Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Amerískir kjúklingar

Sköpunarsinnar kvarta oft yfir þvi að vísindamenn séu með ofríki og að sumir þeirra halda því fram að samsæri sé gegn kirkjunni og lífskoðunum hinna trúuðu. Sköpunarsinnar (og jábræður þeirra sem boða vitræna hönnun) staðhæfa að lífverur séu afurð sköpunar og sumir krefjast þess að sköpunarsaga biblíunar sé kennd samhliða þróunarkenningunni í líffræðiáföngum. Líffræðingar og aðrir vísindamenn sætta sig ekki við yfirnáttúrulegar skýringar á fyrirbærum heimsins. Og þeir vilja alls ekki að yfirnáttúrulegar sögusagnir séu kenndar í raungreinum, það væri rétt eins og að leyfa kennslu á hugmyndinni um "vitrænt fall" samhliða kenningum Newtons.

Sköpunarsinnar og aðrir hófsamari fylgismenn þeirra eru sterkur þrýstihópur, sem sækja fram á mörgum vígstöðvum. Þeir reyna að fá kennsluskrám breytt í mörgum fylkjum, sýslum og minni byggðarlögum. Þeir dæla út einblöðungum, ríkulega myndskreyttum áróðursritum, myndböndum og hljóðsnældum (dáldið eins og álvöru nýaldarsinnar!). 

Þeir hafa ekkert til að standa á í fræðilegri umræðu, allar staðhæfingar þeirra hafa verið hraktar lið fyrir lið. Að auki falla þær allar á fyrsta þröskuldi, þeirra hugmyndir leyfa yfirnáttúrulegt inngrip í náttúruna, nokkuð sem vísindamenn hafa hafnað í 150 ár.

Barátta sköpunarsinnanna er ekki vísindaleg í eðli sínu, heldur samfélagsleg og e.t.v. pólitísk. Þetta er spurning um áhrif og "sálir", ekki sannleika eða framfarir. Markmiðið er ekki að sigra í fræðilegri umræðu, heldur slá ryki í augu fólks til að það haldi að einhver vafi sé á sannleiksgildi þróunarkenningarinnar (og þar með vonast þeir eftir því að allir komi hlaupandi í kirkjuna).

Ástæðan fyrir þessum pistli eru þau tíðindi að enginn dreifingaraðilli hafi fundist fyrir kvikmynd um æfi Darwins. Ástæðan er sögð vera sú að Bandaríkjamenn séu of viðkvæmir fyrir efninu. Ég myndi aldrei staðhæfa að þetta sé merki um ofsóknir gegn vísindunum, en undirstrika að slagurinn er ekki fræðilegur heldur pólitískur. 

Ítarefni:

Kenningar Darwins þykja of eldfimar visir.is

Charles Darwin film 'too controversial for religious America' Anita Singh, Daily Telegraph.


Lífsins tré

Fjölbreytileika lífvera má útskýra með aðlögun þeirra að umhverfinu og þeirri staðreynd að þær eru allar af sama meiði. Tilgátan um lífsins tré var í upphafi studd upplýsingum um útlit lífvera, innri byggingu og lífeðlisfræði. Raðgreiningar á prótínum og genum hafa staðfest þessa tilgátu.

Þótt við vitum að allar lífverur á jörðinni skipi sér í lífsins tré er björninn ekki unnin. Við vitum nefnilega ekki allt um byggingu trésins, aldur greina og skyldleika margra hópa. Flokkunarfræðin gengur út á að prófa tilgátur um skyldleika lífvera, með margskonar aðferðum. Eru mörgæsir skyldari hröfnum eða mávum, er frumdýrið Giardia skyldara sveppum eða mönnum? og þar fram eftir götunum. Slíkar óleystar ráðgátur afsanna ekki á nokkurn hátt þróunarkenninguna, frekar en sú staðreynd að við þekkjum ekki allar stjörnir og plánetur í veröldinni afsannar þyngdarlögmálið.

Okkar besta þekking um lífsins tré er aðgengileg á vefsíðu Tree of life verkefnisins (http://tolweb.org/tree/).

Rúv sýnir í kvöld þátt um tré lífsins.


Baktería ekki Giardia

Myndin sem fylgir fréttinni er af frumdýrinu Giardiu, ekki af bakteríu.

mbl.is hefur áður gert svipuð mistök, nema hvað þá var því haldið fram að  Giardia væri baktería. Þó að mistökin þar hafi legið í þýðingu, er mikilvægt að hafa manneskju í fréttamennsku sem þekkir efnið nægilega vel til að finna mistök.

Frétt BBC núna fjallar um efnasambandi NO (nitrite oxide), sem einnig er notað sem boðefni í mönnum og öðrum hryggdýrum. 

Mér líst illa á að þróa lyf sem slá á NO framleiðslu, nema þau séu sértæk gegn prótínum sem ekki finnast í frumum okkar.

Antibiotic resistance clue found BBC 13 september 2009

 


mbl.is Útskýra vörn baktería
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindin í daglegu lífi

Sjaldan var rætt um Norman Borlaug úti á götu. Framlag hans og þeirra sem stóðu að grænu byltingunni er samt stórkostlegt, þótt vitanlega kunni ekki allir að meta það.

Margir vísindamenn stunda rannsóknir í hagnýtum sviðum, sem tengjast t.d. nýtingu náttúrulegra stofna, rannsóknum á sjúkdómum eða nytjaplöntum.  Aðrir stunda rannsóknir sem miða að því að svara grundvallarspurningum. Slíkar rannsóknir kunna að virðast hin mesta endaleysa og tímasóun, en sagan geymir mörg dæmi um grunnrannsóknir sem síðar öðluðust mikið hagnýtt gildi. Tvö dæmi um slíkt er erfðafræðin og þróunarfræðin. Hvernig geta rannsóknir á mismunandi skjaldbökum á Galapagos gagnast mannkyninu, eða tilraunir á hæð og áferð baunaplantna gagnast mannkyninu?

Viðfangsefni Darwins var breytileiki í náttúrunni, og Mendels grundvallarlögmál erfða. Þegar lögmál Mendels enduruppgötvuðust og voru sameinuð þróunarkenningunni, varð til ótrúlega öflugt fræðisvið, stofnaerfðafræðin*. Hún hjálpar okkur að skilja þróun tegunda og erfðir sjúkdóma en einnig að stýra ræktun afbrigða og leita uppi nýjan erfðabreytileika sem getur nýst í framtíðinni.

Framlag plönturæktenda síðustu aldar byggðust á stofnerfðafræðinni, áherslu á erfðabreytileikann, framförum í efnafræði og tæknivæðingu landbúnaðar. Velmegun sem vesturlandabúar lifa við í dag væri ekki möguleg án grænu byltingarinnar. Byltingin er ekki án fórna, en gott er að ímynda sér hvar við værum ef hennar hefði ekki notið við.

*Strangt tiltekið urðu til tvö náskyld fræðasvið, stofnerfðafræðin (population genetics) og magnbunda erfðafræðin (quantitative genetics).


mbl.is Faðir grænu byltingarinnar látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Efnaskipti frumunar

Miranda Stobbe heldur fyrir lestur föstudaginn 11 september 2009 um gagnagrunna sem hýsa upplýsingar um efnaskiptaferla frumna.

Erindið verður í Öskju, kl 14:00, og verður flutt á ensku.

Ágrip erindisins og nánari lýsingu á fyrirlesaranum má finna á vef HÍ.


Kvikmynd um Darwin

Ráðstefna um Darwin, sýning um Darwin, málþing um Darwin, pistill um Darwin...og nú loksins kvikmynd um Darwin. Í tilefni þess að 200 eru liðin frá fæðingu Charles Darwin hefur fólk fundið sér ýmislegt til dundurs. Yðar auðmjúkur er hér ekki undanskilinn. Í raun mætti segja að við höfum á köflum skrifað of mikið um þennan líffræðing, á kostnað annara fræðimanna og kannski það sem meira máli skipti annarra líffræðilegra viðfangsefna.

Þannig er það nú samt að manneskjur hafa áhuga á öðrum manneskjum. Þegar verið er að kenna einhver fræði er oft taldir upp forkólfar viðkomandi vísinda, Kepler, Pascal, Darwin, Haldane og Blackburn, sem gerir lærdóminn auðmeltari. Listi af staðreyndum hefur ekki sama aðdráttarafl og saga af ævintýralegum leiðöngrum, krassandi rifrildi eða ofsóknum frá hendi kirkjunar. 

Hinn hlédrægi og heimakæri Charles Darwin þætti væntanlega lítið til koma fjaðrafok vegna 200 ára afmæli hans, þótt vissulega hafi hann upplifað móðganir "tjöru og fiður"-fólks þegar hann gaf út Uppruna tegundanna. Þegar fræðin og skrif Darwins eru krufin vill það oft gleymast að hann var bara ósköp venjulegur maður, vissulega efnaður, en fjölskyldufaðir, eiginmaður og sveitungi. Þessi mannlega hlið Darwins er kjarninn í kvikmynd um æfi Darwins sem frumsýnd verður á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú í haust.

Kvikmyndin heitir sköpun ("creation") og er byggð á bók eftir einn af afkomendum Darwins Randal Keynes ("Annie’s Box: Charles Darwin, his Daughter, and Human Evolution"). Titill myndarinnar virðist sniðinn til þess að kveikja í trúuðum, en kjarni bókarinnar er dauði Annie, 10 ára gamallar dóttur Darwin hjónnana. Dauði hennar hafði mjög sterk áhrif á Darwin, og virðist hafa valdið vissri togstreitu milli hans og Emmu eiginkonu hans (hún var trúuð en Darwin var á þeim tíma að missa leifarnar af þeirri trú sem hann tók með sér í siglinguna á Hvutta).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið bókina um Annie, en styðst við umfjöllun Oliviu Judson um kvikmyndina og bókina. Moore og Desmond gáfu út í upphafi árs nýja ævisögu Darwins, sem kallast "Darwins sacred cause". Þeir færa rök fyrir því að andúð Darwins á þrælahaldi hafi verið kveikjan að þróunarhugmyndum hans, og að margar rannsóknir hans hafi átt rætur í spurningunni um skyldleika kynþátta. Margir af samtíðamönnum Darwins héldu því fram að hvítir menn og svartir hefðu verið skapaðir í sitt hvoru lagi, og því væri algerlega verjandi að hlekkja blökkumenn og selja í þrældóm. Samkvæmt bók þeirra er Darwin vísindamaður, sem er drifinn af trúarlegri samkennd með mönnum, sama hvernig þeir eru á litinn, byggðir eða lagaðir. 

Bæði bók Moore og Desmond og kvikmyndinni um Annie kynna Darwin sem venjulegan mann, ástríkan og breyskann. Ástæðan fyrir því að við munum betur eftir honum, en sveitungum hans er að hann hugsaði skýrar en margur og setti fram þrjár af lykilhugmyndum líffræðinnar. Breytileikinn í stofnum er það sem skiptir máli, náttúrulegt val getur útskýrt aðlaganir lífvera að umhverfi sínu og allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði.

Eftir viku mun RÚV sýna þátt frá BBC um "kallinn" og lífsins tré.

Ítarefni:

The Creation of Charles Darwin, Olivia Judson 8 september 2009.


Ágrip fyrir líffræðiráðstefnuna

15 september næstkomandi rennur út frestur til að senda inn ágrip á líffræðiráðstefnuna.

Hún verður haldin 6 og 7 nóvember 2009, í Öskju, Norræna Húsinu og sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Venjulega er afskaplega gaman á líffræðiráðstefnunni, margskonar yfirlitserindi og flestir af framhaldsnemunum kynna sína rannsóknir. Eðlilega spannar ráðstefnan allt frá lýsingu á nýjasta krabba Íslands til stofnfruma í hjartavöðva, með eðlilegri viðkomu í lundabyggð Látrabjargs, þorskgöngum Faxaflóa og bakteríudrepandi prótínum í lungnaþekju.

Nánari upplýsingar um form ágripa, netföng til að senda þau í og skipulag ráðstefnunar má finna á nýrri vefsíðu líffræðifélagsins (biologia.hi.is).

Hápunktur skemmtanalífs Reykjavíkurborgar og nærliggjandi sveita (ath. Mosfellsborg er undanskilin) er síðan Haustfagnaður líffræðifélagsins, sem fram fer laugardagskvöldið 7 nóvember.


Tarzan og risarottan í eldfjallinu

Sem strákur las maður ógrynni af ævintýrabókum, Fimm fræknu, ævintýrabækurnar, Tom Swift, Frank og Jóa og auðvitað Tarzan.

Í Tarzanbókunum var algengt að hetjurnar okkar lentu í helli með lífverum frá Ísöld eða dal með risaeðlu. Fréttin í BBC um risarottu í týndu eldfjalli gæti allt eins verið titill á Tarzanbók.

Líffræðin sem um ræðir er vitanlega sú að enn eru að finnast áður óþekktar tegundir lífvera, jafnvel stórra og stæðilegra hryggdýra eins og umrædd "rotta". Tegundirnar fundust Papua nýju Guineu, sem er ein stærsta eyjan í því sem var einu sinni kallað Austur indíur. Lífríki þessara eyja er mjög fjölbreytt, margar tegundir skordýra, spendýra og fugla má finna þar, og eru flestar þeirra einstakar. Alfred Wallace sem ásamt Charles Darwin setti fram þróunarkenninguna vann fyrir sér sem náttúrugripasafnari á þessum eyjum. Fjölbreytileiki lífveranna en samt óumdeilanlegur skyldleiki vakti athygli hans, rétt eins og Darwin tók eftir sambærilegu mynstri á Galapagoseyjum. 

Ef til vill var það ekki tilviljun að náttúrufræðingar sem skoðuðu lífríki eyja uppgötvuðu náttúrulegt val. Ljóst er að eyjar og einangraðir staðir eins og eldfjöll eru fyrirtaks staðir fyrir ævintýraþyrsta náttúrufræðinga nútímans. Sem betur fer lenda þeir sjaldnast í hremmingum eins og Tarzan, því það er óvíst hvernig þeim farnaðist í slag við krókódíla, hausaveiðara eða illgjarna námumenn.

Atla Steini er þökkuð ábendingin, þessi frétt á BBC er mjög forvitnileg.

Ítarefni.

Matt Walker - Giant rat found in 'lost volcano' BBC 6 september 2009. - mæli sérstaklega með myndböndunum.

Atli Steinn Guðmundsson á vísi.is - Risarotta á meðal 40 nýuppgötvaðra dýrategunda


Bakteríuland

Flestir vita að bakteríur eru litlar og að sumar þeirra geta faldið sjúkdómum. Færri vita að bakteríur er ótrúlega margbreytilegar, sumar þeirra lifa í hæstu fjöllum, en aðrar djúpt í iðrum jarðar. Sumar þrauka í súlfúrmekki neðansjávarhvera á meðan aðrar lifa innan í frumum okkar.

Bakteríur eru frábrugðnar okkur að mörgu leyti, það sem skiptir e.t.v. mestu er að erfðaefni þeirra er dreift um frumuna, á meðan erfðaefni okkar er bundið við ákveðið frumulíffæri, kjarnan (sbr. dreifkjörnungur og heilkjörnungur).

Í okkur búa ótrúlega margar bakteríur, í iðrum okkar er fjölbreytt flóra sem hjálpar til við niðurbrot fæðunnar. Sýnt hefur verið fram á að bakteríur eru nauðsynlegar fyrir eðlilega þroskun meltingarvegarins, og eins og þeir vita sem tekið hafa sýklalyf gegn sýkingum, þá getur það tekið tíma að endurreisa bakteríuflóru meltingarvegarins, sem og húðar, munns og annara svæða.

Bakteríur hafa mikið notagildi í rannsóknum og iðnaði. Þekktasta bakterían Eschericia coli (E. coli) er  af mörgum álitin meinvaldur en hefur reynst okkur ótrúlega vel í rannsóknum á líffræði frumunnar og lögmálum erfða.

Í kvöld mun RÚV sýna franskan heimildaþátt um bakteríur, undur þeirra og hagnýtingu. Myndin heitir á frummálinu Bacterialand og er eftir Thierry Berrod. Ég veit ekki hvernig efnistökin verða, en mun fylgjast með af áhuga.

Einnig vil ég benda fólki á að eftir viku (14 september 2009) mun RÚV sýna þátt um Darwin og tré lífsins.

Ítarefni


Setning fyrirlestraraðar

Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ setti fyrirlestraröð um þróun lífsins, sem efnt var til að tilefni 200 ára afmælis Charles R. Darwin.

Hún veitti samþykki sitt fyrir því að opnunarávarp hennar væri endurprentað, og höfum við því sett það inn á vefsíðu Darwin daganna 2009 (darwin.hi.is). Að neðan má sjá valdar setningar úr erindi Krisínar.

Darwin er án efa einn merkasti líffræðingur sögunnar. Með riti sínu Um uppruna tegundanna setti hann fram byltingarkennda kenningu um þróun lífs á jörðu, þróunarkenninguna. Kenningin hefur haft djúptæk áhrif á vísindalega hugsun allar götur síðan.

Það má með sanni segja að þróunarkenningin sé víðtækasta kenning líffræðinnar. Við sjáum merki um hana allsstaðar og sífellt eykst skilningur á þróun lífvera. Á þeim 150 árum sem liðin eru síðan þróunarkenning Darwins kom fram hefur fjöldi vísindamanna uppgötvað nýjar hliðar þróunarinnar sem Darwin kynntist aldrei.

Það er gaman að geta sagt frá því á afmælisári Darwins að mikill áhugi er á náttúrufræðigreinum við Háskóla Íslands. Við sjáum að umsóknir í líffræði, jarðfræði og landfræði eru nærri helmingi fleiri en í fyrra og eðlisfræðin og jarðeðlisfræðin njóta einnig vaxandi vinsælda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband