Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

"Ég er sæmilega siðað kvikindi"

Svo kemst Kristinn Theodórsson að orði í nýjasta pistlinu Vellíðunarkenningin.

Kristinn, skarpur og skemmtilegur penni, fjallar þar um það hvers vegna (flest) fólk hegðar sér (oftast) vel.

Við erum bærilega skynsöm kvikyndi, og flest okkar átta sig á því að þegar við deyjum mun slokna á meðvitund okkar og hold vort brotna niður. 

Þeirri hugmynd hefur verið haldið fram að trú á yfirnáttúrulega veru hjálpi okkur mannkvikindunum að feta hinn mjóa stíg, ef við stígum feilspor þá mun Þór senda hamarinn á eftir okkur.

Mér finnst þessi hugmynd bera vott um vantraust á manninn og siðferðisvitund okkar.

Ég mæli eindregið með því að þið lesið pistil Kristins, og ef þið hafið tök á kíkið á erindi Joe Cain um vitibornar mannverur kl 13:00 í dag.


Bílavit, bókavit, boltavit og Darwin

Hvað eru eiginlega vitsmunir? Vitsmunir er eins og líkamlegt atgerfi, flókið samsett fyrirbæri sem er alls ekki auðvelt að skilgreina.

Vitanlega getum við mælt lengd beina, massa og form vöðva, andlitsdrætti og líkamsburð. Engu að síður er mjög erfitt að steypa öllum mælingunum okkar í eina einkunn fyrir líkamlegt atgerfi. Þegar við (þá meina ég Jóhannes og fjölskylda) erum að rækta kindur, er hægt að skilgreina lömb með hnellin læri, þykka bakvöðva og litla bakfitu sem vænleg til undaneldis. Það er mun erfiðara að meta atgervi mannfólks og tilgreina hverjir séu heppilegir í íshokkí eða fótbolta.

Eins eru vitsmunir, greind eða andlegt atgervi samsett úr mörgum ólíkum þáttum. Andstætt líkamlegu atgervi er miklu erfiðara að mæla þær einingar sem skipta máli í andlegu atgervi...þótt ég geri mér grein fyrir að atferlisfræðingar, sálfræðingar og félagsþróunarfræðingar hafa lært heilmikið á síðustu öld.

Sem nemendur kynnust við ólíkum fræðigreinum. Sumir eru góðir í jarðfræði, aðrir í ensku, og þeim sem vegnar vel í sögu getur farnast ver í verkfræði.

Vitið er ekki bundið við lærdóm af bókum; margir sýna verkvit, bílavit, boltavit og blómavit. Ég þekki samt engan sem er snillingur í að gera við bíla, leysir öll verk af stakri prýði, þyrlar bolta eins og L. Messi og ræktar rósir á Ísafirði. 

darwin-c1857.gifCharles Darwin var sá fyrsti sem lagði áherslu á að fyrst að lífverur væru samsettar, t.d. þannig að fætur og nýru þroskuðust óháð hvort öðru, þá gætu eiginleikar lífvera þróast óháð hverjum öðrum.

Þess vegna getur náttúrulegt val aukið tíðni stökkbreytinga sem gæða fólk "grænum fingrum" (líklega mikilvægt þegar landbúnaðarbyltingin hófs)  án þess að hafa áhrif á gen sem tengjast veiðivísi.

Að síðustu, mér finnst það alltaf jafn merkilegt hversu sterk viðbrögð bifreiðar vekja hjá ungum drengjum og dúkkuvagnar stúlkum. Bílar og dúkkuvagnar voru ekki hluti af umhverfi forfeðra okkar, þannig að ómögulegt er að líffræðileg þróun hafi ýtt undir þessa eiginleika. Spurningin er hvaða eiginleika þessara hluta það eru sem fanga athygli barnanna.

Joe Cain ætlar að tala um rannsóknir Darwins á vitsmunum mannsins í fyrirlestri á Darwin dögunum, á morgun kl 13:00 í hátíðarsal aðalbyggingar HÍ. Allir eru velkomnir, erindið verður flutt á ensku, en á aðgengilegu máli. 


Eru minni aksturshæfileikar vörn gegn Parkinsons?

Vísir.is birti þessa sömu frétt í morgun, undir þeim skelfilega titli Umferðagenið er fundið, með öllum þeim göllum sem hugsast getur. Samt fannst ritstjóra mbl.is ástæða til að feta sömu spor út í kviksyndið.

Er "slæmur akstur genunum að kenna" er dæmi um genadýrkun af verstu gerð.

Mogganum til hrós, þá tala þeir ekki um að fólk sé með eða ekki með ákveðin gen. Hann áttar sig á því að það er breytileiki í genunum sem sýnir fylgni við einhvern eiginleika. Í þessu tilfelli gerðu einstaklingar með eina útgáfu af BDNF að meðaltali fleiri skyssu en þeir sem voru með hina útgáfu af geninu. Einnig áttu þeir, að meðaltali, verr með að læra af mistökum í akstursþjálfun.

En mbl.is, vísir.is og flestir aðrir miðlar ræddu ekki um hina hliðina á málinu, stökkbreytingin virðist ekki bara hafa slæm áhrif. Samkvæmt www.news-medical.net:

Rannsóknir hafa sýnt að fólk með þessa útgáfu (samsætu eða allel) af BDNF virðast haldast "vitinu" lengur ef þau þjást af taugahrönunarsjúkdómi á borð við Parkinson, Huntingtons eða mænusigg.

Studies have found that people with it maintain their usual mental sharpness longer than those without it when neurodegenerative diseases such as Parkinson's, Huntington's and multiple sclerosis are present.

Það sem var bærilega athyglisverð uppgötvun (ef sönn reynist) er kannski ennþá forvitnilegri.

Ákveðin stökkbreyting í BDNF geninu virðist draga úr aksturshæfileikum en gæti varið þig fyrir taugahrörnun.

Það versta er að rannsóknin er gerð á 29 einstaklingum, og ég trúi ekki niðurstöðunni fyrr en hún verður staðfest á minnst 200 manna úrtaki. Mikið getur tölfræðin sett leiðinlegar hömlur á annars spennandi sögur.

Á laugardaginn ætlar Joe Cain að segja okkur sögu um Darwin og vitsmuni.


mbl.is Slæmur akstur genunum að kenna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera með gen, og vera ekki með gen...

....það er alls ekki spurningin.

Gallar á genum geta verið margskonar, skipti á bösum, innskot eða úrfelling eins eða fleiri basa sem og brot á litningnum sjálfum (sem getur hlutað sundur gen). Það er hins vegar mjög sjaldgæft að heilu genin gufi upp.

Samt er það til siðs að segja að fólk hafi ekki ákveðin gen. Nýjasta dæmið er frétt á vísi.is eftir Atla Steinn Guðmundsson undir fyrirsögninni Umferðargenið er fundið. Atli er með leiftrandi háðskann stíl en á það til að bulla.

Nú þýðir sem sagt ekkert lengur að vera að blikka þá sem aka á 50 á vinstri akrein, geta ekki með nokkru mótið bakkað í stæði og eru heila mínútu að koma sér af stað eftir að græna ljósið er komið. Þeir hafa einfaldlega ekki umferðargenið.

Þetta orðalag er sem söngur afkvæmis yakuxa og Bjögga Halldórs í mínum eyrum (hryllingur sem sagt). Réttara væri að segja að breytileiki í viðkomandi geni hafi áhrif á ökuhæfileika.

Eftir 5 mínútna heimildaleit kom í ljós að rannsóknin sem um ræðir var gerð á 29 bandaríkjamönnum, 22 með eina útgáfu af geninu 7 með aðra. Munurinn á gerðunum er ein amínosýra, ekki það að einn sé með genið og annar ekki.

Að auki, með svo litla sýnastærð jaðrar það við kraftaverk að niðurstöðurnar séu marktækar.

Ítarefni:

McHughen o.fl. BDNF Val66Met Polymorphism Influences Motor System Function in the Human Brain. Cereb Cortex. 2009 Sep 10. [Epub ahead of print]

Af www.news-medical.net Gene variant may be the cause for bad driving: UC Irvine neuroscientists


Líffræðiráðstefnan 2009

Í tilefni af 30 ára afmæli Líffræðifélags Íslands og 35 ára afmælis Líffræðistofnunar háskólans verður haldin ráðstefna dagana 6. og 7. nóvember 2009.

augndiskurTaugastilkur sem tengir augnbotn við heilabú ávaxtaflugu, myndina tók Sigríður R. Franzdóttir.

Íslenskir líffræðingar stunda öflugar rannsóknir á mörgum sviðum líffræði, læknisfræði og umhverfisfræði. Á líffræðiráðstefnunni 2009 verða 105 erindi sem lýsa til að mynda rannsóknum á þróun þorskstofnsins, lífríki Surtseyjar, smádýrum sem lifðu af ísöldina og tvíkynja hesti. Í sérstökum yfirlitserindum verður fjallað um framfarir í mannerfðafræði, vistkerfi norðurslóða, þroskun taugakerfisins, mikilvægi náttúruverndar og þróun atferlis. Vísindafólk úr fjórum íslenskum háskólum, fjölda stofnana og náttúrufræðisetra, sem og íslenskir vísindamenn sem starfa erlendis munu kynna niðurstöður sínar á ráðstefnunni.

Ráðstefnan fer fram í aðalsal Íslenskrar erfðagreiningar, Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (stofum 132, 131 og 130) og sal Norræna húsins. Setning föstudaginn er kl 8:20 6. nóvember í sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Fimm yfirlitserindi verða haldin á ráðstefnunni.

Föstudaginn 6. nóvember:

Samspil plantna og dýra á norðurslóðum - Ingibjörg Svala Jónsdóttir (kl. 8:40 í ÍE)

Erfðir algengra og flókinna sjúkdóma: deCODE verkefnið Unnur Þorsteinsdóttir (kl. 9:20 í ÍE)

Laugardaginn 7. nóvember:

Ferðalög fruma við þroskun taugakerfisins - Sigríður Rut Franzdóttir (kl. 8:40 í 132 Öskju)

Vistkreppa eða náttúruvernd - Hjörleifur Guttormsson (kl. 9:20 í 132 Öskju)

Þróun atferlis - Sigurður S. Snorrason og Hrefna Sigurjónsdóttir (kl. 13:00 í 132 Öskju)

Ráðstefnugjald er kr. 2000 (500 f. nema). Skráningu ber að senda á netfangið liffraediradstefna@mail.holar.is. Þeir sem kynna rannsóknir sínar með veggspjöldum eða erindum eru sjálfkrafa skráðir. Í ráðstefnugjaldi er innifalinn miði á haustfagnað Líffræðifélags Íslands sem haldinn verður 7. nóvember í Gyllta sal Hótel Borgar.

Sjá nánar á heimasíðu Líffræðifélags Íslands, biologia.hi.is.




Hinn viti borni maður

Homo sapiens, hinn viti borni maður. Er þetta oflof eða kaldhæðni? Hér höfum við lagt áherslu á þá staðreynd að maðurinn er hluti af dýraríkinu og lífheiminum. Tegundin okkar er vissulega merkilegt dýr, en alls ekki annars eðlis en hinar lífverurnar. Við finnum gen skyld okkar genum í froskum, risafurum og gersveppum. Og þau mynda ótrúlega svipaðar prótínsameindir sem geta innt sambærileg störf af hendi.

Það er jú satt að engin önnur lífvera getur nýtt sér verkfæri eins og við eða tekist á um stórar hugmyndir eins og við. En samt sjáum við sömu grunneiningar og samfélagshæfni okkar byggist á í öpum, úlfum og fuglum. Dýr sýna rökhugsun og leysa einföld stærðfræðidæmi.

Næst komandi laugardag ætlum við að fá einn viti borinn mann til að segja okkur hvaða hugmyndir Darwin hafði um sérstöðu mannsins og greind okkar. Svarið verður örugglega flóknara en 42.


Von og væntingar

Rannsókn Sharon McKenna og félaga virðist vera ljómandi vel unnin og niðurstöðurnar skýrar. Kursimín (curcumin), efni sem finnst í túmeriki drepur frumur, og virðist gera það óháð þeim kerfum sem miðla stýrðum frumudauða (apoptosis).

Það sem vantar uppá er að vita hvaða áhrif efnið hefur á venjulegar frumur. Í ljós kemur að Jane Watson og félagar könnuðu þetta í grein sem kom út í fyrra. Þau sáu að kursimín hefur áhrif á ristilkrabbafrumur, en ekki venjulega fibróblasta.

Þessar niðurstöður eru vissulega spennandi, en því miður er erfitt að meta líkurnar á að þær nýtist sem meðferð. Sagan segir okkur að flest þeirra efna sem aftra vexti krabbameinsfruma hafa annað hvort aukaverkanir eða of væg áhrif í lyfjaprófunum til að þau komist í almenna notkun.

Það er vissulega rétt að niðurstöðurnar veki von, en við ættum að varast óraunhæfar væntingar.

Taglhnýtingar:

Sem fyrr er "fréttin" étin upp málsgrein fyrir málsgrein af vef BBC. Ég fann ekki eina einustu setningu í frétt mbl.is sem á sér ekki hliðstæðu í frétt BBC. Og það sem er kannski vandræðalegra er að þýðingin á beinum tilvitnunum er mjög döpur.

Dr McKenna said: "Scientists have known for a long time that natural compounds have the potential to treat faulty cells that have become cancerous and we suspected that curcumin might have therapeutic value." 

Haft er eftirSharon McKenna, sem stýrði rannsóknunum, að vísindamenn hafi lengi vitað að náttúruleg efni gætu haft þau áhrif að lækna sýktar frumur og talið hafi verið að curcumin gæti haft lækningamátt.  

Hér breytir þýðingin merkingu setningarinnar algerlega. Greinin sýndi að kursimín drap gallaðar frumur (treat faulty cells), en í þýðingunni er talað um að efnin geti "læknað sýktar frumur".

Í orðabók mbl.is er lítill munur á því að lækna og drepa.

Ítarefni:

BBC Curry spice 'kills cancer cells'

G O'Sullivan-Coyne o.fl. Curcumin induces apoptosis-independent death in oesophageal cancer cells British Journal of Cancer birt á vefnum 6 oktober 2009; doi: 10.1038/sj.bjc.6605308

Jane L. Watson o.fl Curcumin induces apoptosis in HCT-116 human colon cancer cells in a p21-independent manner Experimental and Molecular Pathology  Volume 84, Issue 3, June 2008, Pages 230-233. 

mbl.is Efni í karríi drepur krabbameinsfrumur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: miRNA og krabbamein

Tilkynning frá SKÍ:

Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi býður til málþings

NONCODING RNA Í MYNDUN OG MEÐFERÐ SJÚKDÓMA
27. OKTÓBER KL. 16 Í HRINGSAL LANDSPÍTALA.

Dr. Zophonías O Jónsson, Associate Professor of Molecular Biology
"A short overview of short RNAs"

Benedikta S Ha\u001fiðadóttir, M.S., PhD student
"MicroRNAs that target Mitf in melanoma cells"

Dr. Magnús Karl Magnússon, Professor of Pharmacology
"Non-coding RNAs in cancer progression"

Fyrirlestrarnir fara fram á ensku

Á milli fyrirlestra verða ferðastyrkir haustmisseris 2009 afhentir. Starf SKÍ er styrkt af Gróco, Astra-Zeneca og Novartis.
Allir eru velkomnir!


Rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins

Þann 31. október mun Joe Cain halda erindi er nefnist Rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins. Í erindinu verður fjallað um rannsóknir Darwins á manninum, sérstaklega rannsóknir á þróun „æðri vitsmuna“, eiginleika sem einkenna manninn og aðgreina hann frá dýrum. Útlistun á þróun þessara eiginleika var eitt erfiðasta vandamálið sem Darwin stóð frammi fyrir í rannsóknum sínum. Það hefur æ síðar vafist fyrir vísindamönnum og jafnframt heillað þá. Dr. Joe Cain mun á aðgengilegan hátt varpa ljósi á tilraunir Darwins til að skýra viðfangsefnið.eema2.jpg

Myndin er ekki af Joe Cain. Um er að ræða mynd frá nítjándu öld sem sýnir svipbrigði, já og putta.

 

Joe Cain er dósent í sögu og heimspeki líffræðinnar við Department of Science and Technology Studies við University College í London. Í rannsóknum sínum hefur hann einkum beint sjónum að sögu þróunarfræðinnar, sögu vísinda í Bandaríkjunum og rannsóknum á sögu náttúrufræða. Joe Cain er einnig sérfræðingur í Darwin, Darwinisma og vísindasagnfræði.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer nú á haustmánuðum. Upplýsingar um fyrirlestrana má nálgast á slóðinni darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á ensku.

31. október 2009, kl. 13:00, hátíðarsal, aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Sjá einnig fyrri færslu. Athugið, titli fyrirlestursins upp á íslensku var breytt til samræmis við áherslur erindisins.

Þeir sem hafa áhuga á þessu erindi gætu einnig haft áhuga á erindi Hrefnu Sigursjónsdóttur og Sigurðar Snorrasonar um þróun atferlis, sem verður einnig hluti af líffræðiráðstefnunni 2009.


Breyskir vísindamenn

Vísindi eru iðkuð af fólki. Fólk gerir mistök og fremur glæpi.

Kjarni hinnar vísindalegu aðferðar eru skýrt afmarkaðar tilgátur, sem spá fyrir um ákveðin fyrirbæri (t.d. að ef þú tekur koltvíldi úr lofti þá muni planta deyja). Það er mikilvægt að tilgáturnar sé hægt að afsanna. Eins er krafa að tilraunum og rannsóknum sé lýst það nákvæmlega að aðrir hópar geti endurtekið þær. Til að mynda getur hver sem er sannreynt það að plöntur þurfa koltvíldi!

Sumum einstaklingum finnst í lagi að svindla, til að fá víti í fótboltaleik, koma peningum til Tortola eða ná athygli girnilegs karlmanns. Hwang Woo-suk falsaði niðurstöður sínar, birti greinar byggðar á lygum. Áður en það komst upp var hann lofsunginn, dáður og fékk stóra styrki. Fallið var mikið, þegar upp komst og nýjustu tíðindin eru þau að hann hafi verið dæmdur fyrir fjársvik. 

Svikin komust upp vegna þess að aðrir vísindamenn bentu á að niðurstöður Hwang stóðust ekki og meðhöfundar og ritstjórar sáu að sum gögnin voru fölsuð. Í kjölfarið voru vísindagreinarnar dregnar til baka og Hwang var bannað a rannsaka stofnfrumur.

Hin vísindalega aðferð afhjúpaði svikin, því ef þú falsar gögn og heldur fram einhverju bulli (t.d. því að plöntur lifi á súrefni og framleiði koltvísýring), þá mun einhver í fyllingu tímans afsanna það.

Að endingu vill ég af gefinni ástæðu leggja áherslu á fernt.

1. Ritrýning er ekki lokapróf fyrir hverja rannsókn. Heldur það hvort að aðrar rannsóknir styði hana eða ekki. Allar tilgátur þurfa að standast ítrekaðar prófanir.

2. Það að einn maður falsi niðurstöður þýðir ekki að allir vísindamenn séu svindlarar.

3. Svindl er misalvarlegt, Hwang virðist hafa falsað mest af niðurstöðunum í stofnfrumurannsóknum sínum, aðrir teikna ónákvæma mynd af líffæri. Það að vísindamaður svindli þýðir ekki endilega að tilgátan hans sé röng, þó það auki vissulega líkurnar á því!

4. Þó að maður falsi niðurstöður einnar rannsóknar, þýðir það ekki að hann hafi falsað niðurstöður allra sinna rannsókna. Með öðrum orðum, þótt Hwang hafi klúðrað málunum í stofnfrumurannsóknum sínum er alls ekki víst að hann hafi svindlað þegar hann rannsakaði áhrif Cyclosporíns á rottufrumur á áttunda áratugnum.

Ítarefni

Pistill Magnúsar K. Magnússonar um stofnfrumur.

Grein NICHOLAS WADE í New York Times, Korean Scientist Said to Admit Fabrication in a Cloning Study 16. desember, 2005.


mbl.is Vísindamaður sakfelldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband