Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Krybburnar þagna...

Krybbur (e. crickets) eru vinalegar skepnur en geta verið ansi háværar. Þegar við bjuggum í Norður Karólínu fylltu krybburnar sumarkvöldin með braki og brestum. Karlkrybburnar (hversu kjánalega sem það nú hljómar) syngja með því að skekja vængina, og kvendýrin velja besta eða vandaðasta söngvarann og makast við hann.

En krybbur sem numu land á Hawaii hafa tapað þessu sönghæfileika, á u.þ.b. tuttugu árum. Ástæðan er sú að staðfundin sníkjufluga rennur á hljóðið og verpir eggjum í líkama karlkrybbanna. Eggin klekjast og lirfurnar éta krybbuna upp til agna á um viku.  Þetta hefur leitt til mjög hraðrar þróunar þögulla krybba á tveimur Hawaii-eyjum (Kauai og Oahu). Syngjandi krybbur eru í miklum minni hluta á eyjunum, en hinar þöglu alsráðandi.

Nýleg rannsókn skoðaði  form vængjanna á báðum eyjunum og tengda erfðaþætti. Megin niðurstöðurnar eru þessar.

1. Vængir syngjandi krybba á Kauai og Oahu eru næstum því eins í laginu.

2. Vængir þögulla krybba eru mjög ólíkir vængjum hinna syngjandi.

3. Vængir þöglu krybbana á Oahu eru mjög ólíkir vængjum þöglu krybbana á Kauai

Þetta sýnir að þróunin hefur farið ólíkar leiðir til þess að þagga í Krybbunum.(sjá myndir á vef BBC)

Hið sérkennilega er að sama svæði á litningum dýranna tengist söngnum á báðum eyjum. Þannig að þótt að útlit dýranna sé töluvert ólíkt, gæti verið að um sambærilega erfðagalla sé að ræða. Reyndar þarf frekari rannsókna við til að staðfesta tengslin milli ákveðinnar stökkbreytingar og lögunar vængjanna.

Ég fékkst einmitt við að kortleggja gen sem tengjast formi vængja í Norður Karólínu. Á myndinni hér fyrir neðan sést vængur ávaxtaflugu, með stoðæðum. Fyrir neðan eru myndir sem sýna hvaða breytingar á vængjunum eru algengastar (vinstra megin lögum miðhluta vængsins og hægra megin vængsins í heild). Fyrir miðsvæði vængsins er mest breyting í afstöðu krossæðanna tveggja. Við fundum að stökkbreyting fyrir framan EGFR genið tengist einmitt breytileika í fjarlægð á milli krossæðanna. Þannig að þið skiljið að maður espist upp, þegar maður les svona æsispennandi frásögn um vængi, og krybbur sem þagna...

wingshape.jpg

Ítarefni:

Sonia Pascoal o.fl. 2014 Rapid Convergent Evolution in Wild Crickets Current biology

dx.doi.org/10.1016/j.cub.2014.04.053

Crickets in two places fall silent to survive

Palsson A, Dodgson J, Dworkin I, Gibson G. Tests for the replication of an association between Egfr and natural variation in Drosophila melanogaster wing morphology. BMC Genet. 2005 Aug 15;6:44.


Riða, minningar og brjálæði

Riða er einn dularfyllsti sjúkdómur heims. Hún smitast á milli kinda, án þess að nota erfðaefni.

Riða og aðrir skyldir sjúkdómar, eins og Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómurinn og brjálaða kúapestin (mad cow disease), byggjast á smitandi prótíni. Prótínin sem kölluð eru príon eru þeirri sérstöku náttúru gædd, að geta skipt á milli byggingarforma. Svona dálítið eins og transformers, nema hvað eðlilega og náttúrulega. Annað formið er starfhæft prótín, hitt formið myndar klasa sem geta byggst upp og orðið til vandræða. Smitandi prótín hvatar myndun klasa og ýtir þannig sjúkdómunum af stað. 

Riða var rannsökuð hérlendis af Birni Sigurðsyni og samstarfsmönnum á Keldum um miðbik síðustu aldar. Björn var mikill brautryðjandi í þessum rannsóknum, sem og á mæði visnu veirunni sem er skyld hinni skæðu HIV sem veldur alnæmi. Hannskilgreindi hæggenga veiru (smit) sjúkdóma fyrstur manna.

Stanley Prusiner fékk Nóbelsverðlaunin árið 1997 fyrir að sýna fram á að prótín gætu verið smitefni. En tilgátu hans var ekki vel tekið í upphafi, og það tók mörg ár þangað til uppgötvun hans var viðurkennd af vísindasamfélaginu. Sem betur fer er Prusiner mjög staðfastur og hollur sinni tilgátu, því aðrar manngerðir hefðu etv. gefist upp á mótlætinu og farið að rannsaka auðveldari hluti.

Það getur reyndar bæði verið slæmt og gott að vera staðfastur vísindamaður. Í tilfelli Prusiners hafði hann rétt fyrir sér, um príonin amk. En í mörgum öðrum tilfellum hafa vísindamenn hangið eins og hundar á roði, í tilgátum sem fyrir löngu hafa verið afsannaðar.

Prusiner gaf nú í vor út bók sem heitir Memories and Madness. Hún er á leslistanum mínum.

Ítarefni:

Zoë Corbyn The Guardian 30. maí 2014 Stanley Prusiner: 'A Nobel prize doesn't wipe the scepticism away' The neurologist whose discovery of the agent that causes CJD reveals why his finding was greeted with disbelief
 

Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“. Vísindavefurinn 1.8.2003. http://visindavefur.is/?id=3628.


Kynbætur fiska og fleiri erindi

Hér eru nokkrar tilkynningar um málþing, doktorsvarnir og meistarfyrirlestra.

Miðvikudaginn 28. maí ver Theódór Kristjánsson doktorsritgerð sína í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Kynbótaskipulag fyrir eldisþorsk. Vörnin fer fram í Ásgarði (Ársal) á Hvanneyri og hefst kl. 13.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Þorvaldur Árnason, gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla ÍslandsUmsjónarkennari: Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
http://lbhi.is/?q=is/doktorsvorn_i_buvisindum_theodor_kristjansson_kynbotaskipul…

Í tengslum við doktorsvörn Theódórs Kristjánssonar verður haldið málþing um kynbætur fiska þriðjudaginn 27. maí n.k. kl 13:30 til 15:30 í fyrirlestrarsal LbhÍ á Keldnaholti.
http://lbhi.is/?q=is/malthing_um_kynbaetur_fiska_keldnaholti_thridjudaginn_27_ma…
Dagskrá:

Genomics in aquaculture – Dr. Anna Soneson NOFIMA

Molecular variation in Atlantic cod – Dr. Snæbjörn Pálsson prófessor HÍ

Genetic architecture of fitness traits in Arctic charr from the Hólar breeding program – Dr. Eva Kuttner MATÍS

Applying genomics for improving disease traits in Stofnfiskur salmon breeding program – Dr. Jónas Jónasson Stofnfiski

Málþingið fer fram á ensku og málþingsstjóri er Dr. Sigurður Guðjónsson forstjóri Veiðimálstofnunar

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgMynd, bleikjuhrogn AP haustið 2010.

Nokkrar meistaravarnir verða á næstu dögum

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlesturenvironmental_microbial_diversity_…

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlestur_long_term_changes_in_the_distribu…

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlestur_humpback_whale_megaptera_novaeang…


Tengsl á milli smjörklípa og gæða dagblaða?

Tyler Vigen er snillingur. Hann fann fullt af mjög sterkum samböndum risastóru gagnasetti.

Og hann sýnir að fylgni sannar ekki orsök.

http://www.tylervigen.com/

2014-05-15_12_40_24.jpgÞúsundir tölfræðinga og vísindamanna hafa reynt að útskýra þetta fyrir fólki í rúmlega heila öld, en að mestu án árangurs.

Máli mínu til stuðnings fylgir mynd af bænabeiðu (praying mantis)...þ.e.a.s. ekkert orsaka samband er milli fjölda bænabeiða og fingra.

Við erum ótrúleg fljót að sjá mynstur milli furðulegra hluta, og jafnvel trúa því að um orsakasamband sé að ræða. Hvernig í ósköpunum haldið þið að hoppiskopp og tiktúrur töfralæknanna hafi komið til. Og helgisiðasamsull skipulagðra trúarbragða? (Trúlega er það trúlegi heilinn)

Altént, Tyler er nýja goðið mitt. Ef ég fer með nokkrar Tylerbænir og færi fórnir þá gengur næsta tilraun ...

Ég mæli eindregið með myndböndum Ze Frank sem kallast True facts (t.d. True Facts About The Dung Beetle) - nokkurn veginn Attenborough stappfullur af húmor og The Allium

Software engineer develops app that’s pretty much the same as all the other apps

Local software engineer, David Brightman (38) sat down with us Monday to tell us the remarkable story behind how he developed a revolutionary new app that mostly does stuff that all the other apps do too.

Scientists Close to Making Matter from Flour, Eggs and Milk

Scientists have reported today that they are tantalisingly close to making matter from flour, eggs and milk. “We are pretty sure we can make some matter from these ordinary household items”, said lead scientist Dr. Chris Cross.

Inter-faith marriage: Bayesian and Frequentist tie the knot

Noted Yale Bayesian Dr. Cal Culus and Harvard frequentist Dr. Poly Nomial got married Friday at what some friends said was probably, or indeed quite likely, an intimate ceremony.



mbl.is Tengsl milli smjörlíkisneyslu og skilnaða?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hráefni fyrir vísindi og velferð

Fræðimenn og vísindamenn eru drifnir áfram af forvitni, en þurfa gott umhverfi til að geta náð árangri. Þeir þurfa að fá aðstöðu og örvandi umhverfi, tækifæri til að kenna og sækja vísindafundi. Og þeir þurfa fjármagn til að framkvæma rannsóknirnar, hvort sem það eru talningar á fuglum í björgum, mælingar á þenslu kvikuhólfa, greining á félagslegum áhrifum snjallsíma eða greiningar á virkni gena sem stýra þroskun.

Hérlendis hefur fjármögnun vísinda verið í skötulíki. Miðað við aðrar vesturlandaþjóðir verjum við lítilli prósentu ríkisútgjalda til samkeppnissjóða. Samkeppnisjóðirnir styrkja verkefni í grunnrannsóknum en einnig til tækniþróunar. Sjóðirnir hafa rýrnað undanfarin ár því þeir hafa staðið í stað í krónutölu, þeir voru auknir í gegnum veiðigjald og skornir aftur þegar ný stjórn tók við (síðasta haust).

Blessunarlega virðist ríkistjórnin hafa skipt um skoðun, miðað við fréttir af aðgerðaráætlun Vísinda og tækniráðs, og loforðum forsætisráðherra.

Aðgerðaráætlunin útlistar 21 atriði sem eiga að bæta umgjörð og afrakstur vísinda og nýsköpunar hérlendis. Eins og við ræddum í gærkvöldi þá er mikil áhersla á að skapa störf og bæta tengsl við atvinnulífið. Það á að hvetja atvinnulífið til þess að leggja 5 milljarða í rannsóknir, yfir tveggja ára tímabil. Hugmyndin er að nota skattkerfið til að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun. Það er lofsvert markmið, en því skal haldið til haga að velferðin er ekki bara tengd peningum, heldur einnig upplýstu, gagnrýnu og samheldnu þjóðfélagi. Slíkt gerist ekki að sjálfu sér, heldur þarf góða menntun, fjölmiðla, áhugamannafélög og ríkisstofnanir.

Í áætluninni eru einnig atriði um sameiningu mennta og rannsóknarstofnanna, og að fjármögnun þeirra komi að stærra leyti úr samkeppnissjóðum.

Margt í þessu er mjög jákvætt, en það má ekki gleymast að mörg vandamá íslenska rannsókna og menntakerfisins eru tengd aldarlöngu fjársvelti og brengluðum kerfum (eins og t.d. vinnumatskerfi opinberu háskólanna).

Þessari nýju áætlun bera að fagna, og við vonum að framkvæmdin gangi eins vel og hægt er.

Ítarefni:

Arnar Pálsson | 22. maí 2013 Verða framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega?

Lesa má aðgerðaáætl­un­ina í heild hér.

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/vt/2014-5-22-stefna-adgerda-vt.pdf

Arnar Pálsson og Pétur H. Petersen | 31. mars 2014 Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda  

Arnar Pálsson og Pétur H. Petersen | 18. desember 2013 Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun


mbl.is 2,8 milljarðar í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega?

Vísindi gerast ekki að sjálfu sér og né tómarúmi. Það þarf gott fólk og góða umgjörð til að þau geti blómstrað og bætt mannlegt líf. Hérlendis hefur fjármögnun vísinda rekið fyrir vindum, skorin niður í hruni, aukin í gegnum veiðigjald og skorin aftur þegar ný stjórn fílar ekki veiðigjald.

Vísinda og fræðisamfélagið tók niðurskurði á rannsóknarsjóðum og nýsköpunarkerfinu mjög illa síðasta haust, eins og við fjölluðum um hér. Sérstaklega var neyðarlegt misræmi á gjörðum og áætlunum, þegar ný stefna vísinda og tækniráðs var kynnt síðastliðið haust.

Á vef Forsætisráðaneytisins segir.

Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækni­­þróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka sam­keppnis­hæfni atvinnulífsins.

Forsætisráðherra er formaður ráðsins, en þar sitja einnig fjármálaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra auk 16 fulltrúa sem eru tilnefndir í ráðið af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins, auk þess sem forsætisráðherra getur kveðið allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu.

Í ráðinu sitja nokkrir ráðherrar, sem virtust kippa sér lítið upp við misræmið á milli orða og aðgerða. Allavega var mjög róttækur niðurskurður samþykktur á fjárlögum, og teikn á lofti um frekari niðurskurð næstu ár á eftir.

Í kvöld komu hins vegar jákvæð merki frá fundi Vísinda og tækniráðs. Á vísir.is segir:

Á fundi Vísinda- og tækniráðs, sem haldinn var í dag, var samþykkt aðgerðaáætlun sem ætlað er að styðja við og efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og gagnsæja nýtingu opinbers fjár en þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Í kjölfarið verður auknu fjármagni varið í þennan málaflokk. Stórauka á fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar þannig að árið 2016 nái þær 3,0% af vergri landsframleiðslu (VLF) og verði sambærilegt því besta sem þekkist innan OECD. Aðgerðunum er sömuleiðis ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun.

„Það er von mín að stefnan og aðgerðaáætlunin, sem nú hefur verið samþykkt, muni efla til muna nýsköpun og þróun hér á landi og hafi jákvæð og varanleg áhrif á hagvöxt og lífskjör til framtíðar litið. Það er í samræmi við áherslur stjórnvalda um nýsköpun í öllum atvinnugreinum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Vísinda og tækniráðs. 

Í fréttinni er síðan fjallað meira um aðgerðaáætlunina og áherslur stjórnvalda. Höfuð áherslan er á atvinnuskapandi rannsóknir og hagnýtingu, sem er nákvæmlega sömu áherslur og í rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Sumum finnst reyndar nóg um þar, því að rannsóknir geta verið einstaklega gagnlegar fyrir þjóðir og mannkyn þótt að engin einkaleyfi hljótist af. Grunnþekking bætt og eflt mannlega þekkingu og líf á ófyrirsjáða vegu.

Engu að síður fagna ég þessari áætlun og hlakka til að sjá hvernig hún verður útfærð. Vonandi stenst vísinda og tækniráð þá freistingu að setja allt púðrið (raforkuna) í álrannsóknir.

Ítarefni:

Vísinda- og tækniráð, stefna og skýrslur

Vísir.is 22. maí 2014 Framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega

Arnar Pálsson | 29. október 2013  Segja sig úr vísinda og tækniráði

 

Arnar Pálsson | 5. desember 2013 Heill árgangur af vísindafólki rekinn

 


og mýs sem elska að hlaupa

Moskítóflugur er ein mesta morðingi dýraríkisins, vegna þess hvaða pestir þær bera með sér. Malaría, einnig kölluð mýrarkalda, er svæsin hitasótt sem drepur milljón manns á ari.

Af vef landlæknis.

Malaría er algengur sjúkdómur í heittempruðum löndum og hitabeltislöndum. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er áætlað að um 300 milljón manns smitist árlega af malaríu og leiðir hún til a.m.k. milljón dauðsfalla á ári hverju. Um 90% dauðsfalla eru meðal barna og verst er ástandið í Afríku sunnan Sahara.
Malaría var landlæg sýking í Evrópu en hvarf á seinni hluta 19. aldar. Engar markvissar aðgerðir voru til að útrýma henni, en eyðing votlendis, bætt umönnun dýra, bætt húsakynni og lyf gegn malaríu áttu þátt í að hún er ekki lengur landlægur sjúkdómur. Ekki er vitað til að malaría hafi nokkurn tíma verið landlæg á Íslandi enda eru hér engar moskítóflugur. Hérlendis greinast árlega stöku tilfelli, öll meðal ferðamanna sem koma frá löndum þar sem malaría er landlæg.

 

Það er því grafalvarlegt ef flugurnar eru farnar að leita norður á bóginn. Við íslendingar höfum margir hverjir stært okkur af pöddufríu land, engar moskítóflugur og engir kakkalakkar. Persónulega sakna ég ávaxtaflugna, drekaflugna og eldflugna frá ameríku, en það verður ekki á allt kosið.

En kýs maður sína hreyfingu, eða viljum við helst liggja í leti og spara orkuna fyrir eitthvað mikilvægara... Svörin við þessari spurningu er nokkur, og nóg til af hlaupelskandi mannfólki. Það má snúa spurninginn aðeins á hlið. Finnst öðrum dýrum gaman að hlaupa?

Stóra hlaupahjólið er staðalbúnaður í mörgum músabúrum og tilraunastofum. Hjólið er notað til að meta ólíka eiginleika músa, en alltaf er það notað inni á rannsóknarstofu.

Hollenskir vísindamenn gerðu pínkulítið skrýtna tilraun. Þeir settu músahlaupahjól út í garð, og fylgdust með hvort dýr merkurinnar hefðu gaman að apparatinu. Viti menn, mýs, rottur, froskar og sniglar prufuðu tækið. Þessir tveir síðast töldu  

Ítarefni:

Townroe S, Callaghan A (2014) British Container Breeding Mosquitoes: The Impact of Urbanisation and Climate Change on Community Composition and Phenology. PLoS ONE 9(4): e95325. doi:10.1371/journal.pone.0095325

James Gorman NY Times 20. maí 2014. Mice Run for Fun, Not Just Work, Research Shows

Johanna H. Meijer og Yuri Robbers Wheel running in the wild  Proc. R. Soc. B 7 July 2014 vol. 281 10.1098/rspb.2014.0210


mbl.is Moskítóflugur hreiðra um sig í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi eins og við stundum þau

Til hvers vísindi og hvernig eigum við að halda um þau?

Afburða popplag með hljómsveitinni Talk Talk heiti Life is what you make it. Laglínan er leiftrandi en lagið sveiflast samt á milli hófstillts trega og einlægrar bjartsýni.

Ég held því ekki fram að við getum stundað vísindi eins og okkur sýnist. Vísindi eru íhaldsamt fyrirbæri, sem byggjast á reglum og hefðum. Við verðum að nota aðferð vísinda af mikilli kostgæfni og samviskusemi. Við verðum að greina gögnin af heiðarleika, setja fram niðurstöður í samhengi við bestu fáanlegu þekkingu og taka þátt í umræðu um hugmyndir, tilgátur og niðurstöður af háttvísi og heillindum.

Ég vildi frekar fjalla um umgjörð og væntingar fólks til vísinda. Kjarninn liggur e.t.v. í tveimur spurningum.

Hvað viljum við sem samfélag gera með vísindin?

Hvers væntum við sem samfélag frá vísindum?

Reynum fyrst að svara seinni spurningunni. Francis Bacon lagði áherslu á að vísindi eigi að bæta líðan og líf manna. Vísindin eru ekki bara til að seðja forvitni útvalinna (þótt það viðurkennist að forvitnir vísindamenn ganga fyrir mjög öflugu drifi) heldur þjóna mannlegu samfélagi. Vísindaleg þekking eigi að vera til hagnýtingar fyrir fólk, lönd og heiminn. Hún á að nýtast til að berjast við farsóttir, yfirstíga vandamál og bæta líðan fólks, óháð stétt eða stöðu. Nútildags telja nær allir vísindamenn sig stefna að þessu marki, þótt sumir kjósi vissulega að vinna sín verk innan fyrirtækja, sem búa til störf eða eitthvað ámóta sem hagnast fólki, þjóð og hluthöfum.

En hvað vill samfélagið gera við vísindin?

Fyrir 150 árum voru vísindi áhugamál ríkra manna eða kennara við örfáa skóla í Evrópu og Ameríku. Uppsöfnuð þekking mannkyns á lögmálum eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði og líffræði fyllti nokkur hundruð bækur. Við vorum með takmarkaðan skilning á byggingu samfélaga, efnahagsmálum, sögu þjóða eða trúarbragða, eiginleikum mannsandans og stöðu okkar í óravíddum heimsins.

Þessir áhugamenn, oft kallaðir náttúruguðfræðingar, uppgötvuðu stórkostlega hluti. En þeir áttuðu sig líka á því hve umgjörð vísinda var rýr. Náttúrufræðingarnir og aðrir fræðimenn stofnuðu með sér félög, til að kynna niðurstöður, bæta upplýsingaflæði og leggja sameiginlegar línur. Þeir tóku sig líka til og rökstuddu mikilvægi vísinda almennt, og sérstakra verkefna, fyrir ráðamönnum.

Charles Babbage sem við fjölluðum um fyrir skemmstu, fékk t.d. dágóðar summur frá Breska ríkinu til að búa til fyrstu sjálfvirku reiknivélina. Vinur hans William Whewell, skipulagði mælingar á flóði og fjöru yfir stóran hluta Evrópu og Atlantshafs. Það verkefni var bæði fræðilega forvitnilegt og lífsnauðsynlegt því marga skipskaða mátti rekja til vanþekkingar á sjávarföllum.

Þeir félagar trúðu einlæglega á heimspeki F. Bacons, um að vísindin ættu að þjóna fólkinu. Babbage sagði t.d. að þeir ættu að gera sitt besta til að skilja heiminn eftir vísari en hann var þegar þeir fundu hann (do their best to leave the world wiser than they found it).

Það er ekki mín ætlan að svara spurningunni hér að ofan. Frekar að kynna hinn almenna borgara fyrir grunngildum vísinda og uppruna skipulagsins sem nú er við lýði. Og við félaga mína í fræða og vísindasamfélaginu vil ég leggja sömu áherslur. Vísindin, umgjörð þeirra og afleiðingar eru á okkar ábyrgð. Reynum að sinna öllum þessum verkefnum af alúð og samviskusemi.

Ítarefni:

Ljósið var hans fyrsta ást

Tölvur og ljómandi flott veisla

Philosophical Breakfast Club | Laura J. Snyder


Nafnlaus börn kortleggja sögu Ameríku

Mannfræðingar og erfðafræðingar hafa lokið upp leyndarmálum um sögu mannkyns. Með því að greina leifar fólks í jarðlögum, meta aldur beina, mannvistarleifa og jarðlaga, er hægt að kortleggja útbreiðslu forfeðra okkar um álfurnar og eyjarnar.

Með sameindaerfðafræði er hægt að raðgreina erfðaefni úr beinum, ef þau eru nægilega ung og ekki skemmd. Þannig var hægt að raðgreina erfðamengi Neanderdalsmanna og Clovis drengsins, sem við fjölluðum um í febrúar. Úr þeim pistli:

---------------------

Nafnlaus drengur kortleggur sögu Ameríku

[Nýlega] bárust fréttir af niðurstöðum stórrar rannsóknar Eske Willerslev við Kaupmannahafnarháskóla og samstarfsmanna hans, sem varpa ljósi á sögu Ameríkubúa.

Forsagan er sú að fyrir rúmum 50 árum fannst bein á Anzick landareigninni í Montana. Beinið fannst á sama stað og sérlega vandaðir steinoddar, sem kenndir eru við Clovis-menninguna. Clovis menningin er forvitnileg fyrir sögu Ameríku, því þar fundust fyrst háþróaðir spjótsoddar, sem hægt var að festa á kastspjót. Gripirnir eru um 13.000 ára gamlir, og finnast vítt og breitt um N. Ameríku. Í eldri jarðlögum finnast engar menjar um menn eða verkfæri. Því er talið að Clovis menn hafi verið fyrstu landnemarnir í Ameríku. Einnig hefur því verið haldið fram að Clovis fólkið hafi veitt og útrýmt mörgum stórum landdýrum sem fyrir voru í Ameríku (t.d. stórum letidýrum, amerískum hestum og sverðtígrinum).

Ýmsar hugmyndir voru um uppruna Clovis fólksins, t.d. að það hefði komið frá Síberíu yfir Beringseiðið, eða jafnvel frá Eyjaálfu eða Evrópu.

Raðgreining á DNA í Anzick beininu sýnir hins vegar að drengurinn er náskyldur núverandi íbúum Ameríku. Sérstaklega er mikill skyldleiki við ættbálka í S. Ameríku en einnig við frumbyggja N. Ameríku og austurhluta Síberíu. Gögnin duga ekki til að skera úr um hvort að Ameríka var byggð af einni holskeflu, eða hvort fleiri bylgjur fólks hafi numið þar land.

---------------------

Erfðafræði til að greina sögu og staðfesta fordóma

Vísindablaðamaðurinn Nicholas Wade við New York Times gaf nýlega út bókina A Troublesome Inheritance (Vandræðalegur arfur?). Þar fjallar hann um framfarir í erfðafræði og rannsóknum á sögu mannsins. Hann segir að nú séum við tilbúin að greina erfðaþættina sem útskýri greind og félagslega færni. Og hann er nokkuð viss um að greind og félagslegir eiginleikar séu mismunandi á milli kynþátta. Reyndar hefur hann engin gögn til að styðja mál sitt, en samkvæmt ritdómi þá leggur hann upp í skáldaleiðangur mikinn til að undirbyggja hugmyndir sínar. Hann segir t.d.

slight evolutionary differences in social behavior” underlie social and cultural differences. A small but consistent divergence in a racial group’s tendency to trust outsiders — and therefore to accept central rather than tribal authority — could explain “much of the difference between tribal and modern societies

Síðan heldur hann því fram að landafundirnir og nýlenduveldin hafi verið bein afleiðing þess að við vesturlandabúar værum þróunarlega greindari en hinir. Þetta eru fordómar og kynþáttahatur í nýjum fötum.

Stofnerfðafræðingar hafa hakkað röksemdir hans í sig og Arthur Allen, sem ritaði dóm fyrir NY Times var alls ekki hrifinn:

When it comes to his leitmotif — the need for scientists to drop “politically correct” attitudes toward race — Mr. Wade displays surprisingly sanguine assumptions about the ability of science to generate facts free from the cultural mesh of its times. He argues that because the word “racism” did not appear in the Oxford English Dictionary until 1910, racism is a “modern concept, and that pre-eugenics studies of race were “reasonably scientific.” This would surely surprise any historian of European colonies in Africa or the Americas.

Hann lýkur ritdóminum með:

The philosopher Ludwik Fleck once wrote, “ ‘To see’ means to recreate, at a suitable moment, a picture created by the mental collective to which one belongs.” While there is much of interest in Mr. Wade’s book, readers will probably see what they are predisposed to see: a confirmation of prejudices, or a rather unconvincing attempt to promote the science of racial difference.

Þannig að með aukinni þekkingu koma líka tækifæri fyrir fólk að fóðra sína fordóma. Því er mikilvægt að muna söguna og hvernig foringjar, stjórnmálamenn og hagsmunahópar hafa teygt og togað staðreyndir (trúar)sannfæringu sinni til réttlætingar.

Ítarefni.

Arnar Pálsson 14.2.2014 Kóngar og nafnlausir drengir

Arthur Allen 15. maí 2014 NY Times. Charging Into the Minefield of Genes and Racial Difference: Nicholas Wade’s ‘A Troublesome Inheritance’

Arnar Pálsson | 25. maí 2011 Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Arnar Pálsson | 15. mars 2012  Ný-útdauðir frummenn

Leiðréttingar: Síðdegis 16. maí var nafn Arthur Allens leiðrétt og tengli bætt við.


mbl.is Stúlkan sem ljóstrar upp leyndarmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?

Tvíburar eru af tveimur megingerðum, eineggja eða tvíeggja. Tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa. Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa. Þannig eru eineggja tvíburar alltaf af sama kyni meðan tvíeggja tvíburar geta verið af sama kyni eða sitthvoru. Samkvæmt lögmálum erfða deila tvíeggja tvíburar jafn mörgum genum og venjuleg systkin, um 50%. En eineggja tvíburar eru frábrugðnir því báðir fá sama erfðamengi frá hinu frjóvgaða eggi; þeir eru því erfðafræðilega eins (100% genanna eru þau sömu). Guðmundur Eggertsson svaraði spurningunni Eru eineggja tvíburar með nákvæmlega eins erfðaefni? árið 2000 á þessa leið:

Eineggja tvíburar eru komnir af einni og sömu okfrumunni og hafa nákvæmlega eins erfðaefni ef undan eru skildar stökkbreytingar sem kunna að hafa orðið í líkamsfrumum þeirra. Þeir eru samt aldrei alveg eins, sem sýnir og sannar að genin ein ráða ekki öllu um þroskun einstaklingsins.

Eineggja tvíburar koma úr einu frjóvguðu eggi sem myndar tvo fósturvísa á meðan tvíeggja tvíburar verða til þegar tvö egg frjóvgast í sama tíðahring og bæði leiða af sér fósturvísa.

Guðmundur vísar hér til mikilvægis umhverfis og tilviljunar. Eiginleikar lífvera eiga sér rætur í erfðum, umhverfi og tilviljunarkenndum atburðum. Hlutfallslegt mikilvægi þessara þátta er mismikið, eftir eiginleikum. Flestir átta sig á áhrifum erfða og umhverfis en mikilvægi tilviljana er oftast vanmetið. Tilviljanirnar koma hins vegar skýrt í ljós við þroskun einstaklinga. Hægri og vinstri hlið líkamans hafa sömu arfgerð, fá sömu næringu en eru samt ekki nákvæmlega eins; þannig getur erfðasamsetning hægra nýra og vinstra nýra sama einstaklings verið ólík. Staða og stærð fæðingarbletta er til dæmis háð tilviljun í þroskun og einnig er oft ósamhverfa í andlitsfalli eða lögun handa. Bókhaldsgreiningar sýna að tilviljun útskýrir ef til vill sjaldan meira en 1-5% í breytileika í eiginleikum. Slíkar greiningar sýna líka að arfgengi, það er áhrif genanna, mismunandi eiginleika er mismikið. Þær sýna að eiginleikar eineggja tvíbura eru oft mjög áþekkir en aldrei nákvæmlega eins vegna til dæmis tilviljana eða mismunandi umhverfis, það er annar tvíburanna borðaði hugsanlega hafragraut en hinn slátur. Lögun andlits er með frekar hátt arfgengi, þá eru áhrif umhverfis og tilviljana lítil. En staðsetning fæðingarbletta er með mjög lágt arfgengi vegna þess að þar ræður tilviljun mestu. Því er mjög ólíklegt að eineggjatvíburar séu með fæðingarbletti á sama stað. Vitað er að eineggja tvíburar eru ekki nákvæmlega eins í útliti og dæmi eru um að annar tvíburinn fær sjúkdóm sem hinn sleppur við. Oftast er umhverfi eða tilviljun kennt um. En eins og Guðmundur víkur að er málið ekki svo einfalt. Lífverur eru samansettar úr tvennskonar frumum, kímlínufrumum og líkamsfrumum (einnig kallaðar sómatískar frumur). Kímlínan eru frumur sem koma til með að mynda kynfrumurnar og þær fara í gegnum tiltölulega fáar skiptingar. Líkamsfrumurnar skipta sér hins vegar margfalt oftar og mynda alla aðra vefi líkamans, til dæmis húð, lungu og taugar.

Sumir eiginleikar mannfólks eru með sterkt arfgengi og verða það svipaðir milli eineggja tvíbura að þeir virka sem spegilmyndir hvor af öðrum. Aðrir eiginleikar, eins og fæðingarblettir, eru meira tilviljun háðir og munu ekki speglast á milli eineggja tvíbura frekar en milli hægri og vinstri hliðar sama einstaklings.

Árið 2008 birti hópur við háskólann í Birmingham Alabama niðurstöður í tímaritinu American Journal of Human Genetics sem sýna að eineggja tvíburar eru ekki með nákvæmlega eins erfðaefni. Þeir beittu nýlegri tækni sem finnur grófar breytingar í erfðamengjum. Niðurstöðurnar sýna að eineggja tvíburar eru fjarri því að vera með eins erfðamengi, til dæmis geta heilu genin dottið út. Einnig var sýnt fram á að mikill munur getur verið á milli vefja, til dæmis lungna og tauga, þar sem sum gen vantar í ákveðna vefi en ekki aðra. Þetta getur náttúrulega útskýrt hvers vegna annar tvíburi fær ákveðinn sjúkdóm en hinn ekki. Það er því staðfest að eineggja tvíburar eru ekki með 100% eins erfðamengi. En ekki er ljóst hver rétta talan er, það er hvort hún sé til dæmis nálægt 99.999% eða 99.998%. Og eins og þekkt er úr erfðafræðinni og þróunarfræðinni geta litlar breytingar vegið mjög þungt. Ef eineggja tvíburar eru grunaðir um glæp, má nýta sér þetta til að finna út hvor þeirra var á vettvangi. Með réttri tækni er hægt að greina erfðasamsetningu úr skinnpjötlu sem finnst á morðvopni og þar með skera úr um hvor eineggja tvíburanna er sá seki. Stuttu svörin eru því þessi.
  • Eineggja tvíburar verða aldrei nákvæmlega eins vegna áhrifa tilviljunar, umhverfis og breytinga á líkamsfrumum.
  • Eineggja tvíburar eru ekki með nákvæmlega eins erfðaefni í öllum frumum sínum.
  • Eineggja tvíburar eru ekki spegilmyndir hvor annars. Það sama á við um tvíeggja tvíbura.

Pistillinn birtist á vísindavefnum í janúar.

Arnar Pálsson. „Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins?“. Vísindavefurinn 14.1.2014. http://visindavefur.is/?id=53647. (Skoðað 15.5.2014).

Ítarefni:

Upphafleg spurning hljóðaði svo:
Eru eineggja tvíburar alltaf alveg eins eða er möguleiki á að vera eineggja tvíburar þegar annar er með fæðingarblett á hægri öxlinni en hinn á vinstri en samt á nákvæmlega sama stað? Spurning mín er eiginlega hvort að eineggja tvíburar geti "speglað" hvorn annan eða eru þeir þá tvíeggja?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband