Leita í fréttum mbl.is

Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Sigurður H. Magnússon flytja erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt Í DAG mánudaginn 28. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Ágrip af erindi:

„Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn Minna­Núp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar. Lítið var vitað um annan gróður í eynni. Áform eru um að stífla Þjórsá ofan Viðeyjar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Rennsli Þjórsár meðfram Viðey myndi minnka mjög mikið við virkjun og jafnframt sú vernd sem áin veitir eynni. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður­ og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast í eynni sjaldgæfar plöntutegundir? Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda­ og fræðslugildi eyjarinnar.“


Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.
 
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)

Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)


Ný hátæknismásjá vígð

Í gær var ný smásjá vígð og gangsett. Smásjáin er staðsett í Lífvísindasetri, sem er regnhlífarstofnun fyrir sérfræðinga sem stunda rannsóknir á sviði líffræði, sameindaerfðafræði og heilbrigðisvísinda, bæði utan og innan Háskóla Íslands. Aðillar á Landspítala, Háskólanum í Reykjavík, Landbúnaðarháskólanum og Blóðbankanum eru t.d. hluti af Lífvísindasetri.

Smásjáin var vígð af Illuga Gunnarsyni menntamálaráðherra og Kristínu Ingólfsdóttur rektor HÍ.

Úr tilkynningu frá HÍ.

Um er að ræða svokallaða confocal-smásjá af gerðinni Olympus FV1200. Confocal-smásjá býr yfir þeim eiginleikum að með leysigeislatækni er hægt að skoða staðsetningu prótína nákvæmlega í vefjum og frumum og byggja þrívíða mynd af því sem er að gerast, jafnvel í lifandi frumum. Þetta eykur rannsóknamöguleika Lífvísindaseturs til muna sem fyrr segir.

Tækið er mikil lyftistöng, og gerir íslenskum vísindamönnum kleift að stunda rannsóknar á örsmáum fyrirbærum innan frumna, og svara þannig bæði læknisfræðilegum og liffræðilegum spurningum.

Um er að ræða tugmilljóna tæki, og það þurfti sameinaðan slagkraft um tuttugu rannsóknarhópa til að sannfæra Rannsóknamiðstöð Íslands um að sniðugt væri að kaupa þetta tæki. Vinnan við undirbúning umsóknarinnar var mjög mikil og ekki síður við undirbúning útboðs, samningaviðræður og uppsetningu tækisins.

En það er ekki nóg að fá góðar græjur. Það þarf líka fé til að stunda rannsóknirnar. Því miður er alltof algengt hérlendis að styrkir fáist fyrir tækjakaupum, en engir fyrir viðhaldi eða að ráða sérfræðinga til að stjórna tækjunum. Blessunarlega hefur Lífvísindasetur fjármagn til að ráða tæknimann um 6 mánaða skeið, til að koma apparatinu á koppinn.

Og þó að ein smásjá sé sannarlega góð, þá er aðstaðan lífvísindafólks hérlendis skelfilega döpur miðað við bæði sæmilegar og góðar stofnanir erlendis. Við EMBL í Heidelberg sem telur um 400 manns, eru um 20 smásjár þ.a.m. 5 af svipuðum eða meiri gæðum en nýja tæki Lífvísindaseturs.

Vísindi eru iðkuð í samkeppni, um svörin við stærstu spurningum hvers tíma. Íslenskir vísindamenn vilja keppa við þá bestu erlendis og vera fyrstir til að svara brennandi spurningum. Nýja smásjáin hjálpar þeim við það, en meira þarf að laga. Ef líkja mætti vísindum við knattspyrnu, þá fékk íslenska liðið frábær skópör, en þarf ennþá að æfa í mýrarfláka samhliða 80 tíma vinnuviku.

Ef þessi botn virkar of neikvæður, þá er það vegna þess að mér finnst of margir vera tilbúnir að taka jákvæðu punktanna og hundsa vandamálin. Vísindin byggja á að greina vandamál og svara þeim að heiðarleika. Það sama ætti að eiga við um vanda íslensks samfélags.


Íslenskir framhaldsnemar í Evrópu

Líffræðistofa HÍ stendur fyrir tveimur erindum í þessari viku. Bæði eru flutt af íslenskum doktorsnemum, sem starfa við hágæðastofnanir í Evrópu. Fyrst ber að nefna erindi Hákons Jónssonar , sem starfar við Kaupmannahafnarháskóla (22. apríl). Hákon er að...

Örfá villt dýr

Það er staðreynd að við mennirnir höfum gjörbreytt umhverfi jarðar. Teiknarinn XKCD setti þetta í samhengi, með því að teikna upp lífmassa landspendýra. Ef tekin er saman heildarþyngd allra landspendýra, þá eru menn uþb 25%. Húsdýrin okkar leggja til um...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband