Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bækur

Camus á fáránlegt afmæli í dag

Albert Camus er eitt af stórskáldum franskra og evrópskra bókmennta. Hann var næst yngstur til að fá Nóbelsverðlaun í bókmenntum, og hugmyndir hans um tilgang lífsins í fáránleika veraldarinnar nutu umtalsverðrar hylli.

Vegna þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Camus (7. nóvember 1913) ritar Freyr Eyjólfsson geirfugl og útvarpsmaður pistil um skáldið. Þar segir:

Albert Camus er talinn einn af höfuðsnillingum 20. aldarinnar – sem hann sjálfur kallaði öld óttans - þar sem menn lifðu hundalífi, yfirbugaðir af ótta án allra framtíðarvona. Það var hans hlutverk að hrista af okkur þennan ótta, vekja okkur og finna tilganginn í lífinu.

„Lífið er absúrd“ er lykilsetningin í heimspeki hans. .... Við fæðumst og við deyjum og erum aðeins bundin því að gera rétt og vel í þessu stutta lífi. Lífið er nefnilega ekki tilganglaust; við eigum að skapa okkar eigin örlög og berjast fyrir hinu góða gegn hinu illa. Maðurinn verður að lifa í núinu, vita örlög sín og þekkja takmörkin til að lifa lífi sínu til fulls.

Þannig vill til að ég er einmitt að lesa hálfgerða ævisögu um Camus, og góðvin hans Jacques L. Monod. Bókin kallast Snilldarhetjur (Brave genius) og er eftir þróunarfræðinginn Sean. B. Carroll, sem ritaði m.a. Endless forms most beautiful.

Í bókinni tvinnar Carroll saman ævi þessara félaga, og afrek þeirra í seinna stríði og sínu fagi. Báðir voru virkir í andspyrnuhreyfingunni í hinu hernumda Frakklandi. Camus skrifaði fyrir hið bannaða tímarit Combat, og blés löndum sínum von og baráttuanda í brjóst. Monod, vann að rannsóknum við Sorbonne háskóla að degi til, en skipulagði starf andspyrnuhreyfingarinnar á Parísarsvæðinu á kvöldin. Hann fór ferðir yfir Svissnessku landamærin, hitti fulltrúa CIA (eða forvera þeirrar stofnunar) og skipulagði aðgerðir gegn flutningalestum og vopnabirgðastöðvum. Reyndar er Monod þekktari líffræðingum fyrir  rannsóknir sínar á genastjórn, en fyrir þær fékk hann einmitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði og lífeðlisfræði árið 1965 ásamt félögum sínum François Jacob og Andre Lwoof.

Bókin er ansi skemmtileg aflestrar, þótt stundum sé oft langt á milli hetjanna í bókinni. Carroll rekur í ansi löngu máli söguna af falli Frakklands, andspyrnunni og frelsun Parísar. 

Þeir Camus og Monod kynntust eftir stríð og var mikill kærleikur með þeim. Heimspeki Monods er ansi skyld sýn Camus. Monod setur nefnilega hina nýju líffræði gena og sameinda í heimspekilegt samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn, sem kom út 1970. Þar segir Monod m.a.

Loks veit maðurinn að hann er einn í óravíðum afskiptalausum alheimi þar sem hann kom fram fyrir tilviljun. Hvorki skyldur hans né örlög hafa nokkurstaðar verið skráð. Hans er að velja milli konungsríkisins og myrkranna.

En auðvitað voru mun fleiri sem lásu Camus en Monod. Ritdómar um bók Carroll um þá félaga eru nokkuð jákvæðir, hér að neðan eru tenglar á umfjöllun NY Times og Wall Street Journal.

Book Review: 'Brave Genius' by Sean B. Carroll

The Improbable French Buddies ‘Brave Genius’ Is a Story of Science, Philosophy and Bravery in Wartime

Vel heppnað málþing um Tilviljun og nauðsyn

Vísindavefurinn: Fyrir hvað er Jacques Monod þekktur?


Alvarlegar myndasögur á degi bókarinnar

Bækur eru mér ákaflega kærar, og þeim vil ég hampa frekar en flokki og stjórnmálasannfæringu. Í dag, 23. apríl er dagur bókarinnar, og af því tilefni var Stefán Pálsson í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2. Eða kannski var ástæða sú að nú um helgina átti teiknimyndapersónan Svalur (Spirou) 75 ára afmæli.

Það má alveg bölsóttast yfir því hversvegna í ósköpunum Ríkisútvarpinu datt í hug að tala um teiknimyndasögur á degi bókarinnar. Eru ekki teiknimyndasögur niðursoðnar bókmenntir, án boðskaps, skáldleika og andagiftar? Eru þær ekki hluti af steypiregni glepjandi miðla (með vídjóinu, netinu, tölvuleikjum og göngusnældutækjum (walkman)), sem fylla heila okkar af myndefni og tónum, og kæfa hæfileika okkar til að lesa og skilja flóknar frásagnir, tilfinningar og orsakasamhengi?

Reyndar hef ég ekki svar við þessari spurningu, eða vill ekki vita svarið, því teiknimyndasögur eru mér afskaplega kærar. Ég get alveg kvittað undir barnslegan eða allt að því þráhyggjulegan áhuga á sögunum um Sval og Val, sbr. pistil frá 2011 (Svalur á milli góðra bóka). Sval og Val bækurnar hef ég lesið mörgum sinnum og keypt danskar og evrópskar útgáfur þeirra hefta sem aldrei voru gefin út af Iðunni. Á tímabili dreymdi mig söguþráð Sval bóka, sem aldrei hafa komið út, og voru draumfarirnar svo öflugar að í vitandi vöku var ég óviss um hvort þær væru sannar eður ei.

Í stuttu máli, þá er ég pikkfastur á teiknimyndasögukróknum. Hérlendis eru teiknimyndasögur ekki merkilegt listform, og ekki sæmir kennurum við æðstu menntastofnanir að liggja í slíku skólpi. Samt er ég með hillumetra af þessum bókum á skrifstofunni. Stefán segir að í Belgíu sé ástandið annað, þar séu teiknimyndasögur í hávegum hafðar. Spurning er hvort að það sé vegna þess að þær séu svo útbreiddar, vinsælar, skaffi atvinnu og tekjur eða vegna þess að þær segi fólki eitthvað merkilegt um heiminn? Sem fyrr hef ég engin svör.

Mig grunar reyndar að góðar teiknimyndasögur nýti sér bæði hraða framvindu og hasar, sem gera kvikmyndir (og tölvuleiki, vidjó) svo heillandi og Iconografíu, sem markaðsfræðin hefur þróað. Einföld tákn, eins og gormdýrið eða blaðamaðurinn svalur, kalla fram jákvæð viðbrögð í heila lesenda, svona rétt eins og lógóin fyrir Lego, Armani eða Malt. Heilinn okkar er mjög næmur fyrir myndefni, bæði hreyfingu og skýrum táknum. Heilinn bregst sérstaklega sterkt við afmörkuðum formum - jafnvel formum sem kölluð eru "supernormal". Þekkt er að fuglar draga egg sem lenda utanveltu, inn í hreiðrið sitt (þá eru minni líkur á að þeir tapi eggjum og eignist færri afkvæmi). Tilraunir sýna að þegar fugl getur valið á milli eggs og golfkúlu, velur hann frekar golfkúluna. Þannig að náttúrulega tilhneygingin getur verið fuglinum skaðleg, þegar "supernormal" kostur er á borðum. Eða, kannski nákvæmar, getur leitt til þess að  fuglinn vanræki afkvæmi sitt.

Það er einmitt þess vegna, sem ég góði faðirinn, gaf syni mínum teiknimyndasögurnar...

E.s. Þessi pistill er ekki skrifaður sem fræðipistill, eingöngu sem hugleiðing. Í bókaskápnum bíður bunki af ágætum bókum eftir því að ég riti um þær almennilega bókarýni. Þetta eru t.d.

Tilviljun og nauðsyn eftir J. Monod

Denialsim eftir Michael Specter

The age of american unreason eftir Susan Jacoby

Unscientific america eftir Chris Mooney og  Sheril Kirshenbaum

og auðvitað 

Bad Pharma eftir Ben Goldacre


Dó ... en lifir að eilífu

Í einhverri þjóðsögunni átti sopi úr hinum heilaga kaleika að veita eilíft líf. Óttinn við dauðann er ekki bundinn við mannfólk, flestar lífverur með bærilegt miðtaugakerfi forðast stefnumót við dauðann - þó sannarlega séu til undantekningar (sbr. karlköngulær sem bjóða sig köngulóakerlingum til átu).

Meðalaldur mannfólks hefur verið að lengjast en við getum ekki lifað að eilífu*. En frumur manna geta, fræðilega séð amk, lifað um aldir alda. Frumur líkamans geta fjölgað sér endalaust undir réttum aðstæðu. Þær þurfa góða og næringaríka lausn, enga samkeppni, og helst eiginleika krabbameinsfruma.

Ein mannvera a.m.k. lifir áfram eftir dauða sinn, sem hópur fruma á tilraunastofu.

Fimm barna móðirin Henríetta Lacks

Henrietta Lacks var tóbaksbóndi, móðir fimm barna, og lést úr krabbameini árið 1951. Frumur úr æxli hennar voru ræktaðar á tilraunastofu og ganga undir nafninu HeLa frumur. Þessar frumur urðu ótrúlega mikilvægar og notadrjúgar, því þær gerðu fólki kleift að rannsaka eiginleika mannsins - í tilraunaglasi.

Líffræðingar þekkja þessar frumur, margir hverjir úr sínum eigin rannsóknum eða úr frægum tímamótarannsóknum. Aðrar frumulínur, úr æxlum eða fósturstofnfrumum eru einnig þekktar og mikið notaðar.

Saga hinna ódauðlegu frumna Henriettu er full af lærdómum fyrir hina ungu sameindalíffræði og lífsiðfræði. 

Börnin frétta af framhaldslífi móður sinnar

Frú Lacks átti fimm börn, en þau fréttu ekki af framhaldslífi frumnanna fyrr en 2 áratugum eftir dauða hennar. Í bók Rebeccu Sklott um æfi Henríettu Lacks, frumnanna og fjölskyldu hennar, segir frá því þegar dóttir hennar fær að sjá frumurnar í fyrsta skipti.

Þarna situr miðaldra blökkukona yfir smásjá, horfir á frumurækt á skál, og talar til frumnanna/móður sinnar.

Afkomendur frú Lacks eru stoltir af því að frumurnar séu notaðar til rannsókna, og vilja endilega að þær verði að gagni. En þeir hefðu vitanlega átt að vera spurðir álits í upphafi, hvort í lagi væri að nota frumurnar úr deyjandi móður þeirra.

Spurningar um einkalíf og friðhelgi

HeLa frumurnar vekur margar spurningar um upplýst samþykki og rétt einstaklinga.

Hvaða rétt hafa afkomendur frú Lacks varðandi mögulega takmörkun á notkun á frumunum? Eru þær komnar úr þeirra höndum, eða geta þeir takmarkað notkun á þeim?

Hvað þurfa margir afkomendur að vera mótfalnir notkun á frumnanna til að hætt verði að nota þær?

Er nóg að eitt barnabarn lýsi sig mótfallið, eða gildir einfaldur meirihluti?

Væri vægi atkvæða bundið skyldleika, hafa börn helmingi meira vægi en barnabörn o.s.frv.?

Erfðamengi HeLa frumanna og Henríettu Lacks

Nýjasti vinkillinn á málinu eru tíðindi þess efnis að erfðamengi HeLa frumanna hafi verið raðgreint. Það þýðir að allt erfðamengi þeirra var lesið og hægt er að bera það saman við aðra menn og konur, og sjá hvar í erfðamengi Henríettu Lacks eru ákveðnar stökkbreytingar með tiltekin áhrif. Þessi vísindi eru reyndar ung og mikil óvissa um áhrif flestra stökkbreytinga, en samt er hægt að læra margt. Erfðamengi HeLa fruma myndi örugglega staðfesta afrískan uppruna Henríettu, og mögulega einhverja alvarlega erfðagalla.

En sorglegi vinkillinn er að Steinmetz og félagar við EMBL sem raðgreindu erfðamengi HeLa frumanna, höfðu ekki samband við afkomendur Henríettu Lacks. Sameindalíffræðingar nútímans eru álíka glórulausir og frumulíffræðingar síðustu aldar, sem hugsuðu ekki út í siðfræðilegar hliðar rannsókna sinna.

Góðu fréttirnar eru þær að margir vísindamenn og aðrir létu í sér heyra þegar þessi tíðindi bárust og erfðamengi HeLa frumnanna var fjarlægt úr opnum gagnagrunnum.

Nú þurfum við, sem samfélag vísindamanna og leikmanna að takast á við þessar spurningar um aðgengi að erfðaupplýsingum, friðhelgi þeirra og skyldleika þeirra sem hlut eiga að málum.

Kemur það mér við hvað frændsystkyni mín gera við sínar erfðaupplýsingar?

Eiga börnin mín rétt á því að takmarka aðgengi annara að erfðaupplýsingum mínum, ef ég vill setja þær á netið?

Að síðustu vil ég þakka Jóhannesi fyrir að segja mér frá og lána mér bókina um Henriíettu Lacks.

Ítarefni:

REBECCA SKLOOT The Immortal Life of Henrietta Lacks, the Sequel NY Times March 23, 2013   

Rebecca Skloot The Immortal Life of Henrietta Lacks

Tilkynning frá EMBL. 11. mars 2013. Havoc in biology’s most-used human cell line

* enda spurning hvort að það sé æskilegt ástand.


Röng eða rétt ákvörðun á augnabliki

Maðurinn er stundum kallaður kóróna sköpunarverksins af trúuðu fólki (eða skáldlegu). Á hinn bóginn setja trúleysingjar og efahyggjufólk andlega hæfileika mannsins einnig á stall, sem stundum birtist sem manngyðistrú.

En þessi fullkomnasta lífvera jarðar er hið mesta ólíkindatól. Líffræðingar og læknar kortlagt veikleika og takmarkanir mannfólks. Við höfum ekkert í blettatígur á hlaupum eða ísbjörn á sundi. Við þolum geislun verr en kakkalakkar, hita verr en sumar fornbakteríur og gagnrýni verr en T. rex.

Tilraunir Kahneman og Tverskys

Sálfræðingar hafa undanfarna áratugi rannsakað veikleika mannlegs atferlis. Daniel Kahneman og Amos Tversky könnuðu hvernig fólk tekst á við óvissu, þegar það stendur frammi fyrir tapi eða gróða. Þeir settu upp tvær tilraunir.

Stúdentum voru gefnir tveir kostir, 1) að fá $3,000 eða 2) hafa 80% líkur á að vinna $4,000 (þá voru 20% líkur á að vinna ekkert!). Flestir nemendur tóku örugga kostinn $3,000.

Öðrum hópi stúdenta voru gefnir aðrir kostir, 1) að tapa $3,000 eða 2) að tapa $4,000 með 80% likum (Þannig að það voru 20 prósent líkur á að tapa engu). Í þessu tilfelli voru fleiri sem völdu áhættusamari kostinn.

Með orðum Vikas Bajaj í New York Times "fólk er tilbúið að taka meiri áhættu í þeirri von að varðveita peninga en til að græða". (á frummálinu "In other words, they were willing to take a bigger risk to avoid losing money than they were when they stood to make more money.")

Þarna er afhjúpaður veikleiki mannlegrar "skynsemi". Líkurnar voru jafn miklar í báðum dæmum, en samt var fólk frekar tilbúið að veðja þegar það sá fram á tap. Skynsamlegra væri að veðja þegar þú sérð fram á gróða.

Ef maður myndi spila svona leik í 10 skipti, þá myndi maður græða meira á því að veðja á kostinn með 80% líkur á $4000, en að velja alltaf $3000.

Röng ákvörðun á augnabliki

200px-Thinking,_Fast_and_SlowÁstæðan fyrir þessu er sú að maður tekur ákvarðanir áður en maður hugsar. Það er fjölmörg dæmi sem sýna að skoðun myndast á augnabliki, löngu áður en viðkomandi hefur minnsta tækifæri til að leggjast ítarlega yfir málið og meta það frá öllum hliðum.

Skýrasta dæmið er fyrstu kynni. Útlit, fas og skapgerð ráða ákaflega miklu um það hvort okkur líkar við persónu sem við vorum að hitta eða ekki. Á örfáum sekúndum myndum við okkur skoðun um persónur, áður en við höfum í raun kynnst þeim eða ígrundað kosti þeirra og galla.

Kahneman tíundar fjölmörg dæmi um aðra veikleika í mannlegri hugsun, í bók sem hann kallar Thinking fast and slow (ritdómur í the Guardian).

Rétt ákvörðun á augnabliki 

Aðrir hafa bent á að þessi hæfileiki, að taka ákvörðun á örskotsstundu, getur reynst vel.

images?q=tbn:ANd9GcRQ6syCUo7fjFLzhDilPB33txVj1mxfET1O4kpH1YXordrayizGpgMalcom Gladwell skrifaði leiftrandi skemmtilega bók um þetta, sem kallast Blink - the power of thinking without thinking. Í fyrsta kafla bókarinnar lýsir hann því  þegar forkólfar Getty safnsins í Kaliforníu keyptu gríska styttu. Efnamælingar sýndu að styttan var hjúpuð calcíti, sem var merki um að gripurinn væri mörg hundruð ef ekki þúsundir ára gamall. Safnið borgaði um 10 milljónir dala fyrir styttuna, sem var álitin vera frá sjöttu öld fyrir krist.

Sagan verður fyrst verulega krassandi þegar sérfræðingar í grískum styttum sáu gripinn - og fengu kláða. Það var eitthvað að. Þeirra fyrsta viðbragð var tortryggni, og nákvæmar athuganir staðfestu að styttan var seinni tíma smíð (e.t.v. hreinræktuð fölsun).

Þetta er kjarninn í bók Gladwells, sérfræðingar geta tekið réttar ákvarðanir á örskotsstundu. Jafnvel án þess að vita hvernig þeir komust að réttri niðurstöðunni.*

Bókin er léttilega skrifuð og er byggð að miklu leyti upp á sögum af persónum og viðburðum. Það er ljómandi frásagnarmáti, og mun aðgengilegri en margar alvarlegri vísindabækur.  Á móti kemur að röksemdafærslan er á köflum dálítið losaraleg, og mörgum spennandi spurningum er ósvarað.

Kostir hraðrar hugsunar

Hin hraða og ómeðvitaða hugsun getur bæði haft jákvæðar og slæmar hliðar. Við getum fallið auðveldlega í gildrur, eins og að kjósa pólitíkusa út frá útliti, brosi eða glansandi loforði. Eins getur snör hugsun sérfræðinga bjargað mannslífum eða leyst erfiðustu þrautir.

Ég held að hröð hugsun sé greinilega kostur. Ímyndum okkur mann sem þarf að ígrunda hverja einustu aðgerð sem hann framkvæmir, persónu sem hann hittir eða viðburð sem yfir hann dynur. Slíkur maður myndi sligast af þreytu, heilinn myndi aldrei tjónka við slíkt álag.

En ég vill einnig leggja áherslu á að hæg og vönduð hugsun er burðarás í samfélagi nútímans. Á öld hraða og flæðis upplýsinga þá tel ég mikilvægt að sem flestir þroski hina hægu hugsun, aga, rökvísi og heillindi. Ein leið til þess atarna er að lesa bækur Gladwells eða Kahnemans, í rólegheitum.

--------------------

*Fyndni vinkillinn er vitanlega sá að það halda svo margir að þeir séu sérfræðingar, jafnvel fólk sem er á öndverðum meiði.

Skyldir pistlar.

Trúlega er það trúlegi heilinn umfjöllun um Believing Brain eftir Michael Shermer.

Heili 1 og heili 2

Texti úr eldri pistli um Ótta og græðgi var endurnýttur hér að ofan.


Tilviljun er nauðsyn

Lífverur eru margslungin fyrirbæri. Hver þeirra er með marga eiginleika, t.d. hæð, kynþokka eða mismikla vörn gegn Bacillus bakteríum. Hver þessara eiginleika á sér a.m.k. þrjár megin rætur.

Fyrst ber að nefna erfðir, sem skipta töluverðu máli fyrir marga eiginleika.

Næst er það umhverfi sem einnig ræður miklu fyrir breytileika margra eiginleika.

Síðast er það tilviljunin, sem hefur áhrif á alla eiginleika, en mismikið þó.

Við gleymum oft tilviljuninni, og ofmetum þar með framlag erfða og umhverfis*. En teningakast og handahóf ræður ótrúlega miklu um framvindu mála, örlög einstaklinga og jafnvel þróun tegunda.

09043.jpgSameindaerfðafræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Jacques Monod gerði einmitt að einu meginþema bókar sinnar Tilviljun og nauðsyn (on chance and necessity), sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur í lærdómsritaröðinn nú fyrir jólin. Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus við HÍ þýddi og ritað inngang.

Richard Lewontin hefur lagt mikla áherslu á þessa þrjá þætti erfðir, umhverfi og tilviljun, og fjallar bók hans the Triple helix (þríþáttungurinn) um þessa "heilögu" þrennd. Tilviljunin hefur nefnilega ekki bara áhrif á breytileika í útliti, háttum og hæfni einstaklinga. Tilviljunin er rót þróunarlegra atburða, í gegnum stökkbreytingar á erfðaefninu. Stökkbreytingar eru að mestu** tilviljanakenndar, og flestar þeirra skemma gen. Stór hluti stökkbreytinga hafa engin áhrif en lítið hlutfall bætir jafnvel virkni genanna eða eykur hæfni einstaklingsins. Þessar síðast töldu stökkbreytingar eru hráefni fyrir þróunarlegar framfarir, því nýjir eiginleikar eða betrumbætur á eldri útbúnaði verða til í þessari myllu tilviljanna. Því má segja að tilviljun sé nauðsyn fyrir þróun lífsins.

Ég las aldrei bók Monod á erlendu máli, en er núna kominn á síðu 50 í þýðingu Guðmundar. Það kemur ekki á óvart að lesningin er mjög skýr og þýðingin afbragð. Mér skilst á innganginum að Monod muni þræða heimspekilegar vangaveltur inn í umræðuna um eiginleika erfðaefnis, eftirmyndunar og mikilvægi tilviljanna. Þegar lestri er lokið mun ég birta ítarlegri ritdóm hér, og e.t.v. á öðrum vettvangi.

Að síðustu vill ég endurbirta á lýsingu á bókinni Tilviljun og nauðsyn af vef HIB (mynd af kápu bókarinn er einnig þaðan komin):

Lífið á jörðinni einkennist í senn af fjölbreytni og einsleitni. Innan hverrar tegundar lífvera eru einstaklingarnir svo líkir að furðu sætir, en tegundirnar sjálfar eru nær óendanlega margvíslegar. Hvernig kemur þetta heim og saman við hugmyndir nútímavísinda um orsakakeðjur, afritun hins lífræna efnis og stökkbreytingar? Í Tilviljun og nauðsyn glímir franski líffræðingurinn Jacques Monod við álitamál af þessum toga af fágætri vandvirkni og skirrist ekki við að glíma við hinstu rök í leiðinni, hvort heldur verufræðileg,siðferðileg eða pólitísk. Þannig eykur bókin ekki einungis skilning á undirstöðum líffræðinnar heldur vekur lesandann til umhugsunar um tengsl vísinda við sjálfa grunnþætti veruleikans.

Ítarefni:

Ritdómur um Chance and necessity eftir Danny Yee (1994).

Um Jacques Monod á vef Nóbelsnefndarinnar (1965).

Samantekt Complete-review á ritdómum um Triple helix eftir R. Lewontin.

* Flóknari líkön um eiginleika lífvera gera einnig ráð fyrir samspili erfða og umhverfis, einstakra gena og einstakra umhverfisþátt og jafnvel samspili tilviljunar, erfða og umhverfis. Það þýðir vitanlega að við getum bara greint sterka drætti, en ekki skilið veikari áhrif og samspil, hvað þá sagt fyrir um eiginleika eða örlög einstaklinga.

** Þekkt frávik eru munur á tíðni jafnra og ójafnra basaskipta T-C á  móti T-A t.d. og aukin tíðni stökkbreytinga á umrituðum svæðum.


Bók um almenna fávisku

Frekar fáir fjölmiðlamenn fatta að þekking og staðreyndir eru skemmtilegar. Þeir halda flestir að fólk vilji bara fá spennu, dramatík og brandara í sjónvarpið sitt (tölvuna eða snjallsímann). En sagan (sjónvarpssagan amk) sýnir að fólk þrífst einnig á góðu fræðsluefni. Það kitlar forvitni, skemmtir og kveikir tilfinningar engu síður en sögur um danska kúkalabba eða lögulegum læknanemum.

Hérlendis er reyndar gaman að því hversu vinsælir heimildaþættir RÚV á mánudögum eru vel liðnir (hin undursamlegu köldu heimskaut er nýjasta dæmið). Einnig sýna vinsældir spurningaþáttanna Gettu betur, Útsvars og Spurningabombunar að íslendingar hafa gaman að staðreyndum, eða allavega því þegar fólk reynir með sér í þekkingu.

Spurningaþættir eru reyndar merkilegir að því leyti að stundum er spurt um fáránlegar staðreyndir. Og þeir sem kunna margar staðreyndir eru ekki endilega skynsamir eða með góða þekkingu.

b006ml0gUppáhaldspurningaþátturinn minn QI er sýndur á BBC. Stephen Fry er stjórnandi, en höfundar efnis eru fjölmargir (m.a. John Lloyd og John Mitchinson). Þemað í þættinum eru staðreyndir, en keppendur fá einnig stig fyrir fyndin eða forvitnileg svör. Keppendur eru flestir grínistar og listamenn, kvikir í huga og snjallir í andsvörum. Alan Davies hefur verið gestur í öllum þáttunum sem ég hef séð, og er hrókur alls fagnaðar (vinstra megin á myndinni, SF er hægra megin, mynd af vef BBC).

Aðal brellan í þættinum er sú að þeir sem giska á augljóst (en vitlaust) svar fá mínus stig.

Spurningarnar fjalla nefnilega ekki endilega um staðreyndir sem fáir vita, heldur um eitthvað sem við höldum að sé staðreynd - en er rangt! Þannig afhjúpast almenn fáviska (general ignorance). Þetta er reyndar kjarninn í vísindalegum vinnubrögðum, að afsanna tilgátur (eða almenna fávisku). 

Charles Darwin orðaði þetta ágætlega:

Þátturinn er nú á tíunda ári, og hefur spannað viðfangsefni frá A til H (þeir eru búnir með Ísland). Jónarnir tveir (Lloyd og Mitchinson) unnu upp úr spurningum þáttarins samantekt um atriði sem við héldum að við vissum en reyndust röng. Saman mynda þau bók um almenna fávisku (Book of general ignorance). Dæmi:

Úr hverju er kaffi búið til? (Ekki baunum heldur fræjum)

Hvað eru mörg boðorð í biblíunni?  (Ekki 10, heldur allt að 613)

Hversu margar gerðir af skynjunum (lykt, bragð...) eru menn með? (ekki 5, heldur amk 9...sumir segja 21!)

Hverjir gleyma á 3. sekúndum? (ekki gullfiskar, þeir eru þrælgreindir og hafa meira að segja lært á matarskammtara)

Hver er þurrasti staður á jörðinni? (Ekki Sahara, heldur Þurrudalir (Dry valleys) á Suðurskautslandinu).

185px-qi-book.jpgJónarnir tveir eru titlaðir fyrir verkinu, en það er bersýnilega afurð breiðari hóps því dæmin spanna sögu, landafræði, jarðfræði, líffræði og læknisfræði.  Það er slatti af sérenskum atriðum, byggð á sögu eða tungumáli, sem auðvelt er að fletta yfir ef áhuginn dofnar. Önnur viðfangsefni eru ekki nægilega vandlega unnin, sumar fullyrðingar þeirra eru hreinlega rangar (sem er sérstaklega vandræðalegt fyrir þátt sem gerir sig út fyrir að afhjúpa fávisku). Nærtækt dæmi er umfjöllun um banana-framleiðslu-lýðveldið Ísland.

En bókin er afbragð aflestrar, læsileg og upplýsandi. Þótt að einhverjar staðreyndir misfarist þá virkar hún jafnvel sem uppspretta spurninga og boðberi sannleikans. Mikilvægasta atriðið er að gera okkur meðvituð um að þekking okkar á veröldinni er ófullkomin. Það er nefnilega hættulegra að vera viss um eitthvað rangt, en að vera óviss.


Musicophilia

Menn eru tónelskustu verur jarðar. Tónlist er svo samofin manninum að erfitt er að ímynda sér líf án hennar. Hvernig væri heill dagur eða ár án tónlistar? Sannarlega er fólk misjafnlega upphrifið af tónlist og hæfileikar eru mismiklir. Margir byrja að spila á flautu rétt eftir fæðingu, fá klassíkina í æð á unga aldri og upplifa dásamlega tónlist alla ævi. Afi minn organistinn og kórstjórinn stóð fyrir samsöng á öllum mannamótum. Ég var á táningsaldri þegar áhuginn á tónlist kviknaði, pabbi gaf mér segulbandstæki sem ég notaði til að taka upp slagara úr útvarpinu (af vinsældarlista rásar 2, þætti Snorra Más Skúlasonar og Skúla Helgasonar o.fl. góðum). Skriðan var komin af stað og ég eyddi ómældu fé í smáskífur, 12-tommur, breiðskífur og geisladiska í Gramminu, Plötubúðinni, Steinar músik og myndir, Hljómalind, Japis og Skífunni.

En hvað kveikir þennan mikla tónlistaráhuga mannfólks? Þegar litið er yfir dýraríkið finnast sannarlega tónvísar skepnur en engin tegund tekur músik jafn alvarlega og við. Geðlæknirinn og taugalíffræðingurinn Oliver Sacks fjallar um þessa tónást í bók sinni Musicophilia: Tales of Music and the Brain frá árinu 2007 (mynd er af kápu bókarinnar). musicophilia-tales-of-music-and-the-brain.jpgHann ræðir mikilvægi tónlistar fyrir mannfólk og kannar einnig furðuleg tilfelli (ekki bara sjúkdómstilfelli) tengd tónlist. Þótt Dr. Sacks fjalli iðullega um einstök eða einangruð tilfelli (case studies) eru skrif alltaf mjög manneskjuleg. Við fáum að kynnast einstaklingum og því hvernig tónlistarleg einkenni eða sjúkdómar hafa áhrif á líf þeirra og færni.

Fyrsti kaflinn í Musicophilia fjallar um mann sem varð fyrir eldingu og þegar hann raknaði viðs sér hafði hann allt í einu gríðarlegan áhuga á tónlist. Hann fór að hlusta á klassíska tónlist af afergju og lærði á píanó. Það er líkast því að rafstuð eldingarinnar hafi tengt duldar stöðvar heilans við meðvitundina. Í kjölfarið fékk eldinga-þeginn glænýtt áhugamál.

Síðasti hippinn

Önnur saga fjallar um ungann mann á hippatímanum (The last hippie - fjallar um Greg F og birtist fyrst í Anthroplogist on Mars). Greg leitaði að svarinu við lífsgátunni og gekk í Hare-Krishna hóp í New Orleans. Þar varð hann fljótlega fyrirmynd annara iðkenda vegna þess að hann náði meiri yfirvegun og alsælu í íhugun sinni og almennu atferli en aðrir iðkendur, hann var það sem kallst má transcendental. Ástæðan fyrir þessari guðlegu alsælu var mjög raunveruleg, hann var með hnefastórt æxli í heilanum. Þegar foreldrar hans fundu hann hafði hann ekki hugmynd um hver þau væru, og mundi ekkert hvað hafði gerst daginn áður. Æxlið var fjarlægt en minnisleysið varði. Hins vegar mundi Greg eftir tónlist hippatímans, sérstaklega lög Grateful dead sem var uppáhaldsband hans. Það er sem tónlistarminni sé ótengt venjulegu minni. Annað áþekkt dæmi um slíkt er minnislaus hljóðfæraleikari, sem gat jafnvel lært og spilað heil verk á opinberum tónleikum, þótt hann gæti ekki munað eftir fjölskyldumeðlimum eða samstarfsmönnum. Þess má geta að saga Greg F var innblástur kvikmyndarinnar The music never stops, sem er í annað skipti sem frásagnir Olivers Sacks eru kveikjan að kvikmynd. Í hinu tilvikunu var það sagan Awakenings sem fjallaði um drómasjúklinga er vöknuðu til vitundar eftir L-dopa gjöf.

Tónlistarminni og gáfa eru sem sagt aðgreinanleg innan heilans, og tengjast aðeins að hluta hefðbundu minni og greind. Oliver rekur fleiri stórmerkileg dæmi um tónlistargáfur, tónlistaráhuga, tón-ofskynjanir og tónvillur. Sumir eru algerlega tónlausir (amusia) en aðrir hafa engan áhuga á tónlist, þótt tóneyra þeirra sé óbrigðult.

Sérkennilegast fannst mér að fræðast um tón-ofskynjanir. Einstaklingar upplifa þá oft einfalt suð eða són, sem síðan ágerist. Í ýktustu tilfellunum upplifir fólk stanslausa tónlist á háum styrk, t.d. germanska marsa eða franskar ættjarðarvísur. Oftast er tónlistin fólkinu kunnugleg, vögguvísur úr æsku, slagarar frá dansiballatímanum eða tónverk sem viðkomandi spilaði oft. Svakalegasta útgáfan er samt þegar stuttir lagabútar eða laglínur endurtaka sig ítrekað, jafnvel stanslaust hökt á milli tveggja nótna. Það hlýtur að vera andskoti við að búa.

Bláa verkið í D-dúr

letternumbercolor.gifSamruni skilningsvita einkennir fólk með synesthesia. Einn félagi okkar í Ameríku sá bókstafi í litum, R var brúnt, en F rautt og svo framvegis. Síðan fór það eftir fjölda og stöðu bókstafa hvort að nöfn fólks væru brún, græn eða himinblá (myndin sýnir mismun í litagerðum eftir einstaklingum, af vefnum www.musanim.com). Í bók Sacks er kynntur tónlistarmaður sem upplifði tónlist í litum. Verk í D-dúr var blátt fyrir honum, og það var algerlega eðlilegt. Einstaklingar með synesthesia upplifir sig ekki sem afbrigðilega, enda er þetta frekar einkenni en heilkenni. Birtingarformið er hins vegar mismunandi, verk sem er blátt fyrir einum er mosagrænt fyrir öðrum. Engir tveir einstaklingar eru með sama litróf fyrir tónstigann.

Oliver Sacks rekur þessi dæmi og fjölda annara af stakri prýði og sýnir okkur hversu djúpstæð tónlist er í vitund okkar. Hún kallar fram minningar í langt gengnum Alzheimer sjúklingum, þeir rísa við dogg og taka sporið. Tónlist vekur samkennd og mjög sterkar tilfinningar. Í bókinni er aðallega minnst á klassíska tónlist, sem og þjóð og sönglög frá eldri tímum. Ef til vill er þetta þversneið af sjúklingum þeim sem Sacks hefur sinnt, fáir pönkarar eru innritaðir á spítala (eða hafa efni á meðferð). Tónverkin og flytjendurnir skipta samt tæplega öllu máli. Eldmóður persóna Nick Hornby í High fidelity skilar sér ágætlega þótt maður haldi ekki upp á alla flytjendurna sem þar eru tilgreindir (reyndar eldist sá partur bókar Hornby illa, það sem var svöl pop-kúltúr tilvísun árið 1991 er fjarska hjákátlegt 15 árum síðar).

Uppruni tónlistar 

Fyrr á öldum var tónlist að öllum líkindum útbreidd, sönglög og vísur hafa örugglega ferðast manna á millum. Síglaðir söngvarar fóru á milli byggða og skemmtu fólki, kenndu heimamönnum ný lög og vísur. Tónlist er mikilvægur þáttur í allskonar helgiathöfnum og trúariðkunum, hún nýtist til að vekja sterk hughrif og hamra á boðskap sem koma á til skila (Jesú bróðir besti og Allah Akbar). Samt tel ég ólíklegt að tónást (musicophilia) sé aukaafurð trúarbragða, líklegra er að klerkar skipulagðra trúarbragða hafi séð hér leik á bórði til að sveipa helgiathafnir og þjóðsögurnar sínar fallegri blæ (svona rétt eins og Jesúrokk nútímans!).

En hver er uppruni tónlistar? Simpansar eru arfaslakir söngvarar, skrækja í besta falli og halda engum tón. Einhvern tímann í þróunartré manntegundar varð sönghæfileikinn til. Einn möguleiki er að söngur fylgi í kjölfar þróunarlegra breytinga á röddum og tilurð talmáls? Annar kostur er sá að fyrstu tjáskiptin hafi verið söngur, og að talmál hafi fylgt í kjölfarið? Mér þykir fyrri kosturinn líklegri, því tóngáfu er misdreift á fólk, en lang-lang flestir geta lært að tala. En eftir að tóneyra og sæmilegustu raddbönd komu til skjalanna er líklegt að söngur hafi orðið hluti af mannanna veröld. Spurningin er bara, hvenær þetta gerðist. Var þetta að gerast um það leyti og forfeður okkar yfirgáfu Afríku, eða áður en við skildumst frá Neanderdalsmönnum? Eða er söngur kannski ennþá eldri, gekk Lucy, hin frægasta drótt manntegundarinnar Australopithecus afarensis, kannski um steppur Afríku og söng Waka Waka...

Sjá einnig.

S Mithen The Singing Neanderthals: The Origins of Music, Language, and Body  2008

Samtal vort og Guðmundar Pálssonar í morgunútvarpi rásar 2. Hljóðrituninni lýkur aðeins of snemma, en þið misstuð ekki af miklu.

Leiðrétting.

Í fyrstu útgáfu pistils var talað um tónverk í D-major, sem er helber enska. Sem betur fer leiðrétti Sigurður Þór Guðjónsson mig. Honum á ég bestu þakkir skyldar. D-major er D-dúr og F-minor er F-moll.


Íslensku vísindabækur ársins

Fjórar íslenskar vísinda og fræðibækur hljóta mín einlægustu meðmæli. Tvær þeirra eru þýðingar (Fiskurinn í okkur og Skipulag alheimsins) en tvær samþætta vísindi og samfélag (Sæborgir og Þingvellir).

fiskurinn_i_okkurYour inner fish eftir Neil Shubin var þýdd af Guðmundi Guðmundssyni og gefin út af Ormstungu á haustmánuðum undir titlinum Fiskurinn í okkur. Um er að ræða snilldartexta frá höfundarins hendi. Neil samþættir steingervingafræði, þekkingu okkar á líffærum og genum til að afhjúpa hina sameiginlegu þætti spendýra, hryggdýra og fjölfruma dýra.

Úr tilkynningu Ormstungu.

Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?

Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.

Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.

Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, „týndi hlekkurinn“ milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.

Shubin leggur áherslu á að við berum með okkur arfleið forföður sem bjó í hafinu. Á sama hátt má segja að við berum með okkur arfleið sameiginlegs forföður okkar og ávaxtafluga, okkar og amöbu og okkar og gersvepps. (úr Darwin var fiskur)

Þetta þýðir einnig að kengúrur bera einnig í sér arfleifð forföðurs sem bjó í hafinu, og ávaxtaflugur þætti sem sameiginlegur forfaðir okkar og þeirra bjó yfir fyrir 500-450 milljón árum síðan.

droppedImageSkipulag alheimsins er eftir hinn heimskunna Stephen_Hawking sem nýtur aðstoðar galdramannsins(pennans) Leonards Mlodinow . Þýðingu önnuðust Baldur Arnarsson og Einar H. Guðmundsson, og fá má bókina á tilboði á aðeins 3.990 kr.  Við fjölluðum stuttlega um bókina áður (SKIPULAG ALHEIMSINS á íslensku) en birtum hér aðeins ágrip af vefsíðu íslensku þýðingarinnar:

Hér kynna Stephen Hawking og Leonard Mlodinow nýjustu hugmyndir vísindamanna um ráðgátur alheimsins. Þeir setja fram þá tilgátu að ekki sé til nein ein útgáfa af raunveruleikanum. Einnig útskýra þeir fjölheimstilgátuna sem gerir ráð fyrir mörgum alheimum og kynna til sögunnar þá tilgátu að alheimurinn eigi sér ekki aðeins eina tilvist eða sögu. Loks fjalla þeir um M-kenninguna, útskýringuna á lögmálum sem stjórna okkur og alheiminum. Hún er sennilega besta heildstæða „kenningin um allt“ sem völ er á. Ef hægt er að staðfesta kenninguna, segja þeir, verður hún sameinaða kenningin sem Einstein leitaði að og hinn endanlegi sigur mannlegrar rökhugsunar. 

Sjá einnig Bókin sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út! á stjörnufræðivefnum og umfjöllun Gunnars Th. Gunnarssonar um Skipulag alheimsins.

thingvellirÞingvellir, þjóðgarðar og heimsminjar Sigrúnar Helgadóttur samþættir vísindi, sögu og samfélag. Sigrún hlaut fræðibókaverðlaun hagþenkis fyrir bók sína um Jökulsárgljúfur og þessi bók er engu síðri.  Mann skyldi ætla að nóg hafi verið skrifað um Þingvelli, og að erfitt sé að toppa meistaraverk Péturs Jónassonar og Páls Hersteinssonar heitins Þingvellir- undraheimur í mótun. Sigrún tekur vel á viðfangsefninu, og hefur bersýnilega varið mörgum dögum við rannsóknir á rituðum heimildum og ekki síður að kanna landið með eigin fótum. Þingvellir eru náttúrulega einstakt jarðfræðifyrirbæri, en skarta einnig sérstæðu lífríki. Saga staðarins er samofin sögu þjóðarinnar. Þótt við lifum ekki lengur eins og Hraunfólkið, þá tel ég ákaflega hollt fyrir íslendinga að muna, bæði uppruna lýðræðisins og þá samvinnu og vinnusemi sem hélt lífi í forfeðrum okkar.

Sæborgir Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings kom út um miðbik ársins hjá Háskólaútgáfunni. Um er að ræða ágætlega skrifaða samantekt á snertiflötum tækni, líffræði, læknisfræði og verkfræði. Titill bókarinnar er Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika og spannar vítt svið. Saeborgin-netSem bókmenntafræðingur nálgast Úlfhildur viðfangsefnið mikið til frá sjónarhorni ritaðs skáldskaps, en er einnig rösk að tína þemu og hugmyndir úr tónlist og myndlist. Veikleikar bókarinnar eru kannski helst í umfjöllun um líftækni, þar sem hún hefur ekki alveg burði til að greina mun á raunverulegum minna verulegum möguleikum á inngripum og tæknivæðingu læknavísinda. Það verður þó að viðurkennast að markmið hennar er líklega víðtækara en að kanna í þaula hagnýtt sambland tækni og lífvera. Hún segir allavega í viðtali við RVE í Fréttablaðinu (Líftækni í ljósi skáldskapar 13. ágúst 2011)

Allt miðar þetta að því að skoða hvaða áhrif tækni hefur á samfélagið okkar og einstaklinginn sjálfan eða hugmyndir okkar um mennsku," bendir Úlfhildur á og bætir við að hugmyndirnar séu setta fram til að dýpka skilning íslenskra lesenda á þessum flóknu fyrirbrigðum, líftækni og sæborgum.  Blaðamaður biður hana vinsamlegast um að útskýra nánar hugtakið sæborg áður lengra er haldið. "Sæborg er nærtækt dæmi um líftækni úr skáldskap og vísar til lífveru sem er að einhverju leyti vélræn eða vélar sem er að einhverju leyti lífræn," segir hún og tekur ófreskju Frankensteins og tortímandann úr samnefndum kvikmyndum sem dæmi um slíkar verur. "Ef við heimfærum þá skilgreiningu yfir á veruleikann mætti segja að við séum flest að einhverju leyti sæborgir í samfélögum nútímans sem reiða sig á alls konar tól og tækni. Svona rétt eins og þú ert að pikka þetta samtal inn á tölvu sem er þá orðin framlenging af þér," segir hún glettin. "Þess vegna fannst mér sæborgin ágætt viðmið því við getum sett okkur í hennar spor."

Hvernig þessi nálgun á síðan eftir að hugnast vísindamönnum segir Úlfhildur svo annað mál. "Ég veit að þeir sem starfa á þessu sviði eru lítt gefnir fyrir að skella þessu öllu saman í einn hrærigraut eins og gert er í bókinni. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt til að setja hlutina í stærra samhengi," segir hún og kveðst vona að bókin veki umtal. "Eiginlega stóla ég á að hún valdi deilum," segir hún og brosir.

Ég get eindregið mælt með hugvekju Úlfhildar og bendi á að hún mun fjalla um efni bókarinnar á morgun (16. des 2011), á fræðslufundi Vísindafélags Íslands. Erindið kallast Frankenstein og félagar: líftækni í ljósi skáldskapar (Kaffi Sólon, Bankastræti 7a efri hæð, kl. 15:00).


SKIPULAG ALHEIMSINS á íslensku

Fyrir rúmum 20 árum las ég uppruna tímans, bók Stephen Hawking um alheiminn og tímann. Það var meiriháttar upplifun, því hann ritar um flóknar og forvitnlegar spurningar á einstaklega skýran hátt.

Hawking hefur skrifað nokkrar fleiri bækur, bæði sjálfur og með Leonard Mlodinow. Síðasta bók þeirra félaga heitir einmitt skipulag alheimsins (the grand design), sem er nú komin út á íslensku. Af vefsíðu íslensku þýðingarinnar:

Hér kynna Stephen Hawking og Leonard Mlodinow nýjustu hugmyndir vísindamanna um ráðgátur alheimsins. Þeir setja fram þá tilgátu að ekki sé til nein ein útgáfa af raunveruleikanum. Einnig útskýra þeir fjölheimstilgátuna sem gerir ráð fyrir mörgum alheimum og kynna til sögunnar þá tilgátu að alheimurinn eigi sér ekki aðeins eina tilvist eða sögu. Loks fjalla þeir um M-kenninguna, útskýringuna á lögmálum sem stjórna okkur og alheiminum. Hún er sennilega besta heildstæða „kenningin um allt“ sem völ er á. Ef hægt er að staðfesta kenninguna, segja þeir, verður hún sameinaða kenningin sem Einstein leitaði að og hinn endanlegi sigur mannlegrar rökhugsunar.

Mér er reyndar minnistætt að þegar bókin kom út var Stephen með yfirlýsingu um að hann teldi ekki hefði þurft guðlegt inngripi til að koma veröldinni  á koppinn.

Because there is a law such as gravity, the Universe can and will create itself from nothing. Spontaneous creation is the reason there is something rather than nothing, why the Universe exists, why we exist...

It is not necessary to invoke God to light the blue touch paper and set the Universe going.

Þá sagði ég í pistli (Var hann lengi að fatta?)

Uppruni heimsins er torrannsakanlegur, en við þurfum samt ekki að kasta frá okkur hinni vísindalegu aðferð og sættast allt í einu á yfirnáttúrulega skýringu. Er þessi yfirlýsing ekki bara auglýsingabrella fyrir nýju bókina?

Það er hæpið að svona upphrópanir þurfi til að selja bókina hérlendis, íslenskir bókkaupendur eltast meira við gæði en spennandi slúðursögur og dramatískar yfirlýsingar (eða grafískar lýsingar).

Svona í framhjáhlaupi vill ég benda á að meðhöfundur Hawkins, Leonard Mlodinow hefur verið ötull á ritvellinu. Hann skrifaði m.a. bókina Ramb rónans, hvernig tilviljun ræður lífi okkar (Drunkard ́s Walk: How Randomness Rules Our Lives). Um er að ræða snilldarlega úttekt á mikilvægi tilviljunar, og því hvernig skarpskyggnin blekkir okkur, hvernig við sjáum mynstur úr þoku og oftúlkum minnstu breytingar.

Hann kafar einnig ofan í líkindafræðina og sýnir okkur hvernig reglur hennar ganga gegn "heilbrigðri skynsemi". Þannig að jafnvel reyndustu fræðimenn ramba á rangt svar - og dómarar einnig. Mlodinov m.a. fjallaði um OJ Simpson dóminn. Úr dómi NY Times um Drunkards walk.

When statistics are used in a court of law the effect can be just as misleading. Mlodinow recalls the O. J. Simpson trial, in which the prosecution depicted the defendant as an inveterate wife abuser. One of Simpson’s lawyers, Alan Dershowitz, countered with statistics: in the United States, four million women are battered every year by their male partners, yet only one in 2,500 is ultimately murdered by her partner.

The jury may have found that persuasive, but it’s a spurious argument. Nicole Brown Simpson was already dead. The relevant question was what percentage of all battered women who are murdered are killed by their abusers. The answer, Mlodinow notes, didn’t come up in the trial. It was 90 percent.


mbl.is Viltu spyrja Hawking spjörunum úr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svalur á milli góðra bóka

Í sumarleyfinu datt ég niður á Sval og Val á dönsku. Ég hafði svo gott sem lokið við Musicophiliu Olivers Sacks, snilldarlega framreiddar frásagnir af undarlegustu tónlistar-sjúkdómsfellum sögunar, og var að byrja á Zen og listin að gera við mótorhjól eftir Robert M. Pirsig, eina mest tilvitnuðu bók seinni ára. Fyrstu síðurnar benda til að mótorhjólazenið muni taka á mínar taugar og lesþol, en meira um það síðar og vonandi Musciophiliuna sem fær mín bestu meðmæli.

Langhundsviðvörun. Pistillinn var nokkra stund í fæðingu og varð fyrir vikið lengri en efni stóðu til. Lesendur eru beðnir velvirðingar, þeir sem ekki geta lengur lesið nema 4-6 setningar á hverri vefsíðu er bent á að slökkva á netinu og spreyta sig á bók, jafnvel einhverju jafn einföldu og teiknimyndasögu (til að þjálfa einbeitinguna).

Frá því að bókaforlagið Iðunn hætti að gefa út Sval og Val, einhverntímann á síðustu öld, hafa komið út þó nokkrar sögur um þá félaga erlendis. Skemmst er frá að segja að eftir að hafa vafrað inn í Vindla Faraós (á Skindegade í miðborg Kaupmannahafnar) og út aftur með búnka af ferskum Sval og Val teiknimyndasögum kvaddi ég bæði tíma og rúm. Þær sögur sem danskar krónur barna minna lentu í voru Kuldakastið, París sekkur, maðurinn sem vildi ekki deyja, Svalur og Valur í Tókýó, Uppruni Z, Árás Zorkónanna, Örvænting á Atlantshafi og safnhefti með þremur bókum eftir Franquin (3-4 Sval og Val bækur eru nú endurútgefnar saman í nokkrum heftum í danmörku, hvert verðlagt á 129 danskar í Vindlum Faraós - skora á alla að nýta sér tilboðið).

splint_panikpaaatlanterhavet.jpgNú verður að viðurkennast að yðar auðmjúkur hefur alltaf haft, allt að því sjúklega fíkn í. teiknimyndasögur, sérstaklega Ástrík fyrir dauða Goscinny og Sval og Val. Þegar Andre Franquin hafði fullskapað Sval og félagar (gorminn þarmeð talinn) var loksins hægt að skilgreina snilld. Sköpunin tók sinn tíma þó, og heilmikill byrjendabragur er á eldri bókum Franquins. Sval og Val fanatíkerar voru fæstir ánægðir með Fournier, vegna yfirnáttúrunnar og geimveranna kannski, en tóku gleði sína á ný þegar Tome og Janry tóku við pennum og söguþráðum (Aðrir hafa gert sögu Svals og Vals betri skil, sbr. pistil eftir Stefán Einarsson, vandaða wikipedia síðu) og blogfærslu um Sval bækur.

Kveikjan að enduruppgötvuðum áhuga mínum á Sval og Val er að íslenska teiknimyndablaðið Neoblek prentar nú hluta af nýrri Sval og Val sögu, "leðurblökuaðgerðin" í þýðingu Stefáns Einarssonar. Hann segir:

Þessi sérútgáfuflokkur bar nafnið "Une aventure de Spirou et Fantasio par..." (ísl. Ævintýri Svals og Vals eftir...) en hefur verið breytt í "Le Spirou de..." (ísl. Saga Svals eftir...). Í þessum flokki hafa mismunandi höfundar fengið að spreyta sig. Auk sögu þeirra Vehlmann og Yoann hafa komið sögurnar Les marais du temps (ísl. ) eftir Frank LeGall, Le tombeau des Champignac(ísl. Grafir Sveppaborgar) eftir Yann og Fabrice Tarrin, Journal d'un ingénu(ísl. Dagbók ungstyrnis) eftir Emily Bravo og hlaut sú saga verðlaun á Angoulême myndasögu hátíðinni og fær einnig mín bestu meðmæli. Le groom vert-de-gris(ísl. Leðurblökuaðgerðin) eftir Yann og Schwartz en myndasagan er byggð á handriti eftir Yann sem hann skrifaði fyrir Chaland en ritstjórnin hafnaði því. Yann valdi Schwartz til að teikna þar sem að stíll hans er líkur stíl Chalands. En þessi myndasaga er birt í íslenskri þýðingu í blaðinu NeoBlek

Sumarleyfissyndin mín voru semsagt Sval og Val bækur eftir nokkra höfunda, flestar eftir Moravan og Munero, sem voru bæði hressandi og hryllilegar í senn. Kannski er þetta áþekkt því að hlusta á nýjustu plötu Bob Dylan eða endurflutning einhverra glanseygðra ungliða á gullaldargersemum the Waterboys? Það örlar á kunnuglegum stefum, mörg hver skemmtileg eða spennandi, en síðan fer allt í allsherjarrugl.

Veröld Svals og Vals er náttúrulega fáranlegur karlaheimur, örfáar kvenpersónur finnast í bókunum. Tome and Janry léku sér með kvenleg element, gerðu Val þunglyndan af ást, sendu Sval og Val á diskótek með glanspíum, en sögurnar fullornuðust samt ekki. Það er sanngjörn spurning hvort maður vilji að Svalur giftist, eignist börn og eldist? Fyrir einhverjum árum las ég bókina Tintin in the New World: A Romance eftir Frederic Tuten. Þar segir frá því þegar hinn eitilharði fulltrúi réttvísinnar, fer að þreytast á flandrinu, tekur upp drykkjusiði Kolbeins og leggur lag sitt við hitt kynið (sem sjaldnast deildi ramma með hinum toppótta í bókum Herges). Það er í sjálfu sér forvitnileg upplifun að fara í ferðalag með persónu úr svona velskildreindri veröld, eins og Tinnabókunum, inn í heim hinna fullorðnu.

Í nýju Sval og Val bókum er engin Gormur, sbr. sérstakt klúður í "teiknimyndasögunni". Með orðum Eyrúnar Hjörleifsdóttur úr ágætum ritdómi um Sval og Val í Tókíó.

Franquin og Dupuis skildu að skiptum og upp frá því var forlaginu bannað með lögum að nota gorminn í Svals og Vals sögunum. Þess í stað var hleypt af stokkunum gúrkulega leiðinlegri seríu um líf Gorms í frumskóginum. Þær bækur eru skelfileg og samhengislaus leiðindi – Gormur veiðir fisk, Gormur passar börnin sín, Gormur lemur erkióvin sinn blettatígurinn svo hann fær stóra kúlu á hausinn. Ég hugsa til þess með djúpri sorg og reiði að Svalur og Valur hafi verið rændir gorminum og nafn hans svívirt á þennan hátt. 

Ég held að allir lesendur Sval og Val bókanna hafi heillast af gorminum, fjaðurmagnaðri og uppátækjasamri skepnu, sem lumbraði á óþokkum og gleypti allt (ætt sem óætt). Sem praktíserandi líffræðingi er manni skylt að ofbjóða, það er ekki möguleiki að venjuleg hryggdýra bein eða vöðvar gætu afrekað þessi ósköp, né að mallakútur gormsins gæti rúmað 100 piranafiska eða tonn af iðandi rauðum maurum. En gormurinn er eins og DNA, ófullkominn en samt stórkostlegur.

E.s. Mig langaði afskaplega mikið til að flétta goðið og dvergasmíðina Viggó Viðutan inn í pistillinn en gat það ekki með góðu móti. Kannski er það viðeigandi að Viðutaninn sé utan við.

Beðist er velvirðingar á mistökum, fyrst lenti færslan í Vísindi og tækni en á sannarlega ekki heima þar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband