Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Halló þögla hugsun, viltu vera ein?

Hvað gerum við þegar ekkert er að gera?

Hvert leitar hugurinn þegar augun eru ekki að gleypa í sig umhverfið, eyrun samræður eða fingurnir form?

Hvernig líður okkur þegar við erum ein með hugsunum okkar?

Nýleg rannsókn sem birtist í Science tókst á við þriðju spurninguna. Rannsóknin verður rædd hér af áhuga og takmarkaðri þekkingu.

Einangrun sturlar hugann

Fyrir nokkru var sýndur þáttur í sjónvarpinu um franskan frumkvöðul sem vildi rannsaka innri klukku líkamans og hvernig menn brygðust við því að vera einangraðir í helli án þess að sjá klukku eða sólarupprás. Hann lýsti því hvernig einangrunin fór að hafa áhrif á sálarlífið, og hvernig hugsanirnar urðu einfaldari og tímaskynið brenglaðist.

Í þessu samhengi eru einnig minnisstæðar sögur Paul Auster um einfara í New York Trilogy. Þær fjalla um menn sem lenda í þeirri aðstöðu að dvelja einir í lengri tíma. Einn þeirra húkir í húsasundi í fleiri mánuði og bíður eftir því að sjá gamlan mann ganga inn í hús. Hugur mannsins í húsasundinu hrynur. Hann fer ekki einu sinni heim til sín eða baðast. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig einangrun fer með huga, t.d. fanga eða þeirra sem týnast í mörkinni.*

Einveran er böl

Rannsóknin í Science byggðist á því að setja sjálfboðaliða í herbergi án bóka, sjónvarps, síma eða annarra hluta sem við notum til að "drepa tímann". Fólk þurfti að sitja þarna inni í 6-15 mínútur. Í ljós koma að flestum fannst óþægilegt að sitja ein með hugsunum sínum. Mun óþægilegra en að leysa einfalda þraut eða verkefni.

Í einni tilrauninni gat fólk gefið sjálfum sér létt rafstuð. Ótrúlega margir kusu að prufa að gefa sér rafstuð, frekar en að sitja einir með hugsunum sínum. Jafnvel þó að þau hefðu, samkvæmt spurningarlista sem lagður var fyrir í upphafi tilraunar, frekar kosið að borga pening en að fá rafstuð.

Rannsóknin hefur valdið töluverðri umræðu um orsakir og afleiðingar þessara tilhneyginga. Nú er rétt að minna á að ég er ekki sálfræðimenntaður, og get því ekki metið umræðuna sem slíkur. Ég styðst að miklu leiti við greinarstúf Kate Murphy í NY Times (No time to think).

Einvera er blessun

Dauðar stundir og einvera bjóða upp á innhverfa hugsun. Þá gefst okkur tækifæri á að hugsa um líf okkar, fortíð, framtíð og nútíð. Sannarlega leitar hugurinn oft til óleystra vandamála (finnum við betra húsnæði, mun hún elska mig áfram, jafnar afi sig af veikindunum) og gefur okkur þá tækifæri á að meta þau og jafnvel leysa. Í greininni í NY Times er vitnað í Ethan Kross, háskólann í Michigan (University of Michigan).

One explanation why people keep themselves so busy and would rather shock themselves is that they are trying to avoid that kind of negative stuff...

It doesn’t feel good if you’re not intrinsically good at reflecting. 

Niðurstöðurnar má einnig túlka sem merki um eirðarleysi mannfólks. Okkur líður illa í verkfalli, þar sem við þurfum eitthvað við að vera. Þróunarsálfræðingar gætu túlkað niðurstöðurnar þannig að árangur okkar sem tegundar sé tengdur þessu eirðarleysi. Lúsiðnir forfeður okkar voru duglegri að safna mat, reisa hús, skerpa vopn og sauma föt, og því hæfari. Þetta er óprófuð tilgáta, en samkvæmt henni er mögulegt að eirðaleysið finni sér annan farveg í veröld nútímans. Hér er ofgnótt áreitis, sjónvörp, tónlist og netið í símanum, sem heldur okkur frá skapandi iðju og hugsun.

Flestir túlka niðurstöðurnar þannig að hugur í einveru líði kvalir, mögulega vegna ofgnótt vandamála eða vegna þess að einveran er framandi. Ég held að hugurinn þurfi rólegar stundir, til að halda þræði og hugsa um hið mikilvæga lífinu. Sem er að mínu viti ekki tölvuleikir, fótbolti, bíó eða myndband af dansandi hömstrum, heldur persónlegur þroski, samband okkar við ættinga og vini, og velferð mannfólks. 

 

*Það eru vísbendingar um að þeir sem hafa yfirgripsmikla þekkingu og vald á flóknum hugmyndakerfum, t.d. tónlist, ákveðinni fræðigrein eða veröld Tolkiens, þoli frekar einangrun. Þeir geti drepið tíma og sársauka, með því að hleypa huganum inn á slíkar lendur.

Timothy D. Wilson o.fl. Just think: The challenges of the disengaged mind  Science 2014:  Vol. 345 no. 6192 pp. 75-77 DOI: 10.1126/science.1250830

Afneitunarhyggja og flóttinn frá raunveruleikanum

María lætur ekki bólusetja barnið sitt. Hans afneitar erfðabreyttum maís. Jakóbína afneitar þróunarkenningunni, og trúir að guð hafi skapað líf á jörðinni fyrir fjórum milljörðum ára. Trilli afneitar gögnunum úr lyfjaprófinu og heldur áfram að selja pillur með alvarlegum aukaverkunum. Blómberg afneitar loftslagsvísindunum og trúir því að breytingar á loftslagi séu óháðar athöfnum mannsins.

Þetta eru nokkur dæmi um afneitunarhyggju (denialism), þar sem hluti samfélagsins afneitar veruleikanum og sættir sig við þægilega lýgi í staðinn.

Ekkert okkar er fullkomlega rökfast eða höfum rétt fyrir okkur í öllum málum. Þannig að stundum getum við tekið rangar ákvarðanir, höldum t.d. að morgungull með erfðabreyttum maís sé slæmt þegar enginn gögn styðja þann grun. En menn eru ekki eylönd. Og afneitanir geta ferðast manna á milli, rétt eins og góðar fréttir af útsölum eða nýju sýklalyfi. Þar á ofan myndast oft einarðir hópar í kringum vissar afneitanir og lífskoðanir.

Ef við höldum okkur við afneitun á erfðabreyttum maís, þá er augljóst að fólk sem markaðsetur lífrænan lífstíl, matvöru, hjálpartæki og "lyflíki" hagnýtir sér þetta mál til að þétta raðir og vinna nýja liðsmenn.

Afneitunarhyggja

Í hinum vestræna heimi er ákveðin mótsögn. Við byggjum velferð okkar á framförum tækni og vísinda, og grunngildum upplýsingarinnar. En margar af afurðum tækni og vísinda vekja okkur ugg. Michael Specter fjallar um þetta í bók frá árinu 2009, sem heitir Afneitunarhyggja (denialism). Hann vitnar í dæmi Michael Lipton um rafmagn. Ef rafmagn hefði fyrst verið notað í stuðprik og rafmagnsstóla, í stað ljósapera og vifta, er mögulegt að samfélagið hefði afneitað tækninni.

Bók Specters fjallar um afneitanir forkólfa lyfjafyrirtækja á eigin gögnum. Hann rekur dæmið um Vioxx, sem hafði jók tíðni hjartaáfalla hjá þeim sem tóku það, en Merck reyndi að hylja þá staðreynd með spuna og öðrum óþverrabrellum. Lyfið var á endanum tekið af markaði.

Hann fjallar líka um trúnna á vítamín og lífrænan mat, sem eins og áður sagði byggir á að fá viðskiptavini til að gangast undir ákveðna afneitun á gæðum annarar fæðu og kostum hefðbundins landbúnaðar.

Menn smíða gervilíf

Einn kaflinn hreyfði samt við mér. Hann fjallaði um gervilíf, synthetic biology. Hann lýsir þar möguleikum nýrrar tækni til að erfðabreyta lífverum. Þessi aðferð er frábrugðin hefðbundinni erfðatækni að því leyti að fleiri breytingar eru gerðar og þær samhæfðar, t.d. á ákveðin efnaskiptakerfi. Þegar ég las þann kafla, þá fann ég til tilfinningalegra ónota. Þannig skildi ég (að vissu leyti) andstæðinga erfðabreyttra matvæla og lífvera. Viðbrögð þeirra hljóta að vera líkamleg og tilfinningaleg, og ansi sterk.

Sálfræðingar hafa sýnt fram á að við erum ekkert sérstaklega rökvís, og að djúpgreypt fælni eða skoðanir geta mótað hegðan okkar. Daniel Kahneman fjallar um þetta í bókinni "Að hugsa hratt og hægt" (Thinking fast and slow), sem við rituðum um fyrir nokkru (alger perla sú bók fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegri hugsun).

Gallar í bók Specters um afneitun

En umfjöllun þó Specters um gervilíf sé snörp og hreyfi við manni, þá er hún ekkert sérstaklega nákvæm. Hann er sekur um einfaldanir og óraunhæft mat á möguleikum tækninnar. Og að vissu leyti er það gallinn á bókinni allri. Hún er mjög snaggarlega skrifuð, uppfull af skörpum setningum og oft mjög háðskum. En rökflæðið er ekkert svakalega sterkt. Einnig afgreiðir hann afneitara á of einfaldann hátt.

Hann reynir ekki að skilja hvað fær fólk til að afneita tækni eða þekkingu?

Hvað er það í mannlegri hegðan sem fær okkur til að afneita vísindalegri þekkingu?

Hvað er það við miðlun þekkingar sem gerir fólki kleift að afneita henni?

Einnig spáir hann ekki í því hvernig við getum hjálpað fólki að yfirvinna fordóma á tækni eða félagslegum nýjungum?

En fyndnasti parturinn er að Michael Specter var afneitari sjálfur. Eins og DARSHAK SANGHAVI rekur í bókadómi í New York Times, þá hafði Specter sem blaðamaður ritað um kosti lyfjafyrirtækja og hvernig "óhefðbundnar" lækningar lofuðu góðu fyrir framtíðina. Í bók sinni hefur hann alveg söðlað um, og skammar Merck lyfjafyrirtækið fyrir að einblína á hagnað og fólk sem fellur fyrir boðskap um óhefðbundnar meðferðir og heilsubótarefni. Hann nýtir sér ekki tækifærið til að kafa í eigin afneitanir, og hvað hann þurfti til að sá villu síns vegar.

Bók Specters er hraðlesin og frísklega skrifuð. Hann vísar í ágætar heimildir og tekst á afneitunarhyggju, sem birtist á marga vegu í samfélagi nútímans. Hann hefði e.t.v. getað rýnt dýpra í ástæður fyrir afneitun og hvernig við sem einstaklingar og samfélag getum tekist á við fordóma okkar og afneitanir.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um bókina bendi ég á tvo, ansi ólíka ritdóma í NY Times.

Ég get ekki beinlínis mælt með henni, nema í samhengi við aðrar betri bækur um skyld efni, bók Kahnemans og bækur Shermers (að neðan).

img_1137.jpgHér er smá raunveruleiki, sem væri sniðugt að flýja frá. Mynd AP.

Ítarefni.


Verjum afkvæmin fyrir ásókn mannfólks

Við mennirnir erum orðnir fleiri en 7 milljarðar. 7.000.000.000 einstaklinga, sem hver um sig þarf fæðu og húsnæði, klæði og eldsneyti, skraut og lyf, lífsfyllingu og minningar.

Áður en frumbyggjar Ameríku námu þar land, bjuggu mörg stór dýr bæði norðan og sunnan Mið Ameríku. En á nokkur þúsund árum voru þau öll veidd upp til agna. Tugir tegunda stórra dýra dóu út. Bein og aðrar leifar þessara dýra voru svo fersk að hvítu mennirnir sem stofnuðu Bandaríkin gerðu út leiðangra til að leita þeirra, vitanlega með það að markmiði að veiða þau og hengja hausana upp á veggi.

lffraedi_orn.jpgÞví hefur verið haldið fram að stóru dýrin í Afríku hafi lifað af, vegna þess að þau hafi þróast í sambýli við mennina. Stóru dýrin í Ameríku voru ekki, "þróunarlega" viðbúin atlögu frumbyggjanna og hafi þess vegna dáið út.

En undanfarin árhundruð hefur hallað undan fótum, loppum, hófum og klaufum stóru dýranna í Afríku. Vinnufélagar mínir voru í Afríku í hitteðfyrra og sögðu að stóru þjóðgarðarnir væru í mikilli hættu vegna veiðiþjófnaðar og minni garðar einnig vegna annarra landnytja.  Þeirra heimildamenn sögðu að ef færi sem horfði yrðu innan fárra áratuga væru engin villt dýr eftir í þjóðgörðunum, vegna ásóknar og taps á búsvæði. Í framtíðinni þyrfti að læsa þau inni á víggirtum búgörðum til að þau gætu lifað af.

Það eru stórkostleg forréttindi að fá að sjá villt dýr og njóta óspilltrar náttúru. Við getum styrkt samtök sem vernda stóru dýrin í Afríku en ættum líka að vernda íslenska náttúru, hið viðkvæma litla blóm sem sekkur í uppistöðulón, treðst undir fjórhjóli eða sviðnar í brennisteinsgufu. 

Myndina tók Róbert Arnar Stefánsson (copyright), Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi. Á vef stofunnar má finna fleiri myndir af örnum og náttúru Breiðafjarðar.


mbl.is Varði afkvæmið fyrir hungruðum ljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tígrar líða undir lok, eftir að Mógli sigraði Séra Kan

Mógli úlfastrákur var hugarfóstur Rudyard Kiplings. Flestir kannast núna við Disney útgáfuna af sögunni, en sögur Kiplings voru mun frískari en það hvítþvegna kúltúrsull. Kipling var frægur fyrir "af því bara" (just so) sögur, þar sem allt var mögulegt.

Í Disney sögunni er Mógli hrakinn á flótta af tígrisdýrinu Séra Kan sem hefur einsett sér að borða menn. En honum tekst að hræða tígurinn með eldi, en lýtur að lokum töfrum yngismeyjar og gengur mönnunum á hönd.

Í sögum Kiplings veldur Séra Kan því að Mógli verður viðskila við fólk sitt og lendir í umsjá úlfanna. Og eftir heilmikla atburðarás þá hamflettir Mógli tígurinn.

Hnignun tígrisdýra 

Tígrisdýr eru rándýr og þurfa búsvæði eins og önnur dýr. Fyrir rúmri öld voru um 100.000 tígrar á jörðinni, dreifð um Indonesíu, Indland og miðasíu. Nú eru milli 3000 og 4000 dýr til í villtri náttúru.  Það þýðir að stofn villtra tígrisdýra hefur minnkað um 96% á 100 árum.

img_2004litil.jpg

Þau eru útdauð á Jövu, miðasíu, suður Kína og Balí. Þau búa enn á Indlandi og í norður Kína og nokkrum vestari eyjum Indónesíu.

Á Indlandi eru sífelldir árekstrar á milli bænda og tígra, aðallega vegna þess að búfénaður er heppilegur til átu.

Auðvitað þurfa menn lífsrými og jarðnæði, en við höfum einnig okkar skyldur gagnvart náttúrunni.

Tígrisdýr eru stórkostlegar og skepnur. Þau eru líka stórhættuleg, en eiga samt sinn tilverurétt. 

Það er spurning hvernig þau myndu spjara sig á hálendi Íslands. Lömb og hreindýr ættu að vera auðveidd en ég veit ekki hvort berangrið sé heppilegt fyrir veiðiaðferðir þeirra.

Ég er ekki að stinga upp á að tígrisdýr verði flutt hingað til lands. En kannski verða eyjar og svæði eins og Ísland eða Balí gerð að griðlöndum fyrir tegundir í útrýmingarhættu einhverntíman í framtíðinni. Vitanlega þyrfti menn eins og Mógla til að gæta öryggis mannfólks og einhvern eins og Jane Goodall til að gæta hagsmuna dýranna.

Ítarefni:

Mynd af tígrisdýr tekin í Potter park í Lansing Michigan (AP).

World Wildlife Foundation - tígrisdýr.

11. febrúar, 2014 NY Times Tiger Population Grows in India, as Does Fear After Attacks


Afrek vísinda og tækni

Mannkynið er einstakt meðal dýra jarðar að því leyti að við vinnum saman, öflum, geymum og miðlum þekkingu.

Þannig náum við að skilja náttúruna, lögmál himinhvolfa og efnis, og byggja stórkostlega hluti. Geimferðaáætlun NASA og önnur verkefni tengd rannsóknum á geimnum eru ein stæðilegustu minnismerkin um þessa einstöku hæfileika mannkyns.

Lending á tunglinu undirstrikar þetta mjög skýrt. Við getum öll séð tunglið á himni, og vitum (nema þeir sem afneita lögmálum eðlisfræðinnar) að tunglið er á sporbaug um jörðu í um 384,400 km fjarlægð. Til að senda menn þangað þurfti meiriháttar skipulag, fjármagn og tækniþekkingu. Einnig þurfti stóran hóp vísindamanna og tæknimenntaðs fólks, og menn sem gátu skipulagt og samþætt verkefnið.

Þótt það séu 45 ár síðan flaugin með geimfarana þrjá lenti á tunglinu, þá er þetta afrek eitt það merkilegasta í bæði mannkynssögunni og vísindasögunni. Það er okkur holl áminning að rifja afrekið upp, og hugsa til þess að þekking og tækni geta hjálpað okkur að leysa aðkallandi vandamál jarðar og mannkyns.

img_1003.jpgMynd af hreyflum geimskutlunar - tekin í Flug og geimferðasafninu (Air and space museum Chantilly) - AP.


mbl.is Grét þegar Armstrong steig fæti á tunglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljónafiskur og Kudzu leggja undir sig suðrið

Á námsárunum í Norður karólínu lærði ég um Kudzu, japanska klifurplöntu sem var flutt til Bandaríkjanna til græða vegkannta og hefta uppblástur. Kudzu vex mjög hratt og þekur vel. Reyndar svo vel að hún varð að illgresi og var fljótlega skilgreind sem ágeng tegund í suðurríkjum bandaríkjanna.

Í Norður karólínu þakti hún árbakka og símalínur, tré og yfirgefin hús.

1189715136_31bc46ad06_b-640x480

Mynd af Kudzu frá BNA, úr safni mynda á flickr.

Nýlegar fréttir bárust af því að Kudzu hafi einnig slæm áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsókn í New Phytologist, sem fjallað er um í Ars Technica, sýnir að Kudzu stuðlar að losun kolvetnis.

Það gerist á þrjá vegu. Kudzu dregur úr vexti furutrjáa, sem venjulega binda kolvetni. Kudzu hefur jákvæð áhrif á vöxt jarðvegsörvera, sem brjóta niður lífrænt efni og losa kolvetni. Að síðustu brotnar Kudzu sjálf mjög hratt niður, miðað við aðrar plöntur. 

Allt þetta eykur umhverfisáhrif plönturnar, og meta höfundar greinarinnar þau á pari við 1.000.000 manna stórborg.

Eins og í tilfelli margra ágengra tegunda, er hreinsun á Kudzu meiriháttar verkefni. Neðst í pistlinum er tengill á síðu á vef Clemson háskóla sem útlistar hvernig fara skal að. Þar segir einnig að Kudzu svæði séu aðeins nýtileg til eins, þ.e.a.s. að rækta Kudzu. Með öðrum orðum, Kudzu land er tapað land. 

En ágengar tegundir halda sig ekki eingöngu við land, heldur einnig vatn og haf.

Í Norður Karólínu og nálægum fylkjum er ljónafiskur orðinn ágengur. Hér er mynd af einum slíkum, tekin í sædýrasafni Pine Knoll Shores (AP).

 img_1177.jpg

 

 

Ítarefni

Malcolm Campbell  2014 júlí Invasive kudzu drives carbon out of the soil, into the atmosphere

Clemson háskóli Kudzu Eradication Guidelines

Katie Linendoll 2012 CNN Lionfish infestation in Atlantic Ocean a growing epidemic


Spriklandi andstæðingur erfðrabreyttra lífvera

Erfðatækni er notuð í landbúnaði til að betrumbæta plöntur og húsdýr. Hún er hluti af verkfærasetti sem ræktendur búa að, og nýtist t.d. til að gefa plöntum þol gagnvart sýklum eða jafnvel til að bæta ræktunareiginleika og afurðir.

Rannsóknir hafa sýnt að erfðabreyttar plöntur eru ekki síðri að næringarinnihaldi og almennt ekki hættulegar umhverfi og heilsu.

Engu að síður er umtalsverð tortryggni gagnvart erfðabreyttum plöntum. Gagnrýni andstæðinga erfðabreyttra lífvera byggir oft á heimspekilegum rökum og félagslegum. (við megum ekki breyta náttúrunni, eða erfðatækni er notuð af stórfyrirtækjum sem gera bændur að þrælum)

Endrum og eins bera andstæðingarnir upp rök sem virðast vísindaleg. Og það eru nokkrir (svokallaðir eða sjálfskipaðir) fræðimenn sem skaffa gögn eða greinar sem virðast benda til þess að erfðabreyttar plöntur séu hættulegar heilsu.

Einn þeirra er Gilles-Éric Séralini sem vinnur við háskólann í Caen í Frakklandi og er einnig stofnandi og stjórnandi stofnunar sem einbeitir sér að gagnrýni á erfðabreyttar lífverur (CRIIGEN).

Hann hefur sent frá sér nokkrar greinar, sem flestar hafa verið gagnrýndar af öðrum vísindamönnum vegna alvarlegra galla og oftúlkunar.

Árið 2012 birtist grein eftir Seralini og félaga í tímaritinu Food and Chemical Toxicology sem virtist benda til að erfðabreyttur maís ylli krabbameini í rottum.

Seralini með "niðurstöðurnar" í fjölmiðla og neitaði öðrum fagmönnum að lesa greinina áður en fréttin fór í loftið. Slíkt er mjög óalgengt, og þýðir að aðrir fagmenn geta ekki sett sig inn í málið áður en fréttamenn kynna það. (það að margir fréttamennirnir sættu sig við þetta skilyrði er áfellisdómur yfir þeirra vinnubrögð). Á sínum tíma skrifuðum við þetta.

En staðan er sú að fjöldi ritrýndra rannsókna hefur ekki fundið nein áhrif. Þessi rannsókn Serilinis sýnir skaðleg áhrif. Hvernig samrýmum við þetta tvennt?

a) Eru áhrif til staðar, en þau finnast bara í lengri tíma rannsóknum.

b) Áhrif eru til staðar, en þau eru það veik að þau finnast bara í fáum rannsóknum?

c)  Engin áhrif, niðurstaða Serilinis og félaga er jákvæð vegna tilviljunar (búast má við marktækum niðurstöðum í 1 af hverri 20 tilraunum - einungis vegna tilviljunar. Samkvæmt grunnsetningum tölfræðinnar því við sættum okkur við "falskar jákvæðar" - "false positive" niðurstöður í 5% tilfella).

d)  Engin áhrif en Serilini og félagar oftúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunina vitlaust.

e)  Áhrif eru til staðar, en allir hinir vísindamennirnir vantúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunirnar vitlaust.

Aðrir fagmenn lásu greinina og komust að því rannsóknin var mjög meingölluð að nær öllu leyti, og  að endingu var greinin dregin til baka af tímaritinu. Slíkt er gert ef upp kemst um gallaða tölfræði, illa hannaðar tilraunir og/eða oftúlkanir á niðurstöðum. Í þessu tilfelli var tilrauna uppsetningin gölluð og tölfræðileg greining ófullnægjandi. Þeir notuðu m.a. rottustofn þar sem 80% dýranna fá krabbamein og samanburðarhópurinn var svo lítill að tölfræðin var ómarktæk.

Andstæðingar erfðabreyttra lífvera tóku þetta óstint upp og sögðu að um þöggun væri að ræða.

Það er sannarlega matsatriði hvenær er rétt að draga grein til baka, en mér finnst eðlilegt að slíkt sé gert ef tilraunin er illa hönnuð, tölfræðin léleg eða niðurstöðurnar oftúlkaðar.

Aðrar rannsóknir, m.a. önnur langtíma rannsókn og stór samantekt í Food and Chemical Toxicology sýndi að erfðabreyttum maís hafði ekki áhrif á heilsu eða lífslíkur músa.

Óhellindi Seralinis

Hvað gerir Seralini næst, þegar búið er að draga grein hans til baka. Hann klæðir gögnin í ný föt og sendir í annað tímarit. Svo sendir hann út fréttatilkynningu og segir að greinin erfðabreyttur maís valdi krabbamein. Reyndar stóð í fyrri útgáfu greinarinnar "the data are inconclusive, due to the rat strain and the number of animals used", en sá varnagli var fjarlægður úr seinni útgáfunni. Einnig var fullyrt í fréttatilkynningu að rannsóknin væri ritrýnd, en ritstjóri  Environmental Sciences Europe sagði í viðtali að svo væri ekki.

Í þessari umræðu sem mörgum öðrum málum skiptir ekki máli hvort að gögnin séu rétt, heldur að "niðurstöðurnar" henti þeim sem hafa krók að maka. Seralini og margir andstæðingar erfðabreyttra lífvera tína til atriði sem henta þeirra skoðun og lífssýn, óháð því hvort þau eigi við rök að styðjast eða ekki.

Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var spriklandi með tveimur k-áum.

Ítarefni:

John Entine Forbes 24. júní 2014. Zombie Retracted Séralini GMO Maize Rat Study Republished To Hostile Scientist Reactions

Arnar Pálsson | 21. september 2012  Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?

 


Fótbolti er teningaspil og skák

Fyrir margt löngu sór ég þess eið að fjalla ekki um léttvæg málefni eins og íþróttir eða kynlíf skjaldbaka í pistlum mínum. Nýleg grein í New York Times varð til þess að ég rýf eiðinn.

Rétt er að viðurkenna í upphafi að ég er mikil knattspyrnuáhugamaður, að því leyti að mér finnst gaman að sparka í bolta og stundum þá sem taka af mér boltann (aðallega Ómar) og í sjónvarpinu þoli ég bara að horfa á fót- eða handbolta.

Hverjir eru bestir?

Sem vísindamaður hef ég velt fyrir mér hversu líklegt það er betra liðið sé að vinna, eða hversu oft sá veikari nái árangri? Í ljós kemur að tölfræðingar og hagfræðingar hafa rannsakað knattspyrnu með hliðsjón af þessum og öðrum spurningum. Niðurstöðurnar benda til þess að TILVILJUN sé fíllinn á fótboltavellinum. Hér eru nokkrar staðreyndir þessu til stuðnings.   

Chris Anderson og David Sally benda á að knattspyrna sé ófyrirsjáanlegri en aðrar íþróttir, vegna þess að mörkin eru fá, detta oft inn af handahófi og vegna þess að margir leikir geta endað með jafntefli.

Í knattspyrnu vinnur "stóra" liðið í helmingi tilfella, en í hafnarbolta 3 af 5 og körfunni 2 af 3 leikjum.

img_1267_1240339.jpgKrónukast eða vítakeppni?

Í keppni yngri flokka eru úrslita leikir sem enda jafntefli  útkljáðir með því að kasta krónu. Það virkar skelfilega handahófskennt og ósanngjarnt. Það hlýtur að vera sanngjarnara að hafa vítakeppni? Í meistaraflokki eru krónuköst notuð til að ákveða hvaða lið spyrnir fyrst. Og tölfræðin segir að sá sem byrjar vítakeppni er líklegri til að vinna hana!

Ignacio Palacios-Huerta tók saman gögn og sýndi að liðið sem tekur seinni spyrnuna vinnur aðeins í 39% tilfella. Kannski væri hugmynd að fjölga spyrnunum eða láta liðin skiptast á að taka fyrri spyrnuna?

Knattspyrna sem skák

Þeir sem hafa lagt stund á knattspyrnu eða fylgst með á skjánum vita flestir að knattspyrna er líka refskák. Það er stöðubarátta, uppstillingar og kerfi, reynt er að finna veilur í vörnum andstæðinga og finna lausnir við styrk þeirra. Skák og knattspyrna eru einnig íþróttir einbeitingar, þar sem jafnvægi og skipulag er jafn mikilvægt snerpu og tækni. 

Það verður gaman að sjá Brasilíska leikinn þroskast með betra skipulagi.

Ítarefni:

  New York Times 7. júlí 2014. Soccer, a Beautiful Game of Chance

Mynd af skjaldböku. A. Palsson 2014.


mbl.is Met á Twitter í leik Brasilíu og Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

PLoS 1 upp í 100.000

Fyrir sjö og hálfu ári var opnað nýtt vísindatímarit, Public library of science One. Tímaritið var einstakt að mörgu leyti. Í fyrsta lagi var það eitt af fáum tímaritum sem var opið fyrir alla að lesa, ekki bara þá sem höfðu áskrift. Tímaritið fylgdi í kjölfar á PLoS Biology, sem var stofnað nokkrum árum áður, sem samkeppni við Nature, Science og Cell.

Í öðru lagi gerði ritsjórnin enga kröfu um efni eða áherslur, svo lengi sem að vísindin og fræðimennskan væru vönduð, voru niðurstöðurnar birtar. Mörg önnur tímarit voru með þrengri áhugasvið, fjölluðu bara um gen eða birtu bara greinar sem voru álitnar áhugaverðar fyrir víðan hóp vísindamanna.

PLoS one gjörbylti vísindaútgáfu, og blaði óx gríðarlega. Um 2% af öllum vísindagreinum sem komu út í fyrra, komu út í PLoS one.

Og fyrir skemmstu var greint frá því að á 7 og hálfu ári hafa 100.000 vísindagreinar birst í tímaritinu. Það er gríðarlegt magn af niðurstöðum, og það besta er að allir geta lesið þær. Ekki bara þeir sem starfa við ríkustu háskólanna eða stærstu fyrirtækin.

Ég er stoltur af því að hafa birt í þessu tímariti og að starfa þar sem ritstjóri. 

PLoS one hefur gjörbreytt umhverfi vísinda og með nýjum kröfum um aðgengi að frumgögnum, hefur blaðið þokað vísindunum lengra inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

Ítarefni:

PLOS ONE Publishes its 100,000th Article Damian PattinsonJune 23, 2014

Arnar Pálsson Að senda í PLoS One

Palsson A, Wesolowska N, Reynisdóttir S, Ludwig MZ, Kreitman M (2014) Naturally Occurring Deletions of Hunchback Binding Sites in the Even-Skipped Stripe 3+7 Enhancer. PLoS ONE 9(5): e91924. doi:10.1371/journal.pone.0091924

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband