Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Greina rætur krabbameina

Margir þættir geta mótað tilurð krabbameina. Sjúkdómurinn felur í sér að sumar frumur líkamans hætta að láta af stjórn, skipta sér of mikið, seyta vaxtaþáttum og fara á endanum í ferðalög um líkamann.

Erfðaþættir skipta máli, en það sem einnig einkennir krabbamein eru gallar í erfðaefni líkamsfruma. Galli í erfðaefni við venjulega frumuskiptingu, getur ýtt frumu inn á farveg krabbameins. Þegar margar "rangar" breytingar hafa orðið, er frumuhópurinn oftast orðinn stjórnlaus, og myndar æxli.

Erfðarannsóknir á líkamsfrumum geta fundið þessar stökkbreytingar, sem ýta undir krabbameinsmyndun og íferð.

Jórunn E. Eyfjörð og félagar við Læknadeild HÍ tóku þátt í stórri rannsókn á erfðafræði krabbameina. Greinin sem birtist í Nature nýverið er öll hin glæsilegasta. Fjallað er um þetta í fréttatilkynningu frá HÍ.

Að sögn Jórunnar byggist rannsóknin á alþjóðlega samstarfsverkefninu „The human cancer genome project“ sem miðar að því að skilgreina öll krabbamein í mönnum, þ.e. hvers vegna þau myndast, hvað valdi því og hvernig megi þróa sértækar aðferðir til að meðhöndla eða koma í veg fyrir hin ýmsu krabbamein. Verkefnið er unnið undir forystu Sanger-stofnunarinnar í Bretlandi og að því kemur fjöldi vísindamanna í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Ástralíu.
 
Í rannsókninni sem greint er frá í nýjasta hefti Nature voru fimm milljónir stökkbreytinga úr yfir 7000 krabbameinstilvikum rannsakaðar með það fyrir augum að fá nýja innsýn í þróun krabbameina. „Þetta er fyrsta ítarlega greiningin á stökkbreytingum sem valda æxlismyndun í 30 algengustu tegundum krabbameina í mönnum.  Alls voru greind  21 mismunandi „mynstur“ stökkbreytinga sem einkenndu þessar ólíku tegundir krabbameina. Í sumum tilfellum má rekja stökkbreytingarnar til þekktra skaðvalda eins og efna í tóbaksreyk eða útfjólublárrar(UV) geislunar. Reykingatengt stökkbreytingamynstur sést t.d. skýrt í krabbameinum í munni og lungum og mynstur tengt útfjólublárri geislun í húðkrabbameinum. Í flestum öðrum tilfellum er minna vitað um orsakir en þessi rannsókn er mikilvægt innlegg í að finna skýringar á þeim,“ segir Jórunn.

Tímamótarannsókn á krabbameinum 


Fæðing frægrar ræðu

Martin L. King var ekki mikið fyrir að skrifa ræður. Hann rissaði venjulega niður nokkur orð á blað, og lés síðan andan bera sig. Í nokkrum ræðum hafði hann fjallað um draum, um jafnrétti öllum til handa.

En ræðan sem hann flutti í Washington 28. ágúst 1963 var of mikilvæg fyrir slík vinnubrögð. Hann lá yfir nótum til kl. 4 um nóttina. Þegar félagar hans vélrituðu upp textann innihélt ræðan ekki orðin "Ég á mér draum..."

Á útifundinum1 í Washington  fluttu margir ræður, en einnig var flutt tónlist, m.a. gospeldrottningin Mahalia Jackson.

Samkvæmt grein eftir Drew Hansen í NY Times, þá flutti séra King ræðu sína af miklum eldmóði. En á vissum stað í ræðunni hikaði hann, og sleppti frekar illa orðaðri setningu. Síðan lét hann andan grípa sig og sagði:

Go back to Mississippi; go back to Alabama; go back to South Carolina; go back to Georgia; go back to Louisiana; go back to the slums and ghettos of our Northern cities, knowing that somehow this situation can and will be changed.

Þá tók við stutt þögn (rétt eftir 11. mín í myndskeiði með frétt mbl.is). Þá kallaði Mahalia Jackson til hans frá hlið sviðsins, "segðu þeim frá draumnum Martin". Og Martin sagði:

I say to you today, my friends, so even though we face the difficulties of today and tomorrow, I still have a dream. 

Og Martin Luther King flutti glæsilegan lokakafla einnar frægustu ræðu mannkynsögunar.

Orð breyta fólki og heiminum. Lesið þau, notið þau og takist á við áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Pistill þessi er nær algjörlega byggður á grein Drew Hansen í NY Times, og er nær því að vera þýðing en sjálfstæði skrif!

Frumheimild:

Drew Hansen NY Times Mahalia Jackson, and King's Improvisation

 

Drew Hansen er höfund The Dream: Martin Luther King Jr., and the Speech That Inspired a Nation.

NY Times 1963 200,000 March for Civil Rights in Orderly Washington Rally...

 


mbl.is „Þau áttu öll þennan draum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammar forsætisráðherrann...

og yfirgefur Spán. Stjörnufræðingurinn Amaya Moro-Martín starfaði á Spáni en sagði nýverið upp og réð sig til NASA. Til að kveðja, sendir hún spænska forsetisráðherranum opið bréf sem birtist í blaðinu El País. Ensk þýðing bréfsins birtist í The Guardian - sjá tengil neðst.

Þar hraunar hún yfir stefnu(leysi) spænsku stjórnarinnar í  vísindum og nýsköpun, og tíundar ótrúlega eiginleika spænsks skriffinnskubákns sem þarf að votta gæði spænskra vísindamanna.

Til að hvetja spænsk stjórnvöld til að hlúa að nýsköpun og fræðimennsku skrifuðu 50.000 spænskir vísindamenn skrifuðu undir lista. Þegar það hafði engin áhrif, þá skrifuðu 80.000 vísindamenn undir annað opið bréf. Og stjórnvöld höfðu ekki einu sinni fyrir því að veita þeim móttöku. 

Hún klykkir út með bombu:

Mariano, during your administration, research in this country has sunk hopelessly into the abyss of the Mariana Trench. And even though our scientific colleagues have discovered that there is life down there, I should tell you that it is bacterial. 

Staðreynd málsins er að vísindarannsóknir og nýsköpun hefur orðið undir í kreppunni. Stjórnvöld, á Spáni, hér sem næstum allstaðar annarstaðar, hafa minnkað styrki til vísindarannsókna (ef ekki í krónum þá að raunvirði). Einnig hefur samdrátturinn þrengt að vísindarannsóknum óbeint, t.d. hérlendis, þar sem aukinn fjöldi nemenda hélst í hendur við niðurskurð til Háskóla. Við HÍ þýddi þetta aukna kennsluskyldu, breytingar á reikniflokkum, og að kennarar fá ekki greitt fyrir að sinna framhaldsnemum. Reyndar fá þeir greitt fyrir leiðbeininguna þegar nemendurnir útskrifast, sem getur verið eftir 2,3,4,5 ár. Sumir framhaldsnemar hætta námi, og þá fer kannski 6 mánaða vinna í vaskinn - ógreidd.

Ég veit um fólk innan HÍ sem er farið að leita sér starfa erlendis. Vonandi tekur einhver þeirra sig til og skrifar opið bréf til íslenskra stjórnvalda. Amaya Moro-Martín er ekki bara hetja á Spáni.

The Guardian 29. ágúst 2013 Farewell letter to the Spanish PM from a scientist who is packing her bags

Open Letter for Science


Mamma, pabbi og staðgöngumamma

Lífverur fjölga sér á tvo megin vegu. Gerlar stunda kynlausa æxlun, en dýr, sveppir og plöntur styðjast flest við kynæxlun. Algengast er að karldýr og kvendýr hittist og sjái til þess kynfrumur renni saman, til að mynda nýjan einstakling.

Flestar manneskjur átta sig á að börn verða til á þennan hefðbundna hátt.  En með tilkomu tæknilegra nýjunga er hægt að geta börn á annan hátt.

Tæknifrjóvgun, t.d. þar sem sæði er sprautað inn í eggfrumu, hefur rutt sér til rúms á undangengnum áratugum. Þetta gerir fólki kleift að eignast börn, jafnvel þegar sæðisfrumurnar eru mjög slappar til sunds, eða ósamrýmanlegar egginu á annan hátt.

Ófrjósemi er náttúrulegt fyrirbrigði, en læknavísindin hefur náð að yfirstíga hana með þessari aðferð og öðrum nálgunum. Eitt vandamál er t.d. galli í móðurlífi, eða ef fjarlægja þarf það vegna sýkinga eða sjúkdóms. Og einnig eru hommar óheppilega byggðir fyrir meðgöngu.

En hægt er að koma fósturvísi fyrir í staðgöngumóður, og þar getur það þroskast í hvítvoðung á uþb. 9 mánuðum. Staðgöngumæðrun er bönnuð hérlendis, sem og á öðrum norðurlöndum. Samt eru dæmi um íslensk börn sem fædd hafa verið erlendis, af staðgöngumæðrum.

Á fundi norrænu lífsiðfræðinefndarinnar sem haldinn var 26. og 27. ágúst síðastliðinn þá eru margir fletir á málinu, siðfræðilegir og lögfræðilegir. En augljóst er að bann við staðgöngumæðrun, ýtir fólki til útlanda. Margir hafa sótt til Indlands, og þar er kominn upp blómlegu þjónusta (iðnaður) fyrir pör sem glíma við ófrjósemi.

Vandamálið er bara að réttindi staðgöngumæðra í Indlandi eru frekar lítil, engin lög og þau drög sem eru á borðinu eru skrifuð með hagsmuni væntanlegra foreldra og þjónustuaðillanna að leiðarljósi. Þótt að staðgöngumæðrun sé að vissu leyti betra "starf" en mörg önnur sem indverskum konum standa til boða, þá virðist mér ljóst að margt þurfi að lagfæra til að gott sé.

Þetta verður síðasti pistill-blogg um staðgöngumæðrun í bili, en ég bendi áhugasömum á viðtöl Spegilsins við Ruth Macklin siðfræðiprófessor við Albert Einstein Háskólann í New York og Sjónmáls við Salvöru Nordal forstöðumann siðfræðistofnunar HÍ.

  • Sjónmál 28. Ágúst 2013: Salvör Nordal heimspekingur segir frá umræðum á nýafstaðinni ráðstefnu um staðgöngumæðrun og tæknifrjóvganir og þeim álitamálum sem þar voru til umfjöllunar
  • Spegillinn: Staðgöngumæðrun frá sjónarhóli nytjahyggju  27. Ágúst 2013: Konur sem gerast staðgöngumæður á Indlandi eru flestar ólæsar, oft eina fyrirvinna fjölskyldu sinnar og með veikan félagalegan bakgrunn

Ítarefni:

Ruth Macklin, prófessor í siðfræði

Visir.is 2011 Við gátum ekki hugsað okkur að lifa barnlausu lífi

STEPHANIE SAUL 2009 NY Times Uncertain Laws on Surrogates Leave Custody at Issue

Reproductive Technology and Surrogacy – a Global Perspective, Reykjavik 25-27 August

http://www.ruv.is/mannlif/sjalfsogd-thjonusta-eda-idnadur


Gísli og Silke leiða sveppagöngu

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands hafa staðið fyrir gönguferðasyrpu, sem kallast Með fróðleik í fararnesti.

31. ágúst er förinni heitið í sveppaferð í Heiðmörk.

Gísli Már Gíslason skipulagði ferðinna, en aðalsveppafræðingurinn í ferðinni er Silke Wurth, þýskur nýdoktor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ.

ATHUGIÐ sérstaklega að brottför verður frá HÍ kl. 10 (frá Náttúrufræðihúsi HÍ), en ekki frá Rauðhólum eins og misritaðist í auglýsingu og fréttatilkynningu.

Silke Werth, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindastofnun, leiðir sveppaferð í Heiðmörk í samvinnu við fararstjóra Ferðafélags Íslands. Sveppum verður safnað og fræðst um þá og verkun þeirra. Hvaða sveppi má borða og hverjir eru eitraðir?

Hist verður við Öskju, náttúrufræðahús Háskóla Íslands, kl. 10 þar sem hægt verður að sameinast í bíla. Þaðan verður ekið í lest inn í Heiðmörk. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát fyrir sveppina. Ferðin er farin í samvinnu við Ferðafélag barnanna. Leiðsögn verður á ensku og íslensku.

http://www.hi.is/vidburdir/med_frodleik_i_fararnesti_sveppaferd_i_heidmork

Gísli Már Gíslason

Eldri vefsíða Silke Wurth


mbl.is Sveppi er víða að finna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandfurur eru ekki risafurur

dscn0472grant2_1027067.jpgStrandfurur eru ekki risafurur. Einhver miskilningur hefur læðst inn í frétt mbl.is, á skógarbruna í Yosemite þjóðgarðinum. Mig grunar að þeir hafi ruglast á stærstu lífveru jarðar og hæstu lífveru jarðar. Risafurur (Sequoiadendron giganteum) eru stærsta (í grömmum taldar)*, en strandfurur (Sequoia sempervirens) voru taldar geta orðið hæstar**

Yosemite dalurinn og þjóðgarðurinn er frekar fjarri strönd Kyrrahafsins, umlukinn tröllauknum klettum og skógi vaxinn.

Innan svæðisins eru þrír lundir með risafurur og þær eru nú í hættu. Reyndar kveikja skógfræðingarnir reglulega í gróðri á svæðinu, m.a. til að koma í veg fyrir að mikill eldsmatur sé til staðar, að mig grunar einnig til að hjálpa fræjum að spíra.

Myndina að ofan tók ég í Kings Canyon reitnum haustið 2005.

dscn0481sequoia3.jpgNeðri myndin er tekin af sama tilefni, og sýnir stýrðan bruna á svæðinu.

*Sumir segja reyndar að vissir jarðvegssveppir spanni þvílíkt flæmi að hver "einstaklingur" hljóti að vera þyngri en risafura.

**Önnur tré hafa samt náð meiri hæð, sjá vísindavefinn.

Guðjón S. Jenssen leiðrétti skilgreininguna á furum Leiðrétting

Ítarefni:

JMH. „Hversu há og hversu þung er risafura í samanburði við steypireyði?“. Vísindavefurinn 29.11.2005. http://visindavefur.is/?id=5443.

HMH. „Hvert er stærsta tré í heiminum?“. Vísindavefurinn 20.7.2000. http://visindavefur.is/?id=676. (Skoðað 27.8.2013). 

Wikipedia Sequoiadendron giganteum

Sequoia sempervirens - USDA Forest Service


mbl.is Hæstu tré heims í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartamarkaður með sæði

Eins og fram kom í gær, stendur nú yfir málþing um staðgöngumæðrun í Þjóðminjasafninu. Málþingið er skipulagt af Norrænu lífsiðanefndinni, og fjallað er um málið frá mörgum hornum.

Rúv fjallaði um málið 26. ágúst 2013.

 

Brýnt er að þjóðir heims komi sér saman um löggjöf um staðgöngumæðrun. Þetta kom fram í máli siðfræðinga sem töluðu á ráðstefnu um málefnið í Reykjavík í dag.

Hópur fræðimanna vinnur nú að því að semja ný lög sem leyfa staðgöngumæðrun hér á landi. Grár og svartur markaður með tæknifrjóvganir fer ört vaxandi í heiminum. Norræna lífsiðfræðinefndin blés til ráðstefnunnar. Eftirspurn eftir staðgöngumæðrun fer ört vaxandi í hinum vestræna heimi. Fleiri og fleiri glíma við ófrjósemi og fleiri og fleiri slá barneignum á frest og reynast svo of gamlir þegar til kastanna kemur. Þá leita samkynhneigðir í auknum mæli eftir þjónustunni.

Forstjóri Danska sæðisbankans, Ole Schou er markaðsmaður að mennt og lítur á þetta sem spurningu um eftirspurn og framboð. Eftirspurnin sé næg, og ef hömlur eru settar á framboðið, muni það leiða til svartamarkaðar.

Ole Schou er bankastjóri danska sæðisbankans sem er sá stærsti í heimi. 35 þúsund börn eru getin með sæði úr bankanum í yfir 70 löndum. 90% af sæðinu er til útflutnings. Bankastjórinn segir framboð og eftirspurn eftir sæði það mikla að nauðsynlegt sé að veita þjónustuna svo hún leiti ekki undir yfirborðið. Of ströng löggjöf geti slegið á framboðið en ekki á eftirspurnina.

Meira um það síðar.

Ítarefni:

Rúv 26. ágúst 2013. Svartur getnaðarmarkaður fer vaxandi


Siðferðlileg álitamál um staðgöngumæðrun

Nú stendur yfir fundur í Þjóðminjasafninu um staðgöngumæðrun í alþjóðlegu samhengi.

Fjallað er um siðferðileg og lögfræðileg álitamál sem tengjast staðgöngumæðrun, sæðis og eggjagjöfum. Meðal þeirra spurninga sem velt er upp er:

Hafa börn rétt á að vita um sín erfðafræðilegu foreldri?

Á barn fætt með sæðisgjöf, rétt á að vita hver pabbinn er?

Hver er réttur staðgöngumóður?

Hver er réttur eggjagjafa(móður) og sæðisgjafa(föður)?

Hver er réttur barns sem fætt er af staðgöngumóður?

Á það barn rétt á að þekkja sína staðgöngumóður?

Á dagskrá eru mörg mjög athyglisverð erindi.

Reproductive Technology and Surrogacy – a Global Perspective, Reykjavik 25-27 August

Í morgun bar Salla Silvola lögfræðingur í Finnska dómsmálaráðaneytinu, saman norræna löggjöf um staðgöngumæðrun.

Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og lektor við HÍ fjallaði um ráðgjöf og sjónarhorn þeirra sem leitast eftir tæknifrjóvgun og e.t.v. staðgöngumæðrun vegna ófrjósemi.

Ole Schou, forstjóri stærsta sæðisbanka veraldar (Cryos International), fjallaði um þeirra sögu, reynslu og siðferðileg álitamál.

Síðasta erindi morgunsins flutti Guido Pennings, siðfræðiprófessor við Ghent háskóla. Hann ræddi um samræmingu löggjafar, og hvatti í raun til þess að lönd Evrópu fylgdu sinni eigin stefnu, og gerðu þannig nokkurskonar lögfræðilegar tilraunir á minni skala, sem aðrar þjóðir gætu þá lært af.

Fundurinn er skipulagður af Norrænu lífsiðanefndinni, sem starfar í umboði norræna ráðherraráðsins.

Ncbio.org


Sjálfstæðir fjölmiðlar eru nauðsynlegir

Það er sérstaklega ánægjulegt að nýr fjölmiðill skuli nú vera að hasla sér völl hérlendis.

Í allri umræðu um þjóðfélagsmál, efnahag, umhverfi, land og auðlindanýtingu, er grundvallaratriði að fjölmiðlar séu öflugir og sjálfstæðir. Fjölmiðlar sem lúta beinum áhrifum efnamanna eða pólitískra hreyfinga eru ekki ákjósanlegir. Þeir geta komið með ágæta vinkla, en allt sem frá þeim kemur er metið í ljósi hagsmunatengslanna. Hérlendis á það bæði við um 365 miðla og Morgunblaðið.

Það verður að viðurkennast að ég hef ekki haft mikla innsýn í starf blaðamanna og fréttamanna, og sem vísindamaður hefur mér oft blöskrað hversu léleg umfjöllun um vísindi er hérlendis. Þar eru dæmi um snöggsoðnar þýðingar á einhverju sem blaðamaðurinn veit ekkert um, hreinar rangtúlkanir byggðar á vanþekkingu og síðan einfaldar eftirprentanir á fréttatilkynningum. Sannarlega eru margir fréttamenn sem hafa fjallað vel um vísindi, t.d. hvernig lífríki hafsins bregst við loftslags breytingum eða um ris andvísindahreyfinga í BNA.

Ef umfjöllun um vísindi er gloppótt, hvernig er þá umfjöllun um önnur svið samfélagsins?

Þeir fréttamenn sem ég hef rætt við kvarta yfir tímaskorti, því að þeir hafi bara tíma til að kafa í eina til tvær sögur á viku, en hitt sé frekar hraðsoðið. Þeir kvarta einnig yfir því að samfélagið skilji ekki eða virði störf þeirra.

Blaðamenn læra ákveðin vinnubrögð, um að gæta heimilda, fá staðfestingu á staðreyndum, vitna rétt í fólk, viðhalda hlutleysi o.s.frv. Á vissan hátt eru vinnubrögðin áþekk því sem tíðkast í vísindum, nema hvað þeir lúta lögmálum fréttatíma og um vinna þeir ekki ósvipað vísindamönnum, bara á skemmri tímaskala

Vandamálið sem við - íslendingar - stöndum frammi fyrir er þetta.

Við fáum þá fjölmiðla sem við eigum skilið.

Ef við kunnum ekki að meta góða fjölmiðla, þá fáum við slæma fjölmiðla. Ef við hlaupum bara á eftir líkamsparta-fyrirsögnum og hann-sagði/hún-sagði orðaskaki, þá munu fjölmiðlarnir mæta þeirri þörf okkar!

Ef við viljum vandaða fjölmiðlun sem þorir að takast á við vandamál í þjóðfélaginu, sem og þing, framkvæmdavald og dómstóla, þá verðum við að leita þá uppi, þakka þeim fyrir, láta aðra vita hvað er vel gert og BORGA FYRIR ÁSKRIFTIR.

Blogg koma aldrei í staðinn fyrir vandaðar fréttir!

Nú veit ég ekki hvort að Kjarninn verði nýr hlutlaus og öflugur miðill Íslandi til góðs, en þeir taka allavega mið af ágætum miðlum í Newsweek og Wired (ég er minna hrifinn af Vanity fair). Í núverandi umhverfi er það eiginlega bara RÚV sem stendur sem heilstæður og hlutlaus fréttamiðill. Ásakanir samkeppnisaðilla og stjórnmálamanna um vinstri slagsíðu, eru sorglegt dæmi um innflutning á áróðursbrellum amerískra hægrimanna öfgamanna.

Ég vil hafa RÚV sem sjálfstætt starfandi (án þingskipaðrar stjórnar!) miðil í íslensku samfélagi. Ef við RÚV missir ríkisstyrki verður hann eitthvað áþekkt NPR og PBS í Bandaríkjunum, jaðar-miðill sem hverfur í skugga pólítískra (FOX) eða skemmtifréttastöðva (NBC, ABC, CBS). 

Það er ekki ákjósanlegt ástand eins og margir hafa bent á nýlega. Til að mynda Chris Mooney, sem ritaði hina frábæru bók Unscientific America: How Scientific Illiteracy Threatens our Future með Sheril Kirshenbaum.

Áhugasömum er bent á að Chris Mooney verður með fyrirlestur við HÍ laugardaginn 7. september kl. 12.00 til 13.30 í stofu 105 á Háskólatorgi.

http://kjarninn.is/


mbl.is „Lítið vit í því að prenta út og dreifa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listaverk í undirdjúpunum

Lífverur eru listaverk. Lauf musteristrjáa og eika eru ótrúlega falleg, sem og kúluskíturinn, innri píplur nýrna, ríbósómin í frumum, DNA helixinn og síðast en ekki síst hinn tveggja frumu þykki vængur ávaxtaflugunar.

En lífverur eru ekki bara listaverk, sum dýr búa til listaverk sjálf.

Þekktustu dæmin eru laufskálafuglarnir sem vefa stórkostleg form úr greinum og stilkum, síðan skreyta þeir rýmið með sérvöldum gripum (blómum, lituðum steinum, lirfum eða plasti).

underwater-mystery-circle-11-580x348.jpg

Mynd af vefnum Spoon & Tamago / picture from Spoon and Tamago.

http://www.spoon-tamago.com/2012/09/18/deep-sea-mystery-circle-love-story/

Japanskir náttúrufræðingar fóru að athuga mynstur sem áhugakafarinn Yoji Ookata hafði fundið. Samkvæmt japönsku vefsíðunni Spoon & Tamago og Jerry Coyne á Why Evolution is True var um að ræða rúmlega hringlaga form í sandinum á hafsbotni.

Mynstrin eru mjög regluleg og ansi fjölbreytt. Sumir hringirnir eru einfaldir, aðrir samanstanda af nokkrum baugum og jafnvel skrauti í miðjunni.

Um áratuga skeið var ekki vitað hvað eða hver byggi til hringina. En nýleg athugun leiddi í ljós að  listfengin kúlufiskur (pufferfish - Torquigener sp., Tetraodontidae) er ábyrgur fyrir herlegheitunum. 

Náttúrufræðingar hafa löngum velt vöngum yfir þessu yfirdrifna stússi.

Af hverju eðlast ekki bara fuglarnir eða fiskarnir í stað þess að standa í þessu baksi?

Charles Darwin setti fram hugmyndina um kynval (sexual selection), þar sem kvendýr velja maka á grundvelli glæsileika eða hæfileika. Darwin braut heilann um stél páfuglsins, sem olli honum líkamlegri angist, en þótti líklegast að með þessu "baksi" væru páfuglarnir að keppa um hylli kvendýra. Sem veldu síðan glæsilegasta fuglinn - og hann fengi þá að koma genum sínum til næstu kynslóðar.

Nóg er af ósvöruðum spurningum. Hvers vegna velja kvendýrin glæsilegasta fuglinn eða sandhringinn? Karlfiskurinn skapar stórkostleg verk, og kvendýrin velja... en hvað? Velja þær þá duglegustu eða hæfileikaríkustu? Velja þær samhverfuna, reglulegasta mynstrið eða hvað.

Listamaðurinn og bókahöfundurinn David Rothenberg fjallaði einmitt um fegurð í náttúrunni í bók sinni, Survival of the beautiful. Hann vill meina að margar dýrategundir hafi innbyggða þörf til að skapa og að njóta fegurðar. Þetta birtist meðal annars í laufskálafuglunum og kúlufiskunum, en einnig í þeirri tilfinningalegu sælu sem fylgir því að upplifa fegurð lista eða náttúru.

Ég held þvi ekki fram að kvenkúlufiskar tárist við að sjá fallegan sandhring, en verður veröldin ekki örlítið forvitnilegri ef við leyfum okkur amk að velta þeim möguleika fyrir okkur.

Ítarefni og heimildir

Spoon & Tamago. 2012 The deep sea mystery circle—a love story

 

Jerry Coyne 2012 A marine mystery solved (and a bit about birds)

Hiroshi Kawase, Yoji Okata & Kimiaki Ito Role of Huge Geometric Circular Structures in the Reproduction of a Marine Pufferfish Scientific Reports 3, 2106 doi:10.1038/srep02106

Survival of the Beautiful by David Rothenberg

Arnar Pálsson | 18. mars 2010  Hin kenning Darwins


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband