Leita í fréttum mbl.is

Gen frá mömmu, pabba og öllum hinum

Í helgarpistlinum "stökkbreyting írskra gena" veltir Jónas Haraldsson (17. feb. 2012, bls. 32) fyrir sér spurningum um uppruna íslendinga og mun á fegurð íra og íslendinga. Hann ber sérstaklega saman fegurð íslenskra kvenna og meintan ófrýnileik írskra karlmanna. Því næst tíundar Jónas uppl ýsingar um erfðafræðilegan uppruna íslendinga, sem honum finnst stangast á við dreifingu fegurðar í þessum hluta Evrópu. Jónas segir:

 

Þar kemur fram að um 60 prósent erfðaefnis Íslendinga er norrænt en um 40 prósent frá Bretlandseyjum. Hið skrýtna er samt að sömu mælingar segja okkur að um 80 prósent erfðaefnis íslenskra karla megi rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en um 20 prósent til Bretlandseyja.....

 

...Þegar þetta liggur fyrir hættir maður að skilja. Íslenskar skvísur, fegurðarviðmið víða um heim, eru meira eða minna írskar, upprunalega dætur ljótustu karla í heimi....

....Vill ekki einhver rannsaka það?

Erfðarannsóknir hafa sýnt að 4 af hverjum 5 íslenskum körlum er með Y litning ættaðan frá Noregi. Á sama hátt sýna rannsóknir að u.þ.b. 2 af hverjum 3 hvatberalitningum eru ættaðir frá Bretlandseyjum. Hvatberalitningar erfast eingöngu frá móður og Y litningar eingöngu frá feðrum til sona. En það sem vantar í umfjöllun Jónasar er afgangurinn af erfðaefninu, hinir 23 litningarnir sem bera í sér 98% DNA frumna okkar.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, þessi 98% erfðamengisins, öll hin genin og litningarnir erfast óháð kyni. Það þýðir að erfðasamsetningin stokkast upp í hverri kynslóð. Þannig að þessar írsku ófrynjur sem Jónas lætur sig dreyma um, voru fljótar að umbreytast þegar írsku og norsku genin stokkast saman á þeim fjörtíu kynslóðum sem liðnar eru frá landnámi. Þetta sést best ef við skoðum bókhaldið í smáatriðum. Hvatberalitningurinn, sem erfist bara frá mæðrum, er u.þ.b. 16,570 basar. Y-litningurinn er u.þ.b. 50 milljón basar, en erfðamengi okkar í heild er u.þ.b. 3200 milljón basar.

Að endingu vill ég samt árétta, fyrir mitt leyti a.m.k., að margar írskar konur eru forkunnafallegar og rautt hár íslenskra kvenna mikil prýði. Einnig er ágætt að rifja upp að makaval gengur ekki eingöngu út frá snoppufegurð eða gullnum hlutföllum. Eins valdi stórabóla sér ekki skotmörk með hliðsjón af útliti. Stundum er betra að vera hraustur en sætur.

 

Skýring: Pistlinn þessi er aukinn og bætt útgáfa lesendabréfs sem birtist  í Fréttatímanum 24. febrúar 2012, undir titlinum "Betra að vera hraustur en sætur".

Heimildir

http://genomics.energy.gov/

http://www.ornl.gov/sci/techresources/Human_Genome/posters/chromosome/faqs.shtml


Eðli mannsins

Hvert er eðli mannsins?

Margir hafa velt spurningunni fyrir sér og svörin verið á alla kanta. Tvær öfgafyllstu skoðanirnar eru þær að maðurinn sé óskrifað blað (svokallað tabula rasa) eða að eðli hans sé algerlega ákvarðað af líffræðilegum þáttum (erfðum, breytileika í genum og líffræðileg umhverfi).

Steindór J. Erlingsson fjallar um spurninguna um eðli mannsins í nýlegum pistli (Darwin, Marx og spurningin um mannlegt eðli). Hann segir meðal annars:

 Spurningin um hvort maðurinn fæðist sem óskrifað blað eða hafi eitthvað fast meðfætt eðli var mjög áberandi í pólitískri orðræðu á síðustu öld. Öfgafullar túlkanir á þessum ólíku viðhorfum, sem lituðust t.d. af líffræðilegum hugmyndum og kristinni heimsendatrú, voru hluti af hugmyndafræði frægustu harðstjóra aldarinnar. Hitler framkvæmdi grimmdarverk sín m.a. í nafni bókstaflegrar túlkunar á hugmyndinni um meðfætt eðli, meðan Maó, Stalín, og Pol Pot frömdu glæpi sína m.a. í nafni öfgafulls skilnings á hugmyndinni um að maðurinn fæðist sem óskrifað blað. Hér hyggst ég draga umræðuna um þessa mikilvægu spurningu frá öfgapólunum, sem t.d litaði umræðuna um félagslíffræðina á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Þetta verður annars vegar gert með því að etja saman hugmyndum Charles Darwin, föður þróunarkenningarinnar, og Karls Marx, helsta hugmyndasmið kommúnismans, og hins vegar með því að velta upp spurningunni hvernig hægt sé að skýra hið mikla trúarlega bil sem er á milli Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna.

Hann spinnur einnig inn í umræðuna rannsóknir á kirkjusókn og trúhneigð í mismunandi löndum:

Með þessa vitneskju að vopni könnuðu þeir [Gill og Lundsgaarde] tengslin á milli ríkisrekins velferðarkerfis og trúarþátttöku og trúhneigðar í Filippseyjum, Ástralíu, Bandaríkjunum, 16 Evrópulöndum og 8 Suður-Ameríkulöndum, og komust að því að þau eru tölfræðilega sterk. Þetta felur í sér að lönd með hærri velferðarútgjöld á hvern einstakling hafa tilhneigingu til minni trúarþátttöku og hafa venjulega hærra hlutfall ótrúaðra einstaklinga. Af þessum sökum draga Gill og Lundsgaarde þá ályktun að „fólk sem býr í löndum með mikla velferðareyðslu hefur minni tilhneigingu til þess að leita huggunar í trúarbrögðum, vitandi að ríkið muni hjálpa þeim þegar áfall dynur yfir“.

Ég mæli með að þið lesið grein Steindórs í heild sinni. Og ef þið hafið tíma, bók Michael Shermers Believing brain, sem ég vonast til að geta rætt hér í náinni framtíð.

Ítarefni:

Steindór J. Erlingsson  Darwin, Marx og spurningin um mannlegt eðli Þriðjudagur, 21 Febrúar 201


ORF Líftækni: frá vísindum í vöru

Björn Örvar framkvæmdarstjóri ORF líftækni mun halda erindi föstudaginn 24. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10), á vegum líffræðistofu HÍ. Í fyrirlestrinum verður farið yfir rúmlega 10 ára sögu ORF Líftækni, allt frá því að hugmynd kviknaði um stofnun...

Erindi: Fléttur og óstöðug erfðamengi

Nokkur spennandi erindi á sviði náttúrufræða og erfðafræði eru á döfunni: Stephen Meyn fjallar um óstöðugleika erfðamengis og sjúkdóma því tengdu M iðvikudaginn 22. febrúar klukkan 12-13 . Stephen mun ræða um óstöðugleika erfðamengis og tvo sjúkdóma því...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband