Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Blandaður genapoki frá Neanderdal

Fyrir nokkrum árum tókst að raðgreina erfðaefni úr beinum Neanderdalsmanna, sem höfðu dáið fyrir um 30.000 árum.

Með því að skoða mismun á erfðaefni Neanderdalsmanna og okkar var hægt að meta að síðasti sameiginlegi forfaðir þessara tveggja tegunda lifði fyrir uþb. 400.000 árum.

En einnig kom í ljós að sumar raðir í erfðaefni Evrópu og Asíubúa voru mjög áþekkar röðum þessar útdauðu frænda okkar. Engar slíkar raðir fundust í Afríkubúum.

Þar sem leifar Neanderdalsmanna hafa bara fundist í Evrópu og Asíu er talið að þeir hafi alls ekki búið í Afríku. En einnig er vitað að Neanderdalsmenn og beinir forfeður okkar bjuggu á sama tíma í hinum heimsálfunum tveimur. Erfðafræðilegu gögnin sýna síðan merki um kynblöndun.

Gjöf frá Neanderdal

Tvær nýlegar rannsóknir (David Reich við Harvard háskóla og félaga hans, og Benjamin Vernot og Joshua M. Akey við Univeresity of Washington, Seattle) sýnir að gen Neanderdalsmanna voru að vissu leyti heppileg viðbót.

Fyrir nokkur gen í erfðamengi Asíu og Evrópubúa eru útgáfurnar úr Neanderdal algengar eða næstum allsráðandi. Það þýðir að nokkur gen (sem tengjast t.d. húð og litarhafti) eru ættuð úr Neanderdal. Að sama skapi hafa vissar útgáfur gena Neanderdalsmanna miðlað þoli gagnvart sjúkdómum. Þróunarfræðingar setja fram þær tilgátur að við kynblöndun Neanderdalsmanna og forfeðra okkar, hafi gen sem auðvelda líf á norðlægari breiddargráðum flust á milli tegundanna. Það er mun erfiðara að segja að útgáfa X af geni B sé tengd, t.d. nýtingu á D vítamíni eða þoli gagnvart berklabakteríu. Til að geta staðhæft slíkt þarf ítarlegri rannsóknir á starfsemi genanna.

Bland í genapokanum

En gögnin sýna einnig að einungis vissa hluta erfðamengisins má rekja til Neanderdals. Önnur svæði í menginu sýna enga vísbendingu um blöndun við Neanderdalsmenn. Þetta er sérstaklega áberandi á genaríkum svæði mengisins. Þar er mjög óalgengt að finna allel ættuð úr Neanderdal.

Það bendir til þess að genin hafi ekki getað unnið saman. Með öðrum orðum að Neanderdalsgenin hafi ekki virkað vel með genum Homo sapiens. Og því hafi þau horfið úr stofninum fyrir tilstuðlan náttúrulegs vals.

Þetta er undirstrikað af þeirri staðreynd að í 9 tilfellum má rekja stökkbreytingar sem valda sjúkdómum til Neanderdals. Um er að ræða stökkbreytingar sem ýta t.d. undir sykursýki og sjálfsofnæmi.

Valið gegn ófrjósemi

En sterkustu vísbendingu um hreinsun á Neanderdalsgenum má finna á X litningnum. Mikill minnihluti gena þar sýna merki um blöndun, og þær Neanderdals samsætur sem finnast eru í lágri tíðni í stofninum.

Það sama má sjá þegar skoðuð eru gen sem tjáð eru í eistum. 

Þetta tvennt bendir mjög sterklega til vals gegn ófrjósemi kynblendinga. Rannsóknir í ávaxtaflugum hafa einmitt sýnt að gen á kynlitningum, og gen tjáð í kynkirtlum eru oft tengd ófrjósemi í kynblendingum eða blendingum á milli afmarkaðra stofna.

Þannig að síðustu þá getum við glaðst yfir því að hafa fengið erfðabreytingar ættaðar úr forneskju. En um leið prísað okkur sæla yfir því að náttúrulegt val hafi hreinsað út mest af draslinu úr genapokanum frá Neanderdal.

Ítarefni:

Carl Zimmer New York Times 31. jan. 2014. Neanderthals Leave Their Mark on Us

Vernot, B. & Akey, J. M. Science http://dx.doi.org/10.1126/science.1245938 (2014).

Sankararaman, S. et al. Nature http://dx.doi.org/10.1038/nature12961 (2014).


Um trúverðugleika vísindamanna og orðræðu stjórnmálamanna

Þórarinn Guðjónsson skrifar í Fréttablaðið (23. janúar 2014), Um trúverðugleika vísindamanna og orðræðu stjórnmálamanna.

--------------

Í heimi vísinda og fræða skiptir trúverðugleiki miklu máli. Vísindamenn vinna út frá forsendum og tilgátum, greina gögn og draga ályktanir eftir bestu vitund. Skoðanir og niðurstöður vísinda- og fræðimanna eru alls ekki yfir gagnrýni hafnar. Þvert á móti. Vísindi nærast á akademískri gagnrýni sem byggir á rökstuddri umræðu um viðfangsefnin.

Í nýlegu viðtali við Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í þætti Gísla Marteins Baldurssonar „Sunnudagsmorgni“ hinn 12. janúar var hann spurður um álit sitt á athugasemdum sérfræðinga úr faghópi eitt í öðrum áfanga Rammaáætlunar. Athugasemdirnar birtust í DV 10. janúar í kjölfar tillögu ráðherra um breytingar á Rammaáætluninni. Ráðherra dró fagmennsku vísindamannanna í efa án þess að útlista nánar hvað hann ætti við annað en að hugsanlega væru viðkomandi vísindamenn í pólitískum erindagjörðum. Þess ber að geta að hópurinn samanstóð af 11 vísinda- og fræðimönnum frá mismunandi stofnunum og ólíkum fræðasviðum. Ráðherra til hróss sá hann eftir þessum ummælum og baðst afsökunar á þeim (sjá hádegisfréttir RÚV 15. janúar).

Bætum umræðuhefðina
Sambærileg atvik hafa áður komið upp og vekur þetta spurningar um skyldur vísindamanna til að miðla upplýsingum á opinberum vettvangi um málefni þar sem þeirra sérþekking liggur. Á vísindamaðurinn að þegja þrátt fyrir að hann telji sig búa yfir mikilvægum upplýsingum sem eigi erindi til almennings? Að vegið sé að trúverðugleika fólks án rökstuðnings er óásættanlegt.

Slík vinnubrögð hafa hins vegar gjarnan tíðkast meðal stjórnmálamanna þegar þeir berjast innbyrðis og vega hver að öðrum. Kannski er það ein ástæða þess að stjórnmálin skortir trúverðugleika og að Alþingi er sú stofnun sem fólk ber hvað minnst traust til. Auðvitað geta vísindamenn haft rangt fyrir sér eins og aðrir og er það bara mannlegt en þá takast menn bara á í upplýstri umræðu um málefnin. Það eru ákveðin teikn á lofti um að hluti þingmanna vilji breyta orðræðu í stjórnmálum til hins betra og er það gott. Slíkur viðsnúningur mundi skila sér í betri samskiptum manna á milli og án efa efla samskipti og samvinnu stjórnmálamanna við ráðgefandi hópa í þjóðfélaginu hvort sem það eru vísinda- og fræðimenn eða aðrir. Það er afar mikilvægt að við bætum umræðuhefðina í samfélaginu, hættum að fara í manninn og ræðum málefnin á grundvelli raka.


Þjórsárver, náttúra og náttúruverndarsaga

Dr. Gísli Már Gíslason flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt mánudaginn 27. janúar kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

---  tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi---

Ágrip af erindi:

„Þjórsárver er heiti sem Finnur Guðmundsson fuglafræðingur gaf gróðurverum sunnan Hofsjökuls. Þjórsárver eru í dæld sem fær vatn frá Hofsjökli og austan frá Vatnajökli. Nafnið ver (veiðistöð) vísar til þess að þarna voru heiðagæsir veiddar í sárum áður fyrr.

Í erindinu verður skýrt frá náttúru þessa svæðis, sem er stærsta gróðurlendi í miðhálendi Íslands í annars eyðimörk sem umlykur það. Um helmingur er votlendi og á mili þeirra lyng- og víðiheiðar.

Þjórsárver er með meiri tegundafjölbreytileika plantna og dýra en önnur sambærileg svæði á hálendinu og einnig er það þekkt fyrir mikið blómskrúð í brekkum sem snúa móti suðri, eins og Arnarfellsbrekku og Arnarfellsmúlum. Einnig er þetta stærsta sífrera svæði á Íslandi. Heiðargæsin kemur í byrjun maí og verpir á kollum freðmýrarrústa og meðfram ám, þar sem er snjólaut þegar gæsin kemur. Meðan stofninn var minni voru Þjórsárver stærsta varpsvæðið á Íslandi og núna eru Guðlaugstungur og Þjórsárver stærstu svæðin.

Árið 1969 voru settar fram tillögur um að sökkva öllum verunum undir 200 km2 lón. Með ötulli baráttu einstaklinga, náttúruverndarsamtaka og Náttúruverndarráðs Íslands hefur stærstum hluta þeirra verðið forðað frá því að sökkva undir vatn. Með samkomulagi Náttúruverndarráðs og Landsvirkjunar var verunum austan Þjórsár fórnað undir Kvíslaveitu, sem flytur um 40% af Þjórsá við Norðlingaöldu til Þjórisvatns. Í samkomulaginu var lón við Norðlingaöldu sett í bið og rannsakað hvort það mundi skerða náttúruverndargildi veranna. Náttúrvernd ríkisins, arftaki Náttúruverndarráðs, komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki ásættanlegt, en með nýrri löggjöf um mat á umhverfisáhrifum telur Landsvirkjun sig ekki bundna af þessu samkomulagi. Skýrt verður frá sögu náttúruverndar í Þjórsárverum og þeirri einkennilegu stöðu sem er komin upp núna í kjölfar samþykktar Alþingis á þingsályktunartillögu um Rammaáæltun um verndun og nýtingu virkjanakosta.“

Gísli Már Gíslason er fæddur 1950, lauk BS prófi í líffræði 1973 frá HÍ, 4. árs prófi frá sama skóla 1974 og PhD prófi frá Háskólanum í Newcastle upon Tyne 1978. Gísli hefur verið kennari í vatnalíffræði við HÍ frá 1977, þar af prófessor frá 1988. Gísli sat í Náttúruverndarráði 1987-2000 og hefur verið formaður Þjórsárveranefndar frá 1987. Hann sat í faghópi um náttúrufar í 1. og 2. áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða.

Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)
Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)


Nýgræðingur sem skellti prófessor

Davíð rotaði Golíat. Hæstvirtur prófessor er afhjúpaður af nýgræðingi. Biblíusaga og saga úr nútímanum. Við elskum góðar sögur, sérstaklega óvænt endalok.

Bakgrunnur sögunnar er sálfræðirannsóknir Barböru Fredrickson, en hún hafði verið að leita orsaka mannlegrar velgengni. Tilgátan hennar var sú að nægilega mikil jákvæðni dugi til að yfirvinna erfiðleika og mislyndi, þannig að sumir einstaklingar blómstri.

Barbara starfaði með Marcial Losada, sem var viðskiptaráðgjafi með reynslu af líkanagerð, og þau settu fram nýstárlega kenningu í vísindagrein. Greinin hét  Positive Affect and the Complex Dynamics of Human Flourishing, og inntakið var það að velgengni einstaklinga ylti á hlutföllum (3 á móti 1) jákvæðra og neikvæðra þátta. Og að um óstöðugt jafnvægi væri að ræða, ef fólk væri með hátt hlutfall hlyti það velgengi, en hinir rynnu í ógöngur.

Fredrickson notaði þessa niðurstöðu og aðrar við skrif bókar sinnar um jákvæðni (positivity), þar sem þessu töfrahlutfalli var haldið á lofti (Top-Notch Research Reveals the 3-to-1 Ratio That Will Change Your Life).

Það var bara einn galli á gjöf Njarðar. Stærðfræðin í greininni var alger grautur.

Til að greina það þurfti nýgræðing í faginu, nánar tiltekið hinn 53 ára gamla Nick Brown sem fór í framhaldsnám seint á lífsleiðinni.

Andrew Anthony fjallar um þessa einstöku atburðarás í grein í The Observer nú um helgina.

Grein hans er fanta vel skrifuð og því best að ljúka þessari litlu ábendingu.

Bestu þakkir til Steindórs fyrir ábendinguna.

Andrew Anthony The Observer, 19 Jan. 2014

The British amateur who debunked the mathematics of happiness
The astonishing story of Nick Brown, the British man who began a part-time psychology course in his 50s – and ended up taking on America's academic establishment

Sturlað stigakerfi í HÍ

Það er gaman að keppa í íþróttum, handbolta, körfu eða pílukasti.

En það er mjög erfitt að bera saman íþróttir. Engri heilvita manneskju dytti í hug að bera saman handboltamann og körfuknattleiksmann, bara á fjölda skoraðra marka.

Engu að síður er svoleiðis kerfi við lýði í Háskóla Íslands. Þar er notað stigakerfi til að meta frammistöðu starfsmanna, borga launaauka, meta framgang í starfi, og við úthlutun styrkja.

Margir hafa kvartað yfir þessu vandamáli í mörg ár, og yfirvöld HÍ segja kerfið í endurskoðun (á hverju ári). En ekkert gerist, nema hvað óánægjan magnast (hjá þeim sem eru hlunfarnir af kerfinu).

Einar Steingrímsson ritar grein í tímaritið Þjóðmál um stigakerfi HÍ og rannsóknarframmistöðu mismunandi sviða HÍ. Þar fjallar hann sérstaklega um hið sturðala stigakerfi í HÍ. 

Árið 2006 setti HÍ sér það háleita markmið að komast í röð hundrað bestu háskóla heims, á listum sem leggja mikla áherslu á gæði og styrk rannsókna.  Þessi stefna var unnin innan skólans, undir forystu rektors, Kristínar Ingólfsdóttur, og með þátttöku akademískra starfsmanna, og hlaut mikinn hljómgrunn.  Forystu skólans hefði verið í lófa lagið að fylgja þessari stefnu, hefði hún kært sig um það.  Hún hefur hins vegar ekkert gert til að breyta helstu hvötunum í starfi skólans, því stigakerfi sem mat á umfangi og gæðum rannsóknaframlags einstakra starfsmanna er byggt á.
 
Það er nógu slæmt að þetta stigakerfi ríkisháskólanna byggir nánast eingöngu á baunatalningu, þ.e.a.s. á talningu á fjölda birtra greina, ráðstefnufyrirlestra o.s.frv. Það er vissulega rétt að mjög fáar birtingar vísindamanns eru undantekningalítið merki um lítið vægi, en það er hins vegar lítil fylgni milli magns og gæða þegar komið er yfir ákveðið lágmark í birtingatíðni.  Stigakerfi af þessu tagi eru nánast óþekkt í sæmilegum háskólum erlendis, af augljósum ástæðum: Gæði akademískra starfsmanna eru metin af sérfræðingum á hverju sviði fyrir sig, bæði þegar um er að ræða framgang (úr lektors- í dósents- og svo í prófessorsstöðu) og beint eða óbeint þegar laun eru annars vegar.  Engu reyndu háskólafólki dettur í hug að hægt sé að meta gæði rannsóknastarfs með því einu að telja birtar greinar og annað sem  beinlínis er hægt að kasta tölu á.
 
Það sem verra er, stigakerfið er þannig gert að það fást að jafnaði fleiri stig fyrir grein sem birt er í íslensku tímariti en í einhverju af þeim alþjóðlegu tímaritum sem mestrar virðingar njóta (eins og t.d. Nature).  Það er fráleit stefna að birta á íslensku greinar sem eiga að vera framlag til vísindasamfélagsins, á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu, en það gildir um langflest fræðasvið, þar á meðal nánast öll mennta- og félagsvísindi.  Staðreyndin er auðvitað sú að mikill fjöldi akademískra starfsmanna í HÍ ræður alls ekki við neinar rannsóknir sem ná máli á þeim alþjóðavettvangi sem skólinn vill gera sig gildandi á. Samt sem áður er ekki nóg með að allt þetta fólk fái stóran hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, heldur eru beinlínis sett á laggirnar tímarit sem eru úr öllum tengslum við alþjóðafræðasamfélagið, og því algerlega gagnslaus þessu samfélagi, til að hægt sé að veita undirmálsfólkinu framgang allt upp í prófessorsstöðu, og hækka laun þess umtalsvert.  Enda er fjöldi prófessora við HÍ sem nánast ekkert hafa birt á alþjóðavettvangi, og þar með ekkert birt bitastætt, á áratugalöngum ferli.
 
Þetta stigakerfi hvetur starfsmenn annars vegar til að skrifa gagnslausar greinar sem ekki ná máli alþjóðlega, af því auðvelt er að fá þær birtar á Íslandi, og hins vegar hvetur það til framleiðslu á magni, en ekki gæðum.  Það er sérstaklega kaldhæðið að færasta vísindafólkið leggur langflest áherslu á gæði, og forðast óþarfa magn, enda kostar dýrmætan tíma að framleiða slök vísindi, þótt það sé afar auðvelt fyrir sæmilegt vísindafólk að fjöldaframleiða ómerkilegar greinar og fá birtar á alþjóðavettvangi.

Þessi greining hans er mjög nærri lagi, og við háskólamenn verðum að takast á við vandann og krefjast breytinga.

Einar reynir síðan að greina orsakir vandands, og bendir á smákóngaveldi, ranga stefnu stjórnvalda og áherslu yfirstjórna menntastofnanna á ímynd ofar efni. Það er nokkuð víst að öll þessi atriði skipta máli, og líklega fleira til.

Ítarefni:

Einar Steingrímsson (Eyjan.is 21. janúar 2014) Vondir háskólar, viljalaus stjórnvöld

Eftirfarandi grein birtist í  desemberhefti tímaritsins Þjóðmála, 4. hefti 9. árgangs. 

Arnar Pálsson  | 20. apríl 2011 Glansandi mynd...

Arnar Pálsson | 4. október 2012  Decode dregur upp Háskóla Íslands

 


Blávatn og Stuttjökull syðri

Ok er að hverfa. Og í staðinn myndast Blávatn. Hilmar Malmquist og félagar hafa kannað líffræði þessa nýja vatns. Rannsókn þeirra var birt í Náttúrufræðingnum sem kom út nú í janúar (Náttúrufræðingurinn).

Rætt var við Hilmar í Speglinum fyrir rúmum tveimur árum (2. 11. 2014). Blávatn, nýjasta stöðuvatn landsins

Blávatn er affallslaust, ískalt og efnasnautt enda í um ellefu hundruð metra hæð. Þar má þegar finna lífverur, kísilþörunga, þyrildýr og bessadýr. Þau síðastnefndu líklega að vakna af margra alda dvala í jöklinum. Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur vaktað vatnið frá því menn urðu þess varir sumarið tvöþúsund og sjö. Hilmar Malmquist, líffræðingur er forstöðumaður Náttúrufræðistofunnar, hann segir þarna einstakt tækifæri til að fylgjaast með því frá byrjun hvernig ungt og ósnortið vatnavistkerfi þróast í tímans rás og mikilvægt sé að vernda vatnið.

Erindi Hilmars á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar var sett á vefinn Blávatn -- nýjasta vatn landsins.

Allt er breytingum undirorpið. Breytingar eru eðlilegur hluti af náttúrunni.  Samfara loftslagsbreytingum munu verða mikil umskipti á íslenskri náttúru. Ok mun hverfa, og Helgi Björnsson hefur spáð því að Langjökull muni líklega klofna í tvennt innan aldar.

Ætli þá verði talað um Langjökul syðri og Langjökul nyrðri, eða e.t.v. Stuttjökul syðri og Stuttjökul nyrðri?


mbl.is Einn minnsti jökull landsins að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti vísindafélagsins segir að ráðherra eigi að biðjast afsökunar

Varðandi athugasemdir umhverfisráðherra í þættinum sunnudagsmorgun. Þar sagði hann að vísindamenn væru í pólitík.

Þórarinn Guðjónsson var í viðtali hjá Sjónmáli í gær (14. janúar 2014) og varði faglega vinnu hópsins um Rammaáætlun og leiðréttingar vísindafólksins.

Þórarinn segir að umhverfisráðherra vegi að þessum hópi og eigi að biðja hópinn afsökunar.

http://ruv.is/sarpurinn/sjonmal/14012014

Gísli Marteinn spurði hvaða fagmenn?

Sem er drungaleg spurning, og bergmálar þann stjórnmálalitaða gerviveruleika sem búinn er til af hægri mönnum í bandaríkjunum. Þar er m.a. til conservapedia, þar sem er íhaldsútgáfur af náttúrulögmálum sem ónáða pólitíska og persónulega sjálfsmynd margra hægri manna.

Þeir sem hafa áhuga á því sem er að gerast í Bandaríkjunum ættu að lesa bókina The Republican Brain - Chris Mooney.


mbl.is Mikilvægt að ná sátt í málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg rannsókn og vel diffrað að auki

Það verður að viðurkennast að ég er hinn mesti óviti í jarðfræði, en af því að líffræðin er svo lánsöm að deila húsi með jarðfræðingum, þá lærir maður hitt og þetta. Sigrún Hreinsdóttir hefur t.d. verið dugleg við að kenna mér um jarðskorpuhreyfingar og kvikuhólf, samfara eldgosum.

Nýleg rannsókn hennar og samstarfsmanna sýnir mjög greinilegt samband á milli þrýstings í kvikuhólfi og stærð gosmakkar. Sigrún og félagar settu upp GPS mælitæki í kringum Grímsvötn, og náðu síkvikum mælingum af kvikuhólfinu þegar það var að þenjast út, og tæma sig. Félagar þeirra á veðurstofunni greindu hæð gosmakkarins (líklega með radar) og þannig gafst tækifæri á að kanna sambandið á milli breytinga í hólfinu og stróksins sem stóð upp úr eldfjallinu.

Björn Malmquist fréttamaður ræddi ítarlega við Sigrúnu, og var viðtalið birt samhliða styttri frétt um málið á vef RÚV (mjög flott framtak). Þar útskýrði Sigrún mikilvægi stærðfræði og þá sérstaklega diffrunar fyrir rannsóknina.

Einnig var rætt við hana í morgunútvarpi Rásar tvö í gærmorgun. Þar kom í ljós að Sigrún, er í launalausu leyfi frá jarðfræðideild HÍ, og starfar nú á Nýja Sjálandi sem vísindamaður. Hún er að kanna starfsumhverfið og aðstöðu þar, til að athuga hvort hún muni ílengjast þar eða ekki.

Á síðata ári fjölluðum við mikið um á misræmi milli stefnu stjórnvalda, eins og hún t.d. birtist í stefnu Vísinda og tækniráðs sem forsætisráðherra leiðir, og fjárlagafrumvarpi síðasta árs. Í ljósi þess að alþingi og stjórnvöld hérlendis hafa engan áhuga á að byggja upp þekkingarsamfélag og nýsköpun hérlendis, get ég ekki mælt með því við Sigrúnu að hún komi aftur.

Ítarefni og viðtöl.

http://www.ruv.is/frett/jardskorpubreytingar-notadar-vid-oskuspar 

 

Morgunútvarp Rásar 2 13. 1. 2014 Nákvæmari spár um áhrif gosösku

Sigrún Hreinsdóttir o.fl. Volcanic plume height correlated with magma-pressure change at Grímsvötn Volcano, Iceland    Nature Geoscience    (2014) doi:10.1038/ngeo2044

http://www.nature.com/ngeo/journal/vaop/ncurrent/full/ngeo2044.html 

Þórarinn Guðjónsson Við erum ekkert án vísinda


mbl.is Geti spáð fyrir um hæð gosmakkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líffræði og umhverfisfræði fiskeldis

Líffræðifélagið hefur tekið þátt í að skipuleggja röð fyrirlestra um líffræði og umhverfisfræði fiskeldis, í samstarfi við Verndarsjóð villtra laxastofna og Stofnun Sæmundar fróða við HÍ.

Fyrirhugað er að halda á næstu mánuðum nokkrar málstofur um fiskeldi í kvíum á sjó og landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Mikil umræða á sér nú stað um arðsemi, kosti og galla laxeldis í sjó. Reynsla af fiskeldi í sjó hér við land og erlendis hefur verið misjöfn og full ástæða er til að fara vandlega yfir hina ýmsu þætti áður en teknar eru ákvarðanir um frekari framkvæmdir á þessu sviði. Veturinn 2014 er áformað að fá til landsins óháða sérfræðinga sem hafa rannsakað áhrif sjókvíaeldis á nálæg vistkerfi og þekkja reynslu annarra þjóða af laxeldi. Jafnframt hefur verið boðið til málstofanna sérfræðingum í fiskeldi í „lokuðum kerfum”, bæði í sjó og í fersku vatni á landi.

Fyrsta málstofan verður haldin í Reykjavík föstudaginn 17. janúar 2014, kl. 13:30 á Café Sólon.

Þar mun dr. Brian Vinci frá The Conservation Fund, Freshwater Institute í Bandaríkjunum segja frá frumkvöðlaverkefni í laxeldi á landi sem unnið hefur verið að í Vestur-Virginíufylki. Þar hefur náðst undraverður árangur án þess að notuð séu bóluefni eða sýklalyf. Fiskurinn er alinn í kerjum sem er haldið hreinum með búnaði sem fangar úr vatninu öll úrgangsefni frá fiskinum. Með því að hafa kerin á landi er komið í veg fyrir samgang eldisfiska við villta laxastofna og þar með dregið stórlega úr hættu á smiti af sjúkdómum og laxalús, genablöndun eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.

Þá mun Geir Spiten hjá fyrirtækinu Akvatech flytja erindi um lokuð kerfi með áherslu á kerfi sem gefið hafa góða raun vegna hreinlætis og allra aðstæðna til eldis. Takmark fyrirtækisins er að koma á fót alþjóðlegri starfsemi sem byggist á þessari hreinlegu og heilsuvænu eldistækni.

Erindin verða flutt á ensku.

Þau sem hug hafa á þátttöku eru vinsamlega beðin um að láta vita á netfangið nasf@vortex.is


Þorska DNA í tímavél

Í gær fjölluðum við örstutt um niðurstöður Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur og samstarfsmanna (Fornir þorskar og tímavél í DNA).

Stofnstærð mjög mikilvæg fyrir nytjastofna og fyrir þróun lífsins. Þróun gerist í stofnum, og breytingar á uppskiptingu stofna, stærð þeirra, kynjahlutföllum og aldursdreifingu skiptir miklu fyrir viðgang og framtíðarhorfur.

Með tilkomu sameindaerfðafræðilegra aðferða var hægt að rýna í breytileika í genum. Þetta var fyrst gert fyrir rétt rúmlega 30 árum. Þá kannaðii Martin Kreitman erfðabreytileika í Adh geni ávaxtaflugunnar (Drosophila melanogaster).

Raðgreiningin sýndi að innan gensins var mikill breytileiki, 43 basar voru ólíkir á milli þeirra 11 einstaklinga sem skoðaðir voru. 

Rannsókn Kreitmans opnaði fyrir þann möguleika að kanna beint breytileika í DNA, og einnig að tengja hann við breytileika í útliti eða háttum lífvera. Einnig var hægt að skoða sögu stofna, eins og Guðbjörg og félagar gerðu. Í tilkynningu frá HÍ segir:

"Íslendingar hafa frá landnámi veitt þorsk við strendur landsins. Fornleifarannsóknir á fornum verstöðvum urðu hvati að þverfræðilegum rannsókn um á þorskstofninum á tímabilinu 1500 - 910,“ segir Guðbjörg Ásta. „Við vildum kanna hvort að iðnvæddar veiðar á þorski, sem hófust á 19. öld, hefðu haft verulega fækkun í stofninum í för með sér, hvort veiðar á sögulegum tíma, m.a. veiðar útlendinga, hefðu þá þegar haft áhrif á stofninn eða hvort að sögusagnir um kuldaskeið og lélegan þorskafla í lok miðalda tengdust mælanlegum sveiflum í fjölda þorska í sjónum. Til þess að svara þessum spurningum notuðum við erfðaefni úr orskbeinum, fengnum með fornleifau ppgreftri. Við gerðum líkön til að meta líklegasta fjölda þorska í hrygningarstofninum frá miðöldum og að nútíma. Þá töldum við árhringi á hryggjarliðum til að meta aldur þorskanna sem veiddir voru á þessum tíma.

...

Niðurstöður Guðbjargar Ástu og þessara samstarfsmanna hennar sýna stofnhrun í upphafi 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum fram á nútíma. „ Við áætluðum fjölda hrygna í upphafi 16. aldar með erfðafræðilegum líkönum um 300.000 – 400.000 einstaklinga en um tífalt færri í nútíma. Þá sýndu aldursgreiningar á beinunum að þorskarnir urðu mun eldri á sögulegum tíma. Meðalaldurinn fyrir 17. öld var um 13 ár en er undir 10 árum í veiðistofninum í dag. Lækkun meðalaldurs veiðistofns er oft talin til marks um ofveiði en þar sem við sáum lækkun í aldri töluvert seinna en hrun stofnsins benda niðurstöðurnar ekki sérstaklega til að ofveiði á sögulegum tíma hafi valdið stofnhruninu. Það er líklegt að hrunið megi skýra með breytingum á umhverfi sjávar á þessum tíma, mögulega tengt loftslagsbreytingum, en á sama tímabili kólnar á Norður-Atlantshafssvæðinu," segir Guðbjörg Ásta.

cod1.jpgÍtarefni.

Historical DNA reveals the demographic history of Atlantic cod (Gadus morhua) in medieval and early modern Iceland Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Kristen M. Westfall, Ragnar Edvardsson og Snæbjörn Pálsson. Proc. R. Soc. B 22 February 2014 vol. 281 no. 1777 20132976 doi: 10.1098/rspb.2013.297

Martin Kreitman Nucleotide polymorphism at the alcohol dehydrogenase locus of Drosophila melanogaster 1983 Nature 304, 412 - 417 (04 August 1983); doi:10.1038/304412a0

Casey Bergman Ágúst 2013 On the 30th Anniversary of DNA Sequencing in Population Genetics


mbl.is Þorskurinn hrundi á 16. öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband