Leita í fréttum mbl.is

Elsku sjónvarp, láttu mig hreyfa mig

Í fyrradag fékk ég að tala við svona sjónvarp. Ekki að plata, svona sjónvörp eru kominn til Íslands (á heimili mektarfólks og lukkunarpamfíla). Ég sagði "Volume down", svo sagði ég tölu milli 0 og 20, og hljóðið stillist sjálfkrafa. Það var líka með hreyfiskynjara, þannig að maður gat veifað hendinni og kallað fram valmynd. Líklega verður það mjög ruglað í stórri veislu, t.d. þegar margir er að dansa fyrir framan sjónvarpið (gerist það ekki í veislunum þínum?).

Ég veit ekki hvort öll fínheitin sem talin voru upp í tæknifrétt mbl.is, eigi við um þetta sjónvarp. Ég tek illa eftir nöfnum á raftækjum, en græjan er amk með þrívíddar eiginleikann og innbyggða tölvu fyrir vafr og þess háttar.

Annars hafa margir sagt að sjónvarpið væri orsök hreyfingarleysis og offitu meðal nútímamanna. Það væri náttúrulega frábært ef sjónvarpið gæti skipað manni fyrir. Heyrðu gosi, þú ert búinn að horfa á mig í 3 klst, ég slekk á mér núna, farðu í labbitúr.

Fyrr í vikunni las ég um tvær mjög forvitnilegar rannsóknir sem sýna fram á ágæti hreyfingar. 

Önnur, sýnir að hreyfing leiðir til aukins fjölda ákveðinna taugafruma í heilanum. Þessar taugafrumur espast auðveldlega, en hversu mótsagnarkennd sem það er, hjálpa einnig við að friða heilann til lengri tíma. Þannig getur regluleg hreyfing unnið gegn taugaveiklun, og veitt hugarró. Rannsóknin var reyndar gerð á músum, sem gerði þeim kleift að skoða þroskun heilans í músum sem fengu reglulega hreyfingu eða enga. Það er því ekki víst að það sama eigi við um mannfólk, en etv má meta tilgátuna á annan hátt.

Nýleg erfðafræðirannsókn á mannfólki sýndi hinsvegar að miklar æfingar gjörbreyta eiginleikum fituvefs. Þetta var sýnt með því að skoða tjáningu gena - og metýl merkingar í erfðamenginu - í fituvef fólks sem hafði stundað strangar æfingar í 6 mánuði. Mörg genanna sýndu breytta tjáningu, og sum þessara gena hafa einmitt verið tengd offitu og sykursýki. Hreyfingin getur því spornað gegn þessum sjúkdómum, jafnvel þótt að við sjáum ekki mikinn mun á viktinni.

Í stuttu máli þá getur hreyfing bæði breytt eiginleikum heilans og fært fituna okkar til betri vegar. Nú þurfum við bara sjónvarp sem getur skipað okkur (og músunum) að fara út að hlaupa...

Ítarefni:

GRETCHEN REYNOLDS NY Times Well: How Exercise Can Calm Anxiety

A Six Months Exercise Intervention Influences the Genome-wide DNA Methylation Pattern in Human Adipose Tissue Tina Rönn, Petr Volkov, Cajsa Davegårdh, Tasnim Dayeh, Elin Hall, Anders H. Olsson, Emma Nilsson, Åsa Tornberg, Marloes Dekker Nitert, Karl-Fredrik Eriksson, Helena A. Jones, Leif Groop, Charlotte Ling Research Article | published 27 Jun 2013 | PLOS Genetics 


mbl.is Hægt að skipa sjónvarpstækinu fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hross úr forneskju

Hesthaus á staur mætti göngumönnum á miðri heiðinni. Uggur fór um hópinn og þeir pískruðu sín á milli, "hvaða kraftar eru hér að verki?" Þokan skreið niður dalverpin og umlukti mennina, og vitið yfirgaf þá endanlega.

-----------------

Menn og hestar tengjast fornum og traustum böndum. Forfeður okkar beisluðu hross og þau eru meðal elstu og forvitnilegustu húsdýra mannsins. En hver er uppruni hestsins, eða ólíkra hestakynja? Hvenær greindust þeir frá öðrum hest-tegundum og ösnum? Eru Przewalski hestarnir náskyldir eða fjarskyldir nútíma hestum og eru þeir í hættu vegna kynblöndunar? genimage_ashx.jpg

Þessar spurningar voru viðfangsefni nýlegrar rannsóknar Ludovic Orlando við Háskólann í Kaupmannahöfn, og samstarfsmanna hans (um 40 manna hóps).

Til að svara þessum spurningum beittu þeir aðferðum stofnerfðafræðinnar. Þeir nýttu nýlega tækni, sem gerir fólki kleift að raðgreina heilu erfðamengi tegunda og einstaklinga. Að auki duttu þeir í lukkupottinn og náðu erfðaefni úr tveimur ævafornum hestsbeinum. Annað var um 42.000 ára bein, en hitt var 560.000–780.000 ára gamalt bein úr sífreranum í Yukon.

Þetta er nýtt met í raðgreiningu á beinum. Elstu nýtilegu gögn til þessa komu úr 70.000 ára gömlum efnivið. Að auki sýna gögnin að hestar aðskildust líklega frá öðrum hestategundum fyrir um 4 milljónum ára.

Mongólsku villihestarnir, kallaðir Przewalski hestar, eru náskyldasti hópur núlifandi hestanna okkar. Gögnin benda til aðskilnaðar fyrir um 40.000 árum, og gefa ekki til kynna að kynblöndun hafi átt sér stað á milli þeirra síðan.

En gögnin sýna líka hvaða erfðaþættir hafa breyst samfara því að menn tömdu hesta, og fóru að ala þá sem húsdýr. Upp á enskuna er talað um "domestication", en ég megna ekki að snara því orði almennilega. Niðurstöður Orlandos og félaga sýna hvaða erfðaþættir hafa mögulega tengst breytingum á eiginleikum hesta, frá villtu stóðdýri, til þeirra öflugu áhrifavalda sem hestar hafa verið í mannkynsögunni.

En þótt að genin opni okkur sýn aptur í forneskju, þá skulum við muna að erfðir eru ekki allt. Margir þeir eiginleikar sem prýða hross eru einmitt tilkomnir vegna dásamlegs atlætis, og persónulegrar þjálfurnar og samveru. Að því leyti eru hestar ekki ólíkir okkur, genamundurinn er ekki allt, það skiptir líka máli að fæðast inn í rétt samfélag eða fjölskyldur. Það getur skipt máli hvernig maður tekst við hinu óvænta, eins og níðstöng á miðri heiði.

Ítarefni:

Mynd eftir Halldór Pétursson af vefnum www.myndlist.is.

Fréttatilkynning Kaupmannahafnar háskóla A 700.000 year old horse gets its genome sequenced 26 Júní 2013

Ludovic Orlando, ofl. Recalibrating Equus evolution using the genome sequence of an early Middle Pleistocene horse Nature (2013) doi:10.1038/nature12323


Líffræðiráðstefnan 2013

Líffræðiráðstefnan 2013, verður haldin 8. og 9. nóvember í Háskóla Íslands. Ráðstefnan er opin þeim sem rannsaka, kenna eða hafa áhuga á líffræði. Auglýst verður eftir framlögum (erindum eða veggspjöldum) – frestur til að skila ágripum er 10....

Barn með þrjá foreldra

Við fáum tvö erfðamengi frá móður okkar. Eitt sett af litningum er í kjarna eggfrumunar og í hvatberum eggsins er einnig lítill litningur. Úr eldri pistli: Við erfum litninga bæði frá móður og föður. Að auki fáum við í umfrymi eggsins prótín, mRNA og það...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband