Leita í fréttum mbl.is

Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs

Frá Lífvísindasetri Háskóla Íslands.
Efni: 150. Löggjafarþing 2019-2020 - Þingskjal 1 – 1. mál


Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020

Lífvísindasetur Háskóla Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við óbreytt framlög til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs frá árinu 2016 sem tilheyra málaflokki 07.10 um Vísinda- og samkeppnissjóði í rannsóknum. Í þessari umsögn gerum við málaflokki 02-236 um Rannsóknasjóð Vísinda- og tækniráðs sérstaklega skil.

Fjárframlög til Rannsóknasjóðs voru 2470 m.kr. árið 2016 og hafa haldist óbreytt á milli ára en nú ber svo við að í núverandi frumvarpi er gert ráð fyrir 2425 m.kr. sem er 45 m.kr. skerðing frá fyrra ári. Framlög til sjóðanna hafa hvorki fylgt launa- né  verðlagsþróun frá árinu 2016, en frá byrjun árs 2016 til ágúst í ár hefur  launavísitalan hækkað um 27% (farið úr 545 í 691,5) en styrkir sjóðsins fara að mestu í launagreiðslur. Miðað við núverandi frumvarp munu árleg framlög ríkisins til rammaáætlunar ESB hækka um 117% frá 2016 (úr 1800 í 3900 m.kr.). Til þess að  samkeppnisstaða Íslands sé ásættanleg gagnvart sjóðum ESB og mögulegt sé að ná aftur fjármagni þaðan þarf grunnfjárfesting í rannsóknum á Íslandi að haldast hlutfallslega í hendur við fjármögnun til ESB. Takmörkuð framlög til Rannsóknarsjóðs draga mjög úr grunnrannsóknum í lífvísindum og hafa bein áhrif á nýsköpun og atvinnulífið.


Eðlilegt er talið að árangurshlutfall úr samkeppnissjóðum á borð við Rannsóknasjóð haldist að lágmarki 25% en árið 2016 var árangurshlutfallið 25%. Það þýðir í raun að vísindamenn geti að meðaltali átt von á því að fjármagna rannsóknir sínar á fjögurra ára fresti og þannig nánast haldið samfellu í vinnu sinni, en þessir styrkir eru að jafnaði veittir í 3 ár í senn. Árangurshlutfall Rannsóknasjóðs hefur lækkað stöðugt á síðustu árum eða frá því að vera 25% árið 2016 og niður í 17% á síðast ári. Miðað við núverandi frumvarp og ásókn í sjóðinn má gera ráð fyrir að árangurshlutfallið fari niður fyrir 15% við næstu úthlutun sem er algjörlega óásættanlegt.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ályktaði í nefndaráliti sínu vegna lagafrumvarps um útvíkkun Rannsóknasjóðs á síðasta löggjafarþingi (Þingskjal 1291 – 411. mál) um „nauðsyn þess að tryggja meira fjármagn í Rannsóknasjóð og tryggja að árangurshlutfall sjóðsins verði að lágmarki 25% ef samfjármögnun rannsóknarverkefna eigi ekki að hafa mögulega neikvæð áhrif á vísindastarf hér á landi“.


Ef tryggja á að Rannsóknasjóður haldi 25% árangurshlutfalli eins og að er stefnt og að styrkir sjóðsins haldi í við launaþróun frá árinu 2016 þurfa fjárframlög til sjóðsins að vera að lágmarki 5.200 m.kr. sem er 114% aukning frá árinu 2016 og í takt við fjármagnsaukningu í rammaáætlun ESB. Til þess að tryggja nýsköpun í landinu og til að ná aftur fjármagni úr sjóðum ESB er grunnforsenda að styrkja stoðir samkeppnissjóðanna hér á landi.

Lífvísindasetur Háskóla Íslands skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Það verður heillaspor og mun efla grunnrannsóknir sem skilar sér í bættri þekkingu á eðli lífvera, sjúkdóma og vistkerfa auk þess að efla vísindalega menntun sem er ein forsenda nýsköpunar og framþróunar í íslensku atvinnulífi.

Virðingarfyllst,
fyrir hönd stjórnar og félaga í Lífvísindasetri Háskóla Íslands,


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hver gæti verið brýnasta SPURNINGIN sem að þetta vísindasetur vantar svör við tengt lausninni á lífsgátunni? 

Jón Þórhallsson, 16.10.2019 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband