Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Vísindaútgáfa er vandaverk

Vísindamenn byrjuðu á að rita bækur um rannsóknir sínar en með tilkomu fræðifélaga, eins og Linneanska félagsins í London, var farið að rita einstakar og afmarkaðari greinar.

Nú til dags miðla vísindamenn næstum öllum niðurstöðum í formi vísindagreina, sem birtast í misjafnlega sérhæfðum ritum. Vísindatímaritin eru síðan misjöfn, í formi, ritstjórnarstefnu og virðingu.

Science og Nature eru virtustu tímaritin, m.a. vegna þess að þau hafa birt fjölmargar tímamóta rannsóknir í gegnum tíðina. Það er ákaflega erfitt að koma greinum í þessi tímarit. Ritstjórarnir hafna greinum án þess að senda þær í yfirlestur, og mjög stórt hlutfall greina er hafnað af yfirlesurum. Einhverntíman heyrði ég að einungis 5% af greinum sem sendar voru í Nature væru birtar.

Fræðimenn verða að vita hvaða tímarit eru merkilegust á sínu fræðasviði. Ef þú ert erfðafræðingur, þá eru Nature Genetics, PLoS genetics og Genetics talin merkilegustu tímaritin. Fræðimaður þarf að velja til hvaða tímarits hann sendir rannsóknina sína. Hann þarf að meta hversu góð hún er, á hún sjéns í Nature eða Genetics eða Frey (Helsta landbúnaðartímarit Íslands til margra ára).

Framlag vísindamanna og framleiðni  er nú metið að miklu leyti með mælistikum semtengjast virðingu tímaritanna. Ef þú birtir rannsókn í Nature, þá er hún ósjálfrátt talin merkilegri en rannsókn sem birtist í Frey. En á sama tíma er líka hvati til að birta margar greinar, fjöldi vísindagreina skiptir máli fyrir líkurnar á góðu starfi, stöðuhækkun, styrkfé og verðlaunum.

Matskerfið er þannig á vissan hátt hvati á framleiðni en ekki gæði.

Og ef vísindamenn eru ekki starfi sínu vaxnir, og vita ekki hvað er gott og slæmt á sínu fræðasviði, getur verið að þeir freistist til að senda grein í líttþekkt tímarit. Slíkt tímariti getur verið ágætt í sjálfum sér, en það eru einnig dæmi um að þau séu svikamylla eða jafnvel svindl útgáfu af alvöru tímariti. Bókasafnsfræðingurinn Jeffrey Beall hefur tekið saman lista yfir möguleg svindltímarit af nokkrum gerðum. Hann ræddi fyrstur um ránið á Jökli. 

Að lokum vil ég þakka Viðar Guðjónsyni fyrir vandaða umfjöllun og að skaffa tengla á heimildir (jafnvel vort auma blogg).

Ítarefni.

Icelandic Journal Latest Victim of Journal Hijacking

The Linnean Society of London


mbl.is Jökull í klóm óprúttinna manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðleg ráðstefna um refi haldin á Núpi í Dýrafirði

Ester Rut forstöðumaður Melrakkaseturs vill vekja athygli fólks á ráðstefnu sem haldin verður um refi nú í haust. Úr tilkynningu (örlítið lagfært orðalag):

Alþjóðleg ráðstefnu um refi verður haldin dagana 11. - 13. október að Hótel Núpi í Dýrafirði.
Ráðstefnan fjallar um líffræði og málefni tófunnar, og er sú fjórða sem haldin hefur verið. Þátttakendur koma frá ýmsum löndum og eru bæði erindi og veggspjöld en einnig verður minning Páls heitins heiðruð með ýmsu móti. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna:

Þeir sem hafa áhuga á að sækja ráðstefuna, halda erindi eða kynna niðurstöður á veggspjöldum geta fylgt slóðinni hér að ofan og skráð sig.

Ungir_yrdlingar_af_morauda_litarafbrigdinu

 Mynd af vef Melrakkaseturs (picture copyright Melrakkasetur.is).

Ég get ekki annað en hvatt náttúruáhugamenn um að skrá sig á fundinn. Bæði vegna þess að refir eru hin forvitnilegustu kvikindi og því að Núpur er dásamleg gersemi í fegursta firði landsins.

Ítarefni:

Melrakkasetur

www.arcticfoxcenter.com

Frumkvöðull í rannsóknum á refnum


Jökli var rænt

Fræðitímaritið Jökull rit Jöklarannsóknarfélags Íslands lenti í klónum á óprúttnum náungum.

Fræðatímaritið var með einfalda gamaldags vefsíðu, reyndar bara á íslensku þótt það geri sig út fyrir að vera alþjóðlegt tímarit. Skuggabaldrarnir settu um gervisíðu fyrir tímaritið og sóttust eftir vísindagreinum. Hugmynd þeirra var sú að samþykkja greinarnar og rukka svo vísindamennina um prentunargjald. 

Prentunargjald hefur rutt sér til rúms á síðustu 10 árum, sem leið vísindatímarita til að komast hjá því að rukka áskriftargjöld. Í stað þess að áskrifendur borgi fyrir tímaritin, borga vísindamennirnir sem birta greinarnar fyrir kostnaðinn við útgáfuna. Þetta er kjarninn í hreyfingunn fyrir opnum aðgangi (open access).

En þetta má misnota, eins og reyndar gamla viðskiptamódelið í vísindaútgáfu. Einhverjir glæpamenn hafa sett upp gervi tímarit og í nokkrum tilfellum stolið tímaritum. Nú síðast rændu þeir Jökli.

Jeffrey Beall fjallað um jöklaránið á bloggsíðu sinni Scholarly open access. Hann segir meðal annars:

The old print journal Jökull, published in Iceland since 1951, has been hijacked. The hijackers set up two bogus web sites for the journal and are accepting article submissions.

In earlier blog posts, I reported the identity thefts of two print journals, namely, Archives des Sciences and Wulfenia. In a journal hijacking, the culprits target a respected print journal that does not have a prominent website. Then they create a new website, stealing the identity of the legitimate journal.

Góðu fréttirnar eru þær að Jökull uppfærði sína vefsíðu, og hefur nú betri ásýnd.

Slæmu fréttirnar eru þær að hermisíðurnar eru ennþá lifandi. Jöklarannsóknarfélagið hefur reynt að fá þeim lokað, en ekki tekist.

Ég vill leggja áherslu á að þetta vandamál er ekki bundið við Opinn aðgang, eða eðlileg afleiðing opins aðgangs. Þetta er afleiðing netvæðingarinnar fyrst og fremst. En svona blekkingar sýna okkur líka að vísindamenn eru jafn ginkeyptir og við hin fyrir einföldum barbabrellum.

Bestu þakkir til Hrafns Malmquist fyrir að benda fólki á opinn aðgangur póstlistanum á málið.

Leiðrétting. 

Eftir hádegið 14. ágúst, var tengill á nýja opinbera vefsíðu Jökuls uppfærður (þökk Baldvin Zarioh fyrir ábendinguna).

Ítarefni:

Icelandic Journal Latest Victim of Journal Hijacking

Opinn Aðgangur á Íslandi - Upplýsingagátt um OA á Íslandi

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

Nýja vefsíða Jökuls

http://www.jokulljournal.is/

Gamla vefsíða Jökuls

http://www2.jorfi.is/?page_id=15


Mörkun og ákvörðun kynfruma

Í líkömum dýra eru fjölmargar frumugerðir. Einfaldasta skiptingin er samt á milli kynfruma og líkamsfruma. En þar sem við komum öll úr frjóvguðu eggi verður, á einhverjum tímapunkti í þroskun, að greina á milli fruma sem koma til með að mynda kynfrumur og hinna. Hinar frumurnar byggja líkamann sjálfan, í allri sinni dýrð, frá meltingarvegi til beina.

Í spendýrum gerist þetta frekar snemma í þroskun (sjöunda degi í þroskun músa), í klasa fruma sem liggja inni í fóstrinu. Erna Magnúsdóttir, nú nýdoktor við lífvísindasetur HÍ, birti nú í ágúst grein í Nature Cell Biology um rannsóknir sínar á þessum þroskunaratburðum og þeim stjórnprótínum sem.

Úr tilkynningu:

Erna, sem er nýkomin til starfa við Lífvísindasetrið, vann að rannsókninni í rannsóknarteymi Azim Surani, prófessors við Gurdon-stofnunina við Háskólann í Cambridge. Hópurinn sérhæfir sig í að rannsaka svokallaðar kímfrumur í mönnum og músum. Kímfrumur verða til mjög snemma við fósturþroska og verða að kynfrumum við kynþroska. Vanti kímfrumur verður viðkomandi einstaklingur ófrjór og eru rannsóknir á sérhæfingu kímfrumna því afar mikilvægar. Rannsóknir á kímfrumum geta einnig varpað ljósi á grundvallarspurningar um svokallaða fjölgæfni, sem er hæfileiki stofnfruma til sérhæfingar í allar mismunandi frumur líkamans.

Ítarefni:

Magnúsdóttir E, Dietmann S, Murakami K, Günesdogan U, Tang F, Bao S, Diamanti E, Lao K, Gottgens B, Azim Surani M. A tripartite transcription factor network regulates primordial germ cell specification in mice. Nat Cell Biol. 2013 Aug;15(8):905-15. doi: 10.1038/ncb2798. Epub 2013 Jul 14.
 

Fréttatilkynning frá HÍ. Rannsókn varpar ljósi á þróun kynfruma

Lífvísindasetur HÍ

Erna Magnúsdóttir


Innflutt sköpunarhyggja

Íslenskir sköpunarsinnar eru frekar fáir, en þeir kunna ensku og þýða samviskusamlega kjaftæði sem framleitt er af amerískum sköpunarsinnum.

Ég hef ekki orðið var við eina einustu röksemd íslenskra sköpunarsinna, sem er frumleg ný gagnrýni á þróunarkenninguna. Í það heila eru þetta allt saman endurnýting á gömlum einföldum fullyrðingum, sem búið er að hrekja fyrir langa löngu.

Frosti og Máni í Harmageddon hafa oftar en ekki hjólað í íslenska sköpunarsinna, og af því tilefni kölluðu þeir undirritaðan í viðtal í morgun. Mest fór púðrið í að svara einstaka fullyrðingum eins íslensks sköpunarsinna, sbr. tengil á viðtalið hér að neðan.

En mér finnst mikilvægast að árétta, að jafnvel þótt að sköpunarsinnar bregði fyrir sig fáguðu orðfæri og vitni í greinar, staðreyndir og tölur, þá virða þeir lögmál vísinda að vettugi. Þeir beita ekki vísindalegum aðferðum, og rökfræðin er oft verulega brengluð.

Það er samt þeim í hag, að það líti út fyrir að þeir eigi í rökræðum við vísindamenn. Þeir vilja ekki endilega snúa þeim til síns málstaðar, heldur sannfæra venjulegt fólk um að  þróunarkenningin sé ekki jafn sönn og vísindamenn vilja láta. Þeir vilja framleiða efa, svona rétt eins og tóbaksframleiðendur framleiddu efa um hættuna af sígarettum og olíufyrirtækin nú um loftslagsvísindin.

Ég vildi óska að fólk beindi athygli sinni að brýnari vandamálum, og nýtti orkuna til að berjast fyrir t.d. náttúruvernd, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, betri menntun og heilbrigðisþjónustu, réttindum minnihlutahópa og kúgaðra, minni spillingu og fleiri atvinnutækifærum.

Ítarefni:

X-ið 8. ágúst 2013 Sköpunarsinnum endanlega svarað

19.8.2011 Þróunarkenningin er staðreynd


Björn Sigurðsson uppgötvaði hæggengar veirusýkingar

Björn Sigurðsson læknir var einn fremsti vísindamaður Íslands. Hann rannsakaði hæggengar sýkingar í sauðfé, bæði lentiveirur og príon. Hann var í fremstu röð þessara rannsókna á sínum tíma og Keldur hófst til virðingar undir hans stjórn. Guðmundur Pétursson fór yfir ævi Björns í stuttum pistli á Vísindavefnum:

Björn vann að fyrstu rannsóknum sínum sem læknanemi árið 1936 á taugaveikisýkingu í Flatey á Skjálfanda og tókst honum að greina sýkilinn við frumstæðar aðstæður. Að loknu kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1937 starfaði hann við Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg og fór síðan til framhaldsnáms og rannsókna við Carlsbergfondets Biologiske Institut í Kaupmannaahöfn. Björn var við framhaldsnám og rannsóknir í Rockefeller Institute í Princeton, New Jersey 1941-1943 en kom síðan heim til starfa á Rannsóknastofunni við Barónsstíg undir stjórn Níelsar Dungals. 

100 ár eru liðin frá fæðingu Björns og af því tilefni verður haldin hátíðarfyrirlestur í Háskóla Íslands (8. ágúst 2013 kl. 16:00 í Hátíðasal Háskólans, Aðalbyggingu). 

Ashley T Haase, prófessor við Minnesotaháskóla heldur minningarfyrirlestur um Björn Sigurðsson, fyrsta forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Hátíðasal Háskólans, en í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Björns.

Björn Sigurðsson ávann sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á mæði-visnuveirunni og kenningar um hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnuveiran er náskyld eyðniveirunni (HIV), og tilheyra þessar veirur báðar flokki lentiveira, en lentiveirur draga nafn sitt af kenningum Björns (lentus=hægur).

Ég þarf vonandi ekki að hvetja fólk til að mæta.

Ítarefni:

Guðmundur Pétursson Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda visindavefur.hi.is

Ashley Haase, MD - University of Minnesota Medical School

Halldór Þormar skrifar um sögu mæði-visnu veirunnar


Hagsmunaaðillar ráðast gegn vísindum

Markmið vísinda er að skilgreina vísindalegar spurningar og að leita svara við þeim. Í mannkynsögunni hafa vísindin oft troðið valdhöfum um tær, með því að afsanna heimsmynd eða gildismat ríkjandi stétta eða valdastofnanna.

Nútildags eru einnig fjölmargar ríkistjórnir, flokkar, þrýstihópar, hreyfingar og félagasamtök, sem hafa horn í síðu vísinda. Vegna þess að þær vilja t.d. - virkja vatnsföll, banna kennslu á þróunarkenningunni, leyfa olíuvinnslu, banna erfðabreyttar lífverur og friða sniglana.

Á alþjóðaþingi vísindablaðamanna, sem haldið var í Helsinki í júnílok, var fjallað um margar hliðar þessa máls. Hlutverk  blaðamanna er nefnilega ekki bara að segja frá nýjustu tækni og vísindum, heldur einnig frá afbökun og markvissu niðurbroti á grundvallarþekkingu. Í bandaríkjunum eru fjöldi slíkra dæma, það þekktasta er líklega áróður trúarhópa gegn þróunarkenningunni, sem hefur staðið í hartnær hundrað ár.

Bergljót Baldursdóttir tók viðtal við  Christine Russell á alþjóðaþingi blaðamanna, og fjallaði um vaxandi vantrú á vísindum í nýlega í Speglinum. Þar sagði hún m.a.:

Ákveðinn minnihlutahópur í Bandaríkjunum hefur síðan á þriðja áratug síðust aldar mótmælt þróunarkenningunni þó svo hún sé viðurkennd meðal vísindamanna. Hugmyndin um að maðurinn hafi þróast frá óæðri dýrategund stríðir gegn trúarhugmyndum þeirra og margoft hafi þessi hópur reynt að fá lög sett sem skylda skóla til að kenna sköpunarsöguna til jafns við þróunarkenninguna. Það hefur ekki gengið eftir fyrr en núna. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna eru nú í gild lög sem gera það að skyldu að kenna börnum að þróunarkenningin sé umdeild þó svo hún sé það ekki. Vísindamenn hafa verið sammála um hana lengi. Nýlega hefur svo þetta sama fólk beint sjónum sínum að loftslagsbreytingum og fullyrða að maðurinn eigi ekki þátt í þeim og að einnig sé umdeilt meðal vísindamanna að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað.

Hagsmunir að baki
Þeir sem mótmæla því að loftslagsbreytingar eigi sér stað eiga oft hagsmuna að gæta, segir Cristine.  Þetta er fólk sem er í viðskiptum sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum bitna á eða fólk sem neitar að trúa þeim af öðrum ástæðum. Í flestum tilfellum er fólkið í  Republikanaflokknum og tilheyri hinni svokölluðu Teboðshreyfingu.  Nú er farið að bera á fólki með þessar hugmyndir í Kanada, Ástralíu og í Bretlandi. Í Tennesee-ríki í Bandaríkjunum hafa nú verið sett lög sem gera skólum að kenna bæði að þróunarkenningin sé umdeild og loftslagsbreytingar líka.

Ítarefni

Ruv.is Spegillinn Vaxandi tortryggni gagnvart vísindum 02.08.2013

World congress of Science journalists 2013

Christine Russel Harvard University


Hvernig má meta neikvæð áhrif bólusetninga?

Þegar allar staðreyndirnar liggja á borðinu, er það hlutverk blaðamannsins að finna söguna og koma henni til skila.* Þegar "staðreyndirnar" eru mjög misjafnar að gæðum, þ.e.a.s. mikil óvissa um áhrif einstakra þátta eða hvort samspil sé á milli þátta eða ekki, þá getur verið erfitt fyrir blaðamanninn að finna sannleikann.

Með öðrum orðum, þegar óvissan er mikil og margir þættir í spilinu, getur verið erfitt að vita hvað er rétt og finna söguna. Nýlegt dæmi um bólusetningar og drómasýki er fellur í þennan flokk.

Þegar H1N1 influensan ógnaði heimsbyggðinni árið 2009 var mikil bólusetningarherferð. Samhliða bólusetningunni fór að bera á drómasýki í Finnlandi, og fylgdust fjölmiðlar mikið með framvindu mála (einnig á öðrum norðurlöndum). Spurningin var hvort að bólusetningin ylli drómasýkinni, eða hvort að faraldurinn væri sprottinn af öðrum rótum?

Bergljót Baldursdóttir fjallaði um þetta mál í Speglinum í síðustu viku, og ræddi þar ítarlega við finnskann vísindablaðamann Ulla Järvi. Ulla ræddi hvernig vísindamennirnir sem fundu tengsl milli drómasýki og bólusetningarinnar hafi átt erfitt með að fá niðurstöður sínar birtar. Gagnrýni yfirlesara og ritstjóra var að fjölmiðlafár í Finnlandi hafi ýtt undir greiningu á drómasýki.

Einnig taldi Ulla að hið virta vísindatímarit Lancet hafi verið vart um sig eftir Wakefield hneykslið, og því ekki þorað að birta aðra mögulega umdeilda rannsókn (meira neðar).

Umfjöllun Bergljótar lýsir atburðunum og staðreyndunum nokkuð vel, þótt að mínu viti sé ennþá töluverð óvissa um einstaka þætti. Ulla er nokkuð viss um áhrifin, hún sagði í viðtali að það væri ónæmisglæðirinn sem hafi orsakað drómasýkina ("It was the adjuvant in the vaccine that caused it..."). Aðrar rannsóknir hafa athugað hvort samband sé á milli þessa bóluefnis og drómasýki í öðrum löndum.

Fyrir mér eru staðreyndirnar ennþá nokkuð loðnar, og óvíst hvort að öll kurl séu komin til grafar. Partinen og félagar ályktuðu í upphaflegu rannsókninni í Plos One:

A sudden increase in the incidence of abrupt childhood narcolepsy was observed in Finland in 2010. We consider it likely that Pandemrix vaccination contributed, perhaps together with other environmental factors, to this increase in genetically susceptible children.

Nohynek og félagar ályktuðu á sama tíma, að það væri pandremix bóluefnið sem væri hættulegast, líklega vegna ónæmisglæðisins.

Pandemrix vaccine contributed to the onset of narcolepsy among those 4 to 19 years old during the pandemic influenza in 2009-2010 in Finland. Further studies are needed to determine whether this observation exists in other populations and to elucidate potential underlying immunological mechanism. The role of the adjuvant in particular warrants further research before drawing conclusions about the use of adjuvanted pandemic vaccines in the future.

Stór rannsókn  Wijnans og félaga sáu áhrif í Svíðþjóð og Danmörku, en vægari eða ekki í öðrum löndum.

The results of this incidence study provided useful information for signal verification on a population level. The safety signal of increased narcolepsy diagnoses following the start of the pandemic vaccination campaign as observed in Sweden and Finland could be observed with this approach. An increase in narcolepsy diagnoses was not observed in other countries, where vaccination coverage was low in the affected age group, or did not follow influenza A(H1N1)pdm09 vaccination. Patient level analyses in these countries are being conducted to verify the signal in more detail.

Staðreyndin er sú að veröldin er flókin og er erfitt að finna út hvernig hún virkar. Sérstaklega þegar við erum að rannsaka fólk, þar sem samfélag, orðrómur og fjölmiðlar geta mótað framvindu farsótta og viðgang sýkinga. Voru áhrifin raunveruleg, eða voru læknar meðvitaðari fyrir möguleikanum á drómasýki í Finnlandi og öðrum norðurlöndum, vegna fréttaflutningsins?

Því miður er ómögulegt að kanna áhrifn beint, nema að nota tvíblindarannsókn. Og það er ekki réttlætanlegt að bólusetja milljón manns, nema möguleg farsótt sé á næsta leyti. Og það er spurning hvort að það sé réttlætanlegt að nota sama eða skyldan ónæmisglæði í næsta bóluefni?**

Einnig einfaldar Ulla atburðarásina töluvert, sérstaklega áhrif andstæðinga bólusetninga. Vegna þeirra er mögulegt að ritstjórar og yfirlesarar séu gagnrýnni á rannsóknir sem bendi til neikvæðra áhrifa bólusetninga. Það væri líklega vegna þess að þeir búast við að slíkar rannsóknir verði oftúlkaðar og notaðar í áróðursherferðum. Það er nokkuð bagalegt ef samfélagslegur þrýstingur mótar ákvarðanir um hvort birta skuli eða ekki vísindalegar rannsóknir.

Einnig er sagan af MMR bóluefninu, Wakefield og Brian Deer einfölduð töluvert í frásögn Ullu. Við höfum aðeins fjallað um þetta hér, að mestu byggt á skrifum enska læknisins Ben Goldacre. Goldacre sagði m.a. að skaðinn hafi ekki endilega verið fyrsta grein Wakefield í Lancet , heldur hafi bergmál skemmtana/fjölmiðlaiðnaðarins gefið andstæðingum bólusetninga byr undir báða vængi. Úr eldri pistli okkar:

Ben Goldacre er sannfærður um að fjölmiðlarnir beri mesta ábyrgð á ferðalagi MMR lygasögunar. Óábyrg fréttamennska, svo og sú árátta að hampa frekar orðrómi en traustum niðurstöðum[,] hafi kynnt undir þetta fáviskubál. 

Goldacre rekur tímalínu málsins í bók sinni Bad Science, og þar er ljóst að grein Wakefields olli ekki hruni í bólusetningu. Það var ekki fyrr en gula pressan og froðumiðlar (eins og The Sun, Oprah o.s.frv.) tóku að veita andstæðingu bólusetninga hljómgrunn að skaðinn varð. Rannsókn sem afsannaði tilgátu Wakefields, um að MMR ylli einhverfu, var birt snemma á síðasta áratug, en pressan hafði ENGANN áhuga á henni.

Að endingu. Mannfólkið er statt á þeim tímapunkti að upplýsingar flæða auðveldlega á milli landa. Þetta á jafnt við um vísindalega þekkingu, orðróm og söluherferðir. Vandamálið sem lesendur og blaðamenn standa frammi fyrir er að greina kjarnan frá hisminu, og finna út hvað er sannleikur í veröld óvissunar!

Ítarefni og athugasemdir:

*Reyndar er það oft flókið mál. Mannfólk þráir sögur. Stundum eru margir aðillar að sögu, fortíð þeirra og upplifanir þeirra ólíkar og því erfitt að finna eina rétta sögu sem lýsir atburðarás eða misrétti.

** Í raun á að vera hægt að svara spurningunni um ónæmisglæðinn, ef hann hefur verið notaður í önnur bóluefni. Ef áhrifn eru bundin við glæðinn, þá ættu þau að birtast í öðrum bóluefnum líka! En ef þessi gerð glæðis var bara notuð í eitt bóluefni, þá höfum við ekki möguleika á að greina á milli!

RÚV.is - Spegillinn Tengsl bólusetninga og drómasýki  01.08 2013.

Partinen M, Saarenpää-Heikkilä O, Ilveskoski I, Hublin C, Linna M, et al. (2012) Increased Incidence and Clinical Picture of Childhood Narcolepsy following the 2009 H1N1 Pandemic Vaccination Campaign in Finland. PLoS ONE 7(3): e33723. doi:10.1371/journal.pone.0033723

Nohynek H, Jokinen J, Partinen M, Vaarala O, Kirjavainen T, et al. (2012) AS03 Adjuvanted AH1N1 Vaccine Associated with an Abrupt Increase in the Incidence of Childhood Narcolepsy in Finland. PLoS ONE 7(3): e33536. doi:10.1371/journal.pone.0033536

Wijnans L, Lecomte C, de Vries C, Weibel D, Sammon C, Hviid A, Svanström H, Mølgaard-Nielsen D, Heijbel H, Dahlström LA, Hallgren J, Sparen P, Jennum P, Mosseveld M, Schuemie M, van der Maas N, Partinen M, Romio S, Trotta F, Santuccio C, Menna A, Plazzi G, Moghadam KK, Ferro S, Lammers GJ, Overeem S, Johansen K, Kramarz P, Bonhoeffer J, Sturkenboom MC. The incidence of narcolepsy in Europe: before, during, and after the influenza A(H1N1)pdm09 pandemic and vaccination campaigns. Vaccine. 2013 Feb 6;31(8):1246-54. doi: 10.1016/j.vaccine.2012.12.015. Epub 2012 Dec 16.

MBL.is Lancet afturkallar 12 ára gamla grein

apalsson: Ábyrgðin liggur hjá..


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband