Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Húmbúkk á eyjunni

Eftir lestur á Stjörnufræðivefnum rakst ég á Húmbúkk sem er hýst á Eyjunni. Síðunni er haldið úti af hópi og er Þórður Örn Arnarson ritstjóri (viðtal við hann í vísindaþættinum- 17 mars 2009). Markmiðið er að spyrna gegn hindurvitnum, hjátrú, gervivísindum og rökleysum um læknis og sálfræðileg málefni. Það er mikil þörf á slíkri síðu og vonandi lesa hana sem flestir.

Ég naut sérstaklega úttektar um staðfestingarvilluna (hljómar skelfilega en fólk stundar þetta óspart, til að réttlæta slæma siði, það að kjósa framsókn (sami hlutur) og sínar djúpt greyptu skoðanir), sagan af Gunnlaugi getspaka verður lengi í minnum höfð.

Ég bíð eftir því að Húmbúkk taki fyrir froðusnakkið sem er the secret. Þeir sem ekki nenna að bíða geta lesið úttekt Benjamin Radford á Livescience.com - Bad secret.

Tvær örlitlar aðfinnslur. Mér finnst Húmbúkk hræðilegt nafn á síðu, hefði ekki verið hægt að kalla hana sannlaukinn, móteitrið, efasetrið, andsvarið, rök gegn kukli eða Aragata (sem er snöggtum læsilegra og hljómfegurra). Að auki er síðan réttlætt með því að í kreppunni muni fólk frekar leita i kukl og hjátrú. Það er öllum hollt að kynnast eðli vísinda og fræða, húmbúkk er ekki bara fyrir hina örvæntingafullu og leitandi hún er einnig holl forvitnum, fróðum og læsum.


Rannsóknir á Mars

Það eru meira en 100 ár síðan þorri fólks trúði því að líf væri á Mars. Merkir stjarnfræðingar voru þessara skoðunar, en þegar leið á tuttugustu öldina fjaraði undan þessari tilgátu.

En hugmyndin um líf á Mars er engu að síður lífseyg, og geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA gerir út á að halda þeirri hugmynd að fólki (sjá fyrri færslu). Einn af aðalvísindamönnum NASA á þessu sviði Dr. David Des Marais mun halda erindi hérlendis á morgun, 8 apríl.  Erindið heitir  Exploring Mars for Evidence of Habitable Environments and Life og hefst klukkan 14:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Erindið er vitanlega öllum opið og ég hvet fólk til að koma og fræðast um rauðu plánetuna, þótt ólíklegt sé að myndir verði sýndar af meintum íbúum hennar.


Vélmenni prófar vísindalegar tilgátur

Félagi minn í menntaskóla sagði mér einu sinni frá smásögu (ég man ekki hvern!) um veröld framtíðarinnar, þar sem tölvur og vélmenni sjá um alla útreikninga. Enginn kann lengur að reikna, hvað þá leysa jöfnur. Síðan (endur)uppgötvar einhver aðferðir til útreikninga, og það sem áður var gleymt lifnar aftur við.

Ástæðan fyrir því að þessi saga rifjaðist upp fyrir mér er tveimur greinum í tímaritinu Science í síðustu viku,

Í þeirri grein er lýst þróun vélmenna til að búa til og prófa vísindalegar tilgátur. Eitt forritið tók inn gögn og spáði fyrir um lögmál Newtons. Vélmennið ADAM var matað á frumgögnum um líffræði gersveppsins og gat búið til tilgátur um starfsemi gena sem áður höfðu ekki verið rannsökuð. Adam býr einnig yfir tækjum til að rækta sveppi og skoða vöxt þeirra, sem hann notaði til að prófa tilgátur sínar.

Við lítum oft á vísindi sem eitt af þeim eiginleikum (ásamt t.d. skopskyni, tónlistargáfu og almennri sköpunaráráttu) sem skilja okkur frá dýrunum. En hér höfum við hannað vél sem getur búið til tilgátur, hannað tilraunir og lesið úr niðurstöðum.

Fréttin um þessi vélmenni birtist 2 apríl, og verður að viðurkennast ég hélt að um gabb væri að ræða. Eftir að hafa lesið mér til og kíkt á birtingalista viðkomandi höfunda þá er ég sannfærður um að svo sé ekki.

Vissulega eru slík apparöt takmörkuð og mannskepnurnar hafa enn eitthvað í vísindum að gera. En þetta er einnig áminning til okkar sem vísindafólks, við verðum að hafa vit á því að velja viðfangsefni sem eru virkilega djúp og krefjandi. Sumar spurningar sem við rannsökum eru í raun verkefni fyrir vélmennin Adam og Evu.

Umfjöllun fréttamiðla:

Victoria Gill ritar á síðu BBC Robo-scientist's first findings

Ian Sample setur saman mjög áleitinn texta í the Guardian 'Eureka machine' puts scientists in the shade by working out laws of nature 2  Apríl 2009

Frumheimildir:

Michael Schmidt og Hod Lipson, Distilling Free-Form Natural Laws from Experimental Data Science 3 April 2009: 81-85.

Ross D. King og 12 félagar, The Automation of Science, Science 3 April 2009: 85 - 89.

 

 

 

 


Endurnýjun hjartans

Það er almennur sannleikur að hjartað er viðkvæmt fyrir skemmdum og flestir telja að hjartavöðvafrumur geti ekki skipt sér og endurnýjað þennan lífsnauðsynlega vef.

Í ljós kemur að flestir hafa rangt fyrir sér, þar sem rannsókn leidd af Dr. Jonas Frisen við Karólinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi sýnir að hjartað endurnýjast. En það gerist mjög hægt. Samkvæmt niðurstöðum og líkönum þeirra endurnýjast um eitt prósent vöðvafruma hjartans árlega í 25 ára einstaklingum, en síðan hægir á. Í 75 ára einstaklingum endurnýjast um hálf prósent hjartafruma árlega.heart_Science_review

Mynd af vef Science MARK ALBERHASKY/ALAMY

Nicolas Wade gerir þessum rannsóknum dásamlega skil í föstudagsblaði NY Times, undir fyrirsögninni Heart Muscle Renewed Over Lifetime, Study Finds.

Niðurstaðan er mjög athyglisverð, og gefur okkur betri sýn á hjartað og þær skemmdir sem það verður fyrir. Það er sérstaklega mikilvægt að átta sig á því að hjartað býr yfir endurnýjunarmætti, en að sá máttur er takmarkaður.

Að auki verðum við að geta aðferðarinnar sem Frisen og samstarfsmenn beittu. Venjulega er hægt að skoða endurnýjun í vefjum með því að gefa tilraunadýrum geislamerkta basa, sem innlimast í erfðaefni þegar frumur eftirmynda erfðaefni sitt í aðdraganda skiptingar. Slíkar tilraunir er vitanlega ekki hægt að gera í mannfólki. Frisen og félagar nýttu sér þá staðreynd að kjarnorkutilraunir framkvæmdar á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar, voru í raun "náttúrulega manngerð" geislamerkingar tilraun. Með því að skoða hlutfall geislavirks kolefnis í erfðaefni hjartavöðva einstaklinga sem fæddir voru fyrir, meðan og eftir að kjarnorkutilraunirnar fóru fram tókst þeim að sýna fram á endurnýjun hjartafrumanna. 

Frumheimildin lýsir þessu í smáatriðum, sérstaklega hvernig hópurinn þurfti að flokka frumur eftir gerðum og DNA magni (25% hjartafruma tvöfalda nefnilega erfðaefni sitt en skipta sér ekki).

Frumheimild

 

Evidence for Cardiomyocyte Renewal in Humans Olaf Bergmann et al Science 3 April 2009: Vol. 324. no. 5923, pp. 98 - 102

Ítarefni

DEVELOPMENT BIOLOGY: Turnover After the Fallout eftir Charles E. Murry and Richard T. Lee Science 3 April 2009: Vol. 324. no. 5923, pp. 47 - 48


Vísindaárið 2009

Eins og komið hefur fram er árinu 2009 fagnað af líffræðingum um allan heim, sem minnast þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár frá útgáfu bókar hans um uppruna tegundanna.

Í ár er einnig fagnað á alþjóðelga vísu ári stjörnufræðinnar, m.a. vegna þess að 400 ár eru liðin síðan Galileo Galilei hóf rannsóknir á himingeimnum með stjörnusjónauka sem verkfæri og að Jóhannes Kepler gaf út tímamóta bók um stjörnurannsóknir. Ári stjörnufræðinnar eru gerð góð skil á vefnum www.2009.is, og einnig af umsjónarmönnum www.stjornuskodun.is/ sem halda einnig út samnefndri blogsíðu (stjornuskodun.blog.is). 

Okkar síða er helguð líffræði og læknisfræði sem mótast af áhuga okkar og bakgrunni, en ég skora á áhugafólk um vísindi að stoppa reglulega við á fyrrnefndum síðum sér til fróðleiks.

Til að mynda verður haldinn fyrirlestur laugardaginn 4 apríl um heimsfræðina, sögu heimsins og uppruna. Erindið flytur Lárus Thorlacius, sem starfar við Raunvísindadeild HÍ og Nordita kjarnan í Stokkhólmi. Erindið er hluti af fyrirlestraröð sem kallast Undur veraldar: undur alheimsins og fer fram klukkan 14:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Sama dag mun Eyja Margrét Brynjarsdóttir halda fyrirlestur um Thomas Kuhn. Sá fyrirlestur hefst kl 13:00 og er því möguleiki á að ná þeim báðum ef vel er á spilunum haldið og skór kyrfilega reyrðir um fætur.


Mogginn gleypti gabbið

sem kannski segir okkur eitthvað um það hvernig fréttir eru unnar á miðlinum.

Þetta var aprílgabb the Telegraph, sjá samantekt the Guardian.


mbl.is Nefertiti í fegrunaraðgerðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband