Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erfðafræði

Líffræðiráðstefnan 2009

Í tilefni af 30 ára afmæli Líffræðifélags Íslands og 35 ára afmælis Líffræðistofnunar háskólans verður haldin ráðstefna dagana 6. og 7. nóvember 2009.

augndiskurTaugastilkur sem tengir augnbotn við heilabú ávaxtaflugu, myndina tók Sigríður R. Franzdóttir.

Íslenskir líffræðingar stunda öflugar rannsóknir á mörgum sviðum líffræði, læknisfræði og umhverfisfræði. Á líffræðiráðstefnunni 2009 verða 105 erindi sem lýsa til að mynda rannsóknum á þróun þorskstofnsins, lífríki Surtseyjar, smádýrum sem lifðu af ísöldina og tvíkynja hesti. Í sérstökum yfirlitserindum verður fjallað um framfarir í mannerfðafræði, vistkerfi norðurslóða, þroskun taugakerfisins, mikilvægi náttúruverndar og þróun atferlis. Vísindafólk úr fjórum íslenskum háskólum, fjölda stofnana og náttúrufræðisetra, sem og íslenskir vísindamenn sem starfa erlendis munu kynna niðurstöður sínar á ráðstefnunni.

Ráðstefnan fer fram í aðalsal Íslenskrar erfðagreiningar, Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (stofum 132, 131 og 130) og sal Norræna húsins. Setning föstudaginn er kl 8:20 6. nóvember í sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Fimm yfirlitserindi verða haldin á ráðstefnunni.

Föstudaginn 6. nóvember:

Samspil plantna og dýra á norðurslóðum - Ingibjörg Svala Jónsdóttir (kl. 8:40 í ÍE)

Erfðir algengra og flókinna sjúkdóma: deCODE verkefnið Unnur Þorsteinsdóttir (kl. 9:20 í ÍE)

Laugardaginn 7. nóvember:

Ferðalög fruma við þroskun taugakerfisins - Sigríður Rut Franzdóttir (kl. 8:40 í 132 Öskju)

Vistkreppa eða náttúruvernd - Hjörleifur Guttormsson (kl. 9:20 í 132 Öskju)

Þróun atferlis - Sigurður S. Snorrason og Hrefna Sigurjónsdóttir (kl. 13:00 í 132 Öskju)

Ráðstefnugjald er kr. 2000 (500 f. nema). Skráningu ber að senda á netfangið liffraediradstefna@mail.holar.is. Þeir sem kynna rannsóknir sínar með veggspjöldum eða erindum eru sjálfkrafa skráðir. Í ráðstefnugjaldi er innifalinn miði á haustfagnað Líffræðifélags Íslands sem haldinn verður 7. nóvember í Gyllta sal Hótel Borgar.

Sjá nánar á heimasíðu Líffræðifélags Íslands, biologia.hi.is.




Breyskir vísindamenn

Vísindi eru iðkuð af fólki. Fólk gerir mistök og fremur glæpi.

Kjarni hinnar vísindalegu aðferðar eru skýrt afmarkaðar tilgátur, sem spá fyrir um ákveðin fyrirbæri (t.d. að ef þú tekur koltvíldi úr lofti þá muni planta deyja). Það er mikilvægt að tilgáturnar sé hægt að afsanna. Eins er krafa að tilraunum og rannsóknum sé lýst það nákvæmlega að aðrir hópar geti endurtekið þær. Til að mynda getur hver sem er sannreynt það að plöntur þurfa koltvíldi!

Sumum einstaklingum finnst í lagi að svindla, til að fá víti í fótboltaleik, koma peningum til Tortola eða ná athygli girnilegs karlmanns. Hwang Woo-suk falsaði niðurstöður sínar, birti greinar byggðar á lygum. Áður en það komst upp var hann lofsunginn, dáður og fékk stóra styrki. Fallið var mikið, þegar upp komst og nýjustu tíðindin eru þau að hann hafi verið dæmdur fyrir fjársvik. 

Svikin komust upp vegna þess að aðrir vísindamenn bentu á að niðurstöður Hwang stóðust ekki og meðhöfundar og ritstjórar sáu að sum gögnin voru fölsuð. Í kjölfarið voru vísindagreinarnar dregnar til baka og Hwang var bannað a rannsaka stofnfrumur.

Hin vísindalega aðferð afhjúpaði svikin, því ef þú falsar gögn og heldur fram einhverju bulli (t.d. því að plöntur lifi á súrefni og framleiði koltvísýring), þá mun einhver í fyllingu tímans afsanna það.

Að endingu vill ég af gefinni ástæðu leggja áherslu á fernt.

1. Ritrýning er ekki lokapróf fyrir hverja rannsókn. Heldur það hvort að aðrar rannsóknir styði hana eða ekki. Allar tilgátur þurfa að standast ítrekaðar prófanir.

2. Það að einn maður falsi niðurstöður þýðir ekki að allir vísindamenn séu svindlarar.

3. Svindl er misalvarlegt, Hwang virðist hafa falsað mest af niðurstöðunum í stofnfrumurannsóknum sínum, aðrir teikna ónákvæma mynd af líffæri. Það að vísindamaður svindli þýðir ekki endilega að tilgátan hans sé röng, þó það auki vissulega líkurnar á því!

4. Þó að maður falsi niðurstöður einnar rannsóknar, þýðir það ekki að hann hafi falsað niðurstöður allra sinna rannsókna. Með öðrum orðum, þótt Hwang hafi klúðrað málunum í stofnfrumurannsóknum sínum er alls ekki víst að hann hafi svindlað þegar hann rannsakaði áhrif Cyclosporíns á rottufrumur á áttunda áratugnum.

Ítarefni

Pistill Magnúsar K. Magnússonar um stofnfrumur.

Grein NICHOLAS WADE í New York Times, Korean Scientist Said to Admit Fabrication in a Cloning Study 16. desember, 2005.


mbl.is Vísindamaður sakfelldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Richard Lenski og þarmabakterían

Á vísindi.is er oft fjallað um skemmtilegar nýjungar t.d. í líffræði, eðlisfræði og jarðfræði.

Ég skora á ykkur að kíkja á nýlega umfjöllun um tilraunir Richard Lenskis. Bakteríustofnarnir sem hann hefur fylgst með og gert tilraunir á gefa okkur einstakt tækifæri til að skoða þær erfðafræðilegu breytingar sem verða við þróun lífvera.

Annað megin inntakið í grein Barrick og félaga í Nature er að þróun svipgerðar og arfgerðar fer ekki alltaf saman. Svipgerðin hætti að mestu að þróast eftir 20000 kynslóðir, en samt urðu áfram breytingar á arfgerðinni.

Hinn megin punkturinn er að stökkbreytihraðinn var ekki jafn. Á ákveðnum tímapunkti jókst hann umtalsvert, sem gat þá leitt til hraðari þróunar (með þeim aukaverkunum að slæmar stökkbreytingar hlóðust líka upp).

Við gerðum tilraunum Lenskis skil fyrir ári, með áherslu á þá staðreynd að nýjir eiginleikar geta orðið til í þróun. Hún felur ekki bara í sér breytingar á núverandi eiginleikum, heldur geta nýjungar orðið til vegna mjög einfaldra breytinga á genum. Í þessu tilfelli þróaðist hæfileikinn til að nýta sítrat, efni sem venjulegar kólibakteríur hafa ekkert í að sækja.

Reyndar er ég ekki alveg sammála orðalaginu (þýðingunum) hjá vísindum.is. t.d.

 Langlíf tilraun Lenski ...

ætti frekar að vera

Langtímatilraun Lenski...

Annað stirðbusalegt dæmi er

Gena stökkbreytingar í mennskri DNA afritun valda sumum krabbameinum. 

líklega er verið að segja að

Stökkbreytingar sem verða við eftirmyndun erfðaefnis (t.d hjá mönnum) getur leitt til krabbameina.

Vonandi tekst vísindum.is að sníða þessa agnúa af, og ná til fleiri lesenda.
 
Ítarefni

Jeffrey E. Barric o.fl. Genome evolution and adaptation in a long-term experiment with Escherichia coli 2009 Nature

Pistill okkar um tilraunir Richard Lenskis Í skrefum og stökkum 


Uppruni lífsins eftir viku

Eftir rétta viku, 3 október 2009, mun Guðmundur Eggertsson halda fyrirlestur um uppruna lífsins.

Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, það vottar innribygging þeirra, DNA, prótínmyndunarkerfi, og efnaskipti. En hvernig varð lífið til? Til að svara þeirri spurningu hafa verið settar fram mjög, mjög, mjög margar tilgátur. Vandamálið er að prófa tilgáturnar, þær þurfa að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að framkvæma tilraunir eða gera athuganir til að sannreyna þær (eða hrekja!).

LeitinAdUpprunaLifsGuðmundur mun fjalla um þessa stærstu spurningu líffræðinnar, og styðjast við að hluta bók sem hann gaf út árið 2008 (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi - Bjartur). Bókin hefur ekki fengið mikla umfjöllun hérlendis, þrátt fyrir að vera tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Atli Harðarson birti þó lofsamlega umsögn um bókina.

Sjá einnig grein Guðmundar í Náttúrufræðingnum, endurprentuð á Stjörnufræðivefnum.

Erindið verður kl 13:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, stofu 132 og er öllum opið, engin aðgangseyrir.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwins, sjá dagskránna á darwin.hi.is.


Klónaðir bananar

Velflestar bananaplöntur sem ræktaðar eru í heiminum hefur verið fjölgað með græðlingum, en ekki með fræi. Vísindamenn hafa lengi varað við hættunni af þessu, því slík einræktun veldur því að lítill breytileiki finnst í stofninum. Ef enginn breytileiki er til staðar þá er allur stofninn í hættu, ef pestir ná fótfestu.

Þess vegna eru það mjög alvarlegar fréttir að tvær plágur herji nú á bananaekrur í Afríku. Erfðabreytileiki er ekki bara áhugamál þróunarfræðinga og vistfræðinga, heldur lífsnauðsynleg auðlind.

Ítarefni:

Banana diseases hit African crops  Thursday, 27 August 2009

Lack of Sex Life Threatens Banana Crops Steve Conner The Independent July 27, 2001 (af vef national geograpic)


mbl.is Bananauppskera í Afríku í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Hið týnda arfgengi flókinna sjúkdóma

Eins og áður hefur komið fram mun Montgomery Slatkin halda erindi í næstu viku um erfðamengi Neanderthalsmannsins. Sá fyrirlestur verður mánudaginn 6 júlí 2009, kl 132.

Monty mun einnig halda erindi daginn eftir á sama stað og tíma, um hið týnda arfgengi algengra sjúkdóma. Sá fyrirlestur er í boði stofnerfðafræðistofu Háskóla Íslands, sem Einar Árnason leiðir.

Margir sjúkdómar eru algengir og sýna marktækt arfgengi. Samt hefur gengið erfiðlega að finna erfðaþætti sem útskýra arfgengi slíkra sjúkdóma. Hæð er með hátt arfgengi en samt útskýra þau rúmlega 30 gen sem fundist hafa bara lítinn hluta arfgengisins.

Nokkrir möguleikar gætu útskýrt þessa staðreynd. Einn er sá að mjög, mjög, mjög mörg gen liggi að baki hverjum eiginleika, hvert með ákaflega veik áhrif. Annar er sá að mörg gen, með misjafnlega sterk áhrif liggi að baki arfgengi eiginleika. Sá þriðji er að óbeinir þættir, t.d. sameiginlegir umhverfisþættir, móðuráhrif eða sviperfðir valdi því að við ofmetum arfgengi sjúkdóma.

Ég held að Monty muni fjalla um sviperfðalíkanið í erindinu þriðjudaginn 7 júlí. 

Samanber grein hans í Genetics, Epigenetic Inheritance and the Missing Heritability Problem 2009.


Hraðari þróun í hitabeltinu

Fjölbreytileiki lífvera er meiri eftir því sem nær dregur miðbaug. Íslenskir ferðamenn kannast við að rekast á margskonar framandi form dýra og plantna þegar þeir halda suður á bóginn. Tegundafátækt norðurhjarans er alþekkt, þótt reyndar megi oft finna mörg afbrigði sömu tegundar er heildarfjöldi tegunda mun lægri þegar við fjarlægumst miðbaug.

Vistfræðingar hafa löngum velt fyrir sér orsökum þessa lögmáls, sem stundum er kennt við Von Humboldt. Tvennt af því sem nefnt hefur verið sem líklegar orsakir er hiti og fjöldi kynslóða. Vandamálið er þetta tvennt helst í hendur, á suðrænum slóðum er heitt og dýr komast í gegnum fleiri kynslóðir á ári en á norðurhjara.

Til að skilja á milli þessara þátta notuðu Gillman og félagar pör náskyldra tegunda, þar sem önnur tegundin lifir í hitabeltinu en hin í því tempraða. Þeir báru saman 130 slík tegunda pör, og athuguðu hversu hratt genin í þeim þróuðust. Til að staðla þetta enn frekar skoðuðu þeir sama genið, cytochrome b sem er skráir fyrir lykilhluta hvatberans.

Niðurstöðurnar eru afgerandi, genin þróast hraðar í þeim tegundum sem búa við hærra hitastig.

Reyndar eru ekki allir fyllilega sannfærðir um að fjöldi kynslóða geti ekki útskýrt munin (sjá umfjöllun í Science), en það þarf nákvæmari rannsóknir á þeim tegundum sem notaðar voru í rannsókninni til að skera úr um það.

Spurningin sem eftir situr er hvort að áhrifin séu vegna hitastigs eingöngu, eða hvort að um kapphlaup milli tegunda sé að ræða? Einskonar samþróun í anda Rauðu drottningar Van Valens?

Frumheimild: Latitude, elevation and the tempo of molecular evolution in mammals, Len N. Gillman, D. Jeanette Keeling, Howard A. Ross, Shane D. Wright, 2009 Proceedings of the Royal Society B

Evolution faster when it's warmer eftir Victoriu Gill, 24 júní 2009

Evolution Heats Up in the Tropics eftir Michael Price ScienceNOW 25 júní 2009

Um lögmál Von Humbolts

Ecology's oldest pattern? Bradford A. Hawkins Trends in Ecology & Evolution
Volume 16, Issue 8, 1 August 2001, Page 470

 


Erfðabreyttar kýr

Með hefðbundnum kynbótum og ræktunarstarfi hafa hin fornu kúakyn tekið stórkostlegum breytingum á síðustu öldum. Íslenska kýrin er ósköp smá í sniðinu og að upplagi álitin keimlík nautgripum sem haldið var til haga af evrópskum og skandinavískum forfeðrum okkar. Mörg kúakyn í Evrópu og Norður Ameríku eru orðin tröllaukin að stærð, með mikla framleiðslu og meltingargetu.

Aukaafurð meltingar nautgripa er metangas sem er ein af gróðurhúsalofttegundunum. Af þessum ástæðum hafa vísindamenn litið til þess að minnka útblástur slíkra lofttegunda með því að draga úr "ropi" kúa. Atli Steinn Guðmundsson skrifar um þessi mál á vísir.is, undir fyrirsögninni "Rækta kýr sem ropa minna". Atli finnur oft forvitnileg efni til að kynna á Bylgjunni og vísi.is (dæmi), en stundum ber ónákvæmnin hann ofurliði.

Vitnað er í Stephen Moore sem vill finna hvernig hægt sé að rækta kýr sem ropa minna, með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því miður er umfjöllun visir.is ekki nægilega nákvæm:

Stephen Moore, prófessor við Alberta-háskólann í Edmonton, rannsakar nú hvaða gen í kúm hafa mesta þýðingu við metanframleiðslu þeirra og benda frumniðurstöður til þess að hægt sé að hanna kýr sem framleiða fjórðungi minna metangas en nú þekkist. [feitletrun AP]

Það eru örverur í iðrum kúnna sem framleiða metangasið. Vitanlega er mögulegt að finna gen sem tengjast viðkomu og fjölbreytileika baktería í iðrum kýrinnar, og velja fyrir þeim kúm sem losa minna metan. Það er misvísandi að segja að við getum "hannað" dýr. Við getum í besta falli valið fyrir þeim eiginleikum sem okkur líst best á, og kannski valið beint fyrir ákveðnum genum sem okkur grunar að hafi með metanlosun að gera.

Moore virðist gera sér fyllilega grein fyrir þeim möguleika að samdráttur í losun metans geti dregið úr nyt kúnna. Örverurnar brjóta niður grasið og gera næringu þess aðgengilega fyrir kúna, og ef það dregur úr virkni örvera er líklegt að nytin falli einnig. Orðalag fréttar visir.is er aftur óþarflega ónákvæmt:

...hafa verði til hliðsjónar hver langtímaáhrif alls erfðafikts verði á kýrnar og getu þeirra til framleiðslu mjólkur. [feitletrun AP]

Orðið erfðafikt er litað af ákveðnum fordómum um eðli ræktunar og búvísinda, sjá pistil. Fikt er oft notað þegar rætt er tilraunir og ræktun á erfðabreyttum lífverum. Ég er ekki einu sinni viss um að Moore hafi stungið upp á markvissum erfðabreytingum til að breyta eiginleikum mjólkurkúnna.

Markvissar erfðabreytingar virðast ekki vera nein galdralausn í ræktun nytjaplantna eða húsdýra. Eugene Eisen prófessor í dýrakynbótum við NCSU vann með stofn af músum, þar sem sumar mýsnar baru auka gen fyrir ákveðinn vaxtarþátt (hluti stofnsins var erfðabreyttur á markvissan hátt). Hann valdi fyrir auknum vexti í músastofninum, en tíðni auka vaxtarþáttar-gensins jókst ekki. Það þýðir að áhrif gensins hafi verið í besta falli lítil, og að aðrir erfðaþættir í músastofninum hafi skipt meira máli fyrir svörun stofnsins við valinu.

Markvissar erfðabreytingar geta verið hagnýtar en ég tel líklegt að kynbætur framtíðarinnar muni byggja á klassískum grunni, þar sem reynt verður að hagnýta erfðabreytileika náttúrulegra stofna.


Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Umræða um erfðabreyttar lífverur hefur tekið mikinn kipp á síðasta mánuði, i kjölfar beiðni ORF líftækni um að fá að rækta utandyra hérlendis erfðabreytt bygg. 

Ræktun nytjaplantna með markvissum erfðabreytingum er ekki í eðli sínu frábrugðin hefðbundinni ræktun, eða jafnvel venjulegri þróun.

Kári Stefánsson minntist á þetta í samtali við Leif Hauksson í þættinum samfélag í nærmynd (þriðjudaginn 9 júní 2009); líkurnar á að markvissar erfðabreytingar geti skapað skrímsli séu í raun hverfandi. Ef það væri auðvelt að búa til skrímsli með erfðabreytingum, þá hefði það örugglega gerst á síðasta einum milljarði ára. En þekking okkar á þróunarsögunni sýnir að slík skrímsli hafa aldrei orðið til.

Kristín Vala Ragnarsdóttir benti á að aukin ræktun  erfðabreyttra plantna í Bandaríkjunum helst í hendur við hrun í býflugnastofninum, og staðhæfði að um orsakasamband væri að ræða (án þess að geta heimilda, því þær eru engar!). Eins og Ólafur Andrésson og félagar benda á er ekki um orsakasamband að ræða. Kári útskýrir þetta ágætlega með líkingu: byggræktun hefur aukist á Íslandi á síðustu árum, á meðan fjöldi framsóknarmanna hefur minnkað. Það dettur engum í hug að halda að byggið hafi étið framsóknarmennina! Margar þættir sýna fylgni, og ef við kíkjum á Bandaríkin, þá er líklegt að marg annað sýni fylgni við samdrátt í fjölda býflugna, fylgi demókrata eða farsímanotkun. Hér er óttinn að trompa sannleikann.

Krafa fólks er um meiri upplýsingar og umræðu. Því miður hefur umræðan verið örlítið öfgakennd, og þegar fullyrðingar hafa verið hraktar, er slengt fram tilfinningalegum rökum eða vísunum í mismunandi lagaumhverfi (sjá til dæmis samskipti Katrínar Önnu Guðmundsdóttur og Magnúsar Karls Magnússonar, á bloggsíðu Katrínar).

Upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar. Nefnd fagaðilla fór yfir umsókn ORF líftækni og skilaði sínu áliti, sem er aðgengilegt öllum á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Tveir af nefndarmönnunum rituðu í síðustu viku grein í morgunblaðið (fimmtudaginn 11 júní 2009) sem tekur á nokkrum þeirra athugsemda sem fram hafa komið. Fyrirsögn greinar Evu Benediktsdóttur og Snorra Baldurssonar er sú sama og þessarar færslu "Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað".

Í grein sinni ræða Eva og Snorri einnig þá nálgun andstæðinga erfðbreyttra lífvera, að slá um sig með misvísandi staðhæfingum og glannalegu orðalagi, sem er í raun bara hræðsluáróður (sbr. færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttir Óþverri á heimsmælikvarða).

Grein þeirra Evu og Snorra er endurprentuð hér í heild sinni, með góðfúslegu leyfi höfunda.

Nú liggur fyrir umsókn frá líftæknifyrirtækinu ORF um tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi á sérstökum tilraunaakri í Gunnarsholti. Plöntunum hefur verið erfðabreytt þannig að þær framleiða græðisprótín eða vaxtarþætti úr mönnum í fræjum sínum. Nokkur umræða hefur verið um þessa umsókn undanfarið og er það af hinu góða. Til þess að slík umræða geti orðið grundvöllur upplýstrar skoðanamyndunar er mikilvægt að umræðan byggist á þekkingu, en ekki ranghugmyndum, misskilningi eða fordómum. Eðlilegt er að margir hafi áhyggjur af hinu óþekkta og í þessari umræðu hafa verið settar fram nokkrar fullyrðingar sem mikilvægt er að upplýsa um og skýra frekar.

1. Fullyrt hefur verið að lítið eða ekkert umhverfisáhættumat hafi verið gert varðandi umsókn ORF.

Áhættumat er skylda samkvæmt lögum og stór liður í umsókninni. Uppbyggingu þess má sjá á umsóknareyðublaði sem fyrir liggur hjá Umhverfisstofnun. Í umsókninni er áhættumatið vandlega útfyllt af umsóknaraðilum og yfirfarið af umsagnar- og matsaðilum.

2. Fullyrt er að erfðabreytta byggið geti æxlast við plöntur í náttúru Íslands, t.d. melgresi.

 Í fyrsta lagi er bygg sjálffrjóvga og dreifir ekki frjókornum nema í afar litlum mæli. Í öðru lagi á ræktað bygg enga nána ættingja í íslensku flórunni sem það gæti hugsanlega æxlast við. Undan ræktuðu byggi og melgresi er ekki hugsanlegt að kæmu frjóir afkomendur.

3. Fullyrt er að erfðabreytt bygg geti breyst í ágenga plöntu, sbr. spánarkerfil og lúpínu, sem geri innrás í íslenska náttúru.

Þetta er óhugsandi. Bygg er einær planta sem hefur verið í ræktun hér á landi með hléum frá landnámsöld og hefur aldrei slæðst úr ræktun. Mannaprótín í fræjum erfðabreytta byggsins gerir það á engan hátt hæfara til að vaxa í villtri náttúru.

4. Því er haldið fram að erfðavísarnir og prótínin sem um ræðir mengi jarðveg á tilraunastaðnum og safnist þar fyrir í jörðu líkt og þrávirk eiturefni eða þungmálmar.

Þetta er fráleitt. Erfðavísar (gen) og prótín eru flóknar stórsameindir byggðar upp af kirnum og amínósýrum. Þessi lífrænu efni rotna jafnt og allir aðrir hlutar lífvera. Örverur sjá um að brjóta niður plöntuleifar í jarðvegi, jafnt leifar erfðabreyttra plantna sem annarra. Erfðavísar og prótín eru í allri fæðu sem við innbyrðum og þeim er sundrað í grunneiningar sínar í meltingarvegi manna og dýra.

5. Áhyggjur eru uppi vegna fugla, smádýra og örveruflóru jarðvegs á tilraunastað.

Mest af plöntuleifum verður fjarlægt, gera má þó ráð fyrir að örlítið verði eftir á tilraunaakrinum og verði fæða smádýra og fugla. Óhugsandi er að þeim geti orðið meint af. Þau prótín sem framleidd eru í fræhvítu byggplöntunnar eru ekki virk fyrr en búið er að meðhöndla þau á rannsóknarstofu. Svipuð eða sömu prótein finnast í hræjum, kjöti og mjólk.

Í þessari umræðu hafa andstæðingar erfðabreyttra lífvera því miður notað orðalag sem ætlað er að sá tortryggni og hræða. Sem dæmi má nefna að slegið er fram spurningum varðandi eiginleika og áhrif hinnar erfðabreyttu lífveru án þess að leitað sé svars, en það er vel þekkt áróðursleið. Sagt er að vistkerfin eða lífveran „fari úr böndunum" og að erfðafræðingar „möndli" og „fikti" með erfðaefnið. Versta dæmið er líklega þegar matvörur, unnar úr erfðabreyttum lífverum, eru kallaðar „Frankenstein food". Svona málflutningi er ekki ætlað að upplýsa fólk, heldur að hræða það með óvönduðum áróðursbrellum.

Það sem virðist valda mestum ótta varðandi fyrirhugaða ræktun á byggi er að ætlunin er að framleiða mannaprótín. Mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir hve stór þáttur erfðatækni er nú þegar í nútíma samfélagi og hversu  mikilvæg hún er í framleiðslu lyfja og fyrir rannsóknir og framfarir í líf- og heilbrigðisvísindum.

Margir alvarlegir sjúkdómar manna orsakast af því að líkaminn framleiðir ekki nægilega mikið af lífsnauðsynlegum prótínum. Gott dæmi er sykursýki, sem stafar af skorti á insúlíni. Eina ásættanlega leiðin til að framleiða sérvirk mannaprótín er að flytja erfðavísa úr mönnum í aðra lífveru. Áður en erfðatækni kom til sögunnar var insúlín einangrað úr brisi svína og nautgripa og það var með dýrustu lyfjum. Í meir en tvo áratugi hefur raunverulegt manna-insúlín hins vegar verið framleitt af erfðabreyttum örverum sem innihalda erfðavísi úr mönnum. Nýlega hefur kanadískt líftæknifyrirtæki hafið tilraunaframleiðslu á insúlíni í erfðabreyttum plöntum og standa vonir til að hægt verði að lækka verðið umtalsvert og gera insúlín aðgengilegt öllum sem á þurfa að halda. Fjölmörg önnur lífefni og sérvirk lyf fyrir menn er einungis hægt að framleiða í lifandi erfðabreyttum frumum.

Erfðatækni má vissulega nota í misjöfnum tilgangi eins og alla aðra tækni. Það eru engir betur meðvitaðir um það en sameindalíffræðingar og náttúrufræðingar sem hafa tekið þátt í því frá upphafi að móta lög og reglur um erfðabreyttar lífverur. Löggjafinn hér á landi og í Evrópu hefur tekið þá afstöðu að dæma hverja umsókn fyrir sig faglega og hefur það verið gert í þessu tilfelli.

 


mbl.is Íslensk líftækni seld til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snákadoktorinn

Frétt þessi er ekki nægilega vel unninn. Vinsamlegast lesið úttekt Baldvins Einarssonar og athugaemdir lesanda hans (þið munið reyndar sjá frumdrög þessara færslu þar líka).

Fréttin gæti verið dæmi um það hvernig forvitnilegum tíðindum er hvíslað í gegnum of mörg eyru. Upprunalega sagan virðist vera á huldu.

Rótin er samt grein í PNAS fyrr í mánuðinum um "eitur í komodo drekum" (hugmyndin um hættulegar bakteríur er samt alls ekki galin). Fyrsti höfundur er Bryan Fry við háskólann í Melborne, eiturdoktor eins og hann kallar sig (http://www.venomdoc.com/). Hann byrjaði á að draga í efa viðtekna þekkingu, að felstar eðlur gætu ekki myndað eitur. Hann hefur sýnt að eiturkirtlar eru mjög útbreiddir í hópi eðla og snáka, og að sumar lífverurnar mynda hægdrepandi eitur (eða sem sljóvga einungis bráð eða rándýr).

Bryan%26StonefishMyndin er af síðu Bryan Fry (http://www.venomdoc.com/).

Nálgun hans er bæði að rýna í erfðamengi lífveranna og finna genin sem skrá fyrir eiturprótínunum. Hann skoðar einnig bein og vefi höfuðsins. Þannig sýndi hann fram á að vissir hópar eðla eru með eiturkirtla og að í eldri lýsingum hafi fólk hreinlega ekki teiknað dýrin upp nægilega nákvæmlega. 

Ég sá hann flytja erindi einu sinni, og ég hefði getað svarið að mörkin milli vísindalegs fyrirlesturs og dýrasirkus voru orðin ansi óljós. Einn alskemmtilegasti fyrirlestur sem ég hef nokkurn tímann séð. Fyrir kvenfólkið var þetta mjög örvandi erindi, glansandi skalli, opin flaksandi skyrta og glitrandi snákahálsmen...gvöð.


mbl.is Drekaeðlur ráðast á fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband