgan stein eða rís í staðinn Kárastofnun - Mannerfðafræðistofnun Íslands.


mbl.is ÍE er að auka samstarfið við HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband