Leita í fréttum mbl.is

Bakteríur í brjóstamjólk og hræðslan okkar

Tilhugsunin um bakteríur hræðir okkur. Okkur er kennt að bakteríur valdi allskonar sjúkdómum og farsóttum, og tengjum þær nær alltaf við slæma hluti.

Sannleikurinn er sá að aðeins lítil hluti bakteríutegunda getur sýkt fólk. Flestar bakteríur eru góðir grannar eða jafnvel enn betri innanbúðarmenn. Örverufræðingar sýndu að þarmar mannsins eru stappfullir af gerlum, í meðal manni eru 2-3 kíló af bakteríum.

Bakteríur í iðrum eru okkur nauðsynlegar. Meltingarvegurinn þroskaðist ekki eðlilega í rottum sem ólust upp í bakeríufríu umhverfi. Einnig verða stórkostlegar breytingar á bakteríuflóru barna frá fæðingu til 3-4 ára aldurs.  Sýnt var fram á þetta með rannsókn á örverumengi um 300 manna, sem byggði á raðgreiningu á DNA einangruðu úr saursýnum og öðrum vefjum (Structure, function and diversity of the healthy human microbiome - Nature 2012). E.t.v. er bakteríulegt uppeldi jafnmikilvægt og félagslegt uppeldi.

Örverur á líkamanum og í brjóstamjólk

Einnig eru bakteríurnar nauðsynlegur hluti af húðþekju og taka þátt í vörnum á viðkvæmum stöðum. Sérstakar bakteríur eru t.d. í leggöngum, þar sem þær seyta efnum sem aftra vexti annara hættulegra baktería. Við nýtum (óaðvitandi auðvitað) sem sagt bakteríur sem varðhunda við mikilvæga innganga.

Lengi vel var talið að brjóstamjólk væri hreinasta og besta fæða sem til er. Rannsóknir hafa reyndar sýnt að börn sem drekka brjóstamjólk virka dálítið eins og rándýr á efsta stigi fæðuvefs. Efni sem safnast upp í lífverum ná hærri styrk í börnum en í mæðrum þeirra, því börnin "nærast" á móður sinni. Samkvæmt Florence Williams er norska matareftirlitið (Norwegian Scientific Committee for Food Safety) að ígrunda hvort endurskoða eigi ráðleggingar um brjóstagjöf af þessum sökum.

En eitt það forvitnilegasta sem kom í ljós var að brjóstamjólk er í raun jógúrt. Áður var hún talið að mestu gerilsneydd, en raðgreiningar (sbr. að ofan) hafa sýnt að í henni eru margar gerðir baktería (um 600 tegundum hefur verið lýst, margar þeirra hafa aldrei greinst áður). Það er óvíst hvort að þessar bakteríur séu í okkar þjónustu, eða bara duglegar í lífsbaráttunni. Tilgátur eru uppi um að þær hjálpi til við þroskun meltingarvegar ungviðis, eða jafnvel við þroskun ónæmiskerfisins. Samkvæmt seinni tilgátunni þá stundum við nokkurskonar náttúrulega bólusetningu, það er spurning hvort að það fari í taugarnar á bóluefnis-efasemndarfólkinu?

3bcgw8-8x-up Mynd úr grein  Hallatschek O, Hersen P, Ramanathan S, Nelson DR. Genetic drift at expanding frontiers promotes gene segregation. Proc Natl Acad Sci U S A. 2007 Dec 11;104(50):19926-30.

Þróun sýklalyfjaónæmis

Sköpunarsinnar og margir stjórnmálamenn af hægri vængnum í bandaríkjunum (og Guðfinna Bjarndóttir hérlendis), gagnrýna þróunarkenninguna. En þróunarkenningin - sérstaklega hugmyndin um náttúrulegt val - er traustasta kenning líffræðinar, með mikið hagnýtt gildi. Það á til að mynda við um þróun sýklalyfjaónæmis. Náttúrulegt val verður þegar breytileiki í er í hóp lífvera, og þegar breytileikinn erfist á milli kynslóða. Um leið og sumar gerðir lifa betur (lengur, eignast fleiri afkvæmi o.s.frv.) þá verður náttúrulegt val. 

Þetta gerist þegar við notum sýklalyf. Við drepum allar bakteríur sem eru næmar fyrir lyfinu - en þær sem eru þolnar standa eftir. Þær veljast úr - alveg náttúrulega. Ef við erum óþekk og klárum ekki sýklalyfjaskammtinn okkar, þá aukum við líkurnar á að þolnir stofnar viðhaldist. Einnig, ef við notum sýklalyf of mikið - og handahófskennt, þá ýtum við undir þróun fjölónæmra stofna baktería. Þá losnar fjandinn, og hann er brynvarður frá hvirfli til ilja. Þróunin getur bæði verið samfelld, í litlum skrefum, en einnig tekið stór stökk. Slíkt getur gerst meðal baktería þegar þær hirða upp villuráfandi DNA og gera að sínu. Og þegar við dælum sýklalyfjum hægri og vinstri - aukum við líkurnar á því að gerlar sem grípa DNA með gen sem gefa þeim þol, komist á legg. Þetta er svona eins að míga stígvélið sitt fullt, og hella úr því í brunninn sinn.

Ofnotkun sýklalyfja

Williams og Neese skrifuðu tímamóta bók undir lok síðustu aldar, Hví við veikjumst, hin nýju vísindi Darwínskrar læknisfræði (Why We Get Sick: The New Science of Darwinian Medicine). Þar ræddu þeir stöðu læknisfræðinnar, og færðu rök fyrir því að þróunarfræði ætti að vera skylda í læknisnámi og rauður þráður í rannsóknum. Rök þeirra eru þau að þróunarfræðin hjálpi læknum að spyrja um einkenni sjúkdóms, eru þau varnir sjúklings eða áhrif sýkils? Eins má spyrja hvort einkenni hafi kosti samhliða göllum, er einkenni þróunarleg arfleið eða nýjung sem eftir er að slípa, og er tíðni vissra sjúkdóms gena ólík milli landa (t.d. vegna náttúrulegs vals)? Þeir lögðu sérstaka áherslu á notagildi þróunarfræða við rannsóknir á sýklum og þróun þolinna stofna.

Martin Blaser skrifaði nýlega grein í Nature þar sem hann gagnrýndi ofnotkun sýklalyfja (Antibiotic overuse: Stop the killing of beneficial bacteria). Hér ræði ég tvö dæmi úr grein hans. Bændur nota sýklalyf í fóður húsdýra, til að stuðla að meiri vexti. Ekki er vitað hvernig þetta gerist, en líklegt er að mannfólk bregðist við á svipaðan hátt - við áþekkri lyfjagjöf. Einnig hefur verið sýnt fram á að fjöldi sýklalyfjakúra sem barn fær, eykur líkurnar á þarmabólgum (áhættan er 200% hærri ef einstaklingar fá 7 eða fleiri kúra).

Ég vill samt árétta að auðvitað þurfum við að nota sýklalyf. En læknar mættu alveg vera rólegir í uppáskriftum. Oft eru þeir ekki að meðhöndla sjúkdóminn, heldur bara að reyna að róa sjúklinginn (við viljum fá einhverja lækningu hjá lækninum...er það ekki?).

En mikilvægasta atriðið í þessum pistli er það að bakteríur eru ekki allar vondar. Margar tegundir eru góðkunningjar mannsins, félagar í lífsins og þarmsins ólgusjó, í gegnum þykkt og þunnt...

Viðauki:

Carl Zimmer skrifar ítarlega grein um örverur, heilsu og vistfræðilega læknisfræði í NY Times dagsins í dag. Tending the Body’s Microbial Garden CARL ZIMMER NY Times 19. júní 2012.

Ítarefni:

In Good Health? Thank Your 100 Trillion Bacteria Gina Kolata NY Times júní 2012.

Structure, function and diversity of the healthy human microbiome Örverumengjagengið (The Human Microbiome Project Consortium)- Nature júní 2012).

Human gut microbiome viewed across age and geography Tanya Yatsunenko, Federico E. Rey o.fl. Nature júní 2012.

The wonder of breasts Florence Williams - The Guardian 16. júní 2012. (sjá einnig bók hennar Breasts, a natural and unnatural history.

Antibiotic overuse: Stop the killing of beneficial bacteria Martin Blaser  Nature 476, 393–394 (25 August 2011) doi:10.1038/476393a

George C. Williams og Randolph M. Nesse  Why We Get Sick: The New Science of Darwinian Medicine

Mikilvægi þróunkenningarinnar fyrir læknisfræði

Líkaminn sem vígvöllur

Hrein fegurð tilviljunar

Bakteríurnar og görnin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum einskonar "alheimur".. kannski standa bakteríur á kúk inn í þér eða mér, og spá... okkar brúna kúla er aðalkúlan, allt snýst í kringum okkur.. ha ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 15:18

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Á misjöfnu þrífast börnin best" er djúp speki

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.6.2012 kl. 15:58

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Doktor E

Svona spaug er óhjákvæmilegt. Reyndar er kúkur að miklu leyti dauðar bakteríur, þannig að augljóst er að umsetningin er rosaleg í iðrum okkar.

Gunnar

Okkar vandamál er að vita hvernær er gott að borða sand og hvenær er vont að borða sand.

Sumir borða líka leir.

Would You Like a Side of Dirt with That? New findings suggest that ingesting soil is adaptive, not necessarily pathological

By Philip T. B. Starks and Brittany L. Slabach  | May 25, 2012 Scientific American.

Næsta heilsuæði verður "leirkökur", sérlega góðar fyrir detox og megrun. "Ef maður borðar 300 grömm af leir með hverri máltíð - þá renna af þér kílóin...."

Arnar Pálsson, 2.7.2012 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband