Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Vísindi og nýsköpun í augsýn

Háskóli Íslands stendur fyrir fyrirlestraröð um fyrirtæki sem hafa sprottið úr starfi sérfræðinga Háskóla Íslands. Næsta erindi fjallar um fyrirtæki sem rannsóknum í augnlækningum. Fyrirtækin eru Risk, Oculis og Oxymap.

Ríkisstjórn Íslands hyggst draga úr fjárframlögum til rannsóknasjóða á næstu þremur árum (Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað). Þannig að líkurnar á að svona fyrirtæki verði til hérlendis á næstu þremur árum, minnka umtalsvert.

Hér fylgir tilkynning um erindið, starfsemi þessara þriggja fyrirtækja og tilurð.


--------


Fyrirlestur í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands miðvikudaginn 20. nóvember 2013 kl. 12.
Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, kemur við sögu við stofnun fyrirtækjanna þriggja en hann er mikilvirkur vísindamaður á sviði augnlækninga. Einar hefur beitt sér sérstaklega í nýsköpun og stofnun sprotafyrirtækja sem byggjast á vísindalegum grunni. Hann mun fara yfir tilurð fyrirtækjanna og ræða um tengsl vísinda og nýsköpunar.

Risk ehf.

þróar áhættureiknivél sem metur áhættu sykursjúkra á augnsjúkdómum og sjónskerðingu.

Oculis ehf.
vinnur með nanóagnir í augndropum til að bæta lyfjameðferð við ýmsum algengum augnsjúkdómum.

Oxymap ehf.
þróar tækjabúnað sem getur metið blóðþurrðarsjúkdóma í augnbotnum með stafrænni myndvinnslu.


Skyldleiki hafarna á líffræðiráðstefnunni

Umhverfismál voru ofarlega á baugi á Líffræðiráðstefnunni 2013, sem haldin var 8. og 9. nóvember síðastliðinn.

Meðal annars var fjallað um skyldleika hafarna, en Snæbjörn Pálsson og félagar hafa rannsakað þetta með erfðafræðilegum aðferðum. Ágrip rannsóknarinnar er aðgengilegt á vef Líffræðifélagsins:

Íslenski haförninn hefur átt erfitt uppdráttar frá upphafi 20. aldar þegar honum hafði stórfækkað frá fyrri tíð vegna ofsókna. Líklega hefur stofninn verið hátt í 200 pör við lok 19. aldar, um 40 pör þegar örninn var friðaður 1914 en einungis 20-25 pör frá 1920-1970. Eitrun fyrir refi var örnum skeinuhætt en hún var bönnuð 1964. Upp úr 1970 tók stofninn að stækka hægt en nokkuð samfellt, í 60 pör 2003 og nú um 70 pör. Frjósemi íslenska arnarins er mun lægri en hjá öðrum hafarnarstofnum eða 0,44 ungar á par á ári. Aukinn skyldleiki samfara minni stofnstærð gæti haft neikvæð áhrif á frjósemi og lífslíkur og skýrt lélegan varpárangur stofnsins.... (meira á biologia.is)

Þeir komast að því að lítil frjósemi íslenskra hafarna kann að orsakast af miklum skyldleika innan stofnsins.

Um 300 manns sóttu ráðstefnuna og um 200 rannsóknir voru kynntar á erindum og veggspjöldum. Nánari upplýsingar www.biologia.is.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir hélt einnig erindi á líffræðiráðstefnunni sem kallaðist Afturábak eða nokkuð á leið: Staða náttúruverndar á Íslandi.

Leifur Hauksson tók viðtal við hana af þessu tilefni og var það flutt í útvarpsþættinum Sjónmál í dag (13. nóvember 2013). Á vef RÚV segir:

Það er ekki tilefni til að afturkalla náttúruverndarlögin í heild segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við HÍ sem sat í nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga. Hún segir jafnframt stöðu náttúruverndarmála á Íslandi í dag alls ekki nógu góða.

Hún bendir á að fé til náttúrverndarmála sé skorið grimmilega niður í fjárlögum. Hún telur að skoða þurfi friðlýsingar í nýju ljósi og hugsa þær út frá t.d.vistkerfum og vatnasvæðum, Sum vatna- og lindasvæði okkar séu einstök.

Hægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV,  Náttúrufegurðin verður í askana látin.


mbl.is Skyldleiki kann að minnka frjósemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að prjóna sig út úr kreppunni

Í kjölfar hrunsins tóku margir upp prjónaskap, og talað var um að prjóna sig út úr kreppunni. Þótt prjónaskapur og heimilisiðnaður sé bæði frábær dægradvöl og ágætasta tekjulind einstaklingum, þá er mun mikilvægara að hagnýta þekkingu til að skapa ný verðmæti. 

Þekkingin sem nýjar viðskiptahugmyndir eru byggðar á, eru að miklu leyti afurð vísindalegra framfara. Og vísindalegar framfarir byggja á fyrirbæri sem landinn heyrir lítið um, svokölluðum samkeppnisjóðum.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgSamkeppnissjóðir hafa alltaf verið litlir hérlendis, og margt annað í umhverfi vísinda hérlendis er lélegt og gert af vanefnum (sjá greinar eftir Eirík Steingrímsson og Magnús K. Magnússon á visindi.blog.is - tenglar neðst).

Tveir rannsóknarstjórar við HÍ, Eiríkur Smári Sigurðarson og Ásta Sif Erlingsdóttir skrifa grein í Fréttablað dagsins um þetta mál og rekja sögu Rannsóknasjóðs, sem er stærsti sjóður sem styrkir grunnrannsóknir hérlendis:

Rannsóknasjóður hóf starfsemi sína í núverandi mynd árið 2004. Fyrsta árið fékk hann 303 umsóknir upp á 827 milljónir og gat úthlutað 191 milljón (24,4%) til 74 verkefna (23%). Árið 2012 fékk hann 267 umsóknir upp á 1.800 milljónir og gat úthlutað 297 milljónum (17,6%) til 47 verkefna (16,5%). Með framlagi úr fjárfestingaáætlun síðustu ríkisstjórnar var sjóðnum gert kleift að mæta betur þörf fyrir styrki og við úthlutun 2013 gat hann veitt styrki sem jöfnuðust á við það sem var 2004. Þá fékk hann 236 umsóknir upp á 1.700 milljónir og gat úthlutað 416 milljónum (27,5%) til 65 verkefna (24,4%).

Þau leggja áherslu á að samkeppnisjóðir hérlendis er litlir, miðað við útlönd.

Þessar tölur verður að skoða í ljósi þess að samanborið við samkeppnissjóði í löndum sem við almennt berum okkur saman við eru og voru styrkir til rannsókna á Íslandi allt of lágir.

Og þrátt fyrir að Menntamálaráðherra hafi lagt áherslu á að sjóðurinn fyrir 2014 sé stærri en árið 2012, þá er hann samt minni en hann var við stofnun 2004.

Það sem við viljum leggja áherslu á hér er að sjóðurinn var á þessu ári rétt að ná því bolmagni sem hann hafði fyrsta árið sem hann starfaði.

Prjónaskapur er dásamlegur (ég greip í prjóna milli verka í plastverksmiðunni) en það er takmörkuð nýsköpun fólgin í slíku handverki. Nýsköpunin og auðlegðin fylgir ef við berum gæfu til að verja samkeppnisjóðina, styðja við menntakerfið og setja þekkingu á hærri stall hérlendis en tíðkast hefur. 

Mynd er af hrognum úr Þingvallableikjum. Grunnrannsóknir á fjölbreytileika bleikjunnar geta 1) varpað ljósi á gen sem tengjast vexti og kynþroska eldisfiska, 2) fundið ferli sem tengjast höfuð og beinþroskun í hryggdýrum, 3) útskýrt þróun afbrigða og tegunda, í síbreytilegum heimi og vegna loftslagsbreytinga - svo einhver dæmi séu tekin.

Ítarefni:

Eiríkur Smári Sigurðarson og Ásta Sif Erlingsdóttir Fréttablaðið 15. nóv 2013. Nokkur orð um rannsóknir og samkeppnissjóði

Vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

 Vísindamenn skora á fjárlaganefnd að endurskoða fjárlög fyrir samkeppnissjóði Rannís

Hans G. Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Ég bendi lesendum einnig á röð greina eftir Eirík Steingrímsson og Magnús K. Magnússon um Háskólarannsóknir a tímum kreppu.

Fjármögnun vísindarannsókna

Doktorsnám á Íslandi

Gæði rannsókna

Staða raun- og heilbrigðisvísinda

Hlutverk háskóla


Afturábak eða nokkuð á leið: Staða náttúruverndar á Íslandi

Þóra Ellen Þórhallsdóttir hélt yfirlitserindi á líffræðiráðstefnunni sem kallaðist Afturábak eða nokkuð á leið: Staða náttúruverndar á Íslandi.

Leifur Hauksson tók viðtal við hana af þessu tilefni og var það flutt í útvarpsþættinum Sjónmál í dag (13. nóvember 2013). Á vef RÚV segir:

Það er ekki tilefni til að afturkalla náttúruverndarlögin í heild segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við HÍ sem sat í nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga. Hún segir jafnframt stöðu náttúruverndarmála á Íslandi í dag alls ekki nógu góða.

Hún bendir á að fé til náttúrverndarmála sé skorið grimmilega niður í fjárlögum. Hún telur að skoða þurfi friðlýsingar í nýju ljósi og hugsa þær út frá t.d.vistkerfum og vatnasvæðum, Sum vatna- og lindasvæði okkar séu einstök.

Hægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV,  Náttúrufegurðin verður í askana látin.

Einnig má geta þess að stjórn Líffræðifélags Íslands sendi frá sér ályktun til stjórnvalda og hvatti þau til að staðfesta Náttúruverndarlögin.


Þjórsárver ekki Norðlingaölduveitu

Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands um meðferð stjórnvalda á umhverfismálum 2013.

Stjórn Líffræðifélags Íslands hvetur stjórnvöld og Alþingi til að standa vörð um náttúru landsins. Við leggjum sérstaka áherslu á nokkur atriði á sviði umhverfismála.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að stækkun friðlands við Þjórsárver sé tryggð, og þá sérstaklega að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu. Það væru skelfileg mistök að raska náttúru þessa einstaka svæðis.

Í öðru lagi er brýnt að staðfesta Rammaáætlun eins og hún var afgreidd á Alþingi vorið 2013. Rammaáætlun var unnin í vönduðu og faglegu ferli sem tók tillit til sjónarmiða náttúruverndar, nýtingar, efnahags, menningar og sögu landsins. Það væri bæði kostnaðarsamt og misráðið að varpa þeirri vönduðu vinnu fyrir róða vegna illa ígrundaðra pólitískra sjónarmiða.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að Náttúruverndarlögin, eins og þau voru samþykkt 2012, taki gildi óbreytt. Teljum við rökstuðning ráðherra fyrir afturköllun laganna ekki byggða á faglegum forsendum né í samhengi við þær athugasemdir sem bárust frá hagsmunaaðillum á þeim tíma sem Alþingi hafði lögin til umræðu.

Í fjórða lagi er mikilvægt að ráðuneyti Umhverfismála fái sér ráðherra, sem getur sinnt málaflokknum af heilum hug en ekki í hjáverkum. Það er sérlega óheppilegt að sami ráðherra eigi að fara með málefni auðlindanýtingar og umhverfismála, og vera því í þeirri að stöðu að þurfa sitja beggja vegna borðsins.

Umhverfismál voru ofarlega á baugi á Líffræðiráðstefnunni 2013, sem haldin var 8. og 9. nóvember síðastliðinn. Um 300 manns sóttu ráðstefnuna og um 200 rannsóknir voru kynntar á erindum og veggspjöldum. Nánari upplýsingar www.biologia.is

Stjórn Líffræðifélags Íslands

Arnar Pálsson

Guðmundur Árni Þórisson

Hrönn Egilsdóttir

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir

Snorri Páll Davíðsson

Blogghöfundur er formaður Líffræðifélags Íslands.

Uppfært 13. nóvember 2013, og tengt við frétt á mbl.is.

http://biologia.is/2013/11/12/alyktun-stjornar-liffraedifelags-islands-um-umhverfismal-2013/
mbl.is Vill breyta friðlýsingu Þjórsárvera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hröð þróun við rætur himnaríkis

Andesfjöllin myndast við jarðskorpuhreyfingar, þegar tveir flekar rekast saman og bergmassinn hrúgast upp. Fjöllin hafa verið að hækka undanfarna ármilljarða, og það mætti segja að þau séu að færast nær einhverju ríki himnanna (ef oss er gefið skáldaleyfi).

Efst í fjöllunum, fyrir ofan hina eiginlegum trjálínu er mjög sérkennilegt búsvæði, sem kallast Páramos. Gróðurfarið sem er mjög sérkennilegt, blanda af graslendi, runnum og einstaka trjám, heillaði náttúrufræðinginn Alexander von Humboldt algerlega. Hann sagði:

Nowhere, perhaps, can be found collected together, in so small a space, productions so beautiful and so remarkable in regard to the geography of plants...

Nýleg rannsókn í opna vísindaritinu Frontiers in Genetics tekur saman gögn um þróun plantna á þessu einstaka svæði. Þau eru borin saman við gögn frá á öðrum svæðum þar sem vitað er að þróun er mjög hröð. Dæmi um slíka hraða þróun og tegundamyndun eru t.d. finkurnar á Galapagoseyjum og silfursverðin og ávaxtaflugurnar á Hawaii (sjá mynd af www.arkive.org).

  Silversword

Það sem er sláandi við niðurstöðurnar er að plönturnar á Páramos þróuðust hraðar en á hinum svæðunum. Síðan þetta búsvæði í Andesfjöllunum, myndaðist fyrir um 2.5 milljónum ára hefur þróun plantna verið mjög ör á svæðinu, sem leiddi til þessa undraverða breytileika sem heillaði Humbolt kallinn.

Annað sem er sérkennilegt við Páramas er mun kaldari staður en hin betur þekktu himnaríki á jörð, Galapagós eða Hawaii. 

Grein þessi er byggð að miklu leyti á grein eftir Carl Zimmer í New York Times - Fast-Paced Evolution in the Andes.

Ítarefni:

Madriñán S, Cortés AJ and Richardson JE (2013) Páramo is the world's fastest evolving and coolest biodiversity hotspot. Front. Genet. 4:192. doi: 10.3389/fgene.2013.00192

Fleiri myndir má sjá á www.arkive.org og upplýsingar á vef grasafræðideildar Hawaii haskóla (Hawaiian silversword alliance, UH Botany). 

Arnar Pálsson 2011 Fjölbreytni lífsins

Leó Kristjánsson. „Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn 11.3.2011. http://visindavefur.is/?id=58666. (Skoðað 12.11.2013). 


Ómar í fullu fjöri

Ómar Ragnarsson hefur verið hetjan mín frá því ég var ungur drengur. Gamanvísurnar voru leiknar af hljómplötum í mínu ungdæmi, og þegar Stiklur voru sýndar í sjónvarpinu ríkti hátíðleiki og andakt á heimilinu. Amma tók úr sér fölskurnar og sagði okkur frá Vestfjörðum (jafnvel þó Ómar væri að stikla annarstaðar) og að sólsetrið væri engu líkt við Dýrafjörð.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að æskuhetjan og umhverfisverndasinninn Ómar Ragnarsson geta opnað líffræðiráðstefnuna 2013. Hún byrjar í fyrramálið (8. nóvember) og Ómar sjálfur mun opna herlegheitin með stuttu ávarpi. Allir eru velkomnir - sjá upplýsingar neðst.

Eftir opnunina fylgir þéttur pakki af vísindum og frumum, niðurstöðum, tilgátum, rjúpum og fiskum. Á ráðstefnunni verða 108 erindi og 80 veggspjöld kynnt, af rétt stálpuðum háskólanemum og okkar reyndustu og virðulegustu líffræðingum. Slatti af útlendingum halda erindi, meðal annars einn svakalegasti prótínmengjafræðingur nútímans, James Wohlschlegel við UCLA.

Það er mjög ánægjulegt að tilkynna að Bergljót Magnadóttir, sérfræðingur á Keldum fær heiðursverðlaun félagsins fyrir glæsilegt ævistarf. Ungstirnið í líffræðinni, verður einnig kynnt á morgun.

Á fundi sem ég fór á í Chicago í sumar, þá tísti vinur minn látlaust frá ráðstefnunni. Hann tók glósur sínar af fundinum, og dreifði yfir netið. Það er í raun þrælsnjall andskoti, og etv prufa ég þetta ef hin dyggðum prýdda stjórn líffræðifélagsins heldur afmarkaðari ráðstefnu á næsta ári.

En, svo ég víki nú aftur að meginatriðinu. Ómar Ragnarsson er hetja íslenskum náttúrufræðingum, og það er okkur sönn ánægja að fá hann til að opna líffræðiráðstefnuna 2013. Ég get staðfest að Ómar hefur engu gleymt.

http://biologia.is/liffraediradstefnan-2013/dagskra/


mbl.is Ómar Ragnarsson fluttur á Eir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ríkið skerðir tækniþróunarsjóð

Það eru margvíslegar hindranir á vegi þeirra sem standa að sprotafyrirtækjum. Í nýlegri frétt mbl.is eru rakin vandamál við aðgang að áhættufjármagni og gjaldeyrishöftin.

Hæstvirtur mennta og menningarmálaráðherra  vegur einnig að nýsköpunarfyrirtækjum með því að skerða tækniþróunarsjóð um 200 milljónir. Það gæti þýtt að mjög fá ný verkefni verði styrkt árið 2014.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er fyrirhugaður um mikill niðurskurður á framlögum til samkeppnisjóðanna, og einnig annarskonar skerðing á nýsköpunarumhverfinu.

Styrkir eru veittir úr sjóðunum til 3 ára í senn, á grundvelli gæða verkefna.

Skerðingin þýðir:

100% lækkun á rannsóknanámssjóði. Hann var lagður niður og átti að sameinast rannsóknasjóði. Rannsóknanámsjóður fékk 95 millj. kr. í fyrra.

50% lækkun á Markáætlun á sviði vísinda og tækni (um 200 millj. kr. - sem þýðir í raun enga nýja styrki, því sjóðurinn fær rétt nóg fyrir skuldbindingum frá fyrri árum).

22% lækkun á Tækniþróunarsjóði, um 283 millj. kr.

14% lækkun á rannsóknasjóði um 170 millj. kr.  Ef miðað er við að rannsóknanámssjóður var sameinaður rannsóknasjóði eru áhrifin meiri, 19% og samanlagður niðurskurður 265 milljónir. Áhrifin eru einnig meiri en prósenturnar segja, því 2/3 sjóðsins er bundinn í skuldbindingar fyrri ára. Skerðing á heildarfjárhæð til nýrra styrkja verður því uþb 40%*.

Að auki liggur fyrir skerðing á skattaafslætti fyrir nýsköpunarfyrirtæki, um 25% sem á að færa 300 milljónir í ríkiskassann.

Lækkun á einum sjóði eða fjárlagspósti er kannski skiljanleg. En lækkun um tugi prósenta á flestum þáttum vísinda og nýsköpunarumhverfisins hérlendis er ekki verjanleg.

Sjá ítarlegri umfjöllun um fyrirhugaða skerðingu á samkeppnisjóðum.

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Kristján Leósson eðlisfræðingur við Háskóla Íslands  Vísindarannsóknir og fjárfestingar

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands Borðum ekki útsæðið

15. fundur 143. löggjafaþings. Sérstök umræða. Framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

Fjallað var um málið í fréttum Rúv og stöðvar tvö 4. nóvember.

Hádegisfréttir RÚV: Óttast að 40 ársverk tapist

Kvöldfréttir RÚV: Óttast að stjórnvöld standi við niðurskurð

Viðtal við Magnús Karl Magnússon  í Speglinum

Sjónvarpsfréttir Stövar 2: Vísindamenn fjölmenntu á þingpalla

Sjónvarpsfréttir RÚV: Vísindamenn mótmæla niðurskurði

(pistill þessi er endurunnin að stórum hluta úr pistli vorum Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað)


mbl.is Sprotafyrirtæki líkleg til að flytja úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Camus á fáránlegt afmæli í dag

Albert Camus er eitt af stórskáldum franskra og evrópskra bókmennta. Hann var næst yngstur til að fá Nóbelsverðlaun í bókmenntum, og hugmyndir hans um tilgang lífsins í fáránleika veraldarinnar nutu umtalsverðrar hylli.

Vegna þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Camus (7. nóvember 1913) ritar Freyr Eyjólfsson geirfugl og útvarpsmaður pistil um skáldið. Þar segir:

Albert Camus er talinn einn af höfuðsnillingum 20. aldarinnar – sem hann sjálfur kallaði öld óttans - þar sem menn lifðu hundalífi, yfirbugaðir af ótta án allra framtíðarvona. Það var hans hlutverk að hrista af okkur þennan ótta, vekja okkur og finna tilganginn í lífinu.

„Lífið er absúrd“ er lykilsetningin í heimspeki hans. .... Við fæðumst og við deyjum og erum aðeins bundin því að gera rétt og vel í þessu stutta lífi. Lífið er nefnilega ekki tilganglaust; við eigum að skapa okkar eigin örlög og berjast fyrir hinu góða gegn hinu illa. Maðurinn verður að lifa í núinu, vita örlög sín og þekkja takmörkin til að lifa lífi sínu til fulls.

Þannig vill til að ég er einmitt að lesa hálfgerða ævisögu um Camus, og góðvin hans Jacques L. Monod. Bókin kallast Snilldarhetjur (Brave genius) og er eftir þróunarfræðinginn Sean. B. Carroll, sem ritaði m.a. Endless forms most beautiful.

Í bókinni tvinnar Carroll saman ævi þessara félaga, og afrek þeirra í seinna stríði og sínu fagi. Báðir voru virkir í andspyrnuhreyfingunni í hinu hernumda Frakklandi. Camus skrifaði fyrir hið bannaða tímarit Combat, og blés löndum sínum von og baráttuanda í brjóst. Monod, vann að rannsóknum við Sorbonne háskóla að degi til, en skipulagði starf andspyrnuhreyfingarinnar á Parísarsvæðinu á kvöldin. Hann fór ferðir yfir Svissnessku landamærin, hitti fulltrúa CIA (eða forvera þeirrar stofnunar) og skipulagði aðgerðir gegn flutningalestum og vopnabirgðastöðvum. Reyndar er Monod þekktari líffræðingum fyrir  rannsóknir sínar á genastjórn, en fyrir þær fékk hann einmitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði og lífeðlisfræði árið 1965 ásamt félögum sínum François Jacob og Andre Lwoof.

Bókin er ansi skemmtileg aflestrar, þótt stundum sé oft langt á milli hetjanna í bókinni. Carroll rekur í ansi löngu máli söguna af falli Frakklands, andspyrnunni og frelsun Parísar. 

Þeir Camus og Monod kynntust eftir stríð og var mikill kærleikur með þeim. Heimspeki Monods er ansi skyld sýn Camus. Monod setur nefnilega hina nýju líffræði gena og sameinda í heimspekilegt samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn, sem kom út 1970. Þar segir Monod m.a.

Loks veit maðurinn að hann er einn í óravíðum afskiptalausum alheimi þar sem hann kom fram fyrir tilviljun. Hvorki skyldur hans né örlög hafa nokkurstaðar verið skráð. Hans er að velja milli konungsríkisins og myrkranna.

En auðvitað voru mun fleiri sem lásu Camus en Monod. Ritdómar um bók Carroll um þá félaga eru nokkuð jákvæðir, hér að neðan eru tenglar á umfjöllun NY Times og Wall Street Journal.

Book Review: 'Brave Genius' by Sean B. Carroll

The Improbable French Buddies ‘Brave Genius’ Is a Story of Science, Philosophy and Bravery in Wartime

Vel heppnað málþing um Tilviljun og nauðsyn

Vísindavefurinn: Fyrir hvað er Jacques Monod þekktur?


Ritstjórinn um útlönd og atgervisflóttan

Hvaða gildi hefur menntun og þekking fyrir lítið samfélag? Íslendingar voru lengi vel sjálfum sér nægir um flest, nema kannski smíðavið. En í nútímanum byggir allt á viðskiptum og sérhæfingu. Ísland er fyrir löngu orðið að útflutnings og innflutningsþjóð, með því hagræði og verðmætasköpun sem því fylgir.

En hvað með þekkingu, erum við sjálfum okkur nóg um þekkingu um þau mál sem skipta Ísland máli? Nei aldelis ekki, við flytjum inn þekkingu og tækni í stórum stíl. Eitthvað flytjum við út af vörum og lausnum, sem útlendingar kaupa af okkur. Einnig er stór hluti afraksturs íslenskra vísindamanna aðgengilegur fræðasamfélagi heimsins. Og íslenskir vísindamenn byggja á niðurstöðum erlendra vísidnamanna.

En nú kreppir skóinn að vísindastarfi hérlendis, því að í fjárlagafrumvarpinu er margþættur niðurskurður á rannsóknasjóðum (sjá tengla neðst).

Þetta hefur alvarlegar afleiðingar, m.a. þær að nemendur flosna upp úr námi, verkefni stöðvast og Ísland missir menntað og viljugt fólk.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins talar um þetta í leiðara dagsins (6. nóvember 2013). Hann fjallar sérstaklega um þjálfun lækna, sem margir hverjir sækja sér sérfræðimenntun erlendis (og eru eða hafa verið á námslánum). Það að skulda viðkomandi til að borga lánin til baka með markaðsvöxtum, er ekki beinlínis hvatning fyrir fólk að koma heim (enda hét grein hans, Veriði bara í útlöndum).

Ólafur fjallar líka um vandamál fræðimanna og vísindafólks, sérstaklega yngri kynslóðarinnar.

Sama má segja um fólkið sem hefur helgað sig rannsóknum í framhaldsnámi sínu (oft á styrkjum frá erlendum stofnunum, fremur en á íslenzkum námslánum) og hefur hug á að snúa aftur til Íslands og nýta þekkinguna í þágu íslenzks atvinnulífs eða velferðarþjónustu. Staðan hér á landi er sú að vísindarannsóknir eru fjársveltar, nánast sama hvaða alþjóðlegur samanburður er notaður. Þar að auki er hlutfall samkeppnissjóða, þar sem vísindamenn keppa um styrki á grundvelli gæða rannsóknanna, miklu lægra en víðast hvar í nágrannalöndunum. Alltof stórum hluta opinbers rannsóknarfjár er úthlutað pólitískt, út frá hagsmunum hefðbundinna atvinnugreina, byggðarlaga og stofnana.

Hans Guttormur Þormar, vísinda- og uppfinningamaður, skrifaði grein á Vísi í gær, þar sem hann bendir á að ungir vísindamenn sem standi framarlega á alþjóðavettvangi viti að tvö til þrjú ár án nauðsynlegrar fjármögnunar rannsókna þeirra muni eyðileggja framtíð þeirra sem framsækinna vísindamanna, því að samkeppnin sé óendanlega hörð í heimi vísindanna. „Þessir einstaklingar hafa margir hverjir því aðeins um tvennt að velja, fara úr landi eða hætta í vísindum og standa ekki framar að uppbyggingu vísinda- og tækniþróunar á Íslandi,“ skrifar Hans.

Með því að reka óbreytta stefnu hér á landi er í rauninni verið að segja við þetta fólk: Menntið ykkur í útlöndum – og veriði svo bara þar. Íslenzkt samfélag þarf ekki á ykkur að halda.

Ég tek undir með Ólafi. Og íslenskt þjóðfélag þarf að taka afstöðu til þess hvaða stefnu skal taka. Viljum við samfélag sem viðurkennir gildi menntunar og þekkingar, eða viljum við ýta frá okkur vel þjálfuðu og duglegu fólk með meingallaðari forgangsröðun?.

Ítarefni:

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Apalsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband