Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Frá Kalahari út á sléttuna miklu

Þessar vikurnar erum við blessuð með náttúrulífsþáttum BBC á mánudagskvöldum. RÚV hefur alltaf sett fræðandi efni á oddinn, og þessi sería um Afríku er hreinasta yndi.

Í síðustu viku kynntumst við undrum Kalahari eyðimarkarinnar. Mér fannst alveg magnað upphafsatriðið, þegar flogið er inn yfir hrjóstrugt landið, sem er stráð merkilega reglulegum sandhringjum. Mynstrið minnir reyndar smá á feld blettatígurs eða hýenu, en orsakirnar eru enn á huldu.

Ekki síður stórbrotin voru myndskeið af Spitzkoppe fjallinu eða átökum gíraffatarfanna.

Í uppáhaldi hjá mér var athugunin á lífríki geysistórs neðanjarðarvatns sem fannst undir eyðimörkinni. Þetta minnti dálítið á vísindaskáldskap frá miðbiki síðustu aldar, þar sem Tarzan og félagar lentu kannski í týndum dal fullum af furðuverum og mannskrímslum. Líklega hefði Tarzan haft í fullu tré við Gullgrana í neðanjarðarhellinum, en skáldskapurinn veitir þessari ævintýraveröld enga keppni.

Í kvöld verður þáttur um Afrísku slétturnar, líklega Serengeti að einhverju leyti. Þar sem stórar hjarðir villidýra ferðast um gríðarstórt svæði í leit að fæðu og vatni. Jarðfræði svæðisins er einnig mögnuð, en lífríkið er í mikilli hættu vegna veiðiþjófa og ágangs mannsins.

http://www.bbc.co.uk/programmes/p010jc6p/episodes/guide


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband