Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Mjög góð bók

Ég kynntist fyrst skrifum Unnar þegar ég las bók hennar Mannkynbætur: hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20. öld. Hún reyndist mér ágæt heimild um það hvernig íslendingar tóku hugmyndum um mannkynbætur, sérstaklega þar sé ég var að skrifa um erfðasjúkdóma og þróun mannsins fyrir bókina um Arfleifð Darwins (ágrip úr kaflanum mínum má finna á darwin.hi.is).

Í bókinni "Þar sem fossarnir falla" fjallar hún um hugmyndir landans um fossa  og nýtingu þeirra. Þetta er mjög lærdómsrík lesning, sama hvaða skoðanir sem fólk hefur á nýtingu vatnsafls, jarðvarma og náttúruvernd.

Þetta er einmitt dæmi um grandvara og yfirvegaða vinnu fræðimanns, sem í fullkomnum heimi myndi færa umræðuna um nýtingu og náttúruvernd upp á æðra plan. En eins og því miður eru of mörg dæmi um, þá einkennast íslenskar umræður um deilumál af upphrópunum, sleggjudómum og rangfærslum.


mbl.is Fossarnir hafa alltaf verið í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwins: Ljósmyndasýning og tilboð í bóksölu

Hafdís Hanna einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda og ætlar að sýna nokkrar þeirra í Te og Kaffi í Eymundsson:

Ljósmyndasýningin "Á slóðum Darwins" verður opnuð laugardaginn 23. október kl. 16 í Te & Kaffi í Eymundsson, Austurstræti.
Á sýningunni ber að líta myndir af lífríki og landslagi Galapagoseyja sem líffræðingurinn Hafdís Hanna Ægisdóttir tók á fimm vikna rannsóknarferð um eyjarnar.
Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar "Arfleifð Darwins - þróunarfræði, náttúra og menning" sem nýverið kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags.

Sýningin mun hanga uppi frá 23. október - 23. nóvember 2010.

ArfleifdDarwins kapa3 Fyrir nokkrum vikum var haldin útgáfuhátíð bókarinnar Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning. Bókin er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði.

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta upp á tilboðsverð á bókinni allan októbermánuð.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins.

 


Erindi: Þekkingaröflun hornsíla og sníkjudýr

Nú í vikulokin verða þrjú meistarverkefni varin við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Í öllum tilfellum er um að ræða nemendur Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, sem ásamt Bjarna K. Kristjánssyni skrifaði kafla um tilurð tegunda í bókina Arfleifð Darwins.

Guðbjörg hefur rannsakað stofngerð, vistfræði og atferli hornsíla undanfarin ár.Hornsíli eru ein duglegustu kvikindi sem finnast hérlendis. Þau virðast þrífast í smáum tjörnum og stórum, og finnast jafnvel fjarri lækjum og ám. Vistfræðingar virðast ekki vita almennilega hvernig þau dreifa sér í nýjar tjarnir. Tvö verkefni fjalla um hornsíli, 1) þekkingaröflun þeirra og tengsl við búsvæði og aðskilnað stofna og 2) breytileika í ónæmiskerfi og sníkjudýrum í hornsílum. Þriðja verkefnið fjallar um atferli þorskseiða.

Alexandros Andreou kynnir verkefnið sitt "Þekkingaröflun hornsíla í eiginlegu og
félagslegu rými: Ólík búsvæði og stofnaaðskilnaður
" föstudaginn 22. október í stofu N-131 í Öskju Kl 13:20

Hornsíli (Gasterosteus aculeatus) hafa síðustu áratugi verið módel tegund fyrir rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, afbrigða og tegundamyndun. Á síðustu 15.000 árum hafa fundist fjöldamörg afbrigði og tegundir hornsíla. Á Íslandi hafa ólík afbrigði m.a. fundist í vötnum þar sem nýlegar jarðhræringar hafa myndað hraunbotn í hluta vatnsins. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif búsvæða af mis flókinni uppbyggingu (hraun, leðja)á hæfileika hornsíla til að nýta  þekkingaröflun á nærumhverfi (spatial learning) og upplýsingar fluttar í félagslegu rými (socially transmitted information) til fæðunáms. Niðurstöðurnar sýna að  hornsíli af hraunssvæðum hafa aukna hæfni til þekkingaröflunar á nærumhverfi. Hornsíli af leðjubotni sýna meiri félagshegðun og eru líklegri til að nýta félagslegar upplýsingar til að nálgast fæðu. Þó virðist sem félagshegðun og nýting félagslega upplýsinga sé ekki beintengd heldur geti þróast sjálfstætt innan stofna.

Myrsini Eirini Natsopoulou fjallar um verkefni sitt "Sníkjudýr og samhliða aðskilnaður í
arfgerðum MHC hjá hornsílum: Ólík búsvæði og stofnaaðskilnaður
" stuttu síðar - Kl 14:30 í stofu N-131 í Öskju.

...Í þessari rannsókn er sjónum beint að því hvernig ólík sníkjudýrasamfélög í mismunandi búsvæðum geta stuðlað að vali fyrir breytileika og aðskilnaði á milli hornsílastofna.  Niðurstöðurnar sýna að samhliða breytileiki í sníkjudýrasamfélögum, sníkjudýrasýkingum og arfgerðabreytingum á MHC finnst á milli hraun og leðjubotngerðum. Leiddar eru líkur að því að sníkjudýr hafi orsakað skarpt náttúrulegt val sem stuðlaði að aðskilnaði og afbrigðamyndun.

Fyrr í dag kynnti Panagiotis Theodorou verkefni sitt "Áhrif hitastigs og eldisumhverfis á atferli þorskseiða (Gadus morhua)".

Þorskurinn (Gadus morhua) er mikilvægasti fiskveiðistofn Íslendinga. Þorskseiði eyða sínum fyrsta vetri í grunnsævi við strendur og í fjörðum landsins. Erlendar rannsóknir sýna að á þessu fyrsta ári verða allt að 98% afföll og að afföll á þessu æviskeiði eru sterkt tengd nýliðun í þorskstofninn. Í þessari rannsókn var sjónum beint að tveimur umhverfisþáttum sem taldar eru geta raskað þorskseiðum á uppeldisstöðvum. 1) samkeppni við þorskseiði af eldisuppruna og 2) breytingar á sjávarhita. Niðurstöðurnar sýna að þorskseiði af eldisuppruna hafa skerta hæfni til að bregðast við umhverfisbreytingum m.a. návist afræninga. Það eru því líkur á því að eldisseiði verði undir í samkeppni við villt seiði í náttúrunni. Tilraun með fæðu og félagsatferli þorskseiða við neðri og efri þæginda hitastig sýna að við efri mörkin hafa seiði minna svigrúm til að bregðast við umhverfisbreytingum og aðlaga fæðunám. Miðað við núverandi sjávarhita og áætlaða hækkun hans eru leiddar líkur að því að þorskseiði við strendur Íslands séu þegar nálægt sínum þolmörkum hvað varðar hita.

Ég er af náttúrulegum ástæðum áhugasamur um hornsílarannsóknir Guðbjargar, m.a. vegna þess sem við erum að finna í bleikjunni úr Þingvallavatni. En rannsóknin á þorskseiðunum er einnig mjög forvitnileg. Það væri óskandi að við hefðum tök á því að rannsaka betur líffræði þorsksins og vistkerfisins sem hann tilheyrir. Það er jákvætt að heyra að auka eigi samstarf milli Hafrannsóknarstofnunar og HÍ, en mér þætti gaman að sjá hvernig það verður útfært.


Sopi með Cyp

CYP gen skipta tugum í erfðamengi okkar. Cyp er skammstöfum fyrir Cytochrome P450 og um er að ræða ensím með mjög breiða og fjölbreytta virkni. Þau taka þátt í niðurbroti og nýmyndun á fitum, vítamínum, kólesteróli og afleiðum þess (t.d. sterum). CYP2 taka þátt í efnaskiptum á sterum og etanól efnaskiptum.

Eitt aðal vandamál mannerfðafræðinnar á síðustu öld var það að rannsóknirnar voru litlar, þ.e. of fáir sjúklingar voru skoðaðir í hverju tilfelli*. T.d. erfðaþáttur sem einn hópur fann í 300 Edinborgarbúum fannst ekki í sýni af 300 Glasgowbúum. Nútildags er krafan um endurtekningar mjög sterk, þú birtir ekki niðurstöður um ný tengsl nema þú hafir staðfest þau (í öðru sýni eða hóp frá öðru landi). Eða, þú verður að birta niðurstöðurnar í minna virtu tímariti - helst með tilheyrandi varnöglum. 

Rannsókn Kirk Wilhelmsen birtist í Alcoholism: Clinical and Experimental Research, sem er ekki flottasta tímarit í mannerfðafræði. Eftir að hafa lesið greinina (hún er öllum aðgengileg - en reyndar ekki mjög læsileg) skilst mér að þeir hafi skoðað nokkur hundruð systkynapör, en ekki endurtekið rannsóknina í öðru þýði. Höfundarnir gerðu fyrst tengslagreiningu (Linkage analysis) og síðan skoðuðu þeir nokkur breytileg set (Single nucleotide polymorphisms: SNPs) innan CYP2E1 gensins. Genið tekur þátt í etanól efnaskiptum og því liggur beint við að skoða það. Engu að síður eru niðurstöðurnar ósannfærandi - sterkustu tölfræðilegu tengslin er frekar veik - og áhrifin hverfa ef þeir taka mið af fjölda eintaka af geninu (sérkennileg mótsögn sem þeir ræða ekki nægilega).

Það má vel vera að þetta breytileiki í CYP2E1 geninu hafi áhrif á góðgleði, hversu fljótt fólk finnur á sér eða líkurnar á því að maður verði alkahólisti, en því miður virðast mér niðurstöðurnar ekki nægilega sannfærandi.

Það virðist sem kynningarátakið hafi verið niðurstöðunum yfirsterkari. Það er spurning hvort einhver erfðaþáttur hafi áhrif á það hversu ginkeypt við erum fyrir góðri sögu?

Ítarefni:

Webb o.fl. The Investigation into CYP2E1 in Relation to the Level of Response to Alcohol Through a Combination of Linkage and Association Analysis 2011 Alcoholism: Clinical and Experimental Research DOI: 10.1111/j.1530-0277.2010.01317.x

 

*Annað vandamál er að gen sem eykur líkurnar á sjúkdómi í einni fjölskyldu er ekki breytilegt í þeirri næstu. Sjúkdómurinn getur verið ættgengur í þeirri fjölskyldu vegna áhrifa annars gens. Erfðafræðingarnir geta ekki vitað þetta þegar þeir velja fjölskyldur til að kortleggja sjúkdóminn, og þannig geta raunveruleg tengsl verið ósýnileg þegar margir mismunandi erfðaþættir liggja að baki.


mbl.is Uppgötvuðu gen sem flýtir fyrir vímu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti af líffræðilegum fjölbreytileika

Viðhorf fólks til arnarins hefur breyst umtalsvert á liðnum öldum. Lengi vel var hann talinn mesti vargur og drepinn markvisst til að vernda varplönd nytjafugla. Síðar áttaði fólk sig á mikilvægi þess að vernda náttúruna fyrir ágangi mannsins. Jón Már Halldórsson segir frá á vísindavefnum:

Frá því að Fuglaverndarfélag Íslands var stofnað árið 1963 hefur verndun hafarnarins verið aðalbaráttumál félagsins og svo er enn. Vandlega er fylgst með framgangi arnarstofnsins frá ári til árs. Hann stækkaði ekki mikið framan af 20. öldinni eftir að hann var friðaður. Fuglafræðingar telja að eitur sem var borið í hræ til að halda refum og vargfuglum niðri sé aðalástæða þess. Örninn lenti mjög illa í þessari eiturherferð á fyrri hluta síðustu aldar. Dæmi eru um að þrjú arnarhræ hafi fundist við eitrað rolluhræ. Eftir að notkun strýkníns var bönnuð hér á landi tók arnarstofninn við sér og hefur verið nokkur stöðugur síðustu áratugi. Undanfarin þrjú ár hafa óvenju margir arnarungar komist á legg miðað við árin á undan eða 22-28 ungar árlega.

Fuglafræðingar telja að 42 pör séu nú hér á landi og er heildarfjöldinn talinn vera um 150 fuglar að hausti. Til þess að varpárangur verði góður þarf veðurfar að vera hagstætt fyrir örninn, sérstaklega í apríl og maí. Landeigendur þurfa einnig að sýna erninum tillitsemi en því miður virðist hafa borið á því að menn hafi visvítandi spillt fyrir erninum á undanförnum áratugum sem veldur því að varpárangur hefur verið afar slakur á sumum svæðum ár eftir ár. Það virðist því sem hið rótgróna arnarhatur meðal æðarræktarbænda sé enn við lýði.

Afræningjar eins og örninn og refurinn eru hluti af vistkerfinu og líffræðilegum fjölbreytileika. Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2010 líffræðilegum fjölbreytileika. Merkilega lítið hefur verið rætt um líffræðilegan fjölbreytileika hérlendis - helst er að fólk hafi tekist á um lúpínu, sem hefur verið skilgreind sem ágeng innflutt tegund. Í næsta mánuði munu Líffræðifélag Íslands , Vistfræðifélag Íslands og samstarfsaðillar standa fyrir ráðstefnu um rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni (sbr tilkynningu):

Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni

Ráðstefnan verður haldinn laugardaginn 27. nóvember 2010 í Norræna húsinu. Gert er ráð fyrir dagskrá frá 9:00 til 18:00, fyrst yfirlitserindi, síðan styttri fyrirlestrar og veggspjaldakynning.

Vísinda- og fræðimenn sem rannsaka líffræðilega fjölbreytni eru hvattir til þess að senda inn ágrip og/eða skrá sig á ráðstefnuna fyrir 13. nóvember næstkomandi. Netfang fundarins er lifbr.fundur2010@gmail.com - þar er tekið á móti skráningu og ágripum.Tilgreinið við skráningu hvort þið sækist eftir því að vera með erindi eða veggspjald.

Heppilegast er ef ágrip fylgi stöðluðu formi, sem notað var á síðustu líffræðiráðstefnu

Skráningargjald er 500 kr - ókeypis fyrir nemendur. Innheimtist á staðnum.

Skipulagsnefnd mun setja saman dagskrá og reyna að tryggja að fjölbreytilegar rannsóknir verði kynntar. Því gæti verið að einhverjir umsækjendur yrðu beðnir um að kynna veggspjald frekar en vera með erindi.

Skipulagsnefnd: Ingibjörg S. Jónsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Snæbjörn Pálsson og Arnar Pálsson


mbl.is Örnum fjölgaði í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Uppkomin börn

Rómantíska ástin er ekki það sama og líffræðilega þráin. Fyrir utan nokkrar undantekningar, (t.d.  tvíkynja orma og froska sem skipta um kyn) þá neyðast flestar dýrategundir til þess að leita uppi einstakling af gagnstæðu kynii til þess að fjölga sér.

Einstaklingar af einu kyni þurfa helst að hafa lyst á að nugga saman pörtum eða a.m.k. að sleppa kynfrumum sínum yfir kynfrumur makans. Mannfólk er engin undantekning, við höfum flest áhuga á einstaklingum af gagnstæðu kyni og heillumst að hraustlegu útliti, gæðalegum vexti og persónum sem eru líklegar til að hjálpa okkur við að ala upp unganna og sjá þeim farborða. Sumir geta fjölgað sér bara út á hraustlega útlitið á meðan aðrir heilla tilvonandi maka með bankabókum og alúðlegu athæfi.

Það er löngu vitað að ástarbríminn varir ekki að eilífu, ég man eftir stúdíu sem sagði að heiti blossi sambandsins vari í besta falli ár, og eftir það þurfi að koma til góður félagskapur og "reglulega" fínt kynlíf - sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Ef við lítum til þróunarfræðinnar þá er engin sérstök ástæða fyrir fólk að hanga saman eftir að börnin eru komin á legg. Þeir sem eru komnir úr barneign og hjálpa ekki undir með börnum sínum og barnabörnum eru þróunarfræðilega dauðir - þeirra athafnir og gjörðir skipta engu máli fyrir hæfni gena þeirra.

Annars finnst mér Robert Sapolsky fjalla best um kynhneigð prímata - þar á meðal okkar. Mæli eindregið með myndbandi af fyrirlestri hans.

http://boingboing.net/2009/03/13/stanfords-sapolsky-o.html


mbl.is Ástareldsneytið á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwins: Ljósmyndasýningin á slóðum Darwins

Hafdís Hanna einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda og ætlar að sýna nokkrar þeirra í Te og Kaffi í Eymundsson (sjá tilkynningu og mynddæmi):

Ljósmyndasýningin "Á slóðum Darwins" verður opnuð laugardaginn 23. október kl. 16 í Te & Kaffi í Eymundsson, Austurstræti.
Á sýningunni ber að líta myndir af lífríki og landslagi Galapagoseyja sem líffræðingurinn Hafdís Hanna Ægisdóttir tók á fimm vikna rannsóknarferð um eyjarnar.
Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar "Arfleifð Darwins - þróunarfræði, náttúra og menning" sem nýverið kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags.
Sýningin mun hanga uppi frá 23. október - 23. nóvember 2010.

hhae_mynd3.jpgMynd Hafdís H. Ægisdóttir - copyright.

Hafdís er plöntuvistfræðingur sem hefur rannsakað dreifingu plantna í Ölpunum og ritaði kafla um Lífríki eyja: Sérstaða og þróun (Landnám Íslands)

í bókina Arfleifð Darwins. Hún hefur einnig haldið ríkulega myndskreytta fyrirlestra um ferð sína til Galapagos (Erindi: Lífríki og jarðfræði Galapagos) og lífríki á eyjum (Lífríki eyja: sérstaða og þróun).

Hið íslenska bókmenntafélag gefur Arfleifð Darwins út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta bókina á tilboðsverði allan októbermánuð.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins og tilkynningu um ljósmyndarsýningu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gæði háskólarannsókna á tímum kreppu

Grein Magnúsar K. Magnússonar og Eiríks Steingrímssonar Háskólarannsóknir á tímum kreppu og gæði þeirra úr Fréttablaðinu miðvikudaginn 13. október 2010 er hér birt í heild sinni:

Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fara í gegnum samkeppnissjóðina.

Í fyrri greinum okkar ræddum við um mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslífið og þá staðreynd að innan við 15% af framlagi ríkisins fara í gegnum samkeppnissjóðina. Í hinum vestræna heimi er þetta hlutfall víðast mun hærra og er um 30-40% á hinum Norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum koma um 85% af rannsóknafé háskóla úr samkeppnissjóðum. Það er því ljóst að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.

Samkeppnissjóðirnir tryggja gæðaeftirlit með rannsóknunum. Rannsóknaverkefni og virkni vísindamanna sem sækja um styrki eru metin reglulega og þegar dregur úr virkni eða hugmyndaauðgi, fá viðkomandi vísindamenn ekki styrki lengur. Hér á landi nær þetta eftirlit aðeins til þess hluta af framlagi ríkisins sem fer gegnum samkeppnissjóði. Sumir íslensku samkeppnissjóðanna, t.d. Rannsóknasjóður, notast nú við erlenda matsaðila þannig að flestar, ef ekki allar, umsóknir fara í mat erlendra, óháðra vísindamanna. Þannig fæst óháð mat á gæðum íslenskra vísindaverkefna og vísindamanna. Sjóðurinn og þjóðin ættu því að vera nokkuð viss um að þessu fé er vel varið. Aðrir sjóðir notast við innlenda matsaðila og ættu, í ljósi jákvæðrar reynslu Rannís, að breyta þeirri stefnu sinni og taka upp erlent mat. Sumir hinna sjóðanna eru reyndar fremur pólitískir sjóðir og eiga lítið skylt við alvöru vísindasjóði. Sem dæmi um slíkan sjóð er AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) en nýskipaður stjórnarformaður hans er þingmaður og náinn samstarfsmaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Mikill munur er einnig á árangurshlutfalli íslenskra vísindasjóða. Sem dæmi má nefna að í Rannsóknasjóði er þetta hlutfall að nálgast 10% en er 50% í AVS. Þetta þýðir að það er mun meiri samkeppni um fé úr Rannsóknasjóði en AVS.

Hvað með gæðaeftirlit með hinum 85-90 prósentunum af framlagi ríkisins til rannsókna? Staðreyndin er sú að með þeim er lítið sem ekkert ytra eftirlit og ekkert er spurt um gæði eða árangur. Þessu þarf að breyta. Víðast erlendis er strangt gæðaeftirlit með öllu fé sem veitt er til rannsókna til að hámarka nýtingu almannafjár. Við erum ekki að tala um hefðbundið bókhaldseftirlit heldur eftirlit með gæðum rannsóknanna. Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er þetta oftast gert á þann hátt að á 5 ára fresti þarf hver rannsóknastofa að útskýra fyrir sérstakri úttektarnefnd vísindamanna hvað stofan hefur gert á tímabilinu og hvað hún hyggst gera næstu 5 árin. Rannsóknastofan undirbýr vandlega skýrslu sem nefndin fær til yfirlestrar, nefndin mætir síðan á rannsóknastofuna þar sem verkefnin eru útskýrð með fyrirlestrum, farið er yfir árangurinn og hann metinn og skoðað hvort framtíðaráætlanirnar séu raunhæfar. Að lokum kemst úttektarnefndin að niðurstöðu sem sett er fram í viðamikilli skýrslu. Í úttektarnefndinni eru yfirleitt leiðandi vísindamenn á viðkomandi sviði sem ekki hafa starfað með viðkomandi rannsóknastofu en þannig er tryggt að úttektin sé fagleg og óháð. Við höfum kynnst svona úttektum í störfum okkar erlendis. Þessi aðferð virkar afar vel. Hún er fagleg og leiðir til gagnrýninnar umræðu. Rannsóknastofum er hrósað fyrir það sem vel er gert en þær gagnrýndar fyrir það sem miður hefur farið. Niðurstöður slíkra úttekta eru síðan notaðar við ákvarðanatöku og stefnumótun.

Hér á landi er ekkert slíkt gæðaeftirlit með þeim fjölda stofnana sem stunda vísindarannsóknir. Hið opinbera, og þar með skattgreiðendur, vita því ekki hvort þessu fé er vel varið. Vísinda- og tækniráð hefur þó nýlega tekið málið til umfjöllunar og segir í núverandi stefnu ráðsins: "Sjálfstæð greiningarvinna á afrakstri rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði styrkt hér á landi og unnin af óháðum aðilum". Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýlega sett á fót Gæðaráð háskóla sem ætlað er að skoða gæðamál innan háskóla, þ.á?m. tengsl kennslu og rannsókna. Ráðið er skipað sex erlendum aðilum og ætti því að geta verið faglegt og óháð. Það vekur furðu að Gæðaráðið er einungis skipað einstaklingum úr hug-, félags- og menntavísindageiranum. Í því eru engir með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum, þeim greinum vísindanna sem sterkust eru á Íslandi. Það er áhyggjuefni enda mikill munur á vinnubrögðum í raun-, heilbrigðis- og lífvísindum annars vegar og félags-, hug- og menntavísindum hins vegar. Gæðaráðið er því ólíklegt til að geta lagt mat á gæði rannsókna í raun-, heilbrigðis- og lífvísindum. Þessu þarf að breyta til að slík úttekt verði trúverðug.

Við leggjum því til að i) hafið verði gæðaeftirlit með öllu rannsóknafé á Íslandi; ii) við þetta eftirlit verði notast við þær aðferðir sem gefist hafa best annars staðar (sbr. hér að ofan); iii) niðurstöður slíkra úttekta verði notaðar við ákvarðanatökur; iv) í gæðanefndina verði skipaðir aðilar úr raun-, heilbrigðis- og lífvísindageirunum.

Sjá einnig:

Fjármögnun vísindarannsókna á tímum kreppu

Grunnannsóknir á tímum kreppu og hlutverk háskóla

Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks


Námurta úr Þingvallavatni

Í haust höfum við farið nokkrum sinnum á Þingvelli til að veiða bleikjur (Salvelinus alpinus) fyrir rannsóknir okkar og samstarfsmanna við Háskólann á Hólum og Náttúrufræðistofnun Kópavogs.

Námurta úr ÞingvallavatniÍ síðustu viku fundu Kópavogsmenn (Haraldur og Finnur) sérstakt afbrigði af murtu, svokallaða námurtu. Myndun litar er ekki eðlileg í þessum einstaklingi, stórir flekkir eru hvítir vegna þess að engin litarefni eru mynduð í þeim frumum.

Þessi námurta er óvenju skrautleg þar sem hún er mjög dökk á baki og lang leiðina niður undir rák, en þar fyrir neðan er fiskurinn alveg litlaus. Þannig má sjá í blóðrauð tálknin í gegnum tálknalokin og einnig glittir í hjartað ofan við eyruggarótina. [af vef Náttúrufræðistofu Kópavogs]

Við vorum að safna sýnum af bleikjuafbrigðum úr vatninu, dvergbleikju, murtu og einnig kuðungableikju (því miður veiddist of lítið af sílableikju). Markmið rannsóknanna eru nokkur. Í fyrsta lagi viljum við rannsaka skyldleika afbrigðanna (með því að skoða erfðabreytileika), í öðru lagi viljum við finna gen sem tengjast mismunandi útliti þeirra og eiginleikum og í þriðja lagi skilja hvaða munur er á þroskun murtu og dvergbleikju?

Til þess að rannsaka þroskun þurftum við að ná hrygnandi fiski sem gengur upp að ströndinni eftir myrkur og kreista úr þeim hrogn (samanber mynd að neðan). Þvínæst eru svil töfruð úr hængunum og bætt við. Þar næst leggjast líffræðingar á bæn, biðja til Arnþórsins, PCRguðsins eða fljúgandi spaghettiskrímslisins, og vona að frjóvgunin takist og nægilega mörg fóstur komist á legg.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpg Dvergbleikju egg safnað haustið 2010.

Fyrirmynd ungra líffræðinga

Það er mikilvægt að hafa góðar fyrirmyndir. Innan háskólanna sjá nemendur vitanlega kennara, sérfræðinga og prófessora, sem eru bara eitt (oftast bærilegt) dæmi um atvinnumöguleika. Þegar við ræðum við nemendur okkar í líffræði um framtíðarmöguleika, nefnum við gjarnan stofnanir eins og Hafró, Umhverfisstofnun og Veiðimálastofnun eða fyrirtæki eins og Actavís, Íslenska erfðagreiningu eða Roche Nimblegen. Sigríður Valgeirsdóttir er einmitt dæmi um líffræðing sem lauk doktorsprófi, vann við grunnrannsóknir og tók síðan við rekstri á íslenskum hluta lítils sprotafyrirtækis.

Nimblegen var stofnað í Wisconsin og byggir á framsækinni aðferð til að framleiða svokallaðr DNA örflögur. Um er að ræða glerplötu sem bætt hefur verið við nokkur hundrað þúsund DNA bútar. Hver DNA bútur er með einstakur, því röð basanna í þeim er einstök. Í dæmigerðri flögu er einn bútur fyrir hvert gen í erfðamengi mannsins. DNA flögur nýtast til skoða hvort kveikt eða slökkt sé á genum í einhverjum tilteknum vef (t.d. í húð eða í blóði). Þannig fæst heilstæð mynd af tjáningu allra gena lífveru við mismuandi aðstæður. Við erum með um 21.000 gen og líffræðingar hafa skoðað tjáningu þeirra í ólíkum vefjum og einnig frumur eru t.d. sýktar með ákveðinni veiru eða þegar einstaklingar hafa verið á öðru matarræði.

Svissneski lyfjarisinn Roche keypti Nimblegen þegar fyrirtækið var á leið á opinn markað, og síðan þá hefur fyrirtækið blómstrað. Það er frábært að íslendingur skuli leiða þetta framsækna og flotta líftæknifyrirtæki.

Væri ekki sniðugt ef ríkið gæti stutt betur við grunnrannsóknir hérlendis? Bendi ykkur á greinar Magnúsar K. Magnússonar og Eiríks Steingrímssonar í Fréttablaðinu um þetta efni:

Fjármögnun vísindarannsókna á tímum kreppu

Háskólarannsóknir á tímum kreppu og gæði þeirra 


mbl.is Sigríður yfir framleiðslu Roche NimbleGen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband