Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Crick og Watson, Wilkins og Franklin

Laugardaginn 28 febrúar 1953 náðu Francis Crick og James Watson að setja saman líkan af  byggingu erfðaefnisins, DNA. Þeir sýndu hvernig tveir DNA þræðir pöruðust, með tengjum á milli basa (G og C annars vegar og A og T hins vegar), og mynduðu stigul (gorm) eða "helix" eins og það heitir upp á engilsaxnesku. DNA helixinn er fyrir löngu orðinn að heimsþekktu tákni (svona rétt eins og krossinn, McDonaldsmerkið og pottur/sleif) og er eflaust eitt sterkasta tákn líffræðinnar. dna

Linus Pauling hafði snemma árs 1953 sett fram tilgátu um byggingu DNA sem reyndist vera röng. Það ku hafa ýtt við Crick og félögum, og hvatt þá til dáða. Keppnisandi kemur líka að góðu gagni í vísindum. Grein Watsons og Crick var birt á vormánuðum 1953 í tímaritinu Nature, hún er knöpp, merkilega hógvær og læsileg. 

Svo forvitnilega vill til að Linus var fæddur 28 febrúar. Það hlýtur að hafa verið örlítið sérkennilegt fyrir hann að frétta að Crick og Watson hafi leyst gátuna á þeim degi. Rétt er að geta þess að Pauling var enginn aukvisi í vísindum, hann byrjaði á rannsóknum í eðlisfræði en síðan hneygðist hann til líffræðilegri rannsókna (í ónæmisfræði, erfðafræði og lífefnafræði). Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1954 fyrir rannsóknir á efnatengjum, sem samkvæmt honum sjálfum var leið nefndarinnar til að verðlauna hann fyrir margar veigamiklar uppgötvanir.

Crick, Watson og Maurice Wilkins deildu Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1962 fyrir uppgötvun á byggingu DNA.

Eins og við minntumst á í fyrri færslu þá mun Guðmundur Eggertsson gera framlagi Crick og watsons skil í fyrirlestri í marsmánuði. 

Mynd er af síðunni Right handed DNA hall of fame.

Ítarefni af síðu History Channel.

Fréttablaðið gat uppgötvunar Crick og Watsons á tímamótasíðunni bæði í fyrra og í ár.

Í blaðinu frá 21 febrúar 2008 stendur (sem er augljóslega röng dagsetning).

Fræðimennirnir James atson og Francis Crick uppgötva samsetningu DNA-sameindarinnar.

Rétt er að segja að þeir uppgötva byggingu DNA sameindarinnar.

Í ár lendir fréttin á réttum degi, og fyrirsögnin tilgreinir byggingu: Watson og Crick leystu gátuna um byggingu DNA-sameindarinnar.

Þennan dag árið 1953 tilkynntu þeir James D. Watson og Francis Crick að þeir hefðu leyst gátuna um byggingu DNAsameindarinnar. Uppgötvunina byggðu þeir að stórum hluta á athugunum Rosalind Franklin sem bentu til þess að DNA-sameindin væri gormlaga. Fyrir uppgötvun sína fengu þeir félagar Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1962. DNA er erfðaefni allra lífvera.
DNA-sameindir litninganna skiptast í starfseiningar sem eru kallaðar gen. Þær eftirmyndast með mikilli nákvæmni í hverri frumukynslóð þannig að hver afkvæmisfruma fær nákvæmlega eins DNA, það er að segja sams konar gen og foreldrisfruman. Arfgengar breytingar á erfðaefninu eru nefndar stökkbreytingar. DNA (deoxyribonucleic acid) hefur á íslensku verið kallað DKS sem stendur fyrir deoxýríbóasakjarnsýra. (skáletur er okkar)

 

Þessi pistill er alveg ágætur, nema hvað erfðafræðin er ekki á fyllilega valdi blaðamannsins. Í fyrsta lagi eru litningar úr DNA, þannig að orðfærið "DNA-sameindir litninganna" er ónákvæmt. Í öðru lagi þá væri eðlilegra að tala um frumuskiptingu, erfðaefnið er eftirmyndað áður en fruma skiptir sér, og báðar frumurnar sem af skiptingunni hljótast eru með eins erfðaefni. Eftirmyndunin er mjög nákvæm, en eins og rétt er frá sagt í greininni, verða stundum breytingar í DNA sameindum sem kallast stökkbreytingar. Sumar stökkbreytingar hafa áhrif á starfsemi gena, prótína og jafnvel lífvera.

Rosalind Franklin vann með Maurice Wilkins og tók myndir af DNA kristöllum, en henni tókst ekki að búa til rétt líkan af byggingu erfðaefnisins. Hún lést fyrir aldur fram og ég veit ekki hvort það hefur verið útkljáð hvort að hún hefði átt meiri rétt á Nóbelsverðlaununum en Maurice.


Byltingarmenn vísindanna

Afburðavísindamenn skipta mjög miklu máli fyrir framfarir í vísindum. Þeir koma með ferska hugsun, nýjar kenningar, þróa lykil aðferðir, allt sem getur svipt hulu af fyrirbærum sem áður voru óútskýrð og opnað nýjar leiðir í þekkingaleit okkar. 

Heimspekistofnun HÍ stendur fyrir fyrirlestraröð í næsta mánuði þar sem framlag 6 lykil vísindamanna verður krufið. Sem líffræðingi finnst mér forvitnilegast erindi Guðmundar Eggertssonar um James Watson og Francis Crick, sem uppgötvuðu byggingu erfðaefnisins (DNA). Ég stefni á að sækja hin erindin því maður hefur gott af því að kynnast öðrum viðfangsefnum vísindanna og heimspekinnar.

Fyrsta erindið verður flutt af Halldóri Guðjónssyni dósent við Háskóla Íslands. Erindið verður 7 mars í sal 2 Háskólabíós (kl 13:00) og nefnist "Ef... þá og allt saman: Kurt Gödel og rökfræðin".

Tilkynning af vef HÍ er endurprentuð hér að neðan í heild sinni.

Fyrsti fyrirlesturinn af fimm í fyrirlestraröðinni Byltingarmenn vísindanna:

Halldór Guðjónsson, dósent við Háskóla Íslands flytur fyrirlestur undir yfirskriftinni:

Ef... þá og allt saman: Kurt Gödel og rökfræðin

Sagt verður frá þeim áherslum sem á seinustu einni og hálfri öld hafa verið lagðar á að renna sem dýpstum stoðum undir alla stærðfræði.  Þessi áhersla leiddi til ítarlegra rannsókna á rökfræði sem myndar regluverkið sem stærðfræðin fer eftir og styðst við.  Rökfræðin leggur fram helstu reglu allrar rökvísi manna og kemur því við allt sem menn hugsa og kunna.

Hvað mikilsverðastar og fallegastar niðurstöður þessara rökfræðirannsókna eru verk Kurts Gödel og verður í fyrirlestrinum reynt að gera þær sæmilega skiljanlegar.

Upplýsingar um næstu fyrirlestra:

14. mars. Þorsteinn Vilhjálmsson: Niels Bohr og aðferðir vísindanna. 

21. mars. Kamilla Rún Jóhannsdóttir: Alan Turing: Turing vélin og áhrif hennar á framfarir og takmörk hugfræðinnar.

28. mars. Guðmundur Eggertsson: Watson og Crick og DNA-líkan þeirra.

  4. apríl.  Eyja Margrét Brynjarsdóttir: Thomas Kuhn og vísindabyltingar.

Fyrirlestrarnir fara fram í Háskólabíó, sal 2, klukkan 13:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin er haldin af Félagi áhugamanna um heimspeki. Nánari upplýsingar fást hjá Elmari Geir og Finni Dellsén með því að senda póst á visindabyltingar@gmail.com.

 


Stríð ónæmiskerfis og HIV

Stofnar lífvera þróast með umhverfi sínu. Lífverur á norðlægum slóðum þurfa að eiga við m.a. kulda, og þá veljast úr gerðir sem þola kulda (af því að þær lifa og geta eignast afkvæmi en hinar deyja eða eru á einhvern hátt vanhæfari). Þetta er afleiðing náttúrulegs vals, sem kemur til vegna breytileika (í kuldaþoli), erfða (kuldaþolið erfist) og mishraðrar æxlunar (einstaklingar eignast mismörg afkvæmi).

Bakteríur og veirur þróast líka. Umhverfi HIV veirunnar er mannkynið, og líkami og arfgerð hvers hýsils. Veirufræðingar tóku eftir því snemma að HIV stökkbreytist gjörla, sem þýðir að veiran hefur mikinn erfðabreytileika, efnivið fyrir þróun. Þeir tóku einnig eftir því að veiran þróast hratt eftir að hún hefur náð fótfestu í einstaklingi. Ein veira sýkti einstaklinginn, en með tíð og tíma þróast hún, og aðlagast ónæmiskerfi viðkomandi einstaklings.

Breytileika í HIV milli manna má glögglega sjá á þróunartré, þar sem borin eru saman gag gen úr veirum sem einangraðar voru úr mörgum mismunandi einstaklingum. Þær veirur sem eru með mjög svipuð gen lenda á svipuðum stað í trénu (eru skyldar) - sjá hluta A á mynd. Á sama hátt má sjá fjölbreytileika innan einstaklings í hluta B, rauði depillinn er upphaflega veiran, en síðan sést hvernig mismunandi afbrigði hafa þróast yfir nokkura ára skeið (hver litur markar eitt ár).

Mynd af heimasíðu bókar Barton og félaga, Evolution www.evolution-textbook.org.

09_EVOW_CH15

Fjölþjóðlegi rannsóknarhópurinn sem Goulder er í forsvari fyrir skoðar frekar þennan breytileika í HIV og einnig fjölbreytileika í ónæmiskerfi viðkomandi sjúklinga.

HIV þarf að sleppa undan ónæmiskerfinu til að lifa af. Eitt af genum ónæmiskerfisins er HLA, sem skráir fyrir hinum svokölluðu MHC viðtökum (Major histocompatibility complex, hefur verið þýtt sem vefjaflokka mótefni). Um er að ræða himnubundin prótín sem sýna T frumur ónæmiskerfisins prótín framandi sýkla. Sumar samsætur (allele) MHC (t.d. t.d B*51) eru betri en önnur í að sýna prótín HIV veirunnar á yfirborði frumna.

Þetta felur tvennt í sér. Í fyrsta lagi fer mótstöðuafl fólks gegn HIV eftir MHC arfgerð. Í annan stað setur þetta þrýsting á HIV, sem getur sloppið vegna náttúrulegs vals á prótínum sem MHC bindur.

Sem er akkúrat það sem Goulder og félaga sýna, að ákveðnar breytingar í HIV sýna fylgni við tíðni MHC arfgerða í mismunandi löndum. Gerð B*51 er t.d. mjög algeng í Asíu, og þar finnst ein ákveðin "felu"stökkbreyting í 2 af hverjum 3. Felustökkbreytingin er hins vegar fátíð (1 af 10) í Bretlandi þar sem B*51 er mun sjaldgæfari.

Þróun er sífellt í gangi. Dæmin geta virkað lítilfjörleg, eins og aðlögun hornsíla að ferskvatni eða mosa að heitara loftslagi, en mörg skipta mannkynið verulegu máli eins þetta dæmi um HIV sýnir.

Ítarefni

Frétt BBC, Rapid HIV evolution avoids attack sem mbl.is fréttin er unnin uppúr (svona mátulega lipurlega).

Ágrip greinar Goulder og samstarfsmanna í Nature. Adaptation of HIV-1 to human leukocyte antigen class I 2009 Yuka Kawashima, Katja Pfafferott, John Frater, Philippa Matthews, Rebecca Payne, Marylyn Addo, Hiroyuki Gatanaga, Mamoru Fujiwara, Atsuko Hachiya, Hirokazu Koizumi, Nozomi Kuse, Shinichi Oka, Anna Duda, Andrew Prendergast, Hayley Crawford, Alasdair Leslie, Zabrina Brumme, Chanson Brumme, Todd Allen, Christian Brander, Richard Kaslow, James Tang, Eric Hunter, Susan Allen, Joseph Mulenga, Songee Branch, Tim Roach, Mina John, Simon Mallal, Anthony Ogwu, Roger Shapiro, Julia G. Prado, Sarah Fidler, Jonathan Weber, Oliver G. Pybus, Paul Klenerman, Thumbi Ndung'u, Rodney Phillips, David Heckerman, P. Richard Harrigan, Bruce D. Walker, Masafumi Takiguchi & Philip Goulder  doi:10.1038/nature07746

Grein Þuríðar Þorbjarnardóttur á visindavefnum um ónæmiskerfið.


mbl.is HIV þróast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlaun í ritgerðasamkeppni

Í tilefni afmælis Darwins og bókar hans Um uppruna tegundanna var meðal annars efnt til ritgerðasamkeppni meðal framhaldskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Samkeppnin var haldin í samstarfi Samtök líffræðikennara (Samlífs), Hins íslenska náttúrufræðifélags og aðstandenda Darwin daganna 2009.

Á afmæli Darwins 12 febrúar kunngerði dómnefnd niðurstöður sínar. Í fyrsta sæti var Kári Gautason, nemi við Menntaskólann á Akureyri, og var honum sérstaklega hælt fyrir læsilega og metnaðarfulla ritgerð sem vitnaði bæði í Darwin og Laxnes. Sævar Ingi Sigurjónsson og og Silja Elvarsdóttir bæði nemendur við Menntaskólann á Laugavatni, hlutu önnur og þriðju verðlaun. Allir verðlaunahafarnir fengu peningaverðlaun frá Samtökum líffræðikennara og eintök af Um uppruna tegundanna eftir Charles Darwin í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar og Um uppruna dýrategunda og jurta eftir Þorvaldur Thoroddsen. Bækurnar voru gefnar af Hinu Íslenska bókmenntafélagi.

Við þökkum öllum þátttakendum fyrir þeirra framlag og óskum verðlaunahöfum til hamingju. Vonandi halda þau áfram að skrifa um þróun, lífið og vísindi, sem flestum til innblásturs og yndisauka.

Sjá einnig:

Endurprentun á frétt Sólveigar Gísladóttur úr Fréttablaðinu.

Umfjöllun á www.darwin.hi.is.


Simon Conway Morris og samhliða þróun

Simon Conway Morris hefur rannsakað marga af elstu steingervðu dýrum sem finnast á jörðinni. Skrif hans vöktu fyrst athygli mína þar sem hann var að gagnrýna hugmyndir Stephen J. Gould. Gould leiddi rök að því að fjölbreytileiki grunnforma ("bodyplan") hefði verið mjög mikill á upphafstíma fjölfruma lífs, og að því að ef lífið myndi gerast aftur, væri fjarri því tryggt að samskonar liðdýr og hryggdýr myndu ná yfirráðum á jörðinni (sjá "wonderful life"). Conway-Morris leggur hins vegar höfuðáherslu á samhliða þróun ("convergence"), og heldur því fram að samskonar lífverur myndu þróast aftur og aftur (ef við gætum t.d. fylgst með lífinu á jörðinni þróast 10000 sinnum).

Inntakið í skoðun Goulds er að þróun sé ekki fyrirsjáanleg, þ.e. við vitum að bráðin mun þróast og finna leiðir til að sleppa undan afræningjanum, en við vitum ekki hvernig. Bráðin gæti falið sig (með felubúning), gert sig óæta (myndað eitur), hlaupið af sér afræningjan (með löngum fótum), varist afræningja (með kjafti eða skel).

Conway-Morris bendir á að margir eiginleikar þróast endurtekið, straumlínulaga form sjávardýra hefur þróast ítrekað, í óskyldum hópum eins og fiskum, mörgæsum, hvölum og selum. Einnig finnast dæmi um samhliða þróun á sameindasviðinu, núna síðast í hemóglóbín genum gæsa og þorska.

Mistök Conway-Morris felast í því að hann er tilbúin að alhæfa út frá nokkrum tilfellum, og gerir því skóna að samhliða þróun sýni að það séu dýpri lögmál að verki. Sem er náttúrulega hræðilega döpur rök.

Conway-Morris fetar sig lengra út á hálan ís og heldur því fram að andlegir vitsmunir tegundar okkar hafi verið þróunarfræðilega óumflýjanlegir. Það er ef líf þróast 10000 sinnum (t.d. á 10000 mismunandi plánetum), myndi vitiborinn maður þróast á öllum plánetunum. Loks brestur ísinn og hann virðist tilbúinn að meðtaka ónáttúrulegar skýringar á efnisheiminum, alheiminum og lífinu:

Ef alheimurinn er í raun afurð rökvís Huga og þróun er einungis leitarvél, sem leiðir til samkenndar og meðvitundar sem gerir okkur kleift að uppgötva grunndvallar atriði alheimsins

Með hans orðum:

If, however, the universe is actually the product of a rational Mind and evolution is simply the search engine that in leading to sentience and consciousness allows us to discover the fundamental architecture of the universe

Ath. Samkennd er ekki besta þýðingin á sentience!

Hér er Conway-Morris tilbúin að ræða um alheimin sem afurð rökvísrar veru, huga sem notar þróun til að skapa menn. Þetta er ný sköpunarsaga, jafn óprófanleg og gagnslaus og aðrar óvísindalegar hugdettur. Fallið er hátt hjá Conway-Morris, því rannsóknir hans á steingervingum voru ágætar. 

Vísindin treysta sem betur fer ekki á að vísindamenn hafi rétt fyrir sér í öllu, Conway-Morris getur stuðlað að nýrri þekkingu í steingervingafræði, en síðan kafnað í eigin steypu þegar spurningin berst að uppruna mannsins. Arthur Russel Wallace, sem setti fram þróunarkenninguna samhliða Darwin var forfallinn spíritisti. Kannski að vísindamenn tapi hlutlægninni þegar rannsóknirnar fara að snúast um eiginleika mannsins, vitundina og greindina. E.t.v. ættum við ráða nokkra klóka páfagauka til að rannsaka manninn.

Simon Conway-Morris verður til viðtals í vísindaþætti Sögu milli kl 17 og 18 í dag. Sjá einnig á Stjörnufræðivefnum.

Ítarefni:

Grein Simon Conway-Morris í the Guardian Darwin was right. Up to a point

Gagnrýni PZ Myers á Conway-Morris á Pharyngula.

 


Náttúrulegt val og náttúruval

1859_Origin_F373_001Á laugardaginn skellti ég inn pistli undir fyrirsögninni "Þróun og aðferð vísinda", sem útlistaði hvernig prófa má þróunarkenningu Darwins. Markmiðið var að leggja áherslu á grundvallaratriði þróunarkenningarinnar og benda á veikleika í röksemdafærslum margra sköpunarsinna, sem tína til "vísindalega hljómandi" atriði ályktunum sínum til stuðnings. Hugmyndin var að pistillinn væri tengdur fréttaskýringu Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur, Vísindi sem hafa staðist tímans tönn, sem mistókst af einhverri ástæðu. Af fádæma sjálfshrifningu fannst mér viðeigandi að tengja annan pistil við fréttaskýringu Jóhönnu, m.a. vegna þess að hún leitaði alits okkar á framlagi Darwins.

Ég vill þakka Jóhönnu gott samstarf, og nota tækifærið til að leggja út frá einu grunnhugtaki þróunarkenningar Darwins, náttúrulegu vali. Flestir lesendur kannast e.t.v. betur við hugtakið náttúruval, sem hefur fests í sessi hérlendis (ég veit ekki uppruna þýðingarinnar, sem skiptir ekki öllu máli).

Við kennslu í þróunarfræði við Háskóla Íslands leggjum við (ég og samkennarar mínir Einar Árnason og Snæbjörn Pálsson*) höfuðáherslu á að nota "náttúrulegt val"  en ekki náttúruval. Ástæðan er tvíþætt, “náttúrulegt val er betri þýðing á enskunni "natural selection". Náttúruval er nafnorð, sem setur náttúruna á stall geranda, en "náttúrulegt val" gefur til kynna að um sé að ræða ferli "val" sem er náttúrulegt og gerist af eðlilegum orsökunum. Hin ástæðan er sú að orðaval mótar hugmyndir okkar og skilning. Hérna er ekki að ræða hártoganir heldur grundvallaratriði varðandi ferli þróunar, þar sem náttúrulegt val er vélræn afleiðing breytileika, erfða og mishraðrar æxlunar. Með orðum Darwins sjálfs, úr inngangi uppruna tegundanna (síðu 5):

As many more individuals of each species are born than can possibly survive; and as, consequently, there is a frequently recurring struggle for existence, it follows that any being, if it vary however slightly in any manner profitable to itself, under the complex and sometimes varying conditions of life, will have a better chance of surviving, and thus be naturally selected.

Feitletrun mín.

*Bæði Einar og Snæbjörn eru mér eldri og reyndari í hettunni, báðir kenndu mér þegar ég var í líffræðinámi.


mbl.is Vísindi sem hafa staðist tímans tönn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróun og aðferð vísinda

Darwin notaði hina vísindalegu aðferð. Hann setti fram tilgátur, sem báru í sér spá um ákveðna mælanlega eiginleika eða tilhneygingar. Hann mat síðan tilgáturnar og gat afsannað þær sem ekkert spágildi höfðu. Hann sýndi fram á nokkrar leiðir til að prófa og afsanna tilgátu sína um þróun lífvera. Náttúrulegt val er hægt að afsanna ef það er sýnt fram á að 1) það sé enginn breytileiki, 2) að enginn arfbundinn þáttur sé fyrir breytileika, eða 3) ef lífverur æxlast ekki mishratt. Enginn vitiborinn maður heldur þessu fram, enda eru niðurstöðurnar yfirþyrmandi...náttúrulegt val getur klárlega virkað á flesta eiginleika lífvera. Og þannig breytt þeim og aðlagað að umhverfi sínu.

Darwin sýndi einnig fram á að þróunartréð má prófa. Ef það einhvern tímann fyndist bein núlifandi tegundar í í vitlausu jarðlagi (t.d. Homo sapiens í jarðlögum frá Cambrian) þá væri búið að afsanna tilgátunana um sameiginlegan uppruna og þróunartréð. Ekkert slíkt hefur fundist, hver einasti steingervingur sem hefur fundist (og þeir skipta tugum ef ekki hundruðum þúsunda), fellur inn í þróunartréð.

Sköpunarsinnar minnast oft á líffæri eða aðlaganir sem virðast fullkomin, eða það flókin að þau geti ekki hafa orðið til vegna áhrifa náttúrulegs vals. Því er haldið fram að umrædd líffæri séu dæmi um að Guð hafi skapað allavega þennan hluta lífvera (dýrðar drottinn sem skapar augu og svipur, en lætur þróunina um rest?). Um er að ræða miskilning, rangtúlkun á niðurstöðum sem leiðist oft út í þverskallahátt í “rökræðum”. Hvort sem um er að ræða augu hryggdýra eða smokkfiska, svipu baktería eða ríbósóm allra lífvera, þá má sjá skýr merki um þróun. Genin sem byggja augun finnast í flestum lífverum, en þau starfa bara saman á mismunandi hátt og byggja þannig mismunandi líffæri. Eins má sjá greina mikinn fjölbreytileika í svipum eftir tegundum baktería (alveg eins og Darwin spáði). Það er því augljóst að mörg millistig finnast, og einnig sést að prótínin sem mynda svipu bakteríanna eru skyld prótínum sem mynda jónagöng eða seytingu gegnum himnu. Rökin fyrir guðlegri sköpun standast því ekki. Þar að auki meðtekur hin vísindalega aðferð ekki yfirnáttúrulegar skýringar á veröldinni, þ.a.m. eiginleikum lífvera.


Sama fréttin aftur

Vissulega er rétt að fylgja eftir spennandi niðurstöðum, en þessi frétt er næstum því eins og fyrr frétt mbl.is

Tækni & vísindi | mbl.is | 13.11.2008 | 08:02

http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/11/13/beinmergskipti_kunna_ad_hafa_laeknad_alnaemi/

Leita fréttamenn mbl.is ekki á eigin vef áður en þeir skrifa fréttir?

Við gerðum niðurstöðurnar að umfjöllun í fyrri færslu, Erfðafræðielgt mótstöðuafl?


mbl.is Tímamót í alnæmisbaráttunni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Charles Darwin, fæddur 12 febrúar 1809.

Sonur hjónanna Roberts og Susannah Darwin, fæddist á heimili þeirra "the mount" í Shrewsbury í Shropskíri á Englandi. Pilturinn var skírður í höfuðið á föður sínum og nýlátnum frænda, og ólst upp sem náttúruelskandi barn. Síðar lauk hann guðfræðipróf, silgdi um veröldina á hvutta (skipinu "the Beagle") og varð einn merkasti náttúrufræðingur sögunnar.

Framlag hans er margþætt, en hann er þekktastur fyrir kenningu sína um náttúrulegt val og sameiginlegan skyldleika lífvera og skipan þeirra í þróunartré. Saman er þetta þekkt sem þróunarkenning Darwins (þótt reyndar hafi Alfred Wallace gert sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum - sjá t.d.).

Lykillinn að þróunarkenningunni er stofnahugsun. Hún felur í sér að maður skoðar eiginleika hóps, ekki hinu einu sanna, guðlega og fullkomna eins og Plató gerði. Um leið og horft er á lífverur sem stofna blasir við breytileiki, sem er hráefni þróunar.

Náttúrulegt val er afleiðing breytileika milli einstaklinga. Breytileikinn þarf líka að vera arfgengur (berast frá foreldrum til afkvæma) og ef einstaklingar æxlast mishratt þá veljast ákveðnar gerðir úr, algerlega náttúrulega. Að auki er barátta fyrir lífinu, ekki allir einstaklingar ná í fæðu, eða geta af sér afkvæmi, sem leiðir til þess að þær verur sem hæfastar eru hverju sinni, veljast úr vegna þess að þær eru aðlagaðar umhverfi sínu. Þannig verða til aðlaganir, eiginleikar sem nýtast lífverum í baráttunni fyrir lífinu, svo sem augu sem gera þeim kleift að sjá, hendur sem nýtast til klifurs í trjám og ensím sem geta brotið niður sterkju.

Mér finnst stórkostlegt að svo einfallt lögmál geti útskýrt fjölbreytileika lífvera og hinar margvíslegu aðlaganir sem við búum yfir eða sjáum í öðrum lífverum. En um leið áttar maður sig á því að aðlaganirnar eru aldrei fullkomnar, augun eru ekki fullkomin, ensímin gætu verið aðeins betri og hendur sem gagnast við klifur henta verr til að tengja rafrásir.

Í tilefni afmælis Darwins er haldið málþing, undir yfirskriftinni "hefur maðurinn eðli?". Það verður kl 16:30 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Látið endilega sjá ykkur.

Ítarefni og óður til Darwins:

The Origin of Darwin OLIVIA JUDSON í New York Times.

Steve Jones ræðir um innrækt og erfðagalla We ought to be exterminated, í the Guardian.

Í the Telegraph Charles Darwin: The man behind the theory of evolution


Glæsileg greind

Það er glæsilegt að Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík skuli hafa landað þessu styrk. Við óskum honum hjartanlega til hamingju. Þetta er annar stóri styrkurinn sem íslenskur hópur hefur landað á tæpu ári, því fyrir áramót fékk Bernhard Pálsson og félagar við HÍ styrk frá ESB upp á 400 milljónir fyrir rannsóknir í kerfislíffræði.

Ari K. Jónsson forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík er að vonum kátur, enda gengur starf í gervigreindarsetrinu ljómandi vel. Mæli með því að þið athugið verkefnin sem hópurinn er að rannsaka, þau virka mjög spennandi, og síðan verð ég að geta þess Ari mun halda erindi um greind og gervigreind "Hefur maðurinn einkaleyfi á greind?", sem er hluti af málþingi í tilefni afmælis Charles Darwin.


mbl.is HR fær 292 milljóna króna styrk frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband